Miklar endurbætur fara nú fram á Lúthershúsinu í Wittenberg í Þýskalandi. Það verður opnað aftur 2027 og þá verður munkakufl Marteins Lúthers (1483-1546) hluti af kjarnasýningu safnsins. Í sjálfu sér er það merkilegt að munkakufl hans skuli hafa varðveist í umróti siðbótaráranna og sérstaklega í ljósi þess að Lúther hafnaði klausturlifnaði og gekk að eiga nunnuna Katrínu frá Bóra (1499-1552) árið 1525, já fyrir hvorki meira né minna en 500 árum! Kastaði frá sér kuflinum og brá sér í skósíðan og víðan svartan kufl að hætti lærðra manna á þeirri öld. Þessi víði og síði svartkufl varð svo vísir að flík þeirri sem kallast hempa.

En munkakufl Lúthers varðveittist. Kannski tók Katrín frá Bóra kuflinn til handargagns og hugsaði með sér að það væri aldrei að vita upp á hverju Lúther tæki. Ef honum dytti í hug að snúa aftur í klaustrið þá væri kuflinn til inni í skáp. En trauðla myndi Lúther komast í kuflinn þar sem hann hafði fitnað hressilega.

Hvað um það.

Einn frægasti munkakufl vestrænnar sögu liggur undir skemmdum. Mölur og ryð grandar öllu ef ekki er að gáð. Ullarklæði kuflsins er farið að morkna og það hefur misst lit sinn. Ekki stendur til að gera kuflinn upp svo hann verði sem nýr. Hið forna yfirbragð verður sannarlega látið halda sér. Hollvinir Lúthershússins í Wittenberg og Lúthers hafa virkjað vænan hóp fólks til að standa straum af þessari viðgerð.

Viðgerðin kostar um 12.000 evrur eða tæpar 2 milljónir íslenskra króna. Þó að upphæðin sé ekki há í sjálfu sér er snjallt að efna til söfnunar meðal almennings og getur þá hver lagt fram sinn skerf til verksins og fundið sig þar með vera hluti af samfélagi menningar og mennta sem lætur sér annt um söguleg verðmæti. Í þessu skiptir féð ekki höfuðmáli heldur menningarleg og kirkjuleg samstaða um þarft verk.

Dr. Sigrid Bias-Engels menningarfrömuður og formaður „Freundeskreis der Luther-Museen“, hefur gengið fram fyrir skjöldu um verndun kuflsins og endurgerð. Hún sagði í viðtali „Mittel­deutscher Rundfunk“ (MDR), að frá honum stafaði alveg sérstök útgeislun og það slægi djúpri þögn á gesti sem sæju kuflinn.

Persónulegir hlutir búa yfir ákveðinni merkingu sem fólk les í út frá lífi þess sem hlutina átti. Þetta þekkja allir. Hálsmen sem látin móðir einhvers átti er kær gripur og talar með sínum hætti til eiganda síns í gegnum minningar. Lútherskir verða alltaf að gæta sín á því að tigna ekki dauða hluti sem tengjast siðbótarhreyfingunni – það tók ærinn tíma að ýta út dýrkun helgra dóma hér á landi en þeir helstu voru geymdir á biskupsstólunum, til dæmis Þorláksskrín.[1]

Þó má ekki útiloka almenn sálfræðileg áhrif sem verða til í huga fólks sem sér merka sögulega gripi. Með því að sjá eða snerta sögulega gripi getur vakið þá tilfinningu meðal fólks að það standi nær viðkomandi sögulegum einstaklingi eða atburðum sem gripurinn kann að vera tengdur. Kufl uppreisnarmunksins vekur upp ýmsar sögulegar hugrenningar á sama hátt og þá frumgerð kórkápu Jóns Arasonar (1484-1550) ber fyrir augu – svo dæmi sé tekið. Íhugun einstakra sögulegra viðburða kallar líka fram þögn sem hugurinn nýtir sem eldsneyti til að komast eftir gatnakerfi mannkynssögunnar.

Marteinn Lúther var aðeins 34 ára gamall þegar hann hóf mótmæli sín gegn rómversk-kaþólsku kirkjunni með því eftir sem sagan segir að festa á kirkjuhurð Hallarkirkjunnar í Wittenberg yfirlýsingu sína í 95 liðum sem átti eftir að vekja heimsathygli. Þetta dró þann dilk á eftir sér að hann var bannfærður af rómversk-kaþólsku kirkjunni og Karl V. keisari felldi útlegðardóm yfir honum og stuðningsmönnum hans.

Margir sjá fyrir sér þennan hugrakka unga munk í munkakuflinum þegar rætt er um siðbótina.

Munkurinn Marteinn Lúther – ungur og knár – kopastungumynd eftir Lucas Cranach eldri (1472-1553) sem var náinn vinur hans – myndin gerð um 1520

Hallarkirkjuhurðin í Wittenberg þar sem Lúther á að hafa hengt upp mótmælagreinar sínar gegn spillingu rómversk-kaþólsku kirkjunnar 31. október 1517. Mynd: Kirkjublaðið.is

Lúther og eiginkona hans, Katrín frá Bóra – eftir Lucas Cranach eldri. Mynd: Kirkjublaðið.is

Tilvísun:

 

[1] Sjá um helga dóma: Tíminn – 42. tölublað (05.09.1925) – Tímarit.is

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Miklar endurbætur fara nú fram á Lúthershúsinu í Wittenberg í Þýskalandi. Það verður opnað aftur 2027 og þá verður munkakufl Marteins Lúthers (1483-1546) hluti af kjarnasýningu safnsins. Í sjálfu sér er það merkilegt að munkakufl hans skuli hafa varðveist í umróti siðbótaráranna og sérstaklega í ljósi þess að Lúther hafnaði klausturlifnaði og gekk að eiga nunnuna Katrínu frá Bóra (1499-1552) árið 1525, já fyrir hvorki meira né minna en 500 árum! Kastaði frá sér kuflinum og brá sér í skósíðan og víðan svartan kufl að hætti lærðra manna á þeirri öld. Þessi víði og síði svartkufl varð svo vísir að flík þeirri sem kallast hempa.

En munkakufl Lúthers varðveittist. Kannski tók Katrín frá Bóra kuflinn til handargagns og hugsaði með sér að það væri aldrei að vita upp á hverju Lúther tæki. Ef honum dytti í hug að snúa aftur í klaustrið þá væri kuflinn til inni í skáp. En trauðla myndi Lúther komast í kuflinn þar sem hann hafði fitnað hressilega.

Hvað um það.

Einn frægasti munkakufl vestrænnar sögu liggur undir skemmdum. Mölur og ryð grandar öllu ef ekki er að gáð. Ullarklæði kuflsins er farið að morkna og það hefur misst lit sinn. Ekki stendur til að gera kuflinn upp svo hann verði sem nýr. Hið forna yfirbragð verður sannarlega látið halda sér. Hollvinir Lúthershússins í Wittenberg og Lúthers hafa virkjað vænan hóp fólks til að standa straum af þessari viðgerð.

Viðgerðin kostar um 12.000 evrur eða tæpar 2 milljónir íslenskra króna. Þó að upphæðin sé ekki há í sjálfu sér er snjallt að efna til söfnunar meðal almennings og getur þá hver lagt fram sinn skerf til verksins og fundið sig þar með vera hluti af samfélagi menningar og mennta sem lætur sér annt um söguleg verðmæti. Í þessu skiptir féð ekki höfuðmáli heldur menningarleg og kirkjuleg samstaða um þarft verk.

Dr. Sigrid Bias-Engels menningarfrömuður og formaður „Freundeskreis der Luther-Museen“, hefur gengið fram fyrir skjöldu um verndun kuflsins og endurgerð. Hún sagði í viðtali „Mittel­deutscher Rundfunk“ (MDR), að frá honum stafaði alveg sérstök útgeislun og það slægi djúpri þögn á gesti sem sæju kuflinn.

Persónulegir hlutir búa yfir ákveðinni merkingu sem fólk les í út frá lífi þess sem hlutina átti. Þetta þekkja allir. Hálsmen sem látin móðir einhvers átti er kær gripur og talar með sínum hætti til eiganda síns í gegnum minningar. Lútherskir verða alltaf að gæta sín á því að tigna ekki dauða hluti sem tengjast siðbótarhreyfingunni – það tók ærinn tíma að ýta út dýrkun helgra dóma hér á landi en þeir helstu voru geymdir á biskupsstólunum, til dæmis Þorláksskrín.[1]

Þó má ekki útiloka almenn sálfræðileg áhrif sem verða til í huga fólks sem sér merka sögulega gripi. Með því að sjá eða snerta sögulega gripi getur vakið þá tilfinningu meðal fólks að það standi nær viðkomandi sögulegum einstaklingi eða atburðum sem gripurinn kann að vera tengdur. Kufl uppreisnarmunksins vekur upp ýmsar sögulegar hugrenningar á sama hátt og þá frumgerð kórkápu Jóns Arasonar (1484-1550) ber fyrir augu – svo dæmi sé tekið. Íhugun einstakra sögulegra viðburða kallar líka fram þögn sem hugurinn nýtir sem eldsneyti til að komast eftir gatnakerfi mannkynssögunnar.

Marteinn Lúther var aðeins 34 ára gamall þegar hann hóf mótmæli sín gegn rómversk-kaþólsku kirkjunni með því eftir sem sagan segir að festa á kirkjuhurð Hallarkirkjunnar í Wittenberg yfirlýsingu sína í 95 liðum sem átti eftir að vekja heimsathygli. Þetta dró þann dilk á eftir sér að hann var bannfærður af rómversk-kaþólsku kirkjunni og Karl V. keisari felldi útlegðardóm yfir honum og stuðningsmönnum hans.

Margir sjá fyrir sér þennan hugrakka unga munk í munkakuflinum þegar rætt er um siðbótina.

Munkurinn Marteinn Lúther – ungur og knár – kopastungumynd eftir Lucas Cranach eldri (1472-1553) sem var náinn vinur hans – myndin gerð um 1520

Hallarkirkjuhurðin í Wittenberg þar sem Lúther á að hafa hengt upp mótmælagreinar sínar gegn spillingu rómversk-kaþólsku kirkjunnar 31. október 1517. Mynd: Kirkjublaðið.is

Lúther og eiginkona hans, Katrín frá Bóra – eftir Lucas Cranach eldri. Mynd: Kirkjublaðið.is

Tilvísun:

 

[1] Sjá um helga dóma: Tíminn – 42. tölublað (05.09.1925) – Tímarit.is

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir