Nú líkt og oft endranær um jól og áramót komu leiðarahöfundar Morgunblaðsins inn á trú- og kirkjumál í skrifum sínum. Er það vel. Mál af þessum toga þarf að ræða á sem víðustum vettvangi og út frá sem flestum sjónarhornum. Þann 29. desember fjallaði annar leiðarinn um væntanlegt biskupskjör og stöðu kirkjunnar. Var fallandi félagatala í kirkjunni höfundi ofarlega í huga. Taldi hann að þá þróun mætti m. a. rekja til þess að deilur stæðu um ýmis mál innan kirkjunnar. Áleit hann að hlutverk nýs biskups væri að snúa vörn í sókn með því að „[…] skapa ró um þjóðkirkjuna og koma á starfsfriði á vettvangi hennar.“[1]
Er kirkjunni hollt að vera einsleit?
Þessi sjónarmið koma síst á óvart. Allt frá því að hið pólitíska vald tók að veita kirkjunni verulega athygli snemma á 4. öld hefur það verið þrástef að henni beri að vera til friðs. Er þetta að vonum. Sundruð kirkja getur skapað óróleika í samfélaginu sem valdhöfum er lítt að skapi. Eigi kirkjan að geta vænst verndar og stuðnings ríkisvaldsins er almennt litið svo á að hún skuli launa fyrir sig með því að fylkja þjóðinni að baki ráðandi öflum.
Hér skal því ekki haldið fram að það gagnist kirkjunni sérstaklega að um hana ríki spenna eða að flokkadrættir séu miklir innan hennar. Þegar friðar- og einingarkrafan er sett á oddinn ber þó að spyrja hvort óeðlilegt sé að innan fjölmennra kirkna gæti skiptra skoðana, hvort meiri óróleiki sé í íslensku þjóðkirkjunni en gengur og gerist í sambærilegum kirkjum og hvort meiri átaka gæti innan hennar nú en á fyrri skeiðum.
Undirritaðir hallast að því að svara megi öllum þessum spurningum neitandi. Hlutverk allra kirkna er að túlka háleitan og afstæðan boðskap við síbreytilegar aðstæður. Öllum þjónum kirkjunnar er það væntanlega efst í huga að gera þetta á sem sannastan hátt. Það er þó að vonum að skiptra skoðana gæti varðandi svo flókið mál. Vissulega skapar játningargrunnur kirkjunnar útmörk um hvaða túlkanir eiga heima innan hennar og hlutverk biskups er m. a. að gæta þess að þau séu virt. Ramminn er þó rúmur einkum þegar um þjóðkirkjur er að ræða og ákaflega sjaldgæft nú orðið að prestar villist út fyrir hann. Þjóðkirkjum er því ekki eðlislægt að vera samtoga þótt þær þurfi þar fyrir ekki að vera margklofnar. Það virðist fjarstætt að íslenska þjóðkirkjan greini sig frá öðrum slíkum hvað þetta varðar.
Þá má benda á að þjóðkirkja okkar er nú óvenju einsleit og þarf ekki að fara lengra aftur en til miðrar síðustu aldar til að finna algera andstæðu við nútímann. Segja má að þá hafi starfað hér þríklofin kirkja þar sem þjónar hennar boðuðu ýmist frjálslynda eða játningartrúa guðfræði eða jafnvel hreinan spíritisma. — Raunar mætti velta því fyrir sér hvort íslenska þjóðkirkjan sé til skaða einsleit í guðfræðilegu tilliti nú um stundir. Einsleitri kirkju er hættara við að einangrast og missa félaga en þeirri sem talar fleiri tungum og höfðar þar með til ólíkra hópa. Það sem einkum þarf að einkenna þjóðkirkjur er víðsýnn og umburðarlyndur fjölbreytileiki.
Um hvað er deilt?
Leiðaraskrifari Morgunblaðsins lætur að því liggja að í þjóðkirkjunni sé tekist á um þrjú eða fjögur málefni: „Sum lúta að stjórnsýslu kirkjunnar, önnur að innri ágreiningi, enn önnur að almennu erindi hennar [þ.e. kirkjunnar], jafnvel að boðun sjálfs fagnaðarerindisins.“[2]
Það er rétt að á undangengnum misserum hefur kirkjuþingi veist örðugt að sameinast um nauðsynlegar skipulagsbreytingar sem gera þarf í kjölfar þess að ný þjóðkirkjulög tóku gildi um mitt ár 2021. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. þeirra hefur kirkjuþing „[…] æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað.“[3] Til að þessi vilji löggjafans geti náð fram að ganga og þjóðkirkjan geti haft „[…] í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis“ í stjórnarháttum sínum, eins og mælt er fyrir um í 4. gr. laganna, þarf að greina skýrar á milli hlutverks kirkjuþings og biskupsembættisins en gert hefur verið til þessa.[4] Það sem helst skortir á nú er að tryggja þarf kirkjuþingi „fjárstjórnarvaldið“ og koma því með eðlilegum hætti fyrir á framkvæmda- eða rekstrarsviði sem heyri beint undir kirkjuþing.
Um þetta fjallar dr. Skúli S. Ólafsson í athyglisverðri grein í Ritröð Guðfræðistofnunar. Niðurstaða hans er sú að með eldri þjóðkirkjulögum er tóku gildi 1998 hafi komist á sérstætt stjórnskipulag í þjóðkirkjunni sem ekki eigi sér hliðstæðu í lýðræðislegum rekstri. Telur hann að hvorki sé hægt að rökstyðja sérstöðuna á hagkvæman né guðfræðilegan hátt. Álítur hann þvert á móti að rekja megi hana til mistaka sem orðið hafi við setningu laganna og Ríkisendurskoðun benti á í rökstuddu áliti sínu 2011 sem og til þeirrar staðreyndar að yfirstjórn kirkjunnar beitti sér á tímabilinu 2011–2021 af fullum þunga gegn því að þær breytingar sem Ríkisendurskoðun lagði til yrðu gerðar. Ekki hefur enn tekist að leiða þetta mál til lykta.[5] Auðnist kirkjuþingi ekki að leiða þetta mál til lykta fyrir aðsteðjandi biskupskjör er hætt við stjórnarkreppu í kirkjunni sem leiða mun til mjög óheppilegrar spennu og átaka.
Loðinn leiðari
Að skipulagsmálunum frátöldum eru önnur meint ágreiningsefni í þjóðkirkjunni sett fram á óljósan og loðmullulegan máta í leiðara Morgunblaðsins.
Spyrja má við hvað sé átt með „innri ágreiningi“ sem lýtur þó væntanlega ekki að stjórnsýslu kirkjunnar þar sem hennar er getið sérstaklega. Þá verður og að spyrja hvað felist í „almennu erindi“ kirkjunnar og hver sé munurinn á því og „boðun sjálfs fagnaðarerindisins.“ Loks er það ágeng spurning til hvaða veruleika þessi upptalning vísi: Er raunverulega deilt um almennt erindi kirkjunnar og boðun fagnaðarerindisins? Hvar sér þessara deilna stað? Svo virðist sem hér sé aðeins um „retoríska“ froðu að ræða til þess ætlaða að skapa þá ímynd að þjóðkirkjan logi stafna á milli vegna innri átaka um grundvallaratriði. Svo er alls ekki að mati undirritaðra. Sé öðru haldið fram verður að gera ráð fyrir að það sé gert með skýrum, skilmerkilegum og rökstuddum hætti. Eðlilegt er aftur á móti að blæbrigðamunar gæti um áherslur í boðun þjóðkirkjunnar sem og hvernig hún ræki hlutverk sitt best. Hófleg „átök“ í því efni eru jafnvel hreystimerki.
Svo getur auðvitað líka verið að leiðarahöfundur hafi þá væntingu að þjóðkirkjan verði skoðanalaus strengjabrúða í höndum nýs biskups. — Guð forði okkur frá því!
Tilvísanir
[1] „Biskupskjör og staða kirkjunnar,“ Morgunblaðið 29. desember 2023, bls. 16.
[2] „Biskupskjör og staða kirkjunnar,“,Morgunblaðið 29. desember 2023, bls. 16.
[3] Lög um þjóðkirkjuna nr.77/2021, althingi.is, sótt 30. desember 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html
[4] Lög um þjóðkirkjuna nr.77/2021, althingi.is, sótt 30. desember 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html
[5] Skúli S. Ólafsson, „Stjórnsýsla án hliðstæðu. Valdsvið biskupsembættisins 2011 til 2021“, Ritröð Guðfræðistofnunar 57/2023, bls. 41–66, hér 66, sótt 2. janúar 2024 af https://timarit.hi.is/ritrodgudfraedistofnunar/article/view/281/310
Nú líkt og oft endranær um jól og áramót komu leiðarahöfundar Morgunblaðsins inn á trú- og kirkjumál í skrifum sínum. Er það vel. Mál af þessum toga þarf að ræða á sem víðustum vettvangi og út frá sem flestum sjónarhornum. Þann 29. desember fjallaði annar leiðarinn um væntanlegt biskupskjör og stöðu kirkjunnar. Var fallandi félagatala í kirkjunni höfundi ofarlega í huga. Taldi hann að þá þróun mætti m. a. rekja til þess að deilur stæðu um ýmis mál innan kirkjunnar. Áleit hann að hlutverk nýs biskups væri að snúa vörn í sókn með því að „[…] skapa ró um þjóðkirkjuna og koma á starfsfriði á vettvangi hennar.“[1]
Er kirkjunni hollt að vera einsleit?
Þessi sjónarmið koma síst á óvart. Allt frá því að hið pólitíska vald tók að veita kirkjunni verulega athygli snemma á 4. öld hefur það verið þrástef að henni beri að vera til friðs. Er þetta að vonum. Sundruð kirkja getur skapað óróleika í samfélaginu sem valdhöfum er lítt að skapi. Eigi kirkjan að geta vænst verndar og stuðnings ríkisvaldsins er almennt litið svo á að hún skuli launa fyrir sig með því að fylkja þjóðinni að baki ráðandi öflum.
Hér skal því ekki haldið fram að það gagnist kirkjunni sérstaklega að um hana ríki spenna eða að flokkadrættir séu miklir innan hennar. Þegar friðar- og einingarkrafan er sett á oddinn ber þó að spyrja hvort óeðlilegt sé að innan fjölmennra kirkna gæti skiptra skoðana, hvort meiri óróleiki sé í íslensku þjóðkirkjunni en gengur og gerist í sambærilegum kirkjum og hvort meiri átaka gæti innan hennar nú en á fyrri skeiðum.
Undirritaðir hallast að því að svara megi öllum þessum spurningum neitandi. Hlutverk allra kirkna er að túlka háleitan og afstæðan boðskap við síbreytilegar aðstæður. Öllum þjónum kirkjunnar er það væntanlega efst í huga að gera þetta á sem sannastan hátt. Það er þó að vonum að skiptra skoðana gæti varðandi svo flókið mál. Vissulega skapar játningargrunnur kirkjunnar útmörk um hvaða túlkanir eiga heima innan hennar og hlutverk biskups er m. a. að gæta þess að þau séu virt. Ramminn er þó rúmur einkum þegar um þjóðkirkjur er að ræða og ákaflega sjaldgæft nú orðið að prestar villist út fyrir hann. Þjóðkirkjum er því ekki eðlislægt að vera samtoga þótt þær þurfi þar fyrir ekki að vera margklofnar. Það virðist fjarstætt að íslenska þjóðkirkjan greini sig frá öðrum slíkum hvað þetta varðar.
Þá má benda á að þjóðkirkja okkar er nú óvenju einsleit og þarf ekki að fara lengra aftur en til miðrar síðustu aldar til að finna algera andstæðu við nútímann. Segja má að þá hafi starfað hér þríklofin kirkja þar sem þjónar hennar boðuðu ýmist frjálslynda eða játningartrúa guðfræði eða jafnvel hreinan spíritisma. — Raunar mætti velta því fyrir sér hvort íslenska þjóðkirkjan sé til skaða einsleit í guðfræðilegu tilliti nú um stundir. Einsleitri kirkju er hættara við að einangrast og missa félaga en þeirri sem talar fleiri tungum og höfðar þar með til ólíkra hópa. Það sem einkum þarf að einkenna þjóðkirkjur er víðsýnn og umburðarlyndur fjölbreytileiki.
Um hvað er deilt?
Leiðaraskrifari Morgunblaðsins lætur að því liggja að í þjóðkirkjunni sé tekist á um þrjú eða fjögur málefni: „Sum lúta að stjórnsýslu kirkjunnar, önnur að innri ágreiningi, enn önnur að almennu erindi hennar [þ.e. kirkjunnar], jafnvel að boðun sjálfs fagnaðarerindisins.“[2]
Það er rétt að á undangengnum misserum hefur kirkjuþingi veist örðugt að sameinast um nauðsynlegar skipulagsbreytingar sem gera þarf í kjölfar þess að ný þjóðkirkjulög tóku gildi um mitt ár 2021. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. þeirra hefur kirkjuþing „[…] æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað.“[3] Til að þessi vilji löggjafans geti náð fram að ganga og þjóðkirkjan geti haft „[…] í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis“ í stjórnarháttum sínum, eins og mælt er fyrir um í 4. gr. laganna, þarf að greina skýrar á milli hlutverks kirkjuþings og biskupsembættisins en gert hefur verið til þessa.[4] Það sem helst skortir á nú er að tryggja þarf kirkjuþingi „fjárstjórnarvaldið“ og koma því með eðlilegum hætti fyrir á framkvæmda- eða rekstrarsviði sem heyri beint undir kirkjuþing.
Um þetta fjallar dr. Skúli S. Ólafsson í athyglisverðri grein í Ritröð Guðfræðistofnunar. Niðurstaða hans er sú að með eldri þjóðkirkjulögum er tóku gildi 1998 hafi komist á sérstætt stjórnskipulag í þjóðkirkjunni sem ekki eigi sér hliðstæðu í lýðræðislegum rekstri. Telur hann að hvorki sé hægt að rökstyðja sérstöðuna á hagkvæman né guðfræðilegan hátt. Álítur hann þvert á móti að rekja megi hana til mistaka sem orðið hafi við setningu laganna og Ríkisendurskoðun benti á í rökstuddu áliti sínu 2011 sem og til þeirrar staðreyndar að yfirstjórn kirkjunnar beitti sér á tímabilinu 2011–2021 af fullum þunga gegn því að þær breytingar sem Ríkisendurskoðun lagði til yrðu gerðar. Ekki hefur enn tekist að leiða þetta mál til lykta.[5] Auðnist kirkjuþingi ekki að leiða þetta mál til lykta fyrir aðsteðjandi biskupskjör er hætt við stjórnarkreppu í kirkjunni sem leiða mun til mjög óheppilegrar spennu og átaka.
Loðinn leiðari
Að skipulagsmálunum frátöldum eru önnur meint ágreiningsefni í þjóðkirkjunni sett fram á óljósan og loðmullulegan máta í leiðara Morgunblaðsins.
Spyrja má við hvað sé átt með „innri ágreiningi“ sem lýtur þó væntanlega ekki að stjórnsýslu kirkjunnar þar sem hennar er getið sérstaklega. Þá verður og að spyrja hvað felist í „almennu erindi“ kirkjunnar og hver sé munurinn á því og „boðun sjálfs fagnaðarerindisins.“ Loks er það ágeng spurning til hvaða veruleika þessi upptalning vísi: Er raunverulega deilt um almennt erindi kirkjunnar og boðun fagnaðarerindisins? Hvar sér þessara deilna stað? Svo virðist sem hér sé aðeins um „retoríska“ froðu að ræða til þess ætlaða að skapa þá ímynd að þjóðkirkjan logi stafna á milli vegna innri átaka um grundvallaratriði. Svo er alls ekki að mati undirritaðra. Sé öðru haldið fram verður að gera ráð fyrir að það sé gert með skýrum, skilmerkilegum og rökstuddum hætti. Eðlilegt er aftur á móti að blæbrigðamunar gæti um áherslur í boðun þjóðkirkjunnar sem og hvernig hún ræki hlutverk sitt best. Hófleg „átök“ í því efni eru jafnvel hreystimerki.
Svo getur auðvitað líka verið að leiðarahöfundur hafi þá væntingu að þjóðkirkjan verði skoðanalaus strengjabrúða í höndum nýs biskups. — Guð forði okkur frá því!
Tilvísanir
[1] „Biskupskjör og staða kirkjunnar,“ Morgunblaðið 29. desember 2023, bls. 16.
[2] „Biskupskjör og staða kirkjunnar,“,Morgunblaðið 29. desember 2023, bls. 16.
[3] Lög um þjóðkirkjuna nr.77/2021, althingi.is, sótt 30. desember 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html
[4] Lög um þjóðkirkjuna nr.77/2021, althingi.is, sótt 30. desember 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html
[5] Skúli S. Ólafsson, „Stjórnsýsla án hliðstæðu. Valdsvið biskupsembættisins 2011 til 2021“, Ritröð Guðfræðistofnunar 57/2023, bls. 41–66, hér 66, sótt 2. janúar 2024 af https://timarit.hi.is/ritrodgudfraedistofnunar/article/view/281/310