Stefán Magnússon, bóndi og  kirkjuþingsmaður

Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus

Biskupskosning fer fram á næsta ári eins og kunnugt er. Eflaust eru einhverjir farnir að leiða hugann að því að gefa kost á sér til þessa starfs. Enn aðrir spyrja hverjir hafi atkvæðisrétt í þeim kosningum.
Það eru ýmsar leiðir færar til að kjósa biskup Íslands. Þess vegna er sú spurning áleitin hvort núverandi fyrirkomulag við biskupskosningu sé lýðræðislegt og ef ekki hvort úr því þurfi  ekki að bæta. Og þá hvernig?
Aftur setjast þeir Stefán Magnússon og Hjalti Hugason við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og velta nú fyrir sér hvernig best sé að haga biskupskosningum:

Það fylgir því vegsemd og vandi að vera þjóðkirkja. Allt fram til gildistöku nýju þjóðkirkjulaganna var kirkjunni að mestu eftirlátið að útfæra sjálf hvað í því fælist að vera þjóðkirkja. Í nýju lögunum eru henni aftur á móti lagðar nokkrar grunnskyldur á herðar. Var það raunar nauðsynlegt vegna þess mikla sjálfræðis sem lögin tryggðu henni hvað varðar stjórn og starfshætti að öðru leyti. Í 3. gr. laganna segir m.a.: „Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.“ Í þessu felst að þjóðkirkjan er ekki lokaður félagsskapur heldur á að vera kirkja allra landsmanna í þeim mæli sem hvert og eitt kýs. Þá segir í 4. gr. laganna:

„Þjóðkirkjan skal í starfsháttum sínum hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis.“

Þetta á að vera sjálfur gangráðurinn í stjórnkerfi og ákvarðanatöku kirkjunnar. Að öðru leyti er þjóðkirkjan að mestu sjálfráð um hvernig hún hagar starfi sínu.

Helst reynir á þessar kröfur við tvenns konar kosningar í kirkjunni eða kosningar til biskups og kirkjuþings. Við félagar höfum áður skrifað á þessum vettvangi um kirkjuþingskosningarnar.[1] Nú viljum við að gefnu tilefni beina athyglinni að biskupskosningum í framhaldi af skrifum um embættið sem slíkt.[2] Kirkjuþing og biskupsembættið mynda tvo ása í yfirstjórn kirkjunnar. Af þeirri ástæðu virðist æskilegt að  haga biskups- og kirkjuþingskosningum með eins líkum hætti og mögulegt er. Þá mundu samræmdar reglur einfalda framkvæmd og utanumhald kosninga.

Samlyndi í kirkjunni

Líta má svo á að með kröfunni um að þjóðkirkjan gæti lýðræðis og jafnræðis í starfsháttum sínum sé löggjafinn að nútíma- og veraldarvæða kirkjuna, steypa hana í sama mót og ríkisvaldið og/eða samfélagið í landinu en þetta eru tvær grunnstoðir þess.

Á þessu máli er þó allt önnur hlið sem snýr að kirkjunni sjálfri og innsta eðli hennar og kemur skýrast fram í mótmælendakirkjunum svokölluðu sem fram komu á 16. öld og síðar. Sé þessi póll tekinn í hæðina má líta svo á að lýðræðiskrafan hvíli á þeirri eldgömlu hugsjón að samlyndi eða samstaða (consensus) skuli ríkja í kirkjunni en jafnræðiskrafan byggist á að ekki sé munur á vígðu fólki og óvígðu í kirkjunni nema hvað hlutverk áhrærir. Með kirkjulegum kosningum skal sem sé leitað að sem breiðustum samnefnara lengst innan úr neðri lögum kirkjunnar. Þær eiga því  ekki að kalla fram skautun eða meirihlutaræði eins og vel getur þrifist innan lýðræðisins. — Í kirkjulegum kosningum á sem sé ekki að takast á um völd heldur eiga þær að vera aðferð kirkjunnar til að kalla fólk til þjónustu (sbr. vocatio) hvort heldur sem er á kirkjuþingi eða stóli biskups. Ekkert okkar sem kallað er til sérstaks hlutverk í kirkjunni má því fara með hlutverk sitt sem vald eða vegsemd því síður eign. Við erum fyrst og fremst kölluð til þjónustu hvert á sínu sviði.

Hver eiga að kjósa biskup?

Samkvæmt núgildandi reglum um kosningu biskups (4. gr.) eiga vígðir þjónar — biskup, vígslubiskupar, prestar og djáknar — í föstu og launuðu starfi kosningarrétt við biskupskjör, sem og aðal- og varamenn í sóknarnefndum. Til viðbótar skulu sóknarnefndir velja allt að sjö kjörfulltrúa úr hverju prestakalli. Loks hefur óvígt kirkjuþingsfólk atkvæðisrétt hafi það hann ekki þegar vegna setu í sóknarnefnd.

Með frekjulegu orðalagi má líta á þennan hóp sem kirkjueigendafélag (sbr. flokkseigendafélög). Eins má benda á að þessi hópur myndi kjarnann í kirkjustarfi í landinu og að þau sem hann skipa hafi helst forsendur til að standa málefnalega að biskupskjöri.

Hvernig svo sem á er litið er það þó mjög takmarkaður hópur sem tekur þátt í kjöri eða köllun biskups. Fulltrúalýðræðið er því mjög hreinræktað í kirkjunni og flest þjóðkirkjufólk útilokað frá þátttöku í kosningum. Kosningar í þjóðkirkjunni eru því fremur það sem kallað var „kanonískar“ hér áður fyrr og mætti þýða sem kirkju- eða jafnvel klerklegar. Hafa má mismunandi skoðanir um hvort slíkar kosningar fullnægi skilyrðum þjóðkirkjulaganna um jafnræði og og lýðræði eða ekki.

Fram hafa komið hugmyndir bæði á kirkjuþingi og utan þess um að opna biskupskosningar til mikilla muna jafnvel svo að allt þjóðkirkjufólk (væntanlega yfir ákveðnum aldri) fái atkvæðisrétt.[3] Vel kemur til álita að þróa kosningarnar í átt til beinna lýðræðis. Það þarf þó að gera að vel yfirveguðu ráði og væntanlega í einhverjum áföngum. Breyting í þessa veru koma því tæpast til álita við komandi kosningar.

Það virðist samt spennandi hugmynd að öllu þjóðkirkjufólki sem komið er á kosningaaldur í almennum kosningum væri gefinn kostur á að taka þátt biskupskjöri. Yrði sú leið farin yrði þó að kjósa í fleiri en einni umferð til að koma í veg fyrir að dreifing atkvæða yrði óæskilega mikil og að einhver hreppi embættið með fáum atkvæðum og/eða naumum atkvæðamun. Biskupskjör þarf að vera afgerandi. Mætti hugsa sér að kjörmannahópur í núverandi eða breyttri mynd kysi í fyrri umferð en síðan yrði sem allra fyrst efnt til almennra rafrænna kosninga milli t.d. þriggja efstu kandídatanna sem stæði í mjög skamman tíma. Þannig þyrfti verulegan kirkjulegan áhuga og árvekni til að ná að greiða atkvæði. Ef litið er á kosninguna sem kirkjulega köllun hlýtur að vera keppikeflið að ná frekar til sem flests fólks sem býr að vitund fyrir kirkjunni  og er vakandi fyrir málefnum hennar en þeirra sem láta sig hana litlu skipta og myndu tæpast kjósa nema til að láta undan smölun.

Væri þessi eða önnur svipuð leið farin mætti líta á fyrri umferðina sem tilnefningarferli líkt því sem núgildandi reglur gera ráð fyrir.

Ein eða tvær kjördeildir?

Í kosningum til kirkjuþings er kosið í tveimur kjördeildum þar sem vígðir þjónar kjósa sína fulltrúa og óvígt fólk sína. Raunar gildir sama skipting við biskupskosningar þótt öðru vísi sé um hnútana búið. Samkvæmt 11. gr. reglna um biskupskjör hafa vígðir kjörmenn (sjá framar) „[…] rétt á að tilnefna allt að þrjá einstaklinga sem uppfylla skilyrði […] til kjörs biskups Íslands.“ Að því loknu skal kjörstjórn gangast fyrir hinum eiginlegu biskupskosningum í hópi allra kjörmanna þar sem þau þrjú sem flestar tilnefningar hljóta eru í framboði (14. gr.). Vígðir kjörmenn kjósa því í tveimur umferðum þar sem sú fyrri er óbundin, þ.e. tilnefna má hvert sem er úr hópi kjörgengra. Í síðari umferð koma óvígðir kjörmenn inn og taka þátt í bundinni kosningu. Kjördeildirnar virðast því vera tvær og skýrt aðgreindar.

Spyrja má hvort málefnaleg rök séu fyrir þessari tvískiptingu hvort sem um biskupskosningar eða kjör til kirkjuþings er að ræða. E.t.v. má benda á að prestar og djáknar eigi ríkari hagsmuna að gæta við biskupskjör en almennt þjóðkirkjufólk þar sem biskup er yfirmaður þeirra. Á móti kemur að biskup á að vera biskup allrar kirkjunnar og að í lútherskri kirkju er ekki eðlismunur á stöðu vígðra og óvígðra þótt verkaskipting sé vissulega til staðar.

Þá kynni einhver að vilja benda á að í biskupskjöri þurfi að taka tillit til fjölmargra faglegra þátta — þ.e. kirkjulegra og guðfræðilegra — og í því sambandi hljóti rödd fagfólksins, presta og djákna, að vega þyngra en mat almenns þjóðkirkjufólks. Í því sambandi verður þó að gæta þess að tilnefningarferli eins og starfsreglurnar gera ráð fyrir er ekki skilvirk eða örugg leið til að tryggja að faglegra sjónarmiða sé gætt. Þar geta önnur og næsta persónuleg sjónarmið ráðið allt eins miklu. Eigi faglegt mat að eiga sér stað við biskupskjör verður að koma því á með allt öðrum, gagnsærri og skilvirkari hætti.

Æskilegt er að fyrirkomulagi biskupskjörs verði breytt fyrir næstu kosningar með það fyrir augum að auka jafnræði kjörmanna. Í því efni mætti endurvekja tillögu sem sem lögð var fram á kirkjuþingi í mars s.l. (sjá 44. þingmál) í óbreyttri eða breyttri mynd. Samkvæmt henni yrði horfið frá tilnefningum. Þess í stað yrði öllum sem kjörgeng eru frjálst að gefa kost á sér svo fremi að þau hefðu tilskilinn fjölda meðmælenda úr röðum kjörmanna. Sjálfgert væri að krefjast að meðmælendur kæmu bæði úr hópi vígðs og óvígðs fólks. Önnur leið væri að allir kjörmenn fengju tilnefningarrétt. Jafngildir það raunar að kosið yrði í tveimur umferðum þar sem sú fyrri væri óbundin (sjá framar) en sú síðar bundin þar sem aðeins þau þrjú er flestar tilnefningar hlytu væru í kjöri.

Að lokum

Áður en gengið verður til biskupskosninga í mars á næsta ári á kirkjuþing eftir að koma saman a.m.k. til einnar fundalotu. Æskilegt er að það tækifæri verði notað til að fara ofan í saumana á starfsreglum um kjör biskups. Þar ber að gæta að eftirfarandi:

Að reglurnar samræmist vel ákvæðum laga um að þjóðkirkjan hafi í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis.

Að reglurnar samræmist vel lútherskri guðfræði sem ekki gerir annan mun á vígðum og óvígðum en þann sem leiðir af hlutverkaskiptingu þeirra í milli.

Finnist svo einhverjum að endurskoðaðar reglurnar tryggi ekki að faglegra, þ.e. guðfræðilegra, kirkjulegra og trúarlegra sjónarmiða sé gætt ber þeim hinum sömu að sjá til þess að ákvæði þar að lútandi verði færð inn í reglurnar. Í núgildandi reglum er eins og fram er komið ekkert sem stuðlar að slíku mati.

Tilvísanir:

[1] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Kirkjuþing og lýðræðið“, Kirkjubladid.is, sótt 4. september 2023.

[2] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“, Kirkjubladid.is, sótt 4. september 2023.

[3] Sjá t.d. Ingi Bogi Bogason, „Færum biskupskjör til fólksins“, Mbl. 23. febrúar 2023.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Stefán Magnússon, bóndi og  kirkjuþingsmaður

Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus

Biskupskosning fer fram á næsta ári eins og kunnugt er. Eflaust eru einhverjir farnir að leiða hugann að því að gefa kost á sér til þessa starfs. Enn aðrir spyrja hverjir hafi atkvæðisrétt í þeim kosningum.
Það eru ýmsar leiðir færar til að kjósa biskup Íslands. Þess vegna er sú spurning áleitin hvort núverandi fyrirkomulag við biskupskosningu sé lýðræðislegt og ef ekki hvort úr því þurfi  ekki að bæta. Og þá hvernig?
Aftur setjast þeir Stefán Magnússon og Hjalti Hugason við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og velta nú fyrir sér hvernig best sé að haga biskupskosningum:

Það fylgir því vegsemd og vandi að vera þjóðkirkja. Allt fram til gildistöku nýju þjóðkirkjulaganna var kirkjunni að mestu eftirlátið að útfæra sjálf hvað í því fælist að vera þjóðkirkja. Í nýju lögunum eru henni aftur á móti lagðar nokkrar grunnskyldur á herðar. Var það raunar nauðsynlegt vegna þess mikla sjálfræðis sem lögin tryggðu henni hvað varðar stjórn og starfshætti að öðru leyti. Í 3. gr. laganna segir m.a.: „Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.“ Í þessu felst að þjóðkirkjan er ekki lokaður félagsskapur heldur á að vera kirkja allra landsmanna í þeim mæli sem hvert og eitt kýs. Þá segir í 4. gr. laganna:

„Þjóðkirkjan skal í starfsháttum sínum hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis.“

Þetta á að vera sjálfur gangráðurinn í stjórnkerfi og ákvarðanatöku kirkjunnar. Að öðru leyti er þjóðkirkjan að mestu sjálfráð um hvernig hún hagar starfi sínu.

Helst reynir á þessar kröfur við tvenns konar kosningar í kirkjunni eða kosningar til biskups og kirkjuþings. Við félagar höfum áður skrifað á þessum vettvangi um kirkjuþingskosningarnar.[1] Nú viljum við að gefnu tilefni beina athyglinni að biskupskosningum í framhaldi af skrifum um embættið sem slíkt.[2] Kirkjuþing og biskupsembættið mynda tvo ása í yfirstjórn kirkjunnar. Af þeirri ástæðu virðist æskilegt að  haga biskups- og kirkjuþingskosningum með eins líkum hætti og mögulegt er. Þá mundu samræmdar reglur einfalda framkvæmd og utanumhald kosninga.

Samlyndi í kirkjunni

Líta má svo á að með kröfunni um að þjóðkirkjan gæti lýðræðis og jafnræðis í starfsháttum sínum sé löggjafinn að nútíma- og veraldarvæða kirkjuna, steypa hana í sama mót og ríkisvaldið og/eða samfélagið í landinu en þetta eru tvær grunnstoðir þess.

Á þessu máli er þó allt önnur hlið sem snýr að kirkjunni sjálfri og innsta eðli hennar og kemur skýrast fram í mótmælendakirkjunum svokölluðu sem fram komu á 16. öld og síðar. Sé þessi póll tekinn í hæðina má líta svo á að lýðræðiskrafan hvíli á þeirri eldgömlu hugsjón að samlyndi eða samstaða (consensus) skuli ríkja í kirkjunni en jafnræðiskrafan byggist á að ekki sé munur á vígðu fólki og óvígðu í kirkjunni nema hvað hlutverk áhrærir. Með kirkjulegum kosningum skal sem sé leitað að sem breiðustum samnefnara lengst innan úr neðri lögum kirkjunnar. Þær eiga því  ekki að kalla fram skautun eða meirihlutaræði eins og vel getur þrifist innan lýðræðisins. — Í kirkjulegum kosningum á sem sé ekki að takast á um völd heldur eiga þær að vera aðferð kirkjunnar til að kalla fólk til þjónustu (sbr. vocatio) hvort heldur sem er á kirkjuþingi eða stóli biskups. Ekkert okkar sem kallað er til sérstaks hlutverk í kirkjunni má því fara með hlutverk sitt sem vald eða vegsemd því síður eign. Við erum fyrst og fremst kölluð til þjónustu hvert á sínu sviði.

Hver eiga að kjósa biskup?

Samkvæmt núgildandi reglum um kosningu biskups (4. gr.) eiga vígðir þjónar — biskup, vígslubiskupar, prestar og djáknar — í föstu og launuðu starfi kosningarrétt við biskupskjör, sem og aðal- og varamenn í sóknarnefndum. Til viðbótar skulu sóknarnefndir velja allt að sjö kjörfulltrúa úr hverju prestakalli. Loks hefur óvígt kirkjuþingsfólk atkvæðisrétt hafi það hann ekki þegar vegna setu í sóknarnefnd.

Með frekjulegu orðalagi má líta á þennan hóp sem kirkjueigendafélag (sbr. flokkseigendafélög). Eins má benda á að þessi hópur myndi kjarnann í kirkjustarfi í landinu og að þau sem hann skipa hafi helst forsendur til að standa málefnalega að biskupskjöri.

Hvernig svo sem á er litið er það þó mjög takmarkaður hópur sem tekur þátt í kjöri eða köllun biskups. Fulltrúalýðræðið er því mjög hreinræktað í kirkjunni og flest þjóðkirkjufólk útilokað frá þátttöku í kosningum. Kosningar í þjóðkirkjunni eru því fremur það sem kallað var „kanonískar“ hér áður fyrr og mætti þýða sem kirkju- eða jafnvel klerklegar. Hafa má mismunandi skoðanir um hvort slíkar kosningar fullnægi skilyrðum þjóðkirkjulaganna um jafnræði og og lýðræði eða ekki.

Fram hafa komið hugmyndir bæði á kirkjuþingi og utan þess um að opna biskupskosningar til mikilla muna jafnvel svo að allt þjóðkirkjufólk (væntanlega yfir ákveðnum aldri) fái atkvæðisrétt.[3] Vel kemur til álita að þróa kosningarnar í átt til beinna lýðræðis. Það þarf þó að gera að vel yfirveguðu ráði og væntanlega í einhverjum áföngum. Breyting í þessa veru koma því tæpast til álita við komandi kosningar.

Það virðist samt spennandi hugmynd að öllu þjóðkirkjufólki sem komið er á kosningaaldur í almennum kosningum væri gefinn kostur á að taka þátt biskupskjöri. Yrði sú leið farin yrði þó að kjósa í fleiri en einni umferð til að koma í veg fyrir að dreifing atkvæða yrði óæskilega mikil og að einhver hreppi embættið með fáum atkvæðum og/eða naumum atkvæðamun. Biskupskjör þarf að vera afgerandi. Mætti hugsa sér að kjörmannahópur í núverandi eða breyttri mynd kysi í fyrri umferð en síðan yrði sem allra fyrst efnt til almennra rafrænna kosninga milli t.d. þriggja efstu kandídatanna sem stæði í mjög skamman tíma. Þannig þyrfti verulegan kirkjulegan áhuga og árvekni til að ná að greiða atkvæði. Ef litið er á kosninguna sem kirkjulega köllun hlýtur að vera keppikeflið að ná frekar til sem flests fólks sem býr að vitund fyrir kirkjunni  og er vakandi fyrir málefnum hennar en þeirra sem láta sig hana litlu skipta og myndu tæpast kjósa nema til að láta undan smölun.

Væri þessi eða önnur svipuð leið farin mætti líta á fyrri umferðina sem tilnefningarferli líkt því sem núgildandi reglur gera ráð fyrir.

Ein eða tvær kjördeildir?

Í kosningum til kirkjuþings er kosið í tveimur kjördeildum þar sem vígðir þjónar kjósa sína fulltrúa og óvígt fólk sína. Raunar gildir sama skipting við biskupskosningar þótt öðru vísi sé um hnútana búið. Samkvæmt 11. gr. reglna um biskupskjör hafa vígðir kjörmenn (sjá framar) „[…] rétt á að tilnefna allt að þrjá einstaklinga sem uppfylla skilyrði […] til kjörs biskups Íslands.“ Að því loknu skal kjörstjórn gangast fyrir hinum eiginlegu biskupskosningum í hópi allra kjörmanna þar sem þau þrjú sem flestar tilnefningar hljóta eru í framboði (14. gr.). Vígðir kjörmenn kjósa því í tveimur umferðum þar sem sú fyrri er óbundin, þ.e. tilnefna má hvert sem er úr hópi kjörgengra. Í síðari umferð koma óvígðir kjörmenn inn og taka þátt í bundinni kosningu. Kjördeildirnar virðast því vera tvær og skýrt aðgreindar.

Spyrja má hvort málefnaleg rök séu fyrir þessari tvískiptingu hvort sem um biskupskosningar eða kjör til kirkjuþings er að ræða. E.t.v. má benda á að prestar og djáknar eigi ríkari hagsmuna að gæta við biskupskjör en almennt þjóðkirkjufólk þar sem biskup er yfirmaður þeirra. Á móti kemur að biskup á að vera biskup allrar kirkjunnar og að í lútherskri kirkju er ekki eðlismunur á stöðu vígðra og óvígðra þótt verkaskipting sé vissulega til staðar.

Þá kynni einhver að vilja benda á að í biskupskjöri þurfi að taka tillit til fjölmargra faglegra þátta — þ.e. kirkjulegra og guðfræðilegra — og í því sambandi hljóti rödd fagfólksins, presta og djákna, að vega þyngra en mat almenns þjóðkirkjufólks. Í því sambandi verður þó að gæta þess að tilnefningarferli eins og starfsreglurnar gera ráð fyrir er ekki skilvirk eða örugg leið til að tryggja að faglegra sjónarmiða sé gætt. Þar geta önnur og næsta persónuleg sjónarmið ráðið allt eins miklu. Eigi faglegt mat að eiga sér stað við biskupskjör verður að koma því á með allt öðrum, gagnsærri og skilvirkari hætti.

Æskilegt er að fyrirkomulagi biskupskjörs verði breytt fyrir næstu kosningar með það fyrir augum að auka jafnræði kjörmanna. Í því efni mætti endurvekja tillögu sem sem lögð var fram á kirkjuþingi í mars s.l. (sjá 44. þingmál) í óbreyttri eða breyttri mynd. Samkvæmt henni yrði horfið frá tilnefningum. Þess í stað yrði öllum sem kjörgeng eru frjálst að gefa kost á sér svo fremi að þau hefðu tilskilinn fjölda meðmælenda úr röðum kjörmanna. Sjálfgert væri að krefjast að meðmælendur kæmu bæði úr hópi vígðs og óvígðs fólks. Önnur leið væri að allir kjörmenn fengju tilnefningarrétt. Jafngildir það raunar að kosið yrði í tveimur umferðum þar sem sú fyrri væri óbundin (sjá framar) en sú síðar bundin þar sem aðeins þau þrjú er flestar tilnefningar hlytu væru í kjöri.

Að lokum

Áður en gengið verður til biskupskosninga í mars á næsta ári á kirkjuþing eftir að koma saman a.m.k. til einnar fundalotu. Æskilegt er að það tækifæri verði notað til að fara ofan í saumana á starfsreglum um kjör biskups. Þar ber að gæta að eftirfarandi:

Að reglurnar samræmist vel ákvæðum laga um að þjóðkirkjan hafi í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis.

Að reglurnar samræmist vel lútherskri guðfræði sem ekki gerir annan mun á vígðum og óvígðum en þann sem leiðir af hlutverkaskiptingu þeirra í milli.

Finnist svo einhverjum að endurskoðaðar reglurnar tryggi ekki að faglegra, þ.e. guðfræðilegra, kirkjulegra og trúarlegra sjónarmiða sé gætt ber þeim hinum sömu að sjá til þess að ákvæði þar að lútandi verði færð inn í reglurnar. Í núgildandi reglum er eins og fram er komið ekkert sem stuðlar að slíku mati.

Tilvísanir:

[1] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Kirkjuþing og lýðræðið“, Kirkjubladid.is, sótt 4. september 2023.

[2] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“, Kirkjubladid.is, sótt 4. september 2023.

[3] Sjá t.d. Ingi Bogi Bogason, „Færum biskupskjör til fólksins“, Mbl. 23. febrúar 2023.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir