Í þessari grein verður leitast við að sýna hvernig rými, sem er að missa hlutverk sitt og jafnvel þýðingu, getur fyrir markvissa tengingu við rýmislist bæði viðhaldið fyrra inntaki og öðlast nýja merkingu. Í henni er leitast við að draga þetta fram í tengslum við innsetningu bandaríska listamannsins James Turrell (f. 1943) í kapellunni í Dorotheenstädtischen Friedhof í Berlín. En áður en henni verður lýst er nauðsynlegt að gera grein fyrir hvernig svokölluð sekúlarísering, þ.e. afhelgun, veraldarvæðing og afgoðun hins vestrænan heims, hefur breytt afstöðu fólks til trúar og listar. Hún kemur m.a. vel fram bæði í breyttu hlutverki kirkjurýmisins og listarinnar innan þess.[1]
Listin, kirkjan og afhelgunin
Eitt af því sem einkennir vestræn ríki er hve sýnilegar kirkjur eru innan þeirra. Á Vesturlöndum eru þær áberandi í landslaginu, í miðju þorpa og við helstu torg í borgum. Þær elstu er allt frá því um 400 e.Kr. Margar þeirra, m.a. dómkirkjur marka djúp spor í byggingarsögu Evrópu og nægir hér að huga að frægum gotneskum dómkirkjum eins og Notre Dame í París eða dómkirkjunni í Köln.
Það sem einkennir þessar gömlu kirkjur er yfirleitt löng byggingarsaga. Þær hafa svo að segja vaxið með því samfélagi sem þær eru hluti af. Hins vegar á það ekki við um flestar þær kirkjur sem byggðar hafa verið eftir seinni heimsstyrjöld. Á árunum eftir stríð (1945 – 2000) hefur verið byggt meira af kirkjum í Evrópu en nokkurn tímann áður í sögunni. Samhliða þessu byggingaræði nær sekúlaríseringin á Vesturlöndum endanlega til allra sviða samfélagsins. Í Evrópu hófst sekúlaríseringin með upplýsingunni, en fulltrúar hennar gera skynsemina að mælikvarða allra hluta. Í framhaldinu af því lúta skynseminni allar hefðir og allar kennisetningar. Afleiðing þessa er að hún verður, samkvæmt skilgreiningum fulltrúa upplýsingarinnar, ráðandi á öllum sviðum mannlegs samfélags.
Guðfræðingar höfðu í aldanna rás kennt að skynsemin væri ambátt guðfræðinnar, en með upplýsingunni varð hún ekki bara sjálfráð heldur einráð. Stöðugir sigrar á sviði vísinda, veittu manninum óbrigðula trú á mátt skynseminnar og þar með á sjálfan sig sem mælikvarða allra hluta. Trúnni og trúarþekkingunni var marvist vikið til hliðar. Í samhengi þessa tapaði fagurfræðin (þ. Ästhetik) innan vísindanna líka stöðu sinni og var gerð að hliðargrein.[2] Afleiðing þessa var að menning, efnahagslíf, stjórnmál og félagsmál losnuðu úr „viðjum“ kristinna hefða.[3] Himinninn var vissulega enn á sínum stað, en ekki lengur tengdur við frumspeki og Guð.[4] Vitundin um annan veruleika en þann áþreifanlega, hverfur úr opinberu lífi og tengsl handanverunnar við hugsun og gjörðir fólks rofna. Maðurinn er bundinn sjálfum sér og þeim heimi sem hann lifir í. Á síðari hluta tuttugustu aldar er ein afleiðing þessarar þróunar, krafan um aukinn hreyfanleika og aðlögunarhæfni einstaklingsins. Óneitanlega hefur sekúleríseraður veruleiki nútímasamfélags opnað fólki áður óþekkta möguleika, en okkar síðnútími er ekki bara vettvangur tækifæra og frama, heldur líka erfiðleika og einangrunar.[5] Krafan í samtímanum um hreyfanleika og að einstaklingurinn móti líf sitt, hefur leitt til þess að erfitt er að viðhalda þeim þáttum innan samfélagsins sem þarfnast skuldbindingar og festu. Menn geta ekki bundið sig og sína með sama hætti og áður. Menn eiga því erfitt með að gerast ævilangir þátttakendur í félagsstarfi. Kirkjan sem félagssamtök er hér engin undantekning.
Í Evrópu virðist þróunin vera sú að um þriðjungur þjóðarinnar er utan trúfélaga, annar er tiltölulega skeytingarlaus um trúmál og sá þriðji sinnir þeim. Vandinn sem blasir við kirkjum er, að ekki er mögulegt að viðhalda starfsemi í öllum kirkjum hvað þá að halda þeim við. Víðs vegar í Evrópu er verið að breyta kirkjum og laga að nýjum aðstæðum. Þetta er eitthvað sem fulltrúar íslensku þjóðkirkjunnar þurfa að horfast í augu við.
Samkvæmt listfræðingnum Harmut Böhme á ekki lengur við, sú gamla þróunarhyggja sem mat söguna sem einhverskonar skólagöngu mannsins, þ.e.a.s. frá bernsku trúarbragðanna, til ungdómsára listanna og loks til fullorðinsára vísindanna. Nú á dögum er að mati Böhme staðreynd að listin veiti manninum betri aðgang að veruleika sínum, en trú og vísindi geta gert ein og sér. En þegar listin tengist þeim opnast aftur á móti nýjar víddir og það kemur vel fram í verkum James Turrell.[6]
Ljósainnsetning James Turrell
James Turrell er kunnur fyrir innsetningu á tæknilega mjög flóknum ljósheimum. Í Þýskalandi er m.a. þekkt verk eftir hann í Unna, Hannover og Wolfsburg. Í innsetningum hans er áhorfandinn í miðpunkti, hann gengur svo að segja inn í ljósheim sem hann er umlukin af. Ljósið og upplifum þess renna saman í eitt, þessu veldur að allt rýmið er undirlagt ljósi og margbreytileika þess.
Vitundin um hvað sé upp og hvað sé miður, til hægri og vinstri, nálægt og fjarlægt renna saman og missir merkingu. Í þessum ljósaheimi er sem áhorfandinn hverfi á vit hins opna og ókunnuga. List Turrells mætti nefna upplifunarlist, sem vill ekki skrásetja upplifun eða sýn áhorfandans, heldur vekja hana. [7] Þessi viðleitni Turrells að kalla fram upplifun eða sýn innra með áhorfandanum, á rætur að rekja til uppruna hans í söfnuði kvekara.
Í guðsþjónustum kvekara skiptir hið innra ljós miklu máli. Hið innra ljós er sem ljósbrot af ljósi eilífðarinnar sem upplýsir manninn. Þessi áhersla á ljósið var m.a. miðlæg í guðfræðihugsun manna á miðöldum. Í þessum vangaveltum skipti rit sem eignað var Díónýsíusi Areopagíta sköpum. Upphaflega var höfundurinn talinn hafa verið lærisveinn Páls, en í raun er hér um er að ræða dulúðugt nýplatónskt guðfræðirit líklega frá 5. eða 6. öld. Höfundurinn er nú alla jafna nefndur Pseudo–Díónýsíus Areopagíti (Fals-Díónýsíus). Hann telur veruleika heims og manns eða sköpunina hafa mismikla hlutdeild í hinu guðlega ljósi. Innan stigveldis sköpunarinnar dvelur ljós Guðs, sem gerir henni mögulegt að stíga upp til hans.
Guð notar heiminn til þess að vísa til og vitna um tilvist sína.[8] Það er sem veruleiki Guðs lýsi í gegnum allan veruleika. Það gefur að skilja að í samhengi þessa skiptir glerið og glergluggar í kirkjum sköpum sem efni er hleypir ljósinu í gegnum sig, þrátt fyrir allan ófullkomleika efnisins.[9] Í tengslum við þessar áherslur þróaðist trúaráhersla á ljósið og dulúð þess. Menn álitu að maður og Guð, svo að segja mættust í ljósinu. Hið innra ljós var mótsstaður Guðs og manns. Trúarhreyfing kvekara nýtir sér margt úr þessari fornu arfleifð.
Listrænan áhuga á ljósinu rekur Turrell til reynslu sinnar sem ungs drengs. Þegar hann var eitt sinn að bíða eftir guðsþjónustu hjá kvekurum, spurði hann ömmu sína, hvað hann væri að gera þarna. Sú gamla svaraði: „Þú skalt bara bíða því við munum brátt ganga inn í hið mikla ljós.“ Það var aftur á móti ekki það sem hann sá, heldur venjulegur salur. Þar var ekki mynd, hvað þá altari, Biblía, kross, prestur eða messuform. Fólkið sat bara saman í þögn, þar til einhver rauf hana og tjáði sig um líf sitt. Það var hið innra ljós sem samkoman snérist um og menn leituðu að. Þessi ljósadulúð kvekara hefur reynst þeim mikil og kröftug uppspretta til að berjast fyrir mannréttindum og mannúðarmálum.[10] Turrell segist hafa þurft sinn tíma til að greina þetta innra ljós og tjá í verkum sínum.[11] Þýski guðfræðingurinn og listfræðingurinn Thomas Erne telur að Turrell yfirfæri þessa reynslu sína í list sinni og gera ljósið nærri áþreifanlegt í verkum sínum. Einmitt þar sé mótsstaður og sniðpunktur tveggja vídda.[12]
Kapellan í Dorotheenstädtischen-kirkjugarinum
Kapellan í Dotheenstädtischen-kirkjugarðinum var byggð 1927 og einfaldleiki hennar dregur vel fram fagurfræðilegar áherslur byggingarinnar. Við dyrnar eru súlur, kirkjuhurðin er úr gleri en yfir henni er þríhyrndur gluggi með krossi í. Yfir dyrunum standa orð úr 90. sálmi Davíðs: „Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns“ (Sálmur 90.1).
Kapellan í Dorotheenstädtischen-kirkjugarðinum
Innra rýmið er einfalt. Flatt loftið og gólfið eru úr brenndum tígulsteini og veggir eru hvítir. Innan kapellunnar eru tvær bekkjaraðir er snúa að altarinu en á milli er þeirra er gangur er liggur upp að því. Altarið er í kórnum, sem er upphækkaður með tveimur tröppum og yfir því er hálfbogi. Hægra megin við altarið er ræðupúlt og á veggjum eru tvö málverk af guðspjallamönnum, vinstra megin er olíuverk af Jóhannesi en hægra megin af Markúsi.
Inni í kapellunni
Í kirkjugarðinum er að finna grafir þekktra fulltrúa þýskrar menningar eins og Johann Gottlieb Fichte, Friedrich Wilhelm Hegel, Herbert Marcuse, Bertold Brecht, Heinrich Mann, Johannes Rau og fleiri. Kirkjugarðurinn og kapellan hafa áberandi tilvísun til þýskrar menningar sem nær út fyrir þann ramma sem kirkja setur. Í kapellunni eru haldnar athafnir í tengslum við greftrun. Rúmlega einn þriðji er kirkjulegur, einn þriðji snertir fólk sem vill láta jarða sig kyrrþey og án þess að nafns sé getið og einn þriðji hluti athafna er án prests.
Hafa ber í huga að kapellan er byggð í kringum kistulagningu og útför að evangelísk-lútherskum sið. Það veldur nokkrum núningi við þá útfararsiði sem þróast hafa á undanförnum áratugum, í lausum tengslum við kirkju og kristni, innan vestrænna samfélaga. Þegar kom að því að lagfæra og endurnýja kapelluna, kom m.a. sú hugmynd fram að breyta henni í kaffihús. Því var hafnað og vildi söfnuðurinn koma til móts við hlutverks kapellunnar sem fjölnota rýmis og staðs sem er á mörkum tveggja veruleika.[13] Söfnuðurinn vildi, í þeim breytingum sem færu fram, að einfaldleiki kapellunnar og notkunar hennar, væri virtur.[14] Leitað var til Turrells sem lagði til að nýta kapelluna og einfaldleika hennar sem staðar er endurspeglaði litbrigði marka dags og nætur. Hann vildi að dagsljósið væri virt í innsetningunni. Veggir og loft kapellunnar notar Turrell líkt og hvítt tjald í kvikmyndahúsi. Í innsetningu Turrells leikur hann sér ekki einungis með litbrigði við skil dags og nætur, heldur grípur hann til lita kirkjuársins sem hann varpar á viðkomandi staði innan kapellunnar.
Yfir daginn er í rýminu mild hvít birta, en þegar rökkva tekur er ljósgjafinn innsetning Turrells. Þannig má vel túlka kapelluna sem rými þar sem tvö svið skarast. Þar sem veröld domus ecclesiae og domus aesthetici mætast eða rými kirkjunnar og rými fagurfræðinnar.[15] Reynslan hefur þó verið sú, að fólk vill gjarnan hafa skilin óljós, þar sem það hefur bæði þörf fyrir einfaldleika kapellunnar og möguleikann á innsetningu Turrells. Þessi tvíræðni er mikilvæg fyrir útfarir, sem gefur henni vægi kveðjustundar á mörkum tveggja heima. Ljósainnsetning Turrells veitir hinum trúarlega veruleika nýja dýpt og samtímis gefur hún fagurfræðilegri upplifum trúarlega vídd. Þessi þáttur kemur til móts við þær breytingar í trúarlegum efnum sem vestrænt samfélag er að ganga í gegnum.[16]
Þannig er kapellan, sem átti að breyta í kaffihús (sem reyndar er búið að koma fyrir við hlið hennar), í senn kirkja kristins safnaðar og hús listarinnar. Þannig gefur rýmislistin staðnum ekki einungis aftur merkingu sína, heldur bætir við hann annarri vídd.[17]
Inni í kapellunni
Inni í kapellunni
Ljósaskúlptúr: Kapellan í Dorotheenstädtischen-kirkjugarðinum
Lokaorð
Það merkilega við ljósainnsetningar Turrells er að ljósið skapar rými og kallar fram upplifum hjá áhorfandanum. Það staðsetur hann á mærum tveggja vídda. Að fá að taka þátt í slíkri innsetningu er eins og að verða hluti að fagurfræðilegir helgiathöfn, sem hver og einn verður að leyfa að virka á sig og ef til vill að færa síðan í orð. Listin veitir rýminu hér ekki einungis nýja vídd, heldur getur gefið viðkomandi nýja sýn á þann táknheim sem hann er hluti af. Verkið virkjar táknheim áhorfandans og lætur hann tjá sig innan hans og gefur honum/henni möguleika að greina á ný mörk eða víddir í eigin tilveru.
Myndir af kapellunni í Dorotheenstädtischen-kirkjugarðinum: Florian Holzherr.
James Turrell er Bandaríkjamaður, fæddur 1943
Heimildir
Böhne, Hartmut: Das Licht als Medium der Kunst – Über Erfahrungsarmut und ätheisches Gegenlicht in der technischen Zivilisation, Antrittsvorlesung 2. November 1994, Forschungsabteilung der Humboldt–Universität, Heft 66, Berlin 1996.
Erne, Thomas: Hybride Räume der Tranzensendenz – Wozu wir heute noch Kirchen brauchen, Evangelische Verlagsanstalt, Leipzig, 2017.
Joas, Hans: Glaube als Option, 2. útgáfa, Herder Verlag, Freiburg 2013.
Rugg, Judith: „Exploring Site-Specific Art“, I.B. Taris, London 2010.
[2] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 23.
[3]Carl Heinz Ratschow, „Säkularismus, I. Grundsätzlich und Geschichtlich“, Die Religion in Geschicihte und Gegenwart, 3. útgáfa 5. bindi, J.C.B. Mohr Tübingen 1986, 1291 [1288–1296].
[4] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 24.
[5] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 18–20.
[6] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 31.
[7] Christa DiMarco, „James Turrell´s ´Greet the Light´ at Chestnut Hill Friends Meeting“, https://www.broadstreetreview.com/design/james-turrells-greet-the-light-at-chestnut-hill-friends-meeting# (sótt 27.1. 2020).
[8] Otto von Simson, Die gotische Kathedrale – Beiträge zu ihrer Entstehung und Bedeutung, Wissenschaftliche Buchgesellschaft, Darmstadt, 1968, 82.
[9] Otto von Simson, Die gotische Kathedrale, 77–85. Stutt yfirlit yfir hugmyndafræðilega sögu ljósins er m.a. að finna hjá Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 5–18.
[10] Thomas Erne, Hybride Räume der Tranzensxendenz – Wozu wir heute noch Kirchen brauchen, Evangelische Verlagsanstalt, Leipzig, 2017, 158.
[11] Christa DiMarco, „James Turrell´s ´Greet the Light´ at Chestnut Hill Friends Meeting“,
[12] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 8.
[13] Judith Rugg, „Exploring Site-Specific Art“, I.B. Taris, London 2010, 157–175.
[14] Thomas Erne, Hybride Räume der Tranzensendenz, 161.
[15] Thomas Erne, Hybride Räume der Tranzensendenz, 162.
[16] Hans Joas, Glaube als Option, 2. útgáfa, Herder Verlag, Freiburg 2013, 139–148.
[17] Thomas Erne, Hybride Räume der Tranzensendenz, 164.
Í þessari grein verður leitast við að sýna hvernig rými, sem er að missa hlutverk sitt og jafnvel þýðingu, getur fyrir markvissa tengingu við rýmislist bæði viðhaldið fyrra inntaki og öðlast nýja merkingu. Í henni er leitast við að draga þetta fram í tengslum við innsetningu bandaríska listamannsins James Turrell (f. 1943) í kapellunni í Dorotheenstädtischen Friedhof í Berlín. En áður en henni verður lýst er nauðsynlegt að gera grein fyrir hvernig svokölluð sekúlarísering, þ.e. afhelgun, veraldarvæðing og afgoðun hins vestrænan heims, hefur breytt afstöðu fólks til trúar og listar. Hún kemur m.a. vel fram bæði í breyttu hlutverki kirkjurýmisins og listarinnar innan þess.[1]
Listin, kirkjan og afhelgunin
Eitt af því sem einkennir vestræn ríki er hve sýnilegar kirkjur eru innan þeirra. Á Vesturlöndum eru þær áberandi í landslaginu, í miðju þorpa og við helstu torg í borgum. Þær elstu er allt frá því um 400 e.Kr. Margar þeirra, m.a. dómkirkjur marka djúp spor í byggingarsögu Evrópu og nægir hér að huga að frægum gotneskum dómkirkjum eins og Notre Dame í París eða dómkirkjunni í Köln.
Það sem einkennir þessar gömlu kirkjur er yfirleitt löng byggingarsaga. Þær hafa svo að segja vaxið með því samfélagi sem þær eru hluti af. Hins vegar á það ekki við um flestar þær kirkjur sem byggðar hafa verið eftir seinni heimsstyrjöld. Á árunum eftir stríð (1945 – 2000) hefur verið byggt meira af kirkjum í Evrópu en nokkurn tímann áður í sögunni. Samhliða þessu byggingaræði nær sekúlaríseringin á Vesturlöndum endanlega til allra sviða samfélagsins. Í Evrópu hófst sekúlaríseringin með upplýsingunni, en fulltrúar hennar gera skynsemina að mælikvarða allra hluta. Í framhaldinu af því lúta skynseminni allar hefðir og allar kennisetningar. Afleiðing þessa er að hún verður, samkvæmt skilgreiningum fulltrúa upplýsingarinnar, ráðandi á öllum sviðum mannlegs samfélags.
Guðfræðingar höfðu í aldanna rás kennt að skynsemin væri ambátt guðfræðinnar, en með upplýsingunni varð hún ekki bara sjálfráð heldur einráð. Stöðugir sigrar á sviði vísinda, veittu manninum óbrigðula trú á mátt skynseminnar og þar með á sjálfan sig sem mælikvarða allra hluta. Trúnni og trúarþekkingunni var marvist vikið til hliðar. Í samhengi þessa tapaði fagurfræðin (þ. Ästhetik) innan vísindanna líka stöðu sinni og var gerð að hliðargrein.[2] Afleiðing þessa var að menning, efnahagslíf, stjórnmál og félagsmál losnuðu úr „viðjum“ kristinna hefða.[3] Himinninn var vissulega enn á sínum stað, en ekki lengur tengdur við frumspeki og Guð.[4] Vitundin um annan veruleika en þann áþreifanlega, hverfur úr opinberu lífi og tengsl handanverunnar við hugsun og gjörðir fólks rofna. Maðurinn er bundinn sjálfum sér og þeim heimi sem hann lifir í. Á síðari hluta tuttugustu aldar er ein afleiðing þessarar þróunar, krafan um aukinn hreyfanleika og aðlögunarhæfni einstaklingsins. Óneitanlega hefur sekúleríseraður veruleiki nútímasamfélags opnað fólki áður óþekkta möguleika, en okkar síðnútími er ekki bara vettvangur tækifæra og frama, heldur líka erfiðleika og einangrunar.[5] Krafan í samtímanum um hreyfanleika og að einstaklingurinn móti líf sitt, hefur leitt til þess að erfitt er að viðhalda þeim þáttum innan samfélagsins sem þarfnast skuldbindingar og festu. Menn geta ekki bundið sig og sína með sama hætti og áður. Menn eiga því erfitt með að gerast ævilangir þátttakendur í félagsstarfi. Kirkjan sem félagssamtök er hér engin undantekning.
Í Evrópu virðist þróunin vera sú að um þriðjungur þjóðarinnar er utan trúfélaga, annar er tiltölulega skeytingarlaus um trúmál og sá þriðji sinnir þeim. Vandinn sem blasir við kirkjum er, að ekki er mögulegt að viðhalda starfsemi í öllum kirkjum hvað þá að halda þeim við. Víðs vegar í Evrópu er verið að breyta kirkjum og laga að nýjum aðstæðum. Þetta er eitthvað sem fulltrúar íslensku þjóðkirkjunnar þurfa að horfast í augu við.
Samkvæmt listfræðingnum Harmut Böhme á ekki lengur við, sú gamla þróunarhyggja sem mat söguna sem einhverskonar skólagöngu mannsins, þ.e.a.s. frá bernsku trúarbragðanna, til ungdómsára listanna og loks til fullorðinsára vísindanna. Nú á dögum er að mati Böhme staðreynd að listin veiti manninum betri aðgang að veruleika sínum, en trú og vísindi geta gert ein og sér. En þegar listin tengist þeim opnast aftur á móti nýjar víddir og það kemur vel fram í verkum James Turrell.[6]
Ljósainnsetning James Turrell
James Turrell er kunnur fyrir innsetningu á tæknilega mjög flóknum ljósheimum. Í Þýskalandi er m.a. þekkt verk eftir hann í Unna, Hannover og Wolfsburg. Í innsetningum hans er áhorfandinn í miðpunkti, hann gengur svo að segja inn í ljósheim sem hann er umlukin af. Ljósið og upplifum þess renna saman í eitt, þessu veldur að allt rýmið er undirlagt ljósi og margbreytileika þess.
Vitundin um hvað sé upp og hvað sé miður, til hægri og vinstri, nálægt og fjarlægt renna saman og missir merkingu. Í þessum ljósaheimi er sem áhorfandinn hverfi á vit hins opna og ókunnuga. List Turrells mætti nefna upplifunarlist, sem vill ekki skrásetja upplifun eða sýn áhorfandans, heldur vekja hana. [7] Þessi viðleitni Turrells að kalla fram upplifun eða sýn innra með áhorfandanum, á rætur að rekja til uppruna hans í söfnuði kvekara.
Í guðsþjónustum kvekara skiptir hið innra ljós miklu máli. Hið innra ljós er sem ljósbrot af ljósi eilífðarinnar sem upplýsir manninn. Þessi áhersla á ljósið var m.a. miðlæg í guðfræðihugsun manna á miðöldum. Í þessum vangaveltum skipti rit sem eignað var Díónýsíusi Areopagíta sköpum. Upphaflega var höfundurinn talinn hafa verið lærisveinn Páls, en í raun er hér um er að ræða dulúðugt nýplatónskt guðfræðirit líklega frá 5. eða 6. öld. Höfundurinn er nú alla jafna nefndur Pseudo–Díónýsíus Areopagíti (Fals-Díónýsíus). Hann telur veruleika heims og manns eða sköpunina hafa mismikla hlutdeild í hinu guðlega ljósi. Innan stigveldis sköpunarinnar dvelur ljós Guðs, sem gerir henni mögulegt að stíga upp til hans.
Guð notar heiminn til þess að vísa til og vitna um tilvist sína.[8] Það er sem veruleiki Guðs lýsi í gegnum allan veruleika. Það gefur að skilja að í samhengi þessa skiptir glerið og glergluggar í kirkjum sköpum sem efni er hleypir ljósinu í gegnum sig, þrátt fyrir allan ófullkomleika efnisins.[9] Í tengslum við þessar áherslur þróaðist trúaráhersla á ljósið og dulúð þess. Menn álitu að maður og Guð, svo að segja mættust í ljósinu. Hið innra ljós var mótsstaður Guðs og manns. Trúarhreyfing kvekara nýtir sér margt úr þessari fornu arfleifð.
Listrænan áhuga á ljósinu rekur Turrell til reynslu sinnar sem ungs drengs. Þegar hann var eitt sinn að bíða eftir guðsþjónustu hjá kvekurum, spurði hann ömmu sína, hvað hann væri að gera þarna. Sú gamla svaraði: „Þú skalt bara bíða því við munum brátt ganga inn í hið mikla ljós.“ Það var aftur á móti ekki það sem hann sá, heldur venjulegur salur. Þar var ekki mynd, hvað þá altari, Biblía, kross, prestur eða messuform. Fólkið sat bara saman í þögn, þar til einhver rauf hana og tjáði sig um líf sitt. Það var hið innra ljós sem samkoman snérist um og menn leituðu að. Þessi ljósadulúð kvekara hefur reynst þeim mikil og kröftug uppspretta til að berjast fyrir mannréttindum og mannúðarmálum.[10] Turrell segist hafa þurft sinn tíma til að greina þetta innra ljós og tjá í verkum sínum.[11] Þýski guðfræðingurinn og listfræðingurinn Thomas Erne telur að Turrell yfirfæri þessa reynslu sína í list sinni og gera ljósið nærri áþreifanlegt í verkum sínum. Einmitt þar sé mótsstaður og sniðpunktur tveggja vídda.[12]
Kapellan í Dorotheenstädtischen-kirkjugarinum
Kapellan í Dotheenstädtischen-kirkjugarðinum var byggð 1927 og einfaldleiki hennar dregur vel fram fagurfræðilegar áherslur byggingarinnar. Við dyrnar eru súlur, kirkjuhurðin er úr gleri en yfir henni er þríhyrndur gluggi með krossi í. Yfir dyrunum standa orð úr 90. sálmi Davíðs: „Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns“ (Sálmur 90.1).
Kapellan í Dorotheenstädtischen-kirkjugarðinum
Innra rýmið er einfalt. Flatt loftið og gólfið eru úr brenndum tígulsteini og veggir eru hvítir. Innan kapellunnar eru tvær bekkjaraðir er snúa að altarinu en á milli er þeirra er gangur er liggur upp að því. Altarið er í kórnum, sem er upphækkaður með tveimur tröppum og yfir því er hálfbogi. Hægra megin við altarið er ræðupúlt og á veggjum eru tvö málverk af guðspjallamönnum, vinstra megin er olíuverk af Jóhannesi en hægra megin af Markúsi.
Inni í kapellunni
Í kirkjugarðinum er að finna grafir þekktra fulltrúa þýskrar menningar eins og Johann Gottlieb Fichte, Friedrich Wilhelm Hegel, Herbert Marcuse, Bertold Brecht, Heinrich Mann, Johannes Rau og fleiri. Kirkjugarðurinn og kapellan hafa áberandi tilvísun til þýskrar menningar sem nær út fyrir þann ramma sem kirkja setur. Í kapellunni eru haldnar athafnir í tengslum við greftrun. Rúmlega einn þriðji er kirkjulegur, einn þriðji snertir fólk sem vill láta jarða sig kyrrþey og án þess að nafns sé getið og einn þriðji hluti athafna er án prests.
Hafa ber í huga að kapellan er byggð í kringum kistulagningu og útför að evangelísk-lútherskum sið. Það veldur nokkrum núningi við þá útfararsiði sem þróast hafa á undanförnum áratugum, í lausum tengslum við kirkju og kristni, innan vestrænna samfélaga. Þegar kom að því að lagfæra og endurnýja kapelluna, kom m.a. sú hugmynd fram að breyta henni í kaffihús. Því var hafnað og vildi söfnuðurinn koma til móts við hlutverks kapellunnar sem fjölnota rýmis og staðs sem er á mörkum tveggja veruleika.[13] Söfnuðurinn vildi, í þeim breytingum sem færu fram, að einfaldleiki kapellunnar og notkunar hennar, væri virtur.[14] Leitað var til Turrells sem lagði til að nýta kapelluna og einfaldleika hennar sem staðar er endurspeglaði litbrigði marka dags og nætur. Hann vildi að dagsljósið væri virt í innsetningunni. Veggir og loft kapellunnar notar Turrell líkt og hvítt tjald í kvikmyndahúsi. Í innsetningu Turrells leikur hann sér ekki einungis með litbrigði við skil dags og nætur, heldur grípur hann til lita kirkjuársins sem hann varpar á viðkomandi staði innan kapellunnar.
Yfir daginn er í rýminu mild hvít birta, en þegar rökkva tekur er ljósgjafinn innsetning Turrells. Þannig má vel túlka kapelluna sem rými þar sem tvö svið skarast. Þar sem veröld domus ecclesiae og domus aesthetici mætast eða rými kirkjunnar og rými fagurfræðinnar.[15] Reynslan hefur þó verið sú, að fólk vill gjarnan hafa skilin óljós, þar sem það hefur bæði þörf fyrir einfaldleika kapellunnar og möguleikann á innsetningu Turrells. Þessi tvíræðni er mikilvæg fyrir útfarir, sem gefur henni vægi kveðjustundar á mörkum tveggja heima. Ljósainnsetning Turrells veitir hinum trúarlega veruleika nýja dýpt og samtímis gefur hún fagurfræðilegri upplifum trúarlega vídd. Þessi þáttur kemur til móts við þær breytingar í trúarlegum efnum sem vestrænt samfélag er að ganga í gegnum.[16]
Þannig er kapellan, sem átti að breyta í kaffihús (sem reyndar er búið að koma fyrir við hlið hennar), í senn kirkja kristins safnaðar og hús listarinnar. Þannig gefur rýmislistin staðnum ekki einungis aftur merkingu sína, heldur bætir við hann annarri vídd.[17]
Inni í kapellunni
Inni í kapellunni
Ljósaskúlptúr: Kapellan í Dorotheenstädtischen-kirkjugarðinum
Lokaorð
Það merkilega við ljósainnsetningar Turrells er að ljósið skapar rými og kallar fram upplifum hjá áhorfandanum. Það staðsetur hann á mærum tveggja vídda. Að fá að taka þátt í slíkri innsetningu er eins og að verða hluti að fagurfræðilegir helgiathöfn, sem hver og einn verður að leyfa að virka á sig og ef til vill að færa síðan í orð. Listin veitir rýminu hér ekki einungis nýja vídd, heldur getur gefið viðkomandi nýja sýn á þann táknheim sem hann er hluti af. Verkið virkjar táknheim áhorfandans og lætur hann tjá sig innan hans og gefur honum/henni möguleika að greina á ný mörk eða víddir í eigin tilveru.
Myndir af kapellunni í Dorotheenstädtischen-kirkjugarðinum: Florian Holzherr.
James Turrell er Bandaríkjamaður, fæddur 1943
Heimildir
Böhne, Hartmut: Das Licht als Medium der Kunst – Über Erfahrungsarmut und ätheisches Gegenlicht in der technischen Zivilisation, Antrittsvorlesung 2. November 1994, Forschungsabteilung der Humboldt–Universität, Heft 66, Berlin 1996.
Erne, Thomas: Hybride Räume der Tranzensendenz – Wozu wir heute noch Kirchen brauchen, Evangelische Verlagsanstalt, Leipzig, 2017.
Joas, Hans: Glaube als Option, 2. útgáfa, Herder Verlag, Freiburg 2013.
Rugg, Judith: „Exploring Site-Specific Art“, I.B. Taris, London 2010.
[2] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 23.
[3]Carl Heinz Ratschow, „Säkularismus, I. Grundsätzlich und Geschichtlich“, Die Religion in Geschicihte und Gegenwart, 3. útgáfa 5. bindi, J.C.B. Mohr Tübingen 1986, 1291 [1288–1296].
[4] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 24.
[5] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 18–20.
[6] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 31.
[7] Christa DiMarco, „James Turrell´s ´Greet the Light´ at Chestnut Hill Friends Meeting“, https://www.broadstreetreview.com/design/james-turrells-greet-the-light-at-chestnut-hill-friends-meeting# (sótt 27.1. 2020).
[8] Otto von Simson, Die gotische Kathedrale – Beiträge zu ihrer Entstehung und Bedeutung, Wissenschaftliche Buchgesellschaft, Darmstadt, 1968, 82.
[9] Otto von Simson, Die gotische Kathedrale, 77–85. Stutt yfirlit yfir hugmyndafræðilega sögu ljósins er m.a. að finna hjá Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 5–18.
[10] Thomas Erne, Hybride Räume der Tranzensxendenz – Wozu wir heute noch Kirchen brauchen, Evangelische Verlagsanstalt, Leipzig, 2017, 158.
[11] Christa DiMarco, „James Turrell´s ´Greet the Light´ at Chestnut Hill Friends Meeting“,
[12] Hartmut Böhne, Das Licht als Medium der Kunst, 8.
[13] Judith Rugg, „Exploring Site-Specific Art“, I.B. Taris, London 2010, 157–175.
[14] Thomas Erne, Hybride Räume der Tranzensendenz, 161.
[15] Thomas Erne, Hybride Räume der Tranzensendenz, 162.
[16] Hans Joas, Glaube als Option, 2. útgáfa, Herder Verlag, Freiburg 2013, 139–148.
[17] Thomas Erne, Hybride Räume der Tranzensendenz, 164.