Æðruleysisbænin er þýdd úr ensku og heitir á frummálinu ,,The Serenity Prayer” og var líklega fyrst sett fram af ameríska guð- og siðfræðingnum Reinholt Niebuhr upp úr 1930. Telja má víst að sem siðfræðingur hafi Niebuhr þekkt til heimspekinga hinnar grísku gullaldar og siðfræðikenninga þeirra, ásamt stóísku heimspekinni. Einn höfuðkenningasmiður stóuspekinnar, sem blómstraði í Rómaveldi, var Epiktetos.
Í bók sinni Farsælt líf, réttlátt samfélag – kenningar í siðfræði (2008) lýsir Vilhjálmur Árnason prófessor í heimspeki kenningu hans svo:
,,Hann telur að lykilinn að listinni að lifa sé að kunna að greina á milli þess sem er undir okkur komið og hins sem ekki er á okkar valdi….Við þurfum öðru fremur að temja okkur æðruleysi og hugarró til þess að sætta okkur við það sem að höndum ber.“
Hér liggur augljóslega kjarninn að þeirri hugarró sem að Niebuhr biður um í æðruleysisbæninni. Ef betur er að gáð má sjá að Niebuhr sækir hin höfuðatriði æðruleysisbænarinnar, kjark og vit, beint í þær höfuðdygðir sem gríski heimspekingurinn Platon setti fram í bók sinni Ríkinu: Visku (vit), hugrekki (kjarkur) og hófstillingu (æðruleysi). Hófstilling vísar til æðruleysis því það byggir jú á því að hófstilla tilfinningaviðbrögð og halda ró sinni. Platon setti einnig fram fjórðu höfuðdygðina, réttlæti. Segja má að réttlæti vísi meira út á við til þess að sanngirni ríki í framkomu og samskiptum við aðra menn.
Kirkjan tók hinar fjórar klassísku höfuðdygðir grísku heimspekinganna upp á sína arma og bætti við: Kærleika, von og trú. Þannig voru hinar kristilegu höfuðdygðir orðnar sjö talsins. Kannski má rekja þessar þrjár kristnu dygðir til orða Páls postula er hann segir: ,,En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“
Jákvæð sálfæði
Um aldamótin 2000 kom fram ný stefna í sálfræði, svokölluð jákvæð sálfræði, sem leggur áherslu á að rannsaka hvað stuðlar að góðri líðan og andlegu heilbrigði. Bandaríski sálfræðingurinn Martin Seligman hefur verið nefndur faðir þessarar sálfræðistefnu. Ásamt samstarfsmönnum sínum leitaði hann til heimspekinga hinnar grísku gullaldar og í ýmis trúarrit.
Niðurstaðan varð sú að Seligman og félagar setja fram höfuðdygðir, sem eru í meginatriðum samhljóða höfuðdygðum kirkjunnar. Þeir fækka að vísu dygðunum í sex, með því að fella trú og von undir dygð sem þeir kalla ,,Spirituality and transendance”, sem kalla mætti andríki á íslensku. Þessar dygðir eru frekar óhlutbundnar (e. abstract), en undir þær eru síðan nákvæmlega skilgreindir samtals 24 styrkleikar. Þeir eru mælanlegir og getur fólk tekið styrkleikapróf til að sjá hvar það stendur og hvað sé viðeigandi fyrir hvern og einn að leggja áherslu á.
Tillaga að viðbót við bænina
Vinsældir og víðtæk notkun æðruleysisbænarinnar bera þess vitni að hún höfðar til fólks eins og hún er og stendur vel fyrir sínu. Þó má nefna að siðferðilega séð er ekki nóg að hafa kjark til athafna. Mikilvægt er einnig að gera það sem er gott og rétt. Til dæmis er varla dygðugt á nútíma mælikvarða að höggva höfuð af manni bara af því hann stendur svo vel við höggi, eins og lýst er í Fóstbræðrasögu. Nú á tímum búa menn yfir mun öflugri tækni en á tímum Íslendingasagnanna. Mikilvægara er því en nokkru sinni að huga vel að hvernig þessari tækni er beitt, bæði gagnvart mönnum og náttúru.
Mér finnst því freistandi að setja fram í lokin viðbót við æðruleysisbænina þannig að hún rúmi allar þær klassísku dygðir sem fjallað hefur verið um í þessum pistli. Guð er ávarpaður í upphafi bænarinnar, sem felur í sér trú. Það eitt að bænin sé borin fram felur einnig í sér von og andríki. Hinar klassísku dygðir, sanngirni (réttlæti) og kærleiki vísa til mikilvægis góðra samskipta við annað fólk. Sé þeim bætt við bænina gæti hún hljóðað svona:
Guð gefi mér æðruleysi
til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli,
með sanngirni og kærleika að leiðarljósi.
Ítarlegri umfjöllun um efni þessa pistils má finna í grein höfundar sem vistuð er á vefsíðu Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar á kirkjan.is.
Æðruleysisbænin er þýdd úr ensku og heitir á frummálinu ,,The Serenity Prayer” og var líklega fyrst sett fram af ameríska guð- og siðfræðingnum Reinholt Niebuhr upp úr 1930. Telja má víst að sem siðfræðingur hafi Niebuhr þekkt til heimspekinga hinnar grísku gullaldar og siðfræðikenninga þeirra, ásamt stóísku heimspekinni. Einn höfuðkenningasmiður stóuspekinnar, sem blómstraði í Rómaveldi, var Epiktetos.
Í bók sinni Farsælt líf, réttlátt samfélag – kenningar í siðfræði (2008) lýsir Vilhjálmur Árnason prófessor í heimspeki kenningu hans svo:
,,Hann telur að lykilinn að listinni að lifa sé að kunna að greina á milli þess sem er undir okkur komið og hins sem ekki er á okkar valdi….Við þurfum öðru fremur að temja okkur æðruleysi og hugarró til þess að sætta okkur við það sem að höndum ber.“
Hér liggur augljóslega kjarninn að þeirri hugarró sem að Niebuhr biður um í æðruleysisbæninni. Ef betur er að gáð má sjá að Niebuhr sækir hin höfuðatriði æðruleysisbænarinnar, kjark og vit, beint í þær höfuðdygðir sem gríski heimspekingurinn Platon setti fram í bók sinni Ríkinu: Visku (vit), hugrekki (kjarkur) og hófstillingu (æðruleysi). Hófstilling vísar til æðruleysis því það byggir jú á því að hófstilla tilfinningaviðbrögð og halda ró sinni. Platon setti einnig fram fjórðu höfuðdygðina, réttlæti. Segja má að réttlæti vísi meira út á við til þess að sanngirni ríki í framkomu og samskiptum við aðra menn.
Kirkjan tók hinar fjórar klassísku höfuðdygðir grísku heimspekinganna upp á sína arma og bætti við: Kærleika, von og trú. Þannig voru hinar kristilegu höfuðdygðir orðnar sjö talsins. Kannski má rekja þessar þrjár kristnu dygðir til orða Páls postula er hann segir: ,,En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“
Jákvæð sálfæði
Um aldamótin 2000 kom fram ný stefna í sálfræði, svokölluð jákvæð sálfræði, sem leggur áherslu á að rannsaka hvað stuðlar að góðri líðan og andlegu heilbrigði. Bandaríski sálfræðingurinn Martin Seligman hefur verið nefndur faðir þessarar sálfræðistefnu. Ásamt samstarfsmönnum sínum leitaði hann til heimspekinga hinnar grísku gullaldar og í ýmis trúarrit.
Niðurstaðan varð sú að Seligman og félagar setja fram höfuðdygðir, sem eru í meginatriðum samhljóða höfuðdygðum kirkjunnar. Þeir fækka að vísu dygðunum í sex, með því að fella trú og von undir dygð sem þeir kalla ,,Spirituality and transendance”, sem kalla mætti andríki á íslensku. Þessar dygðir eru frekar óhlutbundnar (e. abstract), en undir þær eru síðan nákvæmlega skilgreindir samtals 24 styrkleikar. Þeir eru mælanlegir og getur fólk tekið styrkleikapróf til að sjá hvar það stendur og hvað sé viðeigandi fyrir hvern og einn að leggja áherslu á.
Tillaga að viðbót við bænina
Vinsældir og víðtæk notkun æðruleysisbænarinnar bera þess vitni að hún höfðar til fólks eins og hún er og stendur vel fyrir sínu. Þó má nefna að siðferðilega séð er ekki nóg að hafa kjark til athafna. Mikilvægt er einnig að gera það sem er gott og rétt. Til dæmis er varla dygðugt á nútíma mælikvarða að höggva höfuð af manni bara af því hann stendur svo vel við höggi, eins og lýst er í Fóstbræðrasögu. Nú á tímum búa menn yfir mun öflugri tækni en á tímum Íslendingasagnanna. Mikilvægara er því en nokkru sinni að huga vel að hvernig þessari tækni er beitt, bæði gagnvart mönnum og náttúru.
Mér finnst því freistandi að setja fram í lokin viðbót við æðruleysisbænina þannig að hún rúmi allar þær klassísku dygðir sem fjallað hefur verið um í þessum pistli. Guð er ávarpaður í upphafi bænarinnar, sem felur í sér trú. Það eitt að bænin sé borin fram felur einnig í sér von og andríki. Hinar klassísku dygðir, sanngirni (réttlæti) og kærleiki vísa til mikilvægis góðra samskipta við annað fólk. Sé þeim bætt við bænina gæti hún hljóðað svona:
Guð gefi mér æðruleysi
til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli,
með sanngirni og kærleika að leiðarljósi.
Ítarlegri umfjöllun um efni þessa pistils má finna í grein höfundar sem vistuð er á vefsíðu Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar á kirkjan.is.