Friðrik J. Hjartar, listfræðingur og prestur, hefur rannsakað sögu og gerð steindu glugganna í Bessastaðakirkju. Listgluggarnir eru ákaflega fallegir og þeim hefur ekki verið gerð áður jafn rækileg skil eins og hér. Kirkjublaðið.is birtir rannsókn sr. Friðriks í tveimur hlutum en hún var BA-verkefni hans í listfræði við Háskóla Íslands. Myndina hér að ofan tók Kirkjublaðið.is af höfundi við rannsóknarvinnu sína á Þjóðskjalasafni Íslands.

Það vakti áhuga minn í upphafi að fjalla um steinda glugga í Bessastaðakirkju. Sú rannsókn var áhugaverð, en fljótt kom í ljós að ekki varð vikist frá að skoða sérstöðu þessa aldna steinhlaðna húss, sem er með þeim elstu á landinu. Sjónarmið minjavörslu höfðu áhrif á verkið en harkalegar deilur sköpuðust í framhaldi af störfum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins vegna þeirra breytinga sem hann gerði, að því er virðist á eigin spýtur og mæltust illa fyrir. Á þessum tíma höfðu Bessastaðir nýlega komist í eigu ríkisins og hlutu strax sérstöðu þar sem jörðin var gerð að aðsetri ríkisstjóra og síðar forseta Íslands, en um nokkurra alda skeið var þar aðsetur hins danska konungsvalds. Fjallað er um stjórnsýsluna, listapólitík og listræn sjónarmið og þær breytingar sem áttu sér stað um og eftir miðja síðustu öld og afleiðingar sambandsslitanna. Báðir fyrstu forsetarnir höðu áhrif á gang mála, en ekki tókst vel um öll samskipti. Þá er einnig gerð grein fyrir guðfræði og samleið kirkjufólks og kirkjueigenda. Sýn minjaverndar er önnur en safnaðar en altarisfrágangur Guðjóns Samúelssonar hefur kallað á breytingar sem enn eru ófullburða.

Talsvert hefur verið fjallað um lagfæringar, sem margir kjósa með nokkrum rétti að kalla breytingar, sem gerðar voru á Bessastaðakirkju um miðja síðustu öld. Í framhaldi af þessari vinnu voru settir í kirkjuna steindir gluggar, sem eru kveikjan að og helsta tilefni þessarar ritgerðar en leiddu rannsóknina að málefnum kirkjunnar. Ekki verður umflúið að gefa henni nokkurt rými, bæði út frá sögu annarra listmuna í kirkjunni, sögulegum sjónarmiðum og eins vegna sérstöðu kirkjunnar varðandi minjavernd. Gluggarnir eru með því síðasta sem tengist þessum umdeildu málum endurnýjunar. Einnig koma til sögu jarðakaupamál, byggingarsaga kirkjunnar, afstaðan til hins danska valds, skipan forseta Íslands og ráðstöfun staðarins.

Fljótt kom í ljós að í þessu efni voru uppi mismunandi sjónarmið og hagsmunir og kölluðust þar ekki aðeins á listræn sjónarmið, heldur einnig pólitík, óskilvirk stjórnsýsla, guðfræði, takmarkaður skilningur á varðveislu sögulegra minja, reisn forsetaembættisins, hagsmunir safnaðarins og hörund þeirra sem um málin véluðu.

Ljós og litir, saga lands og þjóðar, fegurðarskyn og listrænar hreyfingar koma til skoðunar, en einnig sjálfstæðisbarátta íslendinga og afstaðan til erlendra valdhafa og áhrifa, en landið var undir danskri stjórn þegar hafist var handa um byggingu kirkjunnar. Saga glugganna er merkileg, en þeir koma til sögunnar í framhaldi af hinum umdeildu breytingum með kosti sína og galla og væri því freistandi að kalla þá punktinn yfir i-ið.

Forsaga

Bessastaðakirkja var helguð heilögum Nikulási, en í Sögu Garðabæjar er þess getið að margar kirkjur voru honum helgaðar um aldamótin 1100, þegar nýlega var búið að grafa upp bein hans.[1] Það er því ljóst að kirkja hefur lengi staðið á Bessastöðum, þótt sú saga verði ekki öll rakin hér. Í máldaga frá 1352 er þess getið að prestur og djákni skuli vera á Bessastöðum, en hefur að líkindum aldrei verið uppfyllt, enda ekki getið í yngri máldögum og má því ætla að Bessastöðum hafi alla tíð verið þjónað frá Görðum[2].

Í sem skemmstu máli þá var það venjan á miðöldum að kirkjurnar væru í einkaeign og nytu tíundartekna, en þróunin varð sú að þær urðu n.k. sjálfseignarstofnanir, bændakirkjur, stundum efnaðar, en sérstök lög um sóknarkirkjur voru ekki sett fyrr en árið 1907.[3] Óneitanlega vekur það athygli að Bessastaðasöfnuður hefur sjálfur aldrei átt kirkju, en notið nábýlisins við aðsetur hins danska valds og síðar forsetasetursins, sem kallar á ákveðna reisn.

Bessastaðir voru öldum saman í eigu konungs og umboðsmenn hans eða leiguliðar þeirra sátu venjulega staðinn, en kirkjan fylgdi jörðinni. Ástand kirknanna var með þeim hætti að eðlilegt var að sóknarbörnin væru ekki alltaf ánægð. Um ástand kirkjunnar á Bessastöðum segir svo í Kirkjur Íslands: „Í upphafi 17. aldar var Bessastaðakirkja orðin svo hrörleg að konungur lagði skatt á allar aðrar kirkjur á landinu til að kosta byggingu nýrrar kirkju á þessum garði sínum.“[4]

Áður en undirbúningur að byggingu núverandi steinkirkju hófst árið 1773 að ákvörðun Kristjáns VII undir styrkri stjórn Thodals stiftamtmanns, sem var einn helsti hvatamaður verksins, voru margar kirkjur reistar á Bessastöðum, en sakir þess að byggingarefni var af skornum skammti og oft mis gott entust þær sumar hverjar í stuttan tíma. Efnt var til fjársöfnunuar bæði hérlendis og í Danmörku og Noregi, en nýja kirkjan var reist utan um gömlu timburkirkjuna. Strax á byggingartímanum, sem var langur, tóku veggirnir að skemmast, en smíði höfuðkirkjunnar virðist ljúka 1790 – 1795, en stöpullinn (turninn) er þá enn ófullgerður.[5] Að utan minnti Bessastaðakirkja á rómanska tíð með bogadregna glugga, ógaflsneidd og með forkirkjuturni.[6]

Árið 1823 er smíði Bessastaðakirkju lokið, en virðist fljótt kalla á mikið viðhald, sem marka má af því að árið 1843 gefur Árni Helgason stiftprófastur á Görðum þann vitnisburð að Bessastaðakirkja sé sú kirkja sem vesælust sé í prófastsdæminu. Það virðist ekki hafa verið í verkahring biskups að visitera kirkjuna þar sem hún tilheyrði danska konungsvaldinu og ekki eru til heimildir um vígslu hennar. Þegar Grímur Thomsen eignast kirkju og jörð 1867 breytist kirkjan í bændakirkju og er fyrsta biskupsvísitasían 10. júní 1875 er Pétur Pétursson, biskup Íslands, vitjar staðarins. Þá kvað lítið að leka nema í stórviðrum og hafði Grímur Thomsen í hyggju að ráða bót þar á, þótt Benedikt Gröndal teldi að Grímur hefði takmarkaðan áhuga á húsabótum, en á hans búskaparárum (1868-1896) féll loftið í kórnum niður að hluta og var kirkjan m.a. notuð til að þurka þvott. Einnig var fjarlægt úr henni tréverk.[7]

Frá því Grímur Thomsen seldi jörðina komu nokkrir eigendur að og ástæða til að draga fram í ljósi þess sem síðar gekk á að Jón H. Þorbergsson, sem var eigandi hennar frá 1917  – 1928,  bauð Þjóðminjasafninu kirkjuna að gjöf með því skilyrði að það kostaði viðgerðir á henni og héldi henni við sem safnaðarkirkju. Þessu boði var hafnað af Alþingi. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður greip þá til fjársöfnunar en í bók Péturs Ármannssonar um Gunnlaug Halldórsson segir svo: „Bessastaðakirkja var fyrsta sögulega byggingin hér á landi sem endurgerð var í upprunalegri mynd. Var það verk unnið á árunum 1922-23 að frumkvæði Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðarðar. Í kirkjunni var ein elsta kirkjuinnrétting landsins, sú eina í nýklassískum stíl 18. aldar“.[8] Aðrir fyrri og síðari eigenur lögðu einnig til fé vegna endurbóta.[9]

Eign hins opinbera

Um það leyti sem Sveinn Björnsson var kosinn ríkisstjóri, þann 17. júní 1941, hafði þáverandi eigandi Bessastaða, Sigurður Jónasson, forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins, ákveðið að gefa ríkinu jörðina sem aðsetur þjóðhöfðingja. Sigurður hafð fengið arkitektinn Gunnlaug Halldórsson til liðs við sig í nauðsynlegum lagfæringum og viðbótarbyggingum við Bessastaðastofu og var hann áfram ráðgjafi hins nýja ríkisstjóra, Sveins Björnssonar, við að sníða húsakostinn að nýjum þörfum. Gjöf Sigurðar fylgdi Bessasstaðakirkja og virðist Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, hafa verið fengið það verkefni að lagfæra kirkjuna sem n.k. sárabót vegna starfa Gunnlaugs Halldórssonar, sem e.t.v. hefðu átt að falla Guðjóni í skaut sakir stöðu hans. Skal ósagt látið hér hvort þessi „faglegi núningur“ hefur haft áhrif á störf hans, en víst er að ekki fóru aðeins fram viðgerðir á Bessastaðakirkju, heldur nokkuð róttækar breytingar, sem seint verða allar samrýmdar sjónarmiðum sagnfræði og minjavörslu.[10]

Endurbætur staðarins helguðust að nokkru af umtalsverðum búrekstri nýs ríkisstjóra á Bessastaðajörðinni og fórst Gunnlaugi Halldórssyni vel í að byggja upp staðinn í mynd dansks herragarðs sem var í góðu samræmi við hvernig fulltrúar konungsvaldsins höfðu um aldir byggt í kringum lokaðan húsgarð. Þótt þetta fyrirkomulag væri lítt þekkt í íslenskum sveitum gat það sem best átt við á hinu íslenska höfuðbóli, Bessastöðum, en vissulega var þetta fjarri þeim þjóðernis-rómantíska anda sem einkenndi steinsteyptar burstabyggingar Guðjóns Samúelssonar í Þingvallabænum 1930 og Héraðsskólanum á Laugarvatni 1928-1929.[11]

Ekki er óeðlilegt að kirkjunnar fólk leiti eftir lagfæringum og bættri stöðu, en þann 8. júlí 1943 ritar prófasturinn Helgi Hálfdánarson Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í framhaldi af vísitasíugjörð frá 4. júlí sama ár og óskar úrbóta, þar sem kirkjan sé ónothæf sakir kulda nema rétt um hásumarið, en svo hafi verið um árabil. Af þeim sökum fari helgihaldið fram í barnaskólahúsi sveitarinnar. Bekkirnir allir og margt fleira þarfnist lagfæringar til að kirkjan sómi þeim stað sem hún stendur á. Óskar hann eftir því að eigandinn, hið opinbera, gangist fyrir lagfæringum í þágu safnaðarins og sóma lands og þjóðar.[12] Þannig sýnir kirkjufólk metnað og áhuga  en ásýnd staðarins er í veði, ekki síst fyrir ásigkomulag kirkjunnar.

Á Bessastöðum var vilji fyrir því að leggja niður kirkjugarðinn umhverfis kirkjuna, en þegar plægt er í gögnum Þjóðskjalasafns má merkja ákveðinn kaupskap milli sóknarfólks og kirkjumálaráðuneytis. Þann 10. júlí 1945 tilkynnir sr. Garðar Þorsteinsson kirkjumálaráðuneytinu að safnaðarfundur fallist á þá tillögu að kirkjugarðurinn verði lagður niður strax og nýr hefur verið gerður, en áætlað er að sá gamli myndi endast í 15 ár. Jafnframt er þess getið að þessi samþykkt sé gerð í trausti þess að þegar verði hafist handa um að setja hitunartæki í Bessastaðakirkju og lagfæra hana svo hún geti talist nothæf.[13] – Eftir aldamótaárið 2000 er eigi að síður enn verið að nota garðinn og einstaklingar telja sig eiga þar frátekin leiði. Þessi dæmi sýna fram á stöðug samskipti safnaðarins við stjórnvöld varðandi kirkjuna.

Breytingar og ágreiningur

Allur þessi erindrekstur tekur á sig nýja mynd þegar húsameistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni, er falið að annast lagfæringar á kirkjunni. Hann kynnti kirkjumálaráðherra all ítarlega áætlun um það helsta sem hann taldi að gera þyrfti ásamt þrennskonar kostnaðaráætlun með bréfi þann 7. ágúst 1945.[14] Var dýrasta áætlunin valin og gert ráð fyrir talsverðum umframkostnaði. Hér verður ekki gerð grein fyrir öllum verkþáttum, heldur aðeins fjallað um fáein atriði sem ásamt öðrum leiddu til umtalsverðra blaðaskrifa og ádeilna, en þær ekki raktar nema að litlu. Lagt verður mat á nokkra þætti, greint frá ágreiningi forseta og húsameistara og gerð grein fyrir sjónarmiðum sem tengjast listrænu, sögulegu eða guðfræðilegu mati. Gott er að ítreka það hér að gluggarnir í kirkjunni snertu að engu þá vinnu sem Guðjón Samúelsson húsameistari kom að.

Viðamikla viðgerð þurfti og var öllu rutt út úr kirkjunni. Það sem mest bar á var að verklegt upprunalegt kórþil með merki konungsins á súlum og skreytingum var fjarlægt. Einnig var tekinn niður prédikunarstóll á stoðum með þaki sem tengdist þilinu, en Ríkarður Jónsson beðinn að skera úr eik krossfestingarmynd sem altaristöflu og skreytingar á prédikunarstól eftir tillögum Guðjóns Samúelssonar.

Eldri altaristöflu sem kom í Bessastaðakirkju á fardagaárinu 1863-1864 var skilað og er hún nú varðveitt á lofti Dómkirkjunnar. Var hún rifin niður með svo harkalegum hætti að mikil umgjörð sem henni fylgdi var brotin og eyðilögð. Einnig var brotið nokkuð af málverkinu sjálfu. Mynd af henni prýðir sögu dómkirkjunnar.[15]

Þar sem kirkjan var byggð í barrokstíl að innan vekur það umhugsun að ekki skuli hafa verið horft til steinhlaðinna kirkna frá svipuðum tíma um úrlausnir og má þar bæði nefna Hólakirkju og Viðeyjarkirkju sem báðar hafa fengið að halda sínum kórskilum. Í Landakirkju í Vestmannaeyjum, sem einnig hefur gengið undir ýmsar breytingar, var kórþilið tekið niður en væntanlega hefur stækkandi söfnuður þar kallað á meira rými og ráðið nokkru um þá aðgerð. Bæði þar og í Viðeyjarkirkju er prédikunarstólnum komið fyrir ofan altarisins. Horfa hefði mátt til þeirrar lausnar, en hún er einnig notuð í íslenskum timburkirkjum eins og Snóksdalskirkju (1875) og Hólskirkju í Bolungarvík sem teiknuð var af Rögnvaldi Ólafssyni og var tekin í notkun 1908.

Á þessum árum gætti ákveðinnar þjóðerniskenndar hjá Íslendingum, sem nýlega höfðu öðlast sjálfstæði frá Dönum og víða reynt að má brott merki þeirrar langvarandi sambúðar landanna hér á landi. Í grein sinni „„Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“ telur Þór Magnússon, þjóðminjavörður, að hjá Guðjóni hafi gætt þjóðernislegrar minnimáttakenndar þegar hann ákvað að fórna öllu sem áður hafði verið gert innanstokks í Bessastaðakirkju.[16] Þetta er gott dæmi um svokölluð eftirlendusjónarmið.

Tillaga að altaristöflu

Sú lausn Guðjóns Samúelssonar að setja upp krossfestingarmynd í gotneskum stíl sem altaristöflu fór illa í kirkjunni enda horfir hin evangelíska Lútherska kirkja á Íslandi frekar til hins upprisna Jesú í boðun síns fagnaðarerindis, heldur en til hins krossfesta og þjáða. Fjarri fer þó að skautað sé framhjá þjáningunni eins og sést á notkun Passíusálmanna og árlegs upplesturs þeirra og notkun Píslarsögunnar í helgihaldinu, enda hlýtur þjáningin merkingu í ljósi upprisunnar. Vissulega má víða sjá smærri gerðir slíkra krossa á ölturum kirkna, en þar eiga í sumum tilfellum í hlut „skrautmunir“ sem gefnir hafa verið í góðum tilgangi. [17]

Gotneski þjáningarkrossinn teflir fram hinum þjáða og deyjandi mannssyni með lukt augu og höfuðið hneigt til hægri handar. Hann er krýndur þyrnum og fæturnir krosslagðir negldir einum nagla á krossinn og síðusárið opið á hægri síðu.[18] Öllum þessum einkennum heldur Ríkarður Jónsson til haga í verki sínu. Krossmarkið sem slíkt er ævafornt og eldra en kristnin. Á dögum rómverska ríkisins var krossinn aftökutól. Krossinn markar eigi að síður sigur Guðs vegna upprisunnar og einnig er hann lausnarmark manninum í ljósi hennar. Hann minnir á að lífið bar sigur af dauðanum. Til samanburðar vil ég nefna beran krossinn sem settur var sem altaristafla í hinni endurbyggðu Garðakirkju árið 1966, en sá kross var síðar færður í Vídalínskirkju við vígslu hennar 1995 og þjónar enn sem altaristafla hennar.

Ríkarður gekk svo frá í verki sínu að krossmarkið tengdist altarinu með útskornum fótstalli, þremur laufblöðum sem mynduðu nettan stall sem tengdist altarinu og þar með öðru í kirkjunni að honum fannst. Krossinn er oft kallaður lífsins tré, sem tengir saman himin og jörð með sínum lóðréttu og láréttu örmum. Í bréfi dagsettu 09.11.48 ritar Ríkarður Sigurgeiri Sigurðssyni, Biskupi Íslands, í framhaldi af hátíðarmessunni sem markaði lok viðgerðanna, og kvartar undan því að fótstykkið hafði verðið sagað neðanaf, en skömmu fyrir athöfnina höfðu bæði forseti og húsameistari staðfest að þetta myndi lagfært áður en til vígslunnar kæmi. Það urðu honum mikil vonbrigði að ekki varð úr því og þótti honum þetta óvirðuleg og óhæf umgengni við listaverk sitt og beiddist aðstoðar biskups í málinu. Virðist þetta atriði vera í takt við ákveðna óvirðingu og ónákvæmni sem viðgekkst á framkvæmdatímanum.[19] Mín kenning er sú að krossinn með fótstallinum hafi einfaldlega verið of hár, en gamla altarið var meter á hæð. Krossmarkið er um 230 centimetrar í dag og lofthæð takmörkuð í kirkjunni.

Samskiptahnökrar

Önnur breyting sem gerð var á kirkjunni var að tígulsteinar, gulir og rauðir, sem lagðir voru með tíglamunstri milli bekkjaraða á ganginn í forkirkjunni voru fjarlægðir. Var það gert í óþökk forseta, en í löngu bréfi til kirkjumálaráðuneytis frá 23. febrúar 1948 bregst Sveinn Björnsson við skýrslu Björns Rögnvaldssonar yfirsmiðs húsameistara frá 10. janúar sama ár um endurbyggingu Bessastaðakirkju. Þar nefnir hann ásamt fleiru steinlögnina sem hann vildi halda, en hafa óbrotið gólf í kirkjunni að öðru leyti. Þótti honum mjög á sig hallað í skýrslunni.[20] Steinarnir  voru þó lagðir á ný í turngólfið, en sjást ekki í dag. Að sögn Guðjóns var ekki hægt að fá viðbótarsteina.[21] Allir bekkirnir voru fjarlægðir og í staðinn settir inn stíflakkaðir eikarbekkir hannaðir af Guðjóni sem ekki féllu að því yfirbragði sem kirkjan hafði áður. Þótt smíðin væri vönduð þykir ekki gott að sitja á þeim og hefur söfnuðurinn kostað nokkru til með að setja bólstraðar sessur í alla bekkina.

Samskipti forseta og húsameistara hafa greinilega ekki verið hnökralaus því að í framhaldi af áður nefndri skýrslu Björns Rögnvaldssonar bregst Sveinn Björnsson, forseti við og þykir gert þar of mikið úr sinni aðkomu hvað kostnaðaraukann varðaði, svo mikið að skert gæti virðingu nafns hans og embættis. Hann rekur í gagnorðu bréfi sínu til kirkjumálaráðuneytisins fáein atriði sem ýmist vega til kostnaðar eða sparnaðar, en bendir líka á mikilvæg atriði sem hann lét sig varða. Hann hafði góða reynslu af uppbyggingu Bessastaðastofu og skynjaði mikilvægi heildarsýnar á staðinn og lagði því til að settar yrðu þakhellur úr brenndum leir á þakið í stað bárujárns, en í því hefur trúlega falist kostnaðarauki.[22]

Annað sem valdið gat kostnaðarauka var tillaga forstea um að fá í kirkjuna lítið pípuorgel, en samkvæmt hans upplýsingum myndi það kosta hér um bil helmingi hærri upphæð heldur en harmonium og endast margfalt lengur og þar með borga sig til lengri tíma. Á þetta var fallist, en árið 1970 lýsir organistinn því í vísitasíugjörð að orgelið sem kom 1948 hafi alla tíð verið lélegt og væri á þessum tíma svo illa farið að ónothæft gæti orðið hvenær sem er. Var áhugi fyrir að óska eftir að ríkisstjórnin legði til fjárframlag til kaupa á nýju orgeli.[23] Rétt er að það komi fram hér að nýtt íslenskt pípuorgel ásamt söngpalli til bráðabirgða, kostað af söfnuðinum, var helgað til notkunar í kirkjunni á jóladag 1999,[24] [Heimildin segir árið 2000 sem er rangt] en fyrra verkfæri hafði valdið ómældum vanda og næstum bruna í kirkjunni.

Í samhljóðan við mörg af sínum verkum kom húsameistari með þá óheppilegu tillögu að kvartshúða kirkjuna að utan, en því afstýrði forseti og benti á að til samræmis við hús staðarins færi betur að hafa óbrotna grófhúðun. Af lestri bréfsins er auðvelt að sjá hversu mæddur forseti var af þessum alltof langvinnu og erfiðu samskiptum.[25] Til að gæta sannmælis skal samt nefnt að bæði upphitun og vatssalerni voru sett í kirkjuna, auk raflýsingar og vísi að skrúðhúsi.

Blaðaskrif – uppstokkun stjórnsýslu

Málefni kirkjunnar komast í hámæli eftir að Gylfi Þ. Gíslason alþingismaður gerir Bessastaðakirkju og viðgerð hennar að umræðuefni í útvarpserindi í febrúar 1948, en hluti erindisins er síðan birt í blöðum, en uppúr því spunnust nokkur blaðaskrif er Guðjón Samúelsson húsameistari tók til varna.[26]

Verður allt þetta mál til að ákveðin uppstokkun er gerð í stjórnsýslu landsins, sem eitthvað virðist hafa farið úr skorðum. Það var ekki einungis að kostnaður við endurbæturnar var orðinn mikill, en ekkert af honum hafði ratað á fjárlög, heldur einnig hversu óheppilegt það var að persóna og virðing forsetans drægist inn í dægurþras og deilur, en vissulega virðist sem forseti hafi haft ákveðið sjálfdæmi í viðskiptum sínum bæði vegna framkvæmda og búskaparins á Bessastöðum. Í bréfi sem Stefán Jóhann Stefánsson, forsætisráðherra, gefur út þann 5. apríl 1948 og sent er forseta og viðkomandi ráuðneytum er tilkynnt að allt reikningshald og fjárskuldbindingar forsetaembættisins skuli framvegis afgreidd í forsætisráðuneytinu eins og verið hafði í upphafi.[27]

Dúntekja hefur lengi verið stunduð á Bessastöðum, en auk annars búskapar var þar nokkur kornrækt og tilraunir voru gerðar þar með hörrækt frá 1946 og fram yfir 1950.[28] Málefni búrekstrarins sem var talsvert fyrirferðamikill í upphafi embættis ríkisstjórans heyrðu undir Landbúnaðarráðuneytið og þegar til komu viðgerðir á kirkjunni og umgengni um hana var ýmislegt sem lenti á borði kirkjumálaráðherra, þannig að heildaryfirsýn skorti í Forsætisráðuneytinu, sem með réttu átti að annast mál tengd forsetaembættinu.

Lok viðgerða

Þann 13. október 1948 tilkynnir Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins kirkjumálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu að viðgerðum á Bessastaðakirkju sé lokið og tekur til tvö atriði sem ollu seinkun framkvæmda.[29] Við þessu bréfi brást Sveinn Björnsson forseti strax með bréfi til forsætisráðherra dagsettu 18. október 1948 og mótmælti uppgefnum ástæðum.[30]

Með réttu má deila á hvernig Guðjón Samúelsson umgekkst innviði kirkjunnar og byggingarstíl út frá sjónarmiðum minjavörslu og byggingarlistar. Það er líka sérstakt að hann virðist ekki hafa borið hugmyndir sínar undir nokkurn mann. Á þessum árum hefur hann væntanlega verið orðinn þreyttur og slitinn eftir að hafa lokið gríðarlega miklu verki á sviði bygginga- og skipulagsmála svo tekið sé til varna fyrir hann.

Söfnuður og kirkja höfðu lengi átt samleið á Bessastöðum en í  sérstakri hátíðarguðsþjónustu sem fram fór að loknum þriggja ára viðgerðum í Bessastaðakirkju í lok október 1948 lýsti biskupinn, Sigurgeir Sigurðsson, kirkjuna tekna í notkun á ný, en nú voru það ekki lengur hin dönsku yfirvöld sem réðu ríkjum. Auglýst var að aðeins boðsgestir gætu sótt athöfnina, en athöfninni var útvarpað.[31]

Í október 1948 kemur fram sérstakt uppkast af hendi forseta með yfirskriftinni „Reglur um notkun ríkiskirkjunnar á Bessastöðum m.m.“ sem heimila messuhald safnaðarins en krefjast leyfis forsætisráðherra vegna annarra athafna. Festur var niður fastur opnunartími og sett gjald fyrir inngöngu. Handskrifað er á skjalið að það sé samið af forseta Íslands, Sveini Björnssyni.[32] Sérstakar skýringar fylgdu með.[33] Forsætisráðuneytið brást við og samdi nýjar reglur sem litu fljótt dagsins ljós undir yfirskriftinni „Reglur um notkun Bessastaðakirkju o.fl.“ og er handskrifað á eintakið að samþykki biskups sé fengið með samtali 26.10.48. Samþykki forseta og forsætisráðherra er einnig fengið og kvittað við með upphafsstöfum ráðuneytisstjóra, Birgis Thorlacius, en útgefandinn var forsætisráðuneytið.[34] 

Rætt um glugga

Það má segja að seint verði Bessastaðakirkja fullgerð, enda virðist ljóst að Sveinn Björnsson, forseti, hefur ætlað Bessastaðakirkju ögn meiri vegsemd heldur en var í kortunum hjá Guðjóni Samúelssyni. Þann 17.12.47 sendir hann sendiráði Íslands í London erindi sem endurspeglar vel hugmyndir forsetans og fróðlegt er að draga fram með fylgjandi úrdrætti:

„Vel færi á að hafa litað gler „blýinnfattað“ með myndum úr biblíunni í gluggana.  Þetta fæst hvergi betra en í Bretlandi.  Hinsvegar kemur hér til greina kostnaðarspurning og gjaldeyris.

Nú vildi ég mega biðja sendiráðið …  Til þess að draga úr kostnaði mundi ég ekki fara fram á „originalmyndir“, heldur hvaða myndir sem eru með motivum úr biblíunni sem firmað ætti ráð á. …

Einn glugginn miklu minni, sem einnig er á uppdrættinum þyrfti originalmynd af.  Það yrði skjaldarmerki Íslands.

Umtalað yrði til bráðabirgða að vera svo, að ekkert sé bindandi, vegna verðs og gjaldeyrisskorts.  Því ekki hægt að ákveða pöntun fyr en eftir að vitað er nákvæmlega um kostnaðinn.“ [35]

Það er greinilegt kreppuhljóð í erindinu, en sendiráðið svaraði þann 20.01.48 og hafði þá haft upp á nafni William Morris & Co sem heppilegum og traustum viðskiptaaðila fyrir gluggapöntun, en þeir upplýstu að slíkt gler væri ekki á lager og aðeins afgreitt samkvæmt pöntun.[36] Þann 28.01.48 skýrir sendiráðið í London frá fundi með fulltrúa fyrirtækisins sem spurði margs, sýndi myndir af kirkjurúðum og lagði fram ýmsar gagnlegar tillögur um útfærslu, en eina mynd af góða hirðinum með sauðfénað á beit í kring leist sendiráðinu þannig á að vel færi á Bessastöðum. Fulltrúi fyrirtækisins kom með athyglisverðar faglegar ábendingar. Benti hann á að koma mætti táknrænum smámyndum fyrir neðan eða ofan við aðal myndefnið, auk þeirrar vaxandi hneigðar að láta ekki myndir þekja allt glerið, heldur gefa rúm fyrir nokkuð breytt borð kringum aðal myndefnið til að auka ljósgjöf inn í kirkjuna.[37]

Þann 9. marz 1948 skrifar sendiráðið í London aftur til skrifstofu forseta Íslands um tillögur og kostnaðaráætlun frá William Morris & Co. Þar er m.a. uppdráttur að rúðu þeirri sem ber skjaldarmerkið í fullri stærð. Einnig fylgdi tillaga að glugga með mynd af góða hirðinum, en sendiráðsmenn töldu að lambið sem hringaði sig um háls góða hirðisins hefði ekki „íslenzkan svip“. Senda þyrfti góðar myndir af íslensku lambfé ef vinna ætti þessa tillögu frekar. Lagði Morris til að rúm það sem yrði milli rammans og góða hirðisins yrði fyllt með „Antique-glass“ til að veita inn fallegri birtu og sendi með sýnishorn af slíku gleri. Fyrsta verðáætlun hljóðaði upp á 1460 – 1660 sterlingspund og afgreiðslufrestur talinn eitt og hálft ár. Með bréfi sendiráðsins fylgdu ýmis gögn til skýringar og ósk um mál og fleira sem gerð glugganna varðaði.[38]

Af þeirri áherslu sem William Morris & Co leggur á að hafa ljósdreypt gler í gluggunum má ráða að sú hugmynd hafi aldrei náð til hinna íslensku listamanna sem gerðu uppdrætti að gluggunum, en það kann einnig að skýrast af því að nokkur tími leið þar til þeir voru kallaðir til verks en þá er Ásgeir Ásgeirsson tekinn við embætti forseta.

Veturinn 1948 – 1949 ganga bréf á milli skrifstofu forseta og sendiráðsins í London, sem annast viðskiptin með glerið fyrir hönd forsetaembættisins. Skjaldarmerkisglugginn, sem staðsettur er í austurgafli Bessastaðakirkju og snýr að inngöngudyrum forsetasetursins, var pantaður í október en nokkrar tafir urðu á mælingum þannig að dráttur varð á gerð hans en þann 29. mars 1949 er fulltrúa sendiráðsins boðið að skoða fullbúinn gluggann. Hann er sendur heim og greidd fyrir hann 42 pund með flutningi. Fyrirtæki Morris var boðin þóknun, en afþakkaði þrátt fyrir nokkra vinnu.[39] Jafnframt er firmanu kynnt óvissa um hina gluggana þar sem enn sé verið að útfæra hugmyndirnar.

Trúlega hefur sú útfærsla átt við erindi það sem Sveinn Björnsson forseti sendi Pétri Benediktssyni, sendiherra í París 8. september 1949 og bar með sér ósk um að kanna verð á 8 lituðum rúðum í blýumgjörð (glermálverk) í Frakklandi. Tilefnið orðar hann svo:

„Kirkjan er nýgerð upp með ærnum, og óforsvaranlegum, kostnaði.  Eitt af því sem fellur í augun eru ljótir kirkjugluggar í járnumgjörðum, …“.

Forseti segir frá hinu enska tilboði sem sent er með ásamt málsetningum, en ástæður beiðninnar eru tvær, enska tilboðið var of dýrt ofan á allan annan kostnað við kirkjuna og honum þótti sýnishorn að hugmynd um glugga frá Morris „of conventional breskur smekkur“.[40]

Þann 14. desember 1949 svarar Kristján Albertsson fyrir hönd sendiherrans erindi Sveins um franskar rúður. Hann hafði verið í sambandi við fyrirtækið Jean Barillet sem sent hafði þrennskonar tilboð í glugga. Fékk hann fulltrúa fyrirtækisins til skrafs og ráðagerða. Upplýsti hann sendiráðið um mismun tilboðanna, afgreiðslutíma og fleira. Hann spurði m.a. um veðurfar á Íslandi og lagði til að notað væri ryðlaust efni í umgjarðir glugganna að hætti Ameríkana og benti á að í Englandi tíðkaðist að hafa hlífðarrúðu úr venjulegu gleri yst.[41]

Nýr forseti

Nú liggja framkvæmdir niðri um skeið, en þann 25. janúar 1952 lést Sveinn Björnsson forseti í embætti, en 1. ágúst sama ár tekur Ásgeir Ásgeirsson við embættinu. Ný ríkisstjórn var mynduð 1953.

Tímamót verða í lífi Ásgeirs Ásgeirssonar þegar hann verður 60 ára þann 13. maí 1954, en í tilefni afmælis hans hafði ríkisstjórnin ákveðið að kosta gerð glugganna í kórnum, en þetta var sú afmælisgjöf sem hann sjálfur hafði valið sér af þessu tilefni.

Þráðurinn við William Morris var tekinn upp á ný og fól forseti Guðmundi Einarssyni frá Miðdal með bréfi 6. ágúst 1954 sérstaka umsjón og milligöngu varðandi framgang verksins við verksmiðjuna með aðstoð sendiráðsins í London.[42] Ásgeir starfaði með þeim Guðmundi og Finni Jónssyni, fylgdist með og lét sér umhugað um framgang verksins. Eftir yfirferð og smávægilegar breytingar varð endanlegt verð á gluggunum til verksmiðjunnar 2.504.- pund, en hver gluggi um sig kostaði uppkominn kr. 50.000,-  en margir gefendur lögðu málinu lið.[43] Má þar nefna sóknarbörn Bessastaðasóknar sem söfnuðu til Vídalínsglugga. Gluggi Jóns Arasonar var helgaður íslenskum borgurum í Canada og er líklegt að það hafi staðið í tengslum við fjárframlög frá vestur íslendingum.

Listin í landinu – listpólitík

Á þessum árum er geometrían að verða meira áberandi í myndlistinni, sem endurspeglaðist í opinberri umræðu. Almenningur og listamennirnir tróðu ekki sömu slóð og natúralisk og fígúratíf list féllu ekki að sama smekk. Andi eftirstríðsáranna hafði áhrif og ekki voru allir á einu máli hvað pólitík varðaði. Leiddi þetta til  listpólitískra flokkadrátta sem m.a. snertu alþingiskosningarnar 1953 og rekstur Listamannaskálans. Abstraktlistin átti sér sterka fylgjendur sem náðu undirtökunum innan FÍM, sem leiddi síðan til þess að hópur listamanna af eldri kynslóðinni sagði sig úr félaginu og stofnaði Nýja myndlistarfélagið. Í kjölfar þess stofnuðu Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Ríkarður Jónsson, Finnur Jónsson og Gunnlaugur Blöndal Félag óháðra myndlistarmanna, [44]  en þeir voru í hópi íhaldssömustu listamanna þjóðarinnar á þeim tíma. Þeir eru allir nefndir til sögu í lagfæringum á Bessastaðakirkju. Ríkarður í gegnum störf Guðjóns Samúelssonar, en Finni Jónssyni, Gunnlaugi Blöndal og Guðmundi Einarssyni var falið af Ásgeiri Ásgeirssyni, forseta, að gera tillögur að myndgluggunum. Allir munu þeir hafa verið í vinfengi við hinn nýkjörna forseta.

Sumarið 1954 gekk á miklum bréfaskriftum varðandi praktísk málefni. Tillögur voru sendar heim til yfirlits og samþykktar forseta. Tilhögun  og ráðagerðir varðandi ísetningaraðferð voru staðfestar af Gunnlaugi Halldórssyni, sem nú var orðinn húsameistari ríkisins.

Í bréfi frá Guðmundi Einarssyni þann 9. júlí 1954 til Agnars Kl. Jónssonar skýrir hann frá því að forsetinn óski eftir að öll gluggamálverkin verði tilbúin í apríl 1955. Þannig yrðu þau tilbúin áður en kirkjustefnan hæfist 1956. Segir svo orðrétt:

„Tvær teikningar sem eftir eru verða sendar í ágúst. Eru þær gjörðar af Gunl.Blöndal, tafðist verkið vegna sýningar í Barcelona.“[45]

Í bréfi Guðmundar Einarssonar 30. september 1954 sem hann sendir með öðrum gögnum til úrvinnslu kemur fram fyrirhuguð röðun myndanna í kirkjuna og að enn vanti tvær, Kristsmynd og kristnitökuna á Þingvöllum árið 1000.[46] Virðast þeir Finnur og Guðmundur skipta með sér þessum verkefnum þar sem tillögur Gunnlaugs Blöndals bárust ekki.

Stefnur og straumar í listinni

Fígúratíf og naturalisk áhrif eru einkennandi fyrir glugga Bessastaðakirkju auk skreytilistarinnar sem fyllir umgjörð aðal myndefnisins í flestum myndanna og  ræður mestu um heildaráhrifin. Má ætla að í skreytinu teygi áhrif Art and Crafts stefnunnar ensku sig inn í myndirnar, en sterkir litirnir eru einnig eitt af aðaleinkennum hverrar myndar, svipuð litasamsetning í flestum þeirra. Eins má spyrja sig að því hvort það er þjóðernisandi sem ræður því að ekki eru notaðar Biblíupersónur sem myndefni í gluggana, eins og Sveinn Björnsson ætlaði í upphafi, heldur að mestu íslenskir frammámenn úr okkar eigin kirkjusögu. Svar við þeirri spurningu kemur fram í ávarpi Ásgeirs Ásgeirssonar í kirkjunni á hvítasunnudag 9. júní 1957. Ákveðið var að hafa tvær myndir úr guðspjallasögunni í kórnum, en síðan þrjú mikilmenni íslandssögunnar úr kaþólskum sið og aðra þrjá úr Lútherskum og aðeins eitt höfuðmyndefni í hverjum glugga, en með þessu móti voru myndefni úr Gamlatestamentinu sniðgengin.[47]

Tvennt getur þarna haft áhrif. Ásgeir Ásgeirsson pantar þessi verk, en hann var meðvitaður um að árið 1956, árið sem gluggarnir áttu að vera komnir fyrir augu almennings, var von á fjölmörgum kirkjulegum höfðingjum í heimsókn til landsins í tilefni af hátíðahöldum tengdum því að þá voru 900 ár frá stofnun biskupsstóls í Skálholti. Í bréfum frá forsetaskrifstofunni er vikið að þessum tímamótum og knúið á að verkin verði tilbúin, en verkin draga vissulega fram mikivægar persónur úr íslensku kirkjusögunni.

Guðmundur Einarsson frá Miðdal bjó að þeirri reynslu að taka þátt í undirbúningi hinnar „þjóðlegu“ hátíðar á Þingvöllum árið 1930, en var aukinheldur þjóðlegur í verkum sínum og efnisvali. Í málverkunum taldi hann sig sýna hina „sönnu“ náttúru Íslands, lífsbaráttuna og hörkuna sem fylgdi búsetunni, en í leirverkunum eru íslensk dýr og fuglar auk þjóðlegra einkenna dregin fram með ýmsum hætti. Bæði Guðmundur og Finnur Jónsson voru innundir hjá Jónasi frá Hriflu sem varð til að menntamálaráð festi kaup á nokkrum mynda þeirra á fjórða áratugnum og upp úr 1940.[48] Má því vel ætla að það hafi ekki síður fallið þeim Guðmundi Einarssyni og Finni Jónssyni vel í geð að nota „íslenskt“ myndefni úr okkar sögu, frekar en Biblíumyndir í gluggana á Bessastaðakirkju. Bessastaðir voru staður valdsins lengst af. Það var því ekki illa til fundið á þessum tíma, þegar staðurinn var orðinn aðsetur forseta Íslands, að sýna þar íslenskt kirkjuvald fyrri tíma, en þekkt eru átök milli kirkju og yfirvalda fyrr á tíð. Bessastaðir voru nú orðnir að tákni hins íslenska valds. Því fór ekki illa á að nota helstu biskupa Íslandssögunnar, valdamikla menn, þar með talinn stórbokkann Jón Arason, sem myndefni, en kristnitakan á Þingvöllum, sem fram fór með friði og koma papanna voru gott efni á jafnvægisskálina.

Áhugavert er að stilla upp glerlistaverkunum í Bessastaðakirkju við hlið þeirra íslensku glerlistaverka sem fram koma á þessum og næstu árum, en þar eiga helst í hlut listakonurnar Gerður Helgadóttir (1928-1975) með myndverk í kapellu á dvalarheimilinu Grund 1955 og skömmu síðar í Skálholti og víðar, og Nína Tryggvadóttir (1913-1968) með sín fyrstu verk á svipuðum tíma á sýningum erlendis. Myndir hennar á Þjóðminjasafninu frá 1962 hefðu getað notið sín hvar sem er, en persónur hennar, þótt smáar séu, tala sínu máli með skýrum hætti.    Sést fljótt hvernig abstraktlistin sem kemur fram í verkum þeirra skapar sér nýjan og voldugan sess og augljóst er að verk þessara tveggja kvenna, Gerðar og Nínu, marka nýja braut og áttu ekki mikið sameiginlegt með verkum þessara tveggja listamanna í Bessastaðakirkju, fyrir utan það að vera unnin í gler. Vissulega höfðu þær líka lært sérstaklega til þessarar listsköpunar. – Þá má með fullum rökum segja að slík myndlist hefði síður farið vel í þessu aldna kirkjuhúsi.

Mannamyndirnar í myndglerinu á Bessastöðum eiga meira skylt við stíl Guðmundar Einarssonar en Finns Jónssonar eins og glöggt má sjá í höggmyndum Guðmundar af Skúla Magnússyni, fógeta, frá 1953 og styttunni af Jóni Arasyni frá 1954 sem staðsett er sunnan við kirkjuna á Munkaþverá í Eyjafirði. Flestar eru þær framstæðar og með sterkum línum, en tjá í litlu það sem innifyrir býr – helst þó að mýktar gæti í myndinni í kórnum af Fjallræðunni, en hún er raunar gerð síðar en hinar. Í myndum Finns Jónssonar gætir meiri expressionisks blæs, en sterkir litir einkenna allar myndirnar. Tengingar við þá sterku karaktera sem sjást í sjómannalífsmyndum Finns frá árunum í kringum 1930 má sjá stað í glugga þeim sem sýnir komu papa til Íslands, en hvergi er í gluggunum meira líf og hreyfing. Þó má lesa ungan svip úr andliti Jóns Vídalíns sem lést fyrir aldur fram. Natúraliskur frásagnarháttur þeirra beggja, Finns Jónssonar og Guðmundar Einarssonar frá Miðdal, hefur væntanlega létt þeim samstarfið.

Framhald greinar í Kirkjublaðinu.is á morgun, 25. janúar

Allar myndir: Kirkjublaðið.is

Tilvísanir:

[1] Steinar J. Lúðvíksson, Saga Garðabæjar frá landnámi til 2010, I. bindi, 455

[2] Jón Þ. Þór, Saga Kjalarnessprófastsdæmis, 86.

[3] Hjalti Hugason, Íslensk þjóðmenning V, Trúarhættir, 83-84.

[4] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 9.

[5] Vilhjálmur Þ. Gíslason, Bessastaðir, þættir úr sögu höfuðbóls, 87 – 88

[6] Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, ágrip af húsagerðarsögu 1750 – 1940, 283

[7] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 39 – 40

[8] Pétur H. Ármannsson. Gunnlaugur Halldórsson arkitekt. 75

[9] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 42

[10] Pétur Ármannsson, Guðjón Samúelsson húsameistari, 341

[11] Pétur H. Ármannsson, Gunnlaugur Halldórsson arkitekt, 71.

[12] ÞÍ. B/0053. B-bréfasafn 1943-1957

[13] ÞÍ. B 206. 3. 1945-1950. Bessastaðabú og kirkja.

[14] ÞÍ. B 206. 3. 1945-1950. Bessastaðabú og kirkja.

[15] Þórir Stephensen, Dómkirkjan í Reykjavík I, 211-212.

[16] Þór Magnússon, „„Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“.  77.

[17] Einn slíkur er á altari Bessastaðakirkju keyptur á fornsölu í Danmörku. Gjöf frá Ásgeiri Ásgeirssyni.

[18] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, 43.

[19] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989. B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957

[20] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989. B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957

[21] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 56.

[22] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989. B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957

[23] ÞÍ. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi. AA/0008. Bls 186.

[24] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 46

[25] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994. B-60. 4. 1945 – 1950. Bessastaðabú og kirkja. (B-206)

[26] Þór Magnússon, „„Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“. Bls. 60 – 61.

[27] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[28] Anna Ólafsdóttir Björnsson, Álftaness saga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Bls. 179. Þjóðsaga 1996.

[29] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[30] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[31] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994. B/61 1. 1945 – 1956. Bessastaðakirkja uppbygging.

[32] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[33] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[34] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[35] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B 0001. B – Bréfasafn 1945 – 1964

[36] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B 0001. B – Bréfasafn 1945 – 1964

[37] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B 0001. B – Bréfasafn 1945 – 1964

[38] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B 0001. B – Bréfasafn 1945 – 1964

[39] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B/001. B 1945-1964

[40] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands. 1994. B/61. 1945 – 1956. 1 Bessastaðakirkja, uppbygging

[41] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands. 1994. B/61. 1945 – 1956. 1 Bessastaðakirkja, uppbygging.

[42] ÞÍ. Forsætisráðuneytið. 1989. B/0053. 1.B.2. 1943-1957.

[43] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 67-68.

[44] Ásdís Ólafsdóttir og fl., Íslensk listasaga III, 103-104.

[45] ÞÍ. Utanríkisráðuneytið 1968 B-2. 1.B.3. Nr. 1

[46] ÞÍ. Utanríkisráðuneytið 1968 B-2. 1-B-2.

[47] Ásgeir Ásgeirsson. Ávarp í Bessastaðakirkju. 09.06.57.

[48] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist á 19. og 20. öld II, 209.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Friðrik J. Hjartar, listfræðingur og prestur, hefur rannsakað sögu og gerð steindu glugganna í Bessastaðakirkju. Listgluggarnir eru ákaflega fallegir og þeim hefur ekki verið gerð áður jafn rækileg skil eins og hér. Kirkjublaðið.is birtir rannsókn sr. Friðriks í tveimur hlutum en hún var BA-verkefni hans í listfræði við Háskóla Íslands. Myndina hér að ofan tók Kirkjublaðið.is af höfundi við rannsóknarvinnu sína á Þjóðskjalasafni Íslands.

Það vakti áhuga minn í upphafi að fjalla um steinda glugga í Bessastaðakirkju. Sú rannsókn var áhugaverð, en fljótt kom í ljós að ekki varð vikist frá að skoða sérstöðu þessa aldna steinhlaðna húss, sem er með þeim elstu á landinu. Sjónarmið minjavörslu höfðu áhrif á verkið en harkalegar deilur sköpuðust í framhaldi af störfum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins vegna þeirra breytinga sem hann gerði, að því er virðist á eigin spýtur og mæltust illa fyrir. Á þessum tíma höfðu Bessastaðir nýlega komist í eigu ríkisins og hlutu strax sérstöðu þar sem jörðin var gerð að aðsetri ríkisstjóra og síðar forseta Íslands, en um nokkurra alda skeið var þar aðsetur hins danska konungsvalds. Fjallað er um stjórnsýsluna, listapólitík og listræn sjónarmið og þær breytingar sem áttu sér stað um og eftir miðja síðustu öld og afleiðingar sambandsslitanna. Báðir fyrstu forsetarnir höðu áhrif á gang mála, en ekki tókst vel um öll samskipti. Þá er einnig gerð grein fyrir guðfræði og samleið kirkjufólks og kirkjueigenda. Sýn minjaverndar er önnur en safnaðar en altarisfrágangur Guðjóns Samúelssonar hefur kallað á breytingar sem enn eru ófullburða.

Talsvert hefur verið fjallað um lagfæringar, sem margir kjósa með nokkrum rétti að kalla breytingar, sem gerðar voru á Bessastaðakirkju um miðja síðustu öld. Í framhaldi af þessari vinnu voru settir í kirkjuna steindir gluggar, sem eru kveikjan að og helsta tilefni þessarar ritgerðar en leiddu rannsóknina að málefnum kirkjunnar. Ekki verður umflúið að gefa henni nokkurt rými, bæði út frá sögu annarra listmuna í kirkjunni, sögulegum sjónarmiðum og eins vegna sérstöðu kirkjunnar varðandi minjavernd. Gluggarnir eru með því síðasta sem tengist þessum umdeildu málum endurnýjunar. Einnig koma til sögu jarðakaupamál, byggingarsaga kirkjunnar, afstaðan til hins danska valds, skipan forseta Íslands og ráðstöfun staðarins.

Fljótt kom í ljós að í þessu efni voru uppi mismunandi sjónarmið og hagsmunir og kölluðust þar ekki aðeins á listræn sjónarmið, heldur einnig pólitík, óskilvirk stjórnsýsla, guðfræði, takmarkaður skilningur á varðveislu sögulegra minja, reisn forsetaembættisins, hagsmunir safnaðarins og hörund þeirra sem um málin véluðu.

Ljós og litir, saga lands og þjóðar, fegurðarskyn og listrænar hreyfingar koma til skoðunar, en einnig sjálfstæðisbarátta íslendinga og afstaðan til erlendra valdhafa og áhrifa, en landið var undir danskri stjórn þegar hafist var handa um byggingu kirkjunnar. Saga glugganna er merkileg, en þeir koma til sögunnar í framhaldi af hinum umdeildu breytingum með kosti sína og galla og væri því freistandi að kalla þá punktinn yfir i-ið.

Forsaga

Bessastaðakirkja var helguð heilögum Nikulási, en í Sögu Garðabæjar er þess getið að margar kirkjur voru honum helgaðar um aldamótin 1100, þegar nýlega var búið að grafa upp bein hans.[1] Það er því ljóst að kirkja hefur lengi staðið á Bessastöðum, þótt sú saga verði ekki öll rakin hér. Í máldaga frá 1352 er þess getið að prestur og djákni skuli vera á Bessastöðum, en hefur að líkindum aldrei verið uppfyllt, enda ekki getið í yngri máldögum og má því ætla að Bessastöðum hafi alla tíð verið þjónað frá Görðum[2].

Í sem skemmstu máli þá var það venjan á miðöldum að kirkjurnar væru í einkaeign og nytu tíundartekna, en þróunin varð sú að þær urðu n.k. sjálfseignarstofnanir, bændakirkjur, stundum efnaðar, en sérstök lög um sóknarkirkjur voru ekki sett fyrr en árið 1907.[3] Óneitanlega vekur það athygli að Bessastaðasöfnuður hefur sjálfur aldrei átt kirkju, en notið nábýlisins við aðsetur hins danska valds og síðar forsetasetursins, sem kallar á ákveðna reisn.

Bessastaðir voru öldum saman í eigu konungs og umboðsmenn hans eða leiguliðar þeirra sátu venjulega staðinn, en kirkjan fylgdi jörðinni. Ástand kirknanna var með þeim hætti að eðlilegt var að sóknarbörnin væru ekki alltaf ánægð. Um ástand kirkjunnar á Bessastöðum segir svo í Kirkjur Íslands: „Í upphafi 17. aldar var Bessastaðakirkja orðin svo hrörleg að konungur lagði skatt á allar aðrar kirkjur á landinu til að kosta byggingu nýrrar kirkju á þessum garði sínum.“[4]

Áður en undirbúningur að byggingu núverandi steinkirkju hófst árið 1773 að ákvörðun Kristjáns VII undir styrkri stjórn Thodals stiftamtmanns, sem var einn helsti hvatamaður verksins, voru margar kirkjur reistar á Bessastöðum, en sakir þess að byggingarefni var af skornum skammti og oft mis gott entust þær sumar hverjar í stuttan tíma. Efnt var til fjársöfnunuar bæði hérlendis og í Danmörku og Noregi, en nýja kirkjan var reist utan um gömlu timburkirkjuna. Strax á byggingartímanum, sem var langur, tóku veggirnir að skemmast, en smíði höfuðkirkjunnar virðist ljúka 1790 – 1795, en stöpullinn (turninn) er þá enn ófullgerður.[5] Að utan minnti Bessastaðakirkja á rómanska tíð með bogadregna glugga, ógaflsneidd og með forkirkjuturni.[6]

Árið 1823 er smíði Bessastaðakirkju lokið, en virðist fljótt kalla á mikið viðhald, sem marka má af því að árið 1843 gefur Árni Helgason stiftprófastur á Görðum þann vitnisburð að Bessastaðakirkja sé sú kirkja sem vesælust sé í prófastsdæminu. Það virðist ekki hafa verið í verkahring biskups að visitera kirkjuna þar sem hún tilheyrði danska konungsvaldinu og ekki eru til heimildir um vígslu hennar. Þegar Grímur Thomsen eignast kirkju og jörð 1867 breytist kirkjan í bændakirkju og er fyrsta biskupsvísitasían 10. júní 1875 er Pétur Pétursson, biskup Íslands, vitjar staðarins. Þá kvað lítið að leka nema í stórviðrum og hafði Grímur Thomsen í hyggju að ráða bót þar á, þótt Benedikt Gröndal teldi að Grímur hefði takmarkaðan áhuga á húsabótum, en á hans búskaparárum (1868-1896) féll loftið í kórnum niður að hluta og var kirkjan m.a. notuð til að þurka þvott. Einnig var fjarlægt úr henni tréverk.[7]

Frá því Grímur Thomsen seldi jörðina komu nokkrir eigendur að og ástæða til að draga fram í ljósi þess sem síðar gekk á að Jón H. Þorbergsson, sem var eigandi hennar frá 1917  – 1928,  bauð Þjóðminjasafninu kirkjuna að gjöf með því skilyrði að það kostaði viðgerðir á henni og héldi henni við sem safnaðarkirkju. Þessu boði var hafnað af Alþingi. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður greip þá til fjársöfnunar en í bók Péturs Ármannssonar um Gunnlaug Halldórsson segir svo: „Bessastaðakirkja var fyrsta sögulega byggingin hér á landi sem endurgerð var í upprunalegri mynd. Var það verk unnið á árunum 1922-23 að frumkvæði Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðarðar. Í kirkjunni var ein elsta kirkjuinnrétting landsins, sú eina í nýklassískum stíl 18. aldar“.[8] Aðrir fyrri og síðari eigenur lögðu einnig til fé vegna endurbóta.[9]

Eign hins opinbera

Um það leyti sem Sveinn Björnsson var kosinn ríkisstjóri, þann 17. júní 1941, hafði þáverandi eigandi Bessastaða, Sigurður Jónasson, forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins, ákveðið að gefa ríkinu jörðina sem aðsetur þjóðhöfðingja. Sigurður hafð fengið arkitektinn Gunnlaug Halldórsson til liðs við sig í nauðsynlegum lagfæringum og viðbótarbyggingum við Bessastaðastofu og var hann áfram ráðgjafi hins nýja ríkisstjóra, Sveins Björnssonar, við að sníða húsakostinn að nýjum þörfum. Gjöf Sigurðar fylgdi Bessasstaðakirkja og virðist Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, hafa verið fengið það verkefni að lagfæra kirkjuna sem n.k. sárabót vegna starfa Gunnlaugs Halldórssonar, sem e.t.v. hefðu átt að falla Guðjóni í skaut sakir stöðu hans. Skal ósagt látið hér hvort þessi „faglegi núningur“ hefur haft áhrif á störf hans, en víst er að ekki fóru aðeins fram viðgerðir á Bessastaðakirkju, heldur nokkuð róttækar breytingar, sem seint verða allar samrýmdar sjónarmiðum sagnfræði og minjavörslu.[10]

Endurbætur staðarins helguðust að nokkru af umtalsverðum búrekstri nýs ríkisstjóra á Bessastaðajörðinni og fórst Gunnlaugi Halldórssyni vel í að byggja upp staðinn í mynd dansks herragarðs sem var í góðu samræmi við hvernig fulltrúar konungsvaldsins höfðu um aldir byggt í kringum lokaðan húsgarð. Þótt þetta fyrirkomulag væri lítt þekkt í íslenskum sveitum gat það sem best átt við á hinu íslenska höfuðbóli, Bessastöðum, en vissulega var þetta fjarri þeim þjóðernis-rómantíska anda sem einkenndi steinsteyptar burstabyggingar Guðjóns Samúelssonar í Þingvallabænum 1930 og Héraðsskólanum á Laugarvatni 1928-1929.[11]

Ekki er óeðlilegt að kirkjunnar fólk leiti eftir lagfæringum og bættri stöðu, en þann 8. júlí 1943 ritar prófasturinn Helgi Hálfdánarson Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í framhaldi af vísitasíugjörð frá 4. júlí sama ár og óskar úrbóta, þar sem kirkjan sé ónothæf sakir kulda nema rétt um hásumarið, en svo hafi verið um árabil. Af þeim sökum fari helgihaldið fram í barnaskólahúsi sveitarinnar. Bekkirnir allir og margt fleira þarfnist lagfæringar til að kirkjan sómi þeim stað sem hún stendur á. Óskar hann eftir því að eigandinn, hið opinbera, gangist fyrir lagfæringum í þágu safnaðarins og sóma lands og þjóðar.[12] Þannig sýnir kirkjufólk metnað og áhuga  en ásýnd staðarins er í veði, ekki síst fyrir ásigkomulag kirkjunnar.

Á Bessastöðum var vilji fyrir því að leggja niður kirkjugarðinn umhverfis kirkjuna, en þegar plægt er í gögnum Þjóðskjalasafns má merkja ákveðinn kaupskap milli sóknarfólks og kirkjumálaráðuneytis. Þann 10. júlí 1945 tilkynnir sr. Garðar Þorsteinsson kirkjumálaráðuneytinu að safnaðarfundur fallist á þá tillögu að kirkjugarðurinn verði lagður niður strax og nýr hefur verið gerður, en áætlað er að sá gamli myndi endast í 15 ár. Jafnframt er þess getið að þessi samþykkt sé gerð í trausti þess að þegar verði hafist handa um að setja hitunartæki í Bessastaðakirkju og lagfæra hana svo hún geti talist nothæf.[13] – Eftir aldamótaárið 2000 er eigi að síður enn verið að nota garðinn og einstaklingar telja sig eiga þar frátekin leiði. Þessi dæmi sýna fram á stöðug samskipti safnaðarins við stjórnvöld varðandi kirkjuna.

Breytingar og ágreiningur

Allur þessi erindrekstur tekur á sig nýja mynd þegar húsameistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni, er falið að annast lagfæringar á kirkjunni. Hann kynnti kirkjumálaráðherra all ítarlega áætlun um það helsta sem hann taldi að gera þyrfti ásamt þrennskonar kostnaðaráætlun með bréfi þann 7. ágúst 1945.[14] Var dýrasta áætlunin valin og gert ráð fyrir talsverðum umframkostnaði. Hér verður ekki gerð grein fyrir öllum verkþáttum, heldur aðeins fjallað um fáein atriði sem ásamt öðrum leiddu til umtalsverðra blaðaskrifa og ádeilna, en þær ekki raktar nema að litlu. Lagt verður mat á nokkra þætti, greint frá ágreiningi forseta og húsameistara og gerð grein fyrir sjónarmiðum sem tengjast listrænu, sögulegu eða guðfræðilegu mati. Gott er að ítreka það hér að gluggarnir í kirkjunni snertu að engu þá vinnu sem Guðjón Samúelsson húsameistari kom að.

Viðamikla viðgerð þurfti og var öllu rutt út úr kirkjunni. Það sem mest bar á var að verklegt upprunalegt kórþil með merki konungsins á súlum og skreytingum var fjarlægt. Einnig var tekinn niður prédikunarstóll á stoðum með þaki sem tengdist þilinu, en Ríkarður Jónsson beðinn að skera úr eik krossfestingarmynd sem altaristöflu og skreytingar á prédikunarstól eftir tillögum Guðjóns Samúelssonar.

Eldri altaristöflu sem kom í Bessastaðakirkju á fardagaárinu 1863-1864 var skilað og er hún nú varðveitt á lofti Dómkirkjunnar. Var hún rifin niður með svo harkalegum hætti að mikil umgjörð sem henni fylgdi var brotin og eyðilögð. Einnig var brotið nokkuð af málverkinu sjálfu. Mynd af henni prýðir sögu dómkirkjunnar.[15]

Þar sem kirkjan var byggð í barrokstíl að innan vekur það umhugsun að ekki skuli hafa verið horft til steinhlaðinna kirkna frá svipuðum tíma um úrlausnir og má þar bæði nefna Hólakirkju og Viðeyjarkirkju sem báðar hafa fengið að halda sínum kórskilum. Í Landakirkju í Vestmannaeyjum, sem einnig hefur gengið undir ýmsar breytingar, var kórþilið tekið niður en væntanlega hefur stækkandi söfnuður þar kallað á meira rými og ráðið nokkru um þá aðgerð. Bæði þar og í Viðeyjarkirkju er prédikunarstólnum komið fyrir ofan altarisins. Horfa hefði mátt til þeirrar lausnar, en hún er einnig notuð í íslenskum timburkirkjum eins og Snóksdalskirkju (1875) og Hólskirkju í Bolungarvík sem teiknuð var af Rögnvaldi Ólafssyni og var tekin í notkun 1908.

Á þessum árum gætti ákveðinnar þjóðerniskenndar hjá Íslendingum, sem nýlega höfðu öðlast sjálfstæði frá Dönum og víða reynt að má brott merki þeirrar langvarandi sambúðar landanna hér á landi. Í grein sinni „„Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“ telur Þór Magnússon, þjóðminjavörður, að hjá Guðjóni hafi gætt þjóðernislegrar minnimáttakenndar þegar hann ákvað að fórna öllu sem áður hafði verið gert innanstokks í Bessastaðakirkju.[16] Þetta er gott dæmi um svokölluð eftirlendusjónarmið.

Tillaga að altaristöflu

Sú lausn Guðjóns Samúelssonar að setja upp krossfestingarmynd í gotneskum stíl sem altaristöflu fór illa í kirkjunni enda horfir hin evangelíska Lútherska kirkja á Íslandi frekar til hins upprisna Jesú í boðun síns fagnaðarerindis, heldur en til hins krossfesta og þjáða. Fjarri fer þó að skautað sé framhjá þjáningunni eins og sést á notkun Passíusálmanna og árlegs upplesturs þeirra og notkun Píslarsögunnar í helgihaldinu, enda hlýtur þjáningin merkingu í ljósi upprisunnar. Vissulega má víða sjá smærri gerðir slíkra krossa á ölturum kirkna, en þar eiga í sumum tilfellum í hlut „skrautmunir“ sem gefnir hafa verið í góðum tilgangi. [17]

Gotneski þjáningarkrossinn teflir fram hinum þjáða og deyjandi mannssyni með lukt augu og höfuðið hneigt til hægri handar. Hann er krýndur þyrnum og fæturnir krosslagðir negldir einum nagla á krossinn og síðusárið opið á hægri síðu.[18] Öllum þessum einkennum heldur Ríkarður Jónsson til haga í verki sínu. Krossmarkið sem slíkt er ævafornt og eldra en kristnin. Á dögum rómverska ríkisins var krossinn aftökutól. Krossinn markar eigi að síður sigur Guðs vegna upprisunnar og einnig er hann lausnarmark manninum í ljósi hennar. Hann minnir á að lífið bar sigur af dauðanum. Til samanburðar vil ég nefna beran krossinn sem settur var sem altaristafla í hinni endurbyggðu Garðakirkju árið 1966, en sá kross var síðar færður í Vídalínskirkju við vígslu hennar 1995 og þjónar enn sem altaristafla hennar.

Ríkarður gekk svo frá í verki sínu að krossmarkið tengdist altarinu með útskornum fótstalli, þremur laufblöðum sem mynduðu nettan stall sem tengdist altarinu og þar með öðru í kirkjunni að honum fannst. Krossinn er oft kallaður lífsins tré, sem tengir saman himin og jörð með sínum lóðréttu og láréttu örmum. Í bréfi dagsettu 09.11.48 ritar Ríkarður Sigurgeiri Sigurðssyni, Biskupi Íslands, í framhaldi af hátíðarmessunni sem markaði lok viðgerðanna, og kvartar undan því að fótstykkið hafði verðið sagað neðanaf, en skömmu fyrir athöfnina höfðu bæði forseti og húsameistari staðfest að þetta myndi lagfært áður en til vígslunnar kæmi. Það urðu honum mikil vonbrigði að ekki varð úr því og þótti honum þetta óvirðuleg og óhæf umgengni við listaverk sitt og beiddist aðstoðar biskups í málinu. Virðist þetta atriði vera í takt við ákveðna óvirðingu og ónákvæmni sem viðgekkst á framkvæmdatímanum.[19] Mín kenning er sú að krossinn með fótstallinum hafi einfaldlega verið of hár, en gamla altarið var meter á hæð. Krossmarkið er um 230 centimetrar í dag og lofthæð takmörkuð í kirkjunni.

Samskiptahnökrar

Önnur breyting sem gerð var á kirkjunni var að tígulsteinar, gulir og rauðir, sem lagðir voru með tíglamunstri milli bekkjaraða á ganginn í forkirkjunni voru fjarlægðir. Var það gert í óþökk forseta, en í löngu bréfi til kirkjumálaráðuneytis frá 23. febrúar 1948 bregst Sveinn Björnsson við skýrslu Björns Rögnvaldssonar yfirsmiðs húsameistara frá 10. janúar sama ár um endurbyggingu Bessastaðakirkju. Þar nefnir hann ásamt fleiru steinlögnina sem hann vildi halda, en hafa óbrotið gólf í kirkjunni að öðru leyti. Þótti honum mjög á sig hallað í skýrslunni.[20] Steinarnir  voru þó lagðir á ný í turngólfið, en sjást ekki í dag. Að sögn Guðjóns var ekki hægt að fá viðbótarsteina.[21] Allir bekkirnir voru fjarlægðir og í staðinn settir inn stíflakkaðir eikarbekkir hannaðir af Guðjóni sem ekki féllu að því yfirbragði sem kirkjan hafði áður. Þótt smíðin væri vönduð þykir ekki gott að sitja á þeim og hefur söfnuðurinn kostað nokkru til með að setja bólstraðar sessur í alla bekkina.

Samskipti forseta og húsameistara hafa greinilega ekki verið hnökralaus því að í framhaldi af áður nefndri skýrslu Björns Rögnvaldssonar bregst Sveinn Björnsson, forseti við og þykir gert þar of mikið úr sinni aðkomu hvað kostnaðaraukann varðaði, svo mikið að skert gæti virðingu nafns hans og embættis. Hann rekur í gagnorðu bréfi sínu til kirkjumálaráðuneytisins fáein atriði sem ýmist vega til kostnaðar eða sparnaðar, en bendir líka á mikilvæg atriði sem hann lét sig varða. Hann hafði góða reynslu af uppbyggingu Bessastaðastofu og skynjaði mikilvægi heildarsýnar á staðinn og lagði því til að settar yrðu þakhellur úr brenndum leir á þakið í stað bárujárns, en í því hefur trúlega falist kostnaðarauki.[22]

Annað sem valdið gat kostnaðarauka var tillaga forstea um að fá í kirkjuna lítið pípuorgel, en samkvæmt hans upplýsingum myndi það kosta hér um bil helmingi hærri upphæð heldur en harmonium og endast margfalt lengur og þar með borga sig til lengri tíma. Á þetta var fallist, en árið 1970 lýsir organistinn því í vísitasíugjörð að orgelið sem kom 1948 hafi alla tíð verið lélegt og væri á þessum tíma svo illa farið að ónothæft gæti orðið hvenær sem er. Var áhugi fyrir að óska eftir að ríkisstjórnin legði til fjárframlag til kaupa á nýju orgeli.[23] Rétt er að það komi fram hér að nýtt íslenskt pípuorgel ásamt söngpalli til bráðabirgða, kostað af söfnuðinum, var helgað til notkunar í kirkjunni á jóladag 1999,[24] [Heimildin segir árið 2000 sem er rangt] en fyrra verkfæri hafði valdið ómældum vanda og næstum bruna í kirkjunni.

Í samhljóðan við mörg af sínum verkum kom húsameistari með þá óheppilegu tillögu að kvartshúða kirkjuna að utan, en því afstýrði forseti og benti á að til samræmis við hús staðarins færi betur að hafa óbrotna grófhúðun. Af lestri bréfsins er auðvelt að sjá hversu mæddur forseti var af þessum alltof langvinnu og erfiðu samskiptum.[25] Til að gæta sannmælis skal samt nefnt að bæði upphitun og vatssalerni voru sett í kirkjuna, auk raflýsingar og vísi að skrúðhúsi.

Blaðaskrif – uppstokkun stjórnsýslu

Málefni kirkjunnar komast í hámæli eftir að Gylfi Þ. Gíslason alþingismaður gerir Bessastaðakirkju og viðgerð hennar að umræðuefni í útvarpserindi í febrúar 1948, en hluti erindisins er síðan birt í blöðum, en uppúr því spunnust nokkur blaðaskrif er Guðjón Samúelsson húsameistari tók til varna.[26]

Verður allt þetta mál til að ákveðin uppstokkun er gerð í stjórnsýslu landsins, sem eitthvað virðist hafa farið úr skorðum. Það var ekki einungis að kostnaður við endurbæturnar var orðinn mikill, en ekkert af honum hafði ratað á fjárlög, heldur einnig hversu óheppilegt það var að persóna og virðing forsetans drægist inn í dægurþras og deilur, en vissulega virðist sem forseti hafi haft ákveðið sjálfdæmi í viðskiptum sínum bæði vegna framkvæmda og búskaparins á Bessastöðum. Í bréfi sem Stefán Jóhann Stefánsson, forsætisráðherra, gefur út þann 5. apríl 1948 og sent er forseta og viðkomandi ráuðneytum er tilkynnt að allt reikningshald og fjárskuldbindingar forsetaembættisins skuli framvegis afgreidd í forsætisráðuneytinu eins og verið hafði í upphafi.[27]

Dúntekja hefur lengi verið stunduð á Bessastöðum, en auk annars búskapar var þar nokkur kornrækt og tilraunir voru gerðar þar með hörrækt frá 1946 og fram yfir 1950.[28] Málefni búrekstrarins sem var talsvert fyrirferðamikill í upphafi embættis ríkisstjórans heyrðu undir Landbúnaðarráðuneytið og þegar til komu viðgerðir á kirkjunni og umgengni um hana var ýmislegt sem lenti á borði kirkjumálaráðherra, þannig að heildaryfirsýn skorti í Forsætisráðuneytinu, sem með réttu átti að annast mál tengd forsetaembættinu.

Lok viðgerða

Þann 13. október 1948 tilkynnir Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins kirkjumálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu að viðgerðum á Bessastaðakirkju sé lokið og tekur til tvö atriði sem ollu seinkun framkvæmda.[29] Við þessu bréfi brást Sveinn Björnsson forseti strax með bréfi til forsætisráðherra dagsettu 18. október 1948 og mótmælti uppgefnum ástæðum.[30]

Með réttu má deila á hvernig Guðjón Samúelsson umgekkst innviði kirkjunnar og byggingarstíl út frá sjónarmiðum minjavörslu og byggingarlistar. Það er líka sérstakt að hann virðist ekki hafa borið hugmyndir sínar undir nokkurn mann. Á þessum árum hefur hann væntanlega verið orðinn þreyttur og slitinn eftir að hafa lokið gríðarlega miklu verki á sviði bygginga- og skipulagsmála svo tekið sé til varna fyrir hann.

Söfnuður og kirkja höfðu lengi átt samleið á Bessastöðum en í  sérstakri hátíðarguðsþjónustu sem fram fór að loknum þriggja ára viðgerðum í Bessastaðakirkju í lok október 1948 lýsti biskupinn, Sigurgeir Sigurðsson, kirkjuna tekna í notkun á ný, en nú voru það ekki lengur hin dönsku yfirvöld sem réðu ríkjum. Auglýst var að aðeins boðsgestir gætu sótt athöfnina, en athöfninni var útvarpað.[31]

Í október 1948 kemur fram sérstakt uppkast af hendi forseta með yfirskriftinni „Reglur um notkun ríkiskirkjunnar á Bessastöðum m.m.“ sem heimila messuhald safnaðarins en krefjast leyfis forsætisráðherra vegna annarra athafna. Festur var niður fastur opnunartími og sett gjald fyrir inngöngu. Handskrifað er á skjalið að það sé samið af forseta Íslands, Sveini Björnssyni.[32] Sérstakar skýringar fylgdu með.[33] Forsætisráðuneytið brást við og samdi nýjar reglur sem litu fljótt dagsins ljós undir yfirskriftinni „Reglur um notkun Bessastaðakirkju o.fl.“ og er handskrifað á eintakið að samþykki biskups sé fengið með samtali 26.10.48. Samþykki forseta og forsætisráðherra er einnig fengið og kvittað við með upphafsstöfum ráðuneytisstjóra, Birgis Thorlacius, en útgefandinn var forsætisráðuneytið.[34] 

Rætt um glugga

Það má segja að seint verði Bessastaðakirkja fullgerð, enda virðist ljóst að Sveinn Björnsson, forseti, hefur ætlað Bessastaðakirkju ögn meiri vegsemd heldur en var í kortunum hjá Guðjóni Samúelssyni. Þann 17.12.47 sendir hann sendiráði Íslands í London erindi sem endurspeglar vel hugmyndir forsetans og fróðlegt er að draga fram með fylgjandi úrdrætti:

„Vel færi á að hafa litað gler „blýinnfattað“ með myndum úr biblíunni í gluggana.  Þetta fæst hvergi betra en í Bretlandi.  Hinsvegar kemur hér til greina kostnaðarspurning og gjaldeyris.

Nú vildi ég mega biðja sendiráðið …  Til þess að draga úr kostnaði mundi ég ekki fara fram á „originalmyndir“, heldur hvaða myndir sem eru með motivum úr biblíunni sem firmað ætti ráð á. …

Einn glugginn miklu minni, sem einnig er á uppdrættinum þyrfti originalmynd af.  Það yrði skjaldarmerki Íslands.

Umtalað yrði til bráðabirgða að vera svo, að ekkert sé bindandi, vegna verðs og gjaldeyrisskorts.  Því ekki hægt að ákveða pöntun fyr en eftir að vitað er nákvæmlega um kostnaðinn.“ [35]

Það er greinilegt kreppuhljóð í erindinu, en sendiráðið svaraði þann 20.01.48 og hafði þá haft upp á nafni William Morris & Co sem heppilegum og traustum viðskiptaaðila fyrir gluggapöntun, en þeir upplýstu að slíkt gler væri ekki á lager og aðeins afgreitt samkvæmt pöntun.[36] Þann 28.01.48 skýrir sendiráðið í London frá fundi með fulltrúa fyrirtækisins sem spurði margs, sýndi myndir af kirkjurúðum og lagði fram ýmsar gagnlegar tillögur um útfærslu, en eina mynd af góða hirðinum með sauðfénað á beit í kring leist sendiráðinu þannig á að vel færi á Bessastöðum. Fulltrúi fyrirtækisins kom með athyglisverðar faglegar ábendingar. Benti hann á að koma mætti táknrænum smámyndum fyrir neðan eða ofan við aðal myndefnið, auk þeirrar vaxandi hneigðar að láta ekki myndir þekja allt glerið, heldur gefa rúm fyrir nokkuð breytt borð kringum aðal myndefnið til að auka ljósgjöf inn í kirkjuna.[37]

Þann 9. marz 1948 skrifar sendiráðið í London aftur til skrifstofu forseta Íslands um tillögur og kostnaðaráætlun frá William Morris & Co. Þar er m.a. uppdráttur að rúðu þeirri sem ber skjaldarmerkið í fullri stærð. Einnig fylgdi tillaga að glugga með mynd af góða hirðinum, en sendiráðsmenn töldu að lambið sem hringaði sig um háls góða hirðisins hefði ekki „íslenzkan svip“. Senda þyrfti góðar myndir af íslensku lambfé ef vinna ætti þessa tillögu frekar. Lagði Morris til að rúm það sem yrði milli rammans og góða hirðisins yrði fyllt með „Antique-glass“ til að veita inn fallegri birtu og sendi með sýnishorn af slíku gleri. Fyrsta verðáætlun hljóðaði upp á 1460 – 1660 sterlingspund og afgreiðslufrestur talinn eitt og hálft ár. Með bréfi sendiráðsins fylgdu ýmis gögn til skýringar og ósk um mál og fleira sem gerð glugganna varðaði.[38]

Af þeirri áherslu sem William Morris & Co leggur á að hafa ljósdreypt gler í gluggunum má ráða að sú hugmynd hafi aldrei náð til hinna íslensku listamanna sem gerðu uppdrætti að gluggunum, en það kann einnig að skýrast af því að nokkur tími leið þar til þeir voru kallaðir til verks en þá er Ásgeir Ásgeirsson tekinn við embætti forseta.

Veturinn 1948 – 1949 ganga bréf á milli skrifstofu forseta og sendiráðsins í London, sem annast viðskiptin með glerið fyrir hönd forsetaembættisins. Skjaldarmerkisglugginn, sem staðsettur er í austurgafli Bessastaðakirkju og snýr að inngöngudyrum forsetasetursins, var pantaður í október en nokkrar tafir urðu á mælingum þannig að dráttur varð á gerð hans en þann 29. mars 1949 er fulltrúa sendiráðsins boðið að skoða fullbúinn gluggann. Hann er sendur heim og greidd fyrir hann 42 pund með flutningi. Fyrirtæki Morris var boðin þóknun, en afþakkaði þrátt fyrir nokkra vinnu.[39] Jafnframt er firmanu kynnt óvissa um hina gluggana þar sem enn sé verið að útfæra hugmyndirnar.

Trúlega hefur sú útfærsla átt við erindi það sem Sveinn Björnsson forseti sendi Pétri Benediktssyni, sendiherra í París 8. september 1949 og bar með sér ósk um að kanna verð á 8 lituðum rúðum í blýumgjörð (glermálverk) í Frakklandi. Tilefnið orðar hann svo:

„Kirkjan er nýgerð upp með ærnum, og óforsvaranlegum, kostnaði.  Eitt af því sem fellur í augun eru ljótir kirkjugluggar í járnumgjörðum, …“.

Forseti segir frá hinu enska tilboði sem sent er með ásamt málsetningum, en ástæður beiðninnar eru tvær, enska tilboðið var of dýrt ofan á allan annan kostnað við kirkjuna og honum þótti sýnishorn að hugmynd um glugga frá Morris „of conventional breskur smekkur“.[40]

Þann 14. desember 1949 svarar Kristján Albertsson fyrir hönd sendiherrans erindi Sveins um franskar rúður. Hann hafði verið í sambandi við fyrirtækið Jean Barillet sem sent hafði þrennskonar tilboð í glugga. Fékk hann fulltrúa fyrirtækisins til skrafs og ráðagerða. Upplýsti hann sendiráðið um mismun tilboðanna, afgreiðslutíma og fleira. Hann spurði m.a. um veðurfar á Íslandi og lagði til að notað væri ryðlaust efni í umgjarðir glugganna að hætti Ameríkana og benti á að í Englandi tíðkaðist að hafa hlífðarrúðu úr venjulegu gleri yst.[41]

Nýr forseti

Nú liggja framkvæmdir niðri um skeið, en þann 25. janúar 1952 lést Sveinn Björnsson forseti í embætti, en 1. ágúst sama ár tekur Ásgeir Ásgeirsson við embættinu. Ný ríkisstjórn var mynduð 1953.

Tímamót verða í lífi Ásgeirs Ásgeirssonar þegar hann verður 60 ára þann 13. maí 1954, en í tilefni afmælis hans hafði ríkisstjórnin ákveðið að kosta gerð glugganna í kórnum, en þetta var sú afmælisgjöf sem hann sjálfur hafði valið sér af þessu tilefni.

Þráðurinn við William Morris var tekinn upp á ný og fól forseti Guðmundi Einarssyni frá Miðdal með bréfi 6. ágúst 1954 sérstaka umsjón og milligöngu varðandi framgang verksins við verksmiðjuna með aðstoð sendiráðsins í London.[42] Ásgeir starfaði með þeim Guðmundi og Finni Jónssyni, fylgdist með og lét sér umhugað um framgang verksins. Eftir yfirferð og smávægilegar breytingar varð endanlegt verð á gluggunum til verksmiðjunnar 2.504.- pund, en hver gluggi um sig kostaði uppkominn kr. 50.000,-  en margir gefendur lögðu málinu lið.[43] Má þar nefna sóknarbörn Bessastaðasóknar sem söfnuðu til Vídalínsglugga. Gluggi Jóns Arasonar var helgaður íslenskum borgurum í Canada og er líklegt að það hafi staðið í tengslum við fjárframlög frá vestur íslendingum.

Listin í landinu – listpólitík

Á þessum árum er geometrían að verða meira áberandi í myndlistinni, sem endurspeglaðist í opinberri umræðu. Almenningur og listamennirnir tróðu ekki sömu slóð og natúralisk og fígúratíf list féllu ekki að sama smekk. Andi eftirstríðsáranna hafði áhrif og ekki voru allir á einu máli hvað pólitík varðaði. Leiddi þetta til  listpólitískra flokkadrátta sem m.a. snertu alþingiskosningarnar 1953 og rekstur Listamannaskálans. Abstraktlistin átti sér sterka fylgjendur sem náðu undirtökunum innan FÍM, sem leiddi síðan til þess að hópur listamanna af eldri kynslóðinni sagði sig úr félaginu og stofnaði Nýja myndlistarfélagið. Í kjölfar þess stofnuðu Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Ríkarður Jónsson, Finnur Jónsson og Gunnlaugur Blöndal Félag óháðra myndlistarmanna, [44]  en þeir voru í hópi íhaldssömustu listamanna þjóðarinnar á þeim tíma. Þeir eru allir nefndir til sögu í lagfæringum á Bessastaðakirkju. Ríkarður í gegnum störf Guðjóns Samúelssonar, en Finni Jónssyni, Gunnlaugi Blöndal og Guðmundi Einarssyni var falið af Ásgeiri Ásgeirssyni, forseta, að gera tillögur að myndgluggunum. Allir munu þeir hafa verið í vinfengi við hinn nýkjörna forseta.

Sumarið 1954 gekk á miklum bréfaskriftum varðandi praktísk málefni. Tillögur voru sendar heim til yfirlits og samþykktar forseta. Tilhögun  og ráðagerðir varðandi ísetningaraðferð voru staðfestar af Gunnlaugi Halldórssyni, sem nú var orðinn húsameistari ríkisins.

Í bréfi frá Guðmundi Einarssyni þann 9. júlí 1954 til Agnars Kl. Jónssonar skýrir hann frá því að forsetinn óski eftir að öll gluggamálverkin verði tilbúin í apríl 1955. Þannig yrðu þau tilbúin áður en kirkjustefnan hæfist 1956. Segir svo orðrétt:

„Tvær teikningar sem eftir eru verða sendar í ágúst. Eru þær gjörðar af Gunl.Blöndal, tafðist verkið vegna sýningar í Barcelona.“[45]

Í bréfi Guðmundar Einarssonar 30. september 1954 sem hann sendir með öðrum gögnum til úrvinnslu kemur fram fyrirhuguð röðun myndanna í kirkjuna og að enn vanti tvær, Kristsmynd og kristnitökuna á Þingvöllum árið 1000.[46] Virðast þeir Finnur og Guðmundur skipta með sér þessum verkefnum þar sem tillögur Gunnlaugs Blöndals bárust ekki.

Stefnur og straumar í listinni

Fígúratíf og naturalisk áhrif eru einkennandi fyrir glugga Bessastaðakirkju auk skreytilistarinnar sem fyllir umgjörð aðal myndefnisins í flestum myndanna og  ræður mestu um heildaráhrifin. Má ætla að í skreytinu teygi áhrif Art and Crafts stefnunnar ensku sig inn í myndirnar, en sterkir litirnir eru einnig eitt af aðaleinkennum hverrar myndar, svipuð litasamsetning í flestum þeirra. Eins má spyrja sig að því hvort það er þjóðernisandi sem ræður því að ekki eru notaðar Biblíupersónur sem myndefni í gluggana, eins og Sveinn Björnsson ætlaði í upphafi, heldur að mestu íslenskir frammámenn úr okkar eigin kirkjusögu. Svar við þeirri spurningu kemur fram í ávarpi Ásgeirs Ásgeirssonar í kirkjunni á hvítasunnudag 9. júní 1957. Ákveðið var að hafa tvær myndir úr guðspjallasögunni í kórnum, en síðan þrjú mikilmenni íslandssögunnar úr kaþólskum sið og aðra þrjá úr Lútherskum og aðeins eitt höfuðmyndefni í hverjum glugga, en með þessu móti voru myndefni úr Gamlatestamentinu sniðgengin.[47]

Tvennt getur þarna haft áhrif. Ásgeir Ásgeirsson pantar þessi verk, en hann var meðvitaður um að árið 1956, árið sem gluggarnir áttu að vera komnir fyrir augu almennings, var von á fjölmörgum kirkjulegum höfðingjum í heimsókn til landsins í tilefni af hátíðahöldum tengdum því að þá voru 900 ár frá stofnun biskupsstóls í Skálholti. Í bréfum frá forsetaskrifstofunni er vikið að þessum tímamótum og knúið á að verkin verði tilbúin, en verkin draga vissulega fram mikivægar persónur úr íslensku kirkjusögunni.

Guðmundur Einarsson frá Miðdal bjó að þeirri reynslu að taka þátt í undirbúningi hinnar „þjóðlegu“ hátíðar á Þingvöllum árið 1930, en var aukinheldur þjóðlegur í verkum sínum og efnisvali. Í málverkunum taldi hann sig sýna hina „sönnu“ náttúru Íslands, lífsbaráttuna og hörkuna sem fylgdi búsetunni, en í leirverkunum eru íslensk dýr og fuglar auk þjóðlegra einkenna dregin fram með ýmsum hætti. Bæði Guðmundur og Finnur Jónsson voru innundir hjá Jónasi frá Hriflu sem varð til að menntamálaráð festi kaup á nokkrum mynda þeirra á fjórða áratugnum og upp úr 1940.[48] Má því vel ætla að það hafi ekki síður fallið þeim Guðmundi Einarssyni og Finni Jónssyni vel í geð að nota „íslenskt“ myndefni úr okkar sögu, frekar en Biblíumyndir í gluggana á Bessastaðakirkju. Bessastaðir voru staður valdsins lengst af. Það var því ekki illa til fundið á þessum tíma, þegar staðurinn var orðinn aðsetur forseta Íslands, að sýna þar íslenskt kirkjuvald fyrri tíma, en þekkt eru átök milli kirkju og yfirvalda fyrr á tíð. Bessastaðir voru nú orðnir að tákni hins íslenska valds. Því fór ekki illa á að nota helstu biskupa Íslandssögunnar, valdamikla menn, þar með talinn stórbokkann Jón Arason, sem myndefni, en kristnitakan á Þingvöllum, sem fram fór með friði og koma papanna voru gott efni á jafnvægisskálina.

Áhugavert er að stilla upp glerlistaverkunum í Bessastaðakirkju við hlið þeirra íslensku glerlistaverka sem fram koma á þessum og næstu árum, en þar eiga helst í hlut listakonurnar Gerður Helgadóttir (1928-1975) með myndverk í kapellu á dvalarheimilinu Grund 1955 og skömmu síðar í Skálholti og víðar, og Nína Tryggvadóttir (1913-1968) með sín fyrstu verk á svipuðum tíma á sýningum erlendis. Myndir hennar á Þjóðminjasafninu frá 1962 hefðu getað notið sín hvar sem er, en persónur hennar, þótt smáar séu, tala sínu máli með skýrum hætti.    Sést fljótt hvernig abstraktlistin sem kemur fram í verkum þeirra skapar sér nýjan og voldugan sess og augljóst er að verk þessara tveggja kvenna, Gerðar og Nínu, marka nýja braut og áttu ekki mikið sameiginlegt með verkum þessara tveggja listamanna í Bessastaðakirkju, fyrir utan það að vera unnin í gler. Vissulega höfðu þær líka lært sérstaklega til þessarar listsköpunar. – Þá má með fullum rökum segja að slík myndlist hefði síður farið vel í þessu aldna kirkjuhúsi.

Mannamyndirnar í myndglerinu á Bessastöðum eiga meira skylt við stíl Guðmundar Einarssonar en Finns Jónssonar eins og glöggt má sjá í höggmyndum Guðmundar af Skúla Magnússyni, fógeta, frá 1953 og styttunni af Jóni Arasyni frá 1954 sem staðsett er sunnan við kirkjuna á Munkaþverá í Eyjafirði. Flestar eru þær framstæðar og með sterkum línum, en tjá í litlu það sem innifyrir býr – helst þó að mýktar gæti í myndinni í kórnum af Fjallræðunni, en hún er raunar gerð síðar en hinar. Í myndum Finns Jónssonar gætir meiri expressionisks blæs, en sterkir litir einkenna allar myndirnar. Tengingar við þá sterku karaktera sem sjást í sjómannalífsmyndum Finns frá árunum í kringum 1930 má sjá stað í glugga þeim sem sýnir komu papa til Íslands, en hvergi er í gluggunum meira líf og hreyfing. Þó má lesa ungan svip úr andliti Jóns Vídalíns sem lést fyrir aldur fram. Natúraliskur frásagnarháttur þeirra beggja, Finns Jónssonar og Guðmundar Einarssonar frá Miðdal, hefur væntanlega létt þeim samstarfið.

Framhald greinar í Kirkjublaðinu.is á morgun, 25. janúar

Allar myndir: Kirkjublaðið.is

Tilvísanir:

[1] Steinar J. Lúðvíksson, Saga Garðabæjar frá landnámi til 2010, I. bindi, 455

[2] Jón Þ. Þór, Saga Kjalarnessprófastsdæmis, 86.

[3] Hjalti Hugason, Íslensk þjóðmenning V, Trúarhættir, 83-84.

[4] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 9.

[5] Vilhjálmur Þ. Gíslason, Bessastaðir, þættir úr sögu höfuðbóls, 87 – 88

[6] Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, ágrip af húsagerðarsögu 1750 – 1940, 283

[7] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 39 – 40

[8] Pétur H. Ármannsson. Gunnlaugur Halldórsson arkitekt. 75

[9] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 42

[10] Pétur Ármannsson, Guðjón Samúelsson húsameistari, 341

[11] Pétur H. Ármannsson, Gunnlaugur Halldórsson arkitekt, 71.

[12] ÞÍ. B/0053. B-bréfasafn 1943-1957

[13] ÞÍ. B 206. 3. 1945-1950. Bessastaðabú og kirkja.

[14] ÞÍ. B 206. 3. 1945-1950. Bessastaðabú og kirkja.

[15] Þórir Stephensen, Dómkirkjan í Reykjavík I, 211-212.

[16] Þór Magnússon, „„Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“.  77.

[17] Einn slíkur er á altari Bessastaðakirkju keyptur á fornsölu í Danmörku. Gjöf frá Ásgeiri Ásgeirssyni.

[18] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, 43.

[19] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989. B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957

[20] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989. B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957

[21] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 56.

[22] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989. B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957

[23] ÞÍ. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi. AA/0008. Bls 186.

[24] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 46

[25] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994. B-60. 4. 1945 – 1950. Bessastaðabú og kirkja. (B-206)

[26] Þór Magnússon, „„Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar“. Bls. 60 – 61.

[27] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[28] Anna Ólafsdóttir Björnsson, Álftaness saga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Bls. 179. Þjóðsaga 1996.

[29] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[30] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[31] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994. B/61 1. 1945 – 1956. Bessastaðakirkja uppbygging.

[32] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[33] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[34] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[35] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B 0001. B – Bréfasafn 1945 – 1964

[36] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B 0001. B – Bréfasafn 1945 – 1964

[37] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B 0001. B – Bréfasafn 1945 – 1964

[38] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B 0001. B – Bréfasafn 1945 – 1964

[39] ÞÍ. Sendiráð Íslands í London. 1990. B/001. B 1945-1964

[40] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands. 1994. B/61. 1945 – 1956. 1 Bessastaðakirkja, uppbygging

[41] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands. 1994. B/61. 1945 – 1956. 1 Bessastaðakirkja, uppbygging.

[42] ÞÍ. Forsætisráðuneytið. 1989. B/0053. 1.B.2. 1943-1957.

[43] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II, 67-68.

[44] Ásdís Ólafsdóttir og fl., Íslensk listasaga III, 103-104.

[45] ÞÍ. Utanríkisráðuneytið 1968 B-2. 1.B.3. Nr. 1

[46] ÞÍ. Utanríkisráðuneytið 1968 B-2. 1-B-2.

[47] Ásgeir Ásgeirsson. Ávarp í Bessastaðakirkju. 09.06.57.

[48] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist á 19. og 20. öld II, 209.

Viltu deila þessari grein með fleirum?