Fyrir nokkrum vikum lýsti ég hér á þessum vettvangi áformum mínum um að ræða það sem ég nefndi „kirkjulega rökræðu“ en með því orðasambandi á ég við efnisleg skoðanaskipti, gagnrýna umræðu og eftir atvikum átök um þau málefni sem brenna á kirkjufólki. Í forgrunni þessa fyrsta pistils verður sá sögulegi atburður sem gaf tilefni til þessara skrifa en árið 2021 markar 500 ára afmæli ríkisþingsins í Worms þar sem Marteinn Lúther hélt einhverja kunnustu ræðu sína og jafnvel siðbreytingartímans alls. Í því sem á eftir fer mun ég byrja á því að rifja upp atburðarásina í kringum varnarræðu Lúthers í Worms í apríl 1521, síðan mun ég fara ofan í saumana á ræðu Lúthers og greina hana í ljósi hugmyndarinnar um „kirkjulega rökræðu,“ og að lokum ætla ég, með hliðsjón af viðtökum ræðunnar innan evangelísk-lútherskrar hefðar, að leitast við að svara þeirri spurningu hvort og þá hvernig hægt sé að byggja á henni í umræðu um kirkjulega rökræðu, kirkjugagnrýni og átakakúltúr.
Causa Lutheri: Lúther á stóra sviðinu
Það er óþarfi að fjalla mjög ítarlega um aðdragandann að ríkisþinginu enda mikið verið fjallað um hann á síðustu árum í tengslum við 500 ára afmæli siðbreytingarinnar. Í stað þess að rekja atburðarásina í Worms í miklum smáatriðum þjónar það frekar tilgangi þessara skrifa að hugleiða hvað var í húfi fyrir málsaðila, einkum Lúther sjálfan. Hann var nefnilega á þessum tímapunkti, á fyrri hluta árs 1521, samkvæmt öllum hlutlægum og veraldlegum mælikvörðum í mjög vondum málum. Nú hafði hann angrað of marga stórlaxa. Þegar þarna var komið sögu hafði hann sett fram hvassa gagnrýni á páfa og Rómakirkju, kallað hin andlegu yfirvöld í Róm öllum illum nöfnum og hafði þess vegna verið úrskurðaður í bann af hálfu kirkjunnar. Að mati kirkjunnar var Lúther trúvillingur sem í ofdrambi sínu hafði gert lítið úr vísdómi kirkjuþinga og kirkjufeðra og svívirt staðgengil Krists (vicarius Christi) í Róm.
Bann af hálfu Rómakirkju var ekkert grín. Bækur Lúthers skyldu brenndar og öll þau sem gerðust stuðningsmenn hans voru sjálfkrafa bannfærð. Um aldir hafði slíkt bann jafngilt dauðadómi. Þau sem höfðu hegðað sér með svipuðum hætti og Lúther fram að þessu höfðu flest hver ekki lifað það af. Á þessum tíma höfðu þó átt sér stað reglubreytingar sem komu sér vel fyrir Lúther. Samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi áttu trúvillingar rétt á formlegri málsmeðferð áður en til refsingar kæmi. Til þess að viðkomandi yrði fundinn sekur yrði keisarinn, æðsta veraldlega yfirvald bæði ríkisins og rómversku kirkjunnar, að kveða upp ríkisúrskurð (Reichsacht) og gefa út fyrirmæli um hvernig málinu skyldi framhaldið. Yfirleitt kváðu slík fyrirmæli um að rit dæmds trúvillings skyldu brennd, hann eða hún tekin/n höndum og framseldur til Rómar. Mál Lúthers – Causa Lutheri – var því sett á dagskrá á Ríkisþinginu í borginni Worms við Rínarfljót og honum stefnt á staðinn til að standa fyrir máli sínu.
Það lá þannig mikið við að sannfæra keisarann og aðra fulltrúa ríkisþingsins. Þó er ekki svo að skilja að á því hafi verið miklar líkur. Það hafði meira að segja þurft inngrip frá stuðningsmönnum Lúthers í hópi furstanna til að Lúther væri yfirhöfuð leyft að koma fyrir þingið í eigin persónu. Algengara var að keisarinn kvæði upp úrskurð yfir trúvillingunum fjarstöddum en nú var annar háttur á. Lúther var kallaður fyrir þingið þar sem saman var kominn fjöldinn allur af fólki úr öllum áttum. Í Worms bjuggu að staðaldri um 7000 manns en á meðan á ríkisþinginu stóð hafði íbúafjöldi borgarinnar tvöfaldast, ekki einungis vegna máls Lúthers – mun fleiri mál voru á dagskrá – en víst er að munkurinn frá Wittenberg trekkti að.
Þann 18. apríl, 1521 var prófessorinn frá Wittenberg sóttur og færður í biskupsgarð borgarinnar. Þar stóð hann frammi fyrir æðstu yfirvöldum hins heilaga rómverska keisaradæmis samankomnum: Karli V. keisara ríkisins alls, kjörfurstum ólíkra svæða innan þess (þ.á m. var Friðrik vitri kjörfursti Saxlands, þar sem Lúther bjó og starfaði en hann hélt hlífiskildi yfir Lúther umfram aðra veraldlega ráðamenn) og ýmsum öðrum valdamönnum. Daginn áður hafði hann reyndar staðið frammi fyrir sama hópi en bað þá um umhugsunarfrest eftir að hafa verið spurður hvort hann myndi draga málflutning sinn til baka. Samkvæmt heimildum hafði Lúther komið frekar illa fyrir þann dag, talað lágt og óskýrt, ekki vitað hvernig hann ætti að bera sig að samkvæmt reglum ríkisþingsins. Hann var stressaður. Daginn eftir var annað uppi á teningnum
Eftir að hafa verið spurður sömu spurninga og daginn áður – hvort hann hefði ritað þau rit sem hann hafði verið bannfærður fyrir og hvort hann myndi draga málflutning sinn til baka – tók Lúther til máls fyrst á þýsku, svo á latínu. Samkvæmt varðveittum málskjölum ríkisþingsins talaði hann að þessu sinni hátt og skýrt og flutti sína allra frægustu ræðu. Að svo komnu er nóg að taka fram að Lúther tók ekki staf til baka á þeim forsendum sem birtast í þessum frægu orðum hans:
Sé ekki unnt að sannfæra mig með vitnisburði Ritninganna eða rökum skynseminnar – og ég treysti hvorki páfa né kirkjuþingum, því að augljóst er að þeim hefur iðulega skjátlast og þau hafa orðið tvísaga – þá er samviska mín bundin af þeim orðum Guðs sem ég hef tilfært. Þess vegna get ég ekki og ætla ekki að taka neitt aftur, því að það er hvorki ráðlegt né hollt að breyta gegn samvisku sinni. Svo hjálpi mér Guð. Amen.[1]
Þetta dugði ekki til og Lúther vissi það sjálfur. Sagan segir að þegar hann gekk úr salnum hafi hann hrópað: „Ég er búinn að vera“. Keisarinn var ekki sannfærður. Honum þótti útilokað að þessi þrjóski munkur vissi betur en kirkjuþing og kirkjufeður. Skömmu síðar var úrskurðurinn kveðinn upp. Lúther var ekki bara kominn upp á kant við hið andlega vald páfa og Rómakirkju. Nú voru veraldlegir valdhafar komnir á sömu skoðun.
Samkvæmt öllum gildandi reglum þessa heims og annars var Lúther óalandi og óferjandi. Þau sem til hans náðu máttu koma honum fyrir kattarnef án nokkurra afleiðinga.[2]
Varnarræðan: Óður til rökræðunnar eða málin flækt?
Varnarræða Lúthers sýnir prýðilega hversu stórt hlutverk rökræðan leikur í atburðarásinni í Worms. Honum hafði reyndar ekki verið boðið upp á nein slík orðaskipti. Talsmaður keisara hafði spurt hann tveggja spurninga sem hann átti að svara með já-i eða nei-i. „Skrifaðir þú þessar bækur? Dregur þú til baka þann skaðlega málflutning sem þar er að finna?“ Þetta fyrirkomulag virðist hafa komið honum á óvart. Honum var bannað að koma með undirbúna punkta á blöðum og meira rými fyrir rökræðu hefði auðvitað komið honum betur enda þrautþjálfaður í þeirri list eins og komið hafði í ljós á hinum ýmsu málfundum á umliðnum árum.
Fyrri spurningin, „Skrifaðir þú þessar bækur?“ krafðist reyndar ekki neinna vafninga af hálfu Lúthers: „Þetta eru mínar bækur sem ég hef sjálfur gefið út í mínu nafni,“ sagði hann.[3] En síðari spurningunni, þ.e. hvort hann stæði við allt sem í bókunum stóð, gat hann ekki svarað af eða á. Þar þurfti hann að snúa aðstæðum sér í hag og hófst handa við að gera það sem hann kunni best: að flækja málin.
Fyrsta atriðið sem Lúther benti á var að þessi rit væru innbyrðis ólík að eðli og inntaki. Um þau væri ekki hægt að tala sem eina heild sem hægt væri að fjalla um, hvað þá draga til baka, í einu lagi. Með öðrum orðum, málið væri ekki jafn einfalt og spurningin gerði ráð fyrir, nauðsynlegt væri að flækja aðeins hlutina og sundurgreina. Þarna væru ósköp hættulausar bækur um kristna trú og siðferði sem kæmu hvaða kristinni manneskju vel; algjör óþarfi væri að taka slík skrif til baka. Þá væri líka að finna bækur í staflanum sem innihéldu gagnrýni á páfann í Róm, kirkjustjórn og rómverskan kirkjurétt. Sú gagnrýni beindist að stórum hluta gegn því óréttlæti sem fátækt fólk og valdalaust yrði fyrir út af þessu fyrirkomulagi og það væri óábyrgt gagnvart því fólki að taka nokkuð af þeim málflutningi til baka. Svo í þriðja lagi væri að finna rit skrifuð gegn nafngreindum einstaklingum sem höfðu andmælt honum. Þarna fer Lúther næst því að draga eitthvað af orðum sínum til baka og segist „hafa gengið harðar fram en viðeigandi var.“[4] Þeirri fullyrðingu er sennilega best lýst með enska orðinu „understatement“. En Lúther bendir á að hann hafi aldrei sagst vera dýrlingur og að hann sé ekki að verja eigin hegðun heldur kenningu Krists. Og á þeim forsendum tekur hann ekkert þessara rita heldur til baka. Lúther hefur þannig svarað spurningunum: bækurnar eru hans og hann stendur við það sem hann hefur skrifað.
Lúther hélt áfram. Ætla má að sumir viðstaddra hafi spurt sig hvort maðurinn ætlaði aldrei að hætta. Þessi bannsetti (í orðsins fyllstu merkingu) munkur hafði verið spurður tveggja einfaldra spurninga. Þarna voru mikilvægir menn samankomnir sem vildu skýr svör, takk. Langt var liðið á daginn og dagskrá ríkisþingsins hafði dregist fram úr hófi. En prófessorinn frá Wittenberg lét dæluna ganga og í þetta skipti tók hann fyrir viðfangsefni þessarar pistlaraðar: rökræðu, rifrildi og átök.
Segja mætti að þessi hluti ræðunnar sé lúthersk-evangelísk útlegging á gildi rökræðunnar. Hún er af augljósum ástæðum lúthersk og evangelísk – því hvert vísaði Lúther annað en í guðspjöllin máli sínu til stuðnings? Hann benti á að Jesús Kristur hefði sjálfur krafist þess að menn stæðu fyrir máli sínu með rökum og sönnunum: „Hafi ég illa mælt“ er eftir honum haft í Jóhannesarguðspjalli (18.23), „þá sanna þú að svo hafi verið.“ Af hverju ætti Lúther, „aumur maður, sem getur auðveldlega skjátlast,“[5] ekki að fara að með sama hætti og Kristur. Hann biðlar til yfirvaldanna um að taka þátt í rökræðunni, að leggja fyrir sig sannanir, burðug rök, gilda vitnisburði úr ritningunni. Þar með hefur Lúther aftur reynt að flækja málið með því að hafna forsendunum sem fyrirspyrjandinn gekk út frá. Í stað þess að samþykkja forsendur kirkjustofnunarinnar sem byggðu á hefðinni (t.d. ritum kirkjufeðra, páfabréfum, niðurstöðum kirkjuþinga o.fl.) þá lagði hann aðrar: sína eigin samvisku sem var aðeins bundin af orði Guðs í heilagri ritningu. Sannfærið mig á slíkum forsendum, segir hann „ég verð þá sá fyrsti til að varpa ritum mínum á eldinn.“[6]
Lúther vissi að hann væri að stofna til vandræða og ósættis. Í augum ráðamanna var hann maður með vesen. Ráðamenn annars vegar og fólk með vesen hins vegar hafa sjaldan átt samleið (nema þar fari einn og sami einstaklingurinn). En Lúther virðist ekki hafa séð annan kost í stöðunni. Honum þótti á slík vandræði hættandi. Aftur vísar hann máli sínu til stuðnings í orð Krists, í þetta skipti úr Matteusarguðspjalli (10.34 o.áfr.): „Ætlið ekki að ég sé kominn til að flytja frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu.“ Með hliðsjón af þessum orðum segist Lúther hafa hugleitt vandlega þær „raunir, hættur og átök“[7] sem kenningar hans gætu leitt til og hafi komist að þeirri niðurstöðu að á slíkt væri hættandi. Málið snerist um Guðs orð og þá væri einfaldlega við því að búast að komið gæti til orðaskaks, togstreitu og jafnvel sundurlyndis.
A Star is Born: Áhrifasaga varnarræðunnar
Af heimildum að dæma var enginn sérstakur glamúr yfir frammistöðu Lúthers í Worms. Jú, hann flutti ræðu sína skörulega svo jafnvel var á orði haft að keisaranum og ýmsum öðrum hefði þótt mikið til frammistöðunnar koma. Það breytti því þó ekki að Lúther laut þarna í lægra haldi og var dæmdur úr leik af þeim sem valdið höfðu. Hann var útskúfaður og skyldi yfirgefa borgina með skömm. Ef hann hefði ekki komist í felur er næsta víst að einhver hefði ráðið hann af dögum. En glamúrinn kom síðar. Í meðförum áhrifasögunnar hefur varnarræða Lúthers í Worms orðið klassísk. Með ræðunni „lagði Lúther nýjan grunn að þjóðfélagsgerð Evrópu;”[8] þetta var tímamótaviðburður í framvindu siðbótarsögunnar og gott ef ekki vestrænnar sögu almennt. Mikilvægi ræðunnar kemur skýrt fram í nýlegri bók um Lúther og siðbreytinguna þar sem lokaorð ræðunnar eru kölluð „lykiltexti siðbótarkristindómsins“ og þá einkum vegna þess hvernig þau tengjast
hinu dýrmæta frelsishugtaki í vitund manna og einnig að orð og verk haldast hér í hendur. Samviskuhugtakið skiptir ekki síður máli þegar áhrifin eru metin af framgöngu Lúthers. Hér er maður sem gengur fram í trássi við andleg og veraldleg yfirvöld í krafti eigin samvisku, með trú sína og sannfæringu að vopni.[9]
Þessi orð draga fram gildi atburðanna í Worms fyrir meginstrauma í samfélagsbreytingum og hugmyndasögu síðustu alda. Óþarfi er fara út í smáatriði í þeim efnum. Lúther í Worms hefur orðið að tákni, ekki bara fyrir grunngildi mótmælendakristninnar heldur fyrir hinn frjálsa og sjálfráða einstakling.[10] Og nú, 500 árum síðar þykir mörgum tilefni til að halda sérstaklega upp á afmæli ræðunnar, „Lúther-mómentið“ eða „stjörnustund siðbreytingarinnar“ eins og hún hefur verið kölluð.
Til þess að varpa ljósi á hvernig gildi varnarræðunnar í Worms hefur verið sett fram í síðari tíma menningu er nærtækt að líta til þeirra hátíðahalda sem framundan eru í borginni Worms á þessu ári. Þau eru reyndar að vissu leyti hafin eins og sjá má á vefsíðu bæði borgarinnar sjálfrar sem og hátíðahaldanna sem skipulögð eru af mótmælendakirkjunni í Þýskalandi (EKD). Þegar má finna mikið efni á þessum vefsíðum um guðfræðilegt og menningarlegt mikilvægi varnarræðunnar en líka efni í léttum dúr, t.d. má þar finna video-blogg þar sem Lúther sjálfur er í aðalhlutverki sem og einkennislag hátíðahaldanna: „Mein Moment“ sem mætti útleggja á íslensku sem „mitt eigið móment“ . Meginstef dagskrárinnar í Worms er „hugrekki“ („Wagemutig“) sem er sett í samhengi þess að taka afstöðu sem og hugmynda á borð við guðfræðilegt gildi samviskunnar og hugrekki til að halda sannfæringu sinni á lofti (Zivilcourage).
Í sérhefti sem þýska mótmælendakirkjan hefur gefið út í tilefni af afmæli varnarræðunnar er framganga Lúthers í Worms þannig sett fram sem eftirdæmi sem getur orðið fólki innblástur í aðstæðum þar sem er við ofurefli valdsins að eiga. Guðfræðingurinn og rithöfundurinn Fabian Vogt ber frammistöðu Lúthers á ríkisþinginu í Worms jafnvel saman við baráttu Rosu Parks, Sophie Scholl og Martin Luther King Jr.[11] Í sama riti tekur presturinn Claudia Kusch saman ýmis Lúthers-augnablik í sögu þýsku mótmælendakirkjunnar, þ.á m. vígslu fyrsta kvenprestsins árið 1958, tilkomu Leuenberger-samþykktarinnar, vígslu fyrsta lútherska kvenbiskupsins árið 1992 og ýmsa viðburði aðra þar sem henni þótti kirkjan taka skýra afstöðu í málum sem kröfðust hugrekkis.[12]
Tímamót á borð við 500 ára afmæli varnarræðunnar í Worms eru ágætt tilefni til þess að horfa til baka, íhuga eigin hefð og samhengi, hampa því sem á erindi, gangast við því sem betur hefði mátt fara og halda svo göngunni áfram með sjálfsvinnunna í farteskinu. Það getur ekki sakað. Það er auðvelt að gera söguna af réttarhöldunum í Worms að helgisögu en það ætti að forðast í lengstu lög. Lúther var ekki dýrlingur, hann sagði það meira að segja sjálfur í ræðu sinni í Worms:
„Ég lít ekki á mig sem dýrling og er ekki að verja eigin lífsmáta, heldur kenningu Krists.“[13]
Þetta leggur guðfræðingurinn Volker Jung líka áherslu á í niðurlagsorðum áðurnefnds sérheftis: afmæli varnarræðunnar er ekki endilega tilefni til að upphefja dyggðir Lúthers sem manneskju enda þótt djörf framganga hans verði ekki af honum tekin. Varnarræðan í Worms er miklu heldur sigurstund fagnaðarerindisins og þess krafts sem það getur blásið fólki í brjóst.[14] Í slíku ljósi er dramatíkin í Worms merkingarbær fyrir mótmælendur og afmælið gefur tilefni til til að vinna úr atburðarásinni og áhrifasögu hennar með uppbyggilegum hætti fyrir samtímann.
Frjálst orð og þögult vald
Sjálfur vil ég nota þessi tímamót til að færa í tal gildi kirkjulegrar rökræðu en mér finnst varnarræðan að mörgu leyti táknræn fyrir mikilvægi hennar. Atburðarásin sem lýst hefur verið hér að framan dregur að mörgu leyti fram meginstef mótmælendakristninnar. Í aðalhlutverki er vesenisti sem flækir málin og kemur sér og öðrum í tóm vandræði. Eins og minnst var á í síðasta pistli þá sér hver sem á horfir að Lúther var mjög erfiður maður, stundum ábyggilega hundleiðinlegur. Þrjóskur og stríðlundaður. Langorður og ósvífinn í tilsvörum. Hreyfing sem byggir á slíkri arfleifð hlýtur að eiga á hættu að verða óstarfhæf í meira lagi. Ég mun víkja að praktískri hlið þessarar arfleifðar síðar í þessari pistlaröð.
En það eru auðvitað fleiri og jákvæðari hliðar á þessari sögu. Eins og þau sem til þekkja þá var Lúther miklu meira en bara leiðinlegur. Í frásögninni af varnarræðunni í Worms verður Lúther að málsvara hins frjálsa orðs sem gerir uppreisn gegn valdinu. Hann getur ekki haldið sér saman þó það hefði verið honum fyrir bestu. Honum var uppálagt að svara með aðeins einu orði – já-i eða nei-i – en hann flutti heila ræðu. Það gerði hann í trássi við gildandi reglur og ríkjandi yfirvöld, sem vel á minnst voru á staðnum og lögðu við hlustir. Í vissum skilningi er hið frjálsa orð rauði þráðurinn í ferli Lúthers: ríkisþingið var vissulega áhrifamikil birtingarmynd þess en annars var maðurinn sítalandi (eins og borðræðurnar vitna um!) og sískrifandi (sbr. Luthers Werke). Ekki má heldur gleyma því að hann var talsmaður þess að sleppa guðsorðinu lausu út á meðal fólks og stuðlaði að því með áhrifamikilli biblíuþýðingu sinni.
Það er sennilega bara ágætt að Lúther sé dálítið tvíræður karakter því það er hið frjálsa orð líka. Það er ekki bara forsenda heiðarlegrar og upplýstrar umræðu. Orðið getur líka verið hættulegt. Það er opið fyrir mörgum túlkunum. Býður upp á misskilning. Að því leyti er það að stjórnlaust og óreiðukennt, niðurbrjótandi og jafnvel skaðlegt. Orðum fylgir þannig alltaf ábyrgð. Þau hafa áhrif og þau er hægt að gagnrýna. Þau geta líka misst merkingu sína og þá er stutt í að fólk hætti að hlusta.
Í þessu ljósi er augljóst hvers vegna hið frjálsa orð verður oft að eitri í beinum valdsins. Í frásögninni af ríkisþinginu í Worms er keisarinn, Karl V., fulltrúi hins þegjandi valds. Hann talaði ekki sjálfur heldur lét fulltrúa sinn – kerfið – tala fyrir sig. Það er erfitt að gagnrýna þann sem segir ekkert. Með því að taka til máls frammi fyrir keisaranum storkaði Lúther þögninni og gaf þannig tóninn fyrir það sem koma skyldi í þeirri kirkju sem kennd er við hann. Lúthersk kirkja sem hefur ekki raunverulegt rými fyrir frjáls skoðanaskipti og gagnrýna rökræðu ber ekki nafn með rentu. Hin lútherska arfleifð rökræðunnar og hins frjálsa orðs hefur verið útfærð með ýmsum hætti í gegnum tíðina, bæði innan kirkna og utan þeirra. Í næsta pistli mun ég víkja að rökræðu- og menntamannahefð lútherskrar mótmælendakristni og velta upp þeirri spurningu hvort og þá hvers vegna hlutverk prestsins sem talandi og skrifandi menntamanneskju – intellektúal þ.e. – eigi undir högg að sækja í íslensku samfélagi og menningu. Það er nefnilega ekki alltaf einfalt að eiga við arfleifð hins frjálsa orðs en undan því verður ekki vikist. Hún er þarna og getur ekki annað.
Haraldur Hreinsson er guðfræðingur og sagnfræðingur.
Hann lauk doktorsprófi frá háskólanum í Münster 2019.
Starfar nú við háskólann í Leipzig og Háskóla Íslands.
[1] „Varnarræða í Worms“, í Marteinn Lúther: Úrval rita 1, ritstj. Arnfríður Guðmundsdóttir, Gunnar J. Gunnarsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson, aðalþýð. Gunnar Kristjánsson (Reykjavík: Nefnd um fimm alda minningu siðbótarinnar, Skálholtsútgáfan, 2017), 266. Aðra þýðingu og ítarlega guðfræðilega greiningu á þessum tiltekna hluta ræðunnar er að finna í bók Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, Guðfræði Marteins Lúthers (Reykjavík: HíB, 2000), 164.
[2] Í þessari yfirferð var stuðst við Martin Brecht, Martin Luther 1 Sein Weg zur Reformation 1483-1521 (Stuttgart: Calwer, 1990); Thomas Kaufmann, Geschichte der Reformation (Frankfurt og Leipzig: Verlag der Weltreligionen, 2009); Heinz Schilling, Martin Luther: Rebell in einer Zeit des Umbruchs (München: C. H. Beck, 2017); Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther: Svipmyndir úr siðbótarsögu (Reykjavík: HíB, 2014).
[3] „Varnarræða í Worms“, 263.
[4] „Varnarræða í Worms“, 264.
[5] „Varnarræða í Worms“, 265.
[6] „Varnarræða í Worms“, 265.
[7] „Varnarræða í Worms“, 265.
[8] Sigurjón Árni Eyjólfsson, Guðfræði Marteins Lúthers, 166.
[9] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther, 120.
[10] Sjá t.d. umræðu um tengsl ræðu Lúthers og tilvistarheimspekinnar eins og þau eru sett fram af Simone de Beauvoir hjá Sigurjóni Árna Eyjólfssyni, Guðfræði Marteins Lúthers, bls. 167.
[11] Fabian Vogt, „Menschen, die die Welt verändern,“ í Gewissen befreien. Haltung zeigen. Gott vertrauen. Luther vor dem wormscher Reichstag. Das Themenheft zum 500. Jubiläum 1521-2021 (EKD: Hannover, 2020), 18. Aðgengilegt á https://www.ekd.de/ekd_de/ds_doc/themenheft_worms_2021.pdf
[12] Claudia Kusch, „Luther-Moment in der jüngeren Kirchengeschichte,“ í Gewissen befreien. Haltung zeigen. Gott vertrauen. Luther vor dem wormscher Reichstag. Das Themenheft zum 500. Jubiläum 1521-2021 (EKD: Hannover, 2020), 20-21. Aðgengilegt á https://www.ekd.de/ekd_de/ds_doc/themenheft_worms_2021.pdf
[13] „Varnarræða í Worms“, 265.
[14] Volker Jung, „Motivation: Halt und Kraft“, í Gewissen befreien. Haltung zeigen. Gott vertrauen. Luther vor dem wormscher Reichstag. Das Themenheft zum 500. Jubiläum 1521-2021 (EKD: Hannover, 2020), 20-21. Aðgengilegt á https://www.ekd.de/ekd_de/ds_doc/themenheft_worms_2021.pdf 59
Fyrir nokkrum vikum lýsti ég hér á þessum vettvangi áformum mínum um að ræða það sem ég nefndi „kirkjulega rökræðu“ en með því orðasambandi á ég við efnisleg skoðanaskipti, gagnrýna umræðu og eftir atvikum átök um þau málefni sem brenna á kirkjufólki. Í forgrunni þessa fyrsta pistils verður sá sögulegi atburður sem gaf tilefni til þessara skrifa en árið 2021 markar 500 ára afmæli ríkisþingsins í Worms þar sem Marteinn Lúther hélt einhverja kunnustu ræðu sína og jafnvel siðbreytingartímans alls. Í því sem á eftir fer mun ég byrja á því að rifja upp atburðarásina í kringum varnarræðu Lúthers í Worms í apríl 1521, síðan mun ég fara ofan í saumana á ræðu Lúthers og greina hana í ljósi hugmyndarinnar um „kirkjulega rökræðu,“ og að lokum ætla ég, með hliðsjón af viðtökum ræðunnar innan evangelísk-lútherskrar hefðar, að leitast við að svara þeirri spurningu hvort og þá hvernig hægt sé að byggja á henni í umræðu um kirkjulega rökræðu, kirkjugagnrýni og átakakúltúr.
Causa Lutheri: Lúther á stóra sviðinu
Það er óþarfi að fjalla mjög ítarlega um aðdragandann að ríkisþinginu enda mikið verið fjallað um hann á síðustu árum í tengslum við 500 ára afmæli siðbreytingarinnar. Í stað þess að rekja atburðarásina í Worms í miklum smáatriðum þjónar það frekar tilgangi þessara skrifa að hugleiða hvað var í húfi fyrir málsaðila, einkum Lúther sjálfan. Hann var nefnilega á þessum tímapunkti, á fyrri hluta árs 1521, samkvæmt öllum hlutlægum og veraldlegum mælikvörðum í mjög vondum málum. Nú hafði hann angrað of marga stórlaxa. Þegar þarna var komið sögu hafði hann sett fram hvassa gagnrýni á páfa og Rómakirkju, kallað hin andlegu yfirvöld í Róm öllum illum nöfnum og hafði þess vegna verið úrskurðaður í bann af hálfu kirkjunnar. Að mati kirkjunnar var Lúther trúvillingur sem í ofdrambi sínu hafði gert lítið úr vísdómi kirkjuþinga og kirkjufeðra og svívirt staðgengil Krists (vicarius Christi) í Róm.
Bann af hálfu Rómakirkju var ekkert grín. Bækur Lúthers skyldu brenndar og öll þau sem gerðust stuðningsmenn hans voru sjálfkrafa bannfærð. Um aldir hafði slíkt bann jafngilt dauðadómi. Þau sem höfðu hegðað sér með svipuðum hætti og Lúther fram að þessu höfðu flest hver ekki lifað það af. Á þessum tíma höfðu þó átt sér stað reglubreytingar sem komu sér vel fyrir Lúther. Samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi áttu trúvillingar rétt á formlegri málsmeðferð áður en til refsingar kæmi. Til þess að viðkomandi yrði fundinn sekur yrði keisarinn, æðsta veraldlega yfirvald bæði ríkisins og rómversku kirkjunnar, að kveða upp ríkisúrskurð (Reichsacht) og gefa út fyrirmæli um hvernig málinu skyldi framhaldið. Yfirleitt kváðu slík fyrirmæli um að rit dæmds trúvillings skyldu brennd, hann eða hún tekin/n höndum og framseldur til Rómar. Mál Lúthers – Causa Lutheri – var því sett á dagskrá á Ríkisþinginu í borginni Worms við Rínarfljót og honum stefnt á staðinn til að standa fyrir máli sínu.
Það lá þannig mikið við að sannfæra keisarann og aðra fulltrúa ríkisþingsins. Þó er ekki svo að skilja að á því hafi verið miklar líkur. Það hafði meira að segja þurft inngrip frá stuðningsmönnum Lúthers í hópi furstanna til að Lúther væri yfirhöfuð leyft að koma fyrir þingið í eigin persónu. Algengara var að keisarinn kvæði upp úrskurð yfir trúvillingunum fjarstöddum en nú var annar háttur á. Lúther var kallaður fyrir þingið þar sem saman var kominn fjöldinn allur af fólki úr öllum áttum. Í Worms bjuggu að staðaldri um 7000 manns en á meðan á ríkisþinginu stóð hafði íbúafjöldi borgarinnar tvöfaldast, ekki einungis vegna máls Lúthers – mun fleiri mál voru á dagskrá – en víst er að munkurinn frá Wittenberg trekkti að.
Þann 18. apríl, 1521 var prófessorinn frá Wittenberg sóttur og færður í biskupsgarð borgarinnar. Þar stóð hann frammi fyrir æðstu yfirvöldum hins heilaga rómverska keisaradæmis samankomnum: Karli V. keisara ríkisins alls, kjörfurstum ólíkra svæða innan þess (þ.á m. var Friðrik vitri kjörfursti Saxlands, þar sem Lúther bjó og starfaði en hann hélt hlífiskildi yfir Lúther umfram aðra veraldlega ráðamenn) og ýmsum öðrum valdamönnum. Daginn áður hafði hann reyndar staðið frammi fyrir sama hópi en bað þá um umhugsunarfrest eftir að hafa verið spurður hvort hann myndi draga málflutning sinn til baka. Samkvæmt heimildum hafði Lúther komið frekar illa fyrir þann dag, talað lágt og óskýrt, ekki vitað hvernig hann ætti að bera sig að samkvæmt reglum ríkisþingsins. Hann var stressaður. Daginn eftir var annað uppi á teningnum
Eftir að hafa verið spurður sömu spurninga og daginn áður – hvort hann hefði ritað þau rit sem hann hafði verið bannfærður fyrir og hvort hann myndi draga málflutning sinn til baka – tók Lúther til máls fyrst á þýsku, svo á latínu. Samkvæmt varðveittum málskjölum ríkisþingsins talaði hann að þessu sinni hátt og skýrt og flutti sína allra frægustu ræðu. Að svo komnu er nóg að taka fram að Lúther tók ekki staf til baka á þeim forsendum sem birtast í þessum frægu orðum hans:
Sé ekki unnt að sannfæra mig með vitnisburði Ritninganna eða rökum skynseminnar – og ég treysti hvorki páfa né kirkjuþingum, því að augljóst er að þeim hefur iðulega skjátlast og þau hafa orðið tvísaga – þá er samviska mín bundin af þeim orðum Guðs sem ég hef tilfært. Þess vegna get ég ekki og ætla ekki að taka neitt aftur, því að það er hvorki ráðlegt né hollt að breyta gegn samvisku sinni. Svo hjálpi mér Guð. Amen.[1]
Þetta dugði ekki til og Lúther vissi það sjálfur. Sagan segir að þegar hann gekk úr salnum hafi hann hrópað: „Ég er búinn að vera“. Keisarinn var ekki sannfærður. Honum þótti útilokað að þessi þrjóski munkur vissi betur en kirkjuþing og kirkjufeður. Skömmu síðar var úrskurðurinn kveðinn upp. Lúther var ekki bara kominn upp á kant við hið andlega vald páfa og Rómakirkju. Nú voru veraldlegir valdhafar komnir á sömu skoðun.
Samkvæmt öllum gildandi reglum þessa heims og annars var Lúther óalandi og óferjandi. Þau sem til hans náðu máttu koma honum fyrir kattarnef án nokkurra afleiðinga.[2]
Varnarræðan: Óður til rökræðunnar eða málin flækt?
Varnarræða Lúthers sýnir prýðilega hversu stórt hlutverk rökræðan leikur í atburðarásinni í Worms. Honum hafði reyndar ekki verið boðið upp á nein slík orðaskipti. Talsmaður keisara hafði spurt hann tveggja spurninga sem hann átti að svara með já-i eða nei-i. „Skrifaðir þú þessar bækur? Dregur þú til baka þann skaðlega málflutning sem þar er að finna?“ Þetta fyrirkomulag virðist hafa komið honum á óvart. Honum var bannað að koma með undirbúna punkta á blöðum og meira rými fyrir rökræðu hefði auðvitað komið honum betur enda þrautþjálfaður í þeirri list eins og komið hafði í ljós á hinum ýmsu málfundum á umliðnum árum.
Fyrri spurningin, „Skrifaðir þú þessar bækur?“ krafðist reyndar ekki neinna vafninga af hálfu Lúthers: „Þetta eru mínar bækur sem ég hef sjálfur gefið út í mínu nafni,“ sagði hann.[3] En síðari spurningunni, þ.e. hvort hann stæði við allt sem í bókunum stóð, gat hann ekki svarað af eða á. Þar þurfti hann að snúa aðstæðum sér í hag og hófst handa við að gera það sem hann kunni best: að flækja málin.
Fyrsta atriðið sem Lúther benti á var að þessi rit væru innbyrðis ólík að eðli og inntaki. Um þau væri ekki hægt að tala sem eina heild sem hægt væri að fjalla um, hvað þá draga til baka, í einu lagi. Með öðrum orðum, málið væri ekki jafn einfalt og spurningin gerði ráð fyrir, nauðsynlegt væri að flækja aðeins hlutina og sundurgreina. Þarna væru ósköp hættulausar bækur um kristna trú og siðferði sem kæmu hvaða kristinni manneskju vel; algjör óþarfi væri að taka slík skrif til baka. Þá væri líka að finna bækur í staflanum sem innihéldu gagnrýni á páfann í Róm, kirkjustjórn og rómverskan kirkjurétt. Sú gagnrýni beindist að stórum hluta gegn því óréttlæti sem fátækt fólk og valdalaust yrði fyrir út af þessu fyrirkomulagi og það væri óábyrgt gagnvart því fólki að taka nokkuð af þeim málflutningi til baka. Svo í þriðja lagi væri að finna rit skrifuð gegn nafngreindum einstaklingum sem höfðu andmælt honum. Þarna fer Lúther næst því að draga eitthvað af orðum sínum til baka og segist „hafa gengið harðar fram en viðeigandi var.“[4] Þeirri fullyrðingu er sennilega best lýst með enska orðinu „understatement“. En Lúther bendir á að hann hafi aldrei sagst vera dýrlingur og að hann sé ekki að verja eigin hegðun heldur kenningu Krists. Og á þeim forsendum tekur hann ekkert þessara rita heldur til baka. Lúther hefur þannig svarað spurningunum: bækurnar eru hans og hann stendur við það sem hann hefur skrifað.
Lúther hélt áfram. Ætla má að sumir viðstaddra hafi spurt sig hvort maðurinn ætlaði aldrei að hætta. Þessi bannsetti (í orðsins fyllstu merkingu) munkur hafði verið spurður tveggja einfaldra spurninga. Þarna voru mikilvægir menn samankomnir sem vildu skýr svör, takk. Langt var liðið á daginn og dagskrá ríkisþingsins hafði dregist fram úr hófi. En prófessorinn frá Wittenberg lét dæluna ganga og í þetta skipti tók hann fyrir viðfangsefni þessarar pistlaraðar: rökræðu, rifrildi og átök.
Segja mætti að þessi hluti ræðunnar sé lúthersk-evangelísk útlegging á gildi rökræðunnar. Hún er af augljósum ástæðum lúthersk og evangelísk – því hvert vísaði Lúther annað en í guðspjöllin máli sínu til stuðnings? Hann benti á að Jesús Kristur hefði sjálfur krafist þess að menn stæðu fyrir máli sínu með rökum og sönnunum: „Hafi ég illa mælt“ er eftir honum haft í Jóhannesarguðspjalli (18.23), „þá sanna þú að svo hafi verið.“ Af hverju ætti Lúther, „aumur maður, sem getur auðveldlega skjátlast,“[5] ekki að fara að með sama hætti og Kristur. Hann biðlar til yfirvaldanna um að taka þátt í rökræðunni, að leggja fyrir sig sannanir, burðug rök, gilda vitnisburði úr ritningunni. Þar með hefur Lúther aftur reynt að flækja málið með því að hafna forsendunum sem fyrirspyrjandinn gekk út frá. Í stað þess að samþykkja forsendur kirkjustofnunarinnar sem byggðu á hefðinni (t.d. ritum kirkjufeðra, páfabréfum, niðurstöðum kirkjuþinga o.fl.) þá lagði hann aðrar: sína eigin samvisku sem var aðeins bundin af orði Guðs í heilagri ritningu. Sannfærið mig á slíkum forsendum, segir hann „ég verð þá sá fyrsti til að varpa ritum mínum á eldinn.“[6]
Lúther vissi að hann væri að stofna til vandræða og ósættis. Í augum ráðamanna var hann maður með vesen. Ráðamenn annars vegar og fólk með vesen hins vegar hafa sjaldan átt samleið (nema þar fari einn og sami einstaklingurinn). En Lúther virðist ekki hafa séð annan kost í stöðunni. Honum þótti á slík vandræði hættandi. Aftur vísar hann máli sínu til stuðnings í orð Krists, í þetta skipti úr Matteusarguðspjalli (10.34 o.áfr.): „Ætlið ekki að ég sé kominn til að flytja frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu.“ Með hliðsjón af þessum orðum segist Lúther hafa hugleitt vandlega þær „raunir, hættur og átök“[7] sem kenningar hans gætu leitt til og hafi komist að þeirri niðurstöðu að á slíkt væri hættandi. Málið snerist um Guðs orð og þá væri einfaldlega við því að búast að komið gæti til orðaskaks, togstreitu og jafnvel sundurlyndis.
A Star is Born: Áhrifasaga varnarræðunnar
Af heimildum að dæma var enginn sérstakur glamúr yfir frammistöðu Lúthers í Worms. Jú, hann flutti ræðu sína skörulega svo jafnvel var á orði haft að keisaranum og ýmsum öðrum hefði þótt mikið til frammistöðunnar koma. Það breytti því þó ekki að Lúther laut þarna í lægra haldi og var dæmdur úr leik af þeim sem valdið höfðu. Hann var útskúfaður og skyldi yfirgefa borgina með skömm. Ef hann hefði ekki komist í felur er næsta víst að einhver hefði ráðið hann af dögum. En glamúrinn kom síðar. Í meðförum áhrifasögunnar hefur varnarræða Lúthers í Worms orðið klassísk. Með ræðunni „lagði Lúther nýjan grunn að þjóðfélagsgerð Evrópu;”[8] þetta var tímamótaviðburður í framvindu siðbótarsögunnar og gott ef ekki vestrænnar sögu almennt. Mikilvægi ræðunnar kemur skýrt fram í nýlegri bók um Lúther og siðbreytinguna þar sem lokaorð ræðunnar eru kölluð „lykiltexti siðbótarkristindómsins“ og þá einkum vegna þess hvernig þau tengjast
hinu dýrmæta frelsishugtaki í vitund manna og einnig að orð og verk haldast hér í hendur. Samviskuhugtakið skiptir ekki síður máli þegar áhrifin eru metin af framgöngu Lúthers. Hér er maður sem gengur fram í trássi við andleg og veraldleg yfirvöld í krafti eigin samvisku, með trú sína og sannfæringu að vopni.[9]
Þessi orð draga fram gildi atburðanna í Worms fyrir meginstrauma í samfélagsbreytingum og hugmyndasögu síðustu alda. Óþarfi er fara út í smáatriði í þeim efnum. Lúther í Worms hefur orðið að tákni, ekki bara fyrir grunngildi mótmælendakristninnar heldur fyrir hinn frjálsa og sjálfráða einstakling.[10] Og nú, 500 árum síðar þykir mörgum tilefni til að halda sérstaklega upp á afmæli ræðunnar, „Lúther-mómentið“ eða „stjörnustund siðbreytingarinnar“ eins og hún hefur verið kölluð.
Til þess að varpa ljósi á hvernig gildi varnarræðunnar í Worms hefur verið sett fram í síðari tíma menningu er nærtækt að líta til þeirra hátíðahalda sem framundan eru í borginni Worms á þessu ári. Þau eru reyndar að vissu leyti hafin eins og sjá má á vefsíðu bæði borgarinnar sjálfrar sem og hátíðahaldanna sem skipulögð eru af mótmælendakirkjunni í Þýskalandi (EKD). Þegar má finna mikið efni á þessum vefsíðum um guðfræðilegt og menningarlegt mikilvægi varnarræðunnar en líka efni í léttum dúr, t.d. má þar finna video-blogg þar sem Lúther sjálfur er í aðalhlutverki sem og einkennislag hátíðahaldanna: „Mein Moment“ sem mætti útleggja á íslensku sem „mitt eigið móment“ . Meginstef dagskrárinnar í Worms er „hugrekki“ („Wagemutig“) sem er sett í samhengi þess að taka afstöðu sem og hugmynda á borð við guðfræðilegt gildi samviskunnar og hugrekki til að halda sannfæringu sinni á lofti (Zivilcourage).
Í sérhefti sem þýska mótmælendakirkjan hefur gefið út í tilefni af afmæli varnarræðunnar er framganga Lúthers í Worms þannig sett fram sem eftirdæmi sem getur orðið fólki innblástur í aðstæðum þar sem er við ofurefli valdsins að eiga. Guðfræðingurinn og rithöfundurinn Fabian Vogt ber frammistöðu Lúthers á ríkisþinginu í Worms jafnvel saman við baráttu Rosu Parks, Sophie Scholl og Martin Luther King Jr.[11] Í sama riti tekur presturinn Claudia Kusch saman ýmis Lúthers-augnablik í sögu þýsku mótmælendakirkjunnar, þ.á m. vígslu fyrsta kvenprestsins árið 1958, tilkomu Leuenberger-samþykktarinnar, vígslu fyrsta lútherska kvenbiskupsins árið 1992 og ýmsa viðburði aðra þar sem henni þótti kirkjan taka skýra afstöðu í málum sem kröfðust hugrekkis.[12]
Tímamót á borð við 500 ára afmæli varnarræðunnar í Worms eru ágætt tilefni til þess að horfa til baka, íhuga eigin hefð og samhengi, hampa því sem á erindi, gangast við því sem betur hefði mátt fara og halda svo göngunni áfram með sjálfsvinnunna í farteskinu. Það getur ekki sakað. Það er auðvelt að gera söguna af réttarhöldunum í Worms að helgisögu en það ætti að forðast í lengstu lög. Lúther var ekki dýrlingur, hann sagði það meira að segja sjálfur í ræðu sinni í Worms:
„Ég lít ekki á mig sem dýrling og er ekki að verja eigin lífsmáta, heldur kenningu Krists.“[13]
Þetta leggur guðfræðingurinn Volker Jung líka áherslu á í niðurlagsorðum áðurnefnds sérheftis: afmæli varnarræðunnar er ekki endilega tilefni til að upphefja dyggðir Lúthers sem manneskju enda þótt djörf framganga hans verði ekki af honum tekin. Varnarræðan í Worms er miklu heldur sigurstund fagnaðarerindisins og þess krafts sem það getur blásið fólki í brjóst.[14] Í slíku ljósi er dramatíkin í Worms merkingarbær fyrir mótmælendur og afmælið gefur tilefni til til að vinna úr atburðarásinni og áhrifasögu hennar með uppbyggilegum hætti fyrir samtímann.
Frjálst orð og þögult vald
Sjálfur vil ég nota þessi tímamót til að færa í tal gildi kirkjulegrar rökræðu en mér finnst varnarræðan að mörgu leyti táknræn fyrir mikilvægi hennar. Atburðarásin sem lýst hefur verið hér að framan dregur að mörgu leyti fram meginstef mótmælendakristninnar. Í aðalhlutverki er vesenisti sem flækir málin og kemur sér og öðrum í tóm vandræði. Eins og minnst var á í síðasta pistli þá sér hver sem á horfir að Lúther var mjög erfiður maður, stundum ábyggilega hundleiðinlegur. Þrjóskur og stríðlundaður. Langorður og ósvífinn í tilsvörum. Hreyfing sem byggir á slíkri arfleifð hlýtur að eiga á hættu að verða óstarfhæf í meira lagi. Ég mun víkja að praktískri hlið þessarar arfleifðar síðar í þessari pistlaröð.
En það eru auðvitað fleiri og jákvæðari hliðar á þessari sögu. Eins og þau sem til þekkja þá var Lúther miklu meira en bara leiðinlegur. Í frásögninni af varnarræðunni í Worms verður Lúther að málsvara hins frjálsa orðs sem gerir uppreisn gegn valdinu. Hann getur ekki haldið sér saman þó það hefði verið honum fyrir bestu. Honum var uppálagt að svara með aðeins einu orði – já-i eða nei-i – en hann flutti heila ræðu. Það gerði hann í trássi við gildandi reglur og ríkjandi yfirvöld, sem vel á minnst voru á staðnum og lögðu við hlustir. Í vissum skilningi er hið frjálsa orð rauði þráðurinn í ferli Lúthers: ríkisþingið var vissulega áhrifamikil birtingarmynd þess en annars var maðurinn sítalandi (eins og borðræðurnar vitna um!) og sískrifandi (sbr. Luthers Werke). Ekki má heldur gleyma því að hann var talsmaður þess að sleppa guðsorðinu lausu út á meðal fólks og stuðlaði að því með áhrifamikilli biblíuþýðingu sinni.
Það er sennilega bara ágætt að Lúther sé dálítið tvíræður karakter því það er hið frjálsa orð líka. Það er ekki bara forsenda heiðarlegrar og upplýstrar umræðu. Orðið getur líka verið hættulegt. Það er opið fyrir mörgum túlkunum. Býður upp á misskilning. Að því leyti er það að stjórnlaust og óreiðukennt, niðurbrjótandi og jafnvel skaðlegt. Orðum fylgir þannig alltaf ábyrgð. Þau hafa áhrif og þau er hægt að gagnrýna. Þau geta líka misst merkingu sína og þá er stutt í að fólk hætti að hlusta.
Í þessu ljósi er augljóst hvers vegna hið frjálsa orð verður oft að eitri í beinum valdsins. Í frásögninni af ríkisþinginu í Worms er keisarinn, Karl V., fulltrúi hins þegjandi valds. Hann talaði ekki sjálfur heldur lét fulltrúa sinn – kerfið – tala fyrir sig. Það er erfitt að gagnrýna þann sem segir ekkert. Með því að taka til máls frammi fyrir keisaranum storkaði Lúther þögninni og gaf þannig tóninn fyrir það sem koma skyldi í þeirri kirkju sem kennd er við hann. Lúthersk kirkja sem hefur ekki raunverulegt rými fyrir frjáls skoðanaskipti og gagnrýna rökræðu ber ekki nafn með rentu. Hin lútherska arfleifð rökræðunnar og hins frjálsa orðs hefur verið útfærð með ýmsum hætti í gegnum tíðina, bæði innan kirkna og utan þeirra. Í næsta pistli mun ég víkja að rökræðu- og menntamannahefð lútherskrar mótmælendakristni og velta upp þeirri spurningu hvort og þá hvers vegna hlutverk prestsins sem talandi og skrifandi menntamanneskju – intellektúal þ.e. – eigi undir högg að sækja í íslensku samfélagi og menningu. Það er nefnilega ekki alltaf einfalt að eiga við arfleifð hins frjálsa orðs en undan því verður ekki vikist. Hún er þarna og getur ekki annað.
Haraldur Hreinsson er guðfræðingur og sagnfræðingur.
Hann lauk doktorsprófi frá háskólanum í Münster 2019.
Starfar nú við háskólann í Leipzig og Háskóla Íslands.
[1] „Varnarræða í Worms“, í Marteinn Lúther: Úrval rita 1, ritstj. Arnfríður Guðmundsdóttir, Gunnar J. Gunnarsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson, aðalþýð. Gunnar Kristjánsson (Reykjavík: Nefnd um fimm alda minningu siðbótarinnar, Skálholtsútgáfan, 2017), 266. Aðra þýðingu og ítarlega guðfræðilega greiningu á þessum tiltekna hluta ræðunnar er að finna í bók Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, Guðfræði Marteins Lúthers (Reykjavík: HíB, 2000), 164.
[2] Í þessari yfirferð var stuðst við Martin Brecht, Martin Luther 1 Sein Weg zur Reformation 1483-1521 (Stuttgart: Calwer, 1990); Thomas Kaufmann, Geschichte der Reformation (Frankfurt og Leipzig: Verlag der Weltreligionen, 2009); Heinz Schilling, Martin Luther: Rebell in einer Zeit des Umbruchs (München: C. H. Beck, 2017); Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther: Svipmyndir úr siðbótarsögu (Reykjavík: HíB, 2014).
[3] „Varnarræða í Worms“, 263.
[4] „Varnarræða í Worms“, 264.
[5] „Varnarræða í Worms“, 265.
[6] „Varnarræða í Worms“, 265.
[7] „Varnarræða í Worms“, 265.
[8] Sigurjón Árni Eyjólfsson, Guðfræði Marteins Lúthers, 166.
[9] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther, 120.
[10] Sjá t.d. umræðu um tengsl ræðu Lúthers og tilvistarheimspekinnar eins og þau eru sett fram af Simone de Beauvoir hjá Sigurjóni Árna Eyjólfssyni, Guðfræði Marteins Lúthers, bls. 167.
[11] Fabian Vogt, „Menschen, die die Welt verändern,“ í Gewissen befreien. Haltung zeigen. Gott vertrauen. Luther vor dem wormscher Reichstag. Das Themenheft zum 500. Jubiläum 1521-2021 (EKD: Hannover, 2020), 18. Aðgengilegt á https://www.ekd.de/ekd_de/ds_doc/themenheft_worms_2021.pdf
[12] Claudia Kusch, „Luther-Moment in der jüngeren Kirchengeschichte,“ í Gewissen befreien. Haltung zeigen. Gott vertrauen. Luther vor dem wormscher Reichstag. Das Themenheft zum 500. Jubiläum 1521-2021 (EKD: Hannover, 2020), 20-21. Aðgengilegt á https://www.ekd.de/ekd_de/ds_doc/themenheft_worms_2021.pdf
[13] „Varnarræða í Worms“, 265.
[14] Volker Jung, „Motivation: Halt und Kraft“, í Gewissen befreien. Haltung zeigen. Gott vertrauen. Luther vor dem wormscher Reichstag. Das Themenheft zum 500. Jubiläum 1521-2021 (EKD: Hannover, 2020), 20-21. Aðgengilegt á https://www.ekd.de/ekd_de/ds_doc/themenheft_worms_2021.pdf 59