Stefán Magnússon, kirkjuþingsmaður og bóndi í Fagraskógi, og dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, hafa skrifað nokkrar greinar í Gestaglugga Kirkjublaðsins.is. Báðir búa þeir yfir mikilli þekkingu á innra sem ytra skipulagi kirkjunnar í sögu og samtíð. Þeir setja mál sitt fram ætíð fram af glöggskyggni og ýkjulaust svo að eftir er tekið.
Ár hvert bíða kirkjuþings mörg brýn úrlausnarefni. Nú stendur þó sérstaklega á spori þar sem biskupaskipti eru fram undan. Þá ríður á að hugað sé að hvort allir hnútar séu rétt hnýttir. Bæði kjörmenn og væntanlegir kandídatar verða að hafa skýra mynd af því til hvaða hlutverks sé verið að kalla en biskupskjör er auðvitað ekki hið sama og veraldlegar kosningar heldur kirkjuleg köllun.
Áríðandi verkefni kirkjuþings
Hér skal bent á þrjú mál sem mikilvægt er að kirkjuþing taki til umræðu nú í aðdraganda biskupskosninga. Hið fyrsta eru starfsreglur um biskupskjör, annað skipan yfirstjórnar kirkjunnar ásamt skipuriti og hið þriðja starfsreglur um störf biskups.
Þar sem tíminn er naumur er tæpast gerlegt að gera róttækar breytingar á reglum um kjör biskups. Enn ætti þó að vera svigrúm til að auka jafnræði milli vígðra og óvígðra kjörmanna hvað varðar tilnefningarrétt standi vilji kirkjuþings til þess. Væri það í anda 4. gr. þjóðkirkjulaganna nr. 77/2021.[1] Vinna við að aðlaga reglur um yfirstjórn þjóðkirkjunnar er einnig langt komin og mörkuð hefur verið sú stefna að greina rekstrarleg málefni frá hinum innri málum þjóðkirkjunnar er fremur lúta að hinni biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju. Reka þarf endahnút á það úrlausnarefni. Þá standa útaf starfsreglur um biskup sem koma þarf fyrir horn áður en gengið verður til biskupskjörs.
Kirkjupólitík biskups og vígslubiskupa
Þetta hafa sitjandi biskup og vígslubiskupar séð og hafa því lagt fyrir kirkjuþing tillögu að starfsreglum um biskup Íslands og stiftsráð (24. mál – þskj. 24a).[2] Hér er um stórt mál að ræða og því vekur nokkra furðu að ekki hafi verið staðið lýðræðislegar að verki (sbr. ofangreinda 4. gr. þjóðkirkjulaga) og kirkjuþing haft með í ráðum við undirbúning tillögunnar en undir það heyrir þetta málefni eins og glöggt kemur fram í 2.mgr. 10. gr. þjóðkirkjulaga.[3] Ekki þarf heldur lengi að lesa þegar ljóst verður að hér hafa biskuparnir eygt sóknarfæri fyrir kirkjupólitíska stefnu sína. Það kemur ljósast fram í 1. mgr. 2. gr. tillögunnar en þar segir: „Biskup Íslands hefur tilsjón með allri starfsemi sem fram fer innan kirkjunnar, og í nafni kirkjunnar.“[4]
Tilsjón (gr. epískópé) er eldgamalt lykilhugtak þegar um hlutverk biskups er að ræða og afmarkar kjarnann í starfi hans. Þegar hugtakið er notað um innri málin, hina vígðu þjónustu, eða bæn, boðun og þjónustu kirkjunnar er merking þess líka skýr og vel afmörkuð. En hvað merkir hugtakið þegar sagt er að biskup hafi „tilsjón með allri starfsemi sem fram fer innan kirkjunnar, og í nafni kirkjunnar“? Nær tilsjónarvald hans þá einnig yfir störf kirkjuþings sem „hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar“ og nær það yfir rekstrarleg málefni þó svo kirkjuþing fari með „fjárstjórnarvald“ í kirkjunni samkv. 7. gr. þjóðkirkjulaganna?[5] Ekki verður annað séð en hér sé sett fram sú stefna að á Íslandi skuli sitja einvaldur biskup.[6] — Samræmist það anda og orðalagi þjóðkirkjulaganna og þeirri stefnumörkun sem kirkjuþing hefur hingað til unnið að á grundvelli þeirra?
Það vekur enn athygli að aftar í tillögunni eða í 7. og 8. gr. er fjallað um starfssvið biskups. Þessi efnisskipan dregur enn skýrar í ljós að líta beri á fyrrgreinda 2. gr. sem nokkurs konar stefnu- eða markmiðsgrein og sýnir það enn kirkjupólitískt eðli tillögugreinarinnar. Þá má lesa svipað, altækt valdatilkall biskupi til handa út úr öðrum greinum tillögunnar. Í 11. gr. er t.a.m. kveðið á um það hlutverk biskups að „leitast við að tryggja sóknum landsins prests- og djáknaþjónustu eftir nánara skipulagi kirkjunnar, sbr. starfsreglur um skipulag kirkjunnar í héraði.“[7] Þetta er eðlilegt og rétt en nauðsynlegt virðist að taka hér fram að ekki skuli aðeins horfa til skipulags heldur og fjárheimilda kirkjuþings.
Þá vekur athygli að agavald biskups er skilgreint með mjög víðtækum hætti eða þannig að það nái einnig til fríkirkjusafnaða sem starfa á sama kenningargrunni og þjóðkirkjan og njóta þjónustu presta er biskup Íslands hefur vígt (9. gr.). Hér er um flókið samkirkjulegt mál að ræða sem einnig lýtur að trúfrelsi. Í upphafi fríkirkjusafnaða hér á landi vildu dönsk kirkjuyfirvöld ekki að biskup vígði fríkirkjupresta. Snemma komst sú venja þó á hér og hefur líklega verið litið svo á að þar væri um þjónustu þjóðkirkjunnar við systurkirkjur að ræða. Á sínum tíma var þó undirstrikað að með þessu öðlaðist biskup Íslands ekki tilsjónarvald yfir fríkirkjunum og prestum þeirra. Hugsanlega má áskilja biskupi tilsjónarvald yfir fríkirkjuprestum sem hann vígir. Það verður þá að gera með sérstökum samningum við fulltrúa fríkirkjusafnaðarins áður en vígslan er veitt. Þetta getur þó ekki náð til „kirkjuaga […] hjá fríkirkjusöfnuðum“ almennt enda væru þeir þá tæpast fríkirkjusöfnuðir.
Nýmæli — Stiftsráð
Í tillögunni er athyglisvert nýmæli þar sem er svokallað stiftsráð (betra biskupdæmisráð?) (sjá 13.–19. gr.) sem að því er virðist á að koma í stað biskupafundar og kenningarnefndar. Ekki verður annað séð en nýmælið sé allrar athygli vert enda á stiftsráðið hliðstæðu sína í ýmsum systurkirkjum.
Mikilvægt er þó að heitið valdi því ekki að talið sé að hér sé um einhvers konar arftaka hins aflagða kirkjuráðs að ræða. Undir stiftsráðið heyra einvörðungu mál sem lúta að innri málum hinnar biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju.
Í þessum kafla reglnanna mætti þó kveða skýrt að samráði stiftsráðsins og prestastefnu, hvernig því skuli háttað og hvenær það skuli viðhaft.
Að lokum
Vissulega má hengja hatt sinn á ýmislegt fleira í tillögu biskups og vígslubiskupanna og ekki síður í greinargerðinni sem fylgir. Hér verður það þó ekki gert.
Kirkjuþing verður aftur á móti að vega það og meta að hve miklu leyti tillagan getur orðið grundvöllur að starfsreglum sem það er reiðubúið að samþykkja. Í því efni hlýtur þingið að meta hvort tillagan samræmist gildandi þjóðkirkjulögum og þeirri stefnu sem þingið hefur nýlega markað.
Vegna þess að nú eru biskupar kjörnir og/eða kallaðir til afmarkaðs tíma verður annað tveggja að kveða á um réttindi og hugsanlegar skyldur fyrrverandi biskupa sem ekki hafa náð eftirlaunaaldri í þeim starfsreglum sem hér eru til umræðu eða að öðrum kosti í reglum um biskupskjör. Ella er hætt við að upp geti komið óþarfa óvissa og ágreiningur.[8]
Tilvísanir
[1] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is, sótt 16. október 2023 af https://www.althingi.is/altext/stjt/2021.077.html
[2] TILLAGA að starfsreglum um biskup Íslands og stiftsráð, kirkjan.is, sótt 16. október 2023 af https://kirkjan.is/library/KirkjuThing/24.%20m%c3%a1l.%20Tillaga%20a%c3%b0%20starfsreglum%20um%20biskup%20%c3%8dslands%20og%20stiftisr%c3%a1%c3%b0.pdf
[3] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is, sótt 16. október 2023 af https://www.althingi.is/altext/stjt/2021.077.html
[4] TILLAGA að starfsreglum um biskup Íslands og stiftsráð, kirkjan.is, sótt 16. október 2023 af https://kirkjan.is/library/KirkjuThing/24.%20m%c3%a1l.%20Tillaga%20a%c3%b0%20starfsreglum%20um%20biskup%20%c3%8dslands%20og%20stiftisr%c3%a1%c3%b0.pdf
[5] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is, sótt 16. október 2023 af https://www.althingi.is/altext/stjt/2021.077.html
[6] Sjá Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“, kirkjubladid.is, sótt 17. október 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/hvernig-biskup-viljum-vid/
[7] TILLAGA að starfsreglum um biskup Íslands og stiftsráð, kirkjan.is, sótt 16. október 2023 af https://kirkjan.is/library/KirkjuThing/24.%20m%c3%a1l.%20Tillaga%20a%c3%b0%20starfsreglum%20um%20biskup%20%c3%8dslands%20og%20stiftisr%c3%a1%c3%b0.pdf
[8] Sjá Stefán Magnússon og Hjalti Hugason, „Tímabundnir biskupa“. kirkjubladid.is, sótt 17. október 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/timabundnir-biskupar/
Stefán Magnússon, kirkjuþingsmaður og bóndi í Fagraskógi, og dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, hafa skrifað nokkrar greinar í Gestaglugga Kirkjublaðsins.is. Báðir búa þeir yfir mikilli þekkingu á innra sem ytra skipulagi kirkjunnar í sögu og samtíð. Þeir setja mál sitt fram ætíð fram af glöggskyggni og ýkjulaust svo að eftir er tekið.
Ár hvert bíða kirkjuþings mörg brýn úrlausnarefni. Nú stendur þó sérstaklega á spori þar sem biskupaskipti eru fram undan. Þá ríður á að hugað sé að hvort allir hnútar séu rétt hnýttir. Bæði kjörmenn og væntanlegir kandídatar verða að hafa skýra mynd af því til hvaða hlutverks sé verið að kalla en biskupskjör er auðvitað ekki hið sama og veraldlegar kosningar heldur kirkjuleg köllun.
Áríðandi verkefni kirkjuþings
Hér skal bent á þrjú mál sem mikilvægt er að kirkjuþing taki til umræðu nú í aðdraganda biskupskosninga. Hið fyrsta eru starfsreglur um biskupskjör, annað skipan yfirstjórnar kirkjunnar ásamt skipuriti og hið þriðja starfsreglur um störf biskups.
Þar sem tíminn er naumur er tæpast gerlegt að gera róttækar breytingar á reglum um kjör biskups. Enn ætti þó að vera svigrúm til að auka jafnræði milli vígðra og óvígðra kjörmanna hvað varðar tilnefningarrétt standi vilji kirkjuþings til þess. Væri það í anda 4. gr. þjóðkirkjulaganna nr. 77/2021.[1] Vinna við að aðlaga reglur um yfirstjórn þjóðkirkjunnar er einnig langt komin og mörkuð hefur verið sú stefna að greina rekstrarleg málefni frá hinum innri málum þjóðkirkjunnar er fremur lúta að hinni biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju. Reka þarf endahnút á það úrlausnarefni. Þá standa útaf starfsreglur um biskup sem koma þarf fyrir horn áður en gengið verður til biskupskjörs.
Kirkjupólitík biskups og vígslubiskupa
Þetta hafa sitjandi biskup og vígslubiskupar séð og hafa því lagt fyrir kirkjuþing tillögu að starfsreglum um biskup Íslands og stiftsráð (24. mál – þskj. 24a).[2] Hér er um stórt mál að ræða og því vekur nokkra furðu að ekki hafi verið staðið lýðræðislegar að verki (sbr. ofangreinda 4. gr. þjóðkirkjulaga) og kirkjuþing haft með í ráðum við undirbúning tillögunnar en undir það heyrir þetta málefni eins og glöggt kemur fram í 2.mgr. 10. gr. þjóðkirkjulaga.[3] Ekki þarf heldur lengi að lesa þegar ljóst verður að hér hafa biskuparnir eygt sóknarfæri fyrir kirkjupólitíska stefnu sína. Það kemur ljósast fram í 1. mgr. 2. gr. tillögunnar en þar segir: „Biskup Íslands hefur tilsjón með allri starfsemi sem fram fer innan kirkjunnar, og í nafni kirkjunnar.“[4]
Tilsjón (gr. epískópé) er eldgamalt lykilhugtak þegar um hlutverk biskups er að ræða og afmarkar kjarnann í starfi hans. Þegar hugtakið er notað um innri málin, hina vígðu þjónustu, eða bæn, boðun og þjónustu kirkjunnar er merking þess líka skýr og vel afmörkuð. En hvað merkir hugtakið þegar sagt er að biskup hafi „tilsjón með allri starfsemi sem fram fer innan kirkjunnar, og í nafni kirkjunnar“? Nær tilsjónarvald hans þá einnig yfir störf kirkjuþings sem „hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar“ og nær það yfir rekstrarleg málefni þó svo kirkjuþing fari með „fjárstjórnarvald“ í kirkjunni samkv. 7. gr. þjóðkirkjulaganna?[5] Ekki verður annað séð en hér sé sett fram sú stefna að á Íslandi skuli sitja einvaldur biskup.[6] — Samræmist það anda og orðalagi þjóðkirkjulaganna og þeirri stefnumörkun sem kirkjuþing hefur hingað til unnið að á grundvelli þeirra?
Það vekur enn athygli að aftar í tillögunni eða í 7. og 8. gr. er fjallað um starfssvið biskups. Þessi efnisskipan dregur enn skýrar í ljós að líta beri á fyrrgreinda 2. gr. sem nokkurs konar stefnu- eða markmiðsgrein og sýnir það enn kirkjupólitískt eðli tillögugreinarinnar. Þá má lesa svipað, altækt valdatilkall biskupi til handa út úr öðrum greinum tillögunnar. Í 11. gr. er t.a.m. kveðið á um það hlutverk biskups að „leitast við að tryggja sóknum landsins prests- og djáknaþjónustu eftir nánara skipulagi kirkjunnar, sbr. starfsreglur um skipulag kirkjunnar í héraði.“[7] Þetta er eðlilegt og rétt en nauðsynlegt virðist að taka hér fram að ekki skuli aðeins horfa til skipulags heldur og fjárheimilda kirkjuþings.
Þá vekur athygli að agavald biskups er skilgreint með mjög víðtækum hætti eða þannig að það nái einnig til fríkirkjusafnaða sem starfa á sama kenningargrunni og þjóðkirkjan og njóta þjónustu presta er biskup Íslands hefur vígt (9. gr.). Hér er um flókið samkirkjulegt mál að ræða sem einnig lýtur að trúfrelsi. Í upphafi fríkirkjusafnaða hér á landi vildu dönsk kirkjuyfirvöld ekki að biskup vígði fríkirkjupresta. Snemma komst sú venja þó á hér og hefur líklega verið litið svo á að þar væri um þjónustu þjóðkirkjunnar við systurkirkjur að ræða. Á sínum tíma var þó undirstrikað að með þessu öðlaðist biskup Íslands ekki tilsjónarvald yfir fríkirkjunum og prestum þeirra. Hugsanlega má áskilja biskupi tilsjónarvald yfir fríkirkjuprestum sem hann vígir. Það verður þá að gera með sérstökum samningum við fulltrúa fríkirkjusafnaðarins áður en vígslan er veitt. Þetta getur þó ekki náð til „kirkjuaga […] hjá fríkirkjusöfnuðum“ almennt enda væru þeir þá tæpast fríkirkjusöfnuðir.
Nýmæli — Stiftsráð
Í tillögunni er athyglisvert nýmæli þar sem er svokallað stiftsráð (betra biskupdæmisráð?) (sjá 13.–19. gr.) sem að því er virðist á að koma í stað biskupafundar og kenningarnefndar. Ekki verður annað séð en nýmælið sé allrar athygli vert enda á stiftsráðið hliðstæðu sína í ýmsum systurkirkjum.
Mikilvægt er þó að heitið valdi því ekki að talið sé að hér sé um einhvers konar arftaka hins aflagða kirkjuráðs að ræða. Undir stiftsráðið heyra einvörðungu mál sem lúta að innri málum hinnar biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju.
Í þessum kafla reglnanna mætti þó kveða skýrt að samráði stiftsráðsins og prestastefnu, hvernig því skuli háttað og hvenær það skuli viðhaft.
Að lokum
Vissulega má hengja hatt sinn á ýmislegt fleira í tillögu biskups og vígslubiskupanna og ekki síður í greinargerðinni sem fylgir. Hér verður það þó ekki gert.
Kirkjuþing verður aftur á móti að vega það og meta að hve miklu leyti tillagan getur orðið grundvöllur að starfsreglum sem það er reiðubúið að samþykkja. Í því efni hlýtur þingið að meta hvort tillagan samræmist gildandi þjóðkirkjulögum og þeirri stefnu sem þingið hefur nýlega markað.
Vegna þess að nú eru biskupar kjörnir og/eða kallaðir til afmarkaðs tíma verður annað tveggja að kveða á um réttindi og hugsanlegar skyldur fyrrverandi biskupa sem ekki hafa náð eftirlaunaaldri í þeim starfsreglum sem hér eru til umræðu eða að öðrum kosti í reglum um biskupskjör. Ella er hætt við að upp geti komið óþarfa óvissa og ágreiningur.[8]
Tilvísanir
[1] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is, sótt 16. október 2023 af https://www.althingi.is/altext/stjt/2021.077.html
[2] TILLAGA að starfsreglum um biskup Íslands og stiftsráð, kirkjan.is, sótt 16. október 2023 af https://kirkjan.is/library/KirkjuThing/24.%20m%c3%a1l.%20Tillaga%20a%c3%b0%20starfsreglum%20um%20biskup%20%c3%8dslands%20og%20stiftisr%c3%a1%c3%b0.pdf
[3] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is, sótt 16. október 2023 af https://www.althingi.is/altext/stjt/2021.077.html
[4] TILLAGA að starfsreglum um biskup Íslands og stiftsráð, kirkjan.is, sótt 16. október 2023 af https://kirkjan.is/library/KirkjuThing/24.%20m%c3%a1l.%20Tillaga%20a%c3%b0%20starfsreglum%20um%20biskup%20%c3%8dslands%20og%20stiftisr%c3%a1%c3%b0.pdf
[5] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, althingi.is, sótt 16. október 2023 af https://www.althingi.is/altext/stjt/2021.077.html
[6] Sjá Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“, kirkjubladid.is, sótt 17. október 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/hvernig-biskup-viljum-vid/
[7] TILLAGA að starfsreglum um biskup Íslands og stiftsráð, kirkjan.is, sótt 16. október 2023 af https://kirkjan.is/library/KirkjuThing/24.%20m%c3%a1l.%20Tillaga%20a%c3%b0%20starfsreglum%20um%20biskup%20%c3%8dslands%20og%20stiftisr%c3%a1%c3%b0.pdf
[8] Sjá Stefán Magnússon og Hjalti Hugason, „Tímabundnir biskupa“. kirkjubladid.is, sótt 17. október 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/timabundnir-biskupar/