Við Gestaglugga Kirkjublaðsins sest
Auður Thorberg Jónasdóttir og skrifar:

Lýðræði eru því miður ekki sjálfsögð mannréttindi allra íbúa heimsins en stundum virðumst við hérlendis og víðar taka þeim sem slíkum. Það að vera lýðræðislegt ríki gerist ekki yfir nótt, það þarf að ala samfélög upp til þess. Lýðræði er til dæmis einn grunnþáttur menntastefnunnar í aðalnámskrá skólanna, því það að verða virkur, hæfur og gagnrýninn þátttakandi í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi er æfing og þarf að læra.

Stundum virðumst við nú sum þurfa meiri þjálfun í að vera ósammála eins og samfélagsmiðlar hafa lýst frekar skæru ljósi á þegar umræða um einstök mál verður mjög pólariseruð. Á hverjum tening eru fleiri en tvær hliðar og þó að svartar og hvítar sviðsmyndir fái mesta athygli þá eru allavega 50 tegundir af gráum þar á milli. En þetta sem okkur finnst sjálfsagt, að hafa rödd og frelsi til að vera ósammála, er brothætt og miðað við alþjóðasamfélagið þessa dagana óttast kona að það sé auðvelt að gleyma því.

Fæstir tengja kannski kirkjuna við lýðræði, fátt í messuforminu er lýðræðislegt, enda ekki endilega það sem við sækjumst eftir þegar við förum í kirkjurnar okkar. Fyrir kvíðna konu er mikil ró og öryggi í að vita nokkurn veginn hvað kemur næst þó að hún gleðjist vissulega yfir að ekki sé lengur bannað að brosa, hlæja og klappa. Það er svo gott að halla sér aftur og treysta á formið og að presturinn tali við mig af visku og staðfestu í trúnni sem mig vantar of oft í daglegu lífi. En hvað kemur lýðræði þá eiginlega kirkjunni við? Er ekki bara biskup sem þar ræður öllu? Nei, það er ekki þannig þótt oft líti það þannig út fyrir þjóðkirkjukonu á landsbyggðinni, að hún hafi nú engin völd og enga ábyrgð því allt sé ákveðið á skrifstofu fyrir sunnan. Það er nefnilega ekki auðvelt fyrir okkur sem erum úti í mörkinni að sjá og upplifa hvaða áhrif við getum haft.

Umræðan um lýðræði í kirkjunni er ekki ný af nálinni og það ferli sem við erum í núna og sér kannski fyrir endann á, kannski ekki, er að gera kirkjuna sjálfstæða. Við verðum að þora að gera íslensku þjóðkirkjuna að lýðræðislegri stofnun. Stór hluti af því ferli er að hafa öflugt og trúverðugt kirkjuþing sem er lýðræðislega kosið og traustsins vert. Þar held ég að opnar kosningar séu partur af lausninni, þannig að allt þjóðkirkjufólk geti kosið sér fulltrúa úr sínu prófastsdæmi til að sitja á kirkjuþingi, vígða og óvígða. Um leið og almennt þjóðkirkjufólk fær völd til að kjósa sér fulltrúa á kirkjuþingi finnur það til ábyrgðar á málefnum kirkjunnar sinnar. Það er eftirsóknarvert.

Lýðræði kostar, stundum kostar það smölun og lýðskrum og það er auðvelt að verða stressuð yfir öllu því sem gæti mistekist og farið úrskeiðis. Ég tel að ábyrgð og skyldur þjóðkirkjunnar á samfélagsgerðinni okkar og umræðu sé ríkari en margra annarra aðila og við eigum að ganga fremst í flokki þegar kemur að jafnrétti og lýðræði í orði og á borði. Við viljum sýna gott fordæmi og stuðla að umræðu og skoðanaskiptum og heilbrigðum leiðum til að vera ósammála. Verum stolt af kirkjunni okkar og sýnum það í verki.

Það væri frábært að fá meiri umræðu um kirkjuna á almennum vettvangi og að fleira fólk sem er í þjóðkirkjunni gerði sér grein fyrir hvernig hún er í rauninni rekin og hversu lýðræðisleg hún er. Því hvet ég eindregið til þess að allir fái að kjósa til kirkjuþings næsta vor og kirkjan og allt starfsfólk hennar, vígt og óvígt, sameinist um að taka þessi skref. Þetta virðist frekar stór skref í átt til lýðræðis, að gera kosningar til kirkjuþings opnar fyrir öllum skráðum í þjóðkirkjuna, en svoleiðis er það í samanburðarlöndum okkar þar sem kirkjan er ekki lengur ríkiskirkja. Verum hugrökk og stolt og tökum stór skref í þá átt sem við vitum að er rétt.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Við Gestaglugga Kirkjublaðsins sest
Auður Thorberg Jónasdóttir og skrifar:

Lýðræði eru því miður ekki sjálfsögð mannréttindi allra íbúa heimsins en stundum virðumst við hérlendis og víðar taka þeim sem slíkum. Það að vera lýðræðislegt ríki gerist ekki yfir nótt, það þarf að ala samfélög upp til þess. Lýðræði er til dæmis einn grunnþáttur menntastefnunnar í aðalnámskrá skólanna, því það að verða virkur, hæfur og gagnrýninn þátttakandi í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi er æfing og þarf að læra.

Stundum virðumst við nú sum þurfa meiri þjálfun í að vera ósammála eins og samfélagsmiðlar hafa lýst frekar skæru ljósi á þegar umræða um einstök mál verður mjög pólariseruð. Á hverjum tening eru fleiri en tvær hliðar og þó að svartar og hvítar sviðsmyndir fái mesta athygli þá eru allavega 50 tegundir af gráum þar á milli. En þetta sem okkur finnst sjálfsagt, að hafa rödd og frelsi til að vera ósammála, er brothætt og miðað við alþjóðasamfélagið þessa dagana óttast kona að það sé auðvelt að gleyma því.

Fæstir tengja kannski kirkjuna við lýðræði, fátt í messuforminu er lýðræðislegt, enda ekki endilega það sem við sækjumst eftir þegar við förum í kirkjurnar okkar. Fyrir kvíðna konu er mikil ró og öryggi í að vita nokkurn veginn hvað kemur næst þó að hún gleðjist vissulega yfir að ekki sé lengur bannað að brosa, hlæja og klappa. Það er svo gott að halla sér aftur og treysta á formið og að presturinn tali við mig af visku og staðfestu í trúnni sem mig vantar of oft í daglegu lífi. En hvað kemur lýðræði þá eiginlega kirkjunni við? Er ekki bara biskup sem þar ræður öllu? Nei, það er ekki þannig þótt oft líti það þannig út fyrir þjóðkirkjukonu á landsbyggðinni, að hún hafi nú engin völd og enga ábyrgð því allt sé ákveðið á skrifstofu fyrir sunnan. Það er nefnilega ekki auðvelt fyrir okkur sem erum úti í mörkinni að sjá og upplifa hvaða áhrif við getum haft.

Umræðan um lýðræði í kirkjunni er ekki ný af nálinni og það ferli sem við erum í núna og sér kannski fyrir endann á, kannski ekki, er að gera kirkjuna sjálfstæða. Við verðum að þora að gera íslensku þjóðkirkjuna að lýðræðislegri stofnun. Stór hluti af því ferli er að hafa öflugt og trúverðugt kirkjuþing sem er lýðræðislega kosið og traustsins vert. Þar held ég að opnar kosningar séu partur af lausninni, þannig að allt þjóðkirkjufólk geti kosið sér fulltrúa úr sínu prófastsdæmi til að sitja á kirkjuþingi, vígða og óvígða. Um leið og almennt þjóðkirkjufólk fær völd til að kjósa sér fulltrúa á kirkjuþingi finnur það til ábyrgðar á málefnum kirkjunnar sinnar. Það er eftirsóknarvert.

Lýðræði kostar, stundum kostar það smölun og lýðskrum og það er auðvelt að verða stressuð yfir öllu því sem gæti mistekist og farið úrskeiðis. Ég tel að ábyrgð og skyldur þjóðkirkjunnar á samfélagsgerðinni okkar og umræðu sé ríkari en margra annarra aðila og við eigum að ganga fremst í flokki þegar kemur að jafnrétti og lýðræði í orði og á borði. Við viljum sýna gott fordæmi og stuðla að umræðu og skoðanaskiptum og heilbrigðum leiðum til að vera ósammála. Verum stolt af kirkjunni okkar og sýnum það í verki.

Það væri frábært að fá meiri umræðu um kirkjuna á almennum vettvangi og að fleira fólk sem er í þjóðkirkjunni gerði sér grein fyrir hvernig hún er í rauninni rekin og hversu lýðræðisleg hún er. Því hvet ég eindregið til þess að allir fái að kjósa til kirkjuþings næsta vor og kirkjan og allt starfsfólk hennar, vígt og óvígt, sameinist um að taka þessi skref. Þetta virðist frekar stór skref í átt til lýðræðis, að gera kosningar til kirkjuþings opnar fyrir öllum skráðum í þjóðkirkjuna, en svoleiðis er það í samanburðarlöndum okkar þar sem kirkjan er ekki lengur ríkiskirkja. Verum hugrökk og stolt og tökum stór skref í þá átt sem við vitum að er rétt.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir