Jólahugvekja á aðventukvöldi í Brautarholtssókn 10. desember

Þegar ég fór að velta fyrir mér um hvað ég ætti að ræða í jólahugvekju, vöknuðu ýmsar spurningar.

  • Hvað þarf að koma fram í slíkri hugvekju?
  • Má ræða um hræðilegt stríð í Landinu helga?
  • Er ein af tilvitnunum biblíunnar „Augu fyrir auga og tanngarður fyrir tönn”?
  • Fer nokkuð á milli mála, að maðurinn er grimmasta spendýr jarðarinnar?
  • Er kristilegur kærleikur á undanhaldi og vélrænir bardagar tölvuleikjanna fyrirmyndin, þar sem hinir stráfelldu rísa upp alheilir í næsta borði, eins og ekkert hafi í skorist?
  • Verða haldin jól í Betlehem, Jerúsalem eða Nasaret?
  • Hvað verða margir heimilislausir og undir fátæktarmörkum í okkar friðsama landi um jólin?
  • Hversu margir þurfa að leita skjóls vegna heimilisofbeldis?
  • Hverjir fá svo besta matinn og flottustu pakkana?

Eigum við að ræða þetta nánar, eða er kannski rétt að hverfa 50 – 60 ár aftur í tímann, þegar ég var barn og unglingur í Hafnarfirði?

Á þeim árum var allt mun einfaldara í sniðum. Til dæmis var ekkert sjónvarp, ein útvarpsrás og ekki búið að finna upp tölvur, farsíma, geisladiska, vídeó og ótal margt annað, sem þykir sjálfsagt í dag. Símar voru ekki á öllum heimilum og í mesta lagi einn bíll á heimili. Það var því ekki um það að ræða, að  verið væri að skutla krökkum eitt eða annað. Þau urðu að koma sér sjálf á milli staða, ýmist fótgangandi, eða á hjóli.

Ég hef verið um 10 ára gamall, þegar Kanasjónvarpið kom, en það var sjónvarpsstöð bandaríska hersins í herstöðinni á Miðnesheiði. Þetta þóttu okkur krökkunum undur og stórmerki og vorum svo heppin, að ein gömul kona í hverfinu eignaðist sjónvarp. Allur krakkaskarinn í nágrenninu bankaði svo upp á hjá henni á kvöldin, til að fá að horfa á teiknimyndir, gamanmyndir og kúrekamyndir. Sú gamla sendi mig svo með strætó til Reykjavíkur á laugardagsmorgnum, til að kaupa Sjónvarpsdagskrána, sem var bara seld í Heimilistækjum í Hafnarstræti. Þessi leiðangur tók mig tvo og hálfan tíma. Fyrst þurfti að ganga í korter að stoppistöð í miðbæ Hafnarfjarðar, síðan að ferðast í hálftíma á malarvegum til Reykjavíkur, þar sem endastöðin var í Lækjargötu, og hlaupa svo í búðina og aftur til baka á hálftíma, til þess að ná næsta strætisvagni, ferðast með honum í hálftíma og ganga svo í korter til að skila af sér Sjónvarpsdagskránni til Eyju gömlu.

Svipað ferðalag þurfti ég svo að fara í, þegar amma sendi mig eftir dönsku blöðunum, Hjemmet og Familie journal, í bókaverslunina Eymundsson í Austurstræti einu sinni í mánuði.

Nammidagar voru ekki til og við fengum sárasjaldan sælgæti. Það voru þá kannski 3-4 karamellur, einn brjóstsykur, eða ein ræma af suðusúkkulaði.

En hvernig voru jólin á þessum árum? Foreldrar mínir byggðu sér 3ja hæða hús skömmu eftir að ég fæddist. Á efstu hæð bjó Lára móðuramma mín, ásamt mér og á miðhæðinni voru pabbi og mamma með tvær yngri systur. Seinna bættust svo tvær systur við. Fyrir jólin var allt snurfusað hátt og lágt og ekkert jólaskraut fór upp fyrr en á Þorláksmessu. Mamma saumaði kjóla á systurnar og jakkaföt á mig, sem voru í stíl við jakkafötin, sem pabbi átti. Í hádeginu á Þorláksmessu var soðin skata og um kvöldið var soðið hangikjöt, sem var haft kalt í matinn á jóladag. Reyndar fengum við mamma og amma okkur alltaf heitt hangikjöt á Þorláksmessukvöld, en pabbi og systurnar vildu bara borða það kalt. Mamma bjó til ís, en þar sem við höfðum ekki enn eignast ísskáp, var fljótandi ísinn settur í kökuform og því komið fyrir inni í snjóskafli úti á lóð og hann frystur þannig. Fyrstu árin, sem ég man eftir, voru alltaf beinlausir fuglar í matinn á aðfangadag og seinna meir rjúpur. Beinlausir fuglar voru búnir til úr nautakjöti, sem var rúllað utan um beikon og rúllan svo bundin saman með sláturgarni. Að morgni aðfangadags var ég svo sendur gangandi til kaupmannsins í Matarbúðinni við Lækinn í Hafnarfirði, til að sækja matinn.

Það var sest að borðum kl. 6 á aðfangadag og hlustað á aftansönginn í útvarpinu á meðan við borðuðum. Kl. 7 þurfti pabbi að skreppa frá og það brást ekki, að stuttu seinna birtist jólasveinninn með pakkana. Jólagjafirnar voru helst einhverjar nauðsynjar, eins og sokkar, nærföt, buxur, skyrtur og peysur og hugsanlega bók, spil eða púsluspil, lítill bíll handa mér og dúkkur handa systrunum. Íburður var enginn og allir ánægðir með sínar gjafir. Kvöldið leið svo í rólegheitum, þar sem litla fjölskyldan naut samvista hvert við annað, amma, mamma og pabbi glugguðu í bækur og við systkinin lékum okkur með okkar gjafir.

Á jóladag fórum við svo öll í heimsókn til Rósu, systur ömmu og áttum skemmtilegan dag með fjölskyldunni hennar. Var þá alltaf boðið upp á heitt súkkulaði, smákökur og tertur og við hlustuðum saman á barnatímann í útvarpinu og gengum í kringum jólatréð, sem var sett út á mitt stofugólf. Um kvöldið var svo haldið heim, þar sem hangikjötið beið okkar.

Það er margt breytt frá þessum tíma og ekki allt til bóta. Flestir þurfa að vera með nýjasta farsímann og fartölvuna, ganga í merkjavöru, borða skyndibita í hverri viku, eiga nýjasta rafbílinn og fara til útlanda nokkrum sinnum á ári. Þá er nauðsynlegt að fylgjast grannt með á öllum samfélagsmiðlum, til að vera maður með mönnum. Samverustundir fjölskyldunnar verða því gjarna þannig, að þó að allir séu í sama herberginu, er hver í sínum síma, tölvu, eða að horfa á sjónvarpið.

Væri það ekki besta jólagjöfin, að leggja öll snjalltækin til hliðar um jólin og nýta dýrmætan tíma til að gera eitthvað saman, eins og að spjalla saman, fara saman í göngutúra, spila á spil, eða gera eitthvað annað skemmtilegt, þar sem tæknin er lögð til hliðar. Það er meira að segja mjög notalegt að sitja í þögninni og hlusta á sjávarnið eða fuglasöng.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Jólahugvekja á aðventukvöldi í Brautarholtssókn 10. desember

Þegar ég fór að velta fyrir mér um hvað ég ætti að ræða í jólahugvekju, vöknuðu ýmsar spurningar.

  • Hvað þarf að koma fram í slíkri hugvekju?
  • Má ræða um hræðilegt stríð í Landinu helga?
  • Er ein af tilvitnunum biblíunnar „Augu fyrir auga og tanngarður fyrir tönn”?
  • Fer nokkuð á milli mála, að maðurinn er grimmasta spendýr jarðarinnar?
  • Er kristilegur kærleikur á undanhaldi og vélrænir bardagar tölvuleikjanna fyrirmyndin, þar sem hinir stráfelldu rísa upp alheilir í næsta borði, eins og ekkert hafi í skorist?
  • Verða haldin jól í Betlehem, Jerúsalem eða Nasaret?
  • Hvað verða margir heimilislausir og undir fátæktarmörkum í okkar friðsama landi um jólin?
  • Hversu margir þurfa að leita skjóls vegna heimilisofbeldis?
  • Hverjir fá svo besta matinn og flottustu pakkana?

Eigum við að ræða þetta nánar, eða er kannski rétt að hverfa 50 – 60 ár aftur í tímann, þegar ég var barn og unglingur í Hafnarfirði?

Á þeim árum var allt mun einfaldara í sniðum. Til dæmis var ekkert sjónvarp, ein útvarpsrás og ekki búið að finna upp tölvur, farsíma, geisladiska, vídeó og ótal margt annað, sem þykir sjálfsagt í dag. Símar voru ekki á öllum heimilum og í mesta lagi einn bíll á heimili. Það var því ekki um það að ræða, að  verið væri að skutla krökkum eitt eða annað. Þau urðu að koma sér sjálf á milli staða, ýmist fótgangandi, eða á hjóli.

Ég hef verið um 10 ára gamall, þegar Kanasjónvarpið kom, en það var sjónvarpsstöð bandaríska hersins í herstöðinni á Miðnesheiði. Þetta þóttu okkur krökkunum undur og stórmerki og vorum svo heppin, að ein gömul kona í hverfinu eignaðist sjónvarp. Allur krakkaskarinn í nágrenninu bankaði svo upp á hjá henni á kvöldin, til að fá að horfa á teiknimyndir, gamanmyndir og kúrekamyndir. Sú gamla sendi mig svo með strætó til Reykjavíkur á laugardagsmorgnum, til að kaupa Sjónvarpsdagskrána, sem var bara seld í Heimilistækjum í Hafnarstræti. Þessi leiðangur tók mig tvo og hálfan tíma. Fyrst þurfti að ganga í korter að stoppistöð í miðbæ Hafnarfjarðar, síðan að ferðast í hálftíma á malarvegum til Reykjavíkur, þar sem endastöðin var í Lækjargötu, og hlaupa svo í búðina og aftur til baka á hálftíma, til þess að ná næsta strætisvagni, ferðast með honum í hálftíma og ganga svo í korter til að skila af sér Sjónvarpsdagskránni til Eyju gömlu.

Svipað ferðalag þurfti ég svo að fara í, þegar amma sendi mig eftir dönsku blöðunum, Hjemmet og Familie journal, í bókaverslunina Eymundsson í Austurstræti einu sinni í mánuði.

Nammidagar voru ekki til og við fengum sárasjaldan sælgæti. Það voru þá kannski 3-4 karamellur, einn brjóstsykur, eða ein ræma af suðusúkkulaði.

En hvernig voru jólin á þessum árum? Foreldrar mínir byggðu sér 3ja hæða hús skömmu eftir að ég fæddist. Á efstu hæð bjó Lára móðuramma mín, ásamt mér og á miðhæðinni voru pabbi og mamma með tvær yngri systur. Seinna bættust svo tvær systur við. Fyrir jólin var allt snurfusað hátt og lágt og ekkert jólaskraut fór upp fyrr en á Þorláksmessu. Mamma saumaði kjóla á systurnar og jakkaföt á mig, sem voru í stíl við jakkafötin, sem pabbi átti. Í hádeginu á Þorláksmessu var soðin skata og um kvöldið var soðið hangikjöt, sem var haft kalt í matinn á jóladag. Reyndar fengum við mamma og amma okkur alltaf heitt hangikjöt á Þorláksmessukvöld, en pabbi og systurnar vildu bara borða það kalt. Mamma bjó til ís, en þar sem við höfðum ekki enn eignast ísskáp, var fljótandi ísinn settur í kökuform og því komið fyrir inni í snjóskafli úti á lóð og hann frystur þannig. Fyrstu árin, sem ég man eftir, voru alltaf beinlausir fuglar í matinn á aðfangadag og seinna meir rjúpur. Beinlausir fuglar voru búnir til úr nautakjöti, sem var rúllað utan um beikon og rúllan svo bundin saman með sláturgarni. Að morgni aðfangadags var ég svo sendur gangandi til kaupmannsins í Matarbúðinni við Lækinn í Hafnarfirði, til að sækja matinn.

Það var sest að borðum kl. 6 á aðfangadag og hlustað á aftansönginn í útvarpinu á meðan við borðuðum. Kl. 7 þurfti pabbi að skreppa frá og það brást ekki, að stuttu seinna birtist jólasveinninn með pakkana. Jólagjafirnar voru helst einhverjar nauðsynjar, eins og sokkar, nærföt, buxur, skyrtur og peysur og hugsanlega bók, spil eða púsluspil, lítill bíll handa mér og dúkkur handa systrunum. Íburður var enginn og allir ánægðir með sínar gjafir. Kvöldið leið svo í rólegheitum, þar sem litla fjölskyldan naut samvista hvert við annað, amma, mamma og pabbi glugguðu í bækur og við systkinin lékum okkur með okkar gjafir.

Á jóladag fórum við svo öll í heimsókn til Rósu, systur ömmu og áttum skemmtilegan dag með fjölskyldunni hennar. Var þá alltaf boðið upp á heitt súkkulaði, smákökur og tertur og við hlustuðum saman á barnatímann í útvarpinu og gengum í kringum jólatréð, sem var sett út á mitt stofugólf. Um kvöldið var svo haldið heim, þar sem hangikjötið beið okkar.

Það er margt breytt frá þessum tíma og ekki allt til bóta. Flestir þurfa að vera með nýjasta farsímann og fartölvuna, ganga í merkjavöru, borða skyndibita í hverri viku, eiga nýjasta rafbílinn og fara til útlanda nokkrum sinnum á ári. Þá er nauðsynlegt að fylgjast grannt með á öllum samfélagsmiðlum, til að vera maður með mönnum. Samverustundir fjölskyldunnar verða því gjarna þannig, að þó að allir séu í sama herberginu, er hver í sínum síma, tölvu, eða að horfa á sjónvarpið.

Væri það ekki besta jólagjöfin, að leggja öll snjalltækin til hliðar um jólin og nýta dýrmætan tíma til að gera eitthvað saman, eins og að spjalla saman, fara saman í göngutúra, spila á spil, eða gera eitthvað annað skemmtilegt, þar sem tæknin er lögð til hliðar. Það er meira að segja mjög notalegt að sitja í þögninni og hlusta á sjávarnið eða fuglasöng.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir