Við Gestagluggann sest

Pétur Björgvin Þorsteinsson framkvæmdastjóri verkefnis sem nefnist Von fyrir Austur-Evrópu  (þ. Hoffnung für Osteuropa). Verkefnið er samstarf evangelísku kirkjunnar og díakoníunnar í Württemberg, Þýskalandi. Pétur tók við starfinu fyrir fimm árum en verkefnið er 30 ára gamalt. Því er ætlað að styðja við díakoníu og hjálparstarf í fyrrverandi austantjaldslöndum.

Pétur Björgvin er djákni og með M.A. gráðu í Evrópufræðum. Hann fæddist á Dalvík og ólst upp í Þorpinu á Akureyri. Frá því að hann lauk námi í trúaruppeldisfræðum frá Karlshöhe, Ludwigsburg, þar sem hann vígðist til djákna 1997, hefur hann starfað til skiptis í Þýskalandi og á Íslandi. Mynd: Manfred Neumann 

 

Ljúbíka Kókakóva er sjúkraliði á öldrunarheimili kærleiksþjónustu evangelísku kirkjunnar í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu. Starfið gefur henni lífsfyllingu og sér hún hlutverk sitt í því að vera til staðar fyrir íbúa heimilisins og sinna jafnt trúarlegum og praktískum þörfum þeirra.  Í heimsóknum mínum á þetta heimili hefur mér oft fundist hún og samstarfsfólk hennar geisla af gleði og eiga svikalausa von í hjarta. Í þessum pistli gef ég stutta innsýn í sögu kærleiksþjónustu/díakoníu evangelísku kirkjunnar í Slóvakíu, áhugasömum lesendum Kirkjublaðsins.is vonandi til gagns og gamans.

Saga kirkjunnar hefur frá upphafi vega verið samofin sögum af hjálpar- og líknarstarfi. Stundum hefur okkur sem þjónum í kirkjunni tekist mjög vel að sinna þessum málaflokki,  gjarnan hefur framlag okkar verið vel yfir meðallagi en oft hefðum við getað staðið okkur betur.  Þegar litið er til Slóvakíu í dag, sjáum við hvernig lítil minnihlutakirkja fær mörgu áorkað, langt umfram það sem ætla mætti út frá stærð hennar.

Miklar framfarir hafa átt sér stað í málaflokkum félags- og heilbrigðisþjónustu í Slóvakíu á síðustu 30 árum, en enn er langt í land að sú þjónusta sé í meðallagi miðað við meðaltöl Evrópusambandsins. Gott dæmi um það sem vel er gert er starfið sem Ljúbika og samstarfsfólk hennar vinnur. Boðið er upp á endurhæfingu, sjúkraþjálfun, minnisþjálfun, ýmislegt félagsstarf og styttri ferðir, vikulegar guðsþjónustur og daglegar bænastundir, auk þess sem lögð er áhersla á fjölbreytt fæði og hverjum einstaklingi sinnt eins og best verður á kosið. Hér hjálpar vissulega sú staðreynd að nóg er af starfsfólki.

Vel má vera að þetta hljómi ósköp sjálfsagt. En því er ekki svo farið. Það mun hafa verið í lok átjándu aldar sem meðlimir í kirkjukór þýsku evangelísku kirkjunnar í Bratislava fóru að ræða þörfina á að opna heimili fyrir munaðarlaus börn. Árið 1794 tókst kirkjukórnum þetta verkefni: Munaðarlausir drengir fundu athvarf við stofnun kirkjukórsins. Þessi stofnun er fyrsti vísirinn að evangelískri díakoníu á því svæði sem í dag heitir Slóvakía. Þökk sé kirkjukórnum. Ellefu árum seinna tók kórinn næsta skref í þessum málaflokki og opnaði heimili fyrir stúlkur.

Kórnum var það líka hjartans mál að koma sjúkrastofnun á fót. Árið 1807 breyttu þau einfaldlega tveimur herbergjum í kirkjunni sjálfri. Annað herbergið varð að sjúkrastofu með tveimur rúmum. Hitt herbergið varð nú heimili hjúkrunarkonunnar sem kórinn réði til starfsins. Markmiðið var að geta sinnt veikum þjónustustúlkum. Þá tókust samningar við tvo lækna um að sinna sjúklingunum að kostnaðarlausu og apótekari í miðbænum bauðst til að gefa 50% afslátt af lyfjum fyrir þessa fyrstu sjúkrastofnun kirkjukórsins/kirkjunnar. 60 árum seinna flutti sjúkrastofan í eigið húsnæði.

Árið 1891 markar stór tímamót í sögu díakoníunnar á þessu svæði. Samtök evangelískra systra að þýskri/norrænni fyrirmynd tóku við rekstri og umsjón á kærleiksþjónustuverkefnum kirkjukórsins og settu á laggirnar eigin skóla fyrir hjúkrunarkonur, sem myndu að námi loknu vígjast sem djáknar. Árið 1930 var þetta starf komið vel af stað. Vígðar systur voru orðnar 46 talsins, þrjár voru í vígsluundirbúningi og fimm nemar voru í starfsþjálfun. Þá voru þrjár ólærðar aðstoðarkonur við þrif og eldhússtörf starfandi við hlið systranna. Aðalstjórn starfsins var í höndum karlmanns sem var einnig yfirlæknir (ekki prestur eins og oft var í Þýskalandi).

En svo breyttist allt. Árið 1939 yfirgaf þýski kirkjukórinn Bratislava og þar með var bakhjarl starfsins horfinn. Lítið var um starfsemi á stríðsárunum en til eru gögn um að 10 systur hafi verið lánaðar til Rauða Krossins. Árið 1945 tók evangelíska kirkja heimamanna við starfinu formlega. En það starf var ekki komið til að vera. Strax árið 1950 hófust kommúnistar handa við að loka, leggja niður eða sölsa undir sig starf og eignir kærleiksþjónustunnar. Tíu árum seinna var kirkjan ekki lengur með formlegt starf á þessum vettvangi. Hún mátti sinna fólki sem kom í guðsþjónustu en ekki umfram það.

Það var svo 1989 sem kirkjan fékk á ný að hefja þjónustu við þau sem þyrftu á aðstoð að halda í almannarými. Eftir tveggja ára undirbúning var Evangelíska díakonían stofnuð þann 30. nóvember 1991. Á þeim tíma hafði hin nýstofnaða díakonía engar eignir og ekkert rekstrarfé. En dugnaður og trúfesti hefur einkennt starfið alla tíð síðan. Starfið hefur vaxið og dafnað, meðal annars vegna fjármagns og ýmiss konar aðstoðar erlendis frá.

Í dag starfa fjórir einstaklingar á aðalskrifstofu díakoníunnar, sem er starfseining innan kirkjunnar. Starfið sjálft fer fram í svonefndum díakonískum miðstöðvum eins og þeirrar sem getið er í upphafi þessa pistils. Reynt er að hafa starfið nátengt safnaðarstarfinu og væri það efni í annan pistil að lýsa því hvort og hvernig það hefur tekist. En upphaf starfsins á hverjum stað er sannarlega komið frá heimafólki. Undantekningarlaust hafa aðstæður í viðkomandi söfnuði ráðið því hvers konar þjónustu boðið er upp á. Algengust eru öldrunarheimilin, en einnig má nefna heimili fyrir fólk með fötlun, fólk sem er að vinna í eigin vímuefnavanda eða konur sem flýja heimilisofbeldi. Lög um heilbrigðisþjónustu í Slóvakíu eru hins vegar þannig að kirkjur mega ekki eiga og reka sjúkrastofnanir, aðeins sinna félagsþjónustu. Þó má hún í vissum tilfellum ráða til sín hjúkrunarfræðinga og lækna til að styðja við starf t. d. á öldrunarheimili.

Saga díakoníunnar í Slóvakíu er vissulega flóknari og svo margþætt að skrifa mætti margar bækur.  Þó að stiklað hafi verið á stóru í þessari grein er það von höfundar að greinin gefi lesendum fyrstu hugmyndir um starf díakoníunnar í Slóvakíu.

Evangelíska lútherska kirkjan í Slóvakíu kennir sig við Ágsborgarjátninguna. Biskupar, prestar og leikmenn kirkjunnar leggja mikla áherslu á þetta atriði og eru ekki sáttir ef sú játning er sett á sama stall og aðrar játningar mótmælenda. Þá er kirkjan mjög stolt af því að teljast til þeirra kirkna sem voru meðal fyrstu lúthersku kirknanna. Samkvæmt síðustu manntalningu (2021) tilheyra rúmlega 200.000 manns eða 5.3% íbúa Slóvakíu kirkjunni.  Utan trúfélaga eru 25% og rúmur helmingur 5,4 milljón íbúa Slóvakíu tilheyra hinni rómversk-kaþólsku kirkju.

Leikmenn og vígðir þjónar leiða kirkjuna í sameiningu. Aðalbiskup kirkjunnar er Ivan Eľko, en fram til ársins 2019 var hann prestur í bænum Nitra. Við hlið hans starfar aðalritari kirkjunnar Renáta Vinczeová. Samkvæmt stjórnskipan kirkjunnar eru ákvarðanir þeirra aðeins gildar ef þau eru sammála. Stjórnsýslu kirkjunnar er skipt í tvö biskupsdæmi. Biskup í því vestra er Jan Hrobon og í því eystra Peter Mihoc.

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Við Gestagluggann sest

Pétur Björgvin Þorsteinsson framkvæmdastjóri verkefnis sem nefnist Von fyrir Austur-Evrópu  (þ. Hoffnung für Osteuropa). Verkefnið er samstarf evangelísku kirkjunnar og díakoníunnar í Württemberg, Þýskalandi. Pétur tók við starfinu fyrir fimm árum en verkefnið er 30 ára gamalt. Því er ætlað að styðja við díakoníu og hjálparstarf í fyrrverandi austantjaldslöndum.

Pétur Björgvin er djákni og með M.A. gráðu í Evrópufræðum. Hann fæddist á Dalvík og ólst upp í Þorpinu á Akureyri. Frá því að hann lauk námi í trúaruppeldisfræðum frá Karlshöhe, Ludwigsburg, þar sem hann vígðist til djákna 1997, hefur hann starfað til skiptis í Þýskalandi og á Íslandi. Mynd: Manfred Neumann 

 

Ljúbíka Kókakóva er sjúkraliði á öldrunarheimili kærleiksþjónustu evangelísku kirkjunnar í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu. Starfið gefur henni lífsfyllingu og sér hún hlutverk sitt í því að vera til staðar fyrir íbúa heimilisins og sinna jafnt trúarlegum og praktískum þörfum þeirra.  Í heimsóknum mínum á þetta heimili hefur mér oft fundist hún og samstarfsfólk hennar geisla af gleði og eiga svikalausa von í hjarta. Í þessum pistli gef ég stutta innsýn í sögu kærleiksþjónustu/díakoníu evangelísku kirkjunnar í Slóvakíu, áhugasömum lesendum Kirkjublaðsins.is vonandi til gagns og gamans.

Saga kirkjunnar hefur frá upphafi vega verið samofin sögum af hjálpar- og líknarstarfi. Stundum hefur okkur sem þjónum í kirkjunni tekist mjög vel að sinna þessum málaflokki,  gjarnan hefur framlag okkar verið vel yfir meðallagi en oft hefðum við getað staðið okkur betur.  Þegar litið er til Slóvakíu í dag, sjáum við hvernig lítil minnihlutakirkja fær mörgu áorkað, langt umfram það sem ætla mætti út frá stærð hennar.

Miklar framfarir hafa átt sér stað í málaflokkum félags- og heilbrigðisþjónustu í Slóvakíu á síðustu 30 árum, en enn er langt í land að sú þjónusta sé í meðallagi miðað við meðaltöl Evrópusambandsins. Gott dæmi um það sem vel er gert er starfið sem Ljúbika og samstarfsfólk hennar vinnur. Boðið er upp á endurhæfingu, sjúkraþjálfun, minnisþjálfun, ýmislegt félagsstarf og styttri ferðir, vikulegar guðsþjónustur og daglegar bænastundir, auk þess sem lögð er áhersla á fjölbreytt fæði og hverjum einstaklingi sinnt eins og best verður á kosið. Hér hjálpar vissulega sú staðreynd að nóg er af starfsfólki.

Vel má vera að þetta hljómi ósköp sjálfsagt. En því er ekki svo farið. Það mun hafa verið í lok átjándu aldar sem meðlimir í kirkjukór þýsku evangelísku kirkjunnar í Bratislava fóru að ræða þörfina á að opna heimili fyrir munaðarlaus börn. Árið 1794 tókst kirkjukórnum þetta verkefni: Munaðarlausir drengir fundu athvarf við stofnun kirkjukórsins. Þessi stofnun er fyrsti vísirinn að evangelískri díakoníu á því svæði sem í dag heitir Slóvakía. Þökk sé kirkjukórnum. Ellefu árum seinna tók kórinn næsta skref í þessum málaflokki og opnaði heimili fyrir stúlkur.

Kórnum var það líka hjartans mál að koma sjúkrastofnun á fót. Árið 1807 breyttu þau einfaldlega tveimur herbergjum í kirkjunni sjálfri. Annað herbergið varð að sjúkrastofu með tveimur rúmum. Hitt herbergið varð nú heimili hjúkrunarkonunnar sem kórinn réði til starfsins. Markmiðið var að geta sinnt veikum þjónustustúlkum. Þá tókust samningar við tvo lækna um að sinna sjúklingunum að kostnaðarlausu og apótekari í miðbænum bauðst til að gefa 50% afslátt af lyfjum fyrir þessa fyrstu sjúkrastofnun kirkjukórsins/kirkjunnar. 60 árum seinna flutti sjúkrastofan í eigið húsnæði.

Árið 1891 markar stór tímamót í sögu díakoníunnar á þessu svæði. Samtök evangelískra systra að þýskri/norrænni fyrirmynd tóku við rekstri og umsjón á kærleiksþjónustuverkefnum kirkjukórsins og settu á laggirnar eigin skóla fyrir hjúkrunarkonur, sem myndu að námi loknu vígjast sem djáknar. Árið 1930 var þetta starf komið vel af stað. Vígðar systur voru orðnar 46 talsins, þrjár voru í vígsluundirbúningi og fimm nemar voru í starfsþjálfun. Þá voru þrjár ólærðar aðstoðarkonur við þrif og eldhússtörf starfandi við hlið systranna. Aðalstjórn starfsins var í höndum karlmanns sem var einnig yfirlæknir (ekki prestur eins og oft var í Þýskalandi).

En svo breyttist allt. Árið 1939 yfirgaf þýski kirkjukórinn Bratislava og þar með var bakhjarl starfsins horfinn. Lítið var um starfsemi á stríðsárunum en til eru gögn um að 10 systur hafi verið lánaðar til Rauða Krossins. Árið 1945 tók evangelíska kirkja heimamanna við starfinu formlega. En það starf var ekki komið til að vera. Strax árið 1950 hófust kommúnistar handa við að loka, leggja niður eða sölsa undir sig starf og eignir kærleiksþjónustunnar. Tíu árum seinna var kirkjan ekki lengur með formlegt starf á þessum vettvangi. Hún mátti sinna fólki sem kom í guðsþjónustu en ekki umfram það.

Það var svo 1989 sem kirkjan fékk á ný að hefja þjónustu við þau sem þyrftu á aðstoð að halda í almannarými. Eftir tveggja ára undirbúning var Evangelíska díakonían stofnuð þann 30. nóvember 1991. Á þeim tíma hafði hin nýstofnaða díakonía engar eignir og ekkert rekstrarfé. En dugnaður og trúfesti hefur einkennt starfið alla tíð síðan. Starfið hefur vaxið og dafnað, meðal annars vegna fjármagns og ýmiss konar aðstoðar erlendis frá.

Í dag starfa fjórir einstaklingar á aðalskrifstofu díakoníunnar, sem er starfseining innan kirkjunnar. Starfið sjálft fer fram í svonefndum díakonískum miðstöðvum eins og þeirrar sem getið er í upphafi þessa pistils. Reynt er að hafa starfið nátengt safnaðarstarfinu og væri það efni í annan pistil að lýsa því hvort og hvernig það hefur tekist. En upphaf starfsins á hverjum stað er sannarlega komið frá heimafólki. Undantekningarlaust hafa aðstæður í viðkomandi söfnuði ráðið því hvers konar þjónustu boðið er upp á. Algengust eru öldrunarheimilin, en einnig má nefna heimili fyrir fólk með fötlun, fólk sem er að vinna í eigin vímuefnavanda eða konur sem flýja heimilisofbeldi. Lög um heilbrigðisþjónustu í Slóvakíu eru hins vegar þannig að kirkjur mega ekki eiga og reka sjúkrastofnanir, aðeins sinna félagsþjónustu. Þó má hún í vissum tilfellum ráða til sín hjúkrunarfræðinga og lækna til að styðja við starf t. d. á öldrunarheimili.

Saga díakoníunnar í Slóvakíu er vissulega flóknari og svo margþætt að skrifa mætti margar bækur.  Þó að stiklað hafi verið á stóru í þessari grein er það von höfundar að greinin gefi lesendum fyrstu hugmyndir um starf díakoníunnar í Slóvakíu.

Evangelíska lútherska kirkjan í Slóvakíu kennir sig við Ágsborgarjátninguna. Biskupar, prestar og leikmenn kirkjunnar leggja mikla áherslu á þetta atriði og eru ekki sáttir ef sú játning er sett á sama stall og aðrar játningar mótmælenda. Þá er kirkjan mjög stolt af því að teljast til þeirra kirkna sem voru meðal fyrstu lúthersku kirknanna. Samkvæmt síðustu manntalningu (2021) tilheyra rúmlega 200.000 manns eða 5.3% íbúa Slóvakíu kirkjunni.  Utan trúfélaga eru 25% og rúmur helmingur 5,4 milljón íbúa Slóvakíu tilheyra hinni rómversk-kaþólsku kirkju.

Leikmenn og vígðir þjónar leiða kirkjuna í sameiningu. Aðalbiskup kirkjunnar er Ivan Eľko, en fram til ársins 2019 var hann prestur í bænum Nitra. Við hlið hans starfar aðalritari kirkjunnar Renáta Vinczeová. Samkvæmt stjórnskipan kirkjunnar eru ákvarðanir þeirra aðeins gildar ef þau eru sammála. Stjórnsýslu kirkjunnar er skipt í tvö biskupsdæmi. Biskup í því vestra er Jan Hrobon og í því eystra Peter Mihoc.

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir