Margir hafa komið upp í kirkjuturna. Í sumum þeirra er þar allt snyrtilegt og gólfið slétt og hreint. Í öðrum getur verið eitt og annað að finna eins og málningarfötur og oft býsna gamlar. Reiðtygi og graftartól. Gamalt jólaskraut, stundum brotnir krossar úr kirkjugarðinum. Eða brotin kirkjuklukka. Þannig mætti lengi telja.

Kirkjuturnar eru til ýmissa annarra nota en að geyma steyptar klukkur á ramböldum.

Fæstir vilja að fuglar geri sér hreiður í kirkjuturninum. Turnhlerar eða hljóðop sjá til þess. Vill nokkur dritandi dúfnahóp í kirkjuturni sínum? Nei, varla og þó er dúfan friðarins fugl.

En einn er sá fugl sem er boðinn velkominn í kirkjuturna hjá frændum vorum Dönum.

Það er múrsvölungur (eða turnsvala) sem svo kallast og upp á latínu apus apus. Sá fugl hefur flækst nánast á hverju ári hingað til lands. Elstu heimildir um það eru frá miðri nítjándu öld. Fuglaskoðunarfólk skráir hann að sjálfsögðu þegar hann ber fyrir augu þess en þeir eru algengastir hér í júní. Slæmt veður er talin aðalástæða flækingsins en þeim er illa við vond veður og óhagstæð. Þeir flýja í stórum hópum undan slæmu veðri hvort heldur á sumri eða vetri. Þegar þeir eru lengi fjarri hreiðrinu hægja ungarnir bara á líkamsstarfseminni og bíða þess að foreldrarnir reki inn nefið aftur.

Í mörgum dönskum kirkjum er að finna hreiðurkassa fyrir múrsvöluna. Reynt er að laða fuglana að kirkjunni (eins og önnur sóknarbörn) með góðum kössum sem dúnn hefur verið settur í og telst það nú gott á betri bæjum. Svo eru litlir hátalarar settir upp sem gefa frá sér mjúk hljóð til að laða fuglana að.

En hvernig stendur á þessu umstangi í kringum eina fuglategund? Já, og meira segja fugli sem var á miðöldum kallaður fugl djöfulsins en menn töldu að í honum væri dauð sál sem hafi verið fleygt niður til heljar.

Jú, múrsvalan er friðuð í Danmörku og stefna í nýbyggingum í bæjum og borgum hefur ekki reynst þeim beint hagstæð. Nýbyggingar eru úr stáli og gleri. Auk þess eru þær þéttar og engar rifur í múr eða timbri til að skjóta skjólshúsi yfir múrsvölur sem þurfa að gera sér hreiður.

Háir kirkjuturnar eru þeirra uppáhald. Og ungir fuglar koma fljúgandi til að líta á aðstæður eins og ungt fólk sem er að festa kaup á húsnæði. Margir þeirra eru ekki að flýta sér og láta kannski ekki sjá sig aftur fyrr en eftir ár eða þaðan af lengri tíma til koma sér fyrir í hreiðurkassanum. Klukknahljómurinn hrellir þá ekki!

Kirkjurnar hafa litið á það sem umhverfisvæna starfsemi að bjóða múrsvöluna velkomna í kirkjuturnana. Spyrja má hvað þjóðkirkjan hér heima geti gert sem jafnast á við þetta fallega og snjalla framtak þeirra dönsku.

Það er nokkuð auðvelt að greina múrsvölunga frá öðrum fuglum þar sem þeir eru sótsvartir (eða brúnsvartir) með hvíta kverk, afar stuttfættir en vængir þeirra eru langir og ljámyndaðir. Lengd þeirra er 16-17 cm og vænghafið 40-44 cm. Fullvaxinn fugl er um 40 gr.

Múrsvölungar eru mjög merkilegir fuglar. Enginn fugl hefur annað eins flugþol og hann kemur í raun aðeins til jarðar til að verpa. Háloftin eru hans heimkynni. Hann tekur til sín næringu á fluginu með því að grípa ýmis aðvífandi skordýr og aðallega mýflugur. Múrsvölungurinn getur gripið um átta hundruð mýflugur á klukkustund og þær fara beinustu leið í sarp hans. Hann sefur á fluginu í 3000 metra hæð og er svo gerður að annar helmingur heilans sefur meðan hinn vakir.  Og hann makast líka í háloftunum. Múrsvölungar koma til Danmerkur í maí og halda svo til Afríku í ágústmánuði.

Heimild: Umhverfissíða dönsku þjóðkirkjunnar: folkekirken.dk

Sjá og myndband hér.

Nokkrar danskar kirkjur sem bjóða múrsvöluna velkomna.

Náttúrufræðingurinn 1992.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Margir hafa komið upp í kirkjuturna. Í sumum þeirra er þar allt snyrtilegt og gólfið slétt og hreint. Í öðrum getur verið eitt og annað að finna eins og málningarfötur og oft býsna gamlar. Reiðtygi og graftartól. Gamalt jólaskraut, stundum brotnir krossar úr kirkjugarðinum. Eða brotin kirkjuklukka. Þannig mætti lengi telja.

Kirkjuturnar eru til ýmissa annarra nota en að geyma steyptar klukkur á ramböldum.

Fæstir vilja að fuglar geri sér hreiður í kirkjuturninum. Turnhlerar eða hljóðop sjá til þess. Vill nokkur dritandi dúfnahóp í kirkjuturni sínum? Nei, varla og þó er dúfan friðarins fugl.

En einn er sá fugl sem er boðinn velkominn í kirkjuturna hjá frændum vorum Dönum.

Það er múrsvölungur (eða turnsvala) sem svo kallast og upp á latínu apus apus. Sá fugl hefur flækst nánast á hverju ári hingað til lands. Elstu heimildir um það eru frá miðri nítjándu öld. Fuglaskoðunarfólk skráir hann að sjálfsögðu þegar hann ber fyrir augu þess en þeir eru algengastir hér í júní. Slæmt veður er talin aðalástæða flækingsins en þeim er illa við vond veður og óhagstæð. Þeir flýja í stórum hópum undan slæmu veðri hvort heldur á sumri eða vetri. Þegar þeir eru lengi fjarri hreiðrinu hægja ungarnir bara á líkamsstarfseminni og bíða þess að foreldrarnir reki inn nefið aftur.

Í mörgum dönskum kirkjum er að finna hreiðurkassa fyrir múrsvöluna. Reynt er að laða fuglana að kirkjunni (eins og önnur sóknarbörn) með góðum kössum sem dúnn hefur verið settur í og telst það nú gott á betri bæjum. Svo eru litlir hátalarar settir upp sem gefa frá sér mjúk hljóð til að laða fuglana að.

En hvernig stendur á þessu umstangi í kringum eina fuglategund? Já, og meira segja fugli sem var á miðöldum kallaður fugl djöfulsins en menn töldu að í honum væri dauð sál sem hafi verið fleygt niður til heljar.

Jú, múrsvalan er friðuð í Danmörku og stefna í nýbyggingum í bæjum og borgum hefur ekki reynst þeim beint hagstæð. Nýbyggingar eru úr stáli og gleri. Auk þess eru þær þéttar og engar rifur í múr eða timbri til að skjóta skjólshúsi yfir múrsvölur sem þurfa að gera sér hreiður.

Háir kirkjuturnar eru þeirra uppáhald. Og ungir fuglar koma fljúgandi til að líta á aðstæður eins og ungt fólk sem er að festa kaup á húsnæði. Margir þeirra eru ekki að flýta sér og láta kannski ekki sjá sig aftur fyrr en eftir ár eða þaðan af lengri tíma til koma sér fyrir í hreiðurkassanum. Klukknahljómurinn hrellir þá ekki!

Kirkjurnar hafa litið á það sem umhverfisvæna starfsemi að bjóða múrsvöluna velkomna í kirkjuturnana. Spyrja má hvað þjóðkirkjan hér heima geti gert sem jafnast á við þetta fallega og snjalla framtak þeirra dönsku.

Það er nokkuð auðvelt að greina múrsvölunga frá öðrum fuglum þar sem þeir eru sótsvartir (eða brúnsvartir) með hvíta kverk, afar stuttfættir en vængir þeirra eru langir og ljámyndaðir. Lengd þeirra er 16-17 cm og vænghafið 40-44 cm. Fullvaxinn fugl er um 40 gr.

Múrsvölungar eru mjög merkilegir fuglar. Enginn fugl hefur annað eins flugþol og hann kemur í raun aðeins til jarðar til að verpa. Háloftin eru hans heimkynni. Hann tekur til sín næringu á fluginu með því að grípa ýmis aðvífandi skordýr og aðallega mýflugur. Múrsvölungurinn getur gripið um átta hundruð mýflugur á klukkustund og þær fara beinustu leið í sarp hans. Hann sefur á fluginu í 3000 metra hæð og er svo gerður að annar helmingur heilans sefur meðan hinn vakir.  Og hann makast líka í háloftunum. Múrsvölungar koma til Danmerkur í maí og halda svo til Afríku í ágústmánuði.

Heimild: Umhverfissíða dönsku þjóðkirkjunnar: folkekirken.dk

Sjá og myndband hér.

Nokkrar danskar kirkjur sem bjóða múrsvöluna velkomna.

Náttúrufræðingurinn 1992.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir