Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson (f. 1957) hefur ritað fjölmargar greinar og bækur um guðfræði. Kirkjublaðið.is hefur birt nokkrar greinar eftir hann um kirkjumál, guðfræði og list 

1. Inngangur

Töluvert hefur verið skrifað um biskupsembættið í samhengi evangelísk-lútherskrar guðfræði[1] en þar er úttekt og greining þýska kirkjuréttarfræðingsins Martins Heckels sérlega áhugaverð.[2] Í riti sínu Martin Luthers Reformation und das Recht tekur hann fyrir guðfræðilegar forsendur biskupsembættisins, útfærslu þess innan guðfræðisögunnar og hvernig það hefur þróast en þar beinir hann sérstaklega sjónum að siðbótinni.[3] Í þessari grein verður mikið byggt á umfjöllun Heckels úr þessu riti hans. Fyrst verður gerð grein fyrir því hvernig guðsþjónustan myndar grundvöll alls kirkjulegs starfs, þá verður greint frá meginágreiningnum um hvernig skilgreina beri biskupsembættið, síðan verður það reifað hvernig þjónusta orðsins getur talist biskupsembættinu til grundvallar og loks verður hugað að því hvernig best verði að stýra frekari þróun embættisins.

2. Guðsþjónustan sem grundvöllur kirkjulegs starfs

Í upphafi umfjöllunar sinnar dregur Heckel fram vægi guðsþjónustunnar fyrir kirkjudeildir mótmælenda. Þar sem mótmælendur líta svo á að orðið og trúin tryggi hjálpræði mannsins, sé guðsþjónustan miðpunktur alls kirkjulegs starfs[4] og boðun fagnaðarerindisins og veiting sakramentanna kjarni hennar.[5] Þess ber þó að gæta að guðsþjónustan er að mati þeirra fyrst og fremst þjónusta Guðs við manninn, en ekki mannsins við Guð. Þessar megináherslur setur Lúther þegar fram í ritum sínum á árunum 1520 til 1526. Hann dregur þar fram að þjónusta Guðs sé ekki bara bundin við sjálft guðsþjónustuhaldið í söfnuðum, heldur umlyki hún sköpunina alla, sé það sem haldi henni við og sé grundvöllur endurlausnar manns og heims á krossi og í upprisu Krists. Svar mannsins við þessari þjónustu Guðs birtist síðan í bæn og lofgjörð, jafnt í guðsþjónustu safnaðarins sem daglegu lífi og starfi sérhvers manns. Samkvæmt þessari túlkun nær guðsþjónustan yfir hið veraldlega svið, daglegt líf mannsins og kirkjuna sem „veraldlegra“ og andlega stofnun. Afgerandi í guðsþjónustu safnaðarins er sjálft orð Guðs, en ekki orð og verk mannsins því að hjálpræðið á hann alfarið í Guði og getur ekki leitað þess eigin í verkum eða væntingum tengdum þeim. Í guðsþjónustunni er orðið og útlegging þess í bæn, lofgjörð og predikun það sem allt snýst um. Inntak predikunarinnar er enn fremur að mati siðbótarmanna um rétta aðgreiningu milli lögmáls og fagnaðarerindis. Þar vísar lögmálið ekki til boða og banna ritningarinnar heldur er það nánast samheiti sköpunarinnar sem maðurinn er hluti af og þeirra siðalögmála og náttúrulögmála sem umljúka allan veruleika hans. Lögmálið dæmir manninn vegna þess að hann er sér meðvitaður um gildi þess þegar hann misnotar siðalögmálin og náttúrulögmálin og slítur þau úr eðlilegu samhengi sínu þegar hann leitast við að réttlæta sjálfan sig og hvað eina sem hann gerir og vill á kostnað annarra, alls annars og jafnvel sjálfs síns líka. Fagnaðarerindið um fyrirgefningu Guðs í Jesú Kristi gerir það hins vegar að verkum að lögmálið einskorðast við ytri veruleika mannsins þar sem það á heima en hið innra öðlast maðurinn sátt í samfélagi við Guð. Fagnaðarerindið snýst um það að Guð elskar manninn af fyrra bragði, fyrirgefur honum af náð sinni og leiðir hann til samfélags við sig fyrir Jesúm Krist. Þetta þýðir að hið veraldlega er ekki hjálpræðisvætt né heldur er maðurinn undirokaður fyrir fullt og allt óbærilegri sektarkennd. Heimurinn er metinn sem heimur, maðurinn er metinn sem maður og Guð er metinn sem Guð. Inntak predikunarinnar er því ekki kennisetningar kirkjunnar, hvað þá áköf hughrif vingltrúarmanna (þ. enthusiastische Erleuchtungen der Schwärmer) sem reika fram og aftur í trúarefnum. Kirkjudeildir mótmælenda hafa af þeim sökum kveðið skýrt á um að fagnaðarerindi Guðs í Kristi sé grundvöllur predikunarinnar en ekki ræktun helgisiða eða einhverjar siðferðilegar útleggingar. Guðsþjónustan er því skilgreind innan fræðanna sem Wortgeschehen, þ. e. a. s. orð fagnaðarerindisins er staðurinn þar sem maðurinn mætir opinberun Guðs og meðtekur þar hjálpræði sitt í trú.

Þegar guðsþjónusta, sem bundin er af orði fagnaðarerindisins, er virt sem Wortgeschehen, víkur sakramentalismaskilningur miðaldakirkjunnar til hliðar. Áherslan í kvöldmáltíðinni er nú á Guð sem gerandann en manninn sem þiggjanda. Þessu hafði verið snúið við í miðaldakirkjunni þar sem mikilvægi fórnarþjónustu prestsins var sett í forgrunninn við altarisþjónustuna. Slík túlkun opnaði allar dyr verkaréttlætingar og ruddi brautina fyrir nýjum birtingarmyndum sjálfsréttlætingar sem kirkjunnar menn voru iðnir við að móta eins og m. a. í aflátssölunni. Að mati Heckels færist þessi skilningur til frá og með siðbótinni en þá var hnykkt á því að það sé Guð sem gefi og maðurinn sé sá sem þiggi. Rétt þjónusta við Guð felist í trúnni en ekki verkum sem leiði til sjálfsréttlætingar. Trúna veki Guð en hún geri manninum það mögulegt að meðtaka orð fagnaðarerindisins. Þessi guðfræðilega sýn útiloki verkaréttlætingu hvort sem um sé að ræða helgisiði, helg verk eða móralisma. Guðsþjónustan verði aftur metin sem vettvangur samtals Guðs og manns. Verk mannsins séu ekki forsenda hjálpræðis, hvað þá birtingarmynd trúarinnar, heldur alfarið afleiðing hennar. Hversdagslífið sé með öðrum orðum vettvangur eftirfylgdar við Krist og farvegur helgunar og beri að skilgreina góðverk í veraldarvafstri mannsins sem þjónustu við náungann.

Frelsi kristins manns er aftur sett í öndvegi og útlistað í tengslum við fjórar meginstoðir trúarinnar. Um er að ræða náð Guðs sem er ekki á valdi mannsins, heldur Guðs sem veitir manninum hana skilyrðislaust eða án allrar verkréttlætingar (l. sola gratia). Í annan stað er það persónubundin trú hvers einstaklings (l. sola fide). Frelsi hans byggir á hjálpræðisverki Krists sem leysir manninn úr ánauð sektar og verkaréttlætingar (l. solus Christus). Og loks er frelsi hans óháð stofnanalegu forræði þar sem vægi ritningarinnar er sett yfir stofnunina og kennivald embættismanna hennar (l. sola scriptura).[6]

Þessar guðfræðiáherslur höfðu mikil áhrif á lagalega og stofnunarlega umgjörð kirkjunnar. Æ algengara varð að litið væri á kirkjuna sem eina af stofnunum samfélagsins og ekki lengur sem sjálfan ramma þess. Þessi breytta staða olli róttækri endurskoðun og uppgjöri varðandi eignarhald kirkjunnar og embætti hennar. Það hafði líka sitt að segja í þessari þróun að hið umfangsmikla helgihald miðaldakirkjunnar – í tengslum við kirkjur, klaustur, bænahús, helgidaga, dýrlinga o. s. frv. – missti merkingu sína og hlutverk. Siðbótin leiddi þannig til aukinnar veraldarvæðingar innan samfélagsins sem birtist m.a. í því að stór hluti þeirrar félags- og heilbrigðisþjónustu sem kirkjan hafði áður sinnt færðist nú yfir á verksvið ríkisvaldsins.

3. Baráttan um biskupsembættið

Þegar Lúther setti fram embættisskilning siðbótarmanna árið 1520 var tekist hart á um hann og lauk þeirri deilu með klofningi vesturkirkjunnar í kirkjudeildir mótmælenda og rómversk-kaþólskra. Mismunandi embættisskilningur þessara kirkjudeilda mótar enn kenningu þeirra um kirkjuna, vægi kirkjuréttar og um fram allt skilning fólks á guðsþjónustunni.

Afgerandi við embættisskilning Lúthers er hvernig hann greinir á milli sviða andlegs og veraldlegs valds. Þess ber að geta að á tímum siðbótarinnar voru kirkjuleg embætti gjarnan talin samofin veraldarvafstri og þá ekki síst biskupsembættið enda var vald biskupa mikið í veraldlegum efnum.[7] Á þessum tíma gat reynst erfitt að greina á milli verksviðs biskupa, veraldlegra valdsmanna, landstjóra og fursta. Hjalti Hugason bendir á að biskupsembættinu hafi verið komið fyrir í stjórnarformi einræðisbiskupa eða mónarkískra biskupa sem fóru með „óskorað vald á öllum sviðum kirkjustjórnar“.[8] Hér má vel bæta við og einnig á hinu veraldlega sviði. Biskuparnir ríktu sem sé á tímum siðbótarinnar og í rómversk-kaþólskum löndum langt fram á 19. öld sem landstjórar og drottnuðu sumir sem furstar yfir þeim svæðum sem biskupsdæmi þeirra náði yfir. Þetta fyrirkomulag hafði þróast um aldir og var niðurnjörvað í lögum keisaradæmisins og kirkjunnar. Völd, áhrif og hlunnindi biskupa voru mikil og stóðu þeir vörð um þau.[9]

Kirkjan kom snemma á þeirri hefð að klerkar skyldu verða ókvæntir sem var m. a. gert til að tryggja eignir kirkjunnar. Aðallinn lagaði sig að þessu kerfi og sá til þess að ættmenni tiltekinna ætta sætu í viðkomandi biskupsembættum. Það var gert til að tryggja áhrif aðalsins innan kirkjunnar og völd hans og tök á eignum hennar. Biskupar sinntu á tímum siðbótarinnar því mörgum veraldlegum skyldum innan keisaradæmisins við hlið „andlegra“ starfa sinna sem aftur á móti sátu oft á hakanum eins og er m. a. tíundað í 28. grein Ágsborgarjátningarinnar. Í þeirri grein er tekið fram að það sé á starfsviði biskupa að sinna því sem fellur undir veraldlega hlið hins kirkjulega starfs, þó svo að það sé ekki megininntak embættisins. Þar er hnykkt á því að biskupsembættið sé fyrst og fremst kirkjulegt og hlutverk biskups sé að tryggja boðun fagnaðarerindisins og veitingu sakramenta.[10]

4. Biskupsembættið

4.1 Biskupsembættið og þjónusta orðsins

Kenningin um réttlætingu af trú er svo orðuð í 5. grein Ágsborgarjátningarinnar:

Til þess að vér öðlumst þessa trú, er stofnað embætti til að kenna fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum, því fyrir orðið og sakramentin eins og tæki er gefinn heilagur andi, sem kemur til leiðar trúnni, þar sem og þegar Guði þóknast, í þeim sem heyra fagnaðarerindið, sem fjallar um, að Guð, ekki vegna vorra verðleika, heldur vegna Krists, réttlæti þá sem trúa, að þeir séu teknir til náðar vegna Krists.[11]

Þetta er svo útfært nánar í 28. greininni, en þar segir „að biskupsvaldið sé samkvæmt fagnaðarerindinu vald eða boð frá Guði að prédika fagnaðarerindið, leysa og binda syndina og þjóna að sakramentunum.“[12] Af þessu má ljóst vera að embætti predikunarinnar skiptir sköpum. Áberandi er einnig að hér er prestsembættið og þar með biskupsembættið ekki skilgreint stofnanalega, heldur sem stofnað af Guði og skilgreint sem hlýðni við boð Guðs. Kjarni embættisins er að tryggja að boðunin og veiting sakramenta sé í farvegi sem tryggir frelsi hins kristna manns og fylgir áherslunni á sola gratia, sola fide, solus Christus og sola scriptura. Kirkjan sem stofnun er reist í kringum þetta og hefur ekki sjálfstætt vægi utan þess. Það gefur því að skilja að það er orðið sem kallar kirkjuna fram og tryggir tilvist hennar, en ekki öfugt. Án þessa þáttar er guðfræðilega ekki hægt að skilgreina kirkjuna bara sem eina af stofnunum samfélagsins. Í 7. grein Ágsborgarjátningarinnar er þetta orðað svona:

Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt þjónusta. Til að sönn eining ríki í kirkjunni er nóg, að menn séu sammála um kenningu fagnaðar- erindisins og þjónustu sakramentanna.[13]

Merkingu þessa mætti orða svo að það sé Guð sem vekur trúna og nærir hana með orði sínu. Það er aftur á móti hlutverk predikarans að fræða um orðið í predikuninni og vægi þess fyrir daglegt líf fólks. Það gefur að skilja að predikarinn getur hér hvorki sett embætti sitt yfir lögmálið né fagnaðarerindið, heldur er það skylda hans í predikun að ljúka upp veruleika lögmálsins og hugga með orði fagnaðarerindisins. Þetta er rammi embættisins og hann setur því auk þess mörk í veraldarvafstri.

Embætti boðunarinnar þarfnast því vel menntaðra presta en slíkt þarf að tryggja með samfélagslegu menntakerfi, þ. e. rekstri hins opinbera á grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Það ætti því ekki að koma á óvart að það skuli skipta miklu máli í starfi biskups að tryggja þetta en fyrir vikið er hann áberandi í helstu kirkjudeildum mótmælenda.

4.2. Biskupsembættið er sögulega skilyrt staða

Samkvæmt játningarritunum er kirkjan þar sem fagnaðarerindið er boðað og sakramentunum er veitt rétt þjónusta. Kirkjan er líka stofnun sem er reist um þennan veruleika og er sem slík sögulega skilyrt. Eins og Lúther gerðu margir siðbótarmenn sér fulla grein fyrir nauðsyn þess að greina tíðaranda samtímans í söfnuðunum og kirkjunni og virða hann. Sinna þurfti boðun, almennum rekstri safnaða og stofnunarlegum þáttum kirkjunnar. Um það vitnar Ágsborgarjátningin en þar er gengið út frá því að í rás kirkjusögunnar hafi embætti páfa og biskupa smám saman mótast og ýmsar hefðir og venjur tengdar þeim. Þó svo að þessi embætti séu því sannarlega sögulega skilyrt dragi það engan veginn úr mikilvægu hlutverki þeirra fyrir stofnunarlegan rekstur kirkjunnar.[14]

Lúther fjallaði að vísu frekar lítið um stofnunarlega þátt embættisins. Embættisskilningur hans mótaðist fyrst og fremst í deilum hans um eðli prestsembættisins við fulltrúa rómversk–kaþólsku kirkjunnar og vingltrúarmenn. M. a. tókst Lúther þar á við þá verkaréttlætingu sem þessir aðilar bundu við embættisskilninginn, innan rómversku kirkjunnar í tengslum við messufórnina og það sjónarmið vingltrúarmanna að aðskilja beri starf heilags anda frá orði Guðs í Kristi.[15] Afgerandi er að Lúther víkur í þessum deilum aldrei frá því sjónarmiði að sjálft embættið sé stofnað og tryggt af Guði.

Sú spurning vaknar hvert sambandið sé á milli almenns prestdóms og sérstaks prestsembættis boðunarinnar?

Lúther sagði eitt sinn að þegar við stígum upp úr skírnarvatninu séum við öll orðin prestar, biskupar og páfar. Kristinn söfnuður sé heilagt prestasamfélag þar sem sérhver sem trúir hafi beinan aðgang að Guði.

Í söfnuði heilagra deili allir sömu andlegum gæðum, allt í senn skírn, fagnaðarerindi, náð, fyrirgefningu, sakramentum og trú á Jesúm Krist. Svar kristins manns við þessum gjöfum Guðs sé lofgjörðarfórn sem birtingarmynd þakklætis. Að sama skapi beri sérhver kristinn einstaklingur auk þess vitni um þessa stöðu sína í daglegu lífi sínu. Gæta ber þó að því að Lúther leggur samt ekki almennan prestdóm að jöfnu við embætti boðunarinnar. Þar er um að ræða opinbert embætti sem einungis þeir geta sinnt sem eru réttilega kallaðir af söfnuði eða í tengslum við söfnuði. Í 14. grein Ágsborgarjátningarinnar er þetta áréttað svona: „Um hina kirkjulegu stétt kenna þeir: Enginn á opinberlega að kenna í kirkjunni eða útdeila sakramentum, nema hann sé réttilega kallaður.“[16] Það gefur að skilja að hver sá sem á möguleika á því að verða kallaður þarf að hafa lokið tilteknu námi og er valinn eftir skilgreindum reglum. Það er því ekki rétt að leiða opinbert boðunarembætti presta beint af almennum prestdómi, þar sem boðunarembættið er opinbert.

5. Biskupsembættið endurskoðað

Þessi embættisskilningur leiddi til endurskoðunar á embætti biskups. Á tímum siðbótarinnar var það samofið efnahagslegri og stjórnmálalegri uppbyggingu þjóðfélagsins og var hægara sagt en gert að losa um þau tengsl, hvað þá að binda það alfarið við það „að prédika fagnaðarerindið, leysa og binda syndina og þjóna að sakramentunum“.[17] Sú mikla endurskoðun á biskupsembættinu sem siðbótin hafði í för með sér svipti grundvellinum undan fornum réttindum og skyldum biskupa og dró verulega úr pólitískum og efnahagslegum völdum þeirra. Staða biskupa hefði gjörbreyst. Flestir biskupar gerðust því fráhverfir siðbótinni og vildu halda réttindum sínum áfram þar sem forn samruni veraldlegs og andlegs valds í embætti biskups gerði þeim kleift að ríkja sem landstjórar eða furstar.[18] Af þessum sökum neyddist Lúther til að fá veraldlega fursta til að taka að sér skyldur eða embætti biskups. Þetta var neyðarráð til að tryggja framgang siðbótarinnar og kölluðust þeir því Notbischof á þýsku eða neyðarbiskup.[19] Siðbótarmenn réttlættu þessa tilhögun á þeirri forsendu að landstjórar, furstar, konungar og keisari væru verndarar kirkjunnar sem og fremstu meðlimir hennar.[20] Landshöfðinginn varð neyðarbiskup og tók upp titilinn summus episcopus á latínu eða æðsti biskup. Hann hafði rétt til að skipta sér af ytri og innri málefnum kirkjunnar og öðlaðist með því tilsjónarvald yfir kirkjunni.[21] Á svæðum evangelískra kirkna yfirtók landstjórnin fyrir vikið mikið af veraldlegum skyldum kirkjunnar og var biskupinum fundinn staður og verkefni innan stjórnkerfisins, svo sem skipulagningu og rekstri skóla–, heilbrigðis– og félagsmála. Í mörgum tilvikum varð biskupsembættið lagt að jöfnu við embætti tilsjónarmanns eða Superinternenten (l.).[22] Meginverkefni evangelíska biskupsins var þó fólgið í því að byggja upp söfnuði og tryggja boðun fagnaðarerindisins en samt án óevangelískra þvingana í samræmi við orð Lúthers: „ég næ ekki lengra með predikun minni en að eyrum fólks, inn hjartað kemst ég ekki […] þangað kemst einungis Guð með fagnaðarerindið“.[23]

Mikilvægt er að hafa hér í huga að ekki er eðlismunur á starfi prests og biskups þar sem það síðarnefnda er leitt af því fyrrnefnda. Prestsembættið grundvallast á þeirri guðlegu tilskipun að boða fagnaðarerindið og veita sakramentum rétta þjónustu, það lýtur orði fagnaðarerindisins en ekki valdi biskups eða safnaðar. Aftur á móti er það hlutverk biskups og safnaða að hlusta vel eftir því að fagnaðarerindið sé réttilega boðað. Gagnvart söfnuðunum hefur biskupinn auk þessa skyldum að sinna sem varða rekstrarstjórnun kirkjunnar. Samkvæmt játningarritunum eru prestsembættið og biskupsembættið enn fremur að eðli til sama embættið í ritningunni. Lúther setti því fram þá kröfu að biskup yrði að vera bundinn ákveðnum söfnuði líkt og prestar.[24]

Siðbótarmenn höfnuðu því ekki biskupsembættinu og hvernig það hafði þróast, en þeir vildu endurskoða það í samræmi við það hlutverk sem því bæri að sinna. Þeir samþykktu að biskup þyrfti að sinna skipulagsmálum en sögðu að megininntakið yrði samt að vera boðunin og sakramentisþjónustan. Þetta skýrir hvers vegna biskupar m. a. á Íslandi gáfu út postillur eða predikunarsöfn í tengslum við starf sitt. Lúther segir á einum stað að ef biskup eigi í erfiðleikum með að predika beri honum skylda til að útvega sér lærða menn til að létta af sér þeirri byrði.[25]

Innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar voru tengslin milli veraldlegs og andlegs valds áfram mikil í biskupsembættunum. Biskupinn ríkti innan umdæmis síns sem „fursti“ eða „einræðisbiskup‟ eins og siðbótarmenn áttu til að orða það. Þessa valdakröfu gátu evangelískir ekki sætt sig við og hvað þá að hún væri réttlætt með tilbúinni guðlegri tilskipan eins og t. d. í kenningunni um óslitna postularöð sem virti lítt sem ekkert aðgreininguna á milli andlegs og veraldlegs valds.[26]

6. Lokaorð

Þar sem ekki náðist samstaða um endurskoðun biskupsembættisins, þróaðist það á ólíkan máta innan kirkjudeildanna.

Í rómversk-kaþólskri kirkju er t. d. kennt að forsenda þess að hægt sé að tala um kirkju sé að þar sé biskup til staðar eða eins og það er orðað þar sem er biskup er kirkjan. Mótmælendur gátu ekki fallist á þetta og sögðu að þó svo að biskupinn sé vissulega hluti af kirkjunni þá geti hann ekki talist hún.[27] Í kjölfar siðbótarinnar leiddi aukin miðstýring innan rómversk-kaþólsku-kirkjunnar jafnt og þétt til þess að kenningin um óskeikulleika páfans var gerð að trúarsetningu. Þar hafa biskupar samt haldið nokkru af sjálfstæði sínu, þó svo að reynt hafi verið að koma embættum þeirra beint undir áhrifavald páfa.

Í löndum mótmælenda var veraldlegu valdi biskupa víðast hvar komið fyrir innan stjórnkerfis stjórnvalda og var boðunin og rétt veiting sakramenta þungamiðjan í starfi þeirra. Fyrir vikið var biskupsembættið lagt að jöfnu við embætti tilsjónarmanns. Hann var leystur undan „veraldlegum“ skyldum til að geta sinnt andlegri stjórnun kirkjunnar. Þó er spurning hvort slíkt hafi nokkurn tímann verið tilfellið á Íslandi þar sem biskupsembættið var þar lengi vel nokkuð valdamikið á veraldlega vísu eftir siðbreytinguna.

Að mati Heckels er biskupsembættið enn í þróun og sé það hlutverk guðfræðinga að leiða hana en ekki lögfræðinga.

Tilvísanir

[1] Gerhard Tröger, „Bischof III. Das evangelische Bischofsamt“, TRE 6, 690–694. Gerhard Tröger, „Bischof IV. Das synodale Bischofsamt“, TRE 6, 694–697. Þessum greinum fylgja ítarlegar heimildaskrár.

[2] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, Mohr Siebeck, Tübingen 2016, 282–337.

[3] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 217–405.

[4] „Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt þjónusta.“ Í þýska textanum (BSLK, 61) segir að kirkjan „sé söfnuður allra trúaðra, þar sem fagnaðarerindið er boðað hreint og heilögum sakramentum útdeilt samkvæmt fagnaðarerindinu“. Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 2. útg., Skálholt 1991, 183, 188–189.

[5] Sbr., 5. og 7. greinar Ágsborgarjátningarinnar.

[6] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 287–288. Arnulf von Scheliha, „Kirche und Stadt“, Handbuch – Praktische Theologie, ritstjórar Wilhelm Gräb og Birgit Weyel, Gütersloher Verlagshaus, Gütersloh 2007, 105 [101–112].

[7] Sbr. 28. grein Ágsborgarjátningarinnar.

[8] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“, Kirkjublaðið 4. september 2023.

[9] Gerhard Tröger, „Bischof III. Das evangelische Bischofsamt“, 690.

[10] 28. gr. Ágsborgarjátningarinnar. Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 244, [244–250].

[11] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 183. Þessi áhersla er ítrekuð í 7. Greininni: „Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt þjónusta.“ Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 188.

[12] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 244.

[13] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 188.

[14] Sbr., 14. og 28. grein Ágsborgarjátningarinnar.

[15] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 282–288, 377–398.

[16] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 206. Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 303.

[17] 28. grein Ágsborgarjátningarinnar. Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 244.

[18] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 341–343. Gerhard Tröger, „Bischof III. Das evangelische Bischofsamt“, 690.

[19] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 356–366.

[20] Peter Landau, „Kirchenverfassungen“ TRE 19,148–149 [110–165].

[21] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 361, 651–652. Þannig séð er forseti Íslands æðsti embættismaður þjóðkirkjunnar.

[22] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 334–335.

[23] Marteinn Luther WA 10, III, 24. Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 310.

[24] Það varpar ljósi á það vegna hvers biskup Íslands er bundinn Dómkirkjunni.

[25] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 314.

[26] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 322.

[27]Sjá m.a. „Demokratiedefizit wurzelt tief in der katholischen Kirche“: https://www.zeit.de/gesellschaft/zeitgeschehen/2013-04/demokratiedefizit-papst-franziskus-vatikan/seite-2.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson (f. 1957) hefur ritað fjölmargar greinar og bækur um guðfræði. Kirkjublaðið.is hefur birt nokkrar greinar eftir hann um kirkjumál, guðfræði og list 

1. Inngangur

Töluvert hefur verið skrifað um biskupsembættið í samhengi evangelísk-lútherskrar guðfræði[1] en þar er úttekt og greining þýska kirkjuréttarfræðingsins Martins Heckels sérlega áhugaverð.[2] Í riti sínu Martin Luthers Reformation und das Recht tekur hann fyrir guðfræðilegar forsendur biskupsembættisins, útfærslu þess innan guðfræðisögunnar og hvernig það hefur þróast en þar beinir hann sérstaklega sjónum að siðbótinni.[3] Í þessari grein verður mikið byggt á umfjöllun Heckels úr þessu riti hans. Fyrst verður gerð grein fyrir því hvernig guðsþjónustan myndar grundvöll alls kirkjulegs starfs, þá verður greint frá meginágreiningnum um hvernig skilgreina beri biskupsembættið, síðan verður það reifað hvernig þjónusta orðsins getur talist biskupsembættinu til grundvallar og loks verður hugað að því hvernig best verði að stýra frekari þróun embættisins.

2. Guðsþjónustan sem grundvöllur kirkjulegs starfs

Í upphafi umfjöllunar sinnar dregur Heckel fram vægi guðsþjónustunnar fyrir kirkjudeildir mótmælenda. Þar sem mótmælendur líta svo á að orðið og trúin tryggi hjálpræði mannsins, sé guðsþjónustan miðpunktur alls kirkjulegs starfs[4] og boðun fagnaðarerindisins og veiting sakramentanna kjarni hennar.[5] Þess ber þó að gæta að guðsþjónustan er að mati þeirra fyrst og fremst þjónusta Guðs við manninn, en ekki mannsins við Guð. Þessar megináherslur setur Lúther þegar fram í ritum sínum á árunum 1520 til 1526. Hann dregur þar fram að þjónusta Guðs sé ekki bara bundin við sjálft guðsþjónustuhaldið í söfnuðum, heldur umlyki hún sköpunina alla, sé það sem haldi henni við og sé grundvöllur endurlausnar manns og heims á krossi og í upprisu Krists. Svar mannsins við þessari þjónustu Guðs birtist síðan í bæn og lofgjörð, jafnt í guðsþjónustu safnaðarins sem daglegu lífi og starfi sérhvers manns. Samkvæmt þessari túlkun nær guðsþjónustan yfir hið veraldlega svið, daglegt líf mannsins og kirkjuna sem „veraldlegra“ og andlega stofnun. Afgerandi í guðsþjónustu safnaðarins er sjálft orð Guðs, en ekki orð og verk mannsins því að hjálpræðið á hann alfarið í Guði og getur ekki leitað þess eigin í verkum eða væntingum tengdum þeim. Í guðsþjónustunni er orðið og útlegging þess í bæn, lofgjörð og predikun það sem allt snýst um. Inntak predikunarinnar er enn fremur að mati siðbótarmanna um rétta aðgreiningu milli lögmáls og fagnaðarerindis. Þar vísar lögmálið ekki til boða og banna ritningarinnar heldur er það nánast samheiti sköpunarinnar sem maðurinn er hluti af og þeirra siðalögmála og náttúrulögmála sem umljúka allan veruleika hans. Lögmálið dæmir manninn vegna þess að hann er sér meðvitaður um gildi þess þegar hann misnotar siðalögmálin og náttúrulögmálin og slítur þau úr eðlilegu samhengi sínu þegar hann leitast við að réttlæta sjálfan sig og hvað eina sem hann gerir og vill á kostnað annarra, alls annars og jafnvel sjálfs síns líka. Fagnaðarerindið um fyrirgefningu Guðs í Jesú Kristi gerir það hins vegar að verkum að lögmálið einskorðast við ytri veruleika mannsins þar sem það á heima en hið innra öðlast maðurinn sátt í samfélagi við Guð. Fagnaðarerindið snýst um það að Guð elskar manninn af fyrra bragði, fyrirgefur honum af náð sinni og leiðir hann til samfélags við sig fyrir Jesúm Krist. Þetta þýðir að hið veraldlega er ekki hjálpræðisvætt né heldur er maðurinn undirokaður fyrir fullt og allt óbærilegri sektarkennd. Heimurinn er metinn sem heimur, maðurinn er metinn sem maður og Guð er metinn sem Guð. Inntak predikunarinnar er því ekki kennisetningar kirkjunnar, hvað þá áköf hughrif vingltrúarmanna (þ. enthusiastische Erleuchtungen der Schwärmer) sem reika fram og aftur í trúarefnum. Kirkjudeildir mótmælenda hafa af þeim sökum kveðið skýrt á um að fagnaðarerindi Guðs í Kristi sé grundvöllur predikunarinnar en ekki ræktun helgisiða eða einhverjar siðferðilegar útleggingar. Guðsþjónustan er því skilgreind innan fræðanna sem Wortgeschehen, þ. e. a. s. orð fagnaðarerindisins er staðurinn þar sem maðurinn mætir opinberun Guðs og meðtekur þar hjálpræði sitt í trú.

Þegar guðsþjónusta, sem bundin er af orði fagnaðarerindisins, er virt sem Wortgeschehen, víkur sakramentalismaskilningur miðaldakirkjunnar til hliðar. Áherslan í kvöldmáltíðinni er nú á Guð sem gerandann en manninn sem þiggjanda. Þessu hafði verið snúið við í miðaldakirkjunni þar sem mikilvægi fórnarþjónustu prestsins var sett í forgrunninn við altarisþjónustuna. Slík túlkun opnaði allar dyr verkaréttlætingar og ruddi brautina fyrir nýjum birtingarmyndum sjálfsréttlætingar sem kirkjunnar menn voru iðnir við að móta eins og m. a. í aflátssölunni. Að mati Heckels færist þessi skilningur til frá og með siðbótinni en þá var hnykkt á því að það sé Guð sem gefi og maðurinn sé sá sem þiggi. Rétt þjónusta við Guð felist í trúnni en ekki verkum sem leiði til sjálfsréttlætingar. Trúna veki Guð en hún geri manninum það mögulegt að meðtaka orð fagnaðarerindisins. Þessi guðfræðilega sýn útiloki verkaréttlætingu hvort sem um sé að ræða helgisiði, helg verk eða móralisma. Guðsþjónustan verði aftur metin sem vettvangur samtals Guðs og manns. Verk mannsins séu ekki forsenda hjálpræðis, hvað þá birtingarmynd trúarinnar, heldur alfarið afleiðing hennar. Hversdagslífið sé með öðrum orðum vettvangur eftirfylgdar við Krist og farvegur helgunar og beri að skilgreina góðverk í veraldarvafstri mannsins sem þjónustu við náungann.

Frelsi kristins manns er aftur sett í öndvegi og útlistað í tengslum við fjórar meginstoðir trúarinnar. Um er að ræða náð Guðs sem er ekki á valdi mannsins, heldur Guðs sem veitir manninum hana skilyrðislaust eða án allrar verkréttlætingar (l. sola gratia). Í annan stað er það persónubundin trú hvers einstaklings (l. sola fide). Frelsi hans byggir á hjálpræðisverki Krists sem leysir manninn úr ánauð sektar og verkaréttlætingar (l. solus Christus). Og loks er frelsi hans óháð stofnanalegu forræði þar sem vægi ritningarinnar er sett yfir stofnunina og kennivald embættismanna hennar (l. sola scriptura).[6]

Þessar guðfræðiáherslur höfðu mikil áhrif á lagalega og stofnunarlega umgjörð kirkjunnar. Æ algengara varð að litið væri á kirkjuna sem eina af stofnunum samfélagsins og ekki lengur sem sjálfan ramma þess. Þessi breytta staða olli róttækri endurskoðun og uppgjöri varðandi eignarhald kirkjunnar og embætti hennar. Það hafði líka sitt að segja í þessari þróun að hið umfangsmikla helgihald miðaldakirkjunnar – í tengslum við kirkjur, klaustur, bænahús, helgidaga, dýrlinga o. s. frv. – missti merkingu sína og hlutverk. Siðbótin leiddi þannig til aukinnar veraldarvæðingar innan samfélagsins sem birtist m.a. í því að stór hluti þeirrar félags- og heilbrigðisþjónustu sem kirkjan hafði áður sinnt færðist nú yfir á verksvið ríkisvaldsins.

3. Baráttan um biskupsembættið

Þegar Lúther setti fram embættisskilning siðbótarmanna árið 1520 var tekist hart á um hann og lauk þeirri deilu með klofningi vesturkirkjunnar í kirkjudeildir mótmælenda og rómversk-kaþólskra. Mismunandi embættisskilningur þessara kirkjudeilda mótar enn kenningu þeirra um kirkjuna, vægi kirkjuréttar og um fram allt skilning fólks á guðsþjónustunni.

Afgerandi við embættisskilning Lúthers er hvernig hann greinir á milli sviða andlegs og veraldlegs valds. Þess ber að geta að á tímum siðbótarinnar voru kirkjuleg embætti gjarnan talin samofin veraldarvafstri og þá ekki síst biskupsembættið enda var vald biskupa mikið í veraldlegum efnum.[7] Á þessum tíma gat reynst erfitt að greina á milli verksviðs biskupa, veraldlegra valdsmanna, landstjóra og fursta. Hjalti Hugason bendir á að biskupsembættinu hafi verið komið fyrir í stjórnarformi einræðisbiskupa eða mónarkískra biskupa sem fóru með „óskorað vald á öllum sviðum kirkjustjórnar“.[8] Hér má vel bæta við og einnig á hinu veraldlega sviði. Biskuparnir ríktu sem sé á tímum siðbótarinnar og í rómversk-kaþólskum löndum langt fram á 19. öld sem landstjórar og drottnuðu sumir sem furstar yfir þeim svæðum sem biskupsdæmi þeirra náði yfir. Þetta fyrirkomulag hafði þróast um aldir og var niðurnjörvað í lögum keisaradæmisins og kirkjunnar. Völd, áhrif og hlunnindi biskupa voru mikil og stóðu þeir vörð um þau.[9]

Kirkjan kom snemma á þeirri hefð að klerkar skyldu verða ókvæntir sem var m. a. gert til að tryggja eignir kirkjunnar. Aðallinn lagaði sig að þessu kerfi og sá til þess að ættmenni tiltekinna ætta sætu í viðkomandi biskupsembættum. Það var gert til að tryggja áhrif aðalsins innan kirkjunnar og völd hans og tök á eignum hennar. Biskupar sinntu á tímum siðbótarinnar því mörgum veraldlegum skyldum innan keisaradæmisins við hlið „andlegra“ starfa sinna sem aftur á móti sátu oft á hakanum eins og er m. a. tíundað í 28. grein Ágsborgarjátningarinnar. Í þeirri grein er tekið fram að það sé á starfsviði biskupa að sinna því sem fellur undir veraldlega hlið hins kirkjulega starfs, þó svo að það sé ekki megininntak embættisins. Þar er hnykkt á því að biskupsembættið sé fyrst og fremst kirkjulegt og hlutverk biskups sé að tryggja boðun fagnaðarerindisins og veitingu sakramenta.[10]

4. Biskupsembættið

4.1 Biskupsembættið og þjónusta orðsins

Kenningin um réttlætingu af trú er svo orðuð í 5. grein Ágsborgarjátningarinnar:

Til þess að vér öðlumst þessa trú, er stofnað embætti til að kenna fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum, því fyrir orðið og sakramentin eins og tæki er gefinn heilagur andi, sem kemur til leiðar trúnni, þar sem og þegar Guði þóknast, í þeim sem heyra fagnaðarerindið, sem fjallar um, að Guð, ekki vegna vorra verðleika, heldur vegna Krists, réttlæti þá sem trúa, að þeir séu teknir til náðar vegna Krists.[11]

Þetta er svo útfært nánar í 28. greininni, en þar segir „að biskupsvaldið sé samkvæmt fagnaðarerindinu vald eða boð frá Guði að prédika fagnaðarerindið, leysa og binda syndina og þjóna að sakramentunum.“[12] Af þessu má ljóst vera að embætti predikunarinnar skiptir sköpum. Áberandi er einnig að hér er prestsembættið og þar með biskupsembættið ekki skilgreint stofnanalega, heldur sem stofnað af Guði og skilgreint sem hlýðni við boð Guðs. Kjarni embættisins er að tryggja að boðunin og veiting sakramenta sé í farvegi sem tryggir frelsi hins kristna manns og fylgir áherslunni á sola gratia, sola fide, solus Christus og sola scriptura. Kirkjan sem stofnun er reist í kringum þetta og hefur ekki sjálfstætt vægi utan þess. Það gefur því að skilja að það er orðið sem kallar kirkjuna fram og tryggir tilvist hennar, en ekki öfugt. Án þessa þáttar er guðfræðilega ekki hægt að skilgreina kirkjuna bara sem eina af stofnunum samfélagsins. Í 7. grein Ágsborgarjátningarinnar er þetta orðað svona:

Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt þjónusta. Til að sönn eining ríki í kirkjunni er nóg, að menn séu sammála um kenningu fagnaðar- erindisins og þjónustu sakramentanna.[13]

Merkingu þessa mætti orða svo að það sé Guð sem vekur trúna og nærir hana með orði sínu. Það er aftur á móti hlutverk predikarans að fræða um orðið í predikuninni og vægi þess fyrir daglegt líf fólks. Það gefur að skilja að predikarinn getur hér hvorki sett embætti sitt yfir lögmálið né fagnaðarerindið, heldur er það skylda hans í predikun að ljúka upp veruleika lögmálsins og hugga með orði fagnaðarerindisins. Þetta er rammi embættisins og hann setur því auk þess mörk í veraldarvafstri.

Embætti boðunarinnar þarfnast því vel menntaðra presta en slíkt þarf að tryggja með samfélagslegu menntakerfi, þ. e. rekstri hins opinbera á grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Það ætti því ekki að koma á óvart að það skuli skipta miklu máli í starfi biskups að tryggja þetta en fyrir vikið er hann áberandi í helstu kirkjudeildum mótmælenda.

4.2. Biskupsembættið er sögulega skilyrt staða

Samkvæmt játningarritunum er kirkjan þar sem fagnaðarerindið er boðað og sakramentunum er veitt rétt þjónusta. Kirkjan er líka stofnun sem er reist um þennan veruleika og er sem slík sögulega skilyrt. Eins og Lúther gerðu margir siðbótarmenn sér fulla grein fyrir nauðsyn þess að greina tíðaranda samtímans í söfnuðunum og kirkjunni og virða hann. Sinna þurfti boðun, almennum rekstri safnaða og stofnunarlegum þáttum kirkjunnar. Um það vitnar Ágsborgarjátningin en þar er gengið út frá því að í rás kirkjusögunnar hafi embætti páfa og biskupa smám saman mótast og ýmsar hefðir og venjur tengdar þeim. Þó svo að þessi embætti séu því sannarlega sögulega skilyrt dragi það engan veginn úr mikilvægu hlutverki þeirra fyrir stofnunarlegan rekstur kirkjunnar.[14]

Lúther fjallaði að vísu frekar lítið um stofnunarlega þátt embættisins. Embættisskilningur hans mótaðist fyrst og fremst í deilum hans um eðli prestsembættisins við fulltrúa rómversk–kaþólsku kirkjunnar og vingltrúarmenn. M. a. tókst Lúther þar á við þá verkaréttlætingu sem þessir aðilar bundu við embættisskilninginn, innan rómversku kirkjunnar í tengslum við messufórnina og það sjónarmið vingltrúarmanna að aðskilja beri starf heilags anda frá orði Guðs í Kristi.[15] Afgerandi er að Lúther víkur í þessum deilum aldrei frá því sjónarmiði að sjálft embættið sé stofnað og tryggt af Guði.

Sú spurning vaknar hvert sambandið sé á milli almenns prestdóms og sérstaks prestsembættis boðunarinnar?

Lúther sagði eitt sinn að þegar við stígum upp úr skírnarvatninu séum við öll orðin prestar, biskupar og páfar. Kristinn söfnuður sé heilagt prestasamfélag þar sem sérhver sem trúir hafi beinan aðgang að Guði.

Í söfnuði heilagra deili allir sömu andlegum gæðum, allt í senn skírn, fagnaðarerindi, náð, fyrirgefningu, sakramentum og trú á Jesúm Krist. Svar kristins manns við þessum gjöfum Guðs sé lofgjörðarfórn sem birtingarmynd þakklætis. Að sama skapi beri sérhver kristinn einstaklingur auk þess vitni um þessa stöðu sína í daglegu lífi sínu. Gæta ber þó að því að Lúther leggur samt ekki almennan prestdóm að jöfnu við embætti boðunarinnar. Þar er um að ræða opinbert embætti sem einungis þeir geta sinnt sem eru réttilega kallaðir af söfnuði eða í tengslum við söfnuði. Í 14. grein Ágsborgarjátningarinnar er þetta áréttað svona: „Um hina kirkjulegu stétt kenna þeir: Enginn á opinberlega að kenna í kirkjunni eða útdeila sakramentum, nema hann sé réttilega kallaður.“[16] Það gefur að skilja að hver sá sem á möguleika á því að verða kallaður þarf að hafa lokið tilteknu námi og er valinn eftir skilgreindum reglum. Það er því ekki rétt að leiða opinbert boðunarembætti presta beint af almennum prestdómi, þar sem boðunarembættið er opinbert.

5. Biskupsembættið endurskoðað

Þessi embættisskilningur leiddi til endurskoðunar á embætti biskups. Á tímum siðbótarinnar var það samofið efnahagslegri og stjórnmálalegri uppbyggingu þjóðfélagsins og var hægara sagt en gert að losa um þau tengsl, hvað þá að binda það alfarið við það „að prédika fagnaðarerindið, leysa og binda syndina og þjóna að sakramentunum“.[17] Sú mikla endurskoðun á biskupsembættinu sem siðbótin hafði í för með sér svipti grundvellinum undan fornum réttindum og skyldum biskupa og dró verulega úr pólitískum og efnahagslegum völdum þeirra. Staða biskupa hefði gjörbreyst. Flestir biskupar gerðust því fráhverfir siðbótinni og vildu halda réttindum sínum áfram þar sem forn samruni veraldlegs og andlegs valds í embætti biskups gerði þeim kleift að ríkja sem landstjórar eða furstar.[18] Af þessum sökum neyddist Lúther til að fá veraldlega fursta til að taka að sér skyldur eða embætti biskups. Þetta var neyðarráð til að tryggja framgang siðbótarinnar og kölluðust þeir því Notbischof á þýsku eða neyðarbiskup.[19] Siðbótarmenn réttlættu þessa tilhögun á þeirri forsendu að landstjórar, furstar, konungar og keisari væru verndarar kirkjunnar sem og fremstu meðlimir hennar.[20] Landshöfðinginn varð neyðarbiskup og tók upp titilinn summus episcopus á latínu eða æðsti biskup. Hann hafði rétt til að skipta sér af ytri og innri málefnum kirkjunnar og öðlaðist með því tilsjónarvald yfir kirkjunni.[21] Á svæðum evangelískra kirkna yfirtók landstjórnin fyrir vikið mikið af veraldlegum skyldum kirkjunnar og var biskupinum fundinn staður og verkefni innan stjórnkerfisins, svo sem skipulagningu og rekstri skóla–, heilbrigðis– og félagsmála. Í mörgum tilvikum varð biskupsembættið lagt að jöfnu við embætti tilsjónarmanns eða Superinternenten (l.).[22] Meginverkefni evangelíska biskupsins var þó fólgið í því að byggja upp söfnuði og tryggja boðun fagnaðarerindisins en samt án óevangelískra þvingana í samræmi við orð Lúthers: „ég næ ekki lengra með predikun minni en að eyrum fólks, inn hjartað kemst ég ekki […] þangað kemst einungis Guð með fagnaðarerindið“.[23]

Mikilvægt er að hafa hér í huga að ekki er eðlismunur á starfi prests og biskups þar sem það síðarnefnda er leitt af því fyrrnefnda. Prestsembættið grundvallast á þeirri guðlegu tilskipun að boða fagnaðarerindið og veita sakramentum rétta þjónustu, það lýtur orði fagnaðarerindisins en ekki valdi biskups eða safnaðar. Aftur á móti er það hlutverk biskups og safnaða að hlusta vel eftir því að fagnaðarerindið sé réttilega boðað. Gagnvart söfnuðunum hefur biskupinn auk þessa skyldum að sinna sem varða rekstrarstjórnun kirkjunnar. Samkvæmt játningarritunum eru prestsembættið og biskupsembættið enn fremur að eðli til sama embættið í ritningunni. Lúther setti því fram þá kröfu að biskup yrði að vera bundinn ákveðnum söfnuði líkt og prestar.[24]

Siðbótarmenn höfnuðu því ekki biskupsembættinu og hvernig það hafði þróast, en þeir vildu endurskoða það í samræmi við það hlutverk sem því bæri að sinna. Þeir samþykktu að biskup þyrfti að sinna skipulagsmálum en sögðu að megininntakið yrði samt að vera boðunin og sakramentisþjónustan. Þetta skýrir hvers vegna biskupar m. a. á Íslandi gáfu út postillur eða predikunarsöfn í tengslum við starf sitt. Lúther segir á einum stað að ef biskup eigi í erfiðleikum með að predika beri honum skylda til að útvega sér lærða menn til að létta af sér þeirri byrði.[25]

Innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar voru tengslin milli veraldlegs og andlegs valds áfram mikil í biskupsembættunum. Biskupinn ríkti innan umdæmis síns sem „fursti“ eða „einræðisbiskup‟ eins og siðbótarmenn áttu til að orða það. Þessa valdakröfu gátu evangelískir ekki sætt sig við og hvað þá að hún væri réttlætt með tilbúinni guðlegri tilskipan eins og t. d. í kenningunni um óslitna postularöð sem virti lítt sem ekkert aðgreininguna á milli andlegs og veraldlegs valds.[26]

6. Lokaorð

Þar sem ekki náðist samstaða um endurskoðun biskupsembættisins, þróaðist það á ólíkan máta innan kirkjudeildanna.

Í rómversk-kaþólskri kirkju er t. d. kennt að forsenda þess að hægt sé að tala um kirkju sé að þar sé biskup til staðar eða eins og það er orðað þar sem er biskup er kirkjan. Mótmælendur gátu ekki fallist á þetta og sögðu að þó svo að biskupinn sé vissulega hluti af kirkjunni þá geti hann ekki talist hún.[27] Í kjölfar siðbótarinnar leiddi aukin miðstýring innan rómversk-kaþólsku-kirkjunnar jafnt og þétt til þess að kenningin um óskeikulleika páfans var gerð að trúarsetningu. Þar hafa biskupar samt haldið nokkru af sjálfstæði sínu, þó svo að reynt hafi verið að koma embættum þeirra beint undir áhrifavald páfa.

Í löndum mótmælenda var veraldlegu valdi biskupa víðast hvar komið fyrir innan stjórnkerfis stjórnvalda og var boðunin og rétt veiting sakramenta þungamiðjan í starfi þeirra. Fyrir vikið var biskupsembættið lagt að jöfnu við embætti tilsjónarmanns. Hann var leystur undan „veraldlegum“ skyldum til að geta sinnt andlegri stjórnun kirkjunnar. Þó er spurning hvort slíkt hafi nokkurn tímann verið tilfellið á Íslandi þar sem biskupsembættið var þar lengi vel nokkuð valdamikið á veraldlega vísu eftir siðbreytinguna.

Að mati Heckels er biskupsembættið enn í þróun og sé það hlutverk guðfræðinga að leiða hana en ekki lögfræðinga.

Tilvísanir

[1] Gerhard Tröger, „Bischof III. Das evangelische Bischofsamt“, TRE 6, 690–694. Gerhard Tröger, „Bischof IV. Das synodale Bischofsamt“, TRE 6, 694–697. Þessum greinum fylgja ítarlegar heimildaskrár.

[2] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, Mohr Siebeck, Tübingen 2016, 282–337.

[3] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 217–405.

[4] „Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt þjónusta.“ Í þýska textanum (BSLK, 61) segir að kirkjan „sé söfnuður allra trúaðra, þar sem fagnaðarerindið er boðað hreint og heilögum sakramentum útdeilt samkvæmt fagnaðarerindinu“. Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 2. útg., Skálholt 1991, 183, 188–189.

[5] Sbr., 5. og 7. greinar Ágsborgarjátningarinnar.

[6] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 287–288. Arnulf von Scheliha, „Kirche und Stadt“, Handbuch – Praktische Theologie, ritstjórar Wilhelm Gräb og Birgit Weyel, Gütersloher Verlagshaus, Gütersloh 2007, 105 [101–112].

[7] Sbr. 28. grein Ágsborgarjátningarinnar.

[8] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“, Kirkjublaðið 4. september 2023.

[9] Gerhard Tröger, „Bischof III. Das evangelische Bischofsamt“, 690.

[10] 28. gr. Ágsborgarjátningarinnar. Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 244, [244–250].

[11] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 183. Þessi áhersla er ítrekuð í 7. Greininni: „Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt þjónusta.“ Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 188.

[12] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 244.

[13] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 188.

[14] Sbr., 14. og 28. grein Ágsborgarjátningarinnar.

[15] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 282–288, 377–398.

[16] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 206. Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 303.

[17] 28. grein Ágsborgarjátningarinnar. Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 244.

[18] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 341–343. Gerhard Tröger, „Bischof III. Das evangelische Bischofsamt“, 690.

[19] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 356–366.

[20] Peter Landau, „Kirchenverfassungen“ TRE 19,148–149 [110–165].

[21] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 361, 651–652. Þannig séð er forseti Íslands æðsti embættismaður þjóðkirkjunnar.

[22] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 334–335.

[23] Marteinn Luther WA 10, III, 24. Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 310.

[24] Það varpar ljósi á það vegna hvers biskup Íslands er bundinn Dómkirkjunni.

[25] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 314.

[26] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, 322.

[27]Sjá m.a. „Demokratiedefizit wurzelt tief in der katholischen Kirche“: https://www.zeit.de/gesellschaft/zeitgeschehen/2013-04/demokratiedefizit-papst-franziskus-vatikan/seite-2.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir