Gry Hedin

Dr. Gry Hedin, listfræðingur hjá Ríkislistasafni Danmerkur (Statens Museum for Kunst) sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is. Grein þessi birtist í Kristeligt Dagblad 23. september sl. og hefur dr. Hedin gefið ritstjóra Kirkjublaðsins.is góðfúslegt leyfi til að þýða hana íslensku og birta.

Hvað er hægt að læra af norska málaranum Edvard Munch (1863-1944) í dag? Jú, það að hver einstaklingur upplifir náttúruna innra með sér sem mikinn kraft og að hún beiti stundum meira valdi en góðu hófi gegnir. Hann kennir okkur líka að við verðum að takast saman á við sorgina og öll áföll sem dynja yfir í lífi okkar.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir skilning manneskjunnar á sjálfri sér að náttúran lúti ekki stjórn hennar né standi hún fyrir utan hana heldur sé hún sjálf hluti af óstöðugri náttúru? Og hvað einkennir okkur sem líffræðilegar verur? Þetta eru spurningar sem norski listmálarinn Edvard Munch setti fram og eru aldrei sem nú jafn brýnar fyrir okkur þegar náttúran ögrar trú manneskjunnar á sjálfa sig.

Munch lagði þessar spurningar fyrir náttúruna með manneskjuna í brennipunkti og sjálfan sig. Eða með öðrum orðum: Hvað er náttúra? Hann stillir sjálfum sér upp sem einstaklingi í ólgusjó lífsins og afhjúpar hverflynda manneskjuna, viðkvæma sem blóm, merkta dauða og rekna áfram af innri hvöt. Já, hann stillir sér upp í orðsins fyllstu merkingu. Hann sýnir hvernig líkami hans og sál bregðast stundum við ofbeldisfullum heimi og hann miðlar þessari reynslu til okkar í verkum sínum. Við endurlifum atburðina sem mótuðu hann þegar við skoðum verk hans með samlíðun að leiðarljósi. Þetta þýðir að við setjum okkur í spor fólksins í verkum hans og gefum okkur á vald þeirri upplausn sem verkin sýna.

Munchmuseet1895

Sjálfsmynd – Edvard Munch 1895 – mynd: Munchmuseet

Það er þversagnakennt að sú nánd við heiminn sem hann teflir fram og margir finna mikið fyrir þegar verk hans eru skoðuð, minni á að hann missti marga sér nákomna á yngri árum. Hann var barn þegar móðir hans og systir féllu frá. Faðir hans og bróðir létust þegar hann var ungur maður. Rithöfundurinn Karl Ove Knausgård, sem er sérfræðingur í túlkun á verkum Munchs, telur að þetta sé ástæða þess að hann forðaðist að mynda náin tengsl við fólk og sleppti því til dæmis að velja sér lífsförunaut. Þess vegna er svo að sjá að allt sem hann málar sem og verkin sjálf dragi fram náin samskipti. Hann málar að eigin sögn aðeins „fólk sem andar og hefur tilfinningar,“ og hann málar eingöngu það sem hefur einhverja merkingu. Munch talar um verkin sem börnin sín.

Lykil að skilningi á því hvernig Munch miðlar nánd til heimsins er að finna hjá enska náttúruvísindamanninum Charles Darwin. Í bók sinni, Um uppruna tegundanna, tók Darwin mikilvægt skref til að endurnýja skilning okkar á náttúrunni í sjálfum okkur. Sú bók hefur verið skilin með ýmsum hætti út frá aðstæðum hvers lesanda fyrir sig. Sjónarhóll þess sem getur af sér afkomendur er annar en hins sem stendur síðastur í röð ættar sem er að deyja út. Munch og margir rithöfundar sem voru hans samtíðarmenn töldu sig skipa síðarnefnda hópinn. Þeir láta sögumenn sína tala í fyrstu persónu og axla öll óleyst mál og þau sem vafi leikur um; þeir viðurkenna eigin bresti sem og ófullkomleika heimsins og telja sig skylduga til að horfa fremur til yfirstandandi stundar frekar en til endalokanna. Persónan sem rekur söguna í Sulti Knuts Hamsuns gengur nær fram af sér;  „Annað sjálf“ Hermans Bang í sögu hans, Håbløse slægter, er síðasti ættliðurinn og August Strindberg dýrkar geðveikina í Inferno.

Þetta er fyrsta myndin af nokkrum sem Munch gerði af veika barninu – frá því um 1885-1886 og var hann þá 23 ára gamall. – Mynd: Munchmuseet

Málverkið Barnið veika eftir Munch sem er frá 1885-1886 má túlka sem lok ættar. Sagan á bak við málverkið er sú að systir Munch veiktist af berklum og dó. Dauði hennar hafði mikil áhrif á hann. Verkið sýnir unga stúlku sem er illa haldin af sjúkdómnum. Við sjáum hana nánast tærast fyrir augum okkar. Líkami hennar er nær gagnsær og veiklaður. Munch dregur fram veikindi hennar með litaáferð og hvössum pensilförum sem draga fram sár og ör eftir erfitt sjúkdómsstríð. Í verkinu er dreginn fram sársauki og missir; sorgin er túlkuð með þeim hætti sem ekki áður hafði sést. Það er yfirbragð myndarinnar sem segir alla söguna. Stíll myndarinnar endurómar tilfinningar bróðurins sem skilur ekki hvaða rök búa að baki dauða barns.

Darwin segir að ekki nái öll fræ að spíra þar sem syngjandi fuglar nærist á því að kljúfa þau sér til matar. Þannig er náttúran, í senn fögur og hörð í horn að taka. Munch dró fram þessa hlið lífsins sem tók á hann þegar systir hans lést. Við erum hluti náttúrunnar og eins hún þá erum við óstöðug, takmörkuð og viðkvæm. Manneskjan tekst á við þessa hlið lífsins með því að horfast í augu við náttúruna og þau kjör sem hún býður fram, finna fegurð í því forgengilega. Munch sýnir þetta ekki aðeins með því að mála stúlkuna heldur lætur líðan sína koma fram með sterkum hætti í myndmálinu. Litalög myndarinnar eru afar ókyrr. Hann hefur rispað myndflötinn og klórað og það er jafn mikilvægt að gefa því gaum eins og hinni deyjandi stúlku.

Bæði Munch og Darwin sökktu sér ofan í afleiðingarnar af flókinni náttúru og ekki alltaf tillitssamri. Við sem borgarfólk gleymum því að við erum hluti af náttúrunni, og Munch var barn stórborgarinnar, Kristjaníu (síðar Ósló), Kaupmannahafnar, Berlínar og Parísar. En sem íbúar í stórborgum berum við náttúruna í okkur. Það kemur skýrast fram þegar tilvist okkar er ógnað og birtist í andlitum okkar og líkömum.

Frá um 1910 - Munchmuseet

Ópið – Munch málaði þetta verk oft – frá 1910. Mynd: Munchmuseet

Darwin skrifar í The Expression of the Emotions in Man and Animal frá 1872 að viðbrögðin afhjúpi afdráttarlaust rætur okkar í náttúrunni. Þetta á til dæmis við þegar ógn stendur að okkur og við verðum skelfingu lostin. Þá opnast augu okkar til fulls og við verðum ósjálfrátt opinmynnt samtímis sem hárin rísa á höfði okkar. Við verðum stjörf um leið og við opnum okkur gagnvart heiminum. Darwin lýsir einkennum óttans sem koma í smæstu atriðum heim og saman við málverk Munchs, Ópið frá 1893. Á sama hátt og með Barnið veika er ekki það sem skiptir sköpum að við sjáum manneskju heldur að við höfum samlíðan með einstaklingnum um leið og hann rennur saman við landslagið. Ópið sem manneskjan tjáir skynjum við með þeim hætti að hún er að leysast upp og líkist fóstri. Galopin augu og þandar nasir, opinn munnur og lítill hlykkjóttur líkami sem kallast á við íbognar rauðar línur himinsins.

Munch upplifði stóráföll í eigin lífi og brást við þeim með því að sýna nánd. Honum fannst sem heimurinn væri að hrynja og viðbrögð hans við þeim ósköpum renna saman við hann. Við erum heimurinn sem er kominn að fótum fram. Hann er ekki fyrir utan okkur.

Darwin segir að ekki sé lengur hægt að horfa til Guðs sem vandvirks og nákvæms úrsmiðs sem hefur skapað heiminn eins og hvert annað gangvirki. Heimurinn sé í þess stað af holdi og blóði, sé ferli sem Guð hefur blásið lífi í og birtist það með ýmsu móti. Það er líf sem deyr á hverri mínútu en endurnýjast líka með áður óséðum hætti. Ásamt Darwin og mörgum öðrum hugsuðum færumst við frá hugmyndinni um fullkominn og rökréttan heim. Þess í stað verðum við að rannsaka heim sem ekki er hægt að skoða utan frá heldur getur einstaklingurinn aðeins skynjað hann sem ófullnægjandi og óstöðugan.

Þetta eru þeir lærdómar sem Munch dregur úr smiðju Darwins og af öðrum náttúruvísindamönnum frá því um lok 19. aldar.

En hvað getum við lært af þessu í dag? Kannski fyrst og fremst að þekking um náttúruna er líka heimspeki og að einstaklingurinn skynjar kraft náttúrunnar á sjálfum sér og hann er á köflum harðneskjulegur. Tími loftslagsvár hreyfir við okkur en hver verða viðbrögð okkar þegar tilveru einstaklingsins er ógnað? Lýkst það þá fyrst upp fyrir okkur að náttúran sé í okkur? Og getur upplifunin af vanmætti kallað fram viðurkenningu á nánd og fegurð?

Við glötum hinni sígildu fegurð þegar við opnum augu okkar fyrir heiminum en um leið eignumst við nýja fegurð í fullgerðri mynd sem blasir við okkur og skapar heild með litum og formum sem umvefja okkur. Ópið hefur orðið táknrænt verk vegna þess að það býr yfir algjörlega einstakri fegurð og kennir okkur að mæta áföllum heimsins með opnum huga. Sama á við verkið, Barnið veika, en upplausn þess sem kemur meðal annars fram í úfnu yfirborði litanna knýr okkur til að taka þátt í áföllum Munchs. Málverkið getur styrkt okkur á kveðjustund einhvers nákomins eða andspænis hættu sem steðjar að sumarfugli eða vistkerfinu. Munch dregur fram að í sorginni leysist upp munurinn á manneskjunni og heiminum og hvort tveggja verður að hans hyggju að glíma sameiginlega við. Það er fallegur og mikilvægur lærdómur sem við getum haft að veganesti út í fallvaltan heim.

Ísl. þýðing: Hreinn S. Hákonarson

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Gry Hedin

Dr. Gry Hedin, listfræðingur hjá Ríkislistasafni Danmerkur (Statens Museum for Kunst) sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is. Grein þessi birtist í Kristeligt Dagblad 23. september sl. og hefur dr. Hedin gefið ritstjóra Kirkjublaðsins.is góðfúslegt leyfi til að þýða hana íslensku og birta.

Hvað er hægt að læra af norska málaranum Edvard Munch (1863-1944) í dag? Jú, það að hver einstaklingur upplifir náttúruna innra með sér sem mikinn kraft og að hún beiti stundum meira valdi en góðu hófi gegnir. Hann kennir okkur líka að við verðum að takast saman á við sorgina og öll áföll sem dynja yfir í lífi okkar.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir skilning manneskjunnar á sjálfri sér að náttúran lúti ekki stjórn hennar né standi hún fyrir utan hana heldur sé hún sjálf hluti af óstöðugri náttúru? Og hvað einkennir okkur sem líffræðilegar verur? Þetta eru spurningar sem norski listmálarinn Edvard Munch setti fram og eru aldrei sem nú jafn brýnar fyrir okkur þegar náttúran ögrar trú manneskjunnar á sjálfa sig.

Munch lagði þessar spurningar fyrir náttúruna með manneskjuna í brennipunkti og sjálfan sig. Eða með öðrum orðum: Hvað er náttúra? Hann stillir sjálfum sér upp sem einstaklingi í ólgusjó lífsins og afhjúpar hverflynda manneskjuna, viðkvæma sem blóm, merkta dauða og rekna áfram af innri hvöt. Já, hann stillir sér upp í orðsins fyllstu merkingu. Hann sýnir hvernig líkami hans og sál bregðast stundum við ofbeldisfullum heimi og hann miðlar þessari reynslu til okkar í verkum sínum. Við endurlifum atburðina sem mótuðu hann þegar við skoðum verk hans með samlíðun að leiðarljósi. Þetta þýðir að við setjum okkur í spor fólksins í verkum hans og gefum okkur á vald þeirri upplausn sem verkin sýna.

Munchmuseet1895

Sjálfsmynd – Edvard Munch 1895 – mynd: Munchmuseet

Það er þversagnakennt að sú nánd við heiminn sem hann teflir fram og margir finna mikið fyrir þegar verk hans eru skoðuð, minni á að hann missti marga sér nákomna á yngri árum. Hann var barn þegar móðir hans og systir féllu frá. Faðir hans og bróðir létust þegar hann var ungur maður. Rithöfundurinn Karl Ove Knausgård, sem er sérfræðingur í túlkun á verkum Munchs, telur að þetta sé ástæða þess að hann forðaðist að mynda náin tengsl við fólk og sleppti því til dæmis að velja sér lífsförunaut. Þess vegna er svo að sjá að allt sem hann málar sem og verkin sjálf dragi fram náin samskipti. Hann málar að eigin sögn aðeins „fólk sem andar og hefur tilfinningar,“ og hann málar eingöngu það sem hefur einhverja merkingu. Munch talar um verkin sem börnin sín.

Lykil að skilningi á því hvernig Munch miðlar nánd til heimsins er að finna hjá enska náttúruvísindamanninum Charles Darwin. Í bók sinni, Um uppruna tegundanna, tók Darwin mikilvægt skref til að endurnýja skilning okkar á náttúrunni í sjálfum okkur. Sú bók hefur verið skilin með ýmsum hætti út frá aðstæðum hvers lesanda fyrir sig. Sjónarhóll þess sem getur af sér afkomendur er annar en hins sem stendur síðastur í röð ættar sem er að deyja út. Munch og margir rithöfundar sem voru hans samtíðarmenn töldu sig skipa síðarnefnda hópinn. Þeir láta sögumenn sína tala í fyrstu persónu og axla öll óleyst mál og þau sem vafi leikur um; þeir viðurkenna eigin bresti sem og ófullkomleika heimsins og telja sig skylduga til að horfa fremur til yfirstandandi stundar frekar en til endalokanna. Persónan sem rekur söguna í Sulti Knuts Hamsuns gengur nær fram af sér;  „Annað sjálf“ Hermans Bang í sögu hans, Håbløse slægter, er síðasti ættliðurinn og August Strindberg dýrkar geðveikina í Inferno.

Þetta er fyrsta myndin af nokkrum sem Munch gerði af veika barninu – frá því um 1885-1886 og var hann þá 23 ára gamall. – Mynd: Munchmuseet

Málverkið Barnið veika eftir Munch sem er frá 1885-1886 má túlka sem lok ættar. Sagan á bak við málverkið er sú að systir Munch veiktist af berklum og dó. Dauði hennar hafði mikil áhrif á hann. Verkið sýnir unga stúlku sem er illa haldin af sjúkdómnum. Við sjáum hana nánast tærast fyrir augum okkar. Líkami hennar er nær gagnsær og veiklaður. Munch dregur fram veikindi hennar með litaáferð og hvössum pensilförum sem draga fram sár og ör eftir erfitt sjúkdómsstríð. Í verkinu er dreginn fram sársauki og missir; sorgin er túlkuð með þeim hætti sem ekki áður hafði sést. Það er yfirbragð myndarinnar sem segir alla söguna. Stíll myndarinnar endurómar tilfinningar bróðurins sem skilur ekki hvaða rök búa að baki dauða barns.

Darwin segir að ekki nái öll fræ að spíra þar sem syngjandi fuglar nærist á því að kljúfa þau sér til matar. Þannig er náttúran, í senn fögur og hörð í horn að taka. Munch dró fram þessa hlið lífsins sem tók á hann þegar systir hans lést. Við erum hluti náttúrunnar og eins hún þá erum við óstöðug, takmörkuð og viðkvæm. Manneskjan tekst á við þessa hlið lífsins með því að horfast í augu við náttúruna og þau kjör sem hún býður fram, finna fegurð í því forgengilega. Munch sýnir þetta ekki aðeins með því að mála stúlkuna heldur lætur líðan sína koma fram með sterkum hætti í myndmálinu. Litalög myndarinnar eru afar ókyrr. Hann hefur rispað myndflötinn og klórað og það er jafn mikilvægt að gefa því gaum eins og hinni deyjandi stúlku.

Bæði Munch og Darwin sökktu sér ofan í afleiðingarnar af flókinni náttúru og ekki alltaf tillitssamri. Við sem borgarfólk gleymum því að við erum hluti af náttúrunni, og Munch var barn stórborgarinnar, Kristjaníu (síðar Ósló), Kaupmannahafnar, Berlínar og Parísar. En sem íbúar í stórborgum berum við náttúruna í okkur. Það kemur skýrast fram þegar tilvist okkar er ógnað og birtist í andlitum okkar og líkömum.

Frá um 1910 - Munchmuseet

Ópið – Munch málaði þetta verk oft – frá 1910. Mynd: Munchmuseet

Darwin skrifar í The Expression of the Emotions in Man and Animal frá 1872 að viðbrögðin afhjúpi afdráttarlaust rætur okkar í náttúrunni. Þetta á til dæmis við þegar ógn stendur að okkur og við verðum skelfingu lostin. Þá opnast augu okkar til fulls og við verðum ósjálfrátt opinmynnt samtímis sem hárin rísa á höfði okkar. Við verðum stjörf um leið og við opnum okkur gagnvart heiminum. Darwin lýsir einkennum óttans sem koma í smæstu atriðum heim og saman við málverk Munchs, Ópið frá 1893. Á sama hátt og með Barnið veika er ekki það sem skiptir sköpum að við sjáum manneskju heldur að við höfum samlíðan með einstaklingnum um leið og hann rennur saman við landslagið. Ópið sem manneskjan tjáir skynjum við með þeim hætti að hún er að leysast upp og líkist fóstri. Galopin augu og þandar nasir, opinn munnur og lítill hlykkjóttur líkami sem kallast á við íbognar rauðar línur himinsins.

Munch upplifði stóráföll í eigin lífi og brást við þeim með því að sýna nánd. Honum fannst sem heimurinn væri að hrynja og viðbrögð hans við þeim ósköpum renna saman við hann. Við erum heimurinn sem er kominn að fótum fram. Hann er ekki fyrir utan okkur.

Darwin segir að ekki sé lengur hægt að horfa til Guðs sem vandvirks og nákvæms úrsmiðs sem hefur skapað heiminn eins og hvert annað gangvirki. Heimurinn sé í þess stað af holdi og blóði, sé ferli sem Guð hefur blásið lífi í og birtist það með ýmsu móti. Það er líf sem deyr á hverri mínútu en endurnýjast líka með áður óséðum hætti. Ásamt Darwin og mörgum öðrum hugsuðum færumst við frá hugmyndinni um fullkominn og rökréttan heim. Þess í stað verðum við að rannsaka heim sem ekki er hægt að skoða utan frá heldur getur einstaklingurinn aðeins skynjað hann sem ófullnægjandi og óstöðugan.

Þetta eru þeir lærdómar sem Munch dregur úr smiðju Darwins og af öðrum náttúruvísindamönnum frá því um lok 19. aldar.

En hvað getum við lært af þessu í dag? Kannski fyrst og fremst að þekking um náttúruna er líka heimspeki og að einstaklingurinn skynjar kraft náttúrunnar á sjálfum sér og hann er á köflum harðneskjulegur. Tími loftslagsvár hreyfir við okkur en hver verða viðbrögð okkar þegar tilveru einstaklingsins er ógnað? Lýkst það þá fyrst upp fyrir okkur að náttúran sé í okkur? Og getur upplifunin af vanmætti kallað fram viðurkenningu á nánd og fegurð?

Við glötum hinni sígildu fegurð þegar við opnum augu okkar fyrir heiminum en um leið eignumst við nýja fegurð í fullgerðri mynd sem blasir við okkur og skapar heild með litum og formum sem umvefja okkur. Ópið hefur orðið táknrænt verk vegna þess að það býr yfir algjörlega einstakri fegurð og kennir okkur að mæta áföllum heimsins með opnum huga. Sama á við verkið, Barnið veika, en upplausn þess sem kemur meðal annars fram í úfnu yfirborði litanna knýr okkur til að taka þátt í áföllum Munchs. Málverkið getur styrkt okkur á kveðjustund einhvers nákomins eða andspænis hættu sem steðjar að sumarfugli eða vistkerfinu. Munch dregur fram að í sorginni leysist upp munurinn á manneskjunni og heiminum og hvort tveggja verður að hans hyggju að glíma sameiginlega við. Það er fallegur og mikilvægur lærdómur sem við getum haft að veganesti út í fallvaltan heim.

Ísl. þýðing: Hreinn S. Hákonarson

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir