Stefán Magnússon bóndi í Fagraskógi og kirkjuþingsmaður

Dr. Hjalti Hugason prófessor emeritus

Hjalti Hugason og Stefán Magnússon setjast við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og bregðast við greinum þeirra dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, dr. Jóns Ásgeirs Sigurvinssonar og sr. Elínborgar Sturludóttur.

Þessi grein þeirra er önnur af þremur.

 

 

Fyrir skömmu birti Kirkjublaðið athugasemdir okkar sem þetta ritum við þær forsendur sem gengið er út frá í þremur greinun á sama stað um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun frá 13., 14. og 16. ágúst s.l.  Að þessu sinni viljum við bregðast við gagnrýni sem þar kemur fram á gögn sem nú liggja fyrir kirkjuþingi um kosti þess og galla að rýmka kosningarétt við biskups- og kirkjuþingskjör.[1] Er þar átt við skýrslu nefndar um málið og lögfræðiálit sem henni fylgir.

Gagnrýni á skýrslu

Höfundar greinanna þriggja gagnrýna mjög téða skýrslu. Athyglisvert er að nefndin hefur í greinargerð sem fylgir áliti hennar lagst í guðfræðilega vinnu langt umfram það sem algengt er í slíkum textum. Fyrir þessa vinnu sína uppskera skýrsluhöfundarnir samt ekki háa einkunn.

Vel má fallast á með greinarhöfundunum þrem að sú biblíu-guðfræðilega aðferð sem lögð er til grundvallar í greinargerðinni er ekki sú frjóasta sem í boði er. Það er ekki auðvelt eða jafnvel raunhæft að heimfæra einstaka ritningarstaði frá 1. öld. upp á kirkjuréttarlegar og kirkjupólitískar aðstæður á þeirri 21. Nær virðist liggja í þessu efni að ganga út frá hugmyndum Lúthers um almennan prestdóm. Sú hugmyndafræði öll sömul er veigamikill burðarás í lútherskri guðfræði og nýtist tvímælalaust vel í umræðum um kirkjulegt lýðræði. Hér lítur þó út fyrir að greinarhöfundar gerist of yfirlýsingaglaðir. A.m.k. virðast þau þurfa að skýra sumar túlkanir sínar betur.

Hér skal á það fallist að hugmyndin um hinn almenna prestdóm alls skírðs fólks sé vel til þess fallin að undirbyggja hugmyndir og hugsjónir um aukið lýðræði í kirkjunni enda hefur slíkt verið gert til langs tíma. Á hinn bóginn virðast greinarhöfundarnir standa full losaralega að verki þegar þau nota þessa hugmynd frá 16. öld til að gera upp á milli einstakra útfærslna á lýðræðinu, jafnvel ólíkra afbrigða af fulltrúalýðræði á 21. öld!

Vissulega skal viðurkennt að mikilvægt er að guðfræðileg þekking og sjónarmið séu lögð til grundvallar við reglusetningu í innri málefnum kirkjunnar þótt að fleiri sjónarhorna þurfi einnig að gæta. Sé gripið til guðfræðilegrar röksemdafærslu í kirkjupólitískri umræðu verður þó að varast að henni sé ekki beitt sem valdatæki. Ekki virðist örgrannt um að þeirrar tilhneigingar gæti hjá þremenningunum. T.d. þyrftu þau að skýra mun betur hvers vegna „[…] fyrirkomulag sem viðhaft var við biskupskosningarnar 2013 sé heppilegra en fyrirkomulag biskupskjörsins 2024“ [2] — Er eldra fyrirkomulagið virkilega heppilegra „í ljósi hins almenna prestdóms“ eða einfaldlega að mati greinarhöfundanna?

Deilt á lögfræðiálit

Greinarhöfundarnir þrír gagnrýna mjög lögfræðiálit Davíðs Þórs Björgvinssonar lagaprófessors sem fylgir fyrrgreindri skýrslu. Einkum andmæla þau þeirri niðurstöðu „[…] að það standist ekki jafnræðisreglu að skírnin sé ófrávíkjanleg forsenda fyrir kosningarétti í kirkjuþings- og biskupskjöri eða fyrir kjörgengi fyrir kirkjuþingskosningar.“ Að þeirra mati myndu tillögur sem fælu í sér að skírnin „[…] teldist ekki lengur ófrávíkjanleg forsenda fyrir kosningarétti eða kjörgengi í raun snerta kenningarlegan grunn kirkjunnar og sjálfskilning hennar sem trúarsamfélags og -stofnunar og ættu því ekki erindi á kirkjuþing nema að undangenginni umfjöllun í kenningarnefnd þjóðkirkjunnar og á prestastefnu, […]“[3]

Hér ber þess að geta að nú er skírn vissulega skilyrði fyrir kjörgengi við kirkjuþingskosningar en hvorki kosningarétti við kirkjuþingskosningar né biskupskjör. Kosningaréttur óvígðra er aðeins bundinn við setu í sóknarnefnd en í starfsreglum um söfnuði og sóknarnefndir er skírnar ekki krafist til setu í þeim. [4] Orðalagið hér framar er því villandi.

Í áliti sínu bendir Davíð Þór Björgvinsson á að í 5. gr. þjóðkirkjulaga frá 2021 segi:  „Um inngöngu í þjóðkirkjuna og úrsögn úr henni fer skv. 8. og 9. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999 eftir því sem við getur átt.“[5] Í 8. greininni segir: „Þeir sem eru orðnir 16 ára að aldri geta tekið ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi.“[6] Í þeirri síðari kemur fram: „Um inngöngu í og aðild að trúfélagi […] gilda þau ákvæði sem lög og samþykktir þeirra mæla fyrir um.“[7] Hér veltur sem sé allt á hvort þjóðkirkjan hafi í starfsreglum sínum eða öðrum samþykktum kveðið á um að skírnin sé skilyrði fyrir (fullri) aðild að henni. Hvorki er kveðið á um þetta í Innri samþykktum þjóðkirkjunnar né heldur starfsreglum kirkjuþings nema í sambandi við kjörgengi til kirkjuþings. Af þessum ástæðum stenst niðurstaða lögfræðiálitsins við núverandi aðstæður. Auk þess skortir lagagrunn fyrir því að binda kjörgengi til kirkjuþings við skírn samkvæmt núgildandi reglum. Í þeim felst því að óbreyttu brot á jafnræðisreglu!

Í fyrri grein okkar staðhæfðum við að löggjafi í veraldlegu nútímasamfélagi gæti ekki byggt á trúar- eða guðfræðilegum forsendum í störfum sínum og beri auk þess að halda að sér höndum við setningu laga um innri mál trúfélaga. Af þeim sökum hefur hann eftirlátið sérhverju skráðu trúfélagi að ákveða sjálft hvernig aðild að því er skilgreind og hver séu skilyrði fyrir fullgildum réttindum innan þess, þar á meðal kosningarétti og kjörgengi. Á því sviði njóta trúfélögin víðtæks frelsis og geta óhindrað lagt játningarbundin, trúar- og guðfræðileg sjónarmið til grundvallar. Standi vilji kirkjuþings til þess að gera skírnina að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir kosningarétti og/eða kjörgengi við kirkjulegar kosningar stendur í sjálfu sér ekkert í veginum fyrir því. Til þess verður einfaldlega að fara rétta lagaleið. Yrði þá ugglaust einfaldast að breyta 5. lið 1. gr. Starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir þannig að í stað orðanna „ Sóknarbörn eru allir þeir sem lögheimili eiga í sókn og eru skráðir í þjóðkirkjuna“ komi „Sóknarbörn eru allir þeir sem lögheimili eiga í sókn og eru skírðir og skráðir í þjóðkirkjuna.“[8] Þar með væri loku fyrir það skotið að krafa um skírn bryti gegn jafnræðisreglu.

Breyting af þessu tagi gæti þó ekki orðið afturvirk. Þau sem væru þegar skráð í þjóðkirkjuna en ekki skírð við gildistöku nýrra starfsreglna yrðu áfram að njóta allra réttinda í kirkjunni þar á meðal kosningaréttar (og kjörgengis til kirkjuþings). Eða færi ekki illa á að krefjast allt í einu fjöldaskírnar fullorðins fólks út af svo formlegu atriði sem kosningaréttur og kjörgengi eru?! Öðru máli gegndi um þau sem gengju til liðs við kirkjuna eftir gildistöku reglnanna. Þau yrðu fullgildir félagar að aflokinni skírn og skráningu.

Lokaorð

Höfundar greinanna þriggja um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun brydda sannarlega upp á mikilvægu máli sem sýnir í hnotskurn vanda sjálfstæðra trúfélaga í samtímanum, þar á meðal þjóðkirkju okkar. Þau hafa rétt til að þróa regluverk sitt út frá eigin forsendum, trú og guðfræði, innan þeirra rúmu marka sem þeim eru sett með almennum lögum.[9] Nú ríður á að þjóðkirkjan og ekki síst kirkjuþing reynist þeim vanda vaxin. Í því efni hræða þó sporin í fortíðinni.

Á Norðurlöndunum öllum ríkti skírnarskylda langt fram á 19. öld. Bæru forráðamenn börn ekki til skírnar innan ásættanlegs tíma gripu kirkju- og veraldleg yfirvöld inn í og skírðu jafnvel með valdi. Með innreið nútímans varð trúin að einkamáli, ríkisvaldið dró sig í hlé og kirkjunum féllust hendur. Hlutfall skírðra í hverjum aldurshópi dróst saman og upp kom sú staða að stöðugt fleira fólk var skráð í þjóðkirkjurnar og naut þar fullra réttinda án þess að vera skírt. Hugsanlega kom þessi staða upp vegna þess að kirkjurnar vildu njóta sóknargjalda þessa fólks burtséð frá skírninni! Fram á síðustu áratugi gætti þessarar þróunar að vísu í mun minna mæli hér en í nágrannakirkjunum. Nú hafa guðfræðilegar spurningar aftur á móti vaknað um hvort staða fólks í kirkjunni eigi fyrst og fremst að byggjast á skírninni en ekki aðeins skráningunni og sóknargjöldunum. — Kirkjuþing verður að taka afstöðu til þess og helst í haust!

Tilvísanir:

[1] Mál 34 á málaskrá kirkjuþings 2024–2025. Sótt 22. ág. 2025.

[2] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I, 13. ág. 2025.  Sótt 22. ág. 2025.

[3] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ II, 14. ág. 2025. Sótt 22. ág. 2025. — Hér er athyglisvert að greinarhöfundar virðast líta svo á að nú sé skírn forsenda kosningaréttar í kirkjuþings- og biskupskosninum og kjörgengi í þeim fyrrnenfndu. Hið rétta er að kosningaréttur í kirkjulegum kosningum er ekki bundinn við skírn. Aftur á móti er skírnar krafist viðvíkjandi kjörgengi til kirkjuþings.

[4] Starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir […]. Sótt 22. ág. 2025. Starfsreglur um kjör til kirkjuþings. Sótt 22. ág. 2025.  Starfsreglur umkosningu biskups […]. Sótt 22. ág. 2025.

[5] Lög um skráð trúfélög og lífssoðunarfélög […]. Sótt 22. ág. 2025.

[6] Sama.

[7] Sama.

[8] Starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir […]. Sótt 22. ág. 2025. — Enn traustara gæti þó verið að setja nýjar starfsreglur um inngöngu og aðild að þjóðkirkjunni.

[9] Starfsreglur og söfnuði og sóknarnefndir […]. Sótt 22. ág. 2025. Þau mörk beinast einkum að því að í starfsháttum þjóðkirkjunnar sé gætt lýðræðis, jafnréttis og jafnræðis, allsherjarregla sé virt og friði í  samfélaginu ekki raskað. — Enn traustara gæti þó verið að setja nýjar starfsreglur um inngöngu og aðild að þjóðkirkjunni sem og að vinna að breytingu á 3. l. 6. gr. þjóðkirkjulaganna frá 2021.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Stefán Magnússon bóndi í Fagraskógi og kirkjuþingsmaður

Dr. Hjalti Hugason prófessor emeritus

Hjalti Hugason og Stefán Magnússon setjast við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og bregðast við greinum þeirra dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, dr. Jóns Ásgeirs Sigurvinssonar og sr. Elínborgar Sturludóttur.

Þessi grein þeirra er önnur af þremur.

 

 

Fyrir skömmu birti Kirkjublaðið athugasemdir okkar sem þetta ritum við þær forsendur sem gengið er út frá í þremur greinun á sama stað um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun frá 13., 14. og 16. ágúst s.l.  Að þessu sinni viljum við bregðast við gagnrýni sem þar kemur fram á gögn sem nú liggja fyrir kirkjuþingi um kosti þess og galla að rýmka kosningarétt við biskups- og kirkjuþingskjör.[1] Er þar átt við skýrslu nefndar um málið og lögfræðiálit sem henni fylgir.

Gagnrýni á skýrslu

Höfundar greinanna þriggja gagnrýna mjög téða skýrslu. Athyglisvert er að nefndin hefur í greinargerð sem fylgir áliti hennar lagst í guðfræðilega vinnu langt umfram það sem algengt er í slíkum textum. Fyrir þessa vinnu sína uppskera skýrsluhöfundarnir samt ekki háa einkunn.

Vel má fallast á með greinarhöfundunum þrem að sú biblíu-guðfræðilega aðferð sem lögð er til grundvallar í greinargerðinni er ekki sú frjóasta sem í boði er. Það er ekki auðvelt eða jafnvel raunhæft að heimfæra einstaka ritningarstaði frá 1. öld. upp á kirkjuréttarlegar og kirkjupólitískar aðstæður á þeirri 21. Nær virðist liggja í þessu efni að ganga út frá hugmyndum Lúthers um almennan prestdóm. Sú hugmyndafræði öll sömul er veigamikill burðarás í lútherskri guðfræði og nýtist tvímælalaust vel í umræðum um kirkjulegt lýðræði. Hér lítur þó út fyrir að greinarhöfundar gerist of yfirlýsingaglaðir. A.m.k. virðast þau þurfa að skýra sumar túlkanir sínar betur.

Hér skal á það fallist að hugmyndin um hinn almenna prestdóm alls skírðs fólks sé vel til þess fallin að undirbyggja hugmyndir og hugsjónir um aukið lýðræði í kirkjunni enda hefur slíkt verið gert til langs tíma. Á hinn bóginn virðast greinarhöfundarnir standa full losaralega að verki þegar þau nota þessa hugmynd frá 16. öld til að gera upp á milli einstakra útfærslna á lýðræðinu, jafnvel ólíkra afbrigða af fulltrúalýðræði á 21. öld!

Vissulega skal viðurkennt að mikilvægt er að guðfræðileg þekking og sjónarmið séu lögð til grundvallar við reglusetningu í innri málefnum kirkjunnar þótt að fleiri sjónarhorna þurfi einnig að gæta. Sé gripið til guðfræðilegrar röksemdafærslu í kirkjupólitískri umræðu verður þó að varast að henni sé ekki beitt sem valdatæki. Ekki virðist örgrannt um að þeirrar tilhneigingar gæti hjá þremenningunum. T.d. þyrftu þau að skýra mun betur hvers vegna „[…] fyrirkomulag sem viðhaft var við biskupskosningarnar 2013 sé heppilegra en fyrirkomulag biskupskjörsins 2024“ [2] — Er eldra fyrirkomulagið virkilega heppilegra „í ljósi hins almenna prestdóms“ eða einfaldlega að mati greinarhöfundanna?

Deilt á lögfræðiálit

Greinarhöfundarnir þrír gagnrýna mjög lögfræðiálit Davíðs Þórs Björgvinssonar lagaprófessors sem fylgir fyrrgreindri skýrslu. Einkum andmæla þau þeirri niðurstöðu „[…] að það standist ekki jafnræðisreglu að skírnin sé ófrávíkjanleg forsenda fyrir kosningarétti í kirkjuþings- og biskupskjöri eða fyrir kjörgengi fyrir kirkjuþingskosningar.“ Að þeirra mati myndu tillögur sem fælu í sér að skírnin „[…] teldist ekki lengur ófrávíkjanleg forsenda fyrir kosningarétti eða kjörgengi í raun snerta kenningarlegan grunn kirkjunnar og sjálfskilning hennar sem trúarsamfélags og -stofnunar og ættu því ekki erindi á kirkjuþing nema að undangenginni umfjöllun í kenningarnefnd þjóðkirkjunnar og á prestastefnu, […]“[3]

Hér ber þess að geta að nú er skírn vissulega skilyrði fyrir kjörgengi við kirkjuþingskosningar en hvorki kosningarétti við kirkjuþingskosningar né biskupskjör. Kosningaréttur óvígðra er aðeins bundinn við setu í sóknarnefnd en í starfsreglum um söfnuði og sóknarnefndir er skírnar ekki krafist til setu í þeim. [4] Orðalagið hér framar er því villandi.

Í áliti sínu bendir Davíð Þór Björgvinsson á að í 5. gr. þjóðkirkjulaga frá 2021 segi:  „Um inngöngu í þjóðkirkjuna og úrsögn úr henni fer skv. 8. og 9. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999 eftir því sem við getur átt.“[5] Í 8. greininni segir: „Þeir sem eru orðnir 16 ára að aldri geta tekið ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi.“[6] Í þeirri síðari kemur fram: „Um inngöngu í og aðild að trúfélagi […] gilda þau ákvæði sem lög og samþykktir þeirra mæla fyrir um.“[7] Hér veltur sem sé allt á hvort þjóðkirkjan hafi í starfsreglum sínum eða öðrum samþykktum kveðið á um að skírnin sé skilyrði fyrir (fullri) aðild að henni. Hvorki er kveðið á um þetta í Innri samþykktum þjóðkirkjunnar né heldur starfsreglum kirkjuþings nema í sambandi við kjörgengi til kirkjuþings. Af þessum ástæðum stenst niðurstaða lögfræðiálitsins við núverandi aðstæður. Auk þess skortir lagagrunn fyrir því að binda kjörgengi til kirkjuþings við skírn samkvæmt núgildandi reglum. Í þeim felst því að óbreyttu brot á jafnræðisreglu!

Í fyrri grein okkar staðhæfðum við að löggjafi í veraldlegu nútímasamfélagi gæti ekki byggt á trúar- eða guðfræðilegum forsendum í störfum sínum og beri auk þess að halda að sér höndum við setningu laga um innri mál trúfélaga. Af þeim sökum hefur hann eftirlátið sérhverju skráðu trúfélagi að ákveða sjálft hvernig aðild að því er skilgreind og hver séu skilyrði fyrir fullgildum réttindum innan þess, þar á meðal kosningarétti og kjörgengi. Á því sviði njóta trúfélögin víðtæks frelsis og geta óhindrað lagt játningarbundin, trúar- og guðfræðileg sjónarmið til grundvallar. Standi vilji kirkjuþings til þess að gera skírnina að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir kosningarétti og/eða kjörgengi við kirkjulegar kosningar stendur í sjálfu sér ekkert í veginum fyrir því. Til þess verður einfaldlega að fara rétta lagaleið. Yrði þá ugglaust einfaldast að breyta 5. lið 1. gr. Starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir þannig að í stað orðanna „ Sóknarbörn eru allir þeir sem lögheimili eiga í sókn og eru skráðir í þjóðkirkjuna“ komi „Sóknarbörn eru allir þeir sem lögheimili eiga í sókn og eru skírðir og skráðir í þjóðkirkjuna.“[8] Þar með væri loku fyrir það skotið að krafa um skírn bryti gegn jafnræðisreglu.

Breyting af þessu tagi gæti þó ekki orðið afturvirk. Þau sem væru þegar skráð í þjóðkirkjuna en ekki skírð við gildistöku nýrra starfsreglna yrðu áfram að njóta allra réttinda í kirkjunni þar á meðal kosningaréttar (og kjörgengis til kirkjuþings). Eða færi ekki illa á að krefjast allt í einu fjöldaskírnar fullorðins fólks út af svo formlegu atriði sem kosningaréttur og kjörgengi eru?! Öðru máli gegndi um þau sem gengju til liðs við kirkjuna eftir gildistöku reglnanna. Þau yrðu fullgildir félagar að aflokinni skírn og skráningu.

Lokaorð

Höfundar greinanna þriggja um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun brydda sannarlega upp á mikilvægu máli sem sýnir í hnotskurn vanda sjálfstæðra trúfélaga í samtímanum, þar á meðal þjóðkirkju okkar. Þau hafa rétt til að þróa regluverk sitt út frá eigin forsendum, trú og guðfræði, innan þeirra rúmu marka sem þeim eru sett með almennum lögum.[9] Nú ríður á að þjóðkirkjan og ekki síst kirkjuþing reynist þeim vanda vaxin. Í því efni hræða þó sporin í fortíðinni.

Á Norðurlöndunum öllum ríkti skírnarskylda langt fram á 19. öld. Bæru forráðamenn börn ekki til skírnar innan ásættanlegs tíma gripu kirkju- og veraldleg yfirvöld inn í og skírðu jafnvel með valdi. Með innreið nútímans varð trúin að einkamáli, ríkisvaldið dró sig í hlé og kirkjunum féllust hendur. Hlutfall skírðra í hverjum aldurshópi dróst saman og upp kom sú staða að stöðugt fleira fólk var skráð í þjóðkirkjurnar og naut þar fullra réttinda án þess að vera skírt. Hugsanlega kom þessi staða upp vegna þess að kirkjurnar vildu njóta sóknargjalda þessa fólks burtséð frá skírninni! Fram á síðustu áratugi gætti þessarar þróunar að vísu í mun minna mæli hér en í nágrannakirkjunum. Nú hafa guðfræðilegar spurningar aftur á móti vaknað um hvort staða fólks í kirkjunni eigi fyrst og fremst að byggjast á skírninni en ekki aðeins skráningunni og sóknargjöldunum. — Kirkjuþing verður að taka afstöðu til þess og helst í haust!

Tilvísanir:

[1] Mál 34 á málaskrá kirkjuþings 2024–2025. Sótt 22. ág. 2025.

[2] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I, 13. ág. 2025.  Sótt 22. ág. 2025.

[3] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ II, 14. ág. 2025. Sótt 22. ág. 2025. — Hér er athyglisvert að greinarhöfundar virðast líta svo á að nú sé skírn forsenda kosningaréttar í kirkjuþings- og biskupskosninum og kjörgengi í þeim fyrrnenfndu. Hið rétta er að kosningaréttur í kirkjulegum kosningum er ekki bundinn við skírn. Aftur á móti er skírnar krafist viðvíkjandi kjörgengi til kirkjuþings.

[4] Starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir […]. Sótt 22. ág. 2025. Starfsreglur um kjör til kirkjuþings. Sótt 22. ág. 2025.  Starfsreglur umkosningu biskups […]. Sótt 22. ág. 2025.

[5] Lög um skráð trúfélög og lífssoðunarfélög […]. Sótt 22. ág. 2025.

[6] Sama.

[7] Sama.

[8] Starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir […]. Sótt 22. ág. 2025. — Enn traustara gæti þó verið að setja nýjar starfsreglur um inngöngu og aðild að þjóðkirkjunni.

[9] Starfsreglur og söfnuði og sóknarnefndir […]. Sótt 22. ág. 2025. Þau mörk beinast einkum að því að í starfsháttum þjóðkirkjunnar sé gætt lýðræðis, jafnréttis og jafnræðis, allsherjarregla sé virt og friði í  samfélaginu ekki raskað. — Enn traustara gæti þó verið að setja nýjar starfsreglur um inngöngu og aðild að þjóðkirkjunni sem og að vinna að breytingu á 3. l. 6. gr. þjóðkirkjulaganna frá 2021.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir