Dr. Hjalti Hugason prófessor emeritus

Stefán Magnússon bóndi í Fagraskógi og kirkjuþingsmaður

Hjalti Hugason og Stefán Magnússon setjast við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og bregðast við greinum þeirra dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, dr. Jóns Ásgeirs Sigurvinssonar og sr. Elínborgar Sturludóttur.

Þessi grein þeirra er sú fyrsta af þremur.

Á dögunum birti Kirkjublaðið þriggja greina flokk eftir þrjá Reykjavíkurpresta um málefni sem nú er að finna á verkefnaskrá kirkjuþings, nánar til tekið breytingar á starfsreglum um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups.[1] Hér er um brýnt viðfangsefni að ræða þar sem málið snýst í raun og veru um „kirkjuna sem lýðræðislega stofnun“ en það er einmitt sameiginleg yfirskrift greinanna þriggja. Þessu framtaki prestanna og ritstjórans ber að fagna en það hlýtur að teljast mikilvægt að mál sem fyrir kirkjuþingi liggja fái mikla og góða umfjöllun bæði á þinginu sjálfu sem og utan þess. Slíkt hlýtur að stuðla að vandaðri málsmeðferð.

Erindi þremenninganna virðist felast í að leiðrétta „grundvallarmisskilning“ sem þau telja að ríki í umræðum um hlutverk og stöðu kirkjunnar innan samfélagsins, misskilning sem er birtingarmynd sístæðs guðfræðilegs vandamáls, þ.e.a.s. sambands ríkis og kirkju.“[2] Einnig andæfa þau hugmyndum sem settar eru fram í skýrslu nefndar á vegum þingsins um kosti þess og galla að rýmka kosningarétt við fyrrgreindar kosningar.[3] Eru þau mjög gagnrýnin bæði á skýrsluna sjálfa og lögfræðiálit sem henni fylgir. Hér skal brugðist lítið eitt við þeirri gagnrýni.

Misskilningur?

Sá „grundvallarmisskilningur“ sem greinarhöfundar vilja leiðrétta virðist felast í að „[…] með því að skeyta hugtakinu „þjóð“ við hugtakið „kirkju“ [séu] vakin þau hugrenningatengsl að þar með sé verið að leggja að jöfnu þjóð og kirkju.“ Benda þau réttilega á að „[…] svo lengi sem yfir 90% landsmanna áttu aðild að þjóðkirkjunni“ hafi þetta verið sjálfgefið en sé ekki lengur rökrétt eftir að skráðu þjóðkirkjufólki hefur fækkað svo mjög sem raun ber vitni.[4] Raunar virðist óþarft að eyða púðri á þennan „misskilning“ svo fráleitt sem það er við nútímaaðstæður að leggja þjóð og kirkju að jöfnu. Hér má svo bæta þriðja fyrirbærinu við þar sem er ríkið. — Augljóst virðist að hér á landi mynda þjóð, ríki og kirkja ekki lengur þrjár samhverfar heildir. Svo var vissulega fram á 20. öld.

Áður en lengra er haldið er rétt að staldra við þá staðreynd að evangelísk-lúthersku meirihlutakirkjurnar á Norðurlöndunum eru um margt einstæð fyrirbæri á heimsvísu. Allar þróuðust þær allt frá siðaskiptum á 16. öld fram á öldina sem leið í menningar- og trúarlega einsleitum samfélögum í nánu sambandi við ríkisvaldið. Þetta setti óhjákvæmilega mark á þær og mótaði sjálfsmynd þeirra með margvíslegu móti en þó á mismunandi hátt í löndunum fimm. Á þessum tíma nutu þær einnig víðtækra forréttinda umfram önnur trúfélög. Þegar á 20. öldina leið fjaraði hratt undan kirkjunum öllum með aukinni veraldarvæðingu samfélagsins, fjölmenningu og áherslu á trúarlegt hlutleysi ríkisvaldsins.

Nú eiga allar þessar kirkjur dálítið bágt: fjöldi skráðra félaga hefur hríðfallið og samskipti þeirra bæði við viðkomandi þjóðir og ríkisvald hafa orðið mun flóknari og um margt óvinsamlegri en áður var. Þær verða í síauknum mæli að standa á eigin fótum og axla sjálfar fulla ábyrgð á stöðu sinni, stjórn og starfsháttum og í síauknum mæli einnig fjármálum.

Þetta getur að sjálfsögðu verið næsta „frelsandi“ fyrir kirkjurnar. Þær skynja þó ekki alltaf að svo sé og virðast að mörgu leyti vilja halda í hina fornu einingu kirkju og þjóðar. Þetta endurspeglast m.a. í opinberum heitum þeirra. Lúthersku stórkirkjurnar í Noregi og Svíþjóð kynna sig á heimsíðum sínum sem Den Norske kirke og  Svenska kyrkan.[5] Í Danmörku og hér heima eru heitin Folkekirken og Þjóðkirkjan.[6] Í Finnlandi virðist endurskoðun hafa náð lengst í þessu efni en á heimasíðunni kynnir kirkjan sig sem Evangelisk-lutherska kyrkan i Finland.[7] Þetta segir að vísu ekki alla sögu en í öllu falli ber að viðurkenna að uppgjör við fortíðina og smíði nýrrar sjálfsmyndar hlýtur að krefjast bæði langs tíma og mikillar vinnu. Enn hefur ekki náðst að bregðast við þessari breyttu stöðu nema að nokkru leyti hér á landi og því líklegt að skiptra skoðana gæti enn um hríð í ýmsum efnum þótt ekki þurfi endilega að vera um „misskilning“ að ræða.

Hver misskilur hvað og hvernig?

Í ljósi hinnar sérstæðu norrænu kirkjusögu sem imprað var á virðist ljóst að Norðurlandakirkjurnar fimm eru hver um sig fyrirbæri sem skoða verður út frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar eru þær trúfélög, nánar til tekið evangelísk-lútherskar kirkjur, vissulega á örlítið mismunandi vegu.[8] Hins vegar eru þær opinberar stofnanir án þess þó að vera eiginlegar ríkisstofnanir og auk þess bæði söguleg og samfélagsleg fyrirbæri sem taka verður með í reikninginn þegar um þróun norrænnar menningar og samfélaga er að ræða.

Í umræðu um stórkirkjurnar fimm verður að vera mögulegt að fjalla um báðar hliðar eða eðlisþætti þeirra. Það er áhorfsmál hvort höfundar greinanna þriggja um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun séu nægilega meðvituð um þetta. Þau virðast krefjast þess að guðfræðilegt sjónarhorn njóti ætíð forgangs og að alltaf sé fyrst og fremst fjallað um kirkjuna sem trúfélag. Með þessu móti virðast þau gagnrýnin á sögulega, stofnunarlega og félagslega umræðu um kirkjuna og einvörðungu telja guðfræðilega umræðu um hana vera fullgilda. — Þetta viljum við í sjálfu sér ekki kalla misskilning þegar um fræðilega orðræðu er að ræða þótt greinarhöfundarnir þrír setji það orð hins vegar á oddinn.[9] Miklu fremur er hér einhvers konar þröng- eða „einsýni“ á ferðinni.

Á hinn bóginn má vel kalla viðhorf þremenninganna „grundvallarmisskilning“ þegar kemur að lagasetningu og stjórnarskrárákvæðum. Nú á dögum getur trúarlega hlutlaus löggjafi ekki gengið út frá trúarjátningum eða guðfræðilegum sjálfsskilningi trúfélags í lögum og/eða stjórnarskrá jafnvel þótt viðkomandi ákvæði eigi aðeins við um það eitt. Á þetta t.d. við um þjóðkirkjulögin. Þannig væri ríkisvaldið m.a. að blanda sér í innri málefni og umræðu í trúfélaginu þar sem skiptra skoðana og túlkana kann að gæta.

Í ljósi þessa virðist missagt í greinunum um lýðræðið í kirkjunni að ríkisvaldið „skilgreini“ þjóðkirkjuna sem evangelísk-lútherskt trúfélag.[10] Í sögulegu ljósi er miklu fremur raunhæft að líta svo á að ríkisvaldið skyldi þjóðkirkjuna til að vera lútherska eða að ákvæðið um evangelísk-lútherska játningu sé ytri forsenda þeirrar forréttindastöðu sem 62. gr. Stjórnarskrárinnar áskilur þjóðkirkjunni. Árið 1874, þegar þeirri skyldu var létt af landsmönnum að vera evangelísk-lútherskir og fyrsta stig almenns trúfrelsis var innleitt í landinu, voru hinni evangelísk-lúthersku kirkju veitt þau forréttindi sem þjóðkirkjan naut þá og nýtur að sumu leyti enn í dag — ekki vegna þess að kirkjan var lúthersk heldur vegna þess að þjóðin var lúthersk. Í þjóðkirkjuskipaninni fólst það eitt að ríkisvaldið vildi vernda og styðja lútherska trúarhefð alls þorra þjóðarinnar.

Lokaorð

Hér hefur verið brugðist nokkuð við því áliti greinarhöfundanna þriggja að grundvallarmisskilnings sem gæti í umræðum um hlutverk og stöðu kirkjunnar innan samfélagsins. Í komandi grein verður rætt um gagnrýni þeirra á hugmyndir um aukið lýðræði í þjóðkirkjunni sem fram koma í skýrslu nefndar um kosti þess og að rýmka kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups.[11]

Tilvísanir:

[1] Nefndarálit og þingsályktun við skýrslu nefndar um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups. Sótt 21. ág. 2025.

[2] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I. Sótt 25. ág. 2025.

[3] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglan um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups. Sótt 25. ág. 2025.

[4] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I. Sótt 25. ág. 2025.

[5] Sjá: Den norske kirke og Svenska kyrkan.

[6] Sjá: Folkekirken og Þjóðkirkjan.  — Í Danmörku er Den Danske Kirke  líka oft notað sem opinbert heiti.

[7] Sjá: Evangelisk-lutherska kyrkan i Finland.   

[8] Mismunur Norðurlandakirknanna kemur bæði fram í játningagrunni þeirra sem ekki er sameiginlegur í öllum tilvikum, í helgisiðum kirknanna og á ýmsum öðrum sviðum.

[9] Í fyrstu greininni segir þannig: „ Við sem ritum þessa grein teljum reyndar að hugtakið „þjóðkirkja“ ekki aðeins geti heldur eigi ávallt og fyrst og fremst að hafa guðfræðilega merkingu, […]“. Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I. Sótt 22. ág. 2025.

[10] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I. Sótt 22. ág. 2025.

[11] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglan um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups. Sótt 22. ág. 2025.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Hjalti Hugason prófessor emeritus

Stefán Magnússon bóndi í Fagraskógi og kirkjuþingsmaður

Hjalti Hugason og Stefán Magnússon setjast við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og bregðast við greinum þeirra dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, dr. Jóns Ásgeirs Sigurvinssonar og sr. Elínborgar Sturludóttur.

Þessi grein þeirra er sú fyrsta af þremur.

Á dögunum birti Kirkjublaðið þriggja greina flokk eftir þrjá Reykjavíkurpresta um málefni sem nú er að finna á verkefnaskrá kirkjuþings, nánar til tekið breytingar á starfsreglum um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups.[1] Hér er um brýnt viðfangsefni að ræða þar sem málið snýst í raun og veru um „kirkjuna sem lýðræðislega stofnun“ en það er einmitt sameiginleg yfirskrift greinanna þriggja. Þessu framtaki prestanna og ritstjórans ber að fagna en það hlýtur að teljast mikilvægt að mál sem fyrir kirkjuþingi liggja fái mikla og góða umfjöllun bæði á þinginu sjálfu sem og utan þess. Slíkt hlýtur að stuðla að vandaðri málsmeðferð.

Erindi þremenninganna virðist felast í að leiðrétta „grundvallarmisskilning“ sem þau telja að ríki í umræðum um hlutverk og stöðu kirkjunnar innan samfélagsins, misskilning sem er birtingarmynd sístæðs guðfræðilegs vandamáls, þ.e.a.s. sambands ríkis og kirkju.“[2] Einnig andæfa þau hugmyndum sem settar eru fram í skýrslu nefndar á vegum þingsins um kosti þess og galla að rýmka kosningarétt við fyrrgreindar kosningar.[3] Eru þau mjög gagnrýnin bæði á skýrsluna sjálfa og lögfræðiálit sem henni fylgir. Hér skal brugðist lítið eitt við þeirri gagnrýni.

Misskilningur?

Sá „grundvallarmisskilningur“ sem greinarhöfundar vilja leiðrétta virðist felast í að „[…] með því að skeyta hugtakinu „þjóð“ við hugtakið „kirkju“ [séu] vakin þau hugrenningatengsl að þar með sé verið að leggja að jöfnu þjóð og kirkju.“ Benda þau réttilega á að „[…] svo lengi sem yfir 90% landsmanna áttu aðild að þjóðkirkjunni“ hafi þetta verið sjálfgefið en sé ekki lengur rökrétt eftir að skráðu þjóðkirkjufólki hefur fækkað svo mjög sem raun ber vitni.[4] Raunar virðist óþarft að eyða púðri á þennan „misskilning“ svo fráleitt sem það er við nútímaaðstæður að leggja þjóð og kirkju að jöfnu. Hér má svo bæta þriðja fyrirbærinu við þar sem er ríkið. — Augljóst virðist að hér á landi mynda þjóð, ríki og kirkja ekki lengur þrjár samhverfar heildir. Svo var vissulega fram á 20. öld.

Áður en lengra er haldið er rétt að staldra við þá staðreynd að evangelísk-lúthersku meirihlutakirkjurnar á Norðurlöndunum eru um margt einstæð fyrirbæri á heimsvísu. Allar þróuðust þær allt frá siðaskiptum á 16. öld fram á öldina sem leið í menningar- og trúarlega einsleitum samfélögum í nánu sambandi við ríkisvaldið. Þetta setti óhjákvæmilega mark á þær og mótaði sjálfsmynd þeirra með margvíslegu móti en þó á mismunandi hátt í löndunum fimm. Á þessum tíma nutu þær einnig víðtækra forréttinda umfram önnur trúfélög. Þegar á 20. öldina leið fjaraði hratt undan kirkjunum öllum með aukinni veraldarvæðingu samfélagsins, fjölmenningu og áherslu á trúarlegt hlutleysi ríkisvaldsins.

Nú eiga allar þessar kirkjur dálítið bágt: fjöldi skráðra félaga hefur hríðfallið og samskipti þeirra bæði við viðkomandi þjóðir og ríkisvald hafa orðið mun flóknari og um margt óvinsamlegri en áður var. Þær verða í síauknum mæli að standa á eigin fótum og axla sjálfar fulla ábyrgð á stöðu sinni, stjórn og starfsháttum og í síauknum mæli einnig fjármálum.

Þetta getur að sjálfsögðu verið næsta „frelsandi“ fyrir kirkjurnar. Þær skynja þó ekki alltaf að svo sé og virðast að mörgu leyti vilja halda í hina fornu einingu kirkju og þjóðar. Þetta endurspeglast m.a. í opinberum heitum þeirra. Lúthersku stórkirkjurnar í Noregi og Svíþjóð kynna sig á heimsíðum sínum sem Den Norske kirke og  Svenska kyrkan.[5] Í Danmörku og hér heima eru heitin Folkekirken og Þjóðkirkjan.[6] Í Finnlandi virðist endurskoðun hafa náð lengst í þessu efni en á heimasíðunni kynnir kirkjan sig sem Evangelisk-lutherska kyrkan i Finland.[7] Þetta segir að vísu ekki alla sögu en í öllu falli ber að viðurkenna að uppgjör við fortíðina og smíði nýrrar sjálfsmyndar hlýtur að krefjast bæði langs tíma og mikillar vinnu. Enn hefur ekki náðst að bregðast við þessari breyttu stöðu nema að nokkru leyti hér á landi og því líklegt að skiptra skoðana gæti enn um hríð í ýmsum efnum þótt ekki þurfi endilega að vera um „misskilning“ að ræða.

Hver misskilur hvað og hvernig?

Í ljósi hinnar sérstæðu norrænu kirkjusögu sem imprað var á virðist ljóst að Norðurlandakirkjurnar fimm eru hver um sig fyrirbæri sem skoða verður út frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar eru þær trúfélög, nánar til tekið evangelísk-lútherskar kirkjur, vissulega á örlítið mismunandi vegu.[8] Hins vegar eru þær opinberar stofnanir án þess þó að vera eiginlegar ríkisstofnanir og auk þess bæði söguleg og samfélagsleg fyrirbæri sem taka verður með í reikninginn þegar um þróun norrænnar menningar og samfélaga er að ræða.

Í umræðu um stórkirkjurnar fimm verður að vera mögulegt að fjalla um báðar hliðar eða eðlisþætti þeirra. Það er áhorfsmál hvort höfundar greinanna þriggja um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun séu nægilega meðvituð um þetta. Þau virðast krefjast þess að guðfræðilegt sjónarhorn njóti ætíð forgangs og að alltaf sé fyrst og fremst fjallað um kirkjuna sem trúfélag. Með þessu móti virðast þau gagnrýnin á sögulega, stofnunarlega og félagslega umræðu um kirkjuna og einvörðungu telja guðfræðilega umræðu um hana vera fullgilda. — Þetta viljum við í sjálfu sér ekki kalla misskilning þegar um fræðilega orðræðu er að ræða þótt greinarhöfundarnir þrír setji það orð hins vegar á oddinn.[9] Miklu fremur er hér einhvers konar þröng- eða „einsýni“ á ferðinni.

Á hinn bóginn má vel kalla viðhorf þremenninganna „grundvallarmisskilning“ þegar kemur að lagasetningu og stjórnarskrárákvæðum. Nú á dögum getur trúarlega hlutlaus löggjafi ekki gengið út frá trúarjátningum eða guðfræðilegum sjálfsskilningi trúfélags í lögum og/eða stjórnarskrá jafnvel þótt viðkomandi ákvæði eigi aðeins við um það eitt. Á þetta t.d. við um þjóðkirkjulögin. Þannig væri ríkisvaldið m.a. að blanda sér í innri málefni og umræðu í trúfélaginu þar sem skiptra skoðana og túlkana kann að gæta.

Í ljósi þessa virðist missagt í greinunum um lýðræðið í kirkjunni að ríkisvaldið „skilgreini“ þjóðkirkjuna sem evangelísk-lútherskt trúfélag.[10] Í sögulegu ljósi er miklu fremur raunhæft að líta svo á að ríkisvaldið skyldi þjóðkirkjuna til að vera lútherska eða að ákvæðið um evangelísk-lútherska játningu sé ytri forsenda þeirrar forréttindastöðu sem 62. gr. Stjórnarskrárinnar áskilur þjóðkirkjunni. Árið 1874, þegar þeirri skyldu var létt af landsmönnum að vera evangelísk-lútherskir og fyrsta stig almenns trúfrelsis var innleitt í landinu, voru hinni evangelísk-lúthersku kirkju veitt þau forréttindi sem þjóðkirkjan naut þá og nýtur að sumu leyti enn í dag — ekki vegna þess að kirkjan var lúthersk heldur vegna þess að þjóðin var lúthersk. Í þjóðkirkjuskipaninni fólst það eitt að ríkisvaldið vildi vernda og styðja lútherska trúarhefð alls þorra þjóðarinnar.

Lokaorð

Hér hefur verið brugðist nokkuð við því áliti greinarhöfundanna þriggja að grundvallarmisskilnings sem gæti í umræðum um hlutverk og stöðu kirkjunnar innan samfélagsins. Í komandi grein verður rætt um gagnrýni þeirra á hugmyndir um aukið lýðræði í þjóðkirkjunni sem fram koma í skýrslu nefndar um kosti þess og að rýmka kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups.[11]

Tilvísanir:

[1] Nefndarálit og þingsályktun við skýrslu nefndar um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups. Sótt 21. ág. 2025.

[2] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I. Sótt 25. ág. 2025.

[3] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglan um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups. Sótt 25. ág. 2025.

[4] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I. Sótt 25. ág. 2025.

[5] Sjá: Den norske kirke og Svenska kyrkan.

[6] Sjá: Folkekirken og Þjóðkirkjan.  — Í Danmörku er Den Danske Kirke  líka oft notað sem opinbert heiti.

[7] Sjá: Evangelisk-lutherska kyrkan i Finland.   

[8] Mismunur Norðurlandakirknanna kemur bæði fram í játningagrunni þeirra sem ekki er sameiginlegur í öllum tilvikum, í helgisiðum kirknanna og á ýmsum öðrum sviðum.

[9] Í fyrstu greininni segir þannig: „ Við sem ritum þessa grein teljum reyndar að hugtakið „þjóðkirkja“ ekki aðeins geti heldur eigi ávallt og fyrst og fremst að hafa guðfræðilega merkingu, […]“. Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I. Sótt 22. ág. 2025.

[10] Elínborg Sturludóttir, Jón Ásg. Sigurvinsson og Sigurjón Á. Eyjólfsson, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I. Sótt 22. ág. 2025.

[11] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglan um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups. Sótt 22. ág. 2025.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir