Um húsnæðismál Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar

 

 

Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og skrifar snarpa grein um kirkjumálin. Dr. Skúli hefur m.a. setið í framkvæmdanefnd kirkjuþings og á kirkjuþingi.

 

Í umræðum á kirkjuþingi sem sett var 22. október 2022, kom fram hörð gagnrýni á ráðstöfun húsnæðismála Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar. Framkvæmdanefnd fór þá leið að finna starfsfólki Biskupsstofu aðsetur í Grensáskirkju og starfsfólki Rekstrarstofu í öðru húsnæði að Suðurlandsbraut. Kirkjuþingfulltrúar héldu því fram að þar hefðu verið gerð mistök sem muni leiða til enn minni samskipta á milli þessara tveggja meginsviða Þjónustumiðstöðvarinnar.

Framkvæmdastjóri Rekstrarstofu, Birgir Gunnarsson og fulltrúar framkvæmdanefndar færðu þau rök fyrir þessu vali að Agnes M. Sigurðardóttir biskup hefði neitað að skoða aðra kosti en þann að fara með starfsemina í Grensáskirkju. Það húsnæði rúmar ekki nema hluta starfsfólks Þjónustumiðstöðvarinnar og því var þessi leið farin. Biskup hafnaði ábyrgð í þessu máli og talaði um „kjaftasögur“, „róg“, „baktal“ og „rangar upplýsingar“.

Höfundur sat í framkvæmdanefnd meðan á þessu ferli stóð og tók virkan þátt í þeirri vinnu sem hér verður lýst. Í ljósi þessara alvarlegu ásakana biskups þykir rétt að birta greinargerð þar sem fjallað er um aðdraganda þessara ákvarðana og þær forsendur sem unnið var eftir.

Framkvæmdanefnd

 Framkvæmdanefnd kirkjuþings tók til starfa 1. janúar 2022. Meðal verkefna nefndarinnar var að hagræða í húsnæðismálum Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar. Hóf hún þegar að leita leiða til að draga úr kostnaði við leiguhúsnæðið að Katrínartúni 4. Með framkvæmdanefndinni starfaði Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri rekstrarstofu en áður hafði Guðmundur Þór Guðmundsson lögfræðingur kirkjuþings komið að verkinu.

Meðan á leit að húsnæði stóð voru biskup Íslands og forseti kirkjuþings upplýst um gang mála og var þeim og fulltrúum þeirra boðið að taka þátt í skoðun húsnæðis.

Katrínartún 4, 3. hæð

Eftir sölu á Laugavegi 31, árið 2019, undirritaði Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands leigusamning við fasteignafélagið Íþöku um að leigja 1.314 m2 húsnæði að Katrínartúni 4,  3. hæð, auk geymslu. Samningurinn er til sjö ára og því bundinn til ársins 2026. Eftir það má segja honum upp með árs fyrirvara svo Þjóðkirkjan mun ekki losna undan leigunni fyrr en árið 2027. Heimilt er að framleigja húsnæðið, að hluta eða í heild.

Upphæðin er vísitölutryggð og árlegur leigukostnaður Þjóðkirkjunnar er kr. 67 milljónir. Við það bætast 7,2 milljónir í hússjóð. Þá er kostnaður við þrif og annan rekstur á þessu húsnæði kr. 5,5. milljónir. Samtals gera þetta tæplega kr. 80 milljónir á ári.

Katrínartún var hugsað sem tímabundið úrræði meðan hugað væri að framtíðarhúsnæði fyrir starfsemina.

Kirkjuþingfulltrúar gagnrýndu þessa ráðstöfun á sínum tíma. Í umræðum var fundið að því hversu hár kostnaðurinn væri en einnig lýsti fólk áhyggjum af ímynd Þjóðkirkjunnar sem hafði komið sér fyrir í helsta fjármálahverfi borgarinnar. Loks bentu margir á að aðgengi sé takmarkað að þessari hæð auk þess sem Kirkjuhúsið er svo gott sem ósýnilegt á jarðhæðinni.

Leigusamningurinn var gerður án vitundar og samþykkis kirkjuþings en ekki þurfti samþykki þess samkvæmt því skipulagi sem var við lýði á þeim tíma. Með nýjum Þjóðkirkjulögum frá 2021 hefur kirkjuþing fjárstjórnarvald í málefnum Þjóðkirkjunnar. Ákvarðanir sem fela í sér fjárhagslega skuldbindingu þarf því að bera undir þingið.

Tvíþætt verkefni

Verkefni framkvæmdanefndar við endurskoðun á húsnæðismálum Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar var því tvíþætt. Annars vegar þurfti að finna aðila til að taka yfir leigusamninginn út samningstímabilið. Hins vegar þurfti að finna annað og hentugra húsnæði.

Rekstur Þjóðkirkjunnar hefur verið með tapi undanfarin ár. Verst var staðan árið 2020 þegar bókfærður halli á rekstri Þjóðkirkjunnar var kr. 685.733.568. Stafaði það einkum af sölu á Laugavegi 31 en söluandvirðið var langt undir fasteignamati. Óhætt er að segja að ákvarðanataka í tengslum við húsnæði yfirstjórnar Þjóðkirkjunnar skipti máli þegar kemur að rekstri hennar. Til að mæta þessum halla þarf að ganga á eignasafn Þjóðkirkjunnar og eigið fé. Slíkt veikir vitaskuld stöðu hennar og skapar margvíslega óvissu.

Í ljósi þessarar stöðu þótti rétt að finna Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar tímabundið húsnæði þar til jafnvægi væri komið á reksturinn og var þá horft til næstu 2-5 ára. Á þeim tíma gefist einnig tóm til að meta hlutverk Þjónustumiðstöðvarinnar og ákvarða starfsmannafjölda með hliðsjón af stefnumótun og fyrirliggjandi verkefnum. Í því sambandi verði kannað hvort hagstæðara sé að kaupa eigi húsnæði til framtíðar eða vera áfram á leigumarkaði.

Framkvæmdanefnd hafði eftirfarandi viðmið í leit sinni að nýju húsnæði:

  • Fundið verði tímabundið húsnæði, sbr. ofangreint.
  • Fermetrafjöldi byggi á opinberum viðmiðunum þar sem gert er ráð fyrir 18-20 m2 fyrir hvern starfsmann.
  • Aðgengi fyrir fatlaða samræmist opinberum stöðlum.
  • Leitað verði að húsnæði sem er miðsvæðis í Reykjavík.

Framleiga á þriðju hæð í Katrínartúni

 Vinna hófst upp úr áramótum við að finna aðila sem gæti framleigt húsnæðið í Katrínartúni af Þjóðkirkjunni og fékk framkvæmdanefndin sér til aðstoðar Óliver Pálmason fasteignasala. Mikið framboð er á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og fjarri því sjálfgefið að unnt sé að finna leigjendur að svo dýrri einingu sem þessari.

Á haustmánuðum tókst að ganga frá framleigusamningum við Framkvæmdasýslu Ríkisins sem tekur við húsnæðinu 15. nóvember 2022. Samningurinn leysir Þjóðkirkjuna undan þessum háa kostnaði. Verður að líta svo á að stigið hafi verið stórt skref til hagræðingar í rekstri Þjóðkirkjunnar án þess að það feli í sér uppsagnir og/eða skerðingu á þjónustu Þjóðkirkjunnar á landsvísu.

Nýtt húsnæði fyrir Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar

Ýmsir kostir voru skoðaðir þegar leitað var að hagkvæmari og hentugri stað fyrir Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar og voru bæði safnaðarheimili og skrifstofuhúsnæði í Reykjavík skoðuð.

Safnaðarheimili Dómkirkjunnar í hjarta borgarinnar, hentar starfseminni vel. Dómkirkjan er vitaskuld kirkja biskups Íslands og ætti að vera fyrsti kostur í slíkri leit. Húsnæðið er rúmgott, ekki þarf að ráðast í verulegar endurbætur og vilji er meðal dómkirkjupresta og sóknarnefndarfólks að hefja viðræður við Þjóðkirkjuna um leigu. Starfsfólk Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar setti sig á móti þeirri ákvörðun, einkum vegna skorts á bílastæðum og var því ekki farið út í þær viðræður að sinni.

Könnuð var aðstaða í safnaðarheimili Grensáskirkju. Grensáskirkja er miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, aðgengi með almenningssamgöngum er gott, bílastæði eru við húsið og mögulegt er að stækka bílaplanið. Þjóðkirkjan á hluta af neðri hæð húsnæðisins. Safnaðarheimilið er byggt í tvennu lagi. Eldri hlutinn er frá árinu 1972 og sá yngri var tekinn í notkun árið 1996. Yngri hluti húsnæðisins er í góðu ásigkomulagi en eldri hlutinn þarfnast viðgerða sem eigendur húsnæðisins geta ekki staðið undir. Verkfræðistofan Verkís áætlar að kostnaður við viðgerðir nemi rúmum 50 milljónum en sú áætlun er ekki tæmandi. Þjóðkirkjunni stendur til boða að kaupa safnaðarheimilið ef áhugi er á. Lauslega áætlað mun það kosta um 200 milljónir auk viðgerðarkostnaðar. Það húsnæði sem er nothæft er aðeins 258 m2 að stærð og rúmar því ekki nema helming starfsfólks Þjónustumiðstöðvarinnar.

Fimmta hæð í Katrínartúni 4 var skoðuð en hún er 450 m2. Að mati starfsfólks Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar er hún ekki nógu rúmgóð fyrir starfsemina.

Skrifstofuhúsnæði að Hafnartorgi sem og húsnæðið sem Happdrætti Háskóla Íslands hafði við Tjarnargötu voru skoðuð, en þau þóttu að sama skapi óhentug.

Þá stóð Þjóðkirkjunni til boða að leigja 750 m2 skrifstofurými að Borgartúni 29, fyrir kr. 25 milljónir á ári. Húsnæði þetta hefur marga kosti. Það er rúmgott og sveigjanlegt, á einni hæð og þar hefði Kirkjuhúsið mögulega getað verið með aðstöðu, auk þess sem þar hefði kirkjuþing getað komið saman. Framkvæmdanefndin var einhuga um að þetta húsnæði uppfyllti þau viðmið sem nefndin setti.

Biskupi var boðið að skoða húsnæðið en hafnaði því á þeim forsendum að biskupsstofa væri á leið í Grensáskirkju. Þetta var áréttað í tölvupóstum. Einnig birtist grein í Morgunblaðinu 2. júlí sl. þar sem sömu sjónarmið voru viðruð.

Niðurstaða til bráðabirgða

Þegar samningar við Framkvæmdasýslu Ríkisins náðust, var ljóst að biskup hafnaði öðrum kostum en að fara í Grensáskirkju en húsnæðið í núverandi ástandi er vitaskuld of lítið.

Því er eina lausnin í stöðunni að skipta starfseminni í tvennt tímabundið meðan áfram er hugað að framtíðarhúsnæði Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar. Starfsemi biskupsstofu mun fara fram í safnaðarheimili Grensáskirkju en starfsemi rekstrarstofu í skrifstofuhúsnæði að Suðurlandsbraut 32.

Framkvæmdastjóri gerði leigusamning við sóknarnefnd Grensáskirkju um leigu á yngri hluta safnaðarheimilis kirkjunnar. Árlegur leigukostnaður nemur kr. 10 milljónum. Jafnframt var gerður leigusamningur við Eik fasteignafélag um leigu á húsnæði að Suðurlandsbraut 32. Árlegur leigukostnaður þar nemur kr. 7 milljónum. Báðir samningarnir eru uppsegjanlegir með sex mánaða fyrirvara og engar eða lágmarks endurbætur þarf til að unnt sé að flytja skrifstofur þangað.

Með þessum breytingum er sparnaður Þjóðkirkjunnar á bilinu 50–60 milljónir á ári.

Framhald húsnæðismála Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar

Það væru mistök að ráðast í kaup á safnaðarheimili Grensáskirkju. Eftirfarandi rök liggja til grundvallar þeirri afstöðu:

  • Sem fyrr getur er kostnaðaráætlun Verkís vanáætluð. Fyrir liggur að endurnýja þarf bæði salerni og eldhús og skipta þarf um öll tæki. Mygla hefur fundist í gólfi í eldhúsi svo viðgerðum mun fylgja talsverð múrvinna. Skipta þarf um glugga og raflagnir. Loft safnaðarsalar er þannig að erfitt er að koma fyrir kerfislofti þannig að lagnir þurfa væntanlega allar að vera með veggjum. Óvíst er um hljóðvist þar sem einn veggur er mestmegnis gler. Gólfefni þarf að endurnýja og þá er óvíst hvað kemur til með að koma í ljós þegar farið verður að rífa niður innréttingar áður en hafist verður handa við endurnýjun.
  • Óráðlegt er að huga að kaupum á húsnæði sem þyrfti að fjármagna með lánum. Ekki er hægt að taka veð í kirkjum og safnaðarheimilum og því þyrfti að setja aðrar eignir Þjóðkirkjunnar að veði.
  • Með slíkum kaupum myndu tæplega 700 m2 bætast við fasteignasafn Þjóðkirkjunnar með tilheyrandi rekstrarkostnaði. Nú þegar rennur meira en fimmtungur af árlegum útgjöldum í rekstur fasteigna.
  • Full þörf er á því að stórefla reglulegt viðhald á prestssetrum og öðrum eignum Þjóðkirkjunnar sem eru víða í niðurníðslu sökum vanrækslu. Sú fjárfesting sem hér um ræðir myndi tefja þá vinnu.
  • Ólíkt ýmsum eignum Þjóðkirkjunnar s.s. prestssetrum og jörðum er nánast útilokað að Þjóðkirkjan geti selt þetta húsnæði ef ákveðið verður síðar að leita annarra leiða.
  • Brýnt er að ná jafnvægi í fjármálum Þjóðkirkjunnar en ofangreindur kostnaður myndi leggjast ofan á hallarekstur hennar.

Kirkjuþing samþykkti að mynda vinnuhóp sem falið verður að leggja fram tillögur að framtíðarhúsnæði Þjónustumiðstöðvar þjóðkirkjunnar. Óskandi er að hópur þessi sýni aðgát í þeirri vinnu.

Lokaorð

Tekist hefur að leysa Þjóðkirkjuna undan óhagstæðum leigusamningi á Katrínartúni 4. Því ber að fagna. Sú gagnrýni sem sett hefur verið fram á það fyrirkomulag að skipta starfseminni upp á milli tveggja staða á að sama skapi fullan rétt á sér. Aldrei kom annað til greina af hálfu framkvæmdanefndar en að Þjónustumiðstöðin yrði sameinuð á einum stað.

Það var eingöngu fyrir þau eindregnu tilmæli biskups að Grensáskirkja væri eini valkosturinn, sem sú leið var farin. Ásakanir biskups um rógburð og sögusagnir í þessu sambandi standast enga skoðun og er ekki annað fært en að svara þeim.

Það húsnæði sem tekið hefur verið á leigu tímabundið gefur vinnuhópi svigrúm til að skoða vandlega þá kosti sem taldir eru ákjósanlegir. Þegar Katrínartún 4 var leigt á sínum tíma var það gert  með einhliða ákvörðun biskups. Að þessu sinni verða tillögur bornar undir kirkjuþing. Því er ástæða til að binda vonir við að skynsamlegri niðurstöðu verði náð.

 

Flutt frá Laugavegi 31 árið 2019

Katrínartún 4 – móttaka

Katrínartún 4 – fjármálasvið

Katrínartún 4 – fræðslu- og kærleiksþjónustusvið

Katrínartún 4 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Um húsnæðismál Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar

 

 

Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og skrifar snarpa grein um kirkjumálin. Dr. Skúli hefur m.a. setið í framkvæmdanefnd kirkjuþings og á kirkjuþingi.

 

Í umræðum á kirkjuþingi sem sett var 22. október 2022, kom fram hörð gagnrýni á ráðstöfun húsnæðismála Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar. Framkvæmdanefnd fór þá leið að finna starfsfólki Biskupsstofu aðsetur í Grensáskirkju og starfsfólki Rekstrarstofu í öðru húsnæði að Suðurlandsbraut. Kirkjuþingfulltrúar héldu því fram að þar hefðu verið gerð mistök sem muni leiða til enn minni samskipta á milli þessara tveggja meginsviða Þjónustumiðstöðvarinnar.

Framkvæmdastjóri Rekstrarstofu, Birgir Gunnarsson og fulltrúar framkvæmdanefndar færðu þau rök fyrir þessu vali að Agnes M. Sigurðardóttir biskup hefði neitað að skoða aðra kosti en þann að fara með starfsemina í Grensáskirkju. Það húsnæði rúmar ekki nema hluta starfsfólks Þjónustumiðstöðvarinnar og því var þessi leið farin. Biskup hafnaði ábyrgð í þessu máli og talaði um „kjaftasögur“, „róg“, „baktal“ og „rangar upplýsingar“.

Höfundur sat í framkvæmdanefnd meðan á þessu ferli stóð og tók virkan þátt í þeirri vinnu sem hér verður lýst. Í ljósi þessara alvarlegu ásakana biskups þykir rétt að birta greinargerð þar sem fjallað er um aðdraganda þessara ákvarðana og þær forsendur sem unnið var eftir.

Framkvæmdanefnd

 Framkvæmdanefnd kirkjuþings tók til starfa 1. janúar 2022. Meðal verkefna nefndarinnar var að hagræða í húsnæðismálum Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar. Hóf hún þegar að leita leiða til að draga úr kostnaði við leiguhúsnæðið að Katrínartúni 4. Með framkvæmdanefndinni starfaði Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri rekstrarstofu en áður hafði Guðmundur Þór Guðmundsson lögfræðingur kirkjuþings komið að verkinu.

Meðan á leit að húsnæði stóð voru biskup Íslands og forseti kirkjuþings upplýst um gang mála og var þeim og fulltrúum þeirra boðið að taka þátt í skoðun húsnæðis.

Katrínartún 4, 3. hæð

Eftir sölu á Laugavegi 31, árið 2019, undirritaði Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands leigusamning við fasteignafélagið Íþöku um að leigja 1.314 m2 húsnæði að Katrínartúni 4,  3. hæð, auk geymslu. Samningurinn er til sjö ára og því bundinn til ársins 2026. Eftir það má segja honum upp með árs fyrirvara svo Þjóðkirkjan mun ekki losna undan leigunni fyrr en árið 2027. Heimilt er að framleigja húsnæðið, að hluta eða í heild.

Upphæðin er vísitölutryggð og árlegur leigukostnaður Þjóðkirkjunnar er kr. 67 milljónir. Við það bætast 7,2 milljónir í hússjóð. Þá er kostnaður við þrif og annan rekstur á þessu húsnæði kr. 5,5. milljónir. Samtals gera þetta tæplega kr. 80 milljónir á ári.

Katrínartún var hugsað sem tímabundið úrræði meðan hugað væri að framtíðarhúsnæði fyrir starfsemina.

Kirkjuþingfulltrúar gagnrýndu þessa ráðstöfun á sínum tíma. Í umræðum var fundið að því hversu hár kostnaðurinn væri en einnig lýsti fólk áhyggjum af ímynd Þjóðkirkjunnar sem hafði komið sér fyrir í helsta fjármálahverfi borgarinnar. Loks bentu margir á að aðgengi sé takmarkað að þessari hæð auk þess sem Kirkjuhúsið er svo gott sem ósýnilegt á jarðhæðinni.

Leigusamningurinn var gerður án vitundar og samþykkis kirkjuþings en ekki þurfti samþykki þess samkvæmt því skipulagi sem var við lýði á þeim tíma. Með nýjum Þjóðkirkjulögum frá 2021 hefur kirkjuþing fjárstjórnarvald í málefnum Þjóðkirkjunnar. Ákvarðanir sem fela í sér fjárhagslega skuldbindingu þarf því að bera undir þingið.

Tvíþætt verkefni

Verkefni framkvæmdanefndar við endurskoðun á húsnæðismálum Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar var því tvíþætt. Annars vegar þurfti að finna aðila til að taka yfir leigusamninginn út samningstímabilið. Hins vegar þurfti að finna annað og hentugra húsnæði.

Rekstur Þjóðkirkjunnar hefur verið með tapi undanfarin ár. Verst var staðan árið 2020 þegar bókfærður halli á rekstri Þjóðkirkjunnar var kr. 685.733.568. Stafaði það einkum af sölu á Laugavegi 31 en söluandvirðið var langt undir fasteignamati. Óhætt er að segja að ákvarðanataka í tengslum við húsnæði yfirstjórnar Þjóðkirkjunnar skipti máli þegar kemur að rekstri hennar. Til að mæta þessum halla þarf að ganga á eignasafn Þjóðkirkjunnar og eigið fé. Slíkt veikir vitaskuld stöðu hennar og skapar margvíslega óvissu.

Í ljósi þessarar stöðu þótti rétt að finna Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar tímabundið húsnæði þar til jafnvægi væri komið á reksturinn og var þá horft til næstu 2-5 ára. Á þeim tíma gefist einnig tóm til að meta hlutverk Þjónustumiðstöðvarinnar og ákvarða starfsmannafjölda með hliðsjón af stefnumótun og fyrirliggjandi verkefnum. Í því sambandi verði kannað hvort hagstæðara sé að kaupa eigi húsnæði til framtíðar eða vera áfram á leigumarkaði.

Framkvæmdanefnd hafði eftirfarandi viðmið í leit sinni að nýju húsnæði:

  • Fundið verði tímabundið húsnæði, sbr. ofangreint.
  • Fermetrafjöldi byggi á opinberum viðmiðunum þar sem gert er ráð fyrir 18-20 m2 fyrir hvern starfsmann.
  • Aðgengi fyrir fatlaða samræmist opinberum stöðlum.
  • Leitað verði að húsnæði sem er miðsvæðis í Reykjavík.

Framleiga á þriðju hæð í Katrínartúni

 Vinna hófst upp úr áramótum við að finna aðila sem gæti framleigt húsnæðið í Katrínartúni af Þjóðkirkjunni og fékk framkvæmdanefndin sér til aðstoðar Óliver Pálmason fasteignasala. Mikið framboð er á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og fjarri því sjálfgefið að unnt sé að finna leigjendur að svo dýrri einingu sem þessari.

Á haustmánuðum tókst að ganga frá framleigusamningum við Framkvæmdasýslu Ríkisins sem tekur við húsnæðinu 15. nóvember 2022. Samningurinn leysir Þjóðkirkjuna undan þessum háa kostnaði. Verður að líta svo á að stigið hafi verið stórt skref til hagræðingar í rekstri Þjóðkirkjunnar án þess að það feli í sér uppsagnir og/eða skerðingu á þjónustu Þjóðkirkjunnar á landsvísu.

Nýtt húsnæði fyrir Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar

Ýmsir kostir voru skoðaðir þegar leitað var að hagkvæmari og hentugri stað fyrir Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar og voru bæði safnaðarheimili og skrifstofuhúsnæði í Reykjavík skoðuð.

Safnaðarheimili Dómkirkjunnar í hjarta borgarinnar, hentar starfseminni vel. Dómkirkjan er vitaskuld kirkja biskups Íslands og ætti að vera fyrsti kostur í slíkri leit. Húsnæðið er rúmgott, ekki þarf að ráðast í verulegar endurbætur og vilji er meðal dómkirkjupresta og sóknarnefndarfólks að hefja viðræður við Þjóðkirkjuna um leigu. Starfsfólk Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar setti sig á móti þeirri ákvörðun, einkum vegna skorts á bílastæðum og var því ekki farið út í þær viðræður að sinni.

Könnuð var aðstaða í safnaðarheimili Grensáskirkju. Grensáskirkja er miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, aðgengi með almenningssamgöngum er gott, bílastæði eru við húsið og mögulegt er að stækka bílaplanið. Þjóðkirkjan á hluta af neðri hæð húsnæðisins. Safnaðarheimilið er byggt í tvennu lagi. Eldri hlutinn er frá árinu 1972 og sá yngri var tekinn í notkun árið 1996. Yngri hluti húsnæðisins er í góðu ásigkomulagi en eldri hlutinn þarfnast viðgerða sem eigendur húsnæðisins geta ekki staðið undir. Verkfræðistofan Verkís áætlar að kostnaður við viðgerðir nemi rúmum 50 milljónum en sú áætlun er ekki tæmandi. Þjóðkirkjunni stendur til boða að kaupa safnaðarheimilið ef áhugi er á. Lauslega áætlað mun það kosta um 200 milljónir auk viðgerðarkostnaðar. Það húsnæði sem er nothæft er aðeins 258 m2 að stærð og rúmar því ekki nema helming starfsfólks Þjónustumiðstöðvarinnar.

Fimmta hæð í Katrínartúni 4 var skoðuð en hún er 450 m2. Að mati starfsfólks Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar er hún ekki nógu rúmgóð fyrir starfsemina.

Skrifstofuhúsnæði að Hafnartorgi sem og húsnæðið sem Happdrætti Háskóla Íslands hafði við Tjarnargötu voru skoðuð, en þau þóttu að sama skapi óhentug.

Þá stóð Þjóðkirkjunni til boða að leigja 750 m2 skrifstofurými að Borgartúni 29, fyrir kr. 25 milljónir á ári. Húsnæði þetta hefur marga kosti. Það er rúmgott og sveigjanlegt, á einni hæð og þar hefði Kirkjuhúsið mögulega getað verið með aðstöðu, auk þess sem þar hefði kirkjuþing getað komið saman. Framkvæmdanefndin var einhuga um að þetta húsnæði uppfyllti þau viðmið sem nefndin setti.

Biskupi var boðið að skoða húsnæðið en hafnaði því á þeim forsendum að biskupsstofa væri á leið í Grensáskirkju. Þetta var áréttað í tölvupóstum. Einnig birtist grein í Morgunblaðinu 2. júlí sl. þar sem sömu sjónarmið voru viðruð.

Niðurstaða til bráðabirgða

Þegar samningar við Framkvæmdasýslu Ríkisins náðust, var ljóst að biskup hafnaði öðrum kostum en að fara í Grensáskirkju en húsnæðið í núverandi ástandi er vitaskuld of lítið.

Því er eina lausnin í stöðunni að skipta starfseminni í tvennt tímabundið meðan áfram er hugað að framtíðarhúsnæði Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar. Starfsemi biskupsstofu mun fara fram í safnaðarheimili Grensáskirkju en starfsemi rekstrarstofu í skrifstofuhúsnæði að Suðurlandsbraut 32.

Framkvæmdastjóri gerði leigusamning við sóknarnefnd Grensáskirkju um leigu á yngri hluta safnaðarheimilis kirkjunnar. Árlegur leigukostnaður nemur kr. 10 milljónum. Jafnframt var gerður leigusamningur við Eik fasteignafélag um leigu á húsnæði að Suðurlandsbraut 32. Árlegur leigukostnaður þar nemur kr. 7 milljónum. Báðir samningarnir eru uppsegjanlegir með sex mánaða fyrirvara og engar eða lágmarks endurbætur þarf til að unnt sé að flytja skrifstofur þangað.

Með þessum breytingum er sparnaður Þjóðkirkjunnar á bilinu 50–60 milljónir á ári.

Framhald húsnæðismála Þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar

Það væru mistök að ráðast í kaup á safnaðarheimili Grensáskirkju. Eftirfarandi rök liggja til grundvallar þeirri afstöðu:

  • Sem fyrr getur er kostnaðaráætlun Verkís vanáætluð. Fyrir liggur að endurnýja þarf bæði salerni og eldhús og skipta þarf um öll tæki. Mygla hefur fundist í gólfi í eldhúsi svo viðgerðum mun fylgja talsverð múrvinna. Skipta þarf um glugga og raflagnir. Loft safnaðarsalar er þannig að erfitt er að koma fyrir kerfislofti þannig að lagnir þurfa væntanlega allar að vera með veggjum. Óvíst er um hljóðvist þar sem einn veggur er mestmegnis gler. Gólfefni þarf að endurnýja og þá er óvíst hvað kemur til með að koma í ljós þegar farið verður að rífa niður innréttingar áður en hafist verður handa við endurnýjun.
  • Óráðlegt er að huga að kaupum á húsnæði sem þyrfti að fjármagna með lánum. Ekki er hægt að taka veð í kirkjum og safnaðarheimilum og því þyrfti að setja aðrar eignir Þjóðkirkjunnar að veði.
  • Með slíkum kaupum myndu tæplega 700 m2 bætast við fasteignasafn Þjóðkirkjunnar með tilheyrandi rekstrarkostnaði. Nú þegar rennur meira en fimmtungur af árlegum útgjöldum í rekstur fasteigna.
  • Full þörf er á því að stórefla reglulegt viðhald á prestssetrum og öðrum eignum Þjóðkirkjunnar sem eru víða í niðurníðslu sökum vanrækslu. Sú fjárfesting sem hér um ræðir myndi tefja þá vinnu.
  • Ólíkt ýmsum eignum Þjóðkirkjunnar s.s. prestssetrum og jörðum er nánast útilokað að Þjóðkirkjan geti selt þetta húsnæði ef ákveðið verður síðar að leita annarra leiða.
  • Brýnt er að ná jafnvægi í fjármálum Þjóðkirkjunnar en ofangreindur kostnaður myndi leggjast ofan á hallarekstur hennar.

Kirkjuþing samþykkti að mynda vinnuhóp sem falið verður að leggja fram tillögur að framtíðarhúsnæði Þjónustumiðstöðvar þjóðkirkjunnar. Óskandi er að hópur þessi sýni aðgát í þeirri vinnu.

Lokaorð

Tekist hefur að leysa Þjóðkirkjuna undan óhagstæðum leigusamningi á Katrínartúni 4. Því ber að fagna. Sú gagnrýni sem sett hefur verið fram á það fyrirkomulag að skipta starfseminni upp á milli tveggja staða á að sama skapi fullan rétt á sér. Aldrei kom annað til greina af hálfu framkvæmdanefndar en að Þjónustumiðstöðin yrði sameinuð á einum stað.

Það var eingöngu fyrir þau eindregnu tilmæli biskups að Grensáskirkja væri eini valkosturinn, sem sú leið var farin. Ásakanir biskups um rógburð og sögusagnir í þessu sambandi standast enga skoðun og er ekki annað fært en að svara þeim.

Það húsnæði sem tekið hefur verið á leigu tímabundið gefur vinnuhópi svigrúm til að skoða vandlega þá kosti sem taldir eru ákjósanlegir. Þegar Katrínartún 4 var leigt á sínum tíma var það gert  með einhliða ákvörðun biskups. Að þessu sinni verða tillögur bornar undir kirkjuþing. Því er ástæða til að binda vonir við að skynsamlegri niðurstöðu verði náð.

 

Flutt frá Laugavegi 31 árið 2019

Katrínartún 4 – móttaka

Katrínartún 4 – fjármálasvið

Katrínartún 4 – fræðslu- og kærleiksþjónustusvið

Katrínartún 4 

Viltu deila þessari grein með fleirum?