Friðrik J. Hjartar, listfræðingur og prestur, skrifar hér um verkið „Ský,“ eftir listmálarann Helga Þorgils Friðjónsson. Hann hefur áður skrifað um listaverk í Kirkjublaðið.is – um steinda glugga í Bessastaðakirkju og verk eftir Albrecht Dürer (1471-1528) sem var talinn mestur listamanna á siðbótartímanum

Um listaverkið Ský 

Helgi Þorgils Friðjónsson er einn af þekktari listamönnum Íslendinga í dag. Hann er fæddur í Búðardal 7. mars 1953 og á bæði fjölskyldubönd og sterkar rætur í sveitir Dalasýslu.

Frá árinu 1974 hefur Helgi haldið fjölda sýninga víða um heim, ýmist einn eða með öðrum og komið að útgáfumálum og kennslu, uppsetningu sýninga og rekstri á eigin galleríi. Hann stundaði framhaldsnám í DeVrije-akademíunni í Haag og síðar í Jan van Eyck-akademíunni í Maastricht í Hollandi.[1]

Hér verður farið nokkrum orðum um verkið Ský frá árinu 1997 eftir Helga, en það var sýnt á sínum tíma í Vídalínskirkju á sýningunni Trúin – Listin – Lífið. Myndin er olíumálverk á striga, mjög stór eða 205 x 470 sm. Myndin er í eign og varðveislu listamannsins.

Ský, eftir Helga Þorgils Friðjónsson

Ég lít á myndina Ský sem trúarlegt verk og munu skýringar mínar mótast af því sjónarmiði, þótt einnig megi hugsa hana sem hversdagsmynd úr náttúrunni. Myndin er þrískipt, þó ekki sé í sömu hlutföllum og algengt var um altaristöflur á fyrri öldum þar sem hliðarfletirnir voru mátulega stórir til að hylja miðflötinn.

Listaverkið skoðað

Þótt myndin sé stór er ekki fyrir að fara sömu mynd- og táknauðgi í henni og mörgum af myndum Helga frá þessu tímabili. Í öllu falli eru þau fíngerðari. Allur bakgrunnur myndarinnar eru ský í ýmsum myndum, þó dekkri er nær dregur hægri kanti. Úr því má lesa að til vinstri er morgunn en dekkri og lítilsháttar sólroðin ský til hægri tákna að degi hallar. Sömuleiðis ber aukinn skugga á blómstóðið eftir því sem nær kemur hægri hlið myndarinnar.

Skýin eru tákn blessunarinnar vegna þess að þau gefa frá sér regn, en ekkert líf fær þrifist án vatns.[2] Jafnframt því að vera litur himinsins er blái liturinn í bakgrunni táknlitur trúarinnar, sannleikans og hins guðdómlega.[3]

Sjóndeildarhringurinn er mjög neðarlega. Mjó samfelld rönd neðst eftir öllum myndfletinum sýnir litskrúðugt blómskrúð jarðarinnar, en sakir fjarlægðar og fínlegrar myndgerðar er illt að gera á þeim tegundargreiningu. Blómin geta boðað fegurð sköpunarverksins, en eru jafnframt tákn fórnarinnar og boða forgengileikann, sbr. orð Jesaja spámanns: „Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“ (Jes. 40:8)[4] Yfir blómabreiðunni svífa fiðrildi, en lífsskeið þeirra táknar líf mannsins. Sjálft er fiðrildið tákn upprisunnar og eilífa lífsins, [5] en líftími fiðrildis er oft aðeins um sólarhringur.

Í miðhluta myndarinnar sem er um það bil þriðjungur af stærð hliðarflatanna er að sjá einn af hinum nöktu „kynhlutlausu“ karlmannsmyndum sem svo víða koma fyrir í myndum Helga og stendur hann uppréttur með opna arma og snýr beint fram, tilbúinn til að gefa eða þiggja. Handstaðan er þekkt úr myndlist fyrri alda.

Á vinstri fleti fyrir miðju er ber drengur, en handstaða hans gefur glöggt til kynna að hér sé Jesús ungur. Hann horfir einnig fram, en hárafar beggja er svipað og greiðslan nútímaleg – gæti bent til skyldleika, enda ekki ósvipuð því sem sjá má á öðrum myndum Helga. Á hægri hönd drengnum/smákarlinum er liggjandi lamb. Lambið var frá fyrstu tíð tákn sonar Guðs með skírskotun til orða Jóhannesar skírara: „Sjá Guðs lambið“. Það fær síðar fjölbreyttari merkingar í myndlistinni og þá oftar en ekki tengt við önnur tákn.[6]

Hægri myndflöturinn sýnir margháttaðar skýjamyndir, en eins og áður sagði má lesa þar ljósfar kvöldroða og sólseturs með viðeigandi skugga sem sýnir að myndin sækir birtu sína beint fram og minnir að því leyti á endurreisnarmálverk.

Persónur myndarinnar mynda rétthyrndan þríhyrning niður í vinstra niðurhornið, en nokkuð gleiðan þríhyrning má sjá úr höfði fullorðnu persónunnar og niður í hornin. Þær láta ekkert í ljós um sinn innri veruleika en eru í senn líkar og ólíkar þeim súrrealisku persónum sem víða má sjá í verkum Helga frá þessu tímabili.

Tákn og túlkun

Ef hugað er betur að einstökum táknum þá getur fullorðna persónan bæði staðið sem fulltrúi mannkynsins, en einnig sem engill eða jafnvel Guð sjálfur, þótt lítið sé vitað um hárskurð himnaföðurins.  Ef rétthyrndi þríhyrningurinn táknar þroskaskeið mannsins með upphafspunkt á tíma morgunsins þá er síðari flöturinn til hægri tákn um hið ólifaða líf sem fólgið er í efri árum mannsins, enn þá óskrifað í skýin. Þannig séð er verið að leggja verkið út á afar jarðbundinn hátt, – gæti jafnvel þýtt tengsl listamannsins við sveitalífið í Dölunum.

Myndin á sjálfstæða veru þar sem hún er ekki eftirmynd af ákveðnum einstaklingi eða með tilvísun í sérstakt landslag. Samt er hægt að hugsa hana út frá veru mannsins almennt, bæði út frá rétthyrnda þríhyrningnum sem myndirnar með drengnum og manninum mynda og út frá því að vinstri hliðin táknar morgunn en sú hægri kvöld eins og sjá má af litum skýjafarsins.

Þannig blandast í þessu verki hugvera og hlutvera, veran og fjarveran, sem hvort tveggja sprettur úr huga listamannsins.

Kirkjurýmið er ekki hlutlaust

Í umfjöllun á listasíðu Morgunblaðsins fjallaði Jón B. K. Ransu um sýninguna.[7] Það er rétt sem þar kemur fram að ekki voru allir jafn glaðir að fá myndir af beru fólki í fullri stærð inn í kirkjuskipið. Í ljósi þess reyndi undirritaður í jólaprédikun að útskýra myndefnið með þeim hætti að hér væri á ferð mynd af engli, en þeir birtast án vængja í Biblíunni og hvíldi sú túlkun einnig á því að ekki hefðu sést englar með vængi í myndlistinni fyrr en á 4. öld.[8]

Í sýningarskránni bendir dr. Gunnar Kristjánsson á að þegar myndlistarverk er komið inn í kirkju fær það nýja merkingu þar sem umhverfið er ekki lengur hlutlaust, því helgidómurinn getur kallað fram merkingu sem listamanninum var jafnvel hulinn er hann vann að verkinu. Eðlilegt er að skapandi list veki viðbrögð.[9]

Táknheimur Helga virðist ósnortinn af hinu illa.  Varðandi nektina þá er hún aldrei klámfengin eða dónaleg í myndum Helga og tengist ekki kynhvötinni sterkum böndum.[10] Frekar virðist vera um að ræða kynhlutlausar, fölar furðuverur sem eru lausar við kenndir ástarlífsins en eiga sér stað í hugarheimi og myndsköpun listamannsins og sjást víða í myndum hans. Hann á eigin íkonografíu.

Myndin „Ský“ sem hér er til umfjöllunar sker sig úr þeim myndum sem komu fram á sama tíma að því leiti að í henni er ekki skírskotað til ævintýralegs draumheims, heldur er hér frekar höfðað til trúarlegra elementa eins og þegar hefur verið getið.

Þrískiptingin gefur hugmynd altarismyndar, en þar er Jesúminni í drengnum og lambinu og útlitslega getur hér líka verið um að ræða Jesú fullorðinn. Þá höfðar lambið bæði til fórnarlambsins og líkingarinnar við lamb Guðs. Blóminn í forgrunni tákna fórnina og forgengileikann. Tíminn frá morgni til kvölds getur ásamt þeim vaxtarþroska sem sjá má í persónunum tveimur táknað lífshlaup mannsins og upphaf eilífa lífsins. Blessunin blasir við í skýjunum sem vökva jörðina og gera hana lífvænlega og blái liturinn trúna og guðdóminn. Fiðrildin tákna upprisuna og benda þar með til eilífa lífsins. Náttúran eins og hún blasir við í sinni óspilltu mynd höfðar jafnframt til sköpunarsögunnar.

Helgi Þorgils er verðugur fulltrúi nýja málverksins sem eins og segir í Íslenskri listasögu: „ …. leysti úr læðingi ýmsa möguleika og veitti ungum listamönnum tækifæri til að kanna ólíkar frásagnaraðferðir.“[11] Hér er hann frjáls að því að móta allt myndefnið út frá eigin hugmyndum, enda sver myndin sig í þá hugmyndahefð sem listamaðurinn hefur skapað.

Margræðni verksins

Trúartengingin er rakin hér að ofan, en auðvitað getur þetta líka verið tilvitnun í hina frjálsu náttúru. Hugmyndir Helga eru þó ekki alveg út í bláinn, því myndir hans hafa ekki síður sterka tengingu við listasöguna heldur en sjálfa náttúruna.[12] Kemur það m.a. fram í handstöðu og líkamsbyggingu persónanna sem og saklausri nekt þeirra.

Margræðni verksins er fólgin í því að það sýnir í senn dag í sveitinni og dag í æðra heimi. Hugvera og hlutvera fara saman, ævi manns og eilífðarmóment spila saman fínofinn tón. Listaverkið er ekki ágengt, en kallar á skoðun og skilgreiningu sem ekki fæst, þar sem það er hugverk. Nútíminn kemst af án þess að virða verkið fyrir sér, en það á samt erindi við hann, þar sem hann sækist eftir kyrrð og innri íhugun.

Listasagan og upplifun listamannsins gefa verkinu djúpa merkingu. Það er góð áminning til mannsins um mikilvægi náttúrunnar, sem hefur verið spillt af verkum mannanna. – Þar með á það erindi.

Stærð verksins gæti þó skammtað því þröngan stakk.

Tilvísanir

[1] Gunnar B. Kvaran, Íslensk listasaga V. Bls. 47, ritstj. Ólafur Kvaran, Reykjavík 2011, Forlagið og Listasafn Íslands.

[2] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 56, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[3] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 94, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[4] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 122, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[5] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 72 – 73, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[6] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 27, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[7] Morgunblaðið 18.12.02 bls. 25.

[8] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 69, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[9] Gunnar Kristjánsson, Sýningarskrá, Trúin – Listin – Lífið, bls. 2. Vídalínskirkja 2002, Litaprent.

[10] Ólafur Gíslason, Icelandic art today, ritstj. Christian Schoen og Halldór Björn Runólfsson, bls. 138, Hatje Cantz Verlag, Þýskaland 2009.

[11] Íslensk listasaga V. Gunnar B. Kvaran, bls. 47. Ritstj. Ólafur Kvaran, Forlagið og Listasafn Íslands, Reykjavík 2011.

[12] Ólafur Gíslason, Icelandic art today, ritstj. Christian Schoen og Halldór Björn Runólfsson, bls. 138, Hatje Cantz Verlag, Þýskaland 2009.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Friðrik J. Hjartar, listfræðingur og prestur, skrifar hér um verkið „Ský,“ eftir listmálarann Helga Þorgils Friðjónsson. Hann hefur áður skrifað um listaverk í Kirkjublaðið.is – um steinda glugga í Bessastaðakirkju og verk eftir Albrecht Dürer (1471-1528) sem var talinn mestur listamanna á siðbótartímanum

Um listaverkið Ský 

Helgi Þorgils Friðjónsson er einn af þekktari listamönnum Íslendinga í dag. Hann er fæddur í Búðardal 7. mars 1953 og á bæði fjölskyldubönd og sterkar rætur í sveitir Dalasýslu.

Frá árinu 1974 hefur Helgi haldið fjölda sýninga víða um heim, ýmist einn eða með öðrum og komið að útgáfumálum og kennslu, uppsetningu sýninga og rekstri á eigin galleríi. Hann stundaði framhaldsnám í DeVrije-akademíunni í Haag og síðar í Jan van Eyck-akademíunni í Maastricht í Hollandi.[1]

Hér verður farið nokkrum orðum um verkið Ský frá árinu 1997 eftir Helga, en það var sýnt á sínum tíma í Vídalínskirkju á sýningunni Trúin – Listin – Lífið. Myndin er olíumálverk á striga, mjög stór eða 205 x 470 sm. Myndin er í eign og varðveislu listamannsins.

Ský, eftir Helga Þorgils Friðjónsson

Ég lít á myndina Ský sem trúarlegt verk og munu skýringar mínar mótast af því sjónarmiði, þótt einnig megi hugsa hana sem hversdagsmynd úr náttúrunni. Myndin er þrískipt, þó ekki sé í sömu hlutföllum og algengt var um altaristöflur á fyrri öldum þar sem hliðarfletirnir voru mátulega stórir til að hylja miðflötinn.

Listaverkið skoðað

Þótt myndin sé stór er ekki fyrir að fara sömu mynd- og táknauðgi í henni og mörgum af myndum Helga frá þessu tímabili. Í öllu falli eru þau fíngerðari. Allur bakgrunnur myndarinnar eru ský í ýmsum myndum, þó dekkri er nær dregur hægri kanti. Úr því má lesa að til vinstri er morgunn en dekkri og lítilsháttar sólroðin ský til hægri tákna að degi hallar. Sömuleiðis ber aukinn skugga á blómstóðið eftir því sem nær kemur hægri hlið myndarinnar.

Skýin eru tákn blessunarinnar vegna þess að þau gefa frá sér regn, en ekkert líf fær þrifist án vatns.[2] Jafnframt því að vera litur himinsins er blái liturinn í bakgrunni táknlitur trúarinnar, sannleikans og hins guðdómlega.[3]

Sjóndeildarhringurinn er mjög neðarlega. Mjó samfelld rönd neðst eftir öllum myndfletinum sýnir litskrúðugt blómskrúð jarðarinnar, en sakir fjarlægðar og fínlegrar myndgerðar er illt að gera á þeim tegundargreiningu. Blómin geta boðað fegurð sköpunarverksins, en eru jafnframt tákn fórnarinnar og boða forgengileikann, sbr. orð Jesaja spámanns: „Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“ (Jes. 40:8)[4] Yfir blómabreiðunni svífa fiðrildi, en lífsskeið þeirra táknar líf mannsins. Sjálft er fiðrildið tákn upprisunnar og eilífa lífsins, [5] en líftími fiðrildis er oft aðeins um sólarhringur.

Í miðhluta myndarinnar sem er um það bil þriðjungur af stærð hliðarflatanna er að sjá einn af hinum nöktu „kynhlutlausu“ karlmannsmyndum sem svo víða koma fyrir í myndum Helga og stendur hann uppréttur með opna arma og snýr beint fram, tilbúinn til að gefa eða þiggja. Handstaðan er þekkt úr myndlist fyrri alda.

Á vinstri fleti fyrir miðju er ber drengur, en handstaða hans gefur glöggt til kynna að hér sé Jesús ungur. Hann horfir einnig fram, en hárafar beggja er svipað og greiðslan nútímaleg – gæti bent til skyldleika, enda ekki ósvipuð því sem sjá má á öðrum myndum Helga. Á hægri hönd drengnum/smákarlinum er liggjandi lamb. Lambið var frá fyrstu tíð tákn sonar Guðs með skírskotun til orða Jóhannesar skírara: „Sjá Guðs lambið“. Það fær síðar fjölbreyttari merkingar í myndlistinni og þá oftar en ekki tengt við önnur tákn.[6]

Hægri myndflöturinn sýnir margháttaðar skýjamyndir, en eins og áður sagði má lesa þar ljósfar kvöldroða og sólseturs með viðeigandi skugga sem sýnir að myndin sækir birtu sína beint fram og minnir að því leyti á endurreisnarmálverk.

Persónur myndarinnar mynda rétthyrndan þríhyrning niður í vinstra niðurhornið, en nokkuð gleiðan þríhyrning má sjá úr höfði fullorðnu persónunnar og niður í hornin. Þær láta ekkert í ljós um sinn innri veruleika en eru í senn líkar og ólíkar þeim súrrealisku persónum sem víða má sjá í verkum Helga frá þessu tímabili.

Tákn og túlkun

Ef hugað er betur að einstökum táknum þá getur fullorðna persónan bæði staðið sem fulltrúi mannkynsins, en einnig sem engill eða jafnvel Guð sjálfur, þótt lítið sé vitað um hárskurð himnaföðurins.  Ef rétthyrndi þríhyrningurinn táknar þroskaskeið mannsins með upphafspunkt á tíma morgunsins þá er síðari flöturinn til hægri tákn um hið ólifaða líf sem fólgið er í efri árum mannsins, enn þá óskrifað í skýin. Þannig séð er verið að leggja verkið út á afar jarðbundinn hátt, – gæti jafnvel þýtt tengsl listamannsins við sveitalífið í Dölunum.

Myndin á sjálfstæða veru þar sem hún er ekki eftirmynd af ákveðnum einstaklingi eða með tilvísun í sérstakt landslag. Samt er hægt að hugsa hana út frá veru mannsins almennt, bæði út frá rétthyrnda þríhyrningnum sem myndirnar með drengnum og manninum mynda og út frá því að vinstri hliðin táknar morgunn en sú hægri kvöld eins og sjá má af litum skýjafarsins.

Þannig blandast í þessu verki hugvera og hlutvera, veran og fjarveran, sem hvort tveggja sprettur úr huga listamannsins.

Kirkjurýmið er ekki hlutlaust

Í umfjöllun á listasíðu Morgunblaðsins fjallaði Jón B. K. Ransu um sýninguna.[7] Það er rétt sem þar kemur fram að ekki voru allir jafn glaðir að fá myndir af beru fólki í fullri stærð inn í kirkjuskipið. Í ljósi þess reyndi undirritaður í jólaprédikun að útskýra myndefnið með þeim hætti að hér væri á ferð mynd af engli, en þeir birtast án vængja í Biblíunni og hvíldi sú túlkun einnig á því að ekki hefðu sést englar með vængi í myndlistinni fyrr en á 4. öld.[8]

Í sýningarskránni bendir dr. Gunnar Kristjánsson á að þegar myndlistarverk er komið inn í kirkju fær það nýja merkingu þar sem umhverfið er ekki lengur hlutlaust, því helgidómurinn getur kallað fram merkingu sem listamanninum var jafnvel hulinn er hann vann að verkinu. Eðlilegt er að skapandi list veki viðbrögð.[9]

Táknheimur Helga virðist ósnortinn af hinu illa.  Varðandi nektina þá er hún aldrei klámfengin eða dónaleg í myndum Helga og tengist ekki kynhvötinni sterkum böndum.[10] Frekar virðist vera um að ræða kynhlutlausar, fölar furðuverur sem eru lausar við kenndir ástarlífsins en eiga sér stað í hugarheimi og myndsköpun listamannsins og sjást víða í myndum hans. Hann á eigin íkonografíu.

Myndin „Ský“ sem hér er til umfjöllunar sker sig úr þeim myndum sem komu fram á sama tíma að því leiti að í henni er ekki skírskotað til ævintýralegs draumheims, heldur er hér frekar höfðað til trúarlegra elementa eins og þegar hefur verið getið.

Þrískiptingin gefur hugmynd altarismyndar, en þar er Jesúminni í drengnum og lambinu og útlitslega getur hér líka verið um að ræða Jesú fullorðinn. Þá höfðar lambið bæði til fórnarlambsins og líkingarinnar við lamb Guðs. Blóminn í forgrunni tákna fórnina og forgengileikann. Tíminn frá morgni til kvölds getur ásamt þeim vaxtarþroska sem sjá má í persónunum tveimur táknað lífshlaup mannsins og upphaf eilífa lífsins. Blessunin blasir við í skýjunum sem vökva jörðina og gera hana lífvænlega og blái liturinn trúna og guðdóminn. Fiðrildin tákna upprisuna og benda þar með til eilífa lífsins. Náttúran eins og hún blasir við í sinni óspilltu mynd höfðar jafnframt til sköpunarsögunnar.

Helgi Þorgils er verðugur fulltrúi nýja málverksins sem eins og segir í Íslenskri listasögu: „ …. leysti úr læðingi ýmsa möguleika og veitti ungum listamönnum tækifæri til að kanna ólíkar frásagnaraðferðir.“[11] Hér er hann frjáls að því að móta allt myndefnið út frá eigin hugmyndum, enda sver myndin sig í þá hugmyndahefð sem listamaðurinn hefur skapað.

Margræðni verksins

Trúartengingin er rakin hér að ofan, en auðvitað getur þetta líka verið tilvitnun í hina frjálsu náttúru. Hugmyndir Helga eru þó ekki alveg út í bláinn, því myndir hans hafa ekki síður sterka tengingu við listasöguna heldur en sjálfa náttúruna.[12] Kemur það m.a. fram í handstöðu og líkamsbyggingu persónanna sem og saklausri nekt þeirra.

Margræðni verksins er fólgin í því að það sýnir í senn dag í sveitinni og dag í æðra heimi. Hugvera og hlutvera fara saman, ævi manns og eilífðarmóment spila saman fínofinn tón. Listaverkið er ekki ágengt, en kallar á skoðun og skilgreiningu sem ekki fæst, þar sem það er hugverk. Nútíminn kemst af án þess að virða verkið fyrir sér, en það á samt erindi við hann, þar sem hann sækist eftir kyrrð og innri íhugun.

Listasagan og upplifun listamannsins gefa verkinu djúpa merkingu. Það er góð áminning til mannsins um mikilvægi náttúrunnar, sem hefur verið spillt af verkum mannanna. – Þar með á það erindi.

Stærð verksins gæti þó skammtað því þröngan stakk.

Tilvísanir

[1] Gunnar B. Kvaran, Íslensk listasaga V. Bls. 47, ritstj. Ólafur Kvaran, Reykjavík 2011, Forlagið og Listasafn Íslands.

[2] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 56, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[3] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 94, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[4] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 122, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[5] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 72 – 73, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[6] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 27, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[7] Morgunblaðið 18.12.02 bls. 25.

[8] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, bls. 69, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993

[9] Gunnar Kristjánsson, Sýningarskrá, Trúin – Listin – Lífið, bls. 2. Vídalínskirkja 2002, Litaprent.

[10] Ólafur Gíslason, Icelandic art today, ritstj. Christian Schoen og Halldór Björn Runólfsson, bls. 138, Hatje Cantz Verlag, Þýskaland 2009.

[11] Íslensk listasaga V. Gunnar B. Kvaran, bls. 47. Ritstj. Ólafur Kvaran, Forlagið og Listasafn Íslands, Reykjavík 2011.

[12] Ólafur Gíslason, Icelandic art today, ritstj. Christian Schoen og Halldór Björn Runólfsson, bls. 138, Hatje Cantz Verlag, Þýskaland 2009.

Viltu deila þessari grein með fleirum?