Við Gestagluggann sest

Pétur Björgvin Þorsteinsson framkvæmdastjóri verkefnis sem nefnist Von fyrir Austur-Evrópu  (þ. Hoffnung für Osteuropa). Verkefnið er samstarf evangelísku kirkjunnar og díakoníunnar í Württemberg, Þýskalandi. Pétur tók við starfinu fyrir fimm árum en verkefnið er 30 ára gamalt. Því er ætlað að styðja við díakoníu og hjálparstarf í fyrrverandi austantjaldslöndum. 

Pétur Björgvin er djákni og með M.A. gráðu í Evrópufræðum. Hann fæddist á Dalvík og ólst upp í Þorpinu á Akureyri. Frá því að hann lauk námi í trúaruppeldisfræðum frá Karlshöhe, Ludwigsburg, þar sem hann vígðist til djákna 1997, hefur hann starfað til skiptis í Þýskalandi og á Íslandi. Þetta er fjórða greinin sem birtist í Gestaglugganum eftir hann. Mynd: Manfred Neumann.

Tveimur mánuðum eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst var ég staddur í rúmensku borginni Iași við landamærin að Moldavíu. Daglega lagði fjöldi flóttafólks frá Úkraínu leið sína yfir þessi landamæri í leit að hæli í löndum Evrópusambandsins.

Það sem vakti athygli mína þegar ég kom þangað var að aðeins ein félagasamtök voru með þjónustu fyrir flóttafólkið. Samtök sem bera nafnið AIDRom[1]. Þetta þótti mér sérstakt, þar sem að ég hafði komið að mörgum landamærastöðvum á þessum fyrstu mánuðum stríðsins í öðrum löndum. Alls staðar höfðu verið heilu tjaldbúðirnar þar sem fjöldi hjálparsamtaka var reiðubúinn að taka á móti flóttafólkinu, gefa því mat, fatnað og aðstoða það á ferð sinni burt frá sprengjuregninu. Við fyrstu sýn virtist sem ekki væri einu sinni boðið upp á samlokur. Þá vakti undrun mína að ég sá ekki neitt fólk.

Elena Timofticuc, framkvæmdastýra AIDRom ræðir við starfsmenn og sjálfboðaliða AIDRom sem voru á vakt þennan dag við landamærin. Mynd Pétur Björgvin Þorsteinsson

Ég var á ferð með Elenu Timofticiuc sem þá var framkvæmdastýra AIDRom og spurði hana út í þetta. Útskýring hennar þótti mér mjög áhugaverð. Stuðningur við starf AIDRom frá Þýskalandi hafði gert þeim mögulegt að opna starfsstöð með sérhæfingu í stuðningi við flóttafólk og aðra sem þurftu á aðstoð að halda í borginni þegar árið 2013. Þegar Rússland réðst inn í Úkraínu 2022 hringdi borgarstjórinn í Iași í AIDRom. Án allra málalenginga tjáði hann AIDRom að þau væru einu samtökin sem væru skráð sem hjálparsamtök fyrir flóttafólk í borginni og að borgarráðið vildi bara hafa skráð samtök í þessari þjónustu. Því hefði hvorki hann sem borgarstjóri né AIDRom neitt annað val heldur en að AIDRom setti strax í stað upp þjónustu við landamærin. Og þetta átti ekki eftir að breytast. Nú skildi ég hvers vegna það voru bara ein samtök á staðnum.

En hvernig farið þið að því að anna þessari þjónustu og hvar er maturinn og annað sem fólk þarf á að halda? Og hvar er fólkið? Spurði ég, enn frekar hissa á þessari ráðstöfun og horfði á fjóra karlmenn sem voru á vakt þennan daginn við færanlega starfstöð AIDRom. Þegar Elena hafði útskýrt þetta allt fyrir mér varð ég gapandi af undrun.

90% flóttafólksins sem kemur yfir þessi landamæri kemur gangandi. En þessi landamæri eru ekki opin fyrir gangandi fólk. Það vandamál leysti innanríkisráðuneyti Rúmeníu á þann hátt að sett var upp strætóþjónusta fyrir fólk sem mætti á landamærastöðina í Moldavíu. Þegar 50 manns voru sest í strætóinn (eða þau fyrstu búin að bíða mjög lengi) ók strætóinn 15 mínútna leið yfir einskismannslandið og hleypti þeim út fyrir framan landamærastöð Rúmeníu, útvörð Evrópusambandsins. Og þá tók fólkið að týnast að hjálparstöð AIDRom. Áður en bílstjórinn lagði af stað hafði hann hringt í AIDRom og gefið til kynna með hversu marga einstaklinga hann kæmi. AIDRom aftur á móti hringdi þá strax í eitt af klaustrunum í nágrenninu og það stóðst yfirleitt á endum að þegar fyrsta flóttafólkið mætti til AIDRom var hópur af nunnum eða munkum mættur með heitan mat og margt annað hjálplegt fyrir flóttafólkið. Alls eru fimm klaustur rétttrúnaðarkirkjunnar í nágrenninu og skiptust þau á að sinna þessari þjónustu.

Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér á tvíþjóða ráðstefnu í evangelísku Akademíunni í Sibiu í Rúmeníu í október síðastliðnum. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Von Hilfstransporten zu sozialer Innovation“. Markmið ráðstefnunnar var að rýna í þá þróun sem orðið hefur í hjálparstarfi og uppbyggingu félagsþjónustu í Rúmeníu á síðustu þrjátíu árum. Yfirskrift ráðstefnunnar var ætlað að sýna þessa þróun í hnotskurn. Fyrir þrjátíu árum snerist stuðningur Vesturlanda við Rúmeníu fyrst og fremst um neyðarhjálp, því þorri íbúa átti gersamlega hvorki í sig né á. En í dag hefur orðið mikil breyting þar á og er gaman að sjá það félagslega frumkvöðlastarf sem þar á sér stað í dag. Enn er þó nokkuð í land með að stjórnvöld og íbúar nái tökum á öllum áskorunum sem blasa við þjóðfélaginu þar í dag.

Þátttakendurnir á ráðstefnunni hlýða áhugasamir á erindi dr. Rudolf Gräf. Mynd: Sandor Patachi

Eins og hverri ráðstefnu sæmir var þekktur fræðimaður fenginn til að halda upphafserindi. Að loknu fróðlegu erindi sagnfræðiprófessorsins Dr. Rudolf Gräf sköpuðust lifandi umræður sem áttu eftir að teygja anga sína inn í næstu kaffi- og matartíma, enda þátttakendur málglaðir og áhugasamir um að skiptast á skoðunum, hvort heldur þeir væru búsettir í Rúmeníu eða Þýskalandi. Eitthvað þótti þó einum þátttakenda frá Rúmeníu við í hópnum frá Þýskalandi þykjast vera orðin full af visku eftir að hafa hlýtt á þetta erindi dr. Gräf því að hún benti okkur á mjög opinskáan hátt á að það væri stór munur á því að vera utanaðkomandi eða tilheyra þeim sem hefðu fæðst fyrir byltinguna í landinu og alla tíð búið þar. Ekki væri allt sem sýndist. Þessu játaði ég og sagði frá því hversu fullur af efasemdum ég hafði verið þegar ég stóð á landamærunum vorið 2022. Margir í hópnum gátu sagt svipaðar sögur: Þótt við sækjum sama landið heim mörg ár í röð, lærum við alltaf eitthvað nýtt í hvert skipti.

Í samtalinu urðum við þó sammála um að til dæmis lestur góðra bóka eða áhorf á vandaða heimildaþætti gæti aukið gagnkvæman skilning okkar. Þegar hér var komið við sögu vildi einn félagi minn frá Rúmeníu vita hvenær ég hefði fyrst lesið um þá staðreynd að kirkjur í Rúmeníu væru með eigið hjálparstarf. Nú kom sér vel að sr. Bernharður Guðmundsson hafði gefið mér bók stuttu fyrir síðustu aldamót sem hefur fylgt mér síðan. Hann lét þau orð fylgja að það væri gott fyrir mig að eiga þessa bók til að flétta upp í.

Bókin sem minnst er á í greininni

Bókin heitir The Face of Pain and Hope og kom hún út hjá Alkirkjuráði árið 1995. Bókin á rætur sínar að rekja til fundar sem fór fram í Bratislava í október 1994. Þar komu saman 90 einstaklingar frá 26 löndum með það að markmiði að fjalla um kærleiksþjónustuna í Evrópu. Meðal þeirra var höfundur bókarinnar, Bretinn Robin Gurney en hann stjórnaði frá 1990 til 2002 upplýsingasviði Kirknasambands Evrópu. Fjölbreytnin og atorkan á bak við díakoníuna í hinum ýmsu löndum heillaði hann. Eftir að hafa tekið viðtöl við tæpa tvo tugi þátttakenda var hann kominn með nægt efni í bókina. Þar fjallar hann um hvernig kirkjur í fjórtán löndum Evrópu sýna fólki í erfiðum aðstæðum samstöðu.

Einn kaflinn í bókinni fjallar um Rúmeníu. Þar er meðal annars minnt á, að það var einmitt handtaka mótmælendatrúarprestsins László Tókes sem ýtti endanlega mótmælum gegn harðstjórn Ceaușescu-hjónanna úr vör í desember 1989 en nokkuð hafði verið um óeirðir frá því í nóvember það ár. Þessi mótmæli áttu eftir að leiða til endiloka einræðis hjónanna, en áratugum saman höfðu öll mótmæli yfirleitt náð litlum árangri og einræðisstjórnin alla jafna komið því svo fyrir að forsvarsfólk mótmælanna fengi pláss á stofnunum fyrir fólk sem ætti við geðvandamál að stríða eða væri látið hverfa.

László Tókes þessi tók við prestsembætti hjá ungversku minnihlutakirkjunni í þriðju stærstu borg Rúmeníu, Timișoara 1986. Fljótlega hóf hann að gagnrýna einræðisstjórnina í prédikunum sínum sem leiddi til þess að fólk úr öðrum kirkjudeildum fór að sækja helgistundir hans. Áætlað er að þegar komið var fram á árið 1989, hafi að jafnaði 600 manns hlýtt á hverja predikun. Vegna þrýstings frá einræðisstjórninni hafði biskup kirkjunnar reynt að færa sr. Tókes til í embætti en safnaðarstjórnin mótmælti því. Í lok ágúst sama ár tilkynnti biskupinn sr. Tókes að hann væri ekki lengur prestur í kirkjunni. Stuðningurinn við mótmælendatrúarprestinn var mikill og hann hélt ótrauður áfram. Þetta haust áttu óeirðirnar eftir að breiðast út um alla Rúmeníu. Þeim lauk 25. desember 1989 með aftöku Nicolae og Elenu Ceaușescu.

Efnahag Rúmeníu hrakaði stöðugt frá því að Nicolae Ceaușescu tók við embætti árið 1965, þó að útlitið hafi verið bjart í upphafi og nýi einræðisherrann notið þó nokkurra vinsælda. Árið 1989 var svo komið að ungbarnadauði var sá hæsti í Evrópu (2,69%, meðaltal í Evrópu 0,98%), aðstæður á heimilum fyrir munaðarlaus og fötluð börn líktust dýrahaldi og hitaveituvatn var skammtað svo að aðeins var hægt að hita íbúðir upp í 12°. Til eru heimildir um að þegar árið 1981 hafi heilu héruðin verið án brauðs, í öðrum héruðum hvorki til egg né mjólk. Yfirleitt var erfitt að verða sér úti um matarolíu, smjör, hrísgrjón eða kartöflur, kjöt sást mjög sjaldan í verslunum. Ceaușescu og hans fólk hélt því fram að þetta væri græðgi fólks að kenna. Ef hver og einn nærði sig í takt við aldur og hlutverk í samfélaginu væri til nóg handa öllum. Hér tók hann undir í kór einræðisherra um allan heim fyrr og nú sem vilja ekki sjá neyð fólksins.

Verkefnin voru því ærin og samfélagið í Rúmeníu þeim ekki vaxið í byrjun. En sem betur fer tókst með samtakamætti að færa margt í betri farveg og þar áttu kirkjurnar hver fyrir sig sem og AIDRom stóran þátt í þeirri uppbyggingu. Þótt margt hafi breyst til batnaðar eru verkefnin ærin og fjöldi fólks er þakklátt fyrir starf AIDRom enn í dag.

Tilvísun

[1] Árið 1990 höfðu Alkirkjuráð (w. World Council of Churches) og Kirknasamband Evrópu (e. Conference of European Churches) frumkvæði að stofnun Hjálparstarfs kirkna í Rúmeníu, AIDRom. Aðild að þessum samtökum eiga Rétttrúnaðarkirkjan í Rúmeníu sem og lútherskar og aðrar mótmælendatrúarkirkjur hinna ýmsu minnihlutahópa í Rúmeníu. Í dag veitir AIDRom mannúðaraðstoð í Rúmeníu og er aðili að Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Við Gestagluggann sest

Pétur Björgvin Þorsteinsson framkvæmdastjóri verkefnis sem nefnist Von fyrir Austur-Evrópu  (þ. Hoffnung für Osteuropa). Verkefnið er samstarf evangelísku kirkjunnar og díakoníunnar í Württemberg, Þýskalandi. Pétur tók við starfinu fyrir fimm árum en verkefnið er 30 ára gamalt. Því er ætlað að styðja við díakoníu og hjálparstarf í fyrrverandi austantjaldslöndum. 

Pétur Björgvin er djákni og með M.A. gráðu í Evrópufræðum. Hann fæddist á Dalvík og ólst upp í Þorpinu á Akureyri. Frá því að hann lauk námi í trúaruppeldisfræðum frá Karlshöhe, Ludwigsburg, þar sem hann vígðist til djákna 1997, hefur hann starfað til skiptis í Þýskalandi og á Íslandi. Þetta er fjórða greinin sem birtist í Gestaglugganum eftir hann. Mynd: Manfred Neumann.

Tveimur mánuðum eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst var ég staddur í rúmensku borginni Iași við landamærin að Moldavíu. Daglega lagði fjöldi flóttafólks frá Úkraínu leið sína yfir þessi landamæri í leit að hæli í löndum Evrópusambandsins.

Það sem vakti athygli mína þegar ég kom þangað var að aðeins ein félagasamtök voru með þjónustu fyrir flóttafólkið. Samtök sem bera nafnið AIDRom[1]. Þetta þótti mér sérstakt, þar sem að ég hafði komið að mörgum landamærastöðvum á þessum fyrstu mánuðum stríðsins í öðrum löndum. Alls staðar höfðu verið heilu tjaldbúðirnar þar sem fjöldi hjálparsamtaka var reiðubúinn að taka á móti flóttafólkinu, gefa því mat, fatnað og aðstoða það á ferð sinni burt frá sprengjuregninu. Við fyrstu sýn virtist sem ekki væri einu sinni boðið upp á samlokur. Þá vakti undrun mína að ég sá ekki neitt fólk.

Elena Timofticuc, framkvæmdastýra AIDRom ræðir við starfsmenn og sjálfboðaliða AIDRom sem voru á vakt þennan dag við landamærin. Mynd Pétur Björgvin Þorsteinsson

Ég var á ferð með Elenu Timofticiuc sem þá var framkvæmdastýra AIDRom og spurði hana út í þetta. Útskýring hennar þótti mér mjög áhugaverð. Stuðningur við starf AIDRom frá Þýskalandi hafði gert þeim mögulegt að opna starfsstöð með sérhæfingu í stuðningi við flóttafólk og aðra sem þurftu á aðstoð að halda í borginni þegar árið 2013. Þegar Rússland réðst inn í Úkraínu 2022 hringdi borgarstjórinn í Iași í AIDRom. Án allra málalenginga tjáði hann AIDRom að þau væru einu samtökin sem væru skráð sem hjálparsamtök fyrir flóttafólk í borginni og að borgarráðið vildi bara hafa skráð samtök í þessari þjónustu. Því hefði hvorki hann sem borgarstjóri né AIDRom neitt annað val heldur en að AIDRom setti strax í stað upp þjónustu við landamærin. Og þetta átti ekki eftir að breytast. Nú skildi ég hvers vegna það voru bara ein samtök á staðnum.

En hvernig farið þið að því að anna þessari þjónustu og hvar er maturinn og annað sem fólk þarf á að halda? Og hvar er fólkið? Spurði ég, enn frekar hissa á þessari ráðstöfun og horfði á fjóra karlmenn sem voru á vakt þennan daginn við færanlega starfstöð AIDRom. Þegar Elena hafði útskýrt þetta allt fyrir mér varð ég gapandi af undrun.

90% flóttafólksins sem kemur yfir þessi landamæri kemur gangandi. En þessi landamæri eru ekki opin fyrir gangandi fólk. Það vandamál leysti innanríkisráðuneyti Rúmeníu á þann hátt að sett var upp strætóþjónusta fyrir fólk sem mætti á landamærastöðina í Moldavíu. Þegar 50 manns voru sest í strætóinn (eða þau fyrstu búin að bíða mjög lengi) ók strætóinn 15 mínútna leið yfir einskismannslandið og hleypti þeim út fyrir framan landamærastöð Rúmeníu, útvörð Evrópusambandsins. Og þá tók fólkið að týnast að hjálparstöð AIDRom. Áður en bílstjórinn lagði af stað hafði hann hringt í AIDRom og gefið til kynna með hversu marga einstaklinga hann kæmi. AIDRom aftur á móti hringdi þá strax í eitt af klaustrunum í nágrenninu og það stóðst yfirleitt á endum að þegar fyrsta flóttafólkið mætti til AIDRom var hópur af nunnum eða munkum mættur með heitan mat og margt annað hjálplegt fyrir flóttafólkið. Alls eru fimm klaustur rétttrúnaðarkirkjunnar í nágrenninu og skiptust þau á að sinna þessari þjónustu.

Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér á tvíþjóða ráðstefnu í evangelísku Akademíunni í Sibiu í Rúmeníu í október síðastliðnum. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Von Hilfstransporten zu sozialer Innovation“. Markmið ráðstefnunnar var að rýna í þá þróun sem orðið hefur í hjálparstarfi og uppbyggingu félagsþjónustu í Rúmeníu á síðustu þrjátíu árum. Yfirskrift ráðstefnunnar var ætlað að sýna þessa þróun í hnotskurn. Fyrir þrjátíu árum snerist stuðningur Vesturlanda við Rúmeníu fyrst og fremst um neyðarhjálp, því þorri íbúa átti gersamlega hvorki í sig né á. En í dag hefur orðið mikil breyting þar á og er gaman að sjá það félagslega frumkvöðlastarf sem þar á sér stað í dag. Enn er þó nokkuð í land með að stjórnvöld og íbúar nái tökum á öllum áskorunum sem blasa við þjóðfélaginu þar í dag.

Þátttakendurnir á ráðstefnunni hlýða áhugasamir á erindi dr. Rudolf Gräf. Mynd: Sandor Patachi

Eins og hverri ráðstefnu sæmir var þekktur fræðimaður fenginn til að halda upphafserindi. Að loknu fróðlegu erindi sagnfræðiprófessorsins Dr. Rudolf Gräf sköpuðust lifandi umræður sem áttu eftir að teygja anga sína inn í næstu kaffi- og matartíma, enda þátttakendur málglaðir og áhugasamir um að skiptast á skoðunum, hvort heldur þeir væru búsettir í Rúmeníu eða Þýskalandi. Eitthvað þótti þó einum þátttakenda frá Rúmeníu við í hópnum frá Þýskalandi þykjast vera orðin full af visku eftir að hafa hlýtt á þetta erindi dr. Gräf því að hún benti okkur á mjög opinskáan hátt á að það væri stór munur á því að vera utanaðkomandi eða tilheyra þeim sem hefðu fæðst fyrir byltinguna í landinu og alla tíð búið þar. Ekki væri allt sem sýndist. Þessu játaði ég og sagði frá því hversu fullur af efasemdum ég hafði verið þegar ég stóð á landamærunum vorið 2022. Margir í hópnum gátu sagt svipaðar sögur: Þótt við sækjum sama landið heim mörg ár í röð, lærum við alltaf eitthvað nýtt í hvert skipti.

Í samtalinu urðum við þó sammála um að til dæmis lestur góðra bóka eða áhorf á vandaða heimildaþætti gæti aukið gagnkvæman skilning okkar. Þegar hér var komið við sögu vildi einn félagi minn frá Rúmeníu vita hvenær ég hefði fyrst lesið um þá staðreynd að kirkjur í Rúmeníu væru með eigið hjálparstarf. Nú kom sér vel að sr. Bernharður Guðmundsson hafði gefið mér bók stuttu fyrir síðustu aldamót sem hefur fylgt mér síðan. Hann lét þau orð fylgja að það væri gott fyrir mig að eiga þessa bók til að flétta upp í.

Bókin sem minnst er á í greininni

Bókin heitir The Face of Pain and Hope og kom hún út hjá Alkirkjuráði árið 1995. Bókin á rætur sínar að rekja til fundar sem fór fram í Bratislava í október 1994. Þar komu saman 90 einstaklingar frá 26 löndum með það að markmiði að fjalla um kærleiksþjónustuna í Evrópu. Meðal þeirra var höfundur bókarinnar, Bretinn Robin Gurney en hann stjórnaði frá 1990 til 2002 upplýsingasviði Kirknasambands Evrópu. Fjölbreytnin og atorkan á bak við díakoníuna í hinum ýmsu löndum heillaði hann. Eftir að hafa tekið viðtöl við tæpa tvo tugi þátttakenda var hann kominn með nægt efni í bókina. Þar fjallar hann um hvernig kirkjur í fjórtán löndum Evrópu sýna fólki í erfiðum aðstæðum samstöðu.

Einn kaflinn í bókinni fjallar um Rúmeníu. Þar er meðal annars minnt á, að það var einmitt handtaka mótmælendatrúarprestsins László Tókes sem ýtti endanlega mótmælum gegn harðstjórn Ceaușescu-hjónanna úr vör í desember 1989 en nokkuð hafði verið um óeirðir frá því í nóvember það ár. Þessi mótmæli áttu eftir að leiða til endiloka einræðis hjónanna, en áratugum saman höfðu öll mótmæli yfirleitt náð litlum árangri og einræðisstjórnin alla jafna komið því svo fyrir að forsvarsfólk mótmælanna fengi pláss á stofnunum fyrir fólk sem ætti við geðvandamál að stríða eða væri látið hverfa.

László Tókes þessi tók við prestsembætti hjá ungversku minnihlutakirkjunni í þriðju stærstu borg Rúmeníu, Timișoara 1986. Fljótlega hóf hann að gagnrýna einræðisstjórnina í prédikunum sínum sem leiddi til þess að fólk úr öðrum kirkjudeildum fór að sækja helgistundir hans. Áætlað er að þegar komið var fram á árið 1989, hafi að jafnaði 600 manns hlýtt á hverja predikun. Vegna þrýstings frá einræðisstjórninni hafði biskup kirkjunnar reynt að færa sr. Tókes til í embætti en safnaðarstjórnin mótmælti því. Í lok ágúst sama ár tilkynnti biskupinn sr. Tókes að hann væri ekki lengur prestur í kirkjunni. Stuðningurinn við mótmælendatrúarprestinn var mikill og hann hélt ótrauður áfram. Þetta haust áttu óeirðirnar eftir að breiðast út um alla Rúmeníu. Þeim lauk 25. desember 1989 með aftöku Nicolae og Elenu Ceaușescu.

Efnahag Rúmeníu hrakaði stöðugt frá því að Nicolae Ceaușescu tók við embætti árið 1965, þó að útlitið hafi verið bjart í upphafi og nýi einræðisherrann notið þó nokkurra vinsælda. Árið 1989 var svo komið að ungbarnadauði var sá hæsti í Evrópu (2,69%, meðaltal í Evrópu 0,98%), aðstæður á heimilum fyrir munaðarlaus og fötluð börn líktust dýrahaldi og hitaveituvatn var skammtað svo að aðeins var hægt að hita íbúðir upp í 12°. Til eru heimildir um að þegar árið 1981 hafi heilu héruðin verið án brauðs, í öðrum héruðum hvorki til egg né mjólk. Yfirleitt var erfitt að verða sér úti um matarolíu, smjör, hrísgrjón eða kartöflur, kjöt sást mjög sjaldan í verslunum. Ceaușescu og hans fólk hélt því fram að þetta væri græðgi fólks að kenna. Ef hver og einn nærði sig í takt við aldur og hlutverk í samfélaginu væri til nóg handa öllum. Hér tók hann undir í kór einræðisherra um allan heim fyrr og nú sem vilja ekki sjá neyð fólksins.

Verkefnin voru því ærin og samfélagið í Rúmeníu þeim ekki vaxið í byrjun. En sem betur fer tókst með samtakamætti að færa margt í betri farveg og þar áttu kirkjurnar hver fyrir sig sem og AIDRom stóran þátt í þeirri uppbyggingu. Þótt margt hafi breyst til batnaðar eru verkefnin ærin og fjöldi fólks er þakklátt fyrir starf AIDRom enn í dag.

Tilvísun

[1] Árið 1990 höfðu Alkirkjuráð (w. World Council of Churches) og Kirknasamband Evrópu (e. Conference of European Churches) frumkvæði að stofnun Hjálparstarfs kirkna í Rúmeníu, AIDRom. Aðild að þessum samtökum eiga Rétttrúnaðarkirkjan í Rúmeníu sem og lútherskar og aðrar mótmælendatrúarkirkjur hinna ýmsu minnihlutahópa í Rúmeníu. Í dag veitir AIDRom mannúðaraðstoð í Rúmeníu og er aðili að Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir