Fyrir nokkru birti Fréttablaðið (28. nóvember 2020) niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar Maskínu og „lífsskoðunarfyrirtækisins“ Siðmenntar, eins og þar stendur, hvort sem Siðmenntarfólk þekkir sig nú í þeirri nafngift eða ekki. Vel geta þau samstök átt í sjálfsmyndarglímu ekki síður en þjóðkirkjan sem lengi hefur ekki vitað hvort hún eigi frekar að koma fram sem stofnun eða félag.

Samband að trosna

Líklega hittir blaðamaður naglann á höfuðið þegar hann kynnir niðurstöður könnunarinnar undir fyrirsögninni „Játum kristna trú þó minnihluti trúi“. Hugsanlega kann einhverjum að virðast það þversagnar- eða jafnvel hræsniskennt. Svo þarf þó alls ekki að vera. Hér er þvert á móti um trúarfélagsfræðilegt munstur að ræða sem lengi hefur verið talið lýsa vel a.m.k norrænum aðstæðum. Það má útskýra þannig að hinn dæmigerði — þó kannski dálítið íhaldssami eða gamaldags Norðurlandabúi — tilheyri sömu kirkjunni ævilangt burtséð frá því hvort hann/hún/hán sækir þá kirkju, samsamar sig henni og „trúir“ boðskap hennar eða ekki. Þetta er svo talið greina okkur hérna megin Atlantsála frá því sem gerist í BNA. Afstöðu hins dæmigerða Kana er lýst svo að „hann“ trúi án þess að tilheyra sömu kirkju frá vöggu til grafar. Þar færir fólk sig oftar en ekki á milli kirkjudeilda um leið og það flytur milli fylkja eða færist úr einum þjóðfélagshópi í annan en samsamar sig aftur á móti kirkju sinni — trúir eins og hún kennir — meðan sambandið á annað borð varir.

Túlkunin sem kemur fram í fyrirsögn Fréttablaðsins byggist á þeirri staðreynd að nú munu um 63% landsmanna tilheyra þjóðkirkjunni. Þar við bætast svo um 10% sem tilheyra öðrum skráðum, kristnum trúfélögum. Aftur á móti telja aðeins rúm 41% sig trúa og hefur hlutfallið lækkað um 5% á fimm árum. Rúm 30% falla því í hóp sem oft kynnir sig sem kristna eða lútherska guðleysingja. Þetta er fólk sem játar ekki persónulega trú en viðurkennir þó að það sé hluti af menningu og samfélagi sem mótað er af kristni og deili að vissu marki gildum og siðfræði  sem rekja megi til kristindóms. Svipuð afstaða kemur fram hjá fjölmörgum gyðingum og múslimum sem gengst við sögulegum og menningarlegum bakgrunni sínum án þess að iðka trúna. Þetta er heiðarleg, víðsýn og virðingarverð afstaða þótt þetta sama fólk geri ýmsa fyrirvara þegar um trúarlærdóma kristni, gyðingdóms eða íslam er að ræða.

Eykst trú með aldri?

Þegar hugað er að þeim sem telja sig trúuð — þar er vel að merkja ekki aðeins um lútherska eða kristna trú að ræða heldur trú af hvaða tagi sem er — kemur í ljós að lægst er hlutfallið í aldurshópnum 18–39 ára. „Trú eykst svo með aldrinum“ eins og segir í Fréttablaðinu. Þetta þýðir þó auðvitað ekki að fólk hneigist til trúar með hækkandi aldri, aukinni lífsreynslu eða stöðugt ágengara návígi við dauðann. Könnunin mælir aðeins ástandið eins og það er núna. Ummælin um vaxandi trú með aldri merkja því bara að einmitt núna er hlutfall þeirra sem trúa eitthvað hærra í aldurshópunum yfir fertugu. Þau sem láta sér annt um trú ættu aftur á móti að búa sig undir að í framtíðinni verði dvalarheimilin full af gömlum „trúleysingjum“ öfugt við það sem staðalmyndin segir til um. Þegar svo er komið hætta eldri kynslóðir jafnframt að miðla trúnni til hinna yngri. Þá verða trúfélög, trúarstofnanir eða „trúarfyrirtæki“ að taka við. Það er áskorun. Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem slíkar aðstæður koma upp. Í bændasamfélaginu sáu heimilin um trúaruppeldið, svo tók skólinn að nokkru leyti við. Nú er það hins vegar kirkjan sem verður að taka við boltanum í þeim mæli sem heimilin gefa henni umboð til. Það hefur henni alls ekki tekist. Með kirkju er hér vissulega ekki aðeins átt við þjóðkirkjuna heldur „trúarstofnunina“ eða „trúmálaiðnaðinn“ í heild svo notað sé veraldlegt orðalag.

Þessi nýja könnun eins og margar fyrri kannanir leiðir í ljós að samband þjóðar og þjóðkirkju hér á landi er að trosna. Ef til vill kemur það best í ljós í því að meira en 15% þeirra sem telja sig trúuð finnst þau eiga litla eða enga samleið með kirkjunni. Það er umhugsunarefni en skiljanlegt í samfélagi þar sem einstaklingshyggja er eins ríkjandi og hér á landi.

Á ríkið að styrkja „trúmálageirann“?

Í stjórnarskránni er kveðið á um að ríkið skuli styðja og vernda lúthersku kirkjuna að svo miklu leyti sem hún er kirkja þjóðarinnar. Það er hún svo sannarlega í sögulegum skilningi. Þá er hún það líka að verulegu leyti lýðfræðilega séð þar sem yfir 60% tilheyra henni þrátt fyrir allt. Næst í röðinni af trú- og lífsskoðunarfélögum kemur svo rómverska kirkjan með 4% landsmanna. Eins og fram er komið telur þó aðeins brot af þeim sem tilheyra þjóðkirkjunni sig eiga samleið með henni. Við þær aðstæður verður að hugsa margt upp á nýtt. Til dæmis virðast þau 29% svarenda í könnun Maskínu sem telja að stuðningur ríkisvaldsins við trú- og lífsskoðunarfélög eigi að vera hlutfallslega jafn hafa mikið til síns máls. Hér á landi hefur ríkt trúfrelsi frá 1874. Trúarlegt jafnræði er hér aftur á móti ekki til staðar. Í ljósi þeirrar þróunar sem uppi er og Maskínu-könnunin varpar ljósi á virðist tími til kominn að bæta úr því. Það verður best gert með því að veita öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum hlutdeild í þeim gæðum sem í þjóðkirkjuskipaninni felst líkt og þegar hefur verið gert með sóknargjöldin sem þau njóta öll í réttu hlutfalli við félagatölu.

Sterk rök mæla með að ríkið styrki trú- og lífsskoðunarfélög svo fremi sem jafnræðis sé gætt. Félög af þessu tagi eru mikilvægur hluti af þriðja geira samfélagsins og leggja þegar vel er að verki staðið mikið til velferðar fólks. Gera má ráð fyrir að fjölmörg úr röðum hinna lúthersku og/eða kristnu trúleysingja sem drepið var á viðurkenni að Hjálpræðisherinn, Samhjálp og Hjálparstarf kirkjunnar hafi lagt mikið af mörkum til að stuðla að bættri stöðu jaðarsettra hópa sem „Kerfið“ nær ekki nægilega vel að standa vörð um. Þetta er alveg óháð afstöðu fólks til trúarkenninga Hersins, Hvítasunnukirkjunnar eða þjóðkirkjunnar.

Bjarnargreiðar á 20. öld

Um þarsíðustu aldamót var þjóðkirkjan í rekstrarvanda. Afkoma hennar hvíldi að langmestu leyti á afrakstri af jarðeignum sem auðvitað var farsælt í landbúnaðarhagkerfi fyrri alda. Nú var þjóðin á hinn bóginn á hraðferð inn í nýtt efnahagsumhverfi þar sem jarðeignir voru ekki lengur arðbær höfuðstóll. Við þær aðstæður var gripið til stórrar lausnar sem gagnast skyldu þjóðkirkjunni en jafnframt stórum hluta þjóðarinnar. Ríkið tók yfir forræði kirkjujarðanna gegn því að ábyrgjast laun prestanna sem áður tóku þorra tekna sinna af búskap á jörðum kirkjunnar. Jafnframt átti að efla bændastéttina með því að losa hana úr viðjum leiguábúðar með einkavæðingu kirkjujarða. Í lok aldarinnar var endahnútur svo rekin á þessa aðgerð með því að ríkið tók yfir eignarrétt á jörðunum gegn sömu skuldbindingu og áður, þ.e. að reiða fram gagngjald sem standa skyldi undir launakostnaði kirkjunnar að langmestu leyti.

Á 9. áratug liðinnar aldar kom ríkið aftur til hjálpar fjársveltri kirkju. Sóknargjöld innheimtust orðið illa og nefskattur var tímaskekkja í samfélaginu. Aftur var gripið til stórrar lausnar. Sóknargjöldin voru afnumin og þjóðkirkjunni og síðar öllum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum veit hlutdeild í almenntum tekjuskatti þjóðarinnar.

Báðar þessar lausnir litu vel út af þjóðkirkjunnar hálfu þegar til þeirra var gripið. Þær leystu líka rekstrarvanda hennar til skamms tíma. Þegar lengra lét hafa ókostirnir komið í ljós. Þjóðkirkjan býr nú hvorki að eigin eignahöfuðstóli né tekjustofni. Þvert á móti er fjárhagur hennar fullkomlega samspyrtur ríkisfjármálum og hún því háð ríkinu hvað rekstur varðar. Þess vegna hafa stóru lausnirnar sem gripið var til á öldinni sem leið reynst bjarnargreiðar.

Valkosturinn við fyrrnefndar breytingar hefði verið að láta kirkjuna fara óvarða í gegnum holskeflu nútímavæðingarinnar sem gekk yfir íslenska þjóðfélagið á 20. öldinni. Þá hefði hún þurft að fóta sig í nýju hagkerfi á eigin vegum: selja kirkjujarðirnar og fjárfesta í rekstri á nýjum sviðum líkt og kirkjur víða um lönd þurftu að gera. Hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir þjóðkirkjuna og íslenskt atvinnu- og efnahagslíf, einkum landbúnaðinn, er auðvitað ómögulegt að segja. Það er líka torséð hvernig kirkjan hefði staðið að verki miðað við þá stofnunarlegu gerð sem hún hafði á fyrri hluta aldarinnar sem leið. Nú á dögum á hún mun auðveldar með að nútímavæðast þegar hún býr að eigin innviðum, kirkjuþingi og kirkjuráði, sem tekist gætu á við vanda af þessu tagi.

Kirkja á breytingaskeiði

Þessi misserin er þjóðkirkjan á miðju mikilvægu breytingaskeiði. Æðsta stjórn þjóðkirkjunnar, kirkjuþing, samþykkti nú í haust fyrir sitt leyti frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga sem dómsmálaráðherra leggur vonandi sem fyrst fyrir Alþingi. Frumvarpið einfaldar mjög lagaumgjörðina utan um þjóðkirkjuna, færir henni meira sjálfstæði og sjálfræði en leggur henni líka ríkari skyldur á herðar að axla ábyrgð á eigin málum. — Nú er henni sem sé réttur kaleikur sem var frá henni tekinn á öldinni sem leið.

Nýja lagaumgjörðin færir þjóðkirkjuna nær öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum í landinu og stuðlar þar með að auknu trúarlegu jafnræði. Það er því spor í rétta átt — ekki endilega út frá sjónarhóli þjóðkirkjunnar heldur með tilliti til nútímalegs trúmálaréttar. Það er því mikilvægt að Alþingi samþykki frumvarpið sem fyrst. Þar með verður vissulega ekki til frjáls kirkja eða fríkirkja hér á landi. Nýja frumvarpið felur sem sé ekki í sér aðskilnað ríkis og kirkju sem ýmsir telja tímabæran. Það er á hinn bóginn enn eitt skrefið í aðgreiningu þjóðkirkjunnar frá ríkisvaldinu sem staðið hefur yfir um þó nokkurt skeið og er mikilvægur þáttur í nútímavæðingu trúmálaréttarins.

Titringurinn í kirkjunni?

Þegar gamalgrónar forréttindastofnanir ganga í gegnum miklar breytingar gefur auga leið að þar gætir titrings og tortryggni. Ýmsum finnst hagsmunum sínum ógnað eða óttast óvissa framtíð í breyttu umhverfi. Þegar um kirkjuna er að ræða á enginn ríkari hagsmuna að gæta en prestastéttin. Enda brennur eldur breytinganna heitast á henni. Með fram komnu frumvarpi hætta prestar t.d. að vera opinberir starfsmenn og/eða embættismenn og verða þess í stað starfsmenn þjóðkirkjunnar. Á sama tíma er breyting af allt öðru tagi í gangi í kirkjunni. Hún felst í stækkun starfseininga og auknu samstarfi presta sem hingað til hafa að langmestu leyti verið einyrkjar hver á sínum stað. Þetta er gert til að þróa þjónustu kirkjunnar en jafnframt til að bæta starfsumhverfi presta en flestum líður betur í starfshópi en einum á báti þótt ekki sé það algilt.

Það er skiljanlegt að umskipti af þessu tagi valdi einhverjum óvissu og jafnvel öryggisleysi. Allt bendir þó til að meirihluti stéttarinnar sé reiðubúinn að takast á við breyttar aðstæður. Sumum prestum finnst sér samt ógnað eins og fram hefur komið einkum á síðum Morgunblaðsins. Það er ekki nema eðlilegt. Þó er vonandi að úrtöluraddir tefji ekki þróun þjóðkirkjunnar í átt til nýrra tíma.

Sjálfstæði og siðbót

Þær aðstæður sem hér hefur verið lýst eru langt í frá að vera fordæmalausar. Þvert á móti hefur sjálfstæðisbarátta kirkjunnar í raun staðið allt frá því á dögum Gregoríusar VII sem sat á páfastóli á ofanverðri 11. öld! Því má segja að furðu hægt hafi miðað a.m.k. þegar íslenska þjóðkirkjan á í hlut. Gregoríanisminn, kirkjupólitík Gregoríusar og fylgismanna hans, fól þó ekki aðeins í sér sjálfstæðiskröfur heldur einnig ákall um siðbót. Viðurkennt var að sjálfstæð kirkja yrði að vera þess umkomin að að axla ábyrgð á eigin málum af festu. — Íslenska þjóðkirkjan verður að sýna og sanna að hún sé þess megnug um leið og hún öðlast aukið svigrúm.

Að mörgu leyti er þjóðkirkjan vel í stakk búin til að  axla aukna ábyrgð.  Ég sem þetta rita hef nú í á annan áratug haft tækifæri til að fylgjast með æðstu stjórn þjóðkirkjunnar, kirkjuþingi, að störfum sem fulltrúi Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ. Á þinginu á ég engra hagsmuna að gæta.  Ég er ekki kjörinn á þingið, er ekki starfsmaður þjóðkirkjunnar, er óháður embættismönnum hennar og stjórnendum, sem og stefnum og straumum innan hennar, ber enga ábyrgð, tek ekki þátt í ákvörðunum þingsins og hef ekki atkvæðisrétt. Á hinn bóginn má ég tala og freista þess að hafa áhrif! Ég tel því að ég hafi alveg sæmilega innsýn í valdakerfi kirkjunnar.

Í ljósi þeirrar reynslu er ég ekki í vafa um að þjóðkirkjan er vel í stakk búin til að axla aukna ábyrgð á eigin málum. Það er því full ástæða til að veita henni aukið sjálfstæði með einfaldari lagaumgjörð og minnkuðum ríkisafskiptum. Það er enda óumflýjanlegt ef auka á aðgreiningu ríkis og kirkju og þar með hugsanlega undirbúa aðskilnað þeirra í framtíðinni. Á hinn bóginn er ýmislegt sem má þróa áfram — siðbæta ef notað er kirkjulegra málsnið. Til dæmis þyrfti að fjölga þeim sem kjósa til kirkjuþings og breikka kjörmannahópinn, styrkja „leikmenn“ eða almenning í kirkjunni andspænis vígðum fulltrúum, þ.e. starfmönnum kirkjunnar, og tryggja að síðarnefndi hópurinn véli ekki í óeðlilegum mæli um eigin málefni. Þá þarf að þróa öflugt rekstrar- og mannauðsvið sem farið getur með fjármál kirkjunnar og kjarasamningsumboð hennar gagnvart starfsmönnum óháð yfirstjórn biskups sem ætti að einbeita sér að innri málefnum kirkjunnar. Allt eru þetta mál sem þegar hafa komið til umræðu á þinginu þótt þau hafi enn ekki verið til lykta leidd.

Óhætt er að fullyrða að íslenska þjóðkirkjan, þessi roskna peysufatakona, gengur nú í endurnýjung lífdaga stofnunarlega séð. Ef vel tekst til mun því breytingaskeiðið sem hún gengur nú í gegnum reynast tími endurnýjunar og vakningar. Verst væri ef hún bregst öfugt við og reynir að halda sér í gamla farinu þrátt fyrir breytt umhverfi. — Það verður spennandi að fylgjast með af hliðarlínunni.

 

 

 

 

 

 

 

.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Fyrir nokkru birti Fréttablaðið (28. nóvember 2020) niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar Maskínu og „lífsskoðunarfyrirtækisins“ Siðmenntar, eins og þar stendur, hvort sem Siðmenntarfólk þekkir sig nú í þeirri nafngift eða ekki. Vel geta þau samstök átt í sjálfsmyndarglímu ekki síður en þjóðkirkjan sem lengi hefur ekki vitað hvort hún eigi frekar að koma fram sem stofnun eða félag.

Samband að trosna

Líklega hittir blaðamaður naglann á höfuðið þegar hann kynnir niðurstöður könnunarinnar undir fyrirsögninni „Játum kristna trú þó minnihluti trúi“. Hugsanlega kann einhverjum að virðast það þversagnar- eða jafnvel hræsniskennt. Svo þarf þó alls ekki að vera. Hér er þvert á móti um trúarfélagsfræðilegt munstur að ræða sem lengi hefur verið talið lýsa vel a.m.k norrænum aðstæðum. Það má útskýra þannig að hinn dæmigerði — þó kannski dálítið íhaldssami eða gamaldags Norðurlandabúi — tilheyri sömu kirkjunni ævilangt burtséð frá því hvort hann/hún/hán sækir þá kirkju, samsamar sig henni og „trúir“ boðskap hennar eða ekki. Þetta er svo talið greina okkur hérna megin Atlantsála frá því sem gerist í BNA. Afstöðu hins dæmigerða Kana er lýst svo að „hann“ trúi án þess að tilheyra sömu kirkju frá vöggu til grafar. Þar færir fólk sig oftar en ekki á milli kirkjudeilda um leið og það flytur milli fylkja eða færist úr einum þjóðfélagshópi í annan en samsamar sig aftur á móti kirkju sinni — trúir eins og hún kennir — meðan sambandið á annað borð varir.

Túlkunin sem kemur fram í fyrirsögn Fréttablaðsins byggist á þeirri staðreynd að nú munu um 63% landsmanna tilheyra þjóðkirkjunni. Þar við bætast svo um 10% sem tilheyra öðrum skráðum, kristnum trúfélögum. Aftur á móti telja aðeins rúm 41% sig trúa og hefur hlutfallið lækkað um 5% á fimm árum. Rúm 30% falla því í hóp sem oft kynnir sig sem kristna eða lútherska guðleysingja. Þetta er fólk sem játar ekki persónulega trú en viðurkennir þó að það sé hluti af menningu og samfélagi sem mótað er af kristni og deili að vissu marki gildum og siðfræði  sem rekja megi til kristindóms. Svipuð afstaða kemur fram hjá fjölmörgum gyðingum og múslimum sem gengst við sögulegum og menningarlegum bakgrunni sínum án þess að iðka trúna. Þetta er heiðarleg, víðsýn og virðingarverð afstaða þótt þetta sama fólk geri ýmsa fyrirvara þegar um trúarlærdóma kristni, gyðingdóms eða íslam er að ræða.

Eykst trú með aldri?

Þegar hugað er að þeim sem telja sig trúuð — þar er vel að merkja ekki aðeins um lútherska eða kristna trú að ræða heldur trú af hvaða tagi sem er — kemur í ljós að lægst er hlutfallið í aldurshópnum 18–39 ára. „Trú eykst svo með aldrinum“ eins og segir í Fréttablaðinu. Þetta þýðir þó auðvitað ekki að fólk hneigist til trúar með hækkandi aldri, aukinni lífsreynslu eða stöðugt ágengara návígi við dauðann. Könnunin mælir aðeins ástandið eins og það er núna. Ummælin um vaxandi trú með aldri merkja því bara að einmitt núna er hlutfall þeirra sem trúa eitthvað hærra í aldurshópunum yfir fertugu. Þau sem láta sér annt um trú ættu aftur á móti að búa sig undir að í framtíðinni verði dvalarheimilin full af gömlum „trúleysingjum“ öfugt við það sem staðalmyndin segir til um. Þegar svo er komið hætta eldri kynslóðir jafnframt að miðla trúnni til hinna yngri. Þá verða trúfélög, trúarstofnanir eða „trúarfyrirtæki“ að taka við. Það er áskorun. Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem slíkar aðstæður koma upp. Í bændasamfélaginu sáu heimilin um trúaruppeldið, svo tók skólinn að nokkru leyti við. Nú er það hins vegar kirkjan sem verður að taka við boltanum í þeim mæli sem heimilin gefa henni umboð til. Það hefur henni alls ekki tekist. Með kirkju er hér vissulega ekki aðeins átt við þjóðkirkjuna heldur „trúarstofnunina“ eða „trúmálaiðnaðinn“ í heild svo notað sé veraldlegt orðalag.

Þessi nýja könnun eins og margar fyrri kannanir leiðir í ljós að samband þjóðar og þjóðkirkju hér á landi er að trosna. Ef til vill kemur það best í ljós í því að meira en 15% þeirra sem telja sig trúuð finnst þau eiga litla eða enga samleið með kirkjunni. Það er umhugsunarefni en skiljanlegt í samfélagi þar sem einstaklingshyggja er eins ríkjandi og hér á landi.

Á ríkið að styrkja „trúmálageirann“?

Í stjórnarskránni er kveðið á um að ríkið skuli styðja og vernda lúthersku kirkjuna að svo miklu leyti sem hún er kirkja þjóðarinnar. Það er hún svo sannarlega í sögulegum skilningi. Þá er hún það líka að verulegu leyti lýðfræðilega séð þar sem yfir 60% tilheyra henni þrátt fyrir allt. Næst í röðinni af trú- og lífsskoðunarfélögum kemur svo rómverska kirkjan með 4% landsmanna. Eins og fram er komið telur þó aðeins brot af þeim sem tilheyra þjóðkirkjunni sig eiga samleið með henni. Við þær aðstæður verður að hugsa margt upp á nýtt. Til dæmis virðast þau 29% svarenda í könnun Maskínu sem telja að stuðningur ríkisvaldsins við trú- og lífsskoðunarfélög eigi að vera hlutfallslega jafn hafa mikið til síns máls. Hér á landi hefur ríkt trúfrelsi frá 1874. Trúarlegt jafnræði er hér aftur á móti ekki til staðar. Í ljósi þeirrar þróunar sem uppi er og Maskínu-könnunin varpar ljósi á virðist tími til kominn að bæta úr því. Það verður best gert með því að veita öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum hlutdeild í þeim gæðum sem í þjóðkirkjuskipaninni felst líkt og þegar hefur verið gert með sóknargjöldin sem þau njóta öll í réttu hlutfalli við félagatölu.

Sterk rök mæla með að ríkið styrki trú- og lífsskoðunarfélög svo fremi sem jafnræðis sé gætt. Félög af þessu tagi eru mikilvægur hluti af þriðja geira samfélagsins og leggja þegar vel er að verki staðið mikið til velferðar fólks. Gera má ráð fyrir að fjölmörg úr röðum hinna lúthersku og/eða kristnu trúleysingja sem drepið var á viðurkenni að Hjálpræðisherinn, Samhjálp og Hjálparstarf kirkjunnar hafi lagt mikið af mörkum til að stuðla að bættri stöðu jaðarsettra hópa sem „Kerfið“ nær ekki nægilega vel að standa vörð um. Þetta er alveg óháð afstöðu fólks til trúarkenninga Hersins, Hvítasunnukirkjunnar eða þjóðkirkjunnar.

Bjarnargreiðar á 20. öld

Um þarsíðustu aldamót var þjóðkirkjan í rekstrarvanda. Afkoma hennar hvíldi að langmestu leyti á afrakstri af jarðeignum sem auðvitað var farsælt í landbúnaðarhagkerfi fyrri alda. Nú var þjóðin á hinn bóginn á hraðferð inn í nýtt efnahagsumhverfi þar sem jarðeignir voru ekki lengur arðbær höfuðstóll. Við þær aðstæður var gripið til stórrar lausnar sem gagnast skyldu þjóðkirkjunni en jafnframt stórum hluta þjóðarinnar. Ríkið tók yfir forræði kirkjujarðanna gegn því að ábyrgjast laun prestanna sem áður tóku þorra tekna sinna af búskap á jörðum kirkjunnar. Jafnframt átti að efla bændastéttina með því að losa hana úr viðjum leiguábúðar með einkavæðingu kirkjujarða. Í lok aldarinnar var endahnútur svo rekin á þessa aðgerð með því að ríkið tók yfir eignarrétt á jörðunum gegn sömu skuldbindingu og áður, þ.e. að reiða fram gagngjald sem standa skyldi undir launakostnaði kirkjunnar að langmestu leyti.

Á 9. áratug liðinnar aldar kom ríkið aftur til hjálpar fjársveltri kirkju. Sóknargjöld innheimtust orðið illa og nefskattur var tímaskekkja í samfélaginu. Aftur var gripið til stórrar lausnar. Sóknargjöldin voru afnumin og þjóðkirkjunni og síðar öllum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum veit hlutdeild í almenntum tekjuskatti þjóðarinnar.

Báðar þessar lausnir litu vel út af þjóðkirkjunnar hálfu þegar til þeirra var gripið. Þær leystu líka rekstrarvanda hennar til skamms tíma. Þegar lengra lét hafa ókostirnir komið í ljós. Þjóðkirkjan býr nú hvorki að eigin eignahöfuðstóli né tekjustofni. Þvert á móti er fjárhagur hennar fullkomlega samspyrtur ríkisfjármálum og hún því háð ríkinu hvað rekstur varðar. Þess vegna hafa stóru lausnirnar sem gripið var til á öldinni sem leið reynst bjarnargreiðar.

Valkosturinn við fyrrnefndar breytingar hefði verið að láta kirkjuna fara óvarða í gegnum holskeflu nútímavæðingarinnar sem gekk yfir íslenska þjóðfélagið á 20. öldinni. Þá hefði hún þurft að fóta sig í nýju hagkerfi á eigin vegum: selja kirkjujarðirnar og fjárfesta í rekstri á nýjum sviðum líkt og kirkjur víða um lönd þurftu að gera. Hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir þjóðkirkjuna og íslenskt atvinnu- og efnahagslíf, einkum landbúnaðinn, er auðvitað ómögulegt að segja. Það er líka torséð hvernig kirkjan hefði staðið að verki miðað við þá stofnunarlegu gerð sem hún hafði á fyrri hluta aldarinnar sem leið. Nú á dögum á hún mun auðveldar með að nútímavæðast þegar hún býr að eigin innviðum, kirkjuþingi og kirkjuráði, sem tekist gætu á við vanda af þessu tagi.

Kirkja á breytingaskeiði

Þessi misserin er þjóðkirkjan á miðju mikilvægu breytingaskeiði. Æðsta stjórn þjóðkirkjunnar, kirkjuþing, samþykkti nú í haust fyrir sitt leyti frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga sem dómsmálaráðherra leggur vonandi sem fyrst fyrir Alþingi. Frumvarpið einfaldar mjög lagaumgjörðina utan um þjóðkirkjuna, færir henni meira sjálfstæði og sjálfræði en leggur henni líka ríkari skyldur á herðar að axla ábyrgð á eigin málum. — Nú er henni sem sé réttur kaleikur sem var frá henni tekinn á öldinni sem leið.

Nýja lagaumgjörðin færir þjóðkirkjuna nær öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum í landinu og stuðlar þar með að auknu trúarlegu jafnræði. Það er því spor í rétta átt — ekki endilega út frá sjónarhóli þjóðkirkjunnar heldur með tilliti til nútímalegs trúmálaréttar. Það er því mikilvægt að Alþingi samþykki frumvarpið sem fyrst. Þar með verður vissulega ekki til frjáls kirkja eða fríkirkja hér á landi. Nýja frumvarpið felur sem sé ekki í sér aðskilnað ríkis og kirkju sem ýmsir telja tímabæran. Það er á hinn bóginn enn eitt skrefið í aðgreiningu þjóðkirkjunnar frá ríkisvaldinu sem staðið hefur yfir um þó nokkurt skeið og er mikilvægur þáttur í nútímavæðingu trúmálaréttarins.

Titringurinn í kirkjunni?

Þegar gamalgrónar forréttindastofnanir ganga í gegnum miklar breytingar gefur auga leið að þar gætir titrings og tortryggni. Ýmsum finnst hagsmunum sínum ógnað eða óttast óvissa framtíð í breyttu umhverfi. Þegar um kirkjuna er að ræða á enginn ríkari hagsmuna að gæta en prestastéttin. Enda brennur eldur breytinganna heitast á henni. Með fram komnu frumvarpi hætta prestar t.d. að vera opinberir starfsmenn og/eða embættismenn og verða þess í stað starfsmenn þjóðkirkjunnar. Á sama tíma er breyting af allt öðru tagi í gangi í kirkjunni. Hún felst í stækkun starfseininga og auknu samstarfi presta sem hingað til hafa að langmestu leyti verið einyrkjar hver á sínum stað. Þetta er gert til að þróa þjónustu kirkjunnar en jafnframt til að bæta starfsumhverfi presta en flestum líður betur í starfshópi en einum á báti þótt ekki sé það algilt.

Það er skiljanlegt að umskipti af þessu tagi valdi einhverjum óvissu og jafnvel öryggisleysi. Allt bendir þó til að meirihluti stéttarinnar sé reiðubúinn að takast á við breyttar aðstæður. Sumum prestum finnst sér samt ógnað eins og fram hefur komið einkum á síðum Morgunblaðsins. Það er ekki nema eðlilegt. Þó er vonandi að úrtöluraddir tefji ekki þróun þjóðkirkjunnar í átt til nýrra tíma.

Sjálfstæði og siðbót

Þær aðstæður sem hér hefur verið lýst eru langt í frá að vera fordæmalausar. Þvert á móti hefur sjálfstæðisbarátta kirkjunnar í raun staðið allt frá því á dögum Gregoríusar VII sem sat á páfastóli á ofanverðri 11. öld! Því má segja að furðu hægt hafi miðað a.m.k. þegar íslenska þjóðkirkjan á í hlut. Gregoríanisminn, kirkjupólitík Gregoríusar og fylgismanna hans, fól þó ekki aðeins í sér sjálfstæðiskröfur heldur einnig ákall um siðbót. Viðurkennt var að sjálfstæð kirkja yrði að vera þess umkomin að að axla ábyrgð á eigin málum af festu. — Íslenska þjóðkirkjan verður að sýna og sanna að hún sé þess megnug um leið og hún öðlast aukið svigrúm.

Að mörgu leyti er þjóðkirkjan vel í stakk búin til að  axla aukna ábyrgð.  Ég sem þetta rita hef nú í á annan áratug haft tækifæri til að fylgjast með æðstu stjórn þjóðkirkjunnar, kirkjuþingi, að störfum sem fulltrúi Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ. Á þinginu á ég engra hagsmuna að gæta.  Ég er ekki kjörinn á þingið, er ekki starfsmaður þjóðkirkjunnar, er óháður embættismönnum hennar og stjórnendum, sem og stefnum og straumum innan hennar, ber enga ábyrgð, tek ekki þátt í ákvörðunum þingsins og hef ekki atkvæðisrétt. Á hinn bóginn má ég tala og freista þess að hafa áhrif! Ég tel því að ég hafi alveg sæmilega innsýn í valdakerfi kirkjunnar.

Í ljósi þeirrar reynslu er ég ekki í vafa um að þjóðkirkjan er vel í stakk búin til að axla aukna ábyrgð á eigin málum. Það er því full ástæða til að veita henni aukið sjálfstæði með einfaldari lagaumgjörð og minnkuðum ríkisafskiptum. Það er enda óumflýjanlegt ef auka á aðgreiningu ríkis og kirkju og þar með hugsanlega undirbúa aðskilnað þeirra í framtíðinni. Á hinn bóginn er ýmislegt sem má þróa áfram — siðbæta ef notað er kirkjulegra málsnið. Til dæmis þyrfti að fjölga þeim sem kjósa til kirkjuþings og breikka kjörmannahópinn, styrkja „leikmenn“ eða almenning í kirkjunni andspænis vígðum fulltrúum, þ.e. starfmönnum kirkjunnar, og tryggja að síðarnefndi hópurinn véli ekki í óeðlilegum mæli um eigin málefni. Þá þarf að þróa öflugt rekstrar- og mannauðsvið sem farið getur með fjármál kirkjunnar og kjarasamningsumboð hennar gagnvart starfsmönnum óháð yfirstjórn biskups sem ætti að einbeita sér að innri málefnum kirkjunnar. Allt eru þetta mál sem þegar hafa komið til umræðu á þinginu þótt þau hafi enn ekki verið til lykta leidd.

Óhætt er að fullyrða að íslenska þjóðkirkjan, þessi roskna peysufatakona, gengur nú í endurnýjung lífdaga stofnunarlega séð. Ef vel tekst til mun því breytingaskeiðið sem hún gengur nú í gegnum reynast tími endurnýjunar og vakningar. Verst væri ef hún bregst öfugt við og reynir að halda sér í gamla farinu þrátt fyrir breytt umhverfi. — Það verður spennandi að fylgjast með af hliðarlínunni.

 

 

 

 

 

 

 

.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir