Dr. Hjalti Hugason (f. 1952), prófessor emeritus, set við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og ræðir málefni líðandi stundar með áhrifaríkum og umhugsunarverðum hætti – mynd: Kirkjublaðið.is

Á fjórða sunnudegi eftir þrenningarhátíð sótti ég messu í dómkirkjunni í Ósló. Hún er ekkert yfirþyrmandi guðshús, jafnast alls ekki á við höfuðkirkju Noregs í Þrándheimi og kæmist líklega fyrir inni í Uppsala-dómkirkju, a.m.k. hvað varðar hæð og lengd. Hún er þó ekkert til að blygðast sín fyrir, öll forgyllt að innan í barokkstíl.

Kirkjan var ekki þéttsetin en kirkjusókn þó ekki til skammar miðað við árstíma og veður. Öll framkvæmd messunnar var tilkomumikil samkvæmt skotheldri dómkirkjulitúrgíu með öllu sem þar heyrir til. Ég þekki ekki helgihald á landsvísu í Noregi en samkvæmt því sem fyrir augu bar í þessari messu virðist danska kirkjan nú ein halda í  hálf-reformerta messusiði sem áður einkenndu vest-skandinavísku kirkjurnar í Danmörku, Noregi og hér á landi.

Presturinn í stólinn sté…

Ég var við fulla meðvitund og fylgdist með af áhuga fram undir predikun. Þegar presturinn var stiginn í stólinn kom á daginn að hljóðvist var svo afleit að fólk með bærilegar forsendur til að skilja norsku datt fljótt út — enda tók nú annarri sögu að vinda fram í kirkjunni.

Við vorum þrjú saman og vildum sitja miðskips líkt og við værum hluti safnaðarins en ekki aðvífandi ferðamenn. Á ákjósanlegum bekk sat aðeins tvennt, sitt á hvorum endanum og hvorugt af forn-norrænum uppruna. Ungur maður, næstum bara drengur, sat við ganginn og hleypti okkur inn fyrir í bekkinn. Þegar sú síðasta í hópnum settist fannst honum þó að sér þrengt að því er virtist og flutti sig yfir á gagnstæðan bekk sem einnig var fáskipaður. Ég skildi þetta svo að hann hefði viljað halda plássi fyrir einhverja sem hann ætti von á og varð miður mín. — Enn einu sinni höfðum við hvíta fólkið sýnt yfirgang og það í kirkju! Taugarnar róuðust þó þegar enginn bættist við. Vatt síðan fram predikuninni.

Þegar nokkuð var um liðið sá ég vini okkar aftur bregða fyrir. Nú flutti hann sig fram á fremsta bekk okkar megin í kirkjunni og lagðist þar fyrir. Látbragð hans bar þess öll merki að hann vildi helst vera ósýnilegur og ekki heyrðist neitt til hans hvorki meðan hann flutti sig til né þar sem hann lá. Öllu átti því að vera óhætt. Ekki leið þó á löngu þar til kirkjuvörður gekk fram og leit eftir piltinum á fremsta bekknum. Ekki hafði hún nein afskipti af honum en stóð líkt og í varðstöðu í hliðarskipi.

Innan tíðar birtust svo þrír lögregluþjónar í kirkjunni. Ekki fór mikið fyrir „innrásinni“ en viðurvist þeirra í messunni var óneitanlega mikið stílbrot og (raf?-) byssur þeirra virtust óhemju stórar og áberandi þarna í guðsþjónusturýminu. Karlinn í hópnum sem vel að merkja hafði tekið ofan höfuðfatið settist hjá piltinum og þeim fór eitthvað á milli. Ekkert heyrðist þó til þeirra og allt var með friði og spekt. Fljótt líkt og missti þó önnur konan, hugsanlega flokksstjórinn, þolinmæðina og tók af skarið. Var drengurinn svo leiddur út um hliðardyr.

Allan tímann hélt presturinn áfram tölu sinni líkt og ekkert væri um að vera og voru það ugglaust faglegustu viðbrögðin eins og á stóð. Sjálfur hafði ég beitt svipaðri aðferð í kennslu þegar snarpur jarðskjálftakippur reið yfir. The show must go on. Eftir á varð sú hugsun samt áleitin hvort þetta lýsti e.t.v. stöðu predikunarinnar í samtímanum: hún væri lesin upp af blaðinu óháð stað og stund og hverju svo sem tautaði og raulaði umhverfis.

Eftirleikur?

Þegar ég gekk út veitti ég athygli konu aftarlega í kirkjunni. Hún virtist af líkum uppruna og pilturinn sem vísað var frá guðsþjónustunni, nokkuð eldri og betur búin. Hún hafði látið fallast á kné á gólfið milli bekkjanna, teygði hendur til himins og grét hátt og beisklega. Var hún tengd drengnum? Grét hún örlög hans eða var eitthvað annað sem olli henni harmi eða örvæntingu?

Hvað hafði gerst?

Atvikið minnti mig mjög á annan atburð í kirkju sem ég hafði verið viðstaddur fyrir mörgum árum. Þá var mið nótt, engin guðsþjónusta í gangi, enginn söfnuður til staðar og við sem vorum í kirkjunni vissulega nærri því að standa í aðgerðum sem kenndar eru við borgaralega óhlýðni. Því varð spurningin um hvað væri eiginlega um að vera ágeng.

Aðeins þrennt kom til greina fannst mér: Drengurinn gat verið þekktur af vandræðum og leikurinn gerður til að forðast ónæði sem búast mátti við af honum. Þetta virtist útilokað. Vegna ferðamanna var aðgangsstýring stíf og því hefði mátt beina drengnum frá væri hann þekktur. Þá gat verið að um eftirlýstan stórglæpamann væri að ræða. Það þótti mér líka útilokað m.t.t. útlits og burða þess sem í hlut átti. — Hefði sú samt verið raunin var þá ekki óhætt að gefa manninum tóm meðan á messunni stæði? Hátterni hans var ekki ofbeldisfullt — öðru nær. Stendur þá að mínu viti aðeins einn möguleiki eftir: að drengurinn hafi verið hælisleitandi sem vísa átti úr landi. Ef sú var raunin var beinlínis um óguðlegt athæfi að ræða svona í miðri messu.

Skýringa leitað

Morguninn eftir setti ég mig í samband við starfsmenn kirkjunnar og bað um örstutta skýringu á hvers vegna lögregla hefði verið kvödd til. Ég fékk sjálfvirkt svar um hæl þar sem bent var á að sumarfrí stæðu yfir og því mætti vænta dráttar á svari. Því nær samtímis kom þó embættislegt svar í öllum meginatriðum í anda þess sem ég hafði gert ráð fyrir. Þar sem fyrirspurnin var sniðgengin skaut ég föstu skoti og kvaðst vona að atvikið tengdist ekki flóttamannapólitík. Svarið varð snubbótt: „Absolutt ikke!“

Menningarárekstur

Hvað sem raunverulega átti sér stað er ekki mögulegt að horfa fram hjá því að til menningarárekstrar kom þarna í kirkjunni. Annars vegar var skrautið, skrúðinn, ritúalið, há-klassa og há-klassísk tónlist, prúðbúinn  söfnuður. Hins vegar var drengurinn, dökkur, líklega af indverskum eða pakistönskum uppruna, grannur, í svörtum íþróttabuxum með hvítum röndum og hettupeysu — kannski ekki veisluklæddur en hreinn og snyrtilegur, hljóður en ekki kyrr, kannski flóttalegur.

Menningaráreksturinn tók einnig á sig aðra mynd. Við sérhvern kirkjuþröskuld liggja mæri milli tveggja heima: fyrir utan ræður hið veraldlega þjóðfélag og lögmálið en fyrir innan hið andlega eða trúarlega samfélag og fagnaðarerindið. Að hefðbundnum skilningi nær vald ríkisins að þröskuldinum. Fyrir innan hann tekur ábyrgð kirkjunnar við. Ríkinu ber að framfylgja réttlætinu. Kirkjunni ber að stuðla að fyrirgefningu, sáttum og friði. Af þeim sökum er hin forna hugmynd um kirkjugrið óhemjumikilvæg einnig nú á dögum. Þeim var og er vissulega ekki ætlað að skjóta neinum undan réttvísinni heldur að skapa ráðrúm og tækifæri til umþóttunar og sátta.

Þegar starfsmenn í dómkirkjunni kölluðu lögregluna til afsöluðu þeir sér ábyrgð sinni til valdstjórnarinnar. Enn er spurningin opin hvers vegna þeir ákváðu að gera það. Vonandi var ástæðan fullnægjandi og réttlætanleg. Þó má spyrja hvort kirkjan sé orðin svo veraldleg að kirkjuverðir bregðist við líkt og dyraverðir á óbreyttri krá ef svo ber undir.

Efri-millistéttarkirkjur

Í mínum huga afhjúpar menningaráreksturinn í dómkirkjunni vanda stóru, norrænu efri-millistéttakirknanna í hnotskurn. Í ljósi árekstrarins er ástæða til að spyrja: hvers konar fyrirbæri eru þær, vilja þær vera og síðast en ekki síst ættu þær að vera? Vilja þær una sér glaðar í skjóli ríkisvaldsins og framfylgja hefðum sínum í friði og ró eða leitast við að ná út fyrir þá stéttarmúra sem nú marka alla starfsemi þeirra meira eða minna?

Í leit að svari hvarflaði hugurinn frá Noregi og hingað heim. Mátti finna eitthvert dæmi um sjálfsmyndarpælingu í þjóðkirkjunni okkar? Þá minnist ég umræðu á kirkjuþingi fyrir nokkrum árum þegar húsnæðisvandi Biskupsstofu var á dagskrá. Góð og gegn kirkjuþingskona bar þá í tal að kirkjan yrði endilega að koma sér fyrir niður í miðbæ í nágrenni við ráðuneytin og hæstarétt. Hefði verið brugðið á það ráð hefði fengist skýrt svar við spurningunum hér framar. Svo fór þó ekki sem betur fer. Og þó!

Nýlega frétti ég að þjóðkirkjan hefði tekið á leigu einhvers konar móttöku- eða veislusal niður við Alþingis-torfuna til að bregðast við sölu biskupsgarðsins við Bergstaðastræti. — Hvaða sjálfsmynd býr það að baki? Allt bendir til að efri-millistéttarkirkjan muni áfram lifa góðu lífi hér á klakanum enn um hríð.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Hjalti Hugason (f. 1952), prófessor emeritus, set við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og ræðir málefni líðandi stundar með áhrifaríkum og umhugsunarverðum hætti – mynd: Kirkjublaðið.is

Á fjórða sunnudegi eftir þrenningarhátíð sótti ég messu í dómkirkjunni í Ósló. Hún er ekkert yfirþyrmandi guðshús, jafnast alls ekki á við höfuðkirkju Noregs í Þrándheimi og kæmist líklega fyrir inni í Uppsala-dómkirkju, a.m.k. hvað varðar hæð og lengd. Hún er þó ekkert til að blygðast sín fyrir, öll forgyllt að innan í barokkstíl.

Kirkjan var ekki þéttsetin en kirkjusókn þó ekki til skammar miðað við árstíma og veður. Öll framkvæmd messunnar var tilkomumikil samkvæmt skotheldri dómkirkjulitúrgíu með öllu sem þar heyrir til. Ég þekki ekki helgihald á landsvísu í Noregi en samkvæmt því sem fyrir augu bar í þessari messu virðist danska kirkjan nú ein halda í  hálf-reformerta messusiði sem áður einkenndu vest-skandinavísku kirkjurnar í Danmörku, Noregi og hér á landi.

Presturinn í stólinn sté…

Ég var við fulla meðvitund og fylgdist með af áhuga fram undir predikun. Þegar presturinn var stiginn í stólinn kom á daginn að hljóðvist var svo afleit að fólk með bærilegar forsendur til að skilja norsku datt fljótt út — enda tók nú annarri sögu að vinda fram í kirkjunni.

Við vorum þrjú saman og vildum sitja miðskips líkt og við værum hluti safnaðarins en ekki aðvífandi ferðamenn. Á ákjósanlegum bekk sat aðeins tvennt, sitt á hvorum endanum og hvorugt af forn-norrænum uppruna. Ungur maður, næstum bara drengur, sat við ganginn og hleypti okkur inn fyrir í bekkinn. Þegar sú síðasta í hópnum settist fannst honum þó að sér þrengt að því er virtist og flutti sig yfir á gagnstæðan bekk sem einnig var fáskipaður. Ég skildi þetta svo að hann hefði viljað halda plássi fyrir einhverja sem hann ætti von á og varð miður mín. — Enn einu sinni höfðum við hvíta fólkið sýnt yfirgang og það í kirkju! Taugarnar róuðust þó þegar enginn bættist við. Vatt síðan fram predikuninni.

Þegar nokkuð var um liðið sá ég vini okkar aftur bregða fyrir. Nú flutti hann sig fram á fremsta bekk okkar megin í kirkjunni og lagðist þar fyrir. Látbragð hans bar þess öll merki að hann vildi helst vera ósýnilegur og ekki heyrðist neitt til hans hvorki meðan hann flutti sig til né þar sem hann lá. Öllu átti því að vera óhætt. Ekki leið þó á löngu þar til kirkjuvörður gekk fram og leit eftir piltinum á fremsta bekknum. Ekki hafði hún nein afskipti af honum en stóð líkt og í varðstöðu í hliðarskipi.

Innan tíðar birtust svo þrír lögregluþjónar í kirkjunni. Ekki fór mikið fyrir „innrásinni“ en viðurvist þeirra í messunni var óneitanlega mikið stílbrot og (raf?-) byssur þeirra virtust óhemju stórar og áberandi þarna í guðsþjónusturýminu. Karlinn í hópnum sem vel að merkja hafði tekið ofan höfuðfatið settist hjá piltinum og þeim fór eitthvað á milli. Ekkert heyrðist þó til þeirra og allt var með friði og spekt. Fljótt líkt og missti þó önnur konan, hugsanlega flokksstjórinn, þolinmæðina og tók af skarið. Var drengurinn svo leiddur út um hliðardyr.

Allan tímann hélt presturinn áfram tölu sinni líkt og ekkert væri um að vera og voru það ugglaust faglegustu viðbrögðin eins og á stóð. Sjálfur hafði ég beitt svipaðri aðferð í kennslu þegar snarpur jarðskjálftakippur reið yfir. The show must go on. Eftir á varð sú hugsun samt áleitin hvort þetta lýsti e.t.v. stöðu predikunarinnar í samtímanum: hún væri lesin upp af blaðinu óháð stað og stund og hverju svo sem tautaði og raulaði umhverfis.

Eftirleikur?

Þegar ég gekk út veitti ég athygli konu aftarlega í kirkjunni. Hún virtist af líkum uppruna og pilturinn sem vísað var frá guðsþjónustunni, nokkuð eldri og betur búin. Hún hafði látið fallast á kné á gólfið milli bekkjanna, teygði hendur til himins og grét hátt og beisklega. Var hún tengd drengnum? Grét hún örlög hans eða var eitthvað annað sem olli henni harmi eða örvæntingu?

Hvað hafði gerst?

Atvikið minnti mig mjög á annan atburð í kirkju sem ég hafði verið viðstaddur fyrir mörgum árum. Þá var mið nótt, engin guðsþjónusta í gangi, enginn söfnuður til staðar og við sem vorum í kirkjunni vissulega nærri því að standa í aðgerðum sem kenndar eru við borgaralega óhlýðni. Því varð spurningin um hvað væri eiginlega um að vera ágeng.

Aðeins þrennt kom til greina fannst mér: Drengurinn gat verið þekktur af vandræðum og leikurinn gerður til að forðast ónæði sem búast mátti við af honum. Þetta virtist útilokað. Vegna ferðamanna var aðgangsstýring stíf og því hefði mátt beina drengnum frá væri hann þekktur. Þá gat verið að um eftirlýstan stórglæpamann væri að ræða. Það þótti mér líka útilokað m.t.t. útlits og burða þess sem í hlut átti. — Hefði sú samt verið raunin var þá ekki óhætt að gefa manninum tóm meðan á messunni stæði? Hátterni hans var ekki ofbeldisfullt — öðru nær. Stendur þá að mínu viti aðeins einn möguleiki eftir: að drengurinn hafi verið hælisleitandi sem vísa átti úr landi. Ef sú var raunin var beinlínis um óguðlegt athæfi að ræða svona í miðri messu.

Skýringa leitað

Morguninn eftir setti ég mig í samband við starfsmenn kirkjunnar og bað um örstutta skýringu á hvers vegna lögregla hefði verið kvödd til. Ég fékk sjálfvirkt svar um hæl þar sem bent var á að sumarfrí stæðu yfir og því mætti vænta dráttar á svari. Því nær samtímis kom þó embættislegt svar í öllum meginatriðum í anda þess sem ég hafði gert ráð fyrir. Þar sem fyrirspurnin var sniðgengin skaut ég föstu skoti og kvaðst vona að atvikið tengdist ekki flóttamannapólitík. Svarið varð snubbótt: „Absolutt ikke!“

Menningarárekstur

Hvað sem raunverulega átti sér stað er ekki mögulegt að horfa fram hjá því að til menningarárekstrar kom þarna í kirkjunni. Annars vegar var skrautið, skrúðinn, ritúalið, há-klassa og há-klassísk tónlist, prúðbúinn  söfnuður. Hins vegar var drengurinn, dökkur, líklega af indverskum eða pakistönskum uppruna, grannur, í svörtum íþróttabuxum með hvítum röndum og hettupeysu — kannski ekki veisluklæddur en hreinn og snyrtilegur, hljóður en ekki kyrr, kannski flóttalegur.

Menningaráreksturinn tók einnig á sig aðra mynd. Við sérhvern kirkjuþröskuld liggja mæri milli tveggja heima: fyrir utan ræður hið veraldlega þjóðfélag og lögmálið en fyrir innan hið andlega eða trúarlega samfélag og fagnaðarerindið. Að hefðbundnum skilningi nær vald ríkisins að þröskuldinum. Fyrir innan hann tekur ábyrgð kirkjunnar við. Ríkinu ber að framfylgja réttlætinu. Kirkjunni ber að stuðla að fyrirgefningu, sáttum og friði. Af þeim sökum er hin forna hugmynd um kirkjugrið óhemjumikilvæg einnig nú á dögum. Þeim var og er vissulega ekki ætlað að skjóta neinum undan réttvísinni heldur að skapa ráðrúm og tækifæri til umþóttunar og sátta.

Þegar starfsmenn í dómkirkjunni kölluðu lögregluna til afsöluðu þeir sér ábyrgð sinni til valdstjórnarinnar. Enn er spurningin opin hvers vegna þeir ákváðu að gera það. Vonandi var ástæðan fullnægjandi og réttlætanleg. Þó má spyrja hvort kirkjan sé orðin svo veraldleg að kirkjuverðir bregðist við líkt og dyraverðir á óbreyttri krá ef svo ber undir.

Efri-millistéttarkirkjur

Í mínum huga afhjúpar menningaráreksturinn í dómkirkjunni vanda stóru, norrænu efri-millistéttakirknanna í hnotskurn. Í ljósi árekstrarins er ástæða til að spyrja: hvers konar fyrirbæri eru þær, vilja þær vera og síðast en ekki síst ættu þær að vera? Vilja þær una sér glaðar í skjóli ríkisvaldsins og framfylgja hefðum sínum í friði og ró eða leitast við að ná út fyrir þá stéttarmúra sem nú marka alla starfsemi þeirra meira eða minna?

Í leit að svari hvarflaði hugurinn frá Noregi og hingað heim. Mátti finna eitthvert dæmi um sjálfsmyndarpælingu í þjóðkirkjunni okkar? Þá minnist ég umræðu á kirkjuþingi fyrir nokkrum árum þegar húsnæðisvandi Biskupsstofu var á dagskrá. Góð og gegn kirkjuþingskona bar þá í tal að kirkjan yrði endilega að koma sér fyrir niður í miðbæ í nágrenni við ráðuneytin og hæstarétt. Hefði verið brugðið á það ráð hefði fengist skýrt svar við spurningunum hér framar. Svo fór þó ekki sem betur fer. Og þó!

Nýlega frétti ég að þjóðkirkjan hefði tekið á leigu einhvers konar móttöku- eða veislusal niður við Alþingis-torfuna til að bregðast við sölu biskupsgarðsins við Bergstaðastræti. — Hvaða sjálfsmynd býr það að baki? Allt bendir til að efri-millistéttarkirkjan muni áfram lifa góðu lífi hér á klakanum enn um hríð.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir