Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is setjast þremenninganir dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur, dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson, héraðsprestur og sr. Elínborg Sturludóttir prestur við dómkirkjuna í Reykjavík.

Þetta er önnur grein þeirra af þremur og fjallar um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun. Tilefnið er umræða um lýðræði innan þjóðkirkjunnar og skýrsla sem tekin verður til umræðu í október á kirkjuþingi um kosti þess og galla að gefa fleirum kost á að kjósa biskup Íslands og fulltrúa á kirkjuþingi.

Þriðja grein þeirra birtist á laugardaginn. Efni greinanna þriggja verður gott umhugsunarefni um helgina og hver veit nema einhver drepi niður penna og skrifi grein um málið.

 

Athugasemdir við guðfræðilegu rökin í skýrslunni

Við teljum nauðsynlegt að fara betur í hin guðfræðilegu rök fyrir því að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarrétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups sem sett voru fram í þingskjali 34a á kirkjuþingi 2024–2025 nr. 66. Ástæðan er sú grundvallarstaðreynd að þjóðkirkjan er trúfélag og er sem slíkt, líkt og allar kristnar kirkjur, fyrst og síðast samfélag fólks sem skírt er í nafni föður, sonar og heilags anda til trúar á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn, manninum til hjálpræðis. Tilvistargrundvöllur kirkjunnar byggist á holdtekningu Krists, krossfestingu hans og upprisu og svo skírnarskipuninni — og engu öðru. Af þeim sökum gerum við athugasemdir við þá hugmynd sem kemur fram í lögfræðilegri greinargerð Davíðs Þórs Björgvinssonar í viðauka við skýrsluna að það standist ekki jafnræðisreglu að skírnin sé ófrávíkjanleg forsenda fyrir kosningarétti í kirkjuþings- og biskupskjöri eða fyrir kjörgengi fyrir kirkjuþingskosningar. Að okkar mati myndu tillögur sem fælu í sér að skírnin teldist ekki lengur ófrávíkjanleg forsenda fyrir kosningarétti eða kjörgengi í raun snerta kenningarlegan grunn kirkjunnar og sjálfskilning hennar sem trúarsamfélags og -stofnunar og ættu því ekki erindi á kirkjuþing nema að undangenginni umfjöllun í kenningarnefnd þjóðkirkjunnar og á prestastefnu, sbr. 7. gr. Laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021: „Kirkjuþing markar stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar.“

Í ljósi framangreinds er engum vafa undirorpið að séu til þess sterk guðfræðileg rök að rýmka starfsreglur er varða kosningarétt og kjörgengi til ábyrgðarstarfa í kirkjunni þá hljóti þau rök að vega þungt í ákvörðunartöku í málinu. Við teljum hins vegar, að vel athuguðu máli, að þau guðfræðilegu rök sem sett eru fram í þingskjali 34a undir lið I. 4., Guðfræðileg rök lýðræðis í kirkjunni (bls. 12–13), eigi ekki við um stjórnskipun kirkjunnar, mæli hvorki með né á móti tilteknu stjórnskipulagi og hafi því ekki gildi í umræðunni um rýmkun kosningaréttar og kjörgengis. Rök fyrir þessu áliti eru sett fram hér að neðan.

Í greinargerðinni, á bls. 12, kemur eftirfarandi fram:

„Í 20. kafla Matteusarguðspjalls segir Jesús við lærisveina sína: Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. Jesús boðaði lærisveinum sínum ákveðið jafningjalýðræði, þeir ættu ekki að drottna yfir öðrum heldur þjóna hver öðrum. Jesús sýndi þetta sjálfur í verki þegar hann þvoði fætur lærisveina sinna.“

Hér er því haldið fram, á grundvelli tilvitnaðs texta úr Matt 20.25–27, að Jesús hafi boðað „lærisveinum sínum ákveðið jafningjalýðræði“. Þetta er að mati okkar mistúlkun á þessum texta. Eins og í tilfelli fótaþvottarins, sem vísað er til, er orðum Jesú ætlað að sýna hvernig þjónusta leiðtoga í kristnum söfnuði skuli birtast, þ.e.a.s. sem andstæða þess að „drottna yfir“ og „láta kenna á valdi sínu“ eins og reyndar bent er á framangreindri tilvitnun. Á ritunartíma Matteusarguðspjalls, tæplega fyrir árið 80, voru sérstök hlutverk löngu komin til skjalanna í kristnum söfnuðum. Ljóst er að Pétur og hinir lærisveinarnir höfðu sérstaka stöðu í kirkjunni, sbr. Matt 16.18-19: „Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína“. Fyrirmynd textans í Matt 20 er fenginn úr Markúsarguðspjalli en þar njóta Pétur, Jakob og Jóhannes sérstöðu í því að vera nánustu lærisveinar Jesú; þeir eru m.ö.o. fremstir meðal jafningja (sbr. Mark 5.37; 9.2-13; 13.3-8 þar sem Andrés er einnig í þessum útvalda hópi; sjá einnig Matt 17.1). Hinn tilvitnaði texti í Matt 20 og sambærilegir textar í Markúsi fela því tæplega í sér að söfnuður skuli ekki hafa leiðtoga heldur að leiðtoginn skuli aðeins líta á sjálfan sig sem fremstan meðal jafningja og sinna sínum skyldum, fremstan af því að hann sé kallaður til sérstakrar þjónustu af Kristi. Þetta á við um alla, líka leikmenn sem veljast til ábyrgðarstarfa í söfnuðum. Athyglisvert er í þessu sambandi að í Matteusarguðspjalli, rétt eftir að Jesús hefur kallað Pétur klettinn sem kirkjan skuli byggjast á, segir hann við hann: „Vík frá mér, Satan, Þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Ástæðan er sú að Pétur átelur hann fyrir að boða krossfestingu sína og upprisu í samhengi Matteusarguðspjalls og þannig hverfur hann frá þeirri þjónustu sem hann er kallaður til að sinna þegar hann undirgengst á þennan máta væntingar og viðmið hins veraldlega.

Orð Jesú um að „sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar“ fela ekki í sér að í söfnuði eða í kirkjunni sem heild skuli ekki vera neinn leiðtogi heldur beinir Jesús orðum sínum til þeirra sem gagngert sækjast eftir valdaembættum í þeim tilgangi að ríkja yfir öðrum. Í samhengi textans, í Matt 20.20 og áfram, eru það þeir Sebedeussynir, Jakob og Jóhannes, og þó öllu nær móðir þeirra, sem eru sett fram sem dæmi um slíkt fólk, en móðir þeirra Sebedeussona kom með sonum sínum til Jesú og bað hann eftirfarandi bónar: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Þessi bón sýnir að í lærisveinahópnum voru menn að metast um hver væri merkilegastur enda gramdist þeim hinum tíu við bræðurna. Jesús talar um sjálfan sig sem konung en þeir bræður misskilja hann og skilja ríki hans sem jarðneskan veruleika sem þeir eigi að hafa hlutverk í. Jesús hins vegar afbyggir þessar væntingar og varar við því að líkja ríki heimsins við ríki Guðs (sbr. tveggjaríkjakenningu lútherskrar guðfræði) enda leiðréttir hann misskilning bræðranna á eðli hins postullega embættis; það feli fyrst og fremst í sér þjónustu og skyldur en þeir einblína á upphefðina. Það að einblína á upphefðina og sækjast eftir metorðum og völdum er vandamál sem leysist ekki með breytingu á stjórnarfari. Jesús undirstrikar hlutverkið sem bræðurnir þurfa að sinna og þá sýnir hann fram á mismuninn á eðli ríkis þessa heims og ríkis Guðs: „Þið vitið ekki hvers þið biðjð. Getið þið drukkið þann kaleik sem ég á að drekka?“ Í stuttu máli sagt snýst hinn tilvitnaði texti í Matteusarguðspjalli 20 um að brýna þá sem sinna trúnaðarstörfum að sinna skyldum sínum en ekki að upphefja sig vegna stöðu sinnar. Hann segir hins vegar ekkert um æskilega stjórnskipan eða tilhögun á vali í embætti eða trúnaðarstöður, hvorki í frumkirkjunni né síðar.

Í greinargerðinni, á bls. 12, segir jafnframt:

„Páll postuli var einnig ötull talsmaður jafningjalýðræðis í kirkjunni. Í fyrra Kórintubréfi líkir Páll postuli kirkjunni við líkama þar sem höfuðið er Kristur. Páli var mikið í mun að allir limir líkamans ynnu saman og mynduðu eina heild. Innan frumkirkjunnar virðist hafa verið litið svo á að söfnuðurinn ætti vera eins og ein stór fjölskylda, þar sem allir væru bræður og systur. Í Galatabréfinu skrifar Páll (Gal 3.26-28): Þér eruð öll Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. Öll þér, sem eruð skírð til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð öll eitt í Kristi Jesú. Þessi tilvitnuðu orð, sem eru hugsanlega hluti af fornri skírnarjátningu, endurspegla sjálfsskilning kirkjunnar á því að hún sé samfélag jafningja.“

Eins og í tilfelli Matt 20.25–27 teljum við að tilvitnuð orð Páls eigi ekki við í umræðunni um tilhögun kosningaréttar og kjörgengis í þjóðkirkjunni. Páll talar á mörgum stöðum um leiðtoga og forsvarsmenn safnaða, t.d. í 1Þess 5.12 og 1Kor 16.16. Í Fil 1.1 heilsar hann t.d. „biskupum og djáknum“. Þessi hugtök höfðu í notkun Páls sannarlega ekki nákvæmlega sömu merkingu og við leggjum í þau í dag en engu að síður er um ákveðið hlutverk í söfnuði að ræða. Við vitum að þá sem á þessari fyrstu tíð voru kallaðir biskupar myndum við í dag kalla presta og oft eru orðin episkopos og presbyteros („öldungur“) notuð jöfnum höndum.[1] En hitt er mikilvægara, að Páll talar skýrum orðum um að sumir fari með leiðtogavald í söfnuðunum og lítur þá augljóslega ekki svo á að það sé í þversögn við orð Galatabréfsins 3.26–28 sem vitnað er til í skýrslunni. Enda er ljóst, þegar samhengi textans er tekið með í reikninginn, að það jafnræði sem hann sannarlega talar fyrir snýst í fyrsta lagi um stöðu einstaklingsins gagnvart Kristi og í öðru lagi um þá mannvirðingu sem hverjum safnaðarmeðlimi beri óháð kyni, stétt eða stöðu og má með sanni segja að það kallist á við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi afstaða Páls kallast einnig fullkomlega á við boðskap Krists í Matteusi 20 en breytir því ekki að safnaðarmeðlimir voru vitanlega af tiltekinni stétt eða stöðu, einnig innan safnaðarins eins og orð Páls í 1Þess 5.12–13 sýna svart á hvítu: „Vér biðjum yður, bræður, að sýna þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður. Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra. Lifið í friði yðar á milli.“ Líkt og í tilfelli textans úr Matt 20 er Páll því að tala um það í Gal 3.26–28 að menn misnoti ekki félagslega stöðu sína en ekki að staða manna innan safnaðarins sé ekki af ólíkum toga. Textinn segir hins vegar ekkert um æskilega stjórnskipan eða tilhögun á vali í embætti eða trúnaðarstöður.

Í greinargerðinni, á bls. 12, er réttilega bent á að Marteinn Lúther hafi lagt áherslu á hinn almenna prestsdóm trúaðra og að hið vígða prestsembætti væri aðeins sérstök köllun innan safnaðarins sem byggðist á hinum almenna prestsdómi. Lúther dró þannig fram að þegar biskup setti prest í embætti væri hann aðeins að staðfesta köllun safnaðarins. Hins vegar var ekki hægt að kalla hvern sem er til þjónustu prests heldur varð sá hinn sami að hafa lokið tilhlýðilegri guðfræðimenntun og standast próf sem fólst í því að söfnuðurinn og biskupinn hlýddu á prédikun hans. Þrátt fyrir þessi grundvallarsjónarmið setti Lúther ekki fram nákvæmar hugmyndir eða fyrirmæli um það hvernig köllun prests til þjónustu skyldi háttað, hvort það gerðist með beinu lýðræði eða fulltrúalýðræði. Aðstæður á hans tíma voru að mörgu leyti fordæmalausar og einkenndust af upplausn vegna viðskilnaðarins við Rómarvaldið. Í þeim aðstæðum gerði Lúther t.d. ráð fyrir því að í neyðartilfellum gætu furstarnir sjálfir orðið „neyðarbiskupar“. Eftir stendur að siðbótarfrömuðurinn skildi ekki eftir sig nákvæmar leiðbeiningar um það hvernig vali í kirkjuleg embætti skyldi háttað og því er til lítils að vísa til almenns prestdóms í umræðu um slík mál.[2] Þó er viðeigandi að benda á að í deilum sínum við vingltrúarmenn, sem vildu hverfa frá allri hefðbundinni uppbyggingu innan kirkjunnar og hefðbundnum embættisskilningi — en reyndar líka í deilum hans við Róm — útfærði Lúther kenninguna um almennan prestdóm og tengdi hana við það sem við myndum í dag kalla fulltrúalýðræði. Ástæða þess var sú, að hann vildi virða það að fagnaðarerindið knýr á um fagleg vinnubrögð við túlkun ritningarinnar og boðun þess.[3]

Tilvísanir:

[1] Sjá umfjöllun um þróun embættanna í frumkirkjunni í: Haraldur Hreinsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson, „Um biskupsembættið“, Ritröð Guðfræðistofnunar 44 (2017), bls. 22–25.

[2] Sjá: Sigurjón Árni Eyjólfsson, Ríki og kirkja: uppruni og þróun þjóðkirkjuhugtaksins, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2006, bls. 57–59.

[3] Sjá Harald Goertz, Allgemeines Priestertum und ordiniertes Amt bei Luther, Marburg: N.G. Elwert Verlag 1997.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is setjast þremenninganir dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur, dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson, héraðsprestur og sr. Elínborg Sturludóttir prestur við dómkirkjuna í Reykjavík.

Þetta er önnur grein þeirra af þremur og fjallar um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun. Tilefnið er umræða um lýðræði innan þjóðkirkjunnar og skýrsla sem tekin verður til umræðu í október á kirkjuþingi um kosti þess og galla að gefa fleirum kost á að kjósa biskup Íslands og fulltrúa á kirkjuþingi.

Þriðja grein þeirra birtist á laugardaginn. Efni greinanna þriggja verður gott umhugsunarefni um helgina og hver veit nema einhver drepi niður penna og skrifi grein um málið.

 

Athugasemdir við guðfræðilegu rökin í skýrslunni

Við teljum nauðsynlegt að fara betur í hin guðfræðilegu rök fyrir því að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarrétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups sem sett voru fram í þingskjali 34a á kirkjuþingi 2024–2025 nr. 66. Ástæðan er sú grundvallarstaðreynd að þjóðkirkjan er trúfélag og er sem slíkt, líkt og allar kristnar kirkjur, fyrst og síðast samfélag fólks sem skírt er í nafni föður, sonar og heilags anda til trúar á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn, manninum til hjálpræðis. Tilvistargrundvöllur kirkjunnar byggist á holdtekningu Krists, krossfestingu hans og upprisu og svo skírnarskipuninni — og engu öðru. Af þeim sökum gerum við athugasemdir við þá hugmynd sem kemur fram í lögfræðilegri greinargerð Davíðs Þórs Björgvinssonar í viðauka við skýrsluna að það standist ekki jafnræðisreglu að skírnin sé ófrávíkjanleg forsenda fyrir kosningarétti í kirkjuþings- og biskupskjöri eða fyrir kjörgengi fyrir kirkjuþingskosningar. Að okkar mati myndu tillögur sem fælu í sér að skírnin teldist ekki lengur ófrávíkjanleg forsenda fyrir kosningarétti eða kjörgengi í raun snerta kenningarlegan grunn kirkjunnar og sjálfskilning hennar sem trúarsamfélags og -stofnunar og ættu því ekki erindi á kirkjuþing nema að undangenginni umfjöllun í kenningarnefnd þjóðkirkjunnar og á prestastefnu, sbr. 7. gr. Laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021: „Kirkjuþing markar stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar.“

Í ljósi framangreinds er engum vafa undirorpið að séu til þess sterk guðfræðileg rök að rýmka starfsreglur er varða kosningarétt og kjörgengi til ábyrgðarstarfa í kirkjunni þá hljóti þau rök að vega þungt í ákvörðunartöku í málinu. Við teljum hins vegar, að vel athuguðu máli, að þau guðfræðilegu rök sem sett eru fram í þingskjali 34a undir lið I. 4., Guðfræðileg rök lýðræðis í kirkjunni (bls. 12–13), eigi ekki við um stjórnskipun kirkjunnar, mæli hvorki með né á móti tilteknu stjórnskipulagi og hafi því ekki gildi í umræðunni um rýmkun kosningaréttar og kjörgengis. Rök fyrir þessu áliti eru sett fram hér að neðan.

Í greinargerðinni, á bls. 12, kemur eftirfarandi fram:

„Í 20. kafla Matteusarguðspjalls segir Jesús við lærisveina sína: Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. Jesús boðaði lærisveinum sínum ákveðið jafningjalýðræði, þeir ættu ekki að drottna yfir öðrum heldur þjóna hver öðrum. Jesús sýndi þetta sjálfur í verki þegar hann þvoði fætur lærisveina sinna.“

Hér er því haldið fram, á grundvelli tilvitnaðs texta úr Matt 20.25–27, að Jesús hafi boðað „lærisveinum sínum ákveðið jafningjalýðræði“. Þetta er að mati okkar mistúlkun á þessum texta. Eins og í tilfelli fótaþvottarins, sem vísað er til, er orðum Jesú ætlað að sýna hvernig þjónusta leiðtoga í kristnum söfnuði skuli birtast, þ.e.a.s. sem andstæða þess að „drottna yfir“ og „láta kenna á valdi sínu“ eins og reyndar bent er á framangreindri tilvitnun. Á ritunartíma Matteusarguðspjalls, tæplega fyrir árið 80, voru sérstök hlutverk löngu komin til skjalanna í kristnum söfnuðum. Ljóst er að Pétur og hinir lærisveinarnir höfðu sérstaka stöðu í kirkjunni, sbr. Matt 16.18-19: „Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína“. Fyrirmynd textans í Matt 20 er fenginn úr Markúsarguðspjalli en þar njóta Pétur, Jakob og Jóhannes sérstöðu í því að vera nánustu lærisveinar Jesú; þeir eru m.ö.o. fremstir meðal jafningja (sbr. Mark 5.37; 9.2-13; 13.3-8 þar sem Andrés er einnig í þessum útvalda hópi; sjá einnig Matt 17.1). Hinn tilvitnaði texti í Matt 20 og sambærilegir textar í Markúsi fela því tæplega í sér að söfnuður skuli ekki hafa leiðtoga heldur að leiðtoginn skuli aðeins líta á sjálfan sig sem fremstan meðal jafningja og sinna sínum skyldum, fremstan af því að hann sé kallaður til sérstakrar þjónustu af Kristi. Þetta á við um alla, líka leikmenn sem veljast til ábyrgðarstarfa í söfnuðum. Athyglisvert er í þessu sambandi að í Matteusarguðspjalli, rétt eftir að Jesús hefur kallað Pétur klettinn sem kirkjan skuli byggjast á, segir hann við hann: „Vík frá mér, Satan, Þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Ástæðan er sú að Pétur átelur hann fyrir að boða krossfestingu sína og upprisu í samhengi Matteusarguðspjalls og þannig hverfur hann frá þeirri þjónustu sem hann er kallaður til að sinna þegar hann undirgengst á þennan máta væntingar og viðmið hins veraldlega.

Orð Jesú um að „sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar“ fela ekki í sér að í söfnuði eða í kirkjunni sem heild skuli ekki vera neinn leiðtogi heldur beinir Jesús orðum sínum til þeirra sem gagngert sækjast eftir valdaembættum í þeim tilgangi að ríkja yfir öðrum. Í samhengi textans, í Matt 20.20 og áfram, eru það þeir Sebedeussynir, Jakob og Jóhannes, og þó öllu nær móðir þeirra, sem eru sett fram sem dæmi um slíkt fólk, en móðir þeirra Sebedeussona kom með sonum sínum til Jesú og bað hann eftirfarandi bónar: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Þessi bón sýnir að í lærisveinahópnum voru menn að metast um hver væri merkilegastur enda gramdist þeim hinum tíu við bræðurna. Jesús talar um sjálfan sig sem konung en þeir bræður misskilja hann og skilja ríki hans sem jarðneskan veruleika sem þeir eigi að hafa hlutverk í. Jesús hins vegar afbyggir þessar væntingar og varar við því að líkja ríki heimsins við ríki Guðs (sbr. tveggjaríkjakenningu lútherskrar guðfræði) enda leiðréttir hann misskilning bræðranna á eðli hins postullega embættis; það feli fyrst og fremst í sér þjónustu og skyldur en þeir einblína á upphefðina. Það að einblína á upphefðina og sækjast eftir metorðum og völdum er vandamál sem leysist ekki með breytingu á stjórnarfari. Jesús undirstrikar hlutverkið sem bræðurnir þurfa að sinna og þá sýnir hann fram á mismuninn á eðli ríkis þessa heims og ríkis Guðs: „Þið vitið ekki hvers þið biðjð. Getið þið drukkið þann kaleik sem ég á að drekka?“ Í stuttu máli sagt snýst hinn tilvitnaði texti í Matteusarguðspjalli 20 um að brýna þá sem sinna trúnaðarstörfum að sinna skyldum sínum en ekki að upphefja sig vegna stöðu sinnar. Hann segir hins vegar ekkert um æskilega stjórnskipan eða tilhögun á vali í embætti eða trúnaðarstöður, hvorki í frumkirkjunni né síðar.

Í greinargerðinni, á bls. 12, segir jafnframt:

„Páll postuli var einnig ötull talsmaður jafningjalýðræðis í kirkjunni. Í fyrra Kórintubréfi líkir Páll postuli kirkjunni við líkama þar sem höfuðið er Kristur. Páli var mikið í mun að allir limir líkamans ynnu saman og mynduðu eina heild. Innan frumkirkjunnar virðist hafa verið litið svo á að söfnuðurinn ætti vera eins og ein stór fjölskylda, þar sem allir væru bræður og systur. Í Galatabréfinu skrifar Páll (Gal 3.26-28): Þér eruð öll Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. Öll þér, sem eruð skírð til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð öll eitt í Kristi Jesú. Þessi tilvitnuðu orð, sem eru hugsanlega hluti af fornri skírnarjátningu, endurspegla sjálfsskilning kirkjunnar á því að hún sé samfélag jafningja.“

Eins og í tilfelli Matt 20.25–27 teljum við að tilvitnuð orð Páls eigi ekki við í umræðunni um tilhögun kosningaréttar og kjörgengis í þjóðkirkjunni. Páll talar á mörgum stöðum um leiðtoga og forsvarsmenn safnaða, t.d. í 1Þess 5.12 og 1Kor 16.16. Í Fil 1.1 heilsar hann t.d. „biskupum og djáknum“. Þessi hugtök höfðu í notkun Páls sannarlega ekki nákvæmlega sömu merkingu og við leggjum í þau í dag en engu að síður er um ákveðið hlutverk í söfnuði að ræða. Við vitum að þá sem á þessari fyrstu tíð voru kallaðir biskupar myndum við í dag kalla presta og oft eru orðin episkopos og presbyteros („öldungur“) notuð jöfnum höndum.[1] En hitt er mikilvægara, að Páll talar skýrum orðum um að sumir fari með leiðtogavald í söfnuðunum og lítur þá augljóslega ekki svo á að það sé í þversögn við orð Galatabréfsins 3.26–28 sem vitnað er til í skýrslunni. Enda er ljóst, þegar samhengi textans er tekið með í reikninginn, að það jafnræði sem hann sannarlega talar fyrir snýst í fyrsta lagi um stöðu einstaklingsins gagnvart Kristi og í öðru lagi um þá mannvirðingu sem hverjum safnaðarmeðlimi beri óháð kyni, stétt eða stöðu og má með sanni segja að það kallist á við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi afstaða Páls kallast einnig fullkomlega á við boðskap Krists í Matteusi 20 en breytir því ekki að safnaðarmeðlimir voru vitanlega af tiltekinni stétt eða stöðu, einnig innan safnaðarins eins og orð Páls í 1Þess 5.12–13 sýna svart á hvítu: „Vér biðjum yður, bræður, að sýna þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður. Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra. Lifið í friði yðar á milli.“ Líkt og í tilfelli textans úr Matt 20 er Páll því að tala um það í Gal 3.26–28 að menn misnoti ekki félagslega stöðu sína en ekki að staða manna innan safnaðarins sé ekki af ólíkum toga. Textinn segir hins vegar ekkert um æskilega stjórnskipan eða tilhögun á vali í embætti eða trúnaðarstöður.

Í greinargerðinni, á bls. 12, er réttilega bent á að Marteinn Lúther hafi lagt áherslu á hinn almenna prestsdóm trúaðra og að hið vígða prestsembætti væri aðeins sérstök köllun innan safnaðarins sem byggðist á hinum almenna prestsdómi. Lúther dró þannig fram að þegar biskup setti prest í embætti væri hann aðeins að staðfesta köllun safnaðarins. Hins vegar var ekki hægt að kalla hvern sem er til þjónustu prests heldur varð sá hinn sami að hafa lokið tilhlýðilegri guðfræðimenntun og standast próf sem fólst í því að söfnuðurinn og biskupinn hlýddu á prédikun hans. Þrátt fyrir þessi grundvallarsjónarmið setti Lúther ekki fram nákvæmar hugmyndir eða fyrirmæli um það hvernig köllun prests til þjónustu skyldi háttað, hvort það gerðist með beinu lýðræði eða fulltrúalýðræði. Aðstæður á hans tíma voru að mörgu leyti fordæmalausar og einkenndust af upplausn vegna viðskilnaðarins við Rómarvaldið. Í þeim aðstæðum gerði Lúther t.d. ráð fyrir því að í neyðartilfellum gætu furstarnir sjálfir orðið „neyðarbiskupar“. Eftir stendur að siðbótarfrömuðurinn skildi ekki eftir sig nákvæmar leiðbeiningar um það hvernig vali í kirkjuleg embætti skyldi háttað og því er til lítils að vísa til almenns prestdóms í umræðu um slík mál.[2] Þó er viðeigandi að benda á að í deilum sínum við vingltrúarmenn, sem vildu hverfa frá allri hefðbundinni uppbyggingu innan kirkjunnar og hefðbundnum embættisskilningi — en reyndar líka í deilum hans við Róm — útfærði Lúther kenninguna um almennan prestdóm og tengdi hana við það sem við myndum í dag kalla fulltrúalýðræði. Ástæða þess var sú, að hann vildi virða það að fagnaðarerindið knýr á um fagleg vinnubrögð við túlkun ritningarinnar og boðun þess.[3]

Tilvísanir:

[1] Sjá umfjöllun um þróun embættanna í frumkirkjunni í: Haraldur Hreinsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson, „Um biskupsembættið“, Ritröð Guðfræðistofnunar 44 (2017), bls. 22–25.

[2] Sjá: Sigurjón Árni Eyjólfsson, Ríki og kirkja: uppruni og þróun þjóðkirkjuhugtaksins, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2006, bls. 57–59.

[3] Sjá Harald Goertz, Allgemeines Priestertum und ordiniertes Amt bei Luther, Marburg: N.G. Elwert Verlag 1997.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir