Kirkjublaðið.is lagði þrjár spurningar fyrir biskupsefnin þrjú sem hlutu flestar tilnefningar. Þá var þeim gefinn kostur á að segja hver yrðu áherslumál þeirra næðu þau kjöri.

Kynningin fer fram í stafrófsröð.
Fyrst er það sr. Elínborg Sturludóttir.
Á morgun er það sr. Guðmundur Karl Brynjarsson og loks sr. Guðrún Karls Helgudóttir þann 4. apríl.
Biskupskosning fer fram með rafrænum hætti og hefst kl. 12:00 á hádegi þann 11. apríl 2024 og lýkur kl. 12:00 á hádegi þann 16. apríl 2024.
Rétt kjörið biskupsefni þarf meirihluta atkvæða og náist það ekki skal kosið á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu. Standi atkvæði á jöfnu ræður hlutkesti.

Svör sr. Elínborgar:

  1.  Hver er skoðun þín á fækkun í þjóðkirkjunni og telur þú ástæðu til að bregðast við henni? Og ef svo, hvernig þá?

Fækkun í þjóðkirkjunni er ekki síst hlutfallsleg, þ. e. hana má rekja til fjölgunar erlendra ríkisborgara sem breyta kökunni töluvert. Því má rekja hlutfallslega fækkun í þjóðkirkjunni til nákvæmlega þessa.

Hins vegar vitum við að í samtímanum vill fólk gjarnan ráða því hvaða félagasamtökum það tilheyrir og nýtur að sjálfsögðu þess frelsis. Mér persónulega finnst dapurlegt að sjá fólk segja sig úr trúfélagi sem það hefur átt samleið með og fengið að njóta þjónustu frá en skil auðvitað að til þess liggja ótal ástæður. Við þurfum að ganga úr skugga um að fólk tilheyri raunverulega því trúfélagi sem það kýs – oft skortir upp á að svo sé og þar erum við prestarnir í lykilstöðu þegar við þjónum fólki.

Við ættum sannarlega að íhuga hvað það er sem verður til þess að fólk segir sig úr þjóðkirkjunni og nota gagnrýni til að gera betur. Við eigum að tengja starfið okkar við lífsbaráttu og raunveruleika fólks þannig að því þyki eftirsóknarvert að tilheyra kirkjunni. Það er magnað að sjá hvað kirkjan er til staðar á stóru stundum lífsins, og við þurfum að vera duglegri að segja frá því sem vel er gert og að sérhver íbúi landsins eigi aðgengi að kirkjunni jafnt gleði sem sorg.

  1.  Hvernig sérðu fyrir þér þátttöku biskups í opinberri umræðu á hinu íslenska samfélagstorgi sem verður sífellt fjölbreyttara?

Helsti vettvangur biskups Íslands er prédikunarstóllinn, þar sem biskup prédikar á stóru stundunum í lífi þjóðarinnar. Þar talar biskup inn í aðkallandi mál líðandi stundar og hefur öll tök á að ræða það sem skekur og ögrar á hverjum tíma. Prédikunin er sem fyrr, greining á málum samtímans í ljósi ritninganna og kristinnar arfleifðar, með áherslu á frelsið sem fylgir fagnaðarerindinu. Þess vegna þarf biskup að vera vel inni í málum samtímans og sameiginlegri menningu þjóðarinnar. Biskup á að orða stóru tilvistarspurningarnar sem brenna á fólki og vera talsmaður friðar, réttlætis, vonar og kærleika.

Það er líka rými fyrir rödd biskups sem vill tala fyrir gildum þjóðkirkjunnar, um náungakærleik og virðingu fyrir öllu sem lifir, í öðrum fjölmiðlum. Biskup á að bregðast við og dýpka umræðu um málefni sem varða heill, heilbrigði og velferð allra í samfélaginu.

Nýr biskup þarf með samstarfsfólki sínu að móta frekar samskiptastefnu þjóðkirkjunnar og ydda áherslur og nálgun sem kemur sístæðum boðskap þjóðkirkjunnar á framfæri í breytilegum heimi. Eins margslungnir og samfélagsmiðlarnir okkar eru, eru þeir samt sannarlega ein leið til að nálgast fólk á ólíkum aldri og mæta því á þeirra stað og það er sjálfsagt og eðlilegt að biskup nýti ólíka miðla til að koma boðskap kristinnar trúar á framfæri.

  1.  Hvernig sérðu fyrir þér samband ríkis og kirkju í framtíðinni? Hvaða rökum eða aðgerðum hyggstu beita svo að sú sýn nái fram að ganga?

Samband ríkis og kirkju er sannarlega til staðar, þótt það hafi tekið breytingum í áranna rás. Nú liggur fyrir að kirkjujarðasamkomulagið, sem hefur staðið undir starfsemi þjóðkirkjunnar, verður endurskoðað eftir nokkur ár. Þjóðkirkjan þarf að vera vel undirbúin fyrir þær viðræður.

Fyrir liggur að í stjórnarskrá lýðveldisins segir að hinu opinbera beri að styðja og styrkja þjóðkirkjuna og starf hennar. Það hefur ekki breyst. Einnig er óbreytt að menning okkar og siður á djúpar rætur í kristinni arfleifð. Það gerir engum gott að hundsa þá staðreynd.

Við fögnum jafnri stöðu trúfélaga og aukinni fjölbreytni í samfélaginu okkar, og mér finnst líka mikilvægt að halda til haga að þjónustunet þjóðkirkjunnar nýtist öllu samfélaginu, hvar sem er, til sjávar og sveita, á þann hátt sem enginn annar félagsskapur gerir.

Söfnuðir þjóðkirkjunnar eiga að fá að búa við sanngjarnar og eðlilegar aðstæður, treysta því að samkomulag við ríkið um sóknargjöld haldi, og fjárhagur þeirra sé þar með traustur.

Þjóðkirkjan ber ríkar skyldur í samfélagsgerð okkar og vill standa undir þeim. Sterk og myndug þjóðkirkja sem leggur áherslu á kærleiksþjónustu, frelsi og jöfnuð, þjónar hagsmunum íslensks samfélags á svo margan hátt. Þar stendur upp á biskup að halda góðum tengslum við ríkisvaldið og efla samtalið um almenna velferð þjóðarinnar.

  1. Annað sem þú vilt taka sérstaklega fram og hyggst leggja áherslu á í starfi biskups náir þú kjöri.

Á vegferðinni sem við erum á núna, á tímum breytinga og óróa, hefur mér verið umhugað um að biskup eigi fyrst og fremst að efla friðinn innan kirkjunnar okkar. Friður og samhugur er forsendan fyrir því að við náum að fylgja eftir þeim dýrmætu málefnum sem við viljum halda á lofti.

Biskup á líka að efla tengsl við einstaklinga og hreyfingar, utan sem innan kirkju, til að tryggja að við getum verið samstiga og samhuga um hugsjónina að halda utan um fólkið okkar eins vel og við getum.

Biskup þarf ekki síst að hlúa að innviðum kirkjunnar, sem eru fyrst og fremst okkar virka fólk, vígt og óvígt, út um allt land. Vönduð stjórnsýsla er nauðsynleg og á hana mun ég leggja áherslu.

Biskup Íslands er fyrst og fremst trúarlegur leiðtogi, sem prédikar og leiðir bænalíf þess samfélags sem þjóðkirkjan er. Biskup þarf að bera gæfu til að eiga gott og uppbyggilegt samstarf við kirkjuþing og aðra leiðtoga þjóðkirkjunnar. Vönduð stjórnsýsla, örugg boðun og réttlát stjórnun verður mín nálgun.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kirkjublaðið.is lagði þrjár spurningar fyrir biskupsefnin þrjú sem hlutu flestar tilnefningar. Þá var þeim gefinn kostur á að segja hver yrðu áherslumál þeirra næðu þau kjöri.

Kynningin fer fram í stafrófsröð.
Fyrst er það sr. Elínborg Sturludóttir.
Á morgun er það sr. Guðmundur Karl Brynjarsson og loks sr. Guðrún Karls Helgudóttir þann 4. apríl.
Biskupskosning fer fram með rafrænum hætti og hefst kl. 12:00 á hádegi þann 11. apríl 2024 og lýkur kl. 12:00 á hádegi þann 16. apríl 2024.
Rétt kjörið biskupsefni þarf meirihluta atkvæða og náist það ekki skal kosið á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu. Standi atkvæði á jöfnu ræður hlutkesti.

Svör sr. Elínborgar:

  1.  Hver er skoðun þín á fækkun í þjóðkirkjunni og telur þú ástæðu til að bregðast við henni? Og ef svo, hvernig þá?

Fækkun í þjóðkirkjunni er ekki síst hlutfallsleg, þ. e. hana má rekja til fjölgunar erlendra ríkisborgara sem breyta kökunni töluvert. Því má rekja hlutfallslega fækkun í þjóðkirkjunni til nákvæmlega þessa.

Hins vegar vitum við að í samtímanum vill fólk gjarnan ráða því hvaða félagasamtökum það tilheyrir og nýtur að sjálfsögðu þess frelsis. Mér persónulega finnst dapurlegt að sjá fólk segja sig úr trúfélagi sem það hefur átt samleið með og fengið að njóta þjónustu frá en skil auðvitað að til þess liggja ótal ástæður. Við þurfum að ganga úr skugga um að fólk tilheyri raunverulega því trúfélagi sem það kýs – oft skortir upp á að svo sé og þar erum við prestarnir í lykilstöðu þegar við þjónum fólki.

Við ættum sannarlega að íhuga hvað það er sem verður til þess að fólk segir sig úr þjóðkirkjunni og nota gagnrýni til að gera betur. Við eigum að tengja starfið okkar við lífsbaráttu og raunveruleika fólks þannig að því þyki eftirsóknarvert að tilheyra kirkjunni. Það er magnað að sjá hvað kirkjan er til staðar á stóru stundum lífsins, og við þurfum að vera duglegri að segja frá því sem vel er gert og að sérhver íbúi landsins eigi aðgengi að kirkjunni jafnt gleði sem sorg.

  1.  Hvernig sérðu fyrir þér þátttöku biskups í opinberri umræðu á hinu íslenska samfélagstorgi sem verður sífellt fjölbreyttara?

Helsti vettvangur biskups Íslands er prédikunarstóllinn, þar sem biskup prédikar á stóru stundunum í lífi þjóðarinnar. Þar talar biskup inn í aðkallandi mál líðandi stundar og hefur öll tök á að ræða það sem skekur og ögrar á hverjum tíma. Prédikunin er sem fyrr, greining á málum samtímans í ljósi ritninganna og kristinnar arfleifðar, með áherslu á frelsið sem fylgir fagnaðarerindinu. Þess vegna þarf biskup að vera vel inni í málum samtímans og sameiginlegri menningu þjóðarinnar. Biskup á að orða stóru tilvistarspurningarnar sem brenna á fólki og vera talsmaður friðar, réttlætis, vonar og kærleika.

Það er líka rými fyrir rödd biskups sem vill tala fyrir gildum þjóðkirkjunnar, um náungakærleik og virðingu fyrir öllu sem lifir, í öðrum fjölmiðlum. Biskup á að bregðast við og dýpka umræðu um málefni sem varða heill, heilbrigði og velferð allra í samfélaginu.

Nýr biskup þarf með samstarfsfólki sínu að móta frekar samskiptastefnu þjóðkirkjunnar og ydda áherslur og nálgun sem kemur sístæðum boðskap þjóðkirkjunnar á framfæri í breytilegum heimi. Eins margslungnir og samfélagsmiðlarnir okkar eru, eru þeir samt sannarlega ein leið til að nálgast fólk á ólíkum aldri og mæta því á þeirra stað og það er sjálfsagt og eðlilegt að biskup nýti ólíka miðla til að koma boðskap kristinnar trúar á framfæri.

  1.  Hvernig sérðu fyrir þér samband ríkis og kirkju í framtíðinni? Hvaða rökum eða aðgerðum hyggstu beita svo að sú sýn nái fram að ganga?

Samband ríkis og kirkju er sannarlega til staðar, þótt það hafi tekið breytingum í áranna rás. Nú liggur fyrir að kirkjujarðasamkomulagið, sem hefur staðið undir starfsemi þjóðkirkjunnar, verður endurskoðað eftir nokkur ár. Þjóðkirkjan þarf að vera vel undirbúin fyrir þær viðræður.

Fyrir liggur að í stjórnarskrá lýðveldisins segir að hinu opinbera beri að styðja og styrkja þjóðkirkjuna og starf hennar. Það hefur ekki breyst. Einnig er óbreytt að menning okkar og siður á djúpar rætur í kristinni arfleifð. Það gerir engum gott að hundsa þá staðreynd.

Við fögnum jafnri stöðu trúfélaga og aukinni fjölbreytni í samfélaginu okkar, og mér finnst líka mikilvægt að halda til haga að þjónustunet þjóðkirkjunnar nýtist öllu samfélaginu, hvar sem er, til sjávar og sveita, á þann hátt sem enginn annar félagsskapur gerir.

Söfnuðir þjóðkirkjunnar eiga að fá að búa við sanngjarnar og eðlilegar aðstæður, treysta því að samkomulag við ríkið um sóknargjöld haldi, og fjárhagur þeirra sé þar með traustur.

Þjóðkirkjan ber ríkar skyldur í samfélagsgerð okkar og vill standa undir þeim. Sterk og myndug þjóðkirkja sem leggur áherslu á kærleiksþjónustu, frelsi og jöfnuð, þjónar hagsmunum íslensks samfélags á svo margan hátt. Þar stendur upp á biskup að halda góðum tengslum við ríkisvaldið og efla samtalið um almenna velferð þjóðarinnar.

  1. Annað sem þú vilt taka sérstaklega fram og hyggst leggja áherslu á í starfi biskups náir þú kjöri.

Á vegferðinni sem við erum á núna, á tímum breytinga og óróa, hefur mér verið umhugað um að biskup eigi fyrst og fremst að efla friðinn innan kirkjunnar okkar. Friður og samhugur er forsendan fyrir því að við náum að fylgja eftir þeim dýrmætu málefnum sem við viljum halda á lofti.

Biskup á líka að efla tengsl við einstaklinga og hreyfingar, utan sem innan kirkju, til að tryggja að við getum verið samstiga og samhuga um hugsjónina að halda utan um fólkið okkar eins vel og við getum.

Biskup þarf ekki síst að hlúa að innviðum kirkjunnar, sem eru fyrst og fremst okkar virka fólk, vígt og óvígt, út um allt land. Vönduð stjórnsýsla er nauðsynleg og á hana mun ég leggja áherslu.

Biskup Íslands er fyrst og fremst trúarlegur leiðtogi, sem prédikar og leiðir bænalíf þess samfélags sem þjóðkirkjan er. Biskup þarf að bera gæfu til að eiga gott og uppbyggilegt samstarf við kirkjuþing og aðra leiðtoga þjóðkirkjunnar. Vönduð stjórnsýsla, örugg boðun og réttlát stjórnun verður mín nálgun.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir