Fyrir nokkrum mánuðum rakst ég á fyrirsögn við frétt á vefmiðli um að nokkur hundruð manns hefðu sagt sig úr Þjóðkirkjunni frá áramótum. Mér þótti þetta undarlegt þar sem engar fréttir höfðu verið um að fjöldi væri að skrá sig úr kirkjunni, engin stór álita- eða deilumál sem kölluðu fram slík viðbrögð einmitt þessa mánuði. Ég skoðaði tilkynningu frá Þjóðskrá sem virtist liggja til grundvallar og sá að líklega var hér aðallega um að ræða andlát og skort á nýliðun. Hafði samband við blaðamanninn og bar það undir hann. Hann hafði dregið þá ályktun að fækkun væri sama og úrsagnir, sem ég skil vel í ljósi umræðu og fréttaflutnings almennt. Hann breytti fyrirsögninni.
En tölurnar tala sínu máli. Það sem af er 21. öld hefur fækkað í Þjóðkirkjunni og er fækkunin tíunduð í hvert sinn sem Hagstofan sendir út yfirlit yfir breytingar á trúfélagaskráningum. Töluleg fækkun er þó mun minni en hlutfallsfækkunin. Árið 2000 var hlutfall landsmanna í Þjóðkirkjunni á Íslandi 88,7% en í janúar 2023 var það 58,6%. Fækkunin hefur verið nokkuð regluleg alla öldina (tafla 2).
Í tengslum við umræðu um fækkun í Þjóðkirkjunni hefur athyglin iðulega beinst að fjöldaútskráningum úr kirkjunni vegna óánægju – yfirleitt sem mótmæli við einhverju sem kirkjuyfirvöld hafa gert eða eru talin hafa gert. Þær eru vissulega hluti af myndinni en hin stöðuga fækkun, bæði tölulega og hlutfallslega á sér fyrst og fremst aðrar skýringar. Til að skoða það er gott að aðskilja þessa tvo þætti – félagatal annars vegar og hlutfall þjóðar hins vegar.
Fækkar um þúsund á ári
Félagatal sýnir fjölda meðlima í kirkjunni. Félögum í kirkjunni hefur fækkað; frá 247.420 einstaklingum 1. janúar 2000 í 227.259 einstaklinga 1. janúar 2023. Þetta er fækkun um ca. 20 þúsund, tæplega 1.000 manns á ári. Fjöldaskráningar úr kirkjunni sem viðbrögð við atburðum skýra einhvern hluta þessara talna en segja alls ekki alla söguna. Af öðrum skýringum má t.d. nefna að félagasamtök höfðu um tíma verið virk meðal ungs fólks í framhaldsskólum að skrá sig úr kirkju á fyrsta áratug aldarinnar og árið 2016 auglýsti nýskráð félag Zuism að það myndi endurgreiða sóknargjöld til félagsmanna og fékk í kjölfarið fjölda skráninga – fór úr fjórum í 3.087 á einu ári. Í ljósi þess að Þjóðkirkjan var langstærsta trúfélagið má gera ráð fyrir að stór hluti þeirra sem skráðu sig í þetta nýja félag hafi komið úr þeim hópi. Þó að þar hafi nú fækkað (525 alls árið 2023) er ekki líklegt að félagarnir hafi skráð sig aftur í Þjóðkirkjuna. Gera má ráð fyrir í ljósi samsetningar félagatals að í þessum hópi hafi meirihluti verið ungt fólk.
Önnur trúar- og lífsskoðunarfélög hafa einnig vaxið hratt. Má þar nefna Ásatrúarfélagið en þar fjölgaði úr 2.148 árið 2013 í 5.770 árið 2023. Þá fékk lífsskoðunarfélagið Siðmennt skráningu árið 2013 og taldi 5.401 félaga árið 2023. Gera má ráð fyrir að einhver fjöldi í þessum félögum komi úr röðum Þjóðkirkjunnar. Fleiri trúfélög hafa vaxið mikið. Til dæmis hefur fjölgað um 11.000 manns í kaþólsku kirkjunni á þessum tíma en það er fyrst og fremst vegna innflytjenda sem eru kaþólskir og hefur því væntanlega minni áhrif á meðlimafjölda Þjóðkirkjunnar.
Ótilgreindi hópurinn
Mesta fjölgunin hefur þó orðið í tveimur skráningaflokkum: „Utan trúfélaga“ og „Önnur trúfélög og ótilgreint“. Utan trúfélaga þýðir að einstaklingur hefur valið að standa utan trúfélaga. Önnur trúfélög og óskilgreint er hins vegar sjálfkrafa skráning. Í þann hóp eru til dæmis erlendir ríkisborgarar settir við skráningu ef þeir tiltaka ekki trúfélag og helst sú skráning óbreytt þar til og ef þeir breyta skráningu sjálfir. Árið 2000 voru alls 5.996 manns í fyrri hópnum og 5.094 í þeim síðari. Árið 2023 voru 29.883 í þeim fyrri og 72.631 í þeim síðari. Þetta þýðir að í þessum flokkum eru samanlagt rúmlega 100.000 manns. (Tafla 1).
Árið 2013 voru gerðar breytingar á lögum um skráð trúfélög, meðal annars þess efnis að nýburar skyldu ekki lengur fylgja trúfélagi móður. Skráning í trúfélag eða lífsskoðunarfélag við fæðingu var því aðeins gerð sjálfkrafa ef báðir foreldrar tilheyrðu sama félagi, annars var barnið skráð sjálfkrafa í flokkinn „Önnur trúfélög og ótilgreint“ hjá Þjóðskrá[1]. Ef litið er á tölur í þeim hópi og sérstaklega yngri en átjan ára má sjá mikla aukningu þar sem hefst árið 2014. (Tafla 2).
Hér er um að ræða 244 prósent fjölgun í eldri hópnum en 371 prósent fjölgun í þeim yngri. Að sjálfsögðu er fjölgunin í yngri hópnum ekki eingöngu vegna nýbura sem ekki eru í Þjóðkirkjunni. Í þessum flokki eru líka börn innflytjenda. En aukningin sem hefst eftir að lögin voru sett 2013 er eigi að síður sterk vísbending um hve mörg börn eiga foreldra í sitt hvoru trúfélaginu. Það er að vissu leyti langtímaafleiðing annarra úrsagna og breyttra skráninga. Enn ein skýringin á fækkun í kirkjunni er því að nýburar eru í auknum mæli utan trúfélags við fæðingu á sama tíma og elsta kynslóðin er að kveðja en þar eru einstaklingar sem eru mun líklegri til að tilheyra Þjóðkirkjunni.
Breytt samsetning þjóðar
Tölulega fækkunin ein og sér skýrir ekki hlutfallshrapið. Þar er fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi veigamikill þáttur. Við upphaf árs 2009 voru erlendir ríkisborgarar rúmlega 7,6% þjóðarinnar en árið 2023 voru þeir 16,8%. Í þeim flokki er ekki fólk af erlendum uppruna sem fengið hefur íslenskt ríkisfang. Sjá má áhrif stríðsátaka erlendis og hælisleitanda á aukninguna og er nærtækast á benda á þúsundir Úkraínumanna sem hafa komið til landsins á síðustu tæpum tveimur árum. Frá 1. janúar 2021 til 1. janúar 2023 af er fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi 18000 manns. Á sama tíma fór hlutfallsleg stærð Þjóðkirkjunnar úr 62,3% í 58,6%. (Tafla 3).
Þegar litið er til framtíðar má gera ráð fyrir að þeim fjölgi áfram sem ekki tilheyra Þjóðkirkjunni. Bæði tölulega og rhlutfallslega. Það mun fjölga í hópi foreldra sem ekki eru í sama trúfélagi eða sem hvorugt tilheyra kirkjunni sem langtímaafleiðing af lagabreytingunni 2013, vegna annarra trúar og lífsskoðunarfélaga og fjölgun innflytjenda. Þetta eru snjóboltaáhrif sem eiga eftir að verða mikil áskorun fyrir kirkjuna. Og í umræðu og viðbrögðum er mikilvægt að átta sig á því að skýringin er fjölþætt og þar eru ýmsar breytur sem kirkjunnar fólk stýrir ekki eitt og sér.
En það er jafn mikilvægt að muna að sú þjónusta sem Þjóðkirkjan hefur veitt fólki innan hennar og utan, þar með talið flóttafólki sem hingað hefur komið á síðustu ár, er góð. Öfugt við það sem mörgum dettur fyrst í hug þá snýst þetta ekki um reiði eða hópúrsagnir þegar hin stöðuga fækkun í þjóðkirkjunni er athuguð. Er tölur um fækkun birtast í fjölmiðlum – og þær munu gera það á nokkurra mánaða fresti þegar Þjóðskrá sendir út tilkynningu – þá er mikilvægt að þekkja skýringarnar og láta tölurnar ekki draga úr kjarki til góðra verka.
(Tölulegar upplýsingar unnar úr talnaefni Hagstofu Íslands og tilkynningum frá Þjóðskrá)
Tilvísun:
[1] https://www.althingi.is/lagas/nuna/1999108.html (skoðað 4. okt 2023)
Fyrir nokkrum mánuðum rakst ég á fyrirsögn við frétt á vefmiðli um að nokkur hundruð manns hefðu sagt sig úr Þjóðkirkjunni frá áramótum. Mér þótti þetta undarlegt þar sem engar fréttir höfðu verið um að fjöldi væri að skrá sig úr kirkjunni, engin stór álita- eða deilumál sem kölluðu fram slík viðbrögð einmitt þessa mánuði. Ég skoðaði tilkynningu frá Þjóðskrá sem virtist liggja til grundvallar og sá að líklega var hér aðallega um að ræða andlát og skort á nýliðun. Hafði samband við blaðamanninn og bar það undir hann. Hann hafði dregið þá ályktun að fækkun væri sama og úrsagnir, sem ég skil vel í ljósi umræðu og fréttaflutnings almennt. Hann breytti fyrirsögninni.
En tölurnar tala sínu máli. Það sem af er 21. öld hefur fækkað í Þjóðkirkjunni og er fækkunin tíunduð í hvert sinn sem Hagstofan sendir út yfirlit yfir breytingar á trúfélagaskráningum. Töluleg fækkun er þó mun minni en hlutfallsfækkunin. Árið 2000 var hlutfall landsmanna í Þjóðkirkjunni á Íslandi 88,7% en í janúar 2023 var það 58,6%. Fækkunin hefur verið nokkuð regluleg alla öldina (tafla 2).
Í tengslum við umræðu um fækkun í Þjóðkirkjunni hefur athyglin iðulega beinst að fjöldaútskráningum úr kirkjunni vegna óánægju – yfirleitt sem mótmæli við einhverju sem kirkjuyfirvöld hafa gert eða eru talin hafa gert. Þær eru vissulega hluti af myndinni en hin stöðuga fækkun, bæði tölulega og hlutfallslega á sér fyrst og fremst aðrar skýringar. Til að skoða það er gott að aðskilja þessa tvo þætti – félagatal annars vegar og hlutfall þjóðar hins vegar.
Fækkar um þúsund á ári
Félagatal sýnir fjölda meðlima í kirkjunni. Félögum í kirkjunni hefur fækkað; frá 247.420 einstaklingum 1. janúar 2000 í 227.259 einstaklinga 1. janúar 2023. Þetta er fækkun um ca. 20 þúsund, tæplega 1.000 manns á ári. Fjöldaskráningar úr kirkjunni sem viðbrögð við atburðum skýra einhvern hluta þessara talna en segja alls ekki alla söguna. Af öðrum skýringum má t.d. nefna að félagasamtök höfðu um tíma verið virk meðal ungs fólks í framhaldsskólum að skrá sig úr kirkju á fyrsta áratug aldarinnar og árið 2016 auglýsti nýskráð félag Zuism að það myndi endurgreiða sóknargjöld til félagsmanna og fékk í kjölfarið fjölda skráninga – fór úr fjórum í 3.087 á einu ári. Í ljósi þess að Þjóðkirkjan var langstærsta trúfélagið má gera ráð fyrir að stór hluti þeirra sem skráðu sig í þetta nýja félag hafi komið úr þeim hópi. Þó að þar hafi nú fækkað (525 alls árið 2023) er ekki líklegt að félagarnir hafi skráð sig aftur í Þjóðkirkjuna. Gera má ráð fyrir í ljósi samsetningar félagatals að í þessum hópi hafi meirihluti verið ungt fólk.
Önnur trúar- og lífsskoðunarfélög hafa einnig vaxið hratt. Má þar nefna Ásatrúarfélagið en þar fjölgaði úr 2.148 árið 2013 í 5.770 árið 2023. Þá fékk lífsskoðunarfélagið Siðmennt skráningu árið 2013 og taldi 5.401 félaga árið 2023. Gera má ráð fyrir að einhver fjöldi í þessum félögum komi úr röðum Þjóðkirkjunnar. Fleiri trúfélög hafa vaxið mikið. Til dæmis hefur fjölgað um 11.000 manns í kaþólsku kirkjunni á þessum tíma en það er fyrst og fremst vegna innflytjenda sem eru kaþólskir og hefur því væntanlega minni áhrif á meðlimafjölda Þjóðkirkjunnar.
Ótilgreindi hópurinn
Mesta fjölgunin hefur þó orðið í tveimur skráningaflokkum: „Utan trúfélaga“ og „Önnur trúfélög og ótilgreint“. Utan trúfélaga þýðir að einstaklingur hefur valið að standa utan trúfélaga. Önnur trúfélög og óskilgreint er hins vegar sjálfkrafa skráning. Í þann hóp eru til dæmis erlendir ríkisborgarar settir við skráningu ef þeir tiltaka ekki trúfélag og helst sú skráning óbreytt þar til og ef þeir breyta skráningu sjálfir. Árið 2000 voru alls 5.996 manns í fyrri hópnum og 5.094 í þeim síðari. Árið 2023 voru 29.883 í þeim fyrri og 72.631 í þeim síðari. Þetta þýðir að í þessum flokkum eru samanlagt rúmlega 100.000 manns. (Tafla 1).
Árið 2013 voru gerðar breytingar á lögum um skráð trúfélög, meðal annars þess efnis að nýburar skyldu ekki lengur fylgja trúfélagi móður. Skráning í trúfélag eða lífsskoðunarfélag við fæðingu var því aðeins gerð sjálfkrafa ef báðir foreldrar tilheyrðu sama félagi, annars var barnið skráð sjálfkrafa í flokkinn „Önnur trúfélög og ótilgreint“ hjá Þjóðskrá[1]. Ef litið er á tölur í þeim hópi og sérstaklega yngri en átjan ára má sjá mikla aukningu þar sem hefst árið 2014. (Tafla 2).
Hér er um að ræða 244 prósent fjölgun í eldri hópnum en 371 prósent fjölgun í þeim yngri. Að sjálfsögðu er fjölgunin í yngri hópnum ekki eingöngu vegna nýbura sem ekki eru í Þjóðkirkjunni. Í þessum flokki eru líka börn innflytjenda. En aukningin sem hefst eftir að lögin voru sett 2013 er eigi að síður sterk vísbending um hve mörg börn eiga foreldra í sitt hvoru trúfélaginu. Það er að vissu leyti langtímaafleiðing annarra úrsagna og breyttra skráninga. Enn ein skýringin á fækkun í kirkjunni er því að nýburar eru í auknum mæli utan trúfélags við fæðingu á sama tíma og elsta kynslóðin er að kveðja en þar eru einstaklingar sem eru mun líklegri til að tilheyra Þjóðkirkjunni.
Breytt samsetning þjóðar
Tölulega fækkunin ein og sér skýrir ekki hlutfallshrapið. Þar er fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi veigamikill þáttur. Við upphaf árs 2009 voru erlendir ríkisborgarar rúmlega 7,6% þjóðarinnar en árið 2023 voru þeir 16,8%. Í þeim flokki er ekki fólk af erlendum uppruna sem fengið hefur íslenskt ríkisfang. Sjá má áhrif stríðsátaka erlendis og hælisleitanda á aukninguna og er nærtækast á benda á þúsundir Úkraínumanna sem hafa komið til landsins á síðustu tæpum tveimur árum. Frá 1. janúar 2021 til 1. janúar 2023 af er fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi 18000 manns. Á sama tíma fór hlutfallsleg stærð Þjóðkirkjunnar úr 62,3% í 58,6%. (Tafla 3).
Þegar litið er til framtíðar má gera ráð fyrir að þeim fjölgi áfram sem ekki tilheyra Þjóðkirkjunni. Bæði tölulega og rhlutfallslega. Það mun fjölga í hópi foreldra sem ekki eru í sama trúfélagi eða sem hvorugt tilheyra kirkjunni sem langtímaafleiðing af lagabreytingunni 2013, vegna annarra trúar og lífsskoðunarfélaga og fjölgun innflytjenda. Þetta eru snjóboltaáhrif sem eiga eftir að verða mikil áskorun fyrir kirkjuna. Og í umræðu og viðbrögðum er mikilvægt að átta sig á því að skýringin er fjölþætt og þar eru ýmsar breytur sem kirkjunnar fólk stýrir ekki eitt og sér.
En það er jafn mikilvægt að muna að sú þjónusta sem Þjóðkirkjan hefur veitt fólki innan hennar og utan, þar með talið flóttafólki sem hingað hefur komið á síðustu ár, er góð. Öfugt við það sem mörgum dettur fyrst í hug þá snýst þetta ekki um reiði eða hópúrsagnir þegar hin stöðuga fækkun í þjóðkirkjunni er athuguð. Er tölur um fækkun birtast í fjölmiðlum – og þær munu gera það á nokkurra mánaða fresti þegar Þjóðskrá sendir út tilkynningu – þá er mikilvægt að þekkja skýringarnar og láta tölurnar ekki draga úr kjarki til góðra verka.
(Tölulegar upplýsingar unnar úr talnaefni Hagstofu Íslands og tilkynningum frá Þjóðskrá)
Tilvísun:
[1] https://www.althingi.is/lagas/nuna/1999108.html (skoðað 4. okt 2023)