Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, er glöggur kirkjurýnir og beittur þegar á því þarf að halda – hann sest við Gestagluggann og ræðir mál sem verið hafa í deiglunni

Í sumar komu í ljós harkalegar afleiðingar nýrra eða breyttra útlendingalaga.[1] Skömmu síðar lýstu nokkur mannúðarsamtök og aðrir lögaðilar yfir áhyggjum af þeirri al­var­legu stöðu sem upp væri komin í mál­efnum fólks á flótta og bentu á að öryggi þess og mann­legri reisn væri stefnt í hættu. Jafnframt hörmuðu þau að ekki hafi verið tekið til­lit til ítrekaðra varnaðar­orða um þessar af­leiðingar nýju laganna. Þá töldu samtökin vafa leika á að fram­kvæmd laganna stæðist mann­réttinda­skuld­bindingar sem ís­lensk stjórn­völd hafa undir­gengist. Loks var skorað á yfir­völd að tryggja öryggi og mann­réttindi hælisleitenda sem synjað hafi verið um vernd og að veita þeim grunnað­stoð. Buðu samtökin upp á samráð og samvinnu í því efni.[2]

Þjóðkirkjan tók þátt!

Það gladdi mig stórlega að þjóðkirkjan, kirkjan mín, tók undir þessa áskorun og það í ólíkum myndum. Biskup undirritaði yfirlýsinguna auk Hjálparstarfs kirkjunnar og presta innflytjenda.[3] Með þessu kom kirkjan ekki fram sem valdastofnun heldur sem virkur þátttakandi í þriðja geira samfélagsins í samstarfi við fjölmörg önnur trúar-, mannúðar-, mannréttinda-, hjálpar- og baráttusamtök. Einmitt á þann máta er líklegast að rödd kirkjunnar heyrist og hún öðlist trúverðugleika í nútímanum.[4] Með þessu sýndi þjóðkirkjan svipmót þátttökukirkju: Kirkju sem tekur þátt í baráttu fyrir betri heimi.

Ekki stóð á að efasemda- og gagnrýnisraddir létu til sín heyra. Skírnir Garðarsson skopaðist að undirskrift biskups þar sem „biskupinn væri ekki samtök“. Sem presti ætti honum þó að vera ljóst að í samhengi sem þessu talar biskup fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Einnig lét hann þá afstöðu í ljós að „biskupinn ætti ekki að blanda sér í pólitík.“[5] Sem guðfræðingur ætti Skírnir að vita að málefni á borð við það sem hér um ræðir er ekki pólitískt í þeirri þröngu merkingu sem það orð hefur í daglegu tali. Málefni hælisleitenda í læstri stöðu er fyrst og fremst samfélagslegs og siðfræðilegs eðlis og í slíkum málum ber þjóðkirkjunni að taka afstöðu.

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður túlkaði áskorunina aftur á móti svo að krafist væri að „lögbrot verði umborin á Íslandi.“[6] Þetta er rangt. Málshefjendur voru þvert á móti að biðja um samtal við ráðamenn um afleiðingar nýju laganna. Mergurinn málsins er að þegar grunur — að ekki sé sagt vissa — vaknar um að mannréttindum eða mannlegri reisn fólks sé stefnt í hættu er það bæði trúarleg og guðfræðileg skylda kirkjunnar að láta frá sér heyra nema því aðeins að gengið sé út frá mjög íhaldssömum og þröngum trúarskilningi. — Í sambandi við rangtúlkun Einars má þó benda á að í guðspjöllunum úir og grúir af sögum sem segja frá því er Kristur braut lög þjóðar sinnar einmitt til að standa vörð um mannlega reisn þeirra sem hafði verið útskúfað. Sú staða getur líka vel komið upp að kirkja hans þurfi að gera slíkt hið sama ef bókstafur eða framkvæmd laga brýtur augljóslega gegn kröfu kærleikans. Það getur hún t.d. gert með því að beita borgaralegri óhlýðni.[7]

Annað andlit

Fyrr í sumar sást móta fyrir öðru andliti þjóðkirkjunnar. Það var í viðtali Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Kristrúnu Heimisdóttur fyrsta varaforseta kirkjuþings. Þar brá fyrir sjónarmiðum hinnar gömlu stofnunarlegu kirkju sem telur að sér sótt í nútímasamfélagi og saknar fyrri forréttinda. Þessi svipur þjóðkirkjunnar birtist því miður allt of oft.  Ekki er líklegt að slík píslarvættisímynd styrki stöðu þjóðkirkjunnar. Í stað þess að horfa reið um öxl væri vænlegra fyrir hana að skyggnast fram á við, meta breytta stöðu sína og laga sig að nýju umhverfi.

Í viðtalinu kom annars fram áhugaverður punktur. Þar segir m.a. að í þjóðkirkjum Norðurlanda séu allir „[…] jafnir gagnvart kirkjunni, það sé ekki fína fólkið sem fái að sitja fremst heldur ríkir jafnræði.“[8] Vera má að þetta sé rétt nú á dögum. Svona var þetta þó ekki langt fram eftir öldinni sem leið. Á þeim tíma átti hvert og eitt sitt vissa sæti í kirkjunni sem einmitt fór eftir efnahag, kyni, hjúskaparstöðu og að nokkru leyti aldri. Það var t.d. einn af hvötum þess að fríkirkja var stofnuð í Reykjavík að almúginn mátti ekki setjast í lokaðar stúkur embættis- og kaupmanna þótt þær stæðu tómar.

Kirkjan var því miður einn af ötulustu vörðum feðraveldis og stéttaskiptingar sem náði út yfir gröf og dauða. Þar var sem sé ekki hending hvar í kirkjugarðinum fólk hlaut leg. Einnig það fór lengi eftir stétt og stöðu. Þetta er sem betur fer liðin tíð. Jafnvel kirkjan varð að beygja sig fyrir lýðrétti og jöfnuði. Þar er mörgu fyrir að þakka þótt „skandínavískur kratismi“ hafi fráleitt haft jafnmikil áhrif hér og annars staðar á Norðurlöndunum meðan lýðræðisvæðing kirkjunnar gekk yfir en í viðtalinu er honum einkum þökkuð breytingin.

Kirkja allra

Raunar er það svo að hinir sýnilegu og virku félagar í  þjóðkirkjunni falla yfirleitt í hóp miðaldra, vel setts fólks úr efri lögum millistéttarinnar. Þetta blasir við hvort heldur sem litið er yfir söfnuðinn í sunnudagsguðsþjónustunni eða kannað hvernig sóknarnefndir eru saman settar. — Þetta á þó vissulega einkum við í þéttbýli. Í sveitum landsins er kirkjan enn sem komið er nær því að vera þverskurður samfélagsins.

Kirkja sem þannig er að lokast inni í ákveðnum samfélagskima verður að hugsa sinn gang og spyrja hvernig hún geti orðið kirkja allra. Það gerir hún best með því að sýna andlit þátttökukirkjunnar og vera trúverðug í baráttunni fyrir betri heimi sem m.a. rúmar fólk á flótta.

Tilvísanir:

[1] Lög um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd) (einkum 8. gr.), althingi.is, sótt 22. ágúst 2023 af https://www.althingi.is/altext/stjt/2023.014.

[2] Oddur Ævar Gunnarsson, „Yfir tuttugu sam­tök lýsa þungum á­hyggjum og boða ráð­herra á fund“, visir.is, sótt 22. ágúst 2023 af https://www.visir.is/g/20232452012d/yfir-tuttugu-samtok-lysa-thungum-ahyggjum-og-boda-radherra-a-fund.

[3] Sama.

[4] Sjá Hjalti Hugason, „Þjóðkirkja á rauðu ljósi“, kirkjubladid.is, sótt 22. ágúst 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/thjodkirkja-a-raudu-ljosi/.

[5] Skírnir Garðarsson, „Um meinta gestrisni biskupsins í Bergstaðabiskupsdæmi“, mannlif.is, sótt 23. ágúst 2023 af https://www.mannlif.is/raddir/pistlar/vardar-umraedu-um-mal-utlendinga-og-adkomu-biskups-ad-fundarbodi/.

[6] Einar S. Hálfdánarson, „Píratar og No borders — bandamenn glæpagengjanna“, Mbl. 22. ágúst 2023, bls. 16.

[7] Sjá t.d. Hjalti Hugason, „Kirkjugrið í Laugarnesi“, kirkjan.is, sótt 23. ágúst 2023 af https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/grein/?itemid=3e85e8b1-2a11-ea11-810a-005056bc594d.

[8] Kolbrún Bergþórsdóttir, „Mennskan er í mikilli vörn“, Mbl. 6. ágúst 2023, bls. 12.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, er glöggur kirkjurýnir og beittur þegar á því þarf að halda – hann sest við Gestagluggann og ræðir mál sem verið hafa í deiglunni

Í sumar komu í ljós harkalegar afleiðingar nýrra eða breyttra útlendingalaga.[1] Skömmu síðar lýstu nokkur mannúðarsamtök og aðrir lögaðilar yfir áhyggjum af þeirri al­var­legu stöðu sem upp væri komin í mál­efnum fólks á flótta og bentu á að öryggi þess og mann­legri reisn væri stefnt í hættu. Jafnframt hörmuðu þau að ekki hafi verið tekið til­lit til ítrekaðra varnaðar­orða um þessar af­leiðingar nýju laganna. Þá töldu samtökin vafa leika á að fram­kvæmd laganna stæðist mann­réttinda­skuld­bindingar sem ís­lensk stjórn­völd hafa undir­gengist. Loks var skorað á yfir­völd að tryggja öryggi og mann­réttindi hælisleitenda sem synjað hafi verið um vernd og að veita þeim grunnað­stoð. Buðu samtökin upp á samráð og samvinnu í því efni.[2]

Þjóðkirkjan tók þátt!

Það gladdi mig stórlega að þjóðkirkjan, kirkjan mín, tók undir þessa áskorun og það í ólíkum myndum. Biskup undirritaði yfirlýsinguna auk Hjálparstarfs kirkjunnar og presta innflytjenda.[3] Með þessu kom kirkjan ekki fram sem valdastofnun heldur sem virkur þátttakandi í þriðja geira samfélagsins í samstarfi við fjölmörg önnur trúar-, mannúðar-, mannréttinda-, hjálpar- og baráttusamtök. Einmitt á þann máta er líklegast að rödd kirkjunnar heyrist og hún öðlist trúverðugleika í nútímanum.[4] Með þessu sýndi þjóðkirkjan svipmót þátttökukirkju: Kirkju sem tekur þátt í baráttu fyrir betri heimi.

Ekki stóð á að efasemda- og gagnrýnisraddir létu til sín heyra. Skírnir Garðarsson skopaðist að undirskrift biskups þar sem „biskupinn væri ekki samtök“. Sem presti ætti honum þó að vera ljóst að í samhengi sem þessu talar biskup fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Einnig lét hann þá afstöðu í ljós að „biskupinn ætti ekki að blanda sér í pólitík.“[5] Sem guðfræðingur ætti Skírnir að vita að málefni á borð við það sem hér um ræðir er ekki pólitískt í þeirri þröngu merkingu sem það orð hefur í daglegu tali. Málefni hælisleitenda í læstri stöðu er fyrst og fremst samfélagslegs og siðfræðilegs eðlis og í slíkum málum ber þjóðkirkjunni að taka afstöðu.

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður túlkaði áskorunina aftur á móti svo að krafist væri að „lögbrot verði umborin á Íslandi.“[6] Þetta er rangt. Málshefjendur voru þvert á móti að biðja um samtal við ráðamenn um afleiðingar nýju laganna. Mergurinn málsins er að þegar grunur — að ekki sé sagt vissa — vaknar um að mannréttindum eða mannlegri reisn fólks sé stefnt í hættu er það bæði trúarleg og guðfræðileg skylda kirkjunnar að láta frá sér heyra nema því aðeins að gengið sé út frá mjög íhaldssömum og þröngum trúarskilningi. — Í sambandi við rangtúlkun Einars má þó benda á að í guðspjöllunum úir og grúir af sögum sem segja frá því er Kristur braut lög þjóðar sinnar einmitt til að standa vörð um mannlega reisn þeirra sem hafði verið útskúfað. Sú staða getur líka vel komið upp að kirkja hans þurfi að gera slíkt hið sama ef bókstafur eða framkvæmd laga brýtur augljóslega gegn kröfu kærleikans. Það getur hún t.d. gert með því að beita borgaralegri óhlýðni.[7]

Annað andlit

Fyrr í sumar sást móta fyrir öðru andliti þjóðkirkjunnar. Það var í viðtali Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Kristrúnu Heimisdóttur fyrsta varaforseta kirkjuþings. Þar brá fyrir sjónarmiðum hinnar gömlu stofnunarlegu kirkju sem telur að sér sótt í nútímasamfélagi og saknar fyrri forréttinda. Þessi svipur þjóðkirkjunnar birtist því miður allt of oft.  Ekki er líklegt að slík píslarvættisímynd styrki stöðu þjóðkirkjunnar. Í stað þess að horfa reið um öxl væri vænlegra fyrir hana að skyggnast fram á við, meta breytta stöðu sína og laga sig að nýju umhverfi.

Í viðtalinu kom annars fram áhugaverður punktur. Þar segir m.a. að í þjóðkirkjum Norðurlanda séu allir „[…] jafnir gagnvart kirkjunni, það sé ekki fína fólkið sem fái að sitja fremst heldur ríkir jafnræði.“[8] Vera má að þetta sé rétt nú á dögum. Svona var þetta þó ekki langt fram eftir öldinni sem leið. Á þeim tíma átti hvert og eitt sitt vissa sæti í kirkjunni sem einmitt fór eftir efnahag, kyni, hjúskaparstöðu og að nokkru leyti aldri. Það var t.d. einn af hvötum þess að fríkirkja var stofnuð í Reykjavík að almúginn mátti ekki setjast í lokaðar stúkur embættis- og kaupmanna þótt þær stæðu tómar.

Kirkjan var því miður einn af ötulustu vörðum feðraveldis og stéttaskiptingar sem náði út yfir gröf og dauða. Þar var sem sé ekki hending hvar í kirkjugarðinum fólk hlaut leg. Einnig það fór lengi eftir stétt og stöðu. Þetta er sem betur fer liðin tíð. Jafnvel kirkjan varð að beygja sig fyrir lýðrétti og jöfnuði. Þar er mörgu fyrir að þakka þótt „skandínavískur kratismi“ hafi fráleitt haft jafnmikil áhrif hér og annars staðar á Norðurlöndunum meðan lýðræðisvæðing kirkjunnar gekk yfir en í viðtalinu er honum einkum þökkuð breytingin.

Kirkja allra

Raunar er það svo að hinir sýnilegu og virku félagar í  þjóðkirkjunni falla yfirleitt í hóp miðaldra, vel setts fólks úr efri lögum millistéttarinnar. Þetta blasir við hvort heldur sem litið er yfir söfnuðinn í sunnudagsguðsþjónustunni eða kannað hvernig sóknarnefndir eru saman settar. — Þetta á þó vissulega einkum við í þéttbýli. Í sveitum landsins er kirkjan enn sem komið er nær því að vera þverskurður samfélagsins.

Kirkja sem þannig er að lokast inni í ákveðnum samfélagskima verður að hugsa sinn gang og spyrja hvernig hún geti orðið kirkja allra. Það gerir hún best með því að sýna andlit þátttökukirkjunnar og vera trúverðug í baráttunni fyrir betri heimi sem m.a. rúmar fólk á flótta.

Tilvísanir:

[1] Lög um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd) (einkum 8. gr.), althingi.is, sótt 22. ágúst 2023 af https://www.althingi.is/altext/stjt/2023.014.

[2] Oddur Ævar Gunnarsson, „Yfir tuttugu sam­tök lýsa þungum á­hyggjum og boða ráð­herra á fund“, visir.is, sótt 22. ágúst 2023 af https://www.visir.is/g/20232452012d/yfir-tuttugu-samtok-lysa-thungum-ahyggjum-og-boda-radherra-a-fund.

[3] Sama.

[4] Sjá Hjalti Hugason, „Þjóðkirkja á rauðu ljósi“, kirkjubladid.is, sótt 22. ágúst 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/thjodkirkja-a-raudu-ljosi/.

[5] Skírnir Garðarsson, „Um meinta gestrisni biskupsins í Bergstaðabiskupsdæmi“, mannlif.is, sótt 23. ágúst 2023 af https://www.mannlif.is/raddir/pistlar/vardar-umraedu-um-mal-utlendinga-og-adkomu-biskups-ad-fundarbodi/.

[6] Einar S. Hálfdánarson, „Píratar og No borders — bandamenn glæpagengjanna“, Mbl. 22. ágúst 2023, bls. 16.

[7] Sjá t.d. Hjalti Hugason, „Kirkjugrið í Laugarnesi“, kirkjan.is, sótt 23. ágúst 2023 af https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/grein/?itemid=3e85e8b1-2a11-ea11-810a-005056bc594d.

[8] Kolbrún Bergþórsdóttir, „Mennskan er í mikilli vörn“, Mbl. 6. ágúst 2023, bls. 12.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir