Sr. Björn Halldórsson prestur og prófastur í Laufási við Eyjafjörð (1853-1882) er höfundur jólasálmsins kunna „Sjá himins opnast hlið.“ Björn var skáldprestur. Hvað er svo skáldprestur? Það er titill, sem hæfir Birni vel þar sem hann var hvort í senn mjög vandaður þjónn kirkju og kristni, embættismaður fram í fingurgóma, og skáld, meira að segja afburðaskáld, og með kveðskap sínum setti hann svip á menningarsögu íslensku þjóðarinnar.
Björn var skáldprestur. Til að undirstrika það má minnast á hátíðarræðu er hann hélt á þjóðhátíð á Akureyri á því herrans ári 1874. Þá ræðu flutti hann frá brjósti og sögðu spakir menn að Björn hafi áður verið búinn að semja ræðuna, en munað hana vegna þess hversu ljóðræn hún var.
Björn var mælskumaður og viljum við nánari lýsingu á honum má vitna í þessa frá Benedikt Gröndal, þeim andans jöfri:
„Björn Halldórsson var lítill maður vexti, þrekinn og vel vaxinn, hafði nokkuð orð á sér fyrir krafta, en var glíminn og knár; hann var mjúkur á mann, hæðinn og sneiðyrtur, vel gáfaður og nokkuð hagmæltur, lipurmenni og fínn, hann var einn af Sviðholtsmönnum og áttum við ekki saman.“
Björn og Benedikt voru samkvæmt þessu ekki hinir mestu mátar.
Það sem mótar manninn
Eitt og annað mótaði Björn sem skáldprest. Við getum nefnt fjölskylduna, pennavininn Pál Ólafsson, raunir og trú. Hann var alinn upp á prestsheimili, fæddist á Skarði í Dalsmynni 12. nóvember árið 1823 sonur hjónanna Halldórs Björnssonar prests og Sigríðar Vigfúsdóttur húsfreyju. Halldór faðir Björns þjónaði sem aðstoðarprestur í Laufási sumarið 1822 en Laufásklerkur sr. Gunnar Hallgrímsson, faðir sr. Gunnars Gunnarssonar, var þá orðinn svo feitur að embættisskyldur hans voru orðnar honum hreinlega um megn.
Eftir dauða Gunnars Hallgrímssonar voru þeir um tíma tveir þjónandi í Laufási, faðir Björns og Gunnar Gunnarsson. Halldór fór svo að Eyjardalsá í Bárðardal og Björn með honum 11 ára gamall. Halldór kvæntist síðar dóttur starfsbróður síns Gunnars Gunnarssonar, henni Þóru, tveimur árum eftir að hann tók við Eyjardalsá árið 1834 og þannig varð Þóra fóstra Björns. Sagan segir að kært hafi verið á milli þeirra.
Björn fór frá Eyjardalsá til náms enda miklum námshæfileikum gæddur, hann lærði í nokkra vetur hjá Jóni Kristjánssyni á Ystafelli í Kinn og var svo tekinn inn í Bessastaðaskóla árið 1840, hann brautskráðist þaðan eftir fjögurra ára nám sem stúdent með loflegum vitnisburði.
Björn fór ekki til Kaupmannahafnar eins og svo margt gáfumennið, heldur hélt hann heim í Bárðardal aftur að námi loknu og kynntist þar vinnustúlku er Sigríður Einarsdóttir hét frá Saltvík á Tjörnesi, dóttir Einars Jónassonar hreppsstjóra þar og Sigríðar Vigfúsdóttur húsfreyju.
Kuldalegur hjúskapur
Björn gerði Sigríði barn, en þrátt fyrir barneignir þeirra virtust ekki takast með þeim ástir. Þau eignuðust saman fjögur börn, tvo drengi og tvær stúlkur. Sagan segir að Björn hafi verið enn í djúpri ástarsorg er hann kynntist Sigríði, því hann og stúlka að nafni Svafa náðu ekki að tengjast ástar-og trúfestisböndum.
Þannig var lengi stirt hjónaband þeirra Björns og Sigríðar þegar þau voru farin að þjóna í Laufási. Sérútgangur frá kontór prestsins í Laufásbænum gamla ber stirðu hjónabandi þeirra hjóna vitni vegna þess að Björn vildi venjulegast ekki mæta frú sinni í bæjargöngum Laufássbæjar.
Eitt skiptið rákust þau hjónin þó saman í göngunum. Sigríður var þá með fullan pott af heitu vatni sem skvettist á Björn þannig að hann brenndist illa og varð að liggja fyrir marga daga á eftir. Sigríður hjúkraði eiginmanni sínum af mikilli nærfærni og eftir það lagaðist samband þeirra til muna. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.
Um heimafólk í Laufási yrkir Björn.
„Jóhanna heitir húsfreyjan
hæversk, en jafnan dauf á mann;
svo vil ég nefna séra Björn,
sá er mælskari‘en nokkur kvörn.
Sigríður heitir kona hans,
hreppsstjóradóttir norðanlands.“
Og fleiri urðu versin um hina og þessa á bænum, skemmtileg og lýsa góðri kímnigáfu Björns.
Börn lifa og deyja
Elsta barn Björns og Sigríðar var Vilhjálmur, merkisbóndi og smiður, fæddur í upphafi þorra á bóndadegi og varð mikill bóndi. Næst kom Svafa, þá Þórhallur, síðar biskup fæddur í upphafi nýs kirkjuárs á 1. sunnudegi í aðventu. Hann varð traustur kirkjunnar þjónn og leiðtogi, en um hann hefur verið rituð bókin Brautryðjandinn. Hún kom út árið 2011 og það var Óskar Guðmundsson er reit þá áhugaverðu sögu. Þórhallur kom víða við og var áhrifamaður á söguríkum tímum þ.e.a.s. um aldamótin 1900. Yngst var Laufey.
Dæturnar dóu ungar og urðu öllum og ekki síst föður sínum mikill harmdauði. Dauði þeirra varð Birni að yrkisefni. Bræðurnir Vilhjálmur og Þórhallur héldu minningu systranna á lofti með því að gefa dætrum sínum nöfn þeirra. Svafa lést barnung, nafn hennar mætti tengja við ástarsorg Björns forðum. Laufey var rúmlega tvítug þegar hún veiktist af heilahimnabólgu og andaðist ári áður en Björn dó. Þekkt er bænavers sem Björn setti saman er Svafa litla kom til hans á kontórinn og studdi sig við kné hans:
Að biðja sem mér bæri
mig brestur stórum á
minn herra Kristur kæri,
æ kenn mér íþrótt þá
Gef yndi mitt og iðja,
það alla daga sé
með bljúgum hug að biðja
sem barn við föðurkné.
Björn hafði viðkvæma lund og raunir hans urðu ekki til að bæta geð. Á vissan hátt virðist það oft vera þannig þegar mest mæðir á sálartetrinu þá brjótast fram gullkornin. Það er eins og harmur geti kallað fram lindir úr innstu hjartarótum og úr verður heilög einlægni. Þannig var það með Björn. Þetta kvæði er eitt af mínum eftirlætiskvæðum eftir Björn og sprettur upp úr jarðvegi þjáningar.
Dags lít ég deyjandi roða
drekkja sér norður í sæ;
grátandi skýin það skoða,
skuggaleg upp yfir bæ.Þögulust nótt allra nótta
nákyrrð þín ofbýður mér;
Stendurðu´á öndinni af ótta?
eða hvað gengur að þér?Jörð yfir sofandi síga
svartýrðar lætur þú brýr;
tár þín á hendur mér hníga
hljótt, en ég finn þau samt skír.Verður þér myrkvum á vegi
vesturför óyndisleg?
Kvíðir þú komandi degi,
kolbrýnda nótt, eins og ég?
Þetta kvíðaljóð var ort um sumarnótt, þegar rauð glóð hnígandi sólar blasti við augum hans yfir vikinu milli Þengilhöfða og Kaldbaks.
Dóttirin Svafa var Birni sérstaklega hugleikin í kveðskap hans, að öllum öðrum börnum hans ólöstuðum. Svafa dó 6 ára að aldri á uppstigningardegi 1860. Hér eru fáein vers úr ljóði er ber titilinn Svafa.
Nú ertu sofnuð Svafa mín,
og svefninn þinn er vær.
Hvorki sjúkdómur, hryggð né pín
héðan af brjóst þitt slær.
Minnisföst er mér ásýnd þín
í dauðanum svo skær.
Fegri þó sálin friðhelg skín
frelsarans stóli nær.En skal ég aðeins þannig þrá
og þreyta harmaslag?
Nei, Svafa, ég lít einnig á
þann uppstigningardag,
er synd og heimi hvarfst þú frá
í heilagt samfélag.
Víst ann ég þér til fulls að fá
svo fagurbreyttan hag.Úr dalnum, þar sem dvel ég nú
og dauðans iða grín,
mér trúin þangað beinir brú,
sem bjartur himinn skín.
Þar ljómar dýrðleg ljósmynd sú,
er lýsir mér til sín;
ég kenni´að þar ert komin þú
og kalla: Svafa mín!
Bréfavinir
Ein merkasta heimildin um líf og listir Björns eru bréfin, sem gengu á milli hans og Páls Ólafssonar skálds. Páll orti m.a. ljóðið kunna „Lóan er komin“ sem við syngjum á vorin. Páll var ekki bara bréfvinur, hann var sérstakur trúnaðarvinur Björns og þeir félagar fóru afar vel með það sem þeim var trúað fyrir í bréfunum. Björn brenndi öll bréf frá Páli að lestri loknum sem máttu alls ekki fara lengra.
Björn ræddi bæði gleði sína og sorgir í bréfum sínum til Páls, kveðskap og margvísleg hugðarefni. Hann lýsti börnum sínum og það sem hann skrifar um þau lýsir vel stoltum föður. Hann segir líka frá einu og öðru veraldlegu í tengslum við það að sitja kirkjujörð og ýmislegt í því sambandi virtist íþyngja honum og þá kemur það í ljós í þessum bréfaskrifum að Björn var sérstakur áhugamaður um vefnað og óf oft sjálfur.
Eitt sinn sendi Björn Páli bréf er lýsir ótvírætt andlegu fjöri klerks og hefst bréfið á þessum nótum.
„Elsku Páll!
Enginn gáll
er á mér að skrifa,
góð né ill
engin vill
opnast hugskotsrifa;
það er römm
þraut og skömm,
þann við kost að lifa.
Eitthvað verð ég við þig þó að klifa.“
Í sama bréfi fær fagurt vers að fljóta með sem hann orti í húskveðju eftir Ásmund að Þverá, en hann var faðir Einars Ásmundssonar alþingismanns frá Nesi í Höfðahverfi. Björn og Einar voru góðir vinir þrátt fyrir að stundum hafi blásið á milli og ekki hvað síst í veraldlegum málum enda voru þeir báðir sterkar persónur með ákveðnar skoðanir. Það er mikla trú að finna í versinu áðurnefnda:
Guð vor faðir, öllum oss
ætíð vertu sól og skjöldur!
Hvar sem beljar harmafoss,
hvar sem rísa dauðans öldur,
skýl þú oss af ást og mildi
undir þínum friðarskildi.
Bréfvinurinn Páll átti svo eftir að breiða stökur yfir vildarvin sinn að honum gengnum:
Dauðans gekkstu fótmál fljótt,
fyrr en nokkurn varði,
hjá Svöfu og Laufey sætt og rótt
sefur í Laufáss-garði.Síðan hef ég saknað þín,
sálin heitt þig tregar,
svo einatt hafa augu mín
ekki séð til vegar.
Á hendur fel þú honum…
Björn var trúmaður, hann var upprisuskáld og ófáa sálma á hann í sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar. Hann var skipaður í sálmabókanefnd 1878 og þátttaka hans í nefndinni kom til af því að hann hafði getið sér gott orð sem skáld og gagnrýninn smekkmaður á málfar og skáldskap og þá ekki síst vegna þess að hann var einn harðasti gagnrýnandi þeirrar sálmabókar sem út kom 1871. Björn lagði til 35 frumorta sálma í sálmabókina sem kom út árið 1886 og einn þýddan.
Þýddi sálmurinn er „Á Hendur fel þú honum“ og ber mörgum saman um það að ekki hafi verið hægt að þýða þann sálm betur. Björn er þar trúr frumtextanum. Sálmurinn er þýðing á fimm versum úr miklu lengri sálmi eftir þýska prestinn og sálmaskáldið Paul Gerhardt, ortur árið 1653. Sálmurinn er 12 vers í frumgerðinni, en Björn valdi að þýða fjögur fyrstu versin og það sjötta hefur hann sem lokavers.
Af hverju valdi hann það að þýða einungis fimm vers? Það einkenndi hann sem sálmaskáld að mörg verka hans voru einstök vers en þó efnismikil, hann virtist vera talsvert mótaður af knöppum stíl íslenskra bókmennta. Björn gagnrýndi sálmaskáldið Valdimar Briem á þann hátt að Valdimar mætti gæta meiri ögunar þannig að höfuðtilgangur sálmanna lenti ekki í skugganum af þarflitlum umbúðum. Það liggur fyrir að þessi huggunarríki tilbeiðslusálmur „Á hendur fel þú honum“ hefur unnið sér fastan sess við útfararathafnir hér á landi og á einnig vissulega vel við í almennum guðsþjónustum.
Á hendur fel þú honum,
sem himna stýrir borg,
það allt, er áttu’ í vonum,
og allt, er veldur sorg.
Hann bylgjur getur bundið
og bugað storma her,
hann fótstig getur fundið,
sem fær sé handa þér.Ef vel þú vilt þér líði,
þín von á Guð sé fest.
Hann styrkir þig í stríði
og stjórnar öllu best.
Að sýta sárt og kvíða
á sjálfan þig er hrís.
Nei, þú skalt biðja’ og bíða,
þá blessun Guðs er vís.Ó, þú, minn faðir, þekkir
og það í miskunn sér,
sem hagsæld minni hnekkir,
og hvað mér gagnlegt er,
og ráð þitt hæsta hlýtur
að hafa framgang sinn,
því allt þér einum lýtur
og eflir vilja þinn.Þig vantar hvergi vegi,
þig vantar aldrei mátt,
þín bjargráð bregðast eigi
til bóta’ á einhvern hátt.
Þitt starf ei nemur staðar,
þín stöðvar engin spor,
af himni’ er þú þér hraðar
með hjálp og líkn til vor.Mín sál, því örugg sértu,
og set á Guð þitt traust.
Hann man þig, vís þess vertu,
og verndar efalaust.
Hann mun þig miskunn krýna.
Þú mæðist litla hríð.
Þér innan skamms mun skína
úr skýjum sólin blíð.
Sjá, himins opnast hlið
Annar sálmur eftir Björn í sálmabókinni ætti að vera okkur að góðu kunnur. Það er frumortur jólasálmur og ber yfirskriftina „Sjá, himins opnast hlið.“ Það voru fimm langspil í Laufási og Þórhallur sonur Björns, síðar biskup, sagði að þau hefðu öll verið í gangi á sunnudögum.
Björn lék á langspil, hann lék fögur sönglög er vöktu sérstaka löngun hans til að yrkja. Eitt sinn lék hann lag, sem hann lýsti sjálfur sem gullfallegu, þetta er sálmalag er heitir „In dulce jubilo.“ Hann byrjaði að raula með og þá spruttu fram hendingar og hinn kunni jólasálmur „Sjá himins opnast hlið“ varð til.
Sjá, himins opnast hlið,
heilagt englalið
fylking sú hin fríða
úr fagnaðarins sal,
fer með boðun blíða
og blessun lýsa skal
:/: Yfir eymdadal :/:Í heimi’ er dimmt og hljótt,
hjarðmenn sjá um nótt
ljós í lofti glæðast,
það ljós Guðs dýrðar er,
hjörtu þeirra hræðast,
en Herrans engill tér:
:/: „Óttist ekki þér“.:/:Með fegins fregn ég kem:
Fæðst í Betlehem
blessað barn það hefur,
er birtir Guð á jörð,
frið og frelsi gefur
og fallna reisir hjörð.
:/: Þökk sé Guði gjörð :/:Já, þakka, sál mín, þú,
þakka’ og lofsyng nú
fæddum friðargjafa,
því frelsari’ er hann þinn,
seg þú: „Hann skal hafa
æ hjá mér bústað sinn
:/: Vinur velkominn“ :/:Ó Guðs hinn sanni son,
sigur, líf og von
rís með þér og rætist,
þú réttlætisins sól,
allt mitt angur bætist,
þú ert mitt ljós og skjól.
:/: Ég held glaður jól :/:Á hæstri hátíð nú
hjartafólgin trú
honum fagni’ og hneigi,
af himni’ er kominn er,
sál og tunga segi
með sælum englaher:
:/: „Dýrð sé, Drottinn, þér“ :/:
Sr. Björn og sr. Bolli hinn eldri
Það er ekki ofmælt að faðir minn Bolli Gústavsson prestur í Laufási (1966-1991) hafi fundið fyrir einhverri tengingu við Björn enda var Björn honum sérstaklega hugleikinn. Það hefur ekki einvörðungu verið skáldskapurinn sem hreif föður minn heldur jafnframt persóna Björns og það djúpa lífsins innsæi sem hann hefur búið yfir gagnvart tilvistinni og þeim verkefnum sem hún leggur okkur á herðar.
Stundum hélt ég sem drengur að Björn væri hreinlega lifandi, þessi 19. aldar maður sem andaðist 19. desember 1882. Ég hélt jafnframt að hann væri einn af vinum föður míns í prestastétt, en með þeim hætti talaði faðir minn um hann og með áhuga sínum gerði hann Björn að ljóslifandi persónu bæði í ræðu og riti. Kveðskap Björns tók Bolli faðir minn saman í bók er ber heitið„ Ljóðmæli“ og kom út hjá Skálholtsútgáfu árið 1994. Um leið og Björn er gæddur lífi verður saga Laufáss líka lifandi. Björn er sem samofinn sögu Laufássstaðar og aldnar húsbyggingar sem þar standa enn eru verk hans í samstarfi við góða menn eins og Jóhann bónda Bessason frá Skarði í Dalsmynni og Tryggva prestsson og bankastjóra Gunnarsson frá Laufási.
Mig langar að ljúka þessari umfjöllun minni um skáldprestinn, fjölskyldumanninn, bréfvininn, raunamanninn, og trúmanninn Björn Halldórsson í Laufási á eftirfarandi ljóði eftir föður minn er ber titilinn „Endadægur sr. Björns Halldórssonar í Laufási.“
Uppi í ásnum
að bæjarbaki
slær fjarlægt tungl
fölkaldri birtu
á harðfenni
inn á milli
svartra kjarrfingra.Leiftra
smáfelldir kristallar
efst á frerabungu,
horfast í augu
við titrandi stjörnur
í órafirð.Heilagt englalið
kallar skáld til farar.
Skáld svipullar gleði,
skáld djúprar sorgar
leggur lúð ritföng
á þéttskráða örk,
gengur hægt til svefnhúss.Í lágum dyrum
slær þreytt hjarta
hinsta slag
í veiku brjósti
og við tekur
voldugur hljómur
fjarlægra klukkna.Skarsúðin lága rofnar
við þau langdrægu slög,
en hásalur fagnaðar
lýkst upp með lofsöng:
Sjá himins opnast hlið.
Sr. Björn Halldórsson prestur og prófastur í Laufási við Eyjafjörð (1853-1882) er höfundur jólasálmsins kunna „Sjá himins opnast hlið.“ Björn var skáldprestur. Hvað er svo skáldprestur? Það er titill, sem hæfir Birni vel þar sem hann var hvort í senn mjög vandaður þjónn kirkju og kristni, embættismaður fram í fingurgóma, og skáld, meira að segja afburðaskáld, og með kveðskap sínum setti hann svip á menningarsögu íslensku þjóðarinnar.
Björn var skáldprestur. Til að undirstrika það má minnast á hátíðarræðu er hann hélt á þjóðhátíð á Akureyri á því herrans ári 1874. Þá ræðu flutti hann frá brjósti og sögðu spakir menn að Björn hafi áður verið búinn að semja ræðuna, en munað hana vegna þess hversu ljóðræn hún var.
Björn var mælskumaður og viljum við nánari lýsingu á honum má vitna í þessa frá Benedikt Gröndal, þeim andans jöfri:
„Björn Halldórsson var lítill maður vexti, þrekinn og vel vaxinn, hafði nokkuð orð á sér fyrir krafta, en var glíminn og knár; hann var mjúkur á mann, hæðinn og sneiðyrtur, vel gáfaður og nokkuð hagmæltur, lipurmenni og fínn, hann var einn af Sviðholtsmönnum og áttum við ekki saman.“
Björn og Benedikt voru samkvæmt þessu ekki hinir mestu mátar.
Það sem mótar manninn
Eitt og annað mótaði Björn sem skáldprest. Við getum nefnt fjölskylduna, pennavininn Pál Ólafsson, raunir og trú. Hann var alinn upp á prestsheimili, fæddist á Skarði í Dalsmynni 12. nóvember árið 1823 sonur hjónanna Halldórs Björnssonar prests og Sigríðar Vigfúsdóttur húsfreyju. Halldór faðir Björns þjónaði sem aðstoðarprestur í Laufási sumarið 1822 en Laufásklerkur sr. Gunnar Hallgrímsson, faðir sr. Gunnars Gunnarssonar, var þá orðinn svo feitur að embættisskyldur hans voru orðnar honum hreinlega um megn.
Eftir dauða Gunnars Hallgrímssonar voru þeir um tíma tveir þjónandi í Laufási, faðir Björns og Gunnar Gunnarsson. Halldór fór svo að Eyjardalsá í Bárðardal og Björn með honum 11 ára gamall. Halldór kvæntist síðar dóttur starfsbróður síns Gunnars Gunnarssonar, henni Þóru, tveimur árum eftir að hann tók við Eyjardalsá árið 1834 og þannig varð Þóra fóstra Björns. Sagan segir að kært hafi verið á milli þeirra.
Björn fór frá Eyjardalsá til náms enda miklum námshæfileikum gæddur, hann lærði í nokkra vetur hjá Jóni Kristjánssyni á Ystafelli í Kinn og var svo tekinn inn í Bessastaðaskóla árið 1840, hann brautskráðist þaðan eftir fjögurra ára nám sem stúdent með loflegum vitnisburði.
Björn fór ekki til Kaupmannahafnar eins og svo margt gáfumennið, heldur hélt hann heim í Bárðardal aftur að námi loknu og kynntist þar vinnustúlku er Sigríður Einarsdóttir hét frá Saltvík á Tjörnesi, dóttir Einars Jónassonar hreppsstjóra þar og Sigríðar Vigfúsdóttur húsfreyju.
Kuldalegur hjúskapur
Björn gerði Sigríði barn, en þrátt fyrir barneignir þeirra virtust ekki takast með þeim ástir. Þau eignuðust saman fjögur börn, tvo drengi og tvær stúlkur. Sagan segir að Björn hafi verið enn í djúpri ástarsorg er hann kynntist Sigríði, því hann og stúlka að nafni Svafa náðu ekki að tengjast ástar-og trúfestisböndum.
Þannig var lengi stirt hjónaband þeirra Björns og Sigríðar þegar þau voru farin að þjóna í Laufási. Sérútgangur frá kontór prestsins í Laufásbænum gamla ber stirðu hjónabandi þeirra hjóna vitni vegna þess að Björn vildi venjulegast ekki mæta frú sinni í bæjargöngum Laufássbæjar.
Eitt skiptið rákust þau hjónin þó saman í göngunum. Sigríður var þá með fullan pott af heitu vatni sem skvettist á Björn þannig að hann brenndist illa og varð að liggja fyrir marga daga á eftir. Sigríður hjúkraði eiginmanni sínum af mikilli nærfærni og eftir það lagaðist samband þeirra til muna. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.
Um heimafólk í Laufási yrkir Björn.
„Jóhanna heitir húsfreyjan
hæversk, en jafnan dauf á mann;
svo vil ég nefna séra Björn,
sá er mælskari‘en nokkur kvörn.
Sigríður heitir kona hans,
hreppsstjóradóttir norðanlands.“
Og fleiri urðu versin um hina og þessa á bænum, skemmtileg og lýsa góðri kímnigáfu Björns.
Börn lifa og deyja
Elsta barn Björns og Sigríðar var Vilhjálmur, merkisbóndi og smiður, fæddur í upphafi þorra á bóndadegi og varð mikill bóndi. Næst kom Svafa, þá Þórhallur, síðar biskup fæddur í upphafi nýs kirkjuárs á 1. sunnudegi í aðventu. Hann varð traustur kirkjunnar þjónn og leiðtogi, en um hann hefur verið rituð bókin Brautryðjandinn. Hún kom út árið 2011 og það var Óskar Guðmundsson er reit þá áhugaverðu sögu. Þórhallur kom víða við og var áhrifamaður á söguríkum tímum þ.e.a.s. um aldamótin 1900. Yngst var Laufey.
Dæturnar dóu ungar og urðu öllum og ekki síst föður sínum mikill harmdauði. Dauði þeirra varð Birni að yrkisefni. Bræðurnir Vilhjálmur og Þórhallur héldu minningu systranna á lofti með því að gefa dætrum sínum nöfn þeirra. Svafa lést barnung, nafn hennar mætti tengja við ástarsorg Björns forðum. Laufey var rúmlega tvítug þegar hún veiktist af heilahimnabólgu og andaðist ári áður en Björn dó. Þekkt er bænavers sem Björn setti saman er Svafa litla kom til hans á kontórinn og studdi sig við kné hans:
Að biðja sem mér bæri
mig brestur stórum á
minn herra Kristur kæri,
æ kenn mér íþrótt þá
Gef yndi mitt og iðja,
það alla daga sé
með bljúgum hug að biðja
sem barn við föðurkné.
Björn hafði viðkvæma lund og raunir hans urðu ekki til að bæta geð. Á vissan hátt virðist það oft vera þannig þegar mest mæðir á sálartetrinu þá brjótast fram gullkornin. Það er eins og harmur geti kallað fram lindir úr innstu hjartarótum og úr verður heilög einlægni. Þannig var það með Björn. Þetta kvæði er eitt af mínum eftirlætiskvæðum eftir Björn og sprettur upp úr jarðvegi þjáningar.
Dags lít ég deyjandi roða
drekkja sér norður í sæ;
grátandi skýin það skoða,
skuggaleg upp yfir bæ.Þögulust nótt allra nótta
nákyrrð þín ofbýður mér;
Stendurðu´á öndinni af ótta?
eða hvað gengur að þér?Jörð yfir sofandi síga
svartýrðar lætur þú brýr;
tár þín á hendur mér hníga
hljótt, en ég finn þau samt skír.Verður þér myrkvum á vegi
vesturför óyndisleg?
Kvíðir þú komandi degi,
kolbrýnda nótt, eins og ég?
Þetta kvíðaljóð var ort um sumarnótt, þegar rauð glóð hnígandi sólar blasti við augum hans yfir vikinu milli Þengilhöfða og Kaldbaks.
Dóttirin Svafa var Birni sérstaklega hugleikin í kveðskap hans, að öllum öðrum börnum hans ólöstuðum. Svafa dó 6 ára að aldri á uppstigningardegi 1860. Hér eru fáein vers úr ljóði er ber titilinn Svafa.
Nú ertu sofnuð Svafa mín,
og svefninn þinn er vær.
Hvorki sjúkdómur, hryggð né pín
héðan af brjóst þitt slær.
Minnisföst er mér ásýnd þín
í dauðanum svo skær.
Fegri þó sálin friðhelg skín
frelsarans stóli nær.En skal ég aðeins þannig þrá
og þreyta harmaslag?
Nei, Svafa, ég lít einnig á
þann uppstigningardag,
er synd og heimi hvarfst þú frá
í heilagt samfélag.
Víst ann ég þér til fulls að fá
svo fagurbreyttan hag.Úr dalnum, þar sem dvel ég nú
og dauðans iða grín,
mér trúin þangað beinir brú,
sem bjartur himinn skín.
Þar ljómar dýrðleg ljósmynd sú,
er lýsir mér til sín;
ég kenni´að þar ert komin þú
og kalla: Svafa mín!
Bréfavinir
Ein merkasta heimildin um líf og listir Björns eru bréfin, sem gengu á milli hans og Páls Ólafssonar skálds. Páll orti m.a. ljóðið kunna „Lóan er komin“ sem við syngjum á vorin. Páll var ekki bara bréfvinur, hann var sérstakur trúnaðarvinur Björns og þeir félagar fóru afar vel með það sem þeim var trúað fyrir í bréfunum. Björn brenndi öll bréf frá Páli að lestri loknum sem máttu alls ekki fara lengra.
Björn ræddi bæði gleði sína og sorgir í bréfum sínum til Páls, kveðskap og margvísleg hugðarefni. Hann lýsti börnum sínum og það sem hann skrifar um þau lýsir vel stoltum föður. Hann segir líka frá einu og öðru veraldlegu í tengslum við það að sitja kirkjujörð og ýmislegt í því sambandi virtist íþyngja honum og þá kemur það í ljós í þessum bréfaskrifum að Björn var sérstakur áhugamaður um vefnað og óf oft sjálfur.
Eitt sinn sendi Björn Páli bréf er lýsir ótvírætt andlegu fjöri klerks og hefst bréfið á þessum nótum.
„Elsku Páll!
Enginn gáll
er á mér að skrifa,
góð né ill
engin vill
opnast hugskotsrifa;
það er römm
þraut og skömm,
þann við kost að lifa.
Eitthvað verð ég við þig þó að klifa.“
Í sama bréfi fær fagurt vers að fljóta með sem hann orti í húskveðju eftir Ásmund að Þverá, en hann var faðir Einars Ásmundssonar alþingismanns frá Nesi í Höfðahverfi. Björn og Einar voru góðir vinir þrátt fyrir að stundum hafi blásið á milli og ekki hvað síst í veraldlegum málum enda voru þeir báðir sterkar persónur með ákveðnar skoðanir. Það er mikla trú að finna í versinu áðurnefnda:
Guð vor faðir, öllum oss
ætíð vertu sól og skjöldur!
Hvar sem beljar harmafoss,
hvar sem rísa dauðans öldur,
skýl þú oss af ást og mildi
undir þínum friðarskildi.
Bréfvinurinn Páll átti svo eftir að breiða stökur yfir vildarvin sinn að honum gengnum:
Dauðans gekkstu fótmál fljótt,
fyrr en nokkurn varði,
hjá Svöfu og Laufey sætt og rótt
sefur í Laufáss-garði.Síðan hef ég saknað þín,
sálin heitt þig tregar,
svo einatt hafa augu mín
ekki séð til vegar.
Á hendur fel þú honum…
Björn var trúmaður, hann var upprisuskáld og ófáa sálma á hann í sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar. Hann var skipaður í sálmabókanefnd 1878 og þátttaka hans í nefndinni kom til af því að hann hafði getið sér gott orð sem skáld og gagnrýninn smekkmaður á málfar og skáldskap og þá ekki síst vegna þess að hann var einn harðasti gagnrýnandi þeirrar sálmabókar sem út kom 1871. Björn lagði til 35 frumorta sálma í sálmabókina sem kom út árið 1886 og einn þýddan.
Þýddi sálmurinn er „Á Hendur fel þú honum“ og ber mörgum saman um það að ekki hafi verið hægt að þýða þann sálm betur. Björn er þar trúr frumtextanum. Sálmurinn er þýðing á fimm versum úr miklu lengri sálmi eftir þýska prestinn og sálmaskáldið Paul Gerhardt, ortur árið 1653. Sálmurinn er 12 vers í frumgerðinni, en Björn valdi að þýða fjögur fyrstu versin og það sjötta hefur hann sem lokavers.
Af hverju valdi hann það að þýða einungis fimm vers? Það einkenndi hann sem sálmaskáld að mörg verka hans voru einstök vers en þó efnismikil, hann virtist vera talsvert mótaður af knöppum stíl íslenskra bókmennta. Björn gagnrýndi sálmaskáldið Valdimar Briem á þann hátt að Valdimar mætti gæta meiri ögunar þannig að höfuðtilgangur sálmanna lenti ekki í skugganum af þarflitlum umbúðum. Það liggur fyrir að þessi huggunarríki tilbeiðslusálmur „Á hendur fel þú honum“ hefur unnið sér fastan sess við útfararathafnir hér á landi og á einnig vissulega vel við í almennum guðsþjónustum.
Á hendur fel þú honum,
sem himna stýrir borg,
það allt, er áttu’ í vonum,
og allt, er veldur sorg.
Hann bylgjur getur bundið
og bugað storma her,
hann fótstig getur fundið,
sem fær sé handa þér.Ef vel þú vilt þér líði,
þín von á Guð sé fest.
Hann styrkir þig í stríði
og stjórnar öllu best.
Að sýta sárt og kvíða
á sjálfan þig er hrís.
Nei, þú skalt biðja’ og bíða,
þá blessun Guðs er vís.Ó, þú, minn faðir, þekkir
og það í miskunn sér,
sem hagsæld minni hnekkir,
og hvað mér gagnlegt er,
og ráð þitt hæsta hlýtur
að hafa framgang sinn,
því allt þér einum lýtur
og eflir vilja þinn.Þig vantar hvergi vegi,
þig vantar aldrei mátt,
þín bjargráð bregðast eigi
til bóta’ á einhvern hátt.
Þitt starf ei nemur staðar,
þín stöðvar engin spor,
af himni’ er þú þér hraðar
með hjálp og líkn til vor.Mín sál, því örugg sértu,
og set á Guð þitt traust.
Hann man þig, vís þess vertu,
og verndar efalaust.
Hann mun þig miskunn krýna.
Þú mæðist litla hríð.
Þér innan skamms mun skína
úr skýjum sólin blíð.
Sjá, himins opnast hlið
Annar sálmur eftir Björn í sálmabókinni ætti að vera okkur að góðu kunnur. Það er frumortur jólasálmur og ber yfirskriftina „Sjá, himins opnast hlið.“ Það voru fimm langspil í Laufási og Þórhallur sonur Björns, síðar biskup, sagði að þau hefðu öll verið í gangi á sunnudögum.
Björn lék á langspil, hann lék fögur sönglög er vöktu sérstaka löngun hans til að yrkja. Eitt sinn lék hann lag, sem hann lýsti sjálfur sem gullfallegu, þetta er sálmalag er heitir „In dulce jubilo.“ Hann byrjaði að raula með og þá spruttu fram hendingar og hinn kunni jólasálmur „Sjá himins opnast hlið“ varð til.
Sjá, himins opnast hlið,
heilagt englalið
fylking sú hin fríða
úr fagnaðarins sal,
fer með boðun blíða
og blessun lýsa skal
:/: Yfir eymdadal :/:Í heimi’ er dimmt og hljótt,
hjarðmenn sjá um nótt
ljós í lofti glæðast,
það ljós Guðs dýrðar er,
hjörtu þeirra hræðast,
en Herrans engill tér:
:/: „Óttist ekki þér“.:/:Með fegins fregn ég kem:
Fæðst í Betlehem
blessað barn það hefur,
er birtir Guð á jörð,
frið og frelsi gefur
og fallna reisir hjörð.
:/: Þökk sé Guði gjörð :/:Já, þakka, sál mín, þú,
þakka’ og lofsyng nú
fæddum friðargjafa,
því frelsari’ er hann þinn,
seg þú: „Hann skal hafa
æ hjá mér bústað sinn
:/: Vinur velkominn“ :/:Ó Guðs hinn sanni son,
sigur, líf og von
rís með þér og rætist,
þú réttlætisins sól,
allt mitt angur bætist,
þú ert mitt ljós og skjól.
:/: Ég held glaður jól :/:Á hæstri hátíð nú
hjartafólgin trú
honum fagni’ og hneigi,
af himni’ er kominn er,
sál og tunga segi
með sælum englaher:
:/: „Dýrð sé, Drottinn, þér“ :/:
Sr. Björn og sr. Bolli hinn eldri
Það er ekki ofmælt að faðir minn Bolli Gústavsson prestur í Laufási (1966-1991) hafi fundið fyrir einhverri tengingu við Björn enda var Björn honum sérstaklega hugleikinn. Það hefur ekki einvörðungu verið skáldskapurinn sem hreif föður minn heldur jafnframt persóna Björns og það djúpa lífsins innsæi sem hann hefur búið yfir gagnvart tilvistinni og þeim verkefnum sem hún leggur okkur á herðar.
Stundum hélt ég sem drengur að Björn væri hreinlega lifandi, þessi 19. aldar maður sem andaðist 19. desember 1882. Ég hélt jafnframt að hann væri einn af vinum föður míns í prestastétt, en með þeim hætti talaði faðir minn um hann og með áhuga sínum gerði hann Björn að ljóslifandi persónu bæði í ræðu og riti. Kveðskap Björns tók Bolli faðir minn saman í bók er ber heitið„ Ljóðmæli“ og kom út hjá Skálholtsútgáfu árið 1994. Um leið og Björn er gæddur lífi verður saga Laufáss líka lifandi. Björn er sem samofinn sögu Laufássstaðar og aldnar húsbyggingar sem þar standa enn eru verk hans í samstarfi við góða menn eins og Jóhann bónda Bessason frá Skarði í Dalsmynni og Tryggva prestsson og bankastjóra Gunnarsson frá Laufási.
Mig langar að ljúka þessari umfjöllun minni um skáldprestinn, fjölskyldumanninn, bréfvininn, raunamanninn, og trúmanninn Björn Halldórsson í Laufási á eftirfarandi ljóði eftir föður minn er ber titilinn „Endadægur sr. Björns Halldórssonar í Laufási.“
Uppi í ásnum
að bæjarbaki
slær fjarlægt tungl
fölkaldri birtu
á harðfenni
inn á milli
svartra kjarrfingra.Leiftra
smáfelldir kristallar
efst á frerabungu,
horfast í augu
við titrandi stjörnur
í órafirð.Heilagt englalið
kallar skáld til farar.
Skáld svipullar gleði,
skáld djúprar sorgar
leggur lúð ritföng
á þéttskráða örk,
gengur hægt til svefnhúss.Í lágum dyrum
slær þreytt hjarta
hinsta slag
í veiku brjósti
og við tekur
voldugur hljómur
fjarlægra klukkna.Skarsúðin lága rofnar
við þau langdrægu slög,
en hásalur fagnaðar
lýkst upp með lofsöng:
Sjá himins opnast hlið.