Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og skrifar beitta grein um fjármál kirkjunnar og skipulagsmál. Dr. Skúli hefur m.a. setið í framkvæmdanefnd kirkjuþings og á kirkjuþingi.

Fjársýsla kirkjunnar á árunum 2011 til 2021 var ósjálfbær, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Alls nemur samanlagt rekstrartap þessara ára kr. 708 milljónum á verðgildi ársins 2021.

Gengið á eignir

Þetta segir þó ekki alla söguna. Til þess að geta haldið úti þeirri eyðslu sem yfirstjórn kirkjunnar taldi eðlilega hafa fastafjármunir kirkjunnar verið seldir. Í upphafi þessa tímabils var samanlagt verðmæti jarða og fasteigna kr. 2,8 milljarðar sem á verðgildi ársins 2021 er kr. 6,9 milljarðar.[1] Árið 2021 var þessi upphæð komin í 3,5 milljarða. Þetta þýðir að verðmæti eigna kirkjunnar hefur rýrnað um helming á þessum tíma.

Svo rösklega hefur verið gengið til verks í að skerða þennan höfuðstól kirkjunnar að leita verður aftur til siðaskiptanna að viðlíka rýrnun kirkjulegra eigna. Hér verður ekki gerð tilraun til að benda hvaða svið kirkjulegrar þjónustu hafa vaxið sem þessu nemur. Aðrir geta tekið það að sér að leita þau uppi, ef sú leit er líkleg til að skila árangri.

Ef rétt hefði verið að málum staðið, ættu þessar eignir að vera tekjustofn sem gætu tryggt og jafnvel eflt safnaðarstarf og þjónustu kirkjunnar til framtíðar.

Viðspyrna kirkjuþings

Að vonum hafa kirkjuþingfulltrúar haft áhyggjur af þessari stöðu mála. Sú ákvörðun var tekin árið 2020 að stöðva allar nýráðningar innan kirkjunnar. Með því var leitast við að ná jafnvægi í rekstrinum.

Um leið og nýtt skipulag tók gildi, um áramótin 2022 með skiptingu yfirstjórnar þjóðkirkjunnar í biskups- og rekstrarstofu gafst tækifæri til að vinna að löngu tímabærum umbótum á þessu sviði.

Afturhvarf

Eins og gjarnan er um umfangsmiklar breytingar eimir enn eftir af hinni gömlu hugsun þótt skipulagið sé nýtt. Það kemur fram í þessu tilviki. Þrátt fyrir að rekstrarstofa hefði tekið til starfa og framkvæmdanefnd ætti að sinna eftirliti með rekstrinum, auglýsti biskup þegar í ársbyrjun 2022 fimm prestsstöður án alls samráðs. Ráðningarbannið hafði vissulega verið numið úr gildi en fyrirséð var að allar tölur yrðu rauðar í árslok. Þá hefur komið fram að biskup gerði dýran starfslokasamning við þáverandi fjármálastjóra án vitundar og samþykkis rekstrarstofu. Einnig voru uppi hugmyndir um að vinna að kostnaðarsömum endurbótum á húsnæði Grensáskirkju fyrir Þjónustumiðstöð þjóðkirkjunnar. Allt bar þetta með sér aukin útgjöld án þess að tillit væri tekið til þess hvernig ætti að mæta þeim.

Á kirkjuþingi 2021 var samþykkt tillaga um að endurskoða fyrirkomulag vígðrar þjónustu kirkjunnar. Þar gafst tækifæri til að straumlínulaga starfsemina og eðlilegt hefði verið að horfa til rekstrarins í því samhengi. Nefnd var skipuð til að fara yfir málið og á meðan var beðið með allar breytingar á þessu sviði. Niðurstöður nefndarinnar voru þeim mikil vonbrigði sem sáu fyrir sér að tilefnið yrði notað til að taka á málunum. Allt skyldi vera áfram í sama farinu og biskupafundur hefur enn ákvarðanir af þessu tagi í hendi sér.

Hvað er að frétta af kirkjuþingi?

Nýtt kirkjuþing tók til starfa haustið 2022. Áhugavert er að fylgjast með störfum nýkjörinna fulltrúa í ljósi þess hversu aðkallandi það er að koma á róttækum breytingum á þessu sviði. Sé litið yfir þau verkefni sem fulltrúar hafa sett í forgang bendir fátt til þess að vitundarvakning hafi átt sér stað á þessu sviði:

  • Nefnd er að störfum sem hefur það verkefni að finna þjónustumiðstöð kirkjunnar varanlegt húsnæði. Núverandi leigukostnaður nemur 20 milljónum á ári. Ef hugmyndin er sú að byggja húsnæði eða standa í endurbótum á eldri byggingu mun það fela í sér umtalsverð útgjöld. Því til viðbótar kemur rekstur, viðhald, skattar o.fl. Þessi vinna hlýtur að teljast ótímabær meðan ekki hefur tekist að ná jafnvægi í rekstri kirkjunnar.
  • Kirkjuþingfulltrúar hafa ekki brugðist við þeirri stöðu mála að biskupafundur tekur ákvarðanir um auglýsingu embætta en rekstrarstofa ber ábyrgð á fjármálunum. Ef sú ábyrgð á að vera virk þarf aðkoma rekstrarstofu að vera skýrari. Samkvæmt hinu nýja skipulagi á virkt samstarf að vera á milli þessara aðila. Mikilvægt er að allar ákvarðanir sem fela í sér fjárhagslega skuldbindingu hljóti formlegt samþykki rekstrarstofu, sem er ábyrgðaraðili fyrir fjármál kirkjunnar.
  • Nú liggur fyrir tillaga á kirkjuþingi um að skera niður kostnað við þingið. Þetta ber vissulega vott um að fólk hafi réttmætar áhyggjur af stöðu mála. Hér þarf þó að gæta varúðar. Kirkjuþing er æðsta stofnun kirkjunnar og leikmenn á kirkjuþingi þurfa margir að leggja út fyrir kostnaði við viðveru á þinginu. Öðru máli gegnir um prestana. Þessi tillaga lítur fram hjá þeirri staðreynd að kostnaður við kirkjuþing er aðeins brot af útgjöldum kirkjunnar. Rétt væri að efla kirkjuþing með auknum stuðningi við leikmenn, en endurskoða mætti greiðslur til starfandi presta sem sitja á þinginu. Brýnast er að við fáum gott fólk á þingið.

Þessi upptalning sýnir að kirkjuþingfulltrúar hafa ekki þá yfirsýn sem nauðsynleg er til að bregðast við aðkallandi vanda.

Kanslarakirkjan

Lítill áhugi virðist vera á að líta til þess kostnaðar sem til fellur vegna yfirstjórnar, skoða hvernig auka mætti tekjur af fasteignum og jörðum, endurskoða skipulag vígðrar þjónustu (sem aldrei var gert) og tryggja það gagnsæi í fjármálum sem gerir fólki kleift að sjá svart á hvítu hvernig rekstrinum er háttað. Mér vitanlega hefur til að mynda ekki verið farið ofan í saumana á þeirri stórfelldu rýrnun sem hefur orðið á eignasafni kirkjunnar, eins og gert er hér í þessum pistli.

Helst mætti ætla að fólk lifi í hillingum um þá tíma þar sem prestar voru eins konar „kansellívald“ þess tíma. Það vísar þá til þess að kirkjan sé yfirvald sem þurfi að berast á og sýna mátt sinn og megin. Út um allt land voru stór íbúðarhús sem hýstu þá og í samræmi við það sat biskupinn í réttnefndri kanslarahöll. Jafnt og þétt hefur komið í ljós hversu mikil tímaskekkja þessi mynd hefur verið og má skoða sölu fasteigna kirkjunnar síðustu árin sem viðurkenningu á þeirri staðreynd. Það breytir því þó ekki hversu hryggilegt það er að söluandvirðið skuli hafa brunnið upp með þeim hætti sem raun ber vitni. Og ekki hefur enn verið hróflað við bústað biskups sem útheimtir há útgjöld í rekstri og bindingu fjár án raunverulegs ávinnings. Með sama hætti hefur ekki tekist að koma á endurskoðun á vígslubiskupsembættunum og viðleitni til að hámarka kirkjulega þjónustu með breyttu skipulagi.

Fremur vega prestar úr hópi kirkjuþingfulltrúa að kjarna kirkjulegs lýðræðis, kirkjuþingi, sem ætti miklu fremur að treysta í sessi og efla til frekari ábyrgðar.

Tilvísun:

[1] M.v. þróun íbúðarvísitölu, frá 333 (árið 2011) í 810 (árið 2021).

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og skrifar beitta grein um fjármál kirkjunnar og skipulagsmál. Dr. Skúli hefur m.a. setið í framkvæmdanefnd kirkjuþings og á kirkjuþingi.

Fjársýsla kirkjunnar á árunum 2011 til 2021 var ósjálfbær, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Alls nemur samanlagt rekstrartap þessara ára kr. 708 milljónum á verðgildi ársins 2021.

Gengið á eignir

Þetta segir þó ekki alla söguna. Til þess að geta haldið úti þeirri eyðslu sem yfirstjórn kirkjunnar taldi eðlilega hafa fastafjármunir kirkjunnar verið seldir. Í upphafi þessa tímabils var samanlagt verðmæti jarða og fasteigna kr. 2,8 milljarðar sem á verðgildi ársins 2021 er kr. 6,9 milljarðar.[1] Árið 2021 var þessi upphæð komin í 3,5 milljarða. Þetta þýðir að verðmæti eigna kirkjunnar hefur rýrnað um helming á þessum tíma.

Svo rösklega hefur verið gengið til verks í að skerða þennan höfuðstól kirkjunnar að leita verður aftur til siðaskiptanna að viðlíka rýrnun kirkjulegra eigna. Hér verður ekki gerð tilraun til að benda hvaða svið kirkjulegrar þjónustu hafa vaxið sem þessu nemur. Aðrir geta tekið það að sér að leita þau uppi, ef sú leit er líkleg til að skila árangri.

Ef rétt hefði verið að málum staðið, ættu þessar eignir að vera tekjustofn sem gætu tryggt og jafnvel eflt safnaðarstarf og þjónustu kirkjunnar til framtíðar.

Viðspyrna kirkjuþings

Að vonum hafa kirkjuþingfulltrúar haft áhyggjur af þessari stöðu mála. Sú ákvörðun var tekin árið 2020 að stöðva allar nýráðningar innan kirkjunnar. Með því var leitast við að ná jafnvægi í rekstrinum.

Um leið og nýtt skipulag tók gildi, um áramótin 2022 með skiptingu yfirstjórnar þjóðkirkjunnar í biskups- og rekstrarstofu gafst tækifæri til að vinna að löngu tímabærum umbótum á þessu sviði.

Afturhvarf

Eins og gjarnan er um umfangsmiklar breytingar eimir enn eftir af hinni gömlu hugsun þótt skipulagið sé nýtt. Það kemur fram í þessu tilviki. Þrátt fyrir að rekstrarstofa hefði tekið til starfa og framkvæmdanefnd ætti að sinna eftirliti með rekstrinum, auglýsti biskup þegar í ársbyrjun 2022 fimm prestsstöður án alls samráðs. Ráðningarbannið hafði vissulega verið numið úr gildi en fyrirséð var að allar tölur yrðu rauðar í árslok. Þá hefur komið fram að biskup gerði dýran starfslokasamning við þáverandi fjármálastjóra án vitundar og samþykkis rekstrarstofu. Einnig voru uppi hugmyndir um að vinna að kostnaðarsömum endurbótum á húsnæði Grensáskirkju fyrir Þjónustumiðstöð þjóðkirkjunnar. Allt bar þetta með sér aukin útgjöld án þess að tillit væri tekið til þess hvernig ætti að mæta þeim.

Á kirkjuþingi 2021 var samþykkt tillaga um að endurskoða fyrirkomulag vígðrar þjónustu kirkjunnar. Þar gafst tækifæri til að straumlínulaga starfsemina og eðlilegt hefði verið að horfa til rekstrarins í því samhengi. Nefnd var skipuð til að fara yfir málið og á meðan var beðið með allar breytingar á þessu sviði. Niðurstöður nefndarinnar voru þeim mikil vonbrigði sem sáu fyrir sér að tilefnið yrði notað til að taka á málunum. Allt skyldi vera áfram í sama farinu og biskupafundur hefur enn ákvarðanir af þessu tagi í hendi sér.

Hvað er að frétta af kirkjuþingi?

Nýtt kirkjuþing tók til starfa haustið 2022. Áhugavert er að fylgjast með störfum nýkjörinna fulltrúa í ljósi þess hversu aðkallandi það er að koma á róttækum breytingum á þessu sviði. Sé litið yfir þau verkefni sem fulltrúar hafa sett í forgang bendir fátt til þess að vitundarvakning hafi átt sér stað á þessu sviði:

  • Nefnd er að störfum sem hefur það verkefni að finna þjónustumiðstöð kirkjunnar varanlegt húsnæði. Núverandi leigukostnaður nemur 20 milljónum á ári. Ef hugmyndin er sú að byggja húsnæði eða standa í endurbótum á eldri byggingu mun það fela í sér umtalsverð útgjöld. Því til viðbótar kemur rekstur, viðhald, skattar o.fl. Þessi vinna hlýtur að teljast ótímabær meðan ekki hefur tekist að ná jafnvægi í rekstri kirkjunnar.
  • Kirkjuþingfulltrúar hafa ekki brugðist við þeirri stöðu mála að biskupafundur tekur ákvarðanir um auglýsingu embætta en rekstrarstofa ber ábyrgð á fjármálunum. Ef sú ábyrgð á að vera virk þarf aðkoma rekstrarstofu að vera skýrari. Samkvæmt hinu nýja skipulagi á virkt samstarf að vera á milli þessara aðila. Mikilvægt er að allar ákvarðanir sem fela í sér fjárhagslega skuldbindingu hljóti formlegt samþykki rekstrarstofu, sem er ábyrgðaraðili fyrir fjármál kirkjunnar.
  • Nú liggur fyrir tillaga á kirkjuþingi um að skera niður kostnað við þingið. Þetta ber vissulega vott um að fólk hafi réttmætar áhyggjur af stöðu mála. Hér þarf þó að gæta varúðar. Kirkjuþing er æðsta stofnun kirkjunnar og leikmenn á kirkjuþingi þurfa margir að leggja út fyrir kostnaði við viðveru á þinginu. Öðru máli gegnir um prestana. Þessi tillaga lítur fram hjá þeirri staðreynd að kostnaður við kirkjuþing er aðeins brot af útgjöldum kirkjunnar. Rétt væri að efla kirkjuþing með auknum stuðningi við leikmenn, en endurskoða mætti greiðslur til starfandi presta sem sitja á þinginu. Brýnast er að við fáum gott fólk á þingið.

Þessi upptalning sýnir að kirkjuþingfulltrúar hafa ekki þá yfirsýn sem nauðsynleg er til að bregðast við aðkallandi vanda.

Kanslarakirkjan

Lítill áhugi virðist vera á að líta til þess kostnaðar sem til fellur vegna yfirstjórnar, skoða hvernig auka mætti tekjur af fasteignum og jörðum, endurskoða skipulag vígðrar þjónustu (sem aldrei var gert) og tryggja það gagnsæi í fjármálum sem gerir fólki kleift að sjá svart á hvítu hvernig rekstrinum er háttað. Mér vitanlega hefur til að mynda ekki verið farið ofan í saumana á þeirri stórfelldu rýrnun sem hefur orðið á eignasafni kirkjunnar, eins og gert er hér í þessum pistli.

Helst mætti ætla að fólk lifi í hillingum um þá tíma þar sem prestar voru eins konar „kansellívald“ þess tíma. Það vísar þá til þess að kirkjan sé yfirvald sem þurfi að berast á og sýna mátt sinn og megin. Út um allt land voru stór íbúðarhús sem hýstu þá og í samræmi við það sat biskupinn í réttnefndri kanslarahöll. Jafnt og þétt hefur komið í ljós hversu mikil tímaskekkja þessi mynd hefur verið og má skoða sölu fasteigna kirkjunnar síðustu árin sem viðurkenningu á þeirri staðreynd. Það breytir því þó ekki hversu hryggilegt það er að söluandvirðið skuli hafa brunnið upp með þeim hætti sem raun ber vitni. Og ekki hefur enn verið hróflað við bústað biskups sem útheimtir há útgjöld í rekstri og bindingu fjár án raunverulegs ávinnings. Með sama hætti hefur ekki tekist að koma á endurskoðun á vígslubiskupsembættunum og viðleitni til að hámarka kirkjulega þjónustu með breyttu skipulagi.

Fremur vega prestar úr hópi kirkjuþingfulltrúa að kjarna kirkjulegs lýðræðis, kirkjuþingi, sem ætti miklu fremur að treysta í sessi og efla til frekari ábyrgðar.

Tilvísun:

[1] M.v. þróun íbúðarvísitölu, frá 333 (árið 2011) í 810 (árið 2021).

Viltu deila þessari grein með fleirum?