Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og skrifar áhugaverða grein og persónulega um bóklestur og umhverfismál sem leiðir hugann á óvæntar slóðir.
Yndislestur minn stýrist að mestu af framboði af nýjum sænskum bókum í Norræna húsinu. Afleiðingin er að hann er alveg stjórnlaus. A.m.k. ræð ég honum aðeins að litlu leyti sjálfur. — Ég hef ekki frjálst val en get auðvitað sniðgengið bækur! Þetta hefur bæði kosti og galla. Á liðnum árum hefur ólíkustu rit rekið á fjörur mínar sem ég hefði aldrei útvegað mér sjálfur. Ég hef líka ánetjast höfundum sem ég hefði sjálfsagt aldrei komist í tæri við ella. Stundum myndast svo munstur þar sem bók tengist bók á skapandi hátt.[1]
Náttúran og helgi hennar
Að undanförnu hef ég t.d. lesið þrjár bækur sem myndað hafa rauðan þráð og vakið mig til nýrrar umhugsunar um málefni sem þó hefur fylgt mér frá unglingsaldri. Þá á ég við náttúru- eða umhverfisvernd; brýnasta málefni samtíðarinnar en ekki síður framtíðarinnar. Fyrst las ég um tengsl náttúrunnar og hins andlega eða spíritúella meðal Sama á norðurslóðum. Ögrandi lesning fyrir dæmigerðan lútherskan ratíónalista.[2] Því næst komu tíu ritgerðir um skóga og skógarnytjar. Þar var sýnt fram á afleiðingarnar af iðnvæðingu skógarbúskaparins og ógöngum hennar. Einmitt núna er ég við það að ljúka við ritið Naturlagen: Om naturens rättigheter och människans möjligheter.[3] Þetta er stórmerkilegt rit og fjallar um efnið frá sjónarhóli hugmyndasögu, réttarheimspeki og umhverfisvísinda auk þess sem fjölmörg dæmi eru tekin af einstökum tilvikum í hinni alþjóðlegu náttúruverndarbaráttu.
Þessar bækur hafa vakið mig til umhugsunar. Allt í einu mundi ég t.d. eftir að ég á hundruð hektara ósnortins lands frami í Firði. Við mörk þess er uppistöðulón virkjunar sem framleiðir 18 GWst á ári. Virkjunin kom þarna áður en ég öðlaðist sjálfstæðan eignarrétt á jörðinni. Ég er því stikkfrí! — En hver kann ábyrgð mín að verða í framtíðinni?
Breytinga þörf
Höfundar Naturlagen, Henrik Hallgren og Pella Lardotter Thiel, vekja framarlega í riti sínu athygli á að breytinga sé þörf hvað varðar röksemdir og aðferðafræði í náttúruverndarbaráttunni. Sú leið sem hefðbundin pósitífísk lögfræði býður upp á sé fullreynd. Þess í stað benda þau á aðra leið sem felst í allt annars konar réttarheimspeki. Á grundvelli hennar er gengið út frá að náttúran sjálf og/eða einstök fyrirbæri hennar geti búið yfir sjálfstæðum rétti sem líkja megi við mannréttindi. Hornsteinar slíks réttar eru tilveruréttur, réttur til að vera á sínum stað og réttur til að gegna „hlutverki “ sínu — sem til dæmis getur verið að gleðja auga (t.d. auga mitt, þitt eða Guðs!) Þennan rétt þarf að setja fram í yfirlýsingum (sbr. Mannréttindayfirlýsingu SÞ) og staðfesta í stjórnarskrám (t.d. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands). — Þetta hefur þegar verið gert á nokkrum stöðum en með mismunandi árangri þó
Getur náttúran átt rétt?
En í alvöru talað: Getur náttúran eða einstök fyrirbæri hennar búið yfir eða öðlast sjálfstæðan rétt? Getur klettur t.d. átt rétt á að vera til, vera á sínum stað og gleðja augað auk alls annars sem hann kann að „gera“? — Gallinn er að það kemur aldrei í ljós fyrr en búið er að sprengja hann. Hann kann t.a.m. að hafa skýlt heilu örviskerfi!
Þessari grunnspurningu svara höfundar Naturlagen og fjölmargir með þeim játandi. Þau benda líka á að almenn mannréttindi, réttindi svartra, réttindi kvenna og svo ótal margs konar réttindi sem kunna að vera sjálfsögð í okkar huga í dag voru það alls ekki í upphafi. Það þurfti að skilgreina þau, setja þau fram og berjast fyrir þeim. Sú barátta var upp á líf og dauða, a.m.k. dóu mörg fyrir réttindi svartra.
Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir að réttur náttúrunnar krefst grundvallar endurskoðunar á mörg hundruð ára gamalli heimsmynd sem byggir á að ég og þú, þ.e. maðurinn, séum kóróna sköpunarverksins. Við þurfum að hugsa öll grundvallarhugtök réttarheimspekinnar upp á nýtt og hugsanlega að snúa öllu á hvolf! — Það er aldrei til vinsælda fallið.
Kanínurnar í Kjarnaskógi
Og þarna komu kanínurnar upp í huga minn! „Suðurogupp“ af Akureyri er Kjarnaskógur. — Ótrúleg Paradís sem var með öllu lokuð þegar ég var krakki en stendur nú (næstum því) öllum opin. Fyrir nokkrum árum opnaðist ný vídd í þeim fjölbreytta lífheimi sem skógurinn er. Kanínur urðu oftar og oftar á vegi manns. Vissulega glöddu þær augað. Maður stoppaði við og fylgdist með furðulegu háttalaginu. Nú hef ég ekki séð þær lengi. Fyrir stuttu heyrði ég að þeim hafi verið útrýmt.
Ég veit! Kanínur eru ekki upphaflegir og náttúrulegir þátttakendur í lífheimi Kjarnaskógar og þær geta orðið ágeng tegund. En voru þær orðnar það? — Hugmyndin um sjálfstæðan rétt náttúrunnar og fyrirbæra hennar felur heldur ekki í sér að við megum ekki veiða og/eða drepa. Spurningin er aðeins í hvaða mæli, hvernig og til hvers það er gert. En samt, íslensk náttúra er ekki auðug af villtum dýrum og ég sakna kanínanna.
Fyrir skömmu fékk ég svo skýringu á herferðinni. Í Kjarnaskógi er rekin gróðrarstöð í einkaeigu þar sem stunduð er iðnvædd skógarplöntuframleiðsla á 12000 m2 ræktunarsvæði. Kanínurnar höfðu að sögn valdið spjöllum sem drógu úr afköstum. Þarna kom upp klassískur hagsmunaárekstur milli hins skipulega heims og hinnar villtu náttúru. Hefði verið hægt að færa rök fyrir því að kanínurnar hefðu þegar áunnið sér tilverurétt? Hversu miklu tjóni ollu þær? Þurfti verksmiðjuframleiðslan óhjákvæmilega að fara fram á þessum stað og hvað eru eðlileg afföll af utanaðkomandi ástæðum í rekstri af þessari stærðargráðu? — Ég bara spyr si svona.
Drottinn miskunna þú …!
Nú að kvöldi dómssunnudags með sínum ágengu textum er ég ansi hugsi og líður ekki að öllu leyti vel.[4] Það eru ekki bara kanínurnar heldur öll umgengni okkar við náttúruna og Móður Jörð sem halda fyrir mér vöku. Hugmyndin um kórónu sköpunarverksins og allir fylgifiskar hennar hafa einhvern veginn skekkt samstöðu okkar með lífheiminum að öðru leyti með öllum þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefur haft í för með sér.
Hvaðan er þessi hugmynd komin? Hver er ábyrgð alheimskirkjunnar á henni? — Ekki síst lúthersku kirkjunnar með allar sínar tveggja-ríkja-kenningar og einstaklingshyggju? Vel að merkja: Það er ekki tvíeykinu Henrik og Pellu að kenna að ég sit uppi með angist og efa. Þau gera grein fyrir að kirkjan sé á réttri leið þegar hún segist ætla að hætta að „biðja fyrir“ náttúrunni en biðja í staðinn „með henni“. Ég á hins vegar ekki önnur lokaorð en …
Kyrie, eleison!
Tilvísanir:
[1] Áður var sagt „bók fæðist af bók.“
[2] Hér er átt við að lúthersk trúarhefð sé ratíónalísk hvort sem það á nú höfund eða ekki.
[3] Henrik Hallgren og Pella Larsdotter Thiel, Naturlagen: Om naturens rättigheter och människans möjligheter, Stokkhólmi: Volante,2022, 352 bls.
[4] Dómssunnudagurinn er síðasti sunnudagur kirkjuársins. Þá beina textar dagsins athyglinni að hinsta dómi.
Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og skrifar áhugaverða grein og persónulega um bóklestur og umhverfismál sem leiðir hugann á óvæntar slóðir.
Yndislestur minn stýrist að mestu af framboði af nýjum sænskum bókum í Norræna húsinu. Afleiðingin er að hann er alveg stjórnlaus. A.m.k. ræð ég honum aðeins að litlu leyti sjálfur. — Ég hef ekki frjálst val en get auðvitað sniðgengið bækur! Þetta hefur bæði kosti og galla. Á liðnum árum hefur ólíkustu rit rekið á fjörur mínar sem ég hefði aldrei útvegað mér sjálfur. Ég hef líka ánetjast höfundum sem ég hefði sjálfsagt aldrei komist í tæri við ella. Stundum myndast svo munstur þar sem bók tengist bók á skapandi hátt.[1]
Náttúran og helgi hennar
Að undanförnu hef ég t.d. lesið þrjár bækur sem myndað hafa rauðan þráð og vakið mig til nýrrar umhugsunar um málefni sem þó hefur fylgt mér frá unglingsaldri. Þá á ég við náttúru- eða umhverfisvernd; brýnasta málefni samtíðarinnar en ekki síður framtíðarinnar. Fyrst las ég um tengsl náttúrunnar og hins andlega eða spíritúella meðal Sama á norðurslóðum. Ögrandi lesning fyrir dæmigerðan lútherskan ratíónalista.[2] Því næst komu tíu ritgerðir um skóga og skógarnytjar. Þar var sýnt fram á afleiðingarnar af iðnvæðingu skógarbúskaparins og ógöngum hennar. Einmitt núna er ég við það að ljúka við ritið Naturlagen: Om naturens rättigheter och människans möjligheter.[3] Þetta er stórmerkilegt rit og fjallar um efnið frá sjónarhóli hugmyndasögu, réttarheimspeki og umhverfisvísinda auk þess sem fjölmörg dæmi eru tekin af einstökum tilvikum í hinni alþjóðlegu náttúruverndarbaráttu.
Þessar bækur hafa vakið mig til umhugsunar. Allt í einu mundi ég t.d. eftir að ég á hundruð hektara ósnortins lands frami í Firði. Við mörk þess er uppistöðulón virkjunar sem framleiðir 18 GWst á ári. Virkjunin kom þarna áður en ég öðlaðist sjálfstæðan eignarrétt á jörðinni. Ég er því stikkfrí! — En hver kann ábyrgð mín að verða í framtíðinni?
Breytinga þörf
Höfundar Naturlagen, Henrik Hallgren og Pella Lardotter Thiel, vekja framarlega í riti sínu athygli á að breytinga sé þörf hvað varðar röksemdir og aðferðafræði í náttúruverndarbaráttunni. Sú leið sem hefðbundin pósitífísk lögfræði býður upp á sé fullreynd. Þess í stað benda þau á aðra leið sem felst í allt annars konar réttarheimspeki. Á grundvelli hennar er gengið út frá að náttúran sjálf og/eða einstök fyrirbæri hennar geti búið yfir sjálfstæðum rétti sem líkja megi við mannréttindi. Hornsteinar slíks réttar eru tilveruréttur, réttur til að vera á sínum stað og réttur til að gegna „hlutverki “ sínu — sem til dæmis getur verið að gleðja auga (t.d. auga mitt, þitt eða Guðs!) Þennan rétt þarf að setja fram í yfirlýsingum (sbr. Mannréttindayfirlýsingu SÞ) og staðfesta í stjórnarskrám (t.d. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands). — Þetta hefur þegar verið gert á nokkrum stöðum en með mismunandi árangri þó
Getur náttúran átt rétt?
En í alvöru talað: Getur náttúran eða einstök fyrirbæri hennar búið yfir eða öðlast sjálfstæðan rétt? Getur klettur t.d. átt rétt á að vera til, vera á sínum stað og gleðja augað auk alls annars sem hann kann að „gera“? — Gallinn er að það kemur aldrei í ljós fyrr en búið er að sprengja hann. Hann kann t.a.m. að hafa skýlt heilu örviskerfi!
Þessari grunnspurningu svara höfundar Naturlagen og fjölmargir með þeim játandi. Þau benda líka á að almenn mannréttindi, réttindi svartra, réttindi kvenna og svo ótal margs konar réttindi sem kunna að vera sjálfsögð í okkar huga í dag voru það alls ekki í upphafi. Það þurfti að skilgreina þau, setja þau fram og berjast fyrir þeim. Sú barátta var upp á líf og dauða, a.m.k. dóu mörg fyrir réttindi svartra.
Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir að réttur náttúrunnar krefst grundvallar endurskoðunar á mörg hundruð ára gamalli heimsmynd sem byggir á að ég og þú, þ.e. maðurinn, séum kóróna sköpunarverksins. Við þurfum að hugsa öll grundvallarhugtök réttarheimspekinnar upp á nýtt og hugsanlega að snúa öllu á hvolf! — Það er aldrei til vinsælda fallið.
Kanínurnar í Kjarnaskógi
Og þarna komu kanínurnar upp í huga minn! „Suðurogupp“ af Akureyri er Kjarnaskógur. — Ótrúleg Paradís sem var með öllu lokuð þegar ég var krakki en stendur nú (næstum því) öllum opin. Fyrir nokkrum árum opnaðist ný vídd í þeim fjölbreytta lífheimi sem skógurinn er. Kanínur urðu oftar og oftar á vegi manns. Vissulega glöddu þær augað. Maður stoppaði við og fylgdist með furðulegu háttalaginu. Nú hef ég ekki séð þær lengi. Fyrir stuttu heyrði ég að þeim hafi verið útrýmt.
Ég veit! Kanínur eru ekki upphaflegir og náttúrulegir þátttakendur í lífheimi Kjarnaskógar og þær geta orðið ágeng tegund. En voru þær orðnar það? — Hugmyndin um sjálfstæðan rétt náttúrunnar og fyrirbæra hennar felur heldur ekki í sér að við megum ekki veiða og/eða drepa. Spurningin er aðeins í hvaða mæli, hvernig og til hvers það er gert. En samt, íslensk náttúra er ekki auðug af villtum dýrum og ég sakna kanínanna.
Fyrir skömmu fékk ég svo skýringu á herferðinni. Í Kjarnaskógi er rekin gróðrarstöð í einkaeigu þar sem stunduð er iðnvædd skógarplöntuframleiðsla á 12000 m2 ræktunarsvæði. Kanínurnar höfðu að sögn valdið spjöllum sem drógu úr afköstum. Þarna kom upp klassískur hagsmunaárekstur milli hins skipulega heims og hinnar villtu náttúru. Hefði verið hægt að færa rök fyrir því að kanínurnar hefðu þegar áunnið sér tilverurétt? Hversu miklu tjóni ollu þær? Þurfti verksmiðjuframleiðslan óhjákvæmilega að fara fram á þessum stað og hvað eru eðlileg afföll af utanaðkomandi ástæðum í rekstri af þessari stærðargráðu? — Ég bara spyr si svona.
Drottinn miskunna þú …!
Nú að kvöldi dómssunnudags með sínum ágengu textum er ég ansi hugsi og líður ekki að öllu leyti vel.[4] Það eru ekki bara kanínurnar heldur öll umgengni okkar við náttúruna og Móður Jörð sem halda fyrir mér vöku. Hugmyndin um kórónu sköpunarverksins og allir fylgifiskar hennar hafa einhvern veginn skekkt samstöðu okkar með lífheiminum að öðru leyti með öllum þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefur haft í för með sér.
Hvaðan er þessi hugmynd komin? Hver er ábyrgð alheimskirkjunnar á henni? — Ekki síst lúthersku kirkjunnar með allar sínar tveggja-ríkja-kenningar og einstaklingshyggju? Vel að merkja: Það er ekki tvíeykinu Henrik og Pellu að kenna að ég sit uppi með angist og efa. Þau gera grein fyrir að kirkjan sé á réttri leið þegar hún segist ætla að hætta að „biðja fyrir“ náttúrunni en biðja í staðinn „með henni“. Ég á hins vegar ekki önnur lokaorð en …
Kyrie, eleison!
Tilvísanir:
[1] Áður var sagt „bók fæðist af bók.“
[2] Hér er átt við að lúthersk trúarhefð sé ratíónalísk hvort sem það á nú höfund eða ekki.
[3] Henrik Hallgren og Pella Larsdotter Thiel, Naturlagen: Om naturens rättigheter och människans möjligheter, Stokkhólmi: Volante,2022, 352 bls.
[4] Dómssunnudagurinn er síðasti sunnudagur kirkjuársins. Þá beina textar dagsins athyglinni að hinsta dómi.






