Í blálok vorþings 2021 samþykkti Alþingi ný lög um þjóðkirkjuna sem ganga í gildi í dag, 1. júlí.  Leysa þau af hólmi lög um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Helsti munurinn á eldri og yngri lögunum er umfangið. Eldri lögin skiptust í 64 greinar og sjö kafla. Þau yngri eru aðeins 13 greinar og rísa ekki undir kaflaskiptingu.

Í þessu felst vissulega mikilvæg stefnubreyting. Með stuttum og snaggaralegum lögum er boltinn sýnilega gefinn upp með að þjóðkirkjan eigi að ráða sér sem mest sjálf en að eins fá mál og frekast er unnt heyri undir veraldlegt löggjafarvald. Hljótum við flest að geta verið sammála um að það sé affarasælast eins og stöðu kirkjunnar er að öðru leyti háttað í nútímasamfélagi. Annars er um flest fylgt þeirri stefnu sem mörkuð var með eldri lögunum en þau voru fyrstu heildarlög sem sett voru um þjóðkirkjuna.

Sjálfræði

Með þjóðkirkjulögunum 1997 var þjóðkirkjan í fyrsta skipti skilgreind sem trúfélag en ekki opinber samfélagsstofnun. Haldið er fast við þetta í nýju lögunum en þó felldur brott hortittur úr 1. mgr. 1. gr. gömlu laganna þar sem sagði að hún væri „sjálfstætt“ trúfélag. Það er þjóðkirkjan ekki — hvorki samkvæmt nýju né gömlu lögunum. Hún ræður aðeins starfi sínu og skipulagi innan lögmæltra marka og þau eru mun þrengri en þegar önnur trú- og lífsskoðunarfélög í landinu eiga í hlut.

Þjóðkirkjan verður t.d. að vera envangelisk lútersk, hún verður að hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis, í henni verða að starfa bæði prestar og djáknar auk eins biskups og æðsta stjórn hennar verður að vera í höndum þings þar sem sitja fleiri óvígðir en vígðir fulltrúar. Fleira mætti telja án þess að ástæða þyki til þess. — Skráð trú- og lífsskoðunarfélög í landinu búa ekki við svona þröngar skorður.

Tengsl ríkis og kirkju

Þegar í tíð eldri laganna litu ýmsir svo á að aðskilnaður ríkis og kirkju hefði átt sér stað. Þetta var rangt og nýju lögin breyta engu í því efni. Samkvæmt þeim ræðst staða þjóðkirkjunnar enn af 62. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Í lögunum er rætt um ráðherra kirkjumála þótt ekki sé gert ráð fyrir sérstöku kirkjumálaráðuneyti. Eins og fram er komið setja lögin sjálfræði kirkjunnar líka ýmsar skorður og samkvæmt þeim eru sérstök fjárhagstengsl milli kirkju og ríkis. — Sá lopi verður þó ekki spunninn hér.

Raunar sýna sérlög um þjóðkirkjuna svart á hvítu að milli hennar og ríkisvaldsins er sérstakt samband eða tengsl sem ekki hafa verið rofin enda var ekki að því stefnt með lögunum. Nýju lögin eru því ekki áfangi á leið til aðskilnaðar heldur aðgreina þau stofnanirnar tvær, ríki og kirkju.

Æðsta stjórn

Kröfunni um að þjóðkirkjan hafi í heiðri grundvallarreglur lýðræðisins er fylgt kröftuglega eftir í lögunum.  Samkvæmt 7. gr. hefur kirkjuþing æðsta vald í öllum málefnum þjóðkirkjunnar sem ekki lúta beint að kenningu hennar. Þá setur kirkjuþing starfsreglur fyrir stofnanir og embætti kirkjunnar,  markar stefnu hennar í sameiginlegum málum og samþykkir ályktanir um málefni hennar. Meðal annars mælir kirkjuþingið fyrir um á hvern hátt biskup kemur að yfirstjórn kirkjunnar (sbr. 10. gr.).

Samkvæmt lögunum er því ótvírætt að kirkjuþing fer með æðstu stjórn þjóðkirkjunnar. Samkvæmt anda laganna ber að kjósa til þingsins með sem lýðræðislegustum hætti, þar skulu sitja fleiri óvígðir en vígðir og forsætisnefnd þess skal og skipuð óvígðum.

Samkvæmt lögunum hefur biskup þó vissulega sérstakt hlutverk á hendi þar sem embættinu er í samræmi við forna hefð ætlað að gæta einingar kirkjunnar. Þetta gerir biskup með því að hafa tilsjón með kenningu, kristnihaldi og þjónustu kirkjunnar. Þetta hlutverk er m.a. rækt í vísitasíum. Þessa embættisskyldu verður biskupinn að geta rækt að sjálfstæðan hátt. Að því leyti heyrir embættið ekki undir kirkjuþing. Ýmis mál á sviði kenningar, helgihalds og þjónustu eru þó þannig vaxin að æðsta stjórn kirkjunnar, kirkjuþing, hlýtur að koma að þeim þó með almennum hætti kunni að vera og til samþykktar og/eða staðfestingar á ákvörðunum sem kunna að vera teknar annars staðar í kirkjunni og þá á vettvangi hinnar vígðu þjónustu.

Lögboðið hlutverk

Það nýmæli er í lögunum að sérstaklega er kveðið á um lögboðið hlutverk þjóðkirkjunnar sem ekki var gert í eldri lögunum. Í framtíðinni ber henni að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Þetta skapar þjóðkirkjunni gríðarlega sérstöðu miðað við önnur trú- og lífsskoðunarfélög og réttlætir sérstöðu hennar í lagalegu og fjárhagslegu tilliti.

Einnig ber þjóðkirkjunni að halda úti ýmiss konar fræðslu og kærleiksþjónustu og verða auk þess við kalli stjórnvalda til sérstaka verkefna telji þau þess þörf t.d. á neyðartímum.

Endalok prestakirkju?

Helsta nýmæli laganna felst ugglaust í 3. gr. þeirra sem fjallar um þjónustu kirkjunnar sem standa á öllum til boða hvar sem er á landinu. Sjálf lýsir kirkjan þjónustu sinni með kjörorðinu: Biðjandi, boðandi, þjónandi. Þjónustan felst með öðrum orðum í helgihaldi, fræðslu og kærleiksþjónustu (díakóníu).

Hingað til hefur einkum verið gert ráð fyrir að þessi þjónusta væri í höndum presta. Íslenska kirkjan hefur því verið „prestakirkja“ í óvenju hreinræktaðri mynd. Síðustu áratugina hafa djáknar vissulega verið ráðnir til starfa en þó aðeins eftir því sem fjármunir og frumkvæði einstakra sókna, stofnana eða félagasamtaka hefur dugað til. Þjóðkirkjan hefur á hinn bóginn enn ekki markað sér bindandi stefnu um þjónustu djákna.

Samkvæmt nýju lögunum er gert ráð fyrir að hin vígða þjónusta í þjóðkirkjunni sé í höndum bæði presta og djákna. Þá eru ekki lengur í gildi nein lög sem kveða á um skipan prestakalla eða fjölda presta. Engir fjármunir eru heldur eyrnamerktir til að launa tiltekinn fjölda presta. Samkvæmt lögunum er því hægt að ráða presta og djákna jöfnum höndum til starfa.

Þjóðkirkjan er nú frjáls að því að móta sér starfsmannastefnu, fækka prestum en fjölga djáknum og/eða öðrum sérhæfðum starfsmönnum allt eftir þörfum hvers starfssvæðis (prófastsdæmis, samstarfssvæðis, prestakalls eða sóknar) fyrir vígða þjónustu. Sú þörf er breytileg frá einu svæði til annars og verður tæpast lengur mætt af prestum einum þótt sú kunni að hafa verið raunin í sveitasamfélagi fyrri tíma. Nútímasamfélag kallar á hinn bóginn eftir fjölbreyttum starfsháttum sem best verða þróaðir á blönduðum starfshópum þar sem saman kemur fólk með ólíka menntun, þjálfun og annan bakgrunn.

Breytingar eða status quo?

Í upphafi var varpað fram spurningu um hvort kirkjan, þ.e. íslenska þjóðkirkjan, standi á krossgötum er hin nýju lög öðlast gildi. Líklega má svara þeirri spurningu játandi. — Krossgötur bjóða alltaf upp á val um til hverrar áttar skuli haldið. — Endanlegt svar veltur þó á ákvörðunum kirkjunnar sjálfrar og þá fyrst og fremst kirkjuþings.

Nýju lögin eru þess eðlis að þau skylda kirkjuna ekki til að breyta stjórnkerfi sínu eða starfsháttum frá því sem nú er. Ef hún óttast breytingar eða telur framtíð sína best tryggða með óbreyttu ástandi getur hún staðið vörð um gamla kerfið innan ramma laganna. T.a.m. getur hún veitt kirkjuráði í núverandi mynd framhaldslíf þrátt fyrir að þess sé hvergi getið í lögunum. Hún skýtur þá bara grundvelli undir það með starfsreglum frá kirkjuþingi.

Á hinn bóginn eru lögin það rúm að einmitt núna getur þjóðkirkjan „lagt á djúpið“ og aðlagað starf sit og stjórn að ríkjandi aðstæðum í þjóðfálaginu. Nú hlýtur verkefni hennar að vera að spyrja hvernig hún þjóni best hinu lögbundna hlutverki sínu að tryggja að öll sem þess óska geti átt kost á vígðri þjónustu presta og/eða djákna hvar sem er á landinu. Það er öxullinn sem þetta snýst allt saman um.

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Í blálok vorþings 2021 samþykkti Alþingi ný lög um þjóðkirkjuna sem ganga í gildi í dag, 1. júlí.  Leysa þau af hólmi lög um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Helsti munurinn á eldri og yngri lögunum er umfangið. Eldri lögin skiptust í 64 greinar og sjö kafla. Þau yngri eru aðeins 13 greinar og rísa ekki undir kaflaskiptingu.

Í þessu felst vissulega mikilvæg stefnubreyting. Með stuttum og snaggaralegum lögum er boltinn sýnilega gefinn upp með að þjóðkirkjan eigi að ráða sér sem mest sjálf en að eins fá mál og frekast er unnt heyri undir veraldlegt löggjafarvald. Hljótum við flest að geta verið sammála um að það sé affarasælast eins og stöðu kirkjunnar er að öðru leyti háttað í nútímasamfélagi. Annars er um flest fylgt þeirri stefnu sem mörkuð var með eldri lögunum en þau voru fyrstu heildarlög sem sett voru um þjóðkirkjuna.

Sjálfræði

Með þjóðkirkjulögunum 1997 var þjóðkirkjan í fyrsta skipti skilgreind sem trúfélag en ekki opinber samfélagsstofnun. Haldið er fast við þetta í nýju lögunum en þó felldur brott hortittur úr 1. mgr. 1. gr. gömlu laganna þar sem sagði að hún væri „sjálfstætt“ trúfélag. Það er þjóðkirkjan ekki — hvorki samkvæmt nýju né gömlu lögunum. Hún ræður aðeins starfi sínu og skipulagi innan lögmæltra marka og þau eru mun þrengri en þegar önnur trú- og lífsskoðunarfélög í landinu eiga í hlut.

Þjóðkirkjan verður t.d. að vera envangelisk lútersk, hún verður að hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis, í henni verða að starfa bæði prestar og djáknar auk eins biskups og æðsta stjórn hennar verður að vera í höndum þings þar sem sitja fleiri óvígðir en vígðir fulltrúar. Fleira mætti telja án þess að ástæða þyki til þess. — Skráð trú- og lífsskoðunarfélög í landinu búa ekki við svona þröngar skorður.

Tengsl ríkis og kirkju

Þegar í tíð eldri laganna litu ýmsir svo á að aðskilnaður ríkis og kirkju hefði átt sér stað. Þetta var rangt og nýju lögin breyta engu í því efni. Samkvæmt þeim ræðst staða þjóðkirkjunnar enn af 62. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Í lögunum er rætt um ráðherra kirkjumála þótt ekki sé gert ráð fyrir sérstöku kirkjumálaráðuneyti. Eins og fram er komið setja lögin sjálfræði kirkjunnar líka ýmsar skorður og samkvæmt þeim eru sérstök fjárhagstengsl milli kirkju og ríkis. — Sá lopi verður þó ekki spunninn hér.

Raunar sýna sérlög um þjóðkirkjuna svart á hvítu að milli hennar og ríkisvaldsins er sérstakt samband eða tengsl sem ekki hafa verið rofin enda var ekki að því stefnt með lögunum. Nýju lögin eru því ekki áfangi á leið til aðskilnaðar heldur aðgreina þau stofnanirnar tvær, ríki og kirkju.

Æðsta stjórn

Kröfunni um að þjóðkirkjan hafi í heiðri grundvallarreglur lýðræðisins er fylgt kröftuglega eftir í lögunum.  Samkvæmt 7. gr. hefur kirkjuþing æðsta vald í öllum málefnum þjóðkirkjunnar sem ekki lúta beint að kenningu hennar. Þá setur kirkjuþing starfsreglur fyrir stofnanir og embætti kirkjunnar,  markar stefnu hennar í sameiginlegum málum og samþykkir ályktanir um málefni hennar. Meðal annars mælir kirkjuþingið fyrir um á hvern hátt biskup kemur að yfirstjórn kirkjunnar (sbr. 10. gr.).

Samkvæmt lögunum er því ótvírætt að kirkjuþing fer með æðstu stjórn þjóðkirkjunnar. Samkvæmt anda laganna ber að kjósa til þingsins með sem lýðræðislegustum hætti, þar skulu sitja fleiri óvígðir en vígðir og forsætisnefnd þess skal og skipuð óvígðum.

Samkvæmt lögunum hefur biskup þó vissulega sérstakt hlutverk á hendi þar sem embættinu er í samræmi við forna hefð ætlað að gæta einingar kirkjunnar. Þetta gerir biskup með því að hafa tilsjón með kenningu, kristnihaldi og þjónustu kirkjunnar. Þetta hlutverk er m.a. rækt í vísitasíum. Þessa embættisskyldu verður biskupinn að geta rækt að sjálfstæðan hátt. Að því leyti heyrir embættið ekki undir kirkjuþing. Ýmis mál á sviði kenningar, helgihalds og þjónustu eru þó þannig vaxin að æðsta stjórn kirkjunnar, kirkjuþing, hlýtur að koma að þeim þó með almennum hætti kunni að vera og til samþykktar og/eða staðfestingar á ákvörðunum sem kunna að vera teknar annars staðar í kirkjunni og þá á vettvangi hinnar vígðu þjónustu.

Lögboðið hlutverk

Það nýmæli er í lögunum að sérstaklega er kveðið á um lögboðið hlutverk þjóðkirkjunnar sem ekki var gert í eldri lögunum. Í framtíðinni ber henni að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Þetta skapar þjóðkirkjunni gríðarlega sérstöðu miðað við önnur trú- og lífsskoðunarfélög og réttlætir sérstöðu hennar í lagalegu og fjárhagslegu tilliti.

Einnig ber þjóðkirkjunni að halda úti ýmiss konar fræðslu og kærleiksþjónustu og verða auk þess við kalli stjórnvalda til sérstaka verkefna telji þau þess þörf t.d. á neyðartímum.

Endalok prestakirkju?

Helsta nýmæli laganna felst ugglaust í 3. gr. þeirra sem fjallar um þjónustu kirkjunnar sem standa á öllum til boða hvar sem er á landinu. Sjálf lýsir kirkjan þjónustu sinni með kjörorðinu: Biðjandi, boðandi, þjónandi. Þjónustan felst með öðrum orðum í helgihaldi, fræðslu og kærleiksþjónustu (díakóníu).

Hingað til hefur einkum verið gert ráð fyrir að þessi þjónusta væri í höndum presta. Íslenska kirkjan hefur því verið „prestakirkja“ í óvenju hreinræktaðri mynd. Síðustu áratugina hafa djáknar vissulega verið ráðnir til starfa en þó aðeins eftir því sem fjármunir og frumkvæði einstakra sókna, stofnana eða félagasamtaka hefur dugað til. Þjóðkirkjan hefur á hinn bóginn enn ekki markað sér bindandi stefnu um þjónustu djákna.

Samkvæmt nýju lögunum er gert ráð fyrir að hin vígða þjónusta í þjóðkirkjunni sé í höndum bæði presta og djákna. Þá eru ekki lengur í gildi nein lög sem kveða á um skipan prestakalla eða fjölda presta. Engir fjármunir eru heldur eyrnamerktir til að launa tiltekinn fjölda presta. Samkvæmt lögunum er því hægt að ráða presta og djákna jöfnum höndum til starfa.

Þjóðkirkjan er nú frjáls að því að móta sér starfsmannastefnu, fækka prestum en fjölga djáknum og/eða öðrum sérhæfðum starfsmönnum allt eftir þörfum hvers starfssvæðis (prófastsdæmis, samstarfssvæðis, prestakalls eða sóknar) fyrir vígða þjónustu. Sú þörf er breytileg frá einu svæði til annars og verður tæpast lengur mætt af prestum einum þótt sú kunni að hafa verið raunin í sveitasamfélagi fyrri tíma. Nútímasamfélag kallar á hinn bóginn eftir fjölbreyttum starfsháttum sem best verða þróaðir á blönduðum starfshópum þar sem saman kemur fólk með ólíka menntun, þjálfun og annan bakgrunn.

Breytingar eða status quo?

Í upphafi var varpað fram spurningu um hvort kirkjan, þ.e. íslenska þjóðkirkjan, standi á krossgötum er hin nýju lög öðlast gildi. Líklega má svara þeirri spurningu játandi. — Krossgötur bjóða alltaf upp á val um til hverrar áttar skuli haldið. — Endanlegt svar veltur þó á ákvörðunum kirkjunnar sjálfrar og þá fyrst og fremst kirkjuþings.

Nýju lögin eru þess eðlis að þau skylda kirkjuna ekki til að breyta stjórnkerfi sínu eða starfsháttum frá því sem nú er. Ef hún óttast breytingar eða telur framtíð sína best tryggða með óbreyttu ástandi getur hún staðið vörð um gamla kerfið innan ramma laganna. T.a.m. getur hún veitt kirkjuráði í núverandi mynd framhaldslíf þrátt fyrir að þess sé hvergi getið í lögunum. Hún skýtur þá bara grundvelli undir það með starfsreglum frá kirkjuþingi.

Á hinn bóginn eru lögin það rúm að einmitt núna getur þjóðkirkjan „lagt á djúpið“ og aðlagað starf sit og stjórn að ríkjandi aðstæðum í þjóðfálaginu. Nú hlýtur verkefni hennar að vera að spyrja hvernig hún þjóni best hinu lögbundna hlutverki sínu að tryggja að öll sem þess óska geti átt kost á vígðri þjónustu presta og/eða djákna hvar sem er á landinu. Það er öxullinn sem þetta snýst allt saman um.

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir