Fjarri fer því að íslenska þjóðkirkjan hafi siglt lygnan sjó undanfarið. Þó hefur sú ólga verið lítilfjörleg miðað við raunir ýmissa nágrannakirkna okkar, evangelískar og kaþólskar. Viðbrögð „kirkjunnar manna“ við slíkum áföllum geta verið með ýmsu móti. Í það minnsta tvenns konar viðbrögð koma flestum í hug við slíkar aðstæður. Ein væru að leita logandi ljósi að sökudólgum hingað og þangað í samfélaginu, meðal fjölmiðlamanna, stjórnmálamanna, vantrúarmanna og annarra sem eru til alls líklegir.

Kirkjusagan þekkir mörg stríð þar sem kirkjan hefur varist til að halda velli en átti kannski litla sök eða enga nema helst þá að gera sér far um að boða fagnaðarerindið. Þá hlaut hún oft svipuð örlög og Jesús sjálfur: hún laut í gras fyrir ofureflinu án þess að hafa neitt til þess unnið að verðskulda slík örlög annað en „að boða fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum“ eins og hlutverk kirkjunnar er orðað af siðbótarmönnum, leikum og lærðum, í 5. grein Ágsborgarjátningarinnar frá 1530.

Önnur viðbrögð væru að líta í eigin barm. Það er ekki fráleitt að þjóðkirkjan skoði sjálfa sig og vegi og meti hvar hún er sjálf á vegi stödd og hvort hún verðskuldi þann mikla trúnað sem henni hefur löngum verið sýndur.

Skoðanakannanir segja að mínum dómi ekki allt um stöðu kirkjunnar. Erlendis er gjarnan gerður skýr greinarmunur á viðhorfi fólks til sóknarstarfsins annars vegar og til kirkjustofnunarinnar hins vegar, þegar svo er gert kemur kirkjan í nágrenninu, presturinn sem fólkið þekkir eða kannast við, mun betur út en kirkjustofnunin sem er fjarlæg og óáþreifanleg trúarstofnun sem hefur misgott orð á sér í langri sögu sinni. Hér á landi virðist yfirleitt aðeins spurt um viðhorf fólks til „þjóðkirkjunnar“, við hvað er átt? Þar að auki eru Íslendingar ekki kirkjurækið fólk þótt það nýti sér þjónustu prestanna flestum þjóðum meir. Það tekur því afstöðu í verki með því að leita þjónustu þeirrar stofnunar sem það virðist ekki styðja heilshugar í skoðanakönnunum. Fyrir utan þetta er það áreiðanlega ekki kirkjan sem skiptir manninn meginmáli heldur trúin . Af hennar rótum hefur sprottið lúthersk, kristin trúarmenning hér á landi sem er aðeins laustengd kirkjuhúsi og kirkjustofnun. Þetta sakar ekki að hafa í huga.

Horft í eigin barm

Að horfa í eigin barm er erindi þessarar greinar. Þar er íslenska þjóðkirkjan ekki ein á báti, nær væri að segja að sjálfsskoðun væri eitt meginviðfangsefni margra nágrannakirkna okkar um þessar mundir. Umdeild bók um þetta efni kom út í Þýskalandi ekki alls fyrir löngu. Það er bókin Kirkjan í rökkri eftir dr. Friedrich Wilhelm Graf, prófessor í samstæðri guðfræði við háskólann í München. Undirtitillinn segir sína sögu: „Hvernig kirkjurnar grafa undan trausti okkar.“ [ Kirchendämmerung. Wie die Kirchen unser Vertraun verspielen , Verlag C.H. Beck, München 2011].

Það er ekki stíll Grafs, sem er þekktur greinahöfundur í víðlesnum dagblöðum í Þýskalandi, að vera lengi að koma sér að efninu og tæpitunga er honum ekki töm. Hér fjallar málið um sjö ódyggðir kirkjunnar. Þær eru vandi hennar hér og nú og hann er ekki fólginn í fjármunum, skipulagi eða starfsháttum, hann snýst um guðfræði kirkjunnar: hvað hefur kirkjan í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar fram að færa? Um hvað snýst tilvist hennar, um hvað snýst boðun hennar, hvernig birtast prestar hennar? Að vísu er sökin á vanda kirkjunnar nú ekki aðeins hennar heldur einnig samfélagsþróunarinnar sem kirkjan á enga sök á, en einnig þar gerir hún sig seka um að bregðast ekki rétt við tímanna táknum.

Í reynd snýst málið fyrst og síðast um prestana, enda eru lokaorðin ótvíræð: „Framtíð mótmælendakirkjunnar ræðst af prestum hennar“ (190). Skýrara og einfaldara gat það ekki verið. Hér er kastljósinu beint að þeim tuttugu og tvö þúsund prestum sem þjóna mótmælendakirkjunni í landi siðbótarinnar. Einhverjir mundu segja að hér fengju þeir duglega hirtingu af virtum guðfræðiprófessor. Og það er rétt, en hann hlífir guðfræðikennslunni ekki heldur. Við lestur bókarinnar er ljóst að hann er að tala um nýja prestastétt sem hann skrifar ekki hátt. Það er áhugavert út af fyrir sig, en áhugaverðara er að spyrja hvort gagnrýni hans á presta og guðfræði kirkjunnar eigi við hér á landi að einhverju eða öllu leyti.

Hann segir að framtíð kirkjunnar ráðist af góðum og hæfum prestum, ekki síst á óvissutímum eins og nú þegar kirkjan hefur ekki vindinn í seglin. Hann telur að áætlanir um yfirborðsframsókn kirkjunnar með umfangsmiklum aðgerðum og miklum bægslagangi kirkjuyfirvalda og prestanna sjálfra auk herskara af leikmönnum og allar eiga að vekja athygli og hressa upp á ímynd kirkjunnar, skili engu. (Hér vísar Graf væntanlega m.a. verkefnisins Reformprozeß sem tengdist siðbótarafmælinu 2017). Straumurinn er frá kirkjunni en ekki til hennar, viðbrögð hennar verði að beinast að öðru, þau verði að vera miklu róttækari, miklu djúpristari, þau verði að snúa að sjálfum boðskap hennar (á máli markaðsfræðinnar: hvað stendur til boða?) og þar með guðfræði og þá endanlega að guðfræðingunum sjálfum: prestunum (á máli markaðsfræðinnar: hversu hæfir eru sölumennirnir?) Betur væri heima setið en af stað farið ef þetta væri ekki haft í huga.

Graf telur að nú séu örlagatímar fyrir kirkjuna þegar allt velti á því til hvers hún sé og hvað hún hafi fram að færa, ekki hvar hún geti smeygt sér inn á verksvið annarra í samfélaginu heldur hvað hún sé sjálf , hver guðfræði hennar sé, hver málstaður hennar sé.

Graf sér ekki eingöngu neikvæð tákn skrifuð á vegginn þótt þau hrannist óneitanlega upp. Öllu heldur telur hann að rétt viðbrögð gætu snúið dæminu við, annað eins hefur gerst í sögu kirkjunnar, þarf ekki annað en minna á Schleiermacher sem kom fram rétt upp úr aldamótunum 1800 þegar endalokum kirkju og kristindóms var spáð í Evrópu upplýsingartímans og Napóleonstímans. Svo fór þó ekki. Með miðlunarguðfræði sinni og kirkjuhugmyndum, með þjóðkirkjuhugsjóninni og menningarguðfræðinni lagði Schleiermacher þar þyngst lóð á vogarskálarnar; markmið miðlunarguðfræðinnar er að miðla málstað trúarinnar til menningarinnar og inntaki menningarinnar hverju sinni til guðfræðingsins.

Sjö ódyggðir kirkjunnar

Efni bókarinnar er óvægin sjálfsgagnrýni í sjö liðum sem eru ítarlega útfærðir, þessa liði nefnir höfundur Sjö ódyggðir kirkjunnar . Þær eru þessar:

1) Málleysi
2) Menntunarfirring
3) Móralismi
4) Lýðræðisgleymska
5) Sjálfsdýrkun
6) Framtíðarhöfnun
7) Forræðishyggja

Þótt þessir sjö lestir eigi ekki við hér á landi á sama hátt og í landi höfundarins er þó engu að síður um umhugsunarverða sjálfsskoðun að ræða sem í það minnsta í sumum tilvikum gæti átt hér við tiltölulega óbreytt.

Hvað sem einstakri útfærslu þessara þátta líður er hitt mest um vert að horfa til prestsembættisins með sama hætti og gert er í mörgum skýrslum sem einstakar stofnanir þýsku kirkjunnar (EKD) hafa látið gera á undanförnum árum.

Frá biskupsvígslu á Hólum 2022

Presturinn hefur ákveðið embætti, hann starfar í umboði annars, ekki ríkisvaldsins heldur þess málstaðar sem honum er falinn á hendur. Orðið embætti er komið af forngermanska orðinu ambath sem er skylt öðru forngermönsku orði: ombud sem merkir umboð. Orðið ambátt er einnig í sömu orðsifjatengslum. Sú spurning hlýtur að vera sífellt nálæg í starfi prestsins á hverjum tíma hvernig hann getur uppfyllt þær væntingar sem í þessu mikilvæga embætti búa.

Menning orðsins á undanhaldi

„Kirkja orðsins“, eins og lúthersk kirkjuhefð er iðulega nefnd og hefur alla tíð verið stolt af, er fyrsta umfjöllunarefni Grafs. Hann minnir á að siðbót Marteins Lúthers hafi ekki aðeins leyst úr læðingi trúarlega fjölhyggju í vestrænni menningu heldur hafi hún einnig þanið sig út fyrir hefðbundin mörk milli hins trúarlega og hins menningarlega á sinni tíð.

Trúin var ekki aðeins lokuð inni í kirkjunni eða bundin við hinn kirkjulega vettvang heldur hélt hún innreið sína inn í menningarumhverfið í heild sinni, þar var ekkert undan skilið. Guðfræðingar nítjándu aldar töluðu því um „mótmælendamenningu“ eða um „lúthersk menningareinkenni“ eða um „menningarlegar meginreglur mótmælendakristindómsins“ (31).

Með öðrum orðum: trúarmenning siðbótarinnar hafði afgerandi áhrif á menningarumhverfið allt, þar var ekkert undan skilið, áhrifin náðu til allra þráða samfélagsvefjarins, til menningarlífsins, menntunarinnar, til atvinnulífsins, til heimilislífsins, tónlistarinnar, myndlistarinnar og síðast en ekki síst til bókmenntanna.

Einn af meisturum orðsins, Jón biskup Vídalín, eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli

Menning orðsins varð megineinkenni þeirrar trúarmenningar sem varð til í kjölfar siðbótarinnar og mótaði menningu og samfélag um aldir. Með siðbótinni má heita að áherslan hafi horfið af sakramental-mýstískum , helgisiðatengdum trúarskilningi og guðrækni en leitað í staðinn inn á vettvang hins talaða og ritaða orðs og vitsmunalegrar orðræðu. Þetta birtist í áherslu siðbótarkristindómsins á prédikun, á guðræknisrit, á sálmakveðskap, á nýtt bænamál lútherskrar trúarhefðar, á nýtt myndmál í myndlistinni. Þessar nýju áherslur höfðu ómæld áhrif. Marteinn Lúther gekk á undan með góðu fordæmi, hann var meistari hins talaða orðs og prentmálið nýtti hann sér til hins ýtrasta. Bækur hans runnu út, eitt dæmi er Biblíuþýðing hans sem kom út 1534. Á þeim tólf árum sem lifðu til andláts Lúthers seldust um eitt hundrað þúsund eintök af þýsku Biblíuútgáfunni. Það segir sína sögu.

Nýtt afl var komið til sögunnar, um það blandast engum hugur: afl hins talaða og prentaða orðs var nýtt menningarafl, ekki síst í höndum alþýðunnar. Lestrarkunnátta var sett á oddinn. Lúther taldi það skipta miklu máli fyrir söfnuðinn að koma og hlusta á prestinn og meðtaka sakramentin (skírn og kvöldmáltíð): „Ástæða fyrir því að reisa kirkju er sú ein að kristnir menn megi koma þar saman, biðja, hlusta á prédikun og meðtaka sakramentin. Þar sem ekki er lengur þörf fyrir þetta ætti að brjóta kirkjuna niður eins og gert er við hús sem ekki er lengur þörf fyrir.“ (WA 10/I, I, 152).

Þessi nýja sveifla hafði áhrif á menntun barna og unglinga: þau þurftu einnig að kunna að lesa og skrifa. Undir lok sautjándu aldar uppgötvaði heittrúarstefnan ( píetisminn) nýja bókmenntagrein, sjálfsævisöguna, sem hafði upphaflega það hlutverk að sýna hvernig náð Guðs birtist í lífi og starfi einstaklingsins. Á nítjándu öld kom fram önnur bókmenntagrein, frásagnir presta, ætlaðar til upplestrar fyrir börn og fullorðna (33).

Trúarmenning yfirborðsins

Með hliðsjón af þessum mikla menningararfi mótmælendakristindómsins greinir Graf uggvænlega breytingu. Í stað orðanna eru táknin komin. Í stað þess að talað sé af þekkingu og visku til safnaðarins hefur orðið til ný reynslumenning sem hirðir lítið um hið ritaða og talaða orð, í staðinn er komin upplifun í nýstárlegum helgisiðum, jógastellingum og austrænum dansi, í „kaþólskum“ helgigöngum, í krossum og signingum, friðargöngum, hreyfingum, táknrænum samskiptum á tilfinningalegu nótunum. Allt fyrirbæri og uppákomur til stundlegrar upplifunar sem breytir litlu og skilur lítið sem ekkert eftir, hér er ekki höfðað til hugsunarinnar og hugsandi fólks. Yfirborðið er látið nægja. Þennan samanburð setur Graf á oddinn – sjálfsagt óþarflega afgerandi – til þess að draga nógu skýrt fram það sem honum liggur á hjarta (36-37).

Þeim mun meir sem horfið er frá menningu orðsins, hinni vitsmunalegu, menntandi og uppbyggjandi orðræðu, í átt til tákna og tákngjörninga, þeim mun meir breikkar bilið milli kirkjunnar og hugsandi fólks vítt og breitt í samfélaginu.

Graf styður þessi viðhorf sín með því að vitna til skoðanakannana á löngu tímabili sem sýna annars vegar væntingar fólks til kirkjunnar og hins vegar hvernig þær væntingar urðu að engu vegna eigin kynna af orðvana kirkju.

Í því samhengi nefnir hann sérstaklega prédikunina sem hafi koðnað niður í staðlað útleggingastagl og léttvægt trúarhjal en þó tekur steininn úr þegar að líkræðum kemur sem eru oftar en ekki inntaksrýrar upptalningaþulur þar sem lífsferill hins látna er rakinn. Engin merki um innri glímu prédikarans, ekki örlar á tilraun til að túlka, sjá dýpra, koma trúarlegri visku til skila, draga lærdóm af lífi einnar manneskju í gleði og sorg á langri eða skammri ævi (36-37).

Marteinn Lúther (1483-1546)

List orðsins náði einatt hámarki í prédikuninni en einnig í líkræðunni, lútherskur prestur lagði metnað sinn í stílfræði og mælskufræði, auðskilda og fagurlega mótaða tjáningu og innihald sem bar vitni um drjúgan undirbúning, skapandi hugsun og þekkingu auk einlægrar umhyggju fyrir viðfangsefninu. Nú sér Graf ekki lengur eftirvæntingu í augum kirkjugesta. Í staðinn sér hann vonbrigði, ekki aðeins með einn og einn prest, heldur með þá kirkju sem öldum saman skrifaði list orðsins svo hátt og hélt uppi merkinu í þeirri menningu sem lagði og leggur metnað í orðsins list. Lágkúran er yfirþyrmandi að mati Grafs, Guðsímynd þessara hraðsoðnu prédikana er viljalaus dekurdúkka sem prédikarinn mótar í höndum sér, hér er guðdómur sem vill öllum vel en er einskis megnugur, trúin hefur að markmiði að okkur líði vel, brosum við komandi degi og séum góð hvert við annað.

Friedrich Wilhelm Graf hefur ekki áhyggjur af neinu eins og guðfræðingunum. Sífellt færri þeirra láta sig menningarlífið almennt talað varða, finnst honum. Allt frá byrjun níunda áratugarins hefur guðfræðinemum fækkað um helming í Þýskalandi, atgervisflótti er úr stéttinni, meira að segja menntaðir guðfræðingar hafa heldur valið að starfa í efnahagsgeiranum eða í fjölmiðlum, oft sem starfsmannastjórar, þeir hafi jafnvel haslað sér völl í auglýsingabransanum frekar en innan kirkjustarfsins eða annars staðar á vettvangi guðfræðinnar. Guðfræðikennslan fær sinn skerf af gagnrýninni, m.a. vegna ofuráherslu sem hann telur vera á ritskýringu í stað þess að leggja þunga áherslu á guðfræði sem lætur sig menninguna varða.

Miðlunarguðfræðin sem horfir til menningarinnar, til þess samfélags sem kirkjan á erindi við, er litin hornauga í guðfræðikennslu, trúarheimspekin sem fæst við trúarlega glímu nútímamannsins er ekki hátt skrifuð að því er virðist. Hinn litríki og metnaðarfulli menningararfur mótmælendakristindómsins er orðinn að lágmenningu sem lætur mótast af tískusveiflum líðandi stundar og hefur engin áhrif og skiptir í raun afar litlu máli. Er það þá furða að fólk snúi sér annað? Þannig spyr Friedrich Wilhelm Graf.

Menntunarfirring

Þegar Graf horfir aftur í tímann og les texta eftir Filippus Melanchton, sem Lúther fékk til hins nýstofnaða háskóla í Wittenberg árið 1518 sem grískukennara, sér hann rætur þeirrar trúarmenningar sem tók menntunina gilda og vildi vera í fararbroddi. Hinn ungi húmanisti, Melanchton, ritaði í upphafi kennsluferils síns þessi orð: „Ástríðan til fræðanna og skyldur mínar í því embætti, sem ég gegni, knýr mig til þess að tala um þá endurnýjun sem býr í menntuninni og þá endurfæðingu sem býr í listunum, það er mér hjartans löngun að vekja áhuga ykkar á þessu efni. Þeirra málstað vil ég tefla fram gegn sýndarfræðimönnum og siðleysingjunum sem berja sér á brjóst og telja sig geta leyst framfarir úr læðingi með lágkúrunni einni“ (49). Þá var Melanchton 21árs. Hann valdi sér kjörorðið „aftur að uppsprettunum“ ( ad fontes ). Trú og menntun, trúarbrögð og menning hélst í hendur í fræðum hans. Með því að senda son sinn og anda sinn til mannanna vildi Guð gera okkur, auma syndara, að manneskjum sem væru fúsar til að þjóna náunga sínum og stefndu að því að gera samfélagið betra. Þess vegna væri menntunin óhjákvæmilegur þáttur í kristinni trú.

Mannúðarkristindómur Melanchtons sýnir vel hvernig menntunarviðhorf kirkjunnar hafa breyst. Félagsleg ímynd kristindóms þar sem menntun og trú var áður órofa heild er nú gjörbreytt og einkennist af menntunarkreppu kirkjunnar í vel menntuðu samfélagi samtímans. Graf gerir vel grein fyrir þessu efni með tvennum hætti: Með því að rekja guðfræði Schleiermachers í upphafi nítjándu aldar annars vegar og hins vegar með því að draga upp mynd af prestinum í samfélagi líðandi stundar og firringu hans frá hinum eiginlegu, mótandi straumum samfélagsins.

Hann nefnir Schleiermacher áhrifamesta guðfræðing mótmælenda á nítjándu öld . Eitt mikilvægasta atriðið í umfangsmikilli guðfræði hans að mati Grafs var áherslan á prestinn sem menntanna mann. Hann hefði hlotið víðtæka og haldgóða menntun sem gæfi honum umboð til að láta til sín taka í samfélaginu, hann væri þess umkominn að vera leiðtogi fólksins. Hlutverk hans var að gera frelsandi boðskap fagnaðarerindisins raunhæfan og trúverðugan í samfélaginu, í menningarlífinu, í kirkjunni. Hann yrði að vera hæfur til að túlka trúarlegar spurningar samtímans og setja þær í sitt eiginlega samhengi og fjalla um þær svo að gagn væri að, ekki með yfirborðslegum hætti sem engum gagnaðist. Þessi menntunarmiðaða prestsímynd var lengi vel hin eiginlega ímynd prestsins í þýsku samfélagi, þá horfðu menn til prestsins með eftirvæntingu því að hann stóð undir væntingum. Í samtímanum hefur þessi staða hans gjörbreyst.

Nú hafa margir prestar tileinkað sér það sem Schleiermacher varaði við: að rugla saman móral og trú: hlutverk kirkjunnar er ekki að stýra siðum og siðgæði samfélagsins heldur að höfða til dýpri þátta í tilvist mannsins: til trúarinnar. Prestar ættu að vara sig á því að gera sjálfa sig að siðferðispostulum samfélagsins.

Hempa og pípukragi bíða prestsins

Graf gerir hér einnig að umtalsefni embættisklæðnað prestanna og ekki síður biskupanna þar sem hann greinir ákveðna firringu frá eðli hins lútherska embættis. Svarta hempan með hvítum spöðum eða hvítum pípukraga á sér rætur í klæðnaði háskólamanna á miðöldum og hefur allt fram undir það síðasta verið einkenni mótmælendaprestsins – og er vissulega enn.

Vegna áhrifa frá helgisiðahreyfingunni á meginlandinu á þriðja áratug tuttugustu aldar, sem var „mjög sterklega mótuð af rómversk-kaþólskum sjónarmiðum“ (109), fór að bera á kaþólskum áhrifum á búnað presta í helgihaldinu.

Kjarni málsins í úttekt Grafs á þessu máli er sá að hempan undirstrikar menntunaráherslu embættisins, hinn litríki skrúði kaþólsku prestanna undirstrikar hins vegar að þeir eru öðru fremur helgisiðameistarar sem þjóna við helgihaldið, þeir kynna sig ekki í búnaði sínum sem menn þekkingar og visku. Honum óar þekkingarskorturinn á uppruna hempunnar og ekki síður blinda margra á tákngildið sem felst í búnaði prestsins (109).

Aftur á móti var menntaþátturinn ekki eina atriðið sem gilti um ímynd lútherska prestsins á upplýsingartímanum. Með heittrúarstefnunni (píetismanum) kom sú ímynd fram að presturinn þyrfti ekki að vera sterkur á svellinu í samfélaginu almennt og menningarlífinu heldur ætti hann að vera „réttu megin“ í baráttu kirkjunnar og heimsins. Íhaldssöm guðfræði píetismans gerði þá kröfu til prestsins að hann héldi sig réttu megin við línuna, þ.e.a.s. utan menningarlífsins en innan kirkjunnar, menntun hans átti að birtast í þekkingu á Biblíunni og einfaldri útleggingu hennar. Miðlunarguðfræði Schleiermachers var hér lítils megnug, hin íhaldssama guðfræði sem oft einkenndist af bókstafstrú og litlu trausti til almennrar menntunar varð víða sterkari. En Graf fylkir sér í hinn fjölmenna aðdáendahóp kringum Schleiermacher, sem var reyndar alinn upp og mótaður af píetistum og mat ávallt þá sterku trú hjartans sem þar var lögð áhersla á þótt afstaða hans til menningar og menntunar breyttist snemma.

Breyttar aðstæður prestsins

Báðar stóru kirkjudeildirnar í Þýskalandi, mótmælendakirkjan og rómversk-kaþólska kirkjan, létu gera umfangsmiklar skoðanakannanir á sjöunda áratugnum um viðhorf fólks til trúar og kirkju. Beitt var nýjum aðferðum markaðsfræðanna til að gera slíkar kannanir, meta þær og bregðast við niðurstöðum þeirra. Það sem mönnum kom talsvert á óvart var hversu presturinn sjálfur skipti miklu máli, mótmælendur upplifðu kirkjuna gegnum sóknarprestinn. Í ítarlegri skoðanakönnun árið 2008 kom fram að flestir báru mesta virðingu fyrir læknisstarfinu en í öðru sæti var presturinn. Væntingar til prestsins snúast um þetta: fólk gerir sér vonir um að geta rætt við hann um mikilvæg mál í tengslum við embættisverk sem hann framkvæmir, einkum á það við um útfarir, það býst við miklu af honum á erfiðum stundum í lífinu, t.d. þegar dauða náins ættingja ber að höndum, það býst við sálgæslu, og fólk er fúst til að taka við honum inn á sitt eigið heimili. Í því efni sér Graf húsvitjunarhefðina enn lifandi undir niðri. Aðgangur prestsins að heimilum manna er opinn, þar nýtur hann trausts sem fáir njóta, fyrir utan nána ættingja og vini er heimili manna opið fyrir örfáum, m.a. læknum og iðnaðarmönnum þegar brýn þörf krefur. Hvað prestinn varðar gegnir hér öðru máli, hans er vænst og af heimsókn hans búast menn við miklu. Það les Graf út úr þessari skoðanakönnun og öðrum sambærilegum (57).

Margt sýnir að harðir árekstrar á vettvangi kirkjunnar, m.a. milli sóknarnefndafólks og presta, hafi færst í vöxt á undanförnum árum. Prestar kvarta í auknum mæli um spennu og árekstra milli embættisins og einkalífsins. Og í reynd er erfiðara fyrir presta en aðra háskólamenntaða menn að finna frítíma fyrir einkalífið, skilnaðartíðni meðal presta er með því hæsta þegar litið er á skilnaði háskólamenntaðs fólks í Þýskalandi. Margir prestar kvarta um viðvarandi streitu í starfi og mikla tímapressu. Í mörgum sambandslandskirkjum í Þýskalandi sýna tölur að yfir tuttugu prósent presta þjást af streitusjúkdómum. Margir vilja ekki viðurkenna þennan vanda, sem á reyndar einnig við um aðra starfsmenn safnaðanna. Hvað prestana varðar er talið að illa skilgreint starf þeirra í nútímasamfélagi sé ein ástæðan , fyrir vikið verður presturinn – einkum nýliðar – óöruggur og leggur á sig óeðlilega mikla vinnu sem verður honum um megn (60).

Nú reynir Graf að finna ástæðurnar fyrir þessum breyttu aðstæðum prestsins og þar með kirkjunnar. Hann telur hér koma fram sjónarmið sem landlægt sé meðal presta og felst í afneitun á því að presturinn eigi styrk sinn í menntun sinni. Í samfélaginu fer styrkur hverrar stofnunar og hvers fyrirtækis eftir því hve vel menntaðir starfskraftarnir eru, þeir ákvarða styrk stofnunarinnar og fyrirtækisins, á menntun þeirra og hæfileikum veltur í reynd allt. Þegar presturinn hleypur í flæmingi undan því að hann er guðfræðingur og hefur ekki þann metnað að sýna hvað í því felst er voðinn vís. Þá er hann á flæðiskeri staddur. Í menntuðu samfélagi vex einnig vitundin um að kirkjan á sér þá sögu og hefð í vestrænu samfélagi að þangað væri eitthvað að sækja – en hvað er það, hvers virði er það? Presturinn er maðurinn sem á að svara þeirri spurningu í orði og verki. „Það heyrir nú til boðskiptastíl guðfræðinga að líta svo á að hinn menntaði kristni maður sé fortíðarfyrirbæri“ (63), segir Graf.

Prédikunarstóll Keflavíkurkirkju

Hann metur það svo að boðunin af prédikunarstólnum sé iðulega barnaleg og skorti eðlilegan og heilbrigðan metnað, boðskiptin séu á barnalegu nótunum, boðskapurinn virðist beinast að börnum og þeim sem hugsa barnalega og gert er ráð fyrir að fólk hugsi barnalega þegar það er komið í kirkjuna. Tilfinningar eiga vissulega heima á prédikunarstólnum og það er ekkert rangt við að prédikarinn tali til hjartans nema síður sé. Graf telur hins vegar að þessar nýju áherslur barnalegs trúarskilnings veki ekki traust í samfélagi sem er almennt talið vel menntað og mótað af gagnrýninni hugsun. Lágkúra og metnaðarleysi prédikara sem lætur sér nægja boðskap um að vera „góð hvert við annað“ (64) og flýr síðan með einum eða öðrum hætti í faðm þeirra, sem hugsa eins og hann, er ekki til þess fallinn að vekja trúnað þeirra sem láta sér annt um mannúðleg gildi og baráttu fyrir góðum málstað í samfélaginu.

Graf rekur því vanda prestsins í starfi sínu til hans eigin klípu, firringar hans frá menningu orðsins, frá metnaðarfullri prédikun og löngun til að hafa mótandi áhrif á samfélagið. Flóttinn er sjálfsflótti og jafnframt flótti frá því sem gefur starfi hans gildi.

Samfélag án trúar?

Graf telur það ekki standast sem guðfræðingar hafi langtímum saman haldið fram og gengið út frá, að samtíminn einkennist af „trúarbragðaleysi“ (Dietrich Bonhoeffer, 137) . Reynslan hafi sýnt annað þótt hinar hefðbundnu stofnanir trúarbragðanna, m.a. kirkjurnar, hafi að verulegu leyti lokið hlutverki sínu sem grundvallarstoðir samfélagsins. Þau umskipti hafa hins vegar hugsanlega haft í för með sér breytingar á samfélagslegri birtingarmynd og hlutverki trúarinnar. Hann lítur svo á að fólk sé ekki firrtara frá trúnni nú en 1789, 1848 eða 1918/19.

Vandinn við að túlka merkingu tilvistarinnar og þar með eigin lífs er til staðar í óbreyttri mynd, einnig nútímamaðurinn verður að fást við óvissu lífsins. Sé það svo að maðurinn bregðist hér við með trúnni og trúarbrögðunum þá mun trúin ekki síður en áður setja svip sinn á líf og samfélag mannsins á 21. öld. Enginn getur sýnt fram á að trúin hverfi úr veruleika mannsins þótt félagslegar aðstæður breytist.

Framtíðin mun því eftir öllum sólarmerkjum að dæma einkennast af sömu grundvallarspurningum mannsins og hafa einkennt tilvist hans á öllum tímum. Spurningin er hins vegar hvort hinar hefðbundnu stórkirkjur muni koma til móts við manninn í þeim vanda í framtíðinni sem hingað til. Graf spyr einnig í þessu samhengi hvort kirkjurnar og embættismenn þeirra hafi yfirhöfuð áhuga á að fást við hinar trúarlegu spurningar sem bærast með manninum og birtast með óvæntum hætti á nýjum tímum (137).

Klukknaport Bæjarkirkju í Borgarfirði

Undir lok bókarinnar ítrekar hann það sjónarmið sem hann hafði öðru hvoru fengist við í bókinni að hin mikla einstaklingshyggja samtímans hafi einnig haft áhrif á veruleika trúarinnar, áherslan á einstaklingshyggju hafi gert það að verkum að margir hafi sett spurningarmerki við þá trú sem hefur allar aldir talið sig þurfa á samfélagi að halda, á söfnuði, á kirkjustofnun, á siðum og venjum sem hafi síðan mótað líf einstaklinga og fjölskyldna, atvinnulíf og samfélag. Mun einstaklingshyggjan hafa afgerandi áhrif á samfélagsmynd trúarinnar, þar með á stórkirkjurnar?

En ekki aðeins einstaklingshyggjan heldur einnig þemað „kynslóðir“ (189) er áhyggjuefni stóru kirkjudeildanna tveggja. Bæði mótmælendakirkjan og rómversk-kaþólska kirkjan í Þýskalandi óttast greinilega niðurstöður skoðanakannana sem sýna afgerandi mismunandi viðhorf kynslóðanna. Í austurhluta Þýskalands, þar sem heilu kynslóðirnar voru markvisst aldar upp í guðleysi, er 43 prósent skráðra í báðar kirkjur yfir sextugu en aðeins tólf prósent undir þrítugu. Meirihluti þeirra sem er yfir sextugu væntir leiðbeiningar kirknanna í glímunni við tilgang og merkingu en aðeins fjórðungur þeirra sem þrítugir eru. Nærri helmingur þrítugra telur trúna vera úrelta en fjórðungur sama aldurshóps segist vera trúaður. Eitt af því sem kemur fram er munur á lífsviðhorfum og lífsstíl: sá hópur sem telur sig trúaðan er meðvitaður um lífsstíl sinn, um samfélagslega ábyrgð og almennt um samfélagið (189).

Lokaorð

Nú mætti velta því fyrir sér að hve miklu leyti hin nýja bók eftir Friedrich Wilhelm Graf á erindi til íslenskrar kirkju og kristni. Spyrja mætti hvort lýsing Grafs eigi að einhverju leyti við um íslenska presta. Er guðfræði þeirra á þeim sömu villigötum og Graf telur guðfræði þýskra presta vera? Eru þeir á flótta undan guðfræðinni inn í sýndarheim persónulegrar sjálfsdýrkunar sem veitir þeim það sem þeir öðlast ekki í starfi sem þeir vilja ekki sinna eins og á að sinna? Eða eru þeir bældir og óttaslegnir í kunnáttuleysi sínu við að hugsa sjálfstætt um guðfræði, eru þeir þvingaðir af guðfræði sem verður að vera annað hvort „rétt“ eða „röng“?

Námið felur í sér mótun sem gefur honum djörfung til að hugsa sjálfstætt og taka þátt í hinni samfélagslegu umræðu, vera þátttakandi, ekki aðeins innávið heldur einnig og öðru fremur útávið. Sá sem hefur lært að hugsa sjálfstætt og standa fyrir máli sínu, iðka hina guðfræðilegu rökræðu á vitsmunalegan hátt og miðla inntaki guðfræðinnar og þar með trúarinnar til samfélags sem hugsar einatt á öðrum nótum er vissulega illa settur og sú kirkja sem hann þjónar sömuleiðis.

Nú kynni einhver að spyrja hvernig menntun presta í Þýskalandi væri háttað. Lágmarksmenntun er fimm ára háskólanám sem lýkur með „fyrra guðfræðiprófi“ og síðan tveggja ára akademískt nám við prestaskóla eða prédikaraseminar sem lýkur með „síðara guðfræðiprófi“, presturinn hefur vart fyrr tekið við embætti en hann gerir sér grein fyrir því að hann er kominn inn í kerfi sem gefur ekkert eftir í símenntun. Samt er staðan eins og hún er. Í þessu samhengi er samt best að tala sem minnst um þær kröfur sem íslenska þjóðkirkjan gerir til sinna presta.

Graf vekur spurningar sem hljóta að kalla á umhugsun og umræður. Því marki hefur hann reyndar náð, fyrir það á hann þakkir skildar. Eftir stendur spurningin um hæfni prestsins til að sinna embætti sínu þannig að það verði honum sjálfum til farsældar og þá um leið kirkjunni sem hann þjónar.

 

(Grein þessi birtist fyrst í Glímunni – óháðu tímariti um guðfræði og samfélag, 8. árg., 2011, bls. 217-229).

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Fjarri fer því að íslenska þjóðkirkjan hafi siglt lygnan sjó undanfarið. Þó hefur sú ólga verið lítilfjörleg miðað við raunir ýmissa nágrannakirkna okkar, evangelískar og kaþólskar. Viðbrögð „kirkjunnar manna“ við slíkum áföllum geta verið með ýmsu móti. Í það minnsta tvenns konar viðbrögð koma flestum í hug við slíkar aðstæður. Ein væru að leita logandi ljósi að sökudólgum hingað og þangað í samfélaginu, meðal fjölmiðlamanna, stjórnmálamanna, vantrúarmanna og annarra sem eru til alls líklegir.

Kirkjusagan þekkir mörg stríð þar sem kirkjan hefur varist til að halda velli en átti kannski litla sök eða enga nema helst þá að gera sér far um að boða fagnaðarerindið. Þá hlaut hún oft svipuð örlög og Jesús sjálfur: hún laut í gras fyrir ofureflinu án þess að hafa neitt til þess unnið að verðskulda slík örlög annað en „að boða fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum“ eins og hlutverk kirkjunnar er orðað af siðbótarmönnum, leikum og lærðum, í 5. grein Ágsborgarjátningarinnar frá 1530.

Önnur viðbrögð væru að líta í eigin barm. Það er ekki fráleitt að þjóðkirkjan skoði sjálfa sig og vegi og meti hvar hún er sjálf á vegi stödd og hvort hún verðskuldi þann mikla trúnað sem henni hefur löngum verið sýndur.

Skoðanakannanir segja að mínum dómi ekki allt um stöðu kirkjunnar. Erlendis er gjarnan gerður skýr greinarmunur á viðhorfi fólks til sóknarstarfsins annars vegar og til kirkjustofnunarinnar hins vegar, þegar svo er gert kemur kirkjan í nágrenninu, presturinn sem fólkið þekkir eða kannast við, mun betur út en kirkjustofnunin sem er fjarlæg og óáþreifanleg trúarstofnun sem hefur misgott orð á sér í langri sögu sinni. Hér á landi virðist yfirleitt aðeins spurt um viðhorf fólks til „þjóðkirkjunnar“, við hvað er átt? Þar að auki eru Íslendingar ekki kirkjurækið fólk þótt það nýti sér þjónustu prestanna flestum þjóðum meir. Það tekur því afstöðu í verki með því að leita þjónustu þeirrar stofnunar sem það virðist ekki styðja heilshugar í skoðanakönnunum. Fyrir utan þetta er það áreiðanlega ekki kirkjan sem skiptir manninn meginmáli heldur trúin . Af hennar rótum hefur sprottið lúthersk, kristin trúarmenning hér á landi sem er aðeins laustengd kirkjuhúsi og kirkjustofnun. Þetta sakar ekki að hafa í huga.

Horft í eigin barm

Að horfa í eigin barm er erindi þessarar greinar. Þar er íslenska þjóðkirkjan ekki ein á báti, nær væri að segja að sjálfsskoðun væri eitt meginviðfangsefni margra nágrannakirkna okkar um þessar mundir. Umdeild bók um þetta efni kom út í Þýskalandi ekki alls fyrir löngu. Það er bókin Kirkjan í rökkri eftir dr. Friedrich Wilhelm Graf, prófessor í samstæðri guðfræði við háskólann í München. Undirtitillinn segir sína sögu: „Hvernig kirkjurnar grafa undan trausti okkar.“ [ Kirchendämmerung. Wie die Kirchen unser Vertraun verspielen , Verlag C.H. Beck, München 2011].

Það er ekki stíll Grafs, sem er þekktur greinahöfundur í víðlesnum dagblöðum í Þýskalandi, að vera lengi að koma sér að efninu og tæpitunga er honum ekki töm. Hér fjallar málið um sjö ódyggðir kirkjunnar. Þær eru vandi hennar hér og nú og hann er ekki fólginn í fjármunum, skipulagi eða starfsháttum, hann snýst um guðfræði kirkjunnar: hvað hefur kirkjan í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar fram að færa? Um hvað snýst tilvist hennar, um hvað snýst boðun hennar, hvernig birtast prestar hennar? Að vísu er sökin á vanda kirkjunnar nú ekki aðeins hennar heldur einnig samfélagsþróunarinnar sem kirkjan á enga sök á, en einnig þar gerir hún sig seka um að bregðast ekki rétt við tímanna táknum.

Í reynd snýst málið fyrst og síðast um prestana, enda eru lokaorðin ótvíræð: „Framtíð mótmælendakirkjunnar ræðst af prestum hennar“ (190). Skýrara og einfaldara gat það ekki verið. Hér er kastljósinu beint að þeim tuttugu og tvö þúsund prestum sem þjóna mótmælendakirkjunni í landi siðbótarinnar. Einhverjir mundu segja að hér fengju þeir duglega hirtingu af virtum guðfræðiprófessor. Og það er rétt, en hann hlífir guðfræðikennslunni ekki heldur. Við lestur bókarinnar er ljóst að hann er að tala um nýja prestastétt sem hann skrifar ekki hátt. Það er áhugavert út af fyrir sig, en áhugaverðara er að spyrja hvort gagnrýni hans á presta og guðfræði kirkjunnar eigi við hér á landi að einhverju eða öllu leyti.

Hann segir að framtíð kirkjunnar ráðist af góðum og hæfum prestum, ekki síst á óvissutímum eins og nú þegar kirkjan hefur ekki vindinn í seglin. Hann telur að áætlanir um yfirborðsframsókn kirkjunnar með umfangsmiklum aðgerðum og miklum bægslagangi kirkjuyfirvalda og prestanna sjálfra auk herskara af leikmönnum og allar eiga að vekja athygli og hressa upp á ímynd kirkjunnar, skili engu. (Hér vísar Graf væntanlega m.a. verkefnisins Reformprozeß sem tengdist siðbótarafmælinu 2017). Straumurinn er frá kirkjunni en ekki til hennar, viðbrögð hennar verði að beinast að öðru, þau verði að vera miklu róttækari, miklu djúpristari, þau verði að snúa að sjálfum boðskap hennar (á máli markaðsfræðinnar: hvað stendur til boða?) og þar með guðfræði og þá endanlega að guðfræðingunum sjálfum: prestunum (á máli markaðsfræðinnar: hversu hæfir eru sölumennirnir?) Betur væri heima setið en af stað farið ef þetta væri ekki haft í huga.

Graf telur að nú séu örlagatímar fyrir kirkjuna þegar allt velti á því til hvers hún sé og hvað hún hafi fram að færa, ekki hvar hún geti smeygt sér inn á verksvið annarra í samfélaginu heldur hvað hún sé sjálf , hver guðfræði hennar sé, hver málstaður hennar sé.

Graf sér ekki eingöngu neikvæð tákn skrifuð á vegginn þótt þau hrannist óneitanlega upp. Öllu heldur telur hann að rétt viðbrögð gætu snúið dæminu við, annað eins hefur gerst í sögu kirkjunnar, þarf ekki annað en minna á Schleiermacher sem kom fram rétt upp úr aldamótunum 1800 þegar endalokum kirkju og kristindóms var spáð í Evrópu upplýsingartímans og Napóleonstímans. Svo fór þó ekki. Með miðlunarguðfræði sinni og kirkjuhugmyndum, með þjóðkirkjuhugsjóninni og menningarguðfræðinni lagði Schleiermacher þar þyngst lóð á vogarskálarnar; markmið miðlunarguðfræðinnar er að miðla málstað trúarinnar til menningarinnar og inntaki menningarinnar hverju sinni til guðfræðingsins.

Sjö ódyggðir kirkjunnar

Efni bókarinnar er óvægin sjálfsgagnrýni í sjö liðum sem eru ítarlega útfærðir, þessa liði nefnir höfundur Sjö ódyggðir kirkjunnar . Þær eru þessar:

1) Málleysi
2) Menntunarfirring
3) Móralismi
4) Lýðræðisgleymska
5) Sjálfsdýrkun
6) Framtíðarhöfnun
7) Forræðishyggja

Þótt þessir sjö lestir eigi ekki við hér á landi á sama hátt og í landi höfundarins er þó engu að síður um umhugsunarverða sjálfsskoðun að ræða sem í það minnsta í sumum tilvikum gæti átt hér við tiltölulega óbreytt.

Hvað sem einstakri útfærslu þessara þátta líður er hitt mest um vert að horfa til prestsembættisins með sama hætti og gert er í mörgum skýrslum sem einstakar stofnanir þýsku kirkjunnar (EKD) hafa látið gera á undanförnum árum.

Frá biskupsvígslu á Hólum 2022

Presturinn hefur ákveðið embætti, hann starfar í umboði annars, ekki ríkisvaldsins heldur þess málstaðar sem honum er falinn á hendur. Orðið embætti er komið af forngermanska orðinu ambath sem er skylt öðru forngermönsku orði: ombud sem merkir umboð. Orðið ambátt er einnig í sömu orðsifjatengslum. Sú spurning hlýtur að vera sífellt nálæg í starfi prestsins á hverjum tíma hvernig hann getur uppfyllt þær væntingar sem í þessu mikilvæga embætti búa.

Menning orðsins á undanhaldi

„Kirkja orðsins“, eins og lúthersk kirkjuhefð er iðulega nefnd og hefur alla tíð verið stolt af, er fyrsta umfjöllunarefni Grafs. Hann minnir á að siðbót Marteins Lúthers hafi ekki aðeins leyst úr læðingi trúarlega fjölhyggju í vestrænni menningu heldur hafi hún einnig þanið sig út fyrir hefðbundin mörk milli hins trúarlega og hins menningarlega á sinni tíð.

Trúin var ekki aðeins lokuð inni í kirkjunni eða bundin við hinn kirkjulega vettvang heldur hélt hún innreið sína inn í menningarumhverfið í heild sinni, þar var ekkert undan skilið. Guðfræðingar nítjándu aldar töluðu því um „mótmælendamenningu“ eða um „lúthersk menningareinkenni“ eða um „menningarlegar meginreglur mótmælendakristindómsins“ (31).

Með öðrum orðum: trúarmenning siðbótarinnar hafði afgerandi áhrif á menningarumhverfið allt, þar var ekkert undan skilið, áhrifin náðu til allra þráða samfélagsvefjarins, til menningarlífsins, menntunarinnar, til atvinnulífsins, til heimilislífsins, tónlistarinnar, myndlistarinnar og síðast en ekki síst til bókmenntanna.

Einn af meisturum orðsins, Jón biskup Vídalín, eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli

Menning orðsins varð megineinkenni þeirrar trúarmenningar sem varð til í kjölfar siðbótarinnar og mótaði menningu og samfélag um aldir. Með siðbótinni má heita að áherslan hafi horfið af sakramental-mýstískum , helgisiðatengdum trúarskilningi og guðrækni en leitað í staðinn inn á vettvang hins talaða og ritaða orðs og vitsmunalegrar orðræðu. Þetta birtist í áherslu siðbótarkristindómsins á prédikun, á guðræknisrit, á sálmakveðskap, á nýtt bænamál lútherskrar trúarhefðar, á nýtt myndmál í myndlistinni. Þessar nýju áherslur höfðu ómæld áhrif. Marteinn Lúther gekk á undan með góðu fordæmi, hann var meistari hins talaða orðs og prentmálið nýtti hann sér til hins ýtrasta. Bækur hans runnu út, eitt dæmi er Biblíuþýðing hans sem kom út 1534. Á þeim tólf árum sem lifðu til andláts Lúthers seldust um eitt hundrað þúsund eintök af þýsku Biblíuútgáfunni. Það segir sína sögu.

Nýtt afl var komið til sögunnar, um það blandast engum hugur: afl hins talaða og prentaða orðs var nýtt menningarafl, ekki síst í höndum alþýðunnar. Lestrarkunnátta var sett á oddinn. Lúther taldi það skipta miklu máli fyrir söfnuðinn að koma og hlusta á prestinn og meðtaka sakramentin (skírn og kvöldmáltíð): „Ástæða fyrir því að reisa kirkju er sú ein að kristnir menn megi koma þar saman, biðja, hlusta á prédikun og meðtaka sakramentin. Þar sem ekki er lengur þörf fyrir þetta ætti að brjóta kirkjuna niður eins og gert er við hús sem ekki er lengur þörf fyrir.“ (WA 10/I, I, 152).

Þessi nýja sveifla hafði áhrif á menntun barna og unglinga: þau þurftu einnig að kunna að lesa og skrifa. Undir lok sautjándu aldar uppgötvaði heittrúarstefnan ( píetisminn) nýja bókmenntagrein, sjálfsævisöguna, sem hafði upphaflega það hlutverk að sýna hvernig náð Guðs birtist í lífi og starfi einstaklingsins. Á nítjándu öld kom fram önnur bókmenntagrein, frásagnir presta, ætlaðar til upplestrar fyrir börn og fullorðna (33).

Trúarmenning yfirborðsins

Með hliðsjón af þessum mikla menningararfi mótmælendakristindómsins greinir Graf uggvænlega breytingu. Í stað orðanna eru táknin komin. Í stað þess að talað sé af þekkingu og visku til safnaðarins hefur orðið til ný reynslumenning sem hirðir lítið um hið ritaða og talaða orð, í staðinn er komin upplifun í nýstárlegum helgisiðum, jógastellingum og austrænum dansi, í „kaþólskum“ helgigöngum, í krossum og signingum, friðargöngum, hreyfingum, táknrænum samskiptum á tilfinningalegu nótunum. Allt fyrirbæri og uppákomur til stundlegrar upplifunar sem breytir litlu og skilur lítið sem ekkert eftir, hér er ekki höfðað til hugsunarinnar og hugsandi fólks. Yfirborðið er látið nægja. Þennan samanburð setur Graf á oddinn – sjálfsagt óþarflega afgerandi – til þess að draga nógu skýrt fram það sem honum liggur á hjarta (36-37).

Þeim mun meir sem horfið er frá menningu orðsins, hinni vitsmunalegu, menntandi og uppbyggjandi orðræðu, í átt til tákna og tákngjörninga, þeim mun meir breikkar bilið milli kirkjunnar og hugsandi fólks vítt og breitt í samfélaginu.

Graf styður þessi viðhorf sín með því að vitna til skoðanakannana á löngu tímabili sem sýna annars vegar væntingar fólks til kirkjunnar og hins vegar hvernig þær væntingar urðu að engu vegna eigin kynna af orðvana kirkju.

Í því samhengi nefnir hann sérstaklega prédikunina sem hafi koðnað niður í staðlað útleggingastagl og léttvægt trúarhjal en þó tekur steininn úr þegar að líkræðum kemur sem eru oftar en ekki inntaksrýrar upptalningaþulur þar sem lífsferill hins látna er rakinn. Engin merki um innri glímu prédikarans, ekki örlar á tilraun til að túlka, sjá dýpra, koma trúarlegri visku til skila, draga lærdóm af lífi einnar manneskju í gleði og sorg á langri eða skammri ævi (36-37).

Marteinn Lúther (1483-1546)

List orðsins náði einatt hámarki í prédikuninni en einnig í líkræðunni, lútherskur prestur lagði metnað sinn í stílfræði og mælskufræði, auðskilda og fagurlega mótaða tjáningu og innihald sem bar vitni um drjúgan undirbúning, skapandi hugsun og þekkingu auk einlægrar umhyggju fyrir viðfangsefninu. Nú sér Graf ekki lengur eftirvæntingu í augum kirkjugesta. Í staðinn sér hann vonbrigði, ekki aðeins með einn og einn prest, heldur með þá kirkju sem öldum saman skrifaði list orðsins svo hátt og hélt uppi merkinu í þeirri menningu sem lagði og leggur metnað í orðsins list. Lágkúran er yfirþyrmandi að mati Grafs, Guðsímynd þessara hraðsoðnu prédikana er viljalaus dekurdúkka sem prédikarinn mótar í höndum sér, hér er guðdómur sem vill öllum vel en er einskis megnugur, trúin hefur að markmiði að okkur líði vel, brosum við komandi degi og séum góð hvert við annað.

Friedrich Wilhelm Graf hefur ekki áhyggjur af neinu eins og guðfræðingunum. Sífellt færri þeirra láta sig menningarlífið almennt talað varða, finnst honum. Allt frá byrjun níunda áratugarins hefur guðfræðinemum fækkað um helming í Þýskalandi, atgervisflótti er úr stéttinni, meira að segja menntaðir guðfræðingar hafa heldur valið að starfa í efnahagsgeiranum eða í fjölmiðlum, oft sem starfsmannastjórar, þeir hafi jafnvel haslað sér völl í auglýsingabransanum frekar en innan kirkjustarfsins eða annars staðar á vettvangi guðfræðinnar. Guðfræðikennslan fær sinn skerf af gagnrýninni, m.a. vegna ofuráherslu sem hann telur vera á ritskýringu í stað þess að leggja þunga áherslu á guðfræði sem lætur sig menninguna varða.

Miðlunarguðfræðin sem horfir til menningarinnar, til þess samfélags sem kirkjan á erindi við, er litin hornauga í guðfræðikennslu, trúarheimspekin sem fæst við trúarlega glímu nútímamannsins er ekki hátt skrifuð að því er virðist. Hinn litríki og metnaðarfulli menningararfur mótmælendakristindómsins er orðinn að lágmenningu sem lætur mótast af tískusveiflum líðandi stundar og hefur engin áhrif og skiptir í raun afar litlu máli. Er það þá furða að fólk snúi sér annað? Þannig spyr Friedrich Wilhelm Graf.

Menntunarfirring

Þegar Graf horfir aftur í tímann og les texta eftir Filippus Melanchton, sem Lúther fékk til hins nýstofnaða háskóla í Wittenberg árið 1518 sem grískukennara, sér hann rætur þeirrar trúarmenningar sem tók menntunina gilda og vildi vera í fararbroddi. Hinn ungi húmanisti, Melanchton, ritaði í upphafi kennsluferils síns þessi orð: „Ástríðan til fræðanna og skyldur mínar í því embætti, sem ég gegni, knýr mig til þess að tala um þá endurnýjun sem býr í menntuninni og þá endurfæðingu sem býr í listunum, það er mér hjartans löngun að vekja áhuga ykkar á þessu efni. Þeirra málstað vil ég tefla fram gegn sýndarfræðimönnum og siðleysingjunum sem berja sér á brjóst og telja sig geta leyst framfarir úr læðingi með lágkúrunni einni“ (49). Þá var Melanchton 21árs. Hann valdi sér kjörorðið „aftur að uppsprettunum“ ( ad fontes ). Trú og menntun, trúarbrögð og menning hélst í hendur í fræðum hans. Með því að senda son sinn og anda sinn til mannanna vildi Guð gera okkur, auma syndara, að manneskjum sem væru fúsar til að þjóna náunga sínum og stefndu að því að gera samfélagið betra. Þess vegna væri menntunin óhjákvæmilegur þáttur í kristinni trú.

Mannúðarkristindómur Melanchtons sýnir vel hvernig menntunarviðhorf kirkjunnar hafa breyst. Félagsleg ímynd kristindóms þar sem menntun og trú var áður órofa heild er nú gjörbreytt og einkennist af menntunarkreppu kirkjunnar í vel menntuðu samfélagi samtímans. Graf gerir vel grein fyrir þessu efni með tvennum hætti: Með því að rekja guðfræði Schleiermachers í upphafi nítjándu aldar annars vegar og hins vegar með því að draga upp mynd af prestinum í samfélagi líðandi stundar og firringu hans frá hinum eiginlegu, mótandi straumum samfélagsins.

Hann nefnir Schleiermacher áhrifamesta guðfræðing mótmælenda á nítjándu öld . Eitt mikilvægasta atriðið í umfangsmikilli guðfræði hans að mati Grafs var áherslan á prestinn sem menntanna mann. Hann hefði hlotið víðtæka og haldgóða menntun sem gæfi honum umboð til að láta til sín taka í samfélaginu, hann væri þess umkominn að vera leiðtogi fólksins. Hlutverk hans var að gera frelsandi boðskap fagnaðarerindisins raunhæfan og trúverðugan í samfélaginu, í menningarlífinu, í kirkjunni. Hann yrði að vera hæfur til að túlka trúarlegar spurningar samtímans og setja þær í sitt eiginlega samhengi og fjalla um þær svo að gagn væri að, ekki með yfirborðslegum hætti sem engum gagnaðist. Þessi menntunarmiðaða prestsímynd var lengi vel hin eiginlega ímynd prestsins í þýsku samfélagi, þá horfðu menn til prestsins með eftirvæntingu því að hann stóð undir væntingum. Í samtímanum hefur þessi staða hans gjörbreyst.

Nú hafa margir prestar tileinkað sér það sem Schleiermacher varaði við: að rugla saman móral og trú: hlutverk kirkjunnar er ekki að stýra siðum og siðgæði samfélagsins heldur að höfða til dýpri þátta í tilvist mannsins: til trúarinnar. Prestar ættu að vara sig á því að gera sjálfa sig að siðferðispostulum samfélagsins.

Hempa og pípukragi bíða prestsins

Graf gerir hér einnig að umtalsefni embættisklæðnað prestanna og ekki síður biskupanna þar sem hann greinir ákveðna firringu frá eðli hins lútherska embættis. Svarta hempan með hvítum spöðum eða hvítum pípukraga á sér rætur í klæðnaði háskólamanna á miðöldum og hefur allt fram undir það síðasta verið einkenni mótmælendaprestsins – og er vissulega enn.

Vegna áhrifa frá helgisiðahreyfingunni á meginlandinu á þriðja áratug tuttugustu aldar, sem var „mjög sterklega mótuð af rómversk-kaþólskum sjónarmiðum“ (109), fór að bera á kaþólskum áhrifum á búnað presta í helgihaldinu.

Kjarni málsins í úttekt Grafs á þessu máli er sá að hempan undirstrikar menntunaráherslu embættisins, hinn litríki skrúði kaþólsku prestanna undirstrikar hins vegar að þeir eru öðru fremur helgisiðameistarar sem þjóna við helgihaldið, þeir kynna sig ekki í búnaði sínum sem menn þekkingar og visku. Honum óar þekkingarskorturinn á uppruna hempunnar og ekki síður blinda margra á tákngildið sem felst í búnaði prestsins (109).

Aftur á móti var menntaþátturinn ekki eina atriðið sem gilti um ímynd lútherska prestsins á upplýsingartímanum. Með heittrúarstefnunni (píetismanum) kom sú ímynd fram að presturinn þyrfti ekki að vera sterkur á svellinu í samfélaginu almennt og menningarlífinu heldur ætti hann að vera „réttu megin“ í baráttu kirkjunnar og heimsins. Íhaldssöm guðfræði píetismans gerði þá kröfu til prestsins að hann héldi sig réttu megin við línuna, þ.e.a.s. utan menningarlífsins en innan kirkjunnar, menntun hans átti að birtast í þekkingu á Biblíunni og einfaldri útleggingu hennar. Miðlunarguðfræði Schleiermachers var hér lítils megnug, hin íhaldssama guðfræði sem oft einkenndist af bókstafstrú og litlu trausti til almennrar menntunar varð víða sterkari. En Graf fylkir sér í hinn fjölmenna aðdáendahóp kringum Schleiermacher, sem var reyndar alinn upp og mótaður af píetistum og mat ávallt þá sterku trú hjartans sem þar var lögð áhersla á þótt afstaða hans til menningar og menntunar breyttist snemma.

Breyttar aðstæður prestsins

Báðar stóru kirkjudeildirnar í Þýskalandi, mótmælendakirkjan og rómversk-kaþólska kirkjan, létu gera umfangsmiklar skoðanakannanir á sjöunda áratugnum um viðhorf fólks til trúar og kirkju. Beitt var nýjum aðferðum markaðsfræðanna til að gera slíkar kannanir, meta þær og bregðast við niðurstöðum þeirra. Það sem mönnum kom talsvert á óvart var hversu presturinn sjálfur skipti miklu máli, mótmælendur upplifðu kirkjuna gegnum sóknarprestinn. Í ítarlegri skoðanakönnun árið 2008 kom fram að flestir báru mesta virðingu fyrir læknisstarfinu en í öðru sæti var presturinn. Væntingar til prestsins snúast um þetta: fólk gerir sér vonir um að geta rætt við hann um mikilvæg mál í tengslum við embættisverk sem hann framkvæmir, einkum á það við um útfarir, það býst við miklu af honum á erfiðum stundum í lífinu, t.d. þegar dauða náins ættingja ber að höndum, það býst við sálgæslu, og fólk er fúst til að taka við honum inn á sitt eigið heimili. Í því efni sér Graf húsvitjunarhefðina enn lifandi undir niðri. Aðgangur prestsins að heimilum manna er opinn, þar nýtur hann trausts sem fáir njóta, fyrir utan nána ættingja og vini er heimili manna opið fyrir örfáum, m.a. læknum og iðnaðarmönnum þegar brýn þörf krefur. Hvað prestinn varðar gegnir hér öðru máli, hans er vænst og af heimsókn hans búast menn við miklu. Það les Graf út úr þessari skoðanakönnun og öðrum sambærilegum (57).

Margt sýnir að harðir árekstrar á vettvangi kirkjunnar, m.a. milli sóknarnefndafólks og presta, hafi færst í vöxt á undanförnum árum. Prestar kvarta í auknum mæli um spennu og árekstra milli embættisins og einkalífsins. Og í reynd er erfiðara fyrir presta en aðra háskólamenntaða menn að finna frítíma fyrir einkalífið, skilnaðartíðni meðal presta er með því hæsta þegar litið er á skilnaði háskólamenntaðs fólks í Þýskalandi. Margir prestar kvarta um viðvarandi streitu í starfi og mikla tímapressu. Í mörgum sambandslandskirkjum í Þýskalandi sýna tölur að yfir tuttugu prósent presta þjást af streitusjúkdómum. Margir vilja ekki viðurkenna þennan vanda, sem á reyndar einnig við um aðra starfsmenn safnaðanna. Hvað prestana varðar er talið að illa skilgreint starf þeirra í nútímasamfélagi sé ein ástæðan , fyrir vikið verður presturinn – einkum nýliðar – óöruggur og leggur á sig óeðlilega mikla vinnu sem verður honum um megn (60).

Nú reynir Graf að finna ástæðurnar fyrir þessum breyttu aðstæðum prestsins og þar með kirkjunnar. Hann telur hér koma fram sjónarmið sem landlægt sé meðal presta og felst í afneitun á því að presturinn eigi styrk sinn í menntun sinni. Í samfélaginu fer styrkur hverrar stofnunar og hvers fyrirtækis eftir því hve vel menntaðir starfskraftarnir eru, þeir ákvarða styrk stofnunarinnar og fyrirtækisins, á menntun þeirra og hæfileikum veltur í reynd allt. Þegar presturinn hleypur í flæmingi undan því að hann er guðfræðingur og hefur ekki þann metnað að sýna hvað í því felst er voðinn vís. Þá er hann á flæðiskeri staddur. Í menntuðu samfélagi vex einnig vitundin um að kirkjan á sér þá sögu og hefð í vestrænu samfélagi að þangað væri eitthvað að sækja – en hvað er það, hvers virði er það? Presturinn er maðurinn sem á að svara þeirri spurningu í orði og verki. „Það heyrir nú til boðskiptastíl guðfræðinga að líta svo á að hinn menntaði kristni maður sé fortíðarfyrirbæri“ (63), segir Graf.

Prédikunarstóll Keflavíkurkirkju

Hann metur það svo að boðunin af prédikunarstólnum sé iðulega barnaleg og skorti eðlilegan og heilbrigðan metnað, boðskiptin séu á barnalegu nótunum, boðskapurinn virðist beinast að börnum og þeim sem hugsa barnalega og gert er ráð fyrir að fólk hugsi barnalega þegar það er komið í kirkjuna. Tilfinningar eiga vissulega heima á prédikunarstólnum og það er ekkert rangt við að prédikarinn tali til hjartans nema síður sé. Graf telur hins vegar að þessar nýju áherslur barnalegs trúarskilnings veki ekki traust í samfélagi sem er almennt talið vel menntað og mótað af gagnrýninni hugsun. Lágkúra og metnaðarleysi prédikara sem lætur sér nægja boðskap um að vera „góð hvert við annað“ (64) og flýr síðan með einum eða öðrum hætti í faðm þeirra, sem hugsa eins og hann, er ekki til þess fallinn að vekja trúnað þeirra sem láta sér annt um mannúðleg gildi og baráttu fyrir góðum málstað í samfélaginu.

Graf rekur því vanda prestsins í starfi sínu til hans eigin klípu, firringar hans frá menningu orðsins, frá metnaðarfullri prédikun og löngun til að hafa mótandi áhrif á samfélagið. Flóttinn er sjálfsflótti og jafnframt flótti frá því sem gefur starfi hans gildi.

Samfélag án trúar?

Graf telur það ekki standast sem guðfræðingar hafi langtímum saman haldið fram og gengið út frá, að samtíminn einkennist af „trúarbragðaleysi“ (Dietrich Bonhoeffer, 137) . Reynslan hafi sýnt annað þótt hinar hefðbundnu stofnanir trúarbragðanna, m.a. kirkjurnar, hafi að verulegu leyti lokið hlutverki sínu sem grundvallarstoðir samfélagsins. Þau umskipti hafa hins vegar hugsanlega haft í för með sér breytingar á samfélagslegri birtingarmynd og hlutverki trúarinnar. Hann lítur svo á að fólk sé ekki firrtara frá trúnni nú en 1789, 1848 eða 1918/19.

Vandinn við að túlka merkingu tilvistarinnar og þar með eigin lífs er til staðar í óbreyttri mynd, einnig nútímamaðurinn verður að fást við óvissu lífsins. Sé það svo að maðurinn bregðist hér við með trúnni og trúarbrögðunum þá mun trúin ekki síður en áður setja svip sinn á líf og samfélag mannsins á 21. öld. Enginn getur sýnt fram á að trúin hverfi úr veruleika mannsins þótt félagslegar aðstæður breytist.

Framtíðin mun því eftir öllum sólarmerkjum að dæma einkennast af sömu grundvallarspurningum mannsins og hafa einkennt tilvist hans á öllum tímum. Spurningin er hins vegar hvort hinar hefðbundnu stórkirkjur muni koma til móts við manninn í þeim vanda í framtíðinni sem hingað til. Graf spyr einnig í þessu samhengi hvort kirkjurnar og embættismenn þeirra hafi yfirhöfuð áhuga á að fást við hinar trúarlegu spurningar sem bærast með manninum og birtast með óvæntum hætti á nýjum tímum (137).

Klukknaport Bæjarkirkju í Borgarfirði

Undir lok bókarinnar ítrekar hann það sjónarmið sem hann hafði öðru hvoru fengist við í bókinni að hin mikla einstaklingshyggja samtímans hafi einnig haft áhrif á veruleika trúarinnar, áherslan á einstaklingshyggju hafi gert það að verkum að margir hafi sett spurningarmerki við þá trú sem hefur allar aldir talið sig þurfa á samfélagi að halda, á söfnuði, á kirkjustofnun, á siðum og venjum sem hafi síðan mótað líf einstaklinga og fjölskyldna, atvinnulíf og samfélag. Mun einstaklingshyggjan hafa afgerandi áhrif á samfélagsmynd trúarinnar, þar með á stórkirkjurnar?

En ekki aðeins einstaklingshyggjan heldur einnig þemað „kynslóðir“ (189) er áhyggjuefni stóru kirkjudeildanna tveggja. Bæði mótmælendakirkjan og rómversk-kaþólska kirkjan í Þýskalandi óttast greinilega niðurstöður skoðanakannana sem sýna afgerandi mismunandi viðhorf kynslóðanna. Í austurhluta Þýskalands, þar sem heilu kynslóðirnar voru markvisst aldar upp í guðleysi, er 43 prósent skráðra í báðar kirkjur yfir sextugu en aðeins tólf prósent undir þrítugu. Meirihluti þeirra sem er yfir sextugu væntir leiðbeiningar kirknanna í glímunni við tilgang og merkingu en aðeins fjórðungur þeirra sem þrítugir eru. Nærri helmingur þrítugra telur trúna vera úrelta en fjórðungur sama aldurshóps segist vera trúaður. Eitt af því sem kemur fram er munur á lífsviðhorfum og lífsstíl: sá hópur sem telur sig trúaðan er meðvitaður um lífsstíl sinn, um samfélagslega ábyrgð og almennt um samfélagið (189).

Lokaorð

Nú mætti velta því fyrir sér að hve miklu leyti hin nýja bók eftir Friedrich Wilhelm Graf á erindi til íslenskrar kirkju og kristni. Spyrja mætti hvort lýsing Grafs eigi að einhverju leyti við um íslenska presta. Er guðfræði þeirra á þeim sömu villigötum og Graf telur guðfræði þýskra presta vera? Eru þeir á flótta undan guðfræðinni inn í sýndarheim persónulegrar sjálfsdýrkunar sem veitir þeim það sem þeir öðlast ekki í starfi sem þeir vilja ekki sinna eins og á að sinna? Eða eru þeir bældir og óttaslegnir í kunnáttuleysi sínu við að hugsa sjálfstætt um guðfræði, eru þeir þvingaðir af guðfræði sem verður að vera annað hvort „rétt“ eða „röng“?

Námið felur í sér mótun sem gefur honum djörfung til að hugsa sjálfstætt og taka þátt í hinni samfélagslegu umræðu, vera þátttakandi, ekki aðeins innávið heldur einnig og öðru fremur útávið. Sá sem hefur lært að hugsa sjálfstætt og standa fyrir máli sínu, iðka hina guðfræðilegu rökræðu á vitsmunalegan hátt og miðla inntaki guðfræðinnar og þar með trúarinnar til samfélags sem hugsar einatt á öðrum nótum er vissulega illa settur og sú kirkja sem hann þjónar sömuleiðis.

Nú kynni einhver að spyrja hvernig menntun presta í Þýskalandi væri háttað. Lágmarksmenntun er fimm ára háskólanám sem lýkur með „fyrra guðfræðiprófi“ og síðan tveggja ára akademískt nám við prestaskóla eða prédikaraseminar sem lýkur með „síðara guðfræðiprófi“, presturinn hefur vart fyrr tekið við embætti en hann gerir sér grein fyrir því að hann er kominn inn í kerfi sem gefur ekkert eftir í símenntun. Samt er staðan eins og hún er. Í þessu samhengi er samt best að tala sem minnst um þær kröfur sem íslenska þjóðkirkjan gerir til sinna presta.

Graf vekur spurningar sem hljóta að kalla á umhugsun og umræður. Því marki hefur hann reyndar náð, fyrir það á hann þakkir skildar. Eftir stendur spurningin um hæfni prestsins til að sinna embætti sínu þannig að það verði honum sjálfum til farsældar og þá um leið kirkjunni sem hann þjónar.

 

(Grein þessi birtist fyrst í Glímunni – óháðu tímariti um guðfræði og samfélag, 8. árg., 2011, bls. 217-229).

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir