Gunnar Jóhannesson er fæddur árið 1977. Hann lauk embættisprófi frá Guðfræðideild Háskóla Íslands árið 2002 og meistaranámi í trúarheimspeki frá sama skóla árið 2010. Gunnar tók prestsvígslu árið 2004 og þjónaði Hofsóss- og Hólaprestakalli fram til ársins 2013. Frá 2013-2014 þjónaði hann í afleysingum sem héraðsprestur í Kjalarnesprestakalli. Árið 2014 hélt Gunnar utan til Noregs þar sem hann þjónaði næstu fjögur árin sem sóknarprestur í Ringebu í Suður-Guðbrandsdalsprófastsdæmi í Hamarsbiskupsdæmi. Heimkomin tók Gunnar við sóknarprestsstöðu í Hveragerði í afleysingum. Í mars árið 2019 var Gunnar ráðinn prestur við Selfossprestakall sem nú er sameinað Árborgarprestakall og starfar þar í dag.
Persónulegan Guð!? „Nei takk fyrir!“
Þverrandi og breytt guðstrú íslensks samfélags
Færri trúa víst á persónulegan Guð nú en áður var, eða 25 af hundraði. Það er í öllu falli niðurstaða könnunar sem gerð var fyrir nokkru. Um var að ræða könnun á þjóðtrú og trú Íslendinga sem Terry Gunnell prófessor emeritus í þjóðfræði við Háskóla Íslands lét gera á síðasta ári.
Það er spurning hvort sú niðurstaða fari nærri hinu rétt. Ég efa ekki að niðurstaða þessi sé til marks um og árétti miklar breytingar og hreyfingar á trúarviðhorfum fólk sem átt hafa sér stað. Trúarviðhorf breytast og hafa breyst undanfarna áratugi hér á landi sem annars staðar, ekki síst þegar horft er til hins vestræna heims. Guðleysi er heilt yfir mikið minnihlutaviðhorf á heimsvísu en skilin eru almennt skarpari nú en áður, á milli þeirra sem trúa á Guð og hinna sem efast um eða hafna tilvist Guðs.
Það eru vafalaust ýmsar ástæður fyrir því að íslenskt samfélag virðist í vaxandi mæli hafa týnt Guði (eða í öllu falli hinni hefðbundnu kristnu guðsmynd sem fylgt hefur íslenskri þjóð svo að segja frá upphafi). Einn augljós þáttur sem breytir myndinni frá því sem áður var er breytt samfélagsgerð og fjölbreyttari samfélagshópar. En burtséð frá því hefur náttúruhyggja og meðfylgjandi guðleysi farið vaxandi undanfarna áratugi og virðist eiga greiðari leið að fólki í dag en áður. Hluti af þessari mynd er líka vaxandi tómlæti í garð trúariðkunar og trúar almennt sem fylgir ekki síst yngri kynslóðum enda er trúararfinum ekki lengur miðlað á milli kynslóða líkt og áður var.
Það má spyrja sig hvað leiðir til þess að fólk tileinkar sér guðleysi eða efahyggju. Of langt mál væri að svara þeirri spurningu hér. Þar spila inn í margskonar þættir, rökrænir og órökrænir, þekkingarfræðilegir og tilfinningalegir. Ef til vill telur fólk ekkert benda til tilvistar Guðs og að þau rök sem teflt er fram fyrir tilvist hans haldi hvorki vandi né vind. Kannski hefur fólk slæma reynslu af trúarbrögðum og trúarlegum stofnunum af einni eða annarri ástæðu eða trúuðu fólki. Ef til vill er fólki einfaldlega alveg sama á hvorn veginn sem er. Á þessu eru margar hliðar og margt sem spilar hér inn í og hefur áhrif.
Þótt enn megi segja að íslenskt samfélag standi sögulega og menningarlega á grunni kristinnar trúar og gilda er þó vart lengur með réttu hægt að tala um íslenskt samfélag sem kristið samfélag án þess að spyrja hvað sé nákvæmlega átt við með þeirri staðhæfingu sem og hugtakinu „kristið“. En þá er líka hætt við því að skoðanir fólks á því hvað sé kristið og hvað það felur í sér séu orðnar svo fjölbreyttar og ólíkar að spurningin missir einfaldlega merkingu sína.
Þótt kannanir séu ágæt vísbending um stöðu mála verður sjaldan alhæft um eitthvað á grundvelli þeirra. Ýmsar kannir hafa verið gerðar í gegnum tíðina þar sem þreifað er á trúarviðhorfum fólks og allar gefa þær einhverja mynd af þeim aðstæðum sem fyrir hendi eru. Nefna má sem dæmi aðra spurningakönnun sem Maskína gerði í tilefni að stjórnmálaumræðum í áramótaþættinum Kryddsíldin í lok síðasta árs. Þar var m.a. spurt: „Trúir þú á guð eða trúir þú ekki á guð?“ Þar kom fram að rúmlega 51 prósent trúir á „guð“. En hvað hugtakið „guð“ þýðir í samhengi spurningarinnar eða svaranna sem fengust er ómögulegt að segja og þar af leiðandi hvaða ályktanir má draga af þeim.
Sennilega lýsir orðið „heiðið“ um margt betur trúarviðhorfum margra Íslendinga í dag en orðið „kristið“ – í þeim skilningi að minnsta kosti að sú trú sem margir eru tilbúnir að gangast við virðist eiga æ minni samleið með klassískri og sögulega réttri kristinni trú eins og hana má lesa af síðum Nýja testamentisins. Fólk trúir margt hvert á einhvern „lífskraft“ eða einhverskonar „frumafl“, „æðri mátt“ eða „æðri máttarvöld“ og jafnvel svokallað „sumarland“ einhvers staðar í fjarskanum. En atburðir jóla og páska koma þeirri trú minna við nú en áður og virðist þvælast fyrir mörgum. Fólk heldur ef til vill í kristna trú sem einhvers konar gildisgrunn (án þess að leiða hugann sérstaklega að því) en án tengsla við lifandi kristna trú sem gefi sanna lýsingu á eðli veruleikans.
Ég velti þessu fyrir mér ekki fyrir löngu þar sem ég sat í skírnarveislu á fallegu heimili eftir að hafa skírt og signt yfir litla bjartleita stúlku. Þar spunnust við borðið óvanalegar og áhugaverðar samræður um trú og lífsviðhorf – einmitt í tilefni af áðurnefndri könnun. Fólk var forvitið að heyra hvað prestinum þætti um þetta allt og ekki síst um þverrandi trú fólks. „Hvað ætlar kirkjan að gera núna?!“ var spurt, eins og svo oft áður.
Einkum voru það tveir einstaklingar sem ræddu þar um trúarviðhorf sín og tóku fram að trú sín væri þeim mikilvæg og að þau væru sannarlega trúuð. En heyra mátti að í hugum þeirra snerist sú trú öll um „kærleikann“ og það að „vera góður“ (sem að þeirra mati væri hinn sameiginlegi og sameinandi boðskapur og þráður allra trúarbragða!). Það var sum sé lýsandi fyrir innihald trúarinnar eins og þau skildu hana og umgengust. Mundi kirkjan, sögðu þau, ná miklu betur til fólks ef hún legði áherslu á það og drægi úr (eða sleppti helst alveg) þessu tali um komu Guðs í heiminn og einhverja upprisu Jesú frá dauðum. Ég sagði eitthvað á þá leið að trú væri alls ekki skilyrði fyrir góðvild eða siðferðilega góðri breytni (þ.e. fyrir því að „vera góður“). En burtséð frá því staðsetti fólk sig í þessum efnum þar sem það vildi og gæti að sjálfsögðu tekið Jesú og hvað sem það vildi út fyrir sviga. En þá stæði það eftir með eitthvað sem ekki væri kristin trú og gæti aldrei verið kristin trú. Og með því mundi líka innihald hinnar fallegu skírnarathafnar sem við höfðum átt saman gufa upp. Þau jánkuðu því.
Í raun raknar allt kristið í kristinni trú upp þegar búið er að koma Guði fyrir utan við svigann, að ég nefni ekki Jesú sjálfan. Þá er það líka til marks um býsna yfirborðskennda þekkingu á trúarbrögðum að fella þau öll undir þá lýsingu að þau snúist eingöngu um kærleika og siðræna breytni eða það eitt að vera góður. Svo er ekki þegar að er gáð og kjarnaboðskapur kristinnar trúar er ekki fólginn í því (þótt kristin trú geri vitaskuld siðferðilegar kröfur til okkar). Slíkt viðhorf – sem ég efast ekki um að lýsi lífsskoðun mjög margra á Íslandi í dag – er rangtúlkun eða misskilningur og umfram allt afsprengi vestrænnar afstæðishyggju. En dýpra ristir „guðstrú“ ekki í hugum margra í dag og kristallast sú afstaða gjarnan í staðhæfingu á borð við: „Guð er hið góða í manninum!“
Persónulegur Guð eða ópersónulegur guð/guðir
Aftur að áðurnefndri könnun. Samkvæmt henni telja 25 af hverjum hundrað að til sé kærleiksríkur Guð sem við getum beðið til, þ.e.a.s. persónulegur Guð. Það var fyrsta spurning könnunarinnar eða fyrsta staðhæfingin sem fólki var boðið að taka afstöðu til í könnuninni. Það er umtalsverð fækkun frá fyrri könnun sem sýndi árið 2006 að 45 prósent svöruðu því til að þau trúðu á kærleiksríkan Guð sem hægt sé að biðja til. Samkvæmt þessu trúa 75 af hundraði ekki á persónulegan Guð. Sá hópur hefur annað hvort frábrugðin skilning á Guði eða trúa ekki á tilvist Guðs eða efast um hana.
Óháð því hvað okkur finnst um þessar tölur er eðlilegt að spyrja: Hvað er persónulegur Guð? Nú er ekki gott að vita hvaða merkingu það hugtak hefur fyrir fólki. Ef einhver spyrði mig hvort ég tryði á persónulegan Guð mundi ég vilja vita hvað viðkomandi á við með „persónulegur“. Nú var hugtakið persónulegur ekki notað um Guð í könnuninni heldur var þar staðhæft „Til er kærleiksríkur Guð sem við getum beðið til!“. En þessi fyrsta spurning könnunarinnar snýst engu að síður um persónulegan Guð – því ef Guð er til og er kærleiksríkur og heyrir bænir er hann í öllu falli persónulegur.
Í guðfræðilegum og heimspekilegum skilningi merkir hugtakið „persónulegur“, þegar það er notað um Guð, alls ekki „Guð eins og ég skil hann“ eða „Guð eins og ég sé hann“ eða „sá Guð sem ég trúi á“ heldur snýr það að því hvers eðlis Guð er í sjálfum sér, m.ö.o. hver Guð er en ekki hvernig ég upplifi Guð eða mínar hugmyndir um Guð. Og sé Guð til þá er hann annað hvort persónulegur eða ópersónulegur, þ.e. í sjálfum sér, sem vera.
Persónulegur Guð er í stuttu máli Guð sem hægt er að tengjast og upplifa sem persónu ólíkt ópersónulegum guðlegum mætti á borð við hið „Eina“ eða „Algjöra“ (eins og hið guðlega er umgengist t.d. í algyðistrúarbrögðum). Kristin trú býður einmitt upp á slíkan Guð, persónulegan Guð. Guð sem er persóna! (Reyndar býður kristin trú upp á meira en það þar sem Guð kristinnar trúar hefur ekki bara að geyma eina persónu heldur þrjár: Föðurinn, Soninn og Andann. Og meira en það! Guð kristinnar trúar er Guð sem kemur sjálfur inn í heiminn, stígur inn á svið sögunnar og gerist þátttakandi á vettvangi hennar, verður fyrir áhrifum af henni og hefur áhrif á hana. Guð verður vart mikið persónulegri en það.)
Persónulegur Guð er sum sé Guð sem inniheldur eða hefur að geyma „Ég“, þ.e.a.s. sjálfsvitund. Persónulegur Guð er því Guð sem upplifir sjálfan sig, veit af sjálfum sér og þekkir sjálfan sig. Hann er Guð sem hugsar, hefur vit og vilja, langanir, fyrirætlanir og ásetning og lætur til sín taka. Í því felst að vera persóna. Persónulegur Guð er líka Guð sem sýnir frumkvæði, aðhefst og stígur fram. Hann er Guð sem lætur sig líf þitt varða að fyrra bragði. (Hann er auðvitað sá sem skapaði þig þegar allt kemur til alls og orsakaði tilvist þína, samkvæmt kristinni trú.) Hver þú ert, hvað þú hugsar, hvað þú segir og gerir, hvert þú stefnir, skiptir hann máli. Persónulegur Guð er Guð sem ávarpar þig og hlustar á þig. Hann er um leið Guð sem gerir kröfur til þín og ætlast til einhvers af þér.
Ópersónulegur guð er andstæða alls þessa! Hann er einfaldlega ópersónulegt „það“ sem einungis er hægt að lýsa í ljósi þess sem hann er ekki. Hinn ópersónulegi guð (á borð við þann guð eða guði sem algyðistrúarbrögð bjóða upp á), er hinn óskilgreinanlegi og fjarverandi lífskraftur og æðri máttur (sem mörgum er svo tamt að hafa í taumi) sem gerir ekkert og aðhefst ekkert af eigin völdum. Hann er eins og hyldjúpt haf sem bærir ekki á sér, kaldur og þungur, og bíður þess að gleypa þig. (Þannig er nirvana, hjálpræðisástand hindúa og búddista, fólgið í því að renna saman við hið „eina“ og í raun að hverfa og verða þar að engu – enda merkir nirvana á sanskrít „eyðingu“ einstaklingsins og þess sem gerði hann að einstaklingi. Hann einfaldlega lognast út af og verður að engu eins og logi sem brennur út.)
Hinn ópersónulegi guð er á eilífri sjálfstýringu má segja. Allt einhvern veginn flæðir frá honum stjórnlaust og án ásetnings eða tilgangs. Hann gerir ekkert af því að hann ætlar að gera það. Hann hefur hvorki vit né vilja, sýnir ekki frumkvæði og hugsar ekki. Hann krefst því einskis af þér, lætur sig ekki varða um þig. Hann leitar þín ekki og talar ekki til þín. (Þess vegna iðkar fólk sem trúir á ópersónulegan guð (eða aðhyllist stefnur og hugmyndafræði sem eiga rætur í algyðistrúarbrögðum) innhverfa íhugun. Það biður ekki bæn því bæn er eitthvað sem leitar út á við og byggir á tengslum við, og beinist að, veruleika handan þess sem biður, sem ekki er í boði við ópersónulegan guð).
Hinn ópersónulegi guð er þarna ef þú vilt, eins og rykfallin bók í hillunni, eða skipun á lyklaborðinu (og þannig umgangast reyndar margir Guð kristinnar trúar). En hann lætur þig ekki vita af sér, hann leitar þig ekki uppi. Þú getur lifað lífi þínu eins og þú vilt og eins og þér hentar og hann mun ekki trufla þig eða raska þér á nokkurn einasta hátt. Þú getur lifað lífinu rétt eins og hann væri ekki til. Að þessu leyti er hinn ópersónulegi guð þægilegur guð, hlýðinn guð, guð eins og þú vilt að hann sé – og í raun og veru, þegar allt kemur til alls, sennilega líkari þér en sjálfum sér.
Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að þess háttar „guð“ henti mörgum nútímamanninum betur en hinn persónulegi Guð kristinnar trúar. Ef þú vilt þægilegan, leiðitaman, fyrirferðarlítinn Guð sem krefst lítils af þér og þvælist ekki fyrir þér, Guð sem þú getur haft í vasanum svo að segja, þá er kristin trú ekki heppilegur kostur. Persónulegur Guð kristinnar trúar fellur líka illa að þeim ismum og trúarjátningum sem mikið fer fyrir í nútíma vestrænu samfélagi. Þær snúast að miklu leyti um manninn sjálfan, um getu hans, vit, stöðu og sjálfræði. Enda er sennilega fátt sem mótar lífsskoðun nútímamannsins jafn mikið (eða gerir kröfu til þess) og sú vísindahyggja, efahyggja, einstaklingshyggja og afstæðishyggja sem gera manninn sjálfan að æðsta og hinsta mælikvarða alls sem er og sjá ekkert handan hins lífvana efnis og náttúruaflanna sem stýra því. Og það má spyrja sig hvort það verði manninum ekki endanlega að falli í þessum heimi sem er nú meira eða minna rjúkandi rúst af hans eigin mikilfenglegu völdum.
Í öllu falli er ekki að undra að ópersónulegur guð sé álitinn góður og gildur og skori hátt í skoðanakönnunum. Huglægur Guð fegurðar, sannleika og góðvildar, innan í okkur sjálfum, er vafalaust enn betri í augum margra. En sennilega er það hið formlausa lífsafl, hinn æðri máttur, sem líður um okkur öll og við getum dregið af þegar okkur hentar og á okkar forsendum, sem passar nútímamanninum best þegar á allt er litið. En Guð sjálfur, hlutlægur, raunverulegur, lifandi, hugsandi og skapandi, talandi, leitandi, hvetjandi og krefjandi, með höndina á hinum enda þráðarins, togandi okkur til sín, – það er allt annað mál, og virðist meira en margir geta sætta sig við í dag eða þolað.
Persónulegur Guð er skynsamlegri niðurstaða en hinn ópersónulegi guð!
Vissulega eru margir kraftar að verki þegar kemur að því hvernig fólk stillir af trúarleg viðhorf sín og lífsskoðun á leið sinni í gegnum lífið. Lífsskoðun okkar er í raun fólgin í túlkun og skilningi okkar á eigin skynjun, upplifun og reynslu af lífinu og tilverunni og hún svarar hinum stóru og áleitnu spurningum sem tilvistin kallar fram hjá okkur öllum: Af hverju er eitthvað til fremur en ekkert? Hvaðan er tilvistin komin og af hverju? Hver er tilgangur lífsins? Hefur lífið gildi í sjálfu sér eða markmið? Hvert er gildi okkar sjálfra? Hvernig ber okkur að lifa lífinu? Hvað bíður okkar og alheimsins? Hver verða örlög okkar?
Lífsskoðun hvers og eins er þannig fólgin í því hvernig við komum reynslu okkar og upplifun af lífinu heim og saman og túlkum hana. Lífsskoðun er því viss máti til að horfa á lífið og stöðu okkar innan þess – hinn frumspekilegi útsýnisstaður sem við komum okkur fyrir á má segja. Til eru ýmsar tegundir lífsskoðana en allar grundvallast þær annað hvort á guðstrú af einhverju tagi eða guðleysi. Það er hinn frumspekilegi grunnur eða staðhæfing sem lífsskoðunin er reist á og við skuldbindum okkar (svo lengi sem við höldum í lífsskoðunina).
Ekkert eitt hefur úrslitaáhrif á það hvaða frumspekilega sjónarhorn við veljum okkur á lífið. Um er að ræða samspil margra þátta sem ýmist eru á okkar valdi eða handan þess. Margskonar reynsla á lífsins leið spilar hlutverk og hefur mótandi áhrif á það hvar við staðsetjum okkur í þessum efnum, m.a. staður og stund, kynni af fólki, áhrif frá stefnum og straumum, tilfinningar, þekking og rök, svo eitthvað sé nefnt. Og þegar allt kemur til alls okkar eigin vilji og val.
En af hverju eiga æ fleiri erfitt með að upplifa Guð sem persónulega veru, þ.e. þeir sem á annað borð fallast á tilvist Guðs? Það má koma að þeirri spurningu úr ólíkum áttum. Ég ýjaði að nokkrum ismum hér að ofan sem gætu gert persónulegan Guð óaðgengilegan fyrir fólki eða að fyrirstöðu sem ryðja þurfi úr vegi. Hann gæti nefnilega vegið óþægilega nærri sjálfræði okkar og vilja til að lifa lífinu eftir eigin höfði.
Ein góð leið til að hugsa um þessa spurningu er einfaldlega hin skynsamlega og lógíska nálgun: Ef til er Guð, sem ábyrgur er fyrir tilkomu tilverunnar, þ.e. tilvist þessa efnislega og náttúrulega veruleika, þá er afar sennilegt að hann sé persónulegur í þeim skilningi sem rætt var um hér að ofan.
Hvað á ég við með því? Jú, ef Guð skapaði, eða leiddi fram, eða orsakaði (hvernig sem það er orðað) tilvist tíma, rúms, efnis og orku, þ.e. tilkomu alheimsins, sem þar á undan var alls ekki til, þá er hreint ekki óskynsamlegt að ætla að vilji og vit, ásetningur og fyrirætlun, spili þar hlutverk. Og það eru eiginleikar sem ópersónulegur guð býr alls ekki yfir. Einungis persónulegur Guð, þ.e. Guð sem er persóna, býr yfir slíkum eiginleikum.
Nú standa margir í þeirri trú að það sé einfaldlega ekkert sem bendi til tilvistar Guðs yfir höfuð (ópersónulegs eða ekki) og að engin haldbær rök séu til sem leiði líkum að því að til sé Guð eða einhver yfirnáttúrulegur veruleiki. Það er hins vegar rangt. Til eru margskonar áleitnar röksemdarfærslur sem eindregið benda í þá átt að tilvist Guðs sé sennilegri en ekki og sýna um leið að það eru alls engin svik við skynsamlega hugsun og vísindalega þekkingu að ganga út frá tilvist hans. Hvað guðleysingjanum finnst um þau rök og hvernig hann vegur þau og metur og mælir gegn þeim, forsendum þeirra og niðurstöðu, er annað og áhugavert mál.
Nú er ekki ætlunin að ræða hér sérstaklega rök fyrir tilvist Guðs, en í samhengi við spurninguna um persónulegan eða ópersónulegan Guð þá er hjálplegt að leiða hugann að einni tiltekinni röksemdarfærslu – heimsfræðirökunum.
Heimsfræðirökin eru ein umtalaðasta röksemdarfærslan fyrir tilvist Guðs í dag og benda eindregið í áttina til persónulegs Guðs (eins og raunar ýmsar aðrar röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs, m.a. siðferðisrökin og hönnunarrökin).
Heimsfræðirökin eru einföld að forminu til og byggja á tveimur forsendum:
(1) Allt sem verður til á sér orsök! (þ.e. ekkert verður til af engu.)
(2) Alheimurinn varð til! (þ.e. alheimurinn hefur ekki alltaf verið til, hann er ekki eilífur, heldur á sér upphaf.)
Af þessum forsendum leiðir nauðsynlega og óhjákvæmilega niðurstöðuna
(3) Alheimurinn á sér orsök! (M.ö.o. er til eitthvað allt annað handan alheimsins, eða utan og ofan náttúrunnar, eitthvað sem alltaf hefur verið til og er ástæða þess að allt annað er orðið til.)
Hvað forsendurnar varðar getum við látið duga að segja hér að þær eru í öllu falli mun sennilegri en andstæður þeirra. Fyrri forsendan virðist raunar auðsjáanlega og nauðsynlega sönn og felur líka í sér grundvöll eða meginreglu allrar skynsamlegrar og vísindalegrar hugsunar. Aðra forsenduna má styðja í senn heimspekilega, með rökum gegn tilvist óendanlegrar fortíðar (eða óendanlegrar raðar augnablika eða atburða), sem og vísindalega á grundvelli upphafs alheimsins í Miklahvelli.
Um þetta mætti fjalla í mun lengra og ítarlegra máli. En í ljósi þess að við höfum afar góðar ástæður til að ætla að forsendur heimsfræðirakanna séu sannar blasir niðurstaðan óhjákvæmilega við: Alheimurinn – þ.e. allur hinn náttúrulegi veruleiki tíma og rúms, efnis, orku og náttúrulögmála – á sér orsök. Hann hefur ekki alltaf verið til. Eitthvað allt annað er til, utan og ofan við alheiminn eða hinn efnislega og náttúrulega veruleika, og er það jafnframt orsökin eða ástæðan fyrir tilvist hans. Það er ekki veigalítil niðurstaða.
Með því að greina hugtakið orsök í þessu samhengi má leiða í ljós afar áleitna og íhugunarverða eiginleika sem þessi vera hlýtur að búa yfir. Sem orsök tíma og rúms hlýtur hún að vera til utan og ofan við tíma og rúm og tilvist hennar þar með ekki bundin af tíma og rúmi (að minnsta kosti ekki fyrir tilkomu alheimsins). Þessi yfirnáttúrulega vera hlýtur því að vera óbreytanleg og óefnisleg (þar sem tímaleysi felur í sér óbreytanlega og óbreytanleiki felur í sér óefnisleika). Vera af þessu tagi hlýtur jafnframt sjálf að vera til eða eiga sér tilvist án upphafs og orsakar – og vera þar með eilíf. Enn fremur má ætla að um eina veru sé að ræða því ekki þarf að gera ráð fyrir fleiri orsökum en þörf er á til að útskýra afleiðinguna. Þá er óhætt að segja að þessi vera, sem skapaði alheiminn úr engu (að minnsta kosti án fyrirliggjandi efniviðs), sé máttugri en við getum ímyndað okkur, ef ekki almáttug.
En hvað hefur þetta með persónulegan Guð að gera? Jú, í þessu ljósi getum við líka sagt að þessi óviðjafnanlega vera er að líkindum persónuleg vera (þ.e.a.s. vera sem býr yfir vitund, vilja, hugsun, ásetningi o.s.frv.). Í ljósi þess að alheimurinn á sér upphaf má nefnilega slá því föstu að tilvist hans er ekki nauðsynleg. Hann hefði ekki þurft að verða til (hann hefur jú ekki alltaf verið til). Og því er ekki fráleitt að ætla að á bak við tilkomu hans liggi ásetningur og vilji þess sem orsakaði hann eða skapaði.
Það má hugsa þetta út frá ólíkum tegundum orsakasamhengis. Þegar um er að ræða atburður/atburður orsakasamhengi þá orsakar einn atburður annan atburð. Tökum sem dæmi stein sem kastað er í rúðu og veldur því að rúðan brotnar. Slíkt orsakasamhengi felur augljóslega í sér upphaf orsakarinnar í tíma þar sem um er að ræða orsakasamhengi á milli atburða sem eiga sér stað á tilgreindum tíma. Í ástand/ástand orsakasamhengi orsaka hins vegar tilteknar aðstæður eða tiltekið ástand tilvist annars ástands. Til dæmis orsakar þéttleiki vatns að timbrið flýtur á vatninu. Einnig getum við séð fyrir okkur þunga kúlu sem hvílir á mjúkum púða og orsakar dæld í púðanum. Í þesskonar orsakasamhengi þarf afleiðingin ekki endilega að eiga sér upphaf. Fræðilega séð gæti timbrið hafa flotið á vatninu, eða kúlan legið á koddanum, um alla eilífð.
Vandinn í sambandi við orsökina á bak við upphaf eða tilkomu alheimsins er hins vegar fólginn í því að þar virðist orsakasamhengið vera ástand/atburður, eins sérkennilegt og það er. Það er að segja, orsökin felur í sér, eða einfaldlega er, eilíft ástand en afleiðingin er atburður sem á sér stað á tilteknu augnabliki í fortíðinni. Slíkt orsakasamhengi virðist ekki ganga upp. Það er illskiljanlegt í ljósi þess að fyrir hendi er ástand sem nægir að öllu leyti til að leiða fram afleiðingu sína og ætti því að leiða til afleiðingar sem jafnframt er ástand.
Við getum orðað þetta með öðrum hætti: Ef það orsakaskilyrði sem verður að vera fyrir hendi svo alheimurinn geti orðið til hefur alltaf verið til, þ.e. um alla eilífð, eða með öðrum orðum, ef þær aðstæður eða ástand sem felur í sér skilyrði þess að alheiminn geti raungerst hafi alltaf verið fyrir hendi, þá ætti alheimurinn einnig að hafa verið til um alla eilífð. Orsökin ætti þá ekki að geta verið til án afleiðingar sinnar. Með öðrum orðum ætti afleiðingin að vera „jafn eilíf“, ef svo má segja, og orsökin. En sú er augljóslega ekki raunin.
Eina leiðin út úr þeirri klemmu er að segja eða líta svo á að orsökin á bak við upphaf alheimsins sé persónulegur orsakavaldur (ekki ástand eða atburður) sem ákvað í krafti síns frjálsa vilja að skapa alheim í tíma. Hér er um að ræða tegund af orsök sem er persónuleg. Og þar sem orsakavaldurinn er frjáls getur hann orsakað nýjar afleiðingar með því að sjá fyrir aðstæðum sem ekki voru fyrir hendi áður.
Þetta blasir líka við þegar horft er til þess að til eru tvær tegundir útskýringa, annars vegar vísindaleg (sem byggir á forsendum náttúrulögmála og fyrirliggjandi efnislegra aðstæðna sem leiða af sér aðrar efnislegar aðstæður) og hins vegar persónuleg (sem grundvallast vilja persónulegs orsakavalds og vilja og ásetnings hans).
Við grípum til persónulegra útskýringa á hverjum degi. Ef spurt er „hvers vegna er vatnið að sjóða?“ þá er það fullkomlega gild vísindaleg útskýring að segja eitthvað á þá leið að þegar vatn sýður þá flyst varmaorkan frá hitagjafanum (hellunni) yfir í pottinn og þaðan til vatnssameindanna. Við það byrja vatnssameindirnar að hreyfa sig hraðar og þeim mun hraðar eftir sem orkan vex. Að lokum er orka vatnssameindanna orðin meiri en svo að þær geta haldist tengdar í vökvaformi. Þegar það gerist breytir vatnið um ham, vatnssameindirnar myndar gufu sem flýtur upp á yfirborðið í formi loftbóla og losnar út í andrúmsloftið. Þess vegna sýður vatnið. En til er önnur útskýring, af persónulegum toga: Hvers vegna sýður vatnið? Jú, vegna þess að ég ætla að fá mér te! Þessi tvö svör eru fyllilega gild, hvort á sinn hátt og taka ekkert hvort frá öðru. Í raun gefa þær í sameiningu heildarskýringu á því að vatnið sýður.
Það blasir við að upphafsástand alheimsins getur ekki, eðli málsins samkvæmt, átt sér vísindalega útskýringu. Ástæðan er sú að á undan tilkomu alheimsins voru einfaldlega engin náttúrulögmál og engar fyrirliggjandi efnislegar aðstæður (hvort tveggja kom til sögunnar með alheiminum) sem bjóða upp á vísindalega skýringu. Eina útskýringin á tilkomu alheimsins sem er í boði er því hin persónulega.
Í þessu samhengi eru ummæli Charles Townes nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði athyglisverð. Hann sagði að spurningunni um uppruna yrði ekki svarað út frá vísindalegu sjónarhorni heldur væri þörf á frumspekilegri útskýringu á borð við Guð. Á bak við slík ummæli liggur það viðhorf að vísindi eru takmörkuð af viðfangsefni sínu. Vísindi geta ekki útskýrt neitt nema tími, rúm og efni séu þegar til staðar, þ.e. fyrirbæri sem unnt er útskýra í vísindalegum skilningi. Náttúrulögmálin stýra hegðun hluta og fyrirbæra í tíma og rúmi. Af þeirri ástæðu geta vísindi ekki útskýrt tilvist þess sem verður að vera til áður en vísindi geta útskýrt nokkuð yfirleitt. Með öðrum orðum er ekki unnt að útskýra tilvist orsakakeðjunnar sem slíkrar (alheimsins) á sömu forsendum og við útskýrum einstaka hluti í eða innan orsakakeðjunnar sjálfrar. Það verður að leita út fyrir hana.
Og þá er skynsamlegt að grípa til persónulegrar útskýringar þar sem vísað er til persónulegs orsakavalds sem í krafti vilja síns og ásetnings kemur einhverju nýju til leiðar án þess að þurfa að reiða sig á önnur og undanfarandi skilyrði eða orsakir – rétt eins og maður sem ákveður að lyfta upp höndinni í krafti síns frjálsa vilja án þess að vera knúinn eða skilyrtur fyrir fram af einhverju öðru.
Með þetta í huga er það síður en svo óskynsamleg útskýring á tilkomu alheimsins að hann sé afleiðing óefnislegs og vitræns orsakavalds utan tíma og rúms. Það þýðir að sá skapari sem er á bak við tilkomu alheimsins er persónulegur Guð en ekki einhvers konar ópersónulegt frumafl eða æðri máttur sem hvorki hugsar né veit af sjálfum sér.
Aðrar spurningar könnunarinnar
Áður en kemur að lokapunktinum er áhugavert að leiða hugann aðeins að öðrum spurningum könnunarinnar. Næsta spurning (eða staðhæfing) könnunarinnar á eftir þeirri um „persónulegan Guð“ var þessi: „Það er ekki til neinn annar guð en sá sem manneskjan sjálf hefur búið til.“ 33% svara þeirri spurningu játandi.
Sá sem svarar þessu játandi staðhæfir um leið að guðleysi sé sönn lýsing á eðli veruleikans eða svari til þess hvernig veruleikanum er háttað í raun og veru. Með öðrum orðum á Guð (eða hið yfirnáttúrulega) sér ekki hlutlæga tilvist (nema í huga mannsins). Um leið er því slegið föstu að náttúruhyggja sé sönn, þ.e. að hinn efnislegi og náttúrulegi veruleiki (alheimurinn) sé tæmandi lýsing á því sem til er – sem röklega jafngildir því að staðhæfa að Guð sé ekki til (eða nokkuð yfirnáttúrulegt). Hér er um frumspekilega staðhæfingu að ræða sem fólk velur að gangast við og trúa. En hún er ekki og verður ekki sjálfkrafa sönn við það eitt að á hana sé fallist. Slík afstaða kallar á rök og réttlætingu rétt eins og sérhvað sem við gerum tilkall til þess að vita. Þar fyrir utan standa eftir óhreyfðar hinar margvíslegu röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs á borð við heimsfræðirökin, siðferðisrökin og hönnunarrökin.
Margir útskýra meinta sköpun mannsins á Guði í ljósi ótta hans við dauðann eða sem leið mannsins til að takast á við eigin hverfulleika og þá erfiðleika og þær ógnir sem fylgja því að vera til, eða eitthvað í þá veruna. Tilvist Guðs er samkvæmt þessu einungis hækja eða óskhyggja af einhverjum freudískum toga.
En hvað ef svo er? Hvaða ályktanir getum við dregið af því? Að Guð sé ekki til? Að það sé óhugsandi að Guð sé til? Ef það er niðurstaðan þá er einfaldlega ekkert röklegt samhengi á milli hennar og forsendanna sem gengið er út frá. Og jafnvel þótt óskhyggja hefði eitthvað með það að gera hvers vegna fólk trúir á Guð (og ég neita því alls ekki að óskhyggja hafi eitthvað að segja þegar kemur að trú og vantrú) þá segir það alls ekkert um eiginlega tilvist Guðs á hvorn veginn sem er. Það segir í besta falli eitthvað um það hvernig fólk er sálfræðilega innréttað.
Fólk finnur guðstrú og guðleysi eftir margbreytilegum leiðum og þar spilar margt inn í og hefur áhrif. En ef einhver telur sig geta ógilt guðstrú á þeirri forsendu að um óskhyggju sé að ræða eða einhverskonar sálfræðilegan tilbúning og blekkingu verður hinn sami uppvís að heldur bagalegri en algengri rökleysu. Nefnilega þeirri að reyna að hrekja eða ógilda viðhorf eða trú á grundvelli þess hvernig hún er tilkomin eða hvernig maður hefur tileinkað sér hana. Vandinn er að annað hefur einfaldlega ekkert með hitt að gera í neinum röklegum skilningi. Það getur vel verið að ég hafi lesið aftan á Cheerios-pakka að x sé satt. En það að ég las það aftan á Cheerios-pakka hefur ekkert að gera með það hvort x sé í reynd satt eða ósatt. Ef x snýr að spurningunni um tilvist Guðs þá verður að glíma við sannleiksgildi hennar með öðrum hætti en þeim að reyna að útskýra tildrög þess að fólk trúir eða trúir ekki á Guð.
Næsta staðhæfing könnunarinnar var þessi: „Við höfum enga vissu fyrir því að guð sé til!“ Margir byggja guðleysi sitt á þessari staðhæfingu eða einhverju í líkingu við hana. Þá er staðhæft að við getum ekki vitað með vissu hvort Guð sé til og/eða að enga sönnun sé að fá fyrir tilvist hans og því sé einfaldast og skynsamlegast að afskrifa hann.
Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að við höfum enga skothelda, hundrað prósent óskeikula stærðfræðilega vissu eða sönnun fyrir því hvort Guð sé til eða ekki. Fullvissa er einfaldlega ekki í boði þegar spurningin um tilvist Guðs er annars vegar – hvorki fyrir mig né guðleysingjann. Við getum rætt um rök með og á móti og spurt okkur hvort falli betur að upplifun okkar og reynslu af lífinu og þekkingu okkar almennt, tilvist Guðs eða tilvistarleysi. Í þeim efnum tel ég öll rök hníga að tilvist Guðs. En ég mundi aldrei tefla guðstrú fram sem skotheldri staðreynd. Ég verð að láta mér lynda að svo er ekki, rétt eins og að guðleysinginn verður að láta sér lynda að guðlaust viðhorf hans er ekki fullvíst og verður ekki sannað – enda er guðleysi frumspekileg staðhæfing rétt eins og guðstrú og enginn munur þar á milli út frá þeim sjónarhól. Hvorug þeirra verður sönnuð með hundrað prósent vissu. En þau geta að sjálfsögðu ekki bæði verið sönn (enda eru þau mótsagnakennd). Annað hvort er Guð til eða ekki. Sjálfur tel ég tilvist Guðs mun skynsamlegri niðurstöðu og tilvistarlega innihaldsríkari.
Óháð þessu felur viðhorf af því tagi sem hér um ræðir í sér ónýta þekkingarfræði eða ótækan mælikvarða á þekkingu og er því í sjálfu sér ekki áhyggjuefni. Við vitum fæst upp að því marki að við getum sagt að við vitum það fyrir víst. En það þýðir alls ekki að við séum ekki í skynsamlegum rétt, ef svo má segja, til að trúa því sem við trúum. Það er mjög margt sem ég get ekki sannað með óyggjandi hætti sem engu að síður er fyllilega eðlilegt og skynsamlegt að fallast á. Ef við tryðum engu öðru en því sem við höfum eða getum haft fullvissu fyrir eða sannað með óyggjandi hætti þá verðum við að afskrifa langflest af því sem við teljum okkur vita. Að halda annað væri þar að auki mótsagnakennt viðhorf. Hugsaðu um staðhæfinguna „Við eigum aðeins að trúa því sem við getum verið algjörlega viss um og sannað“! Er sú staðhæfing þess eðlis að þú getur verið algjörlega viss um sannleiksgildi hennar? Geturðu sannað þá staðhæfingu? Nei, svo er ekki. Hún fellur því í raun um sig sjálfa. Engu að síður setur margur guðleysinginn annað eins þekkingarfræðilegt skilyrði fyrir guðstrú (með öðrum orðum krefst hann þess að tilvist Guðs sé sönnuð með óyggjandi hætti, fyrr trúi hann ekki) – en undanskilur gjarnan um leið eigið guðleysi. Og það má spyrja sig, ef guðleysinginn legði nú guðleysi sitt undir sama mæliker og hann ætlast til að trúað fólk geri, skyldi hann upplifa sig á jafn traustum grunni?
En ef enga fullvissu er að fá er ég þá ekki viss um trú mína eða um tilvist Guðs? Hvernig mundi kristinn maður eins og ég svara þeirri spurningu? Jú, ég er viss. Þar er margt sem spilar inn í, reynsla, tilfinningar, rök, vilji og trúariðkun. En í grunninn er það Guð sjálfur sem gefur mér fullvissuna. Ég fæ hana frá honum sjálfum. Það er Guð sjálfur sem veitir vöxtinn, svo gripið sé til orðalags Páls postula. Og það er hið kristna svar þegar allt kemur til alls hversu skrýtið sem einhverjum kann að finnast það. Rök fyrir tilvist Guðs eru mikilvæg og hafa þýðingu. En lifandi trú á Guð fæst ekki fyrir niðurstöðu einhverrar röksemdarfærslu. Það er ekki heldur ástæðan fyrir trú minni eða það sem heldur henni lifandi. Það er Guð sjálfur sem gerir það! (Ekki halda samt að ég eða annað trúað fólk sé ónæmt fyrir efa. Enginn er það.)
Trú mín á Guð er ekki andsvar við einhverjum rökum til eða frá heldur andsvar við persónu sem hreyfir við mér og dregur mig til sín. Eins og einhver sagði þá sanna ekki einu sinni sterkustu rökin sem í boði eru nokkurn skapaðan hlut ef reynsla okkar og upplifun staðfestir ekki niðurstöðu þeirra. Enginn lætur sannfærast um nokkuð þvert á upplifun sína og reynslu eða vilja. Eins áhugaverðar og gagnlegar sem röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs eru, sem og heimspekileg viðleitni okkar til að ná skynsamlega og röklega utan um tilvist Guðs, þá getur það aldrei orðið aðalatriðið. Kristin trú minnir okkur nefnilega á að það er miklu frekar Guð sem leitar okkar en við Guðs. Og í því er kjarni kristinnar trúar fólginn: Guð gerðist maður. Hann sýndi sig, í persónu, í Jesú Kristi. Það er Jesús Kristur sem opinberar Guð og beinlínis sýnir okkur hver Guð er.
Segjum að ég vilji kynnast þér og komast að því hver þú ert, hvernig þú ert og hvort ég geti lagt traust mitt á þig af einhverju öryggi eða vissu. Ég gæti auðvitað gert tilraunir á þér, tengt þig við allskonar rafskaut o.s.frv. til að komast að því hvað býr innra með þér, raðgreint jafnvel erfðaefnið þitt til að fá allar mögulegar upplýsingar um það hvernig þú er innstilltur. En ég mundi aldrei kynnast þér með þeim hætti. Eina leiðin til að kynnast þér af einhverri vissu er sú að þú opinberir sjálfan þig – þ.e. sýnir mér sjálfan þig, talir við mig, gefir af sjálfum þér o.s.frv. Og þannig vex almennt gagnkvæmt samband sem nærir þá tilfinningu sem veitir manni fullvissu um mannkosti og gildi og vináttu vinar síns. Það hvílir m.ö.o. ekki á mér að byggja upp eða búa mér til svo og svo mikla fullvissu. Ég þigg hana frá vini mínum í gegnum það sem hann opinberar mér, sýnir mér, segir og gerir o.s.frv.
Þessu er ekki öðruvísi farið með trú mína á Guð. Það sem gefur mér fullvissu trúarinnar er Guð sjálfur í Jesú Kristi. Því meir og betur sem ég kynnist Jesú Kristi því meiri fullvissu gefur Guð mér. Ég er viss um að mörgum guðleysingjanum finnist fullvissa mín gagnvart tilvist Guðs og kristinni trú almennt jaðra við hroka. Og það er skiljanlegt út frá hans sjónarhorni, ég neita því ekki. En fullvissa mín er alls ekki frá mér komin. Hún byggir ekki á einhverju sem ég get týnt til sjálfur eða tileinkað mér í krafti eigin verðleika. Hún kemur frá honum! Ef fullvissa mín væri eingöngu frá mér komin þá gæti ég að sjálfsögðu aldrei verið viss. Enda er ég ekkert frábrugðin öðrum og hef enga sérstaka innsýn inn í veruleikann sem öðrum er ekki gefinn eða boðið upp á. En kristin trú (ólíkt flestöllum öðrum trúarbrögðum) er ekki þannig trú að þú þurfir að hafa einhverja sérstakar gáfur eða hæfni eða fylgja einhverri sérstakri leið eða forskriftum til að vera viss um trú þína eða viðhorf Guðs til þín.
Þriðja staðhæfing könnunarinnar sem taka mátti afstöðu til var þessi: „Guð hlýtur að vera til annars hefði lífið engan tilgang.“ Öll veltum við fyrir okkur tilgangi lífsins. Er raunverulega tilgangur á bak við lífið? Á bak við líf mitt? Óháð því hvað ég er að gera í lífinu? Það er ein af þessum stóru tilvistarspurningum sem lætur okkur aldrei alveg í friði. Og öll höfum við mikla og mannlega þörf fyrir að upplifa tilgang í lífinu. En það væri samt undarleg röksemdarfærsla fyrir tilvist Guðs að segja að hann hljóti að vera til því án hans hefði lífið engan tilgang. Hinu er ég sammála að ef Guð er ekki til þá er engan hlutlægan tilgang eða merkingu eða gildi að finna á bak við lífið og tilveruna. Það er hin tilvistarlega brotalöm náttúruhyggjunnar og meðfylgjandi guðleysis. Hún er ekki lítil og ætti að fá alla til að setja stóra fyrirvara við guðleysi sem lífsskoðun og áttavita í lífinu.
Áhugaverðari og þýðingarmeiri spurning er því þessi: Ef Guð er ekki til, ef ekkert er til utan efnisins, utan náttúrunnar – ef alheimurinn er tæmandi lýsing á veruleikanum – er þá að finna eiginlegan tilgang eða merkingu á bak við lífið og tilveruna? Út frá guðlausu sjónarhorni er svarið augljóslega „nei“. Það er hin röklega niðurstaða að gefnum þeim forsendum sem náttúruhyggja/guðleysi bjóða upp á.
Þróunarlíffræðingurinn Richard Dawkins kemst vel að orði þegar hann lýsir þeirri mynd sem guðleysi dregur upp af veruleikanum: „Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér, og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“
Að mínu viti er ekki hjá þessari niðurstöðu komist ef guðleysi er grunnforsendan, þ.e. ef Guð er ekki til og alheimurinn er tæmandi lýsing á veruleikanum. Þá er lífið í heild sinni (og þar með við sjálf) í grunninn ekkert annað en tilviljunarkennt og tilgangslaust efni sem er skilyrt af blindum lögmálum náttúrunnar. Alheimurinn er þá ekkert annað en tóm tilviljun á eiginlegs tilgangs sem stefnir að engu og verður á endanum að engu. Samkvæmt náttúruhyggju samanstendur veruleikinn ekki af neinu öðru en efni og orku og maðurinn sjálfur er ekki undanskilin því enda lítið annað en tiltölulega þróuð dýrategund í alheimi án merkingar og tilgangs, tilviljunarkennd aukaafurð tíma og efnis og að öllu leyti skilyrt af taugaboðunum í heilanum í okkur.
Með öðrum orðum:
Ef náttúruhyggja/guðleysi er raunsönn lýsing á veruleikanum þá er enginn hlutlægur tilgangur með lífi þínu.
… þá skipta gjörðir þínar engu máli þegar allt kemur til alls og breyta nákvæmlega engu. Allt stefnir í átt að engu og ekkert fær því breytt.
… þá eru engin hlutlæg siðferðisgildi til og heldur engar siðferðilegar skyldur sem okkur ber að fylgja. Það er ekkert rétt og rangt, gott og illt, til í algildum skilningi.
… þá er engin merking á bak við líf þitt.
… þá eru allar orsakir fyrir öllu sem gerist í grunninn efnislegar, þ.á.m. fyrir hugsunum þínum og gjörðum.
… þá er frjáls vilji mannsins blekking. Maðurinn er einfaldlega líffræðilega skilyrtur og í grunninn efni sem lýtur blindum lögmálum náttúrunnar.
… þá er engin von um lausn frá takmörkunum þessa lífs, svo sem ranglæti, þjáningu og dauða.
Hér er um býsna ömurlega sýn á lífið og tilveruna að ræða. Enginn ætti, að mínu mati, að gera hana að sinni nema afar góð rök liggi henni til grundvallar. Og þau rök eru ekki fyrir hendi.
Næsta staðhæfing könnunarinnar var þessi: „Guð hefur skapað heiminn og stýrir honum.“ Já, það er hin kristna staðhæfing. Á bak við lífið og tilveruna er að finna persónulegan Guð, algóðan og almáttugan skapara sem er uppspretta og höfundur lífsins. Hann hefur allt í hendi sér, veruleikann í heild sinni, og stýrir á endanum öllu að því marki sem hann hefur sett því.
Ef kristin trú er raunsönn lýsing á veruleikanum þá breytist allt:
Þá er hlutlægur tilgangur með lífi þínu!
Gjörðir þínar skipta máli!
Til eru til hlutlæg siðferðisgildi og siðferðilegar skyldur í lífinu!
Það er merking á bak við líf þitt!
Það er von um lausn frá takmörkunum þessa lífs!
Og að auki:
Það er í boði lausn og fyrirgefning fyrir öllu því sem miður hefur farið hjá okkur!
Þér býðst að tengjast og eiga samfélag og samband við Guð og njóta ómældrar gleði og hamingju með honum.
Gunnar Jóhannesson er fæddur árið 1977. Hann lauk embættisprófi frá Guðfræðideild Háskóla Íslands árið 2002 og meistaranámi í trúarheimspeki frá sama skóla árið 2010. Gunnar tók prestsvígslu árið 2004 og þjónaði Hofsóss- og Hólaprestakalli fram til ársins 2013. Frá 2013-2014 þjónaði hann í afleysingum sem héraðsprestur í Kjalarnesprestakalli. Árið 2014 hélt Gunnar utan til Noregs þar sem hann þjónaði næstu fjögur árin sem sóknarprestur í Ringebu í Suður-Guðbrandsdalsprófastsdæmi í Hamarsbiskupsdæmi. Heimkomin tók Gunnar við sóknarprestsstöðu í Hveragerði í afleysingum. Í mars árið 2019 var Gunnar ráðinn prestur við Selfossprestakall sem nú er sameinað Árborgarprestakall og starfar þar í dag.
Persónulegan Guð!? „Nei takk fyrir!“
Þverrandi og breytt guðstrú íslensks samfélags
Færri trúa víst á persónulegan Guð nú en áður var, eða 25 af hundraði. Það er í öllu falli niðurstaða könnunar sem gerð var fyrir nokkru. Um var að ræða könnun á þjóðtrú og trú Íslendinga sem Terry Gunnell prófessor emeritus í þjóðfræði við Háskóla Íslands lét gera á síðasta ári.
Það er spurning hvort sú niðurstaða fari nærri hinu rétt. Ég efa ekki að niðurstaða þessi sé til marks um og árétti miklar breytingar og hreyfingar á trúarviðhorfum fólk sem átt hafa sér stað. Trúarviðhorf breytast og hafa breyst undanfarna áratugi hér á landi sem annars staðar, ekki síst þegar horft er til hins vestræna heims. Guðleysi er heilt yfir mikið minnihlutaviðhorf á heimsvísu en skilin eru almennt skarpari nú en áður, á milli þeirra sem trúa á Guð og hinna sem efast um eða hafna tilvist Guðs.
Það eru vafalaust ýmsar ástæður fyrir því að íslenskt samfélag virðist í vaxandi mæli hafa týnt Guði (eða í öllu falli hinni hefðbundnu kristnu guðsmynd sem fylgt hefur íslenskri þjóð svo að segja frá upphafi). Einn augljós þáttur sem breytir myndinni frá því sem áður var er breytt samfélagsgerð og fjölbreyttari samfélagshópar. En burtséð frá því hefur náttúruhyggja og meðfylgjandi guðleysi farið vaxandi undanfarna áratugi og virðist eiga greiðari leið að fólki í dag en áður. Hluti af þessari mynd er líka vaxandi tómlæti í garð trúariðkunar og trúar almennt sem fylgir ekki síst yngri kynslóðum enda er trúararfinum ekki lengur miðlað á milli kynslóða líkt og áður var.
Það má spyrja sig hvað leiðir til þess að fólk tileinkar sér guðleysi eða efahyggju. Of langt mál væri að svara þeirri spurningu hér. Þar spila inn í margskonar þættir, rökrænir og órökrænir, þekkingarfræðilegir og tilfinningalegir. Ef til vill telur fólk ekkert benda til tilvistar Guðs og að þau rök sem teflt er fram fyrir tilvist hans haldi hvorki vandi né vind. Kannski hefur fólk slæma reynslu af trúarbrögðum og trúarlegum stofnunum af einni eða annarri ástæðu eða trúuðu fólki. Ef til vill er fólki einfaldlega alveg sama á hvorn veginn sem er. Á þessu eru margar hliðar og margt sem spilar hér inn í og hefur áhrif.
Þótt enn megi segja að íslenskt samfélag standi sögulega og menningarlega á grunni kristinnar trúar og gilda er þó vart lengur með réttu hægt að tala um íslenskt samfélag sem kristið samfélag án þess að spyrja hvað sé nákvæmlega átt við með þeirri staðhæfingu sem og hugtakinu „kristið“. En þá er líka hætt við því að skoðanir fólks á því hvað sé kristið og hvað það felur í sér séu orðnar svo fjölbreyttar og ólíkar að spurningin missir einfaldlega merkingu sína.
Þótt kannanir séu ágæt vísbending um stöðu mála verður sjaldan alhæft um eitthvað á grundvelli þeirra. Ýmsar kannir hafa verið gerðar í gegnum tíðina þar sem þreifað er á trúarviðhorfum fólks og allar gefa þær einhverja mynd af þeim aðstæðum sem fyrir hendi eru. Nefna má sem dæmi aðra spurningakönnun sem Maskína gerði í tilefni að stjórnmálaumræðum í áramótaþættinum Kryddsíldin í lok síðasta árs. Þar var m.a. spurt: „Trúir þú á guð eða trúir þú ekki á guð?“ Þar kom fram að rúmlega 51 prósent trúir á „guð“. En hvað hugtakið „guð“ þýðir í samhengi spurningarinnar eða svaranna sem fengust er ómögulegt að segja og þar af leiðandi hvaða ályktanir má draga af þeim.
Sennilega lýsir orðið „heiðið“ um margt betur trúarviðhorfum margra Íslendinga í dag en orðið „kristið“ – í þeim skilningi að minnsta kosti að sú trú sem margir eru tilbúnir að gangast við virðist eiga æ minni samleið með klassískri og sögulega réttri kristinni trú eins og hana má lesa af síðum Nýja testamentisins. Fólk trúir margt hvert á einhvern „lífskraft“ eða einhverskonar „frumafl“, „æðri mátt“ eða „æðri máttarvöld“ og jafnvel svokallað „sumarland“ einhvers staðar í fjarskanum. En atburðir jóla og páska koma þeirri trú minna við nú en áður og virðist þvælast fyrir mörgum. Fólk heldur ef til vill í kristna trú sem einhvers konar gildisgrunn (án þess að leiða hugann sérstaklega að því) en án tengsla við lifandi kristna trú sem gefi sanna lýsingu á eðli veruleikans.
Ég velti þessu fyrir mér ekki fyrir löngu þar sem ég sat í skírnarveislu á fallegu heimili eftir að hafa skírt og signt yfir litla bjartleita stúlku. Þar spunnust við borðið óvanalegar og áhugaverðar samræður um trú og lífsviðhorf – einmitt í tilefni af áðurnefndri könnun. Fólk var forvitið að heyra hvað prestinum þætti um þetta allt og ekki síst um þverrandi trú fólks. „Hvað ætlar kirkjan að gera núna?!“ var spurt, eins og svo oft áður.
Einkum voru það tveir einstaklingar sem ræddu þar um trúarviðhorf sín og tóku fram að trú sín væri þeim mikilvæg og að þau væru sannarlega trúuð. En heyra mátti að í hugum þeirra snerist sú trú öll um „kærleikann“ og það að „vera góður“ (sem að þeirra mati væri hinn sameiginlegi og sameinandi boðskapur og þráður allra trúarbragða!). Það var sum sé lýsandi fyrir innihald trúarinnar eins og þau skildu hana og umgengust. Mundi kirkjan, sögðu þau, ná miklu betur til fólks ef hún legði áherslu á það og drægi úr (eða sleppti helst alveg) þessu tali um komu Guðs í heiminn og einhverja upprisu Jesú frá dauðum. Ég sagði eitthvað á þá leið að trú væri alls ekki skilyrði fyrir góðvild eða siðferðilega góðri breytni (þ.e. fyrir því að „vera góður“). En burtséð frá því staðsetti fólk sig í þessum efnum þar sem það vildi og gæti að sjálfsögðu tekið Jesú og hvað sem það vildi út fyrir sviga. En þá stæði það eftir með eitthvað sem ekki væri kristin trú og gæti aldrei verið kristin trú. Og með því mundi líka innihald hinnar fallegu skírnarathafnar sem við höfðum átt saman gufa upp. Þau jánkuðu því.
Í raun raknar allt kristið í kristinni trú upp þegar búið er að koma Guði fyrir utan við svigann, að ég nefni ekki Jesú sjálfan. Þá er það líka til marks um býsna yfirborðskennda þekkingu á trúarbrögðum að fella þau öll undir þá lýsingu að þau snúist eingöngu um kærleika og siðræna breytni eða það eitt að vera góður. Svo er ekki þegar að er gáð og kjarnaboðskapur kristinnar trúar er ekki fólginn í því (þótt kristin trú geri vitaskuld siðferðilegar kröfur til okkar). Slíkt viðhorf – sem ég efast ekki um að lýsi lífsskoðun mjög margra á Íslandi í dag – er rangtúlkun eða misskilningur og umfram allt afsprengi vestrænnar afstæðishyggju. En dýpra ristir „guðstrú“ ekki í hugum margra í dag og kristallast sú afstaða gjarnan í staðhæfingu á borð við: „Guð er hið góða í manninum!“
Persónulegur Guð eða ópersónulegur guð/guðir
Aftur að áðurnefndri könnun. Samkvæmt henni telja 25 af hverjum hundrað að til sé kærleiksríkur Guð sem við getum beðið til, þ.e.a.s. persónulegur Guð. Það var fyrsta spurning könnunarinnar eða fyrsta staðhæfingin sem fólki var boðið að taka afstöðu til í könnuninni. Það er umtalsverð fækkun frá fyrri könnun sem sýndi árið 2006 að 45 prósent svöruðu því til að þau trúðu á kærleiksríkan Guð sem hægt sé að biðja til. Samkvæmt þessu trúa 75 af hundraði ekki á persónulegan Guð. Sá hópur hefur annað hvort frábrugðin skilning á Guði eða trúa ekki á tilvist Guðs eða efast um hana.
Óháð því hvað okkur finnst um þessar tölur er eðlilegt að spyrja: Hvað er persónulegur Guð? Nú er ekki gott að vita hvaða merkingu það hugtak hefur fyrir fólki. Ef einhver spyrði mig hvort ég tryði á persónulegan Guð mundi ég vilja vita hvað viðkomandi á við með „persónulegur“. Nú var hugtakið persónulegur ekki notað um Guð í könnuninni heldur var þar staðhæft „Til er kærleiksríkur Guð sem við getum beðið til!“. En þessi fyrsta spurning könnunarinnar snýst engu að síður um persónulegan Guð – því ef Guð er til og er kærleiksríkur og heyrir bænir er hann í öllu falli persónulegur.
Í guðfræðilegum og heimspekilegum skilningi merkir hugtakið „persónulegur“, þegar það er notað um Guð, alls ekki „Guð eins og ég skil hann“ eða „Guð eins og ég sé hann“ eða „sá Guð sem ég trúi á“ heldur snýr það að því hvers eðlis Guð er í sjálfum sér, m.ö.o. hver Guð er en ekki hvernig ég upplifi Guð eða mínar hugmyndir um Guð. Og sé Guð til þá er hann annað hvort persónulegur eða ópersónulegur, þ.e. í sjálfum sér, sem vera.
Persónulegur Guð er í stuttu máli Guð sem hægt er að tengjast og upplifa sem persónu ólíkt ópersónulegum guðlegum mætti á borð við hið „Eina“ eða „Algjöra“ (eins og hið guðlega er umgengist t.d. í algyðistrúarbrögðum). Kristin trú býður einmitt upp á slíkan Guð, persónulegan Guð. Guð sem er persóna! (Reyndar býður kristin trú upp á meira en það þar sem Guð kristinnar trúar hefur ekki bara að geyma eina persónu heldur þrjár: Föðurinn, Soninn og Andann. Og meira en það! Guð kristinnar trúar er Guð sem kemur sjálfur inn í heiminn, stígur inn á svið sögunnar og gerist þátttakandi á vettvangi hennar, verður fyrir áhrifum af henni og hefur áhrif á hana. Guð verður vart mikið persónulegri en það.)
Persónulegur Guð er sum sé Guð sem inniheldur eða hefur að geyma „Ég“, þ.e.a.s. sjálfsvitund. Persónulegur Guð er því Guð sem upplifir sjálfan sig, veit af sjálfum sér og þekkir sjálfan sig. Hann er Guð sem hugsar, hefur vit og vilja, langanir, fyrirætlanir og ásetning og lætur til sín taka. Í því felst að vera persóna. Persónulegur Guð er líka Guð sem sýnir frumkvæði, aðhefst og stígur fram. Hann er Guð sem lætur sig líf þitt varða að fyrra bragði. (Hann er auðvitað sá sem skapaði þig þegar allt kemur til alls og orsakaði tilvist þína, samkvæmt kristinni trú.) Hver þú ert, hvað þú hugsar, hvað þú segir og gerir, hvert þú stefnir, skiptir hann máli. Persónulegur Guð er Guð sem ávarpar þig og hlustar á þig. Hann er um leið Guð sem gerir kröfur til þín og ætlast til einhvers af þér.
Ópersónulegur guð er andstæða alls þessa! Hann er einfaldlega ópersónulegt „það“ sem einungis er hægt að lýsa í ljósi þess sem hann er ekki. Hinn ópersónulegi guð (á borð við þann guð eða guði sem algyðistrúarbrögð bjóða upp á), er hinn óskilgreinanlegi og fjarverandi lífskraftur og æðri máttur (sem mörgum er svo tamt að hafa í taumi) sem gerir ekkert og aðhefst ekkert af eigin völdum. Hann er eins og hyldjúpt haf sem bærir ekki á sér, kaldur og þungur, og bíður þess að gleypa þig. (Þannig er nirvana, hjálpræðisástand hindúa og búddista, fólgið í því að renna saman við hið „eina“ og í raun að hverfa og verða þar að engu – enda merkir nirvana á sanskrít „eyðingu“ einstaklingsins og þess sem gerði hann að einstaklingi. Hann einfaldlega lognast út af og verður að engu eins og logi sem brennur út.)
Hinn ópersónulegi guð er á eilífri sjálfstýringu má segja. Allt einhvern veginn flæðir frá honum stjórnlaust og án ásetnings eða tilgangs. Hann gerir ekkert af því að hann ætlar að gera það. Hann hefur hvorki vit né vilja, sýnir ekki frumkvæði og hugsar ekki. Hann krefst því einskis af þér, lætur sig ekki varða um þig. Hann leitar þín ekki og talar ekki til þín. (Þess vegna iðkar fólk sem trúir á ópersónulegan guð (eða aðhyllist stefnur og hugmyndafræði sem eiga rætur í algyðistrúarbrögðum) innhverfa íhugun. Það biður ekki bæn því bæn er eitthvað sem leitar út á við og byggir á tengslum við, og beinist að, veruleika handan þess sem biður, sem ekki er í boði við ópersónulegan guð).
Hinn ópersónulegi guð er þarna ef þú vilt, eins og rykfallin bók í hillunni, eða skipun á lyklaborðinu (og þannig umgangast reyndar margir Guð kristinnar trúar). En hann lætur þig ekki vita af sér, hann leitar þig ekki uppi. Þú getur lifað lífi þínu eins og þú vilt og eins og þér hentar og hann mun ekki trufla þig eða raska þér á nokkurn einasta hátt. Þú getur lifað lífinu rétt eins og hann væri ekki til. Að þessu leyti er hinn ópersónulegi guð þægilegur guð, hlýðinn guð, guð eins og þú vilt að hann sé – og í raun og veru, þegar allt kemur til alls, sennilega líkari þér en sjálfum sér.
Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að þess háttar „guð“ henti mörgum nútímamanninum betur en hinn persónulegi Guð kristinnar trúar. Ef þú vilt þægilegan, leiðitaman, fyrirferðarlítinn Guð sem krefst lítils af þér og þvælist ekki fyrir þér, Guð sem þú getur haft í vasanum svo að segja, þá er kristin trú ekki heppilegur kostur. Persónulegur Guð kristinnar trúar fellur líka illa að þeim ismum og trúarjátningum sem mikið fer fyrir í nútíma vestrænu samfélagi. Þær snúast að miklu leyti um manninn sjálfan, um getu hans, vit, stöðu og sjálfræði. Enda er sennilega fátt sem mótar lífsskoðun nútímamannsins jafn mikið (eða gerir kröfu til þess) og sú vísindahyggja, efahyggja, einstaklingshyggja og afstæðishyggja sem gera manninn sjálfan að æðsta og hinsta mælikvarða alls sem er og sjá ekkert handan hins lífvana efnis og náttúruaflanna sem stýra því. Og það má spyrja sig hvort það verði manninum ekki endanlega að falli í þessum heimi sem er nú meira eða minna rjúkandi rúst af hans eigin mikilfenglegu völdum.
Í öllu falli er ekki að undra að ópersónulegur guð sé álitinn góður og gildur og skori hátt í skoðanakönnunum. Huglægur Guð fegurðar, sannleika og góðvildar, innan í okkur sjálfum, er vafalaust enn betri í augum margra. En sennilega er það hið formlausa lífsafl, hinn æðri máttur, sem líður um okkur öll og við getum dregið af þegar okkur hentar og á okkar forsendum, sem passar nútímamanninum best þegar á allt er litið. En Guð sjálfur, hlutlægur, raunverulegur, lifandi, hugsandi og skapandi, talandi, leitandi, hvetjandi og krefjandi, með höndina á hinum enda þráðarins, togandi okkur til sín, – það er allt annað mál, og virðist meira en margir geta sætta sig við í dag eða þolað.
Persónulegur Guð er skynsamlegri niðurstaða en hinn ópersónulegi guð!
Vissulega eru margir kraftar að verki þegar kemur að því hvernig fólk stillir af trúarleg viðhorf sín og lífsskoðun á leið sinni í gegnum lífið. Lífsskoðun okkar er í raun fólgin í túlkun og skilningi okkar á eigin skynjun, upplifun og reynslu af lífinu og tilverunni og hún svarar hinum stóru og áleitnu spurningum sem tilvistin kallar fram hjá okkur öllum: Af hverju er eitthvað til fremur en ekkert? Hvaðan er tilvistin komin og af hverju? Hver er tilgangur lífsins? Hefur lífið gildi í sjálfu sér eða markmið? Hvert er gildi okkar sjálfra? Hvernig ber okkur að lifa lífinu? Hvað bíður okkar og alheimsins? Hver verða örlög okkar?
Lífsskoðun hvers og eins er þannig fólgin í því hvernig við komum reynslu okkar og upplifun af lífinu heim og saman og túlkum hana. Lífsskoðun er því viss máti til að horfa á lífið og stöðu okkar innan þess – hinn frumspekilegi útsýnisstaður sem við komum okkur fyrir á má segja. Til eru ýmsar tegundir lífsskoðana en allar grundvallast þær annað hvort á guðstrú af einhverju tagi eða guðleysi. Það er hinn frumspekilegi grunnur eða staðhæfing sem lífsskoðunin er reist á og við skuldbindum okkar (svo lengi sem við höldum í lífsskoðunina).
Ekkert eitt hefur úrslitaáhrif á það hvaða frumspekilega sjónarhorn við veljum okkur á lífið. Um er að ræða samspil margra þátta sem ýmist eru á okkar valdi eða handan þess. Margskonar reynsla á lífsins leið spilar hlutverk og hefur mótandi áhrif á það hvar við staðsetjum okkur í þessum efnum, m.a. staður og stund, kynni af fólki, áhrif frá stefnum og straumum, tilfinningar, þekking og rök, svo eitthvað sé nefnt. Og þegar allt kemur til alls okkar eigin vilji og val.
En af hverju eiga æ fleiri erfitt með að upplifa Guð sem persónulega veru, þ.e. þeir sem á annað borð fallast á tilvist Guðs? Það má koma að þeirri spurningu úr ólíkum áttum. Ég ýjaði að nokkrum ismum hér að ofan sem gætu gert persónulegan Guð óaðgengilegan fyrir fólki eða að fyrirstöðu sem ryðja þurfi úr vegi. Hann gæti nefnilega vegið óþægilega nærri sjálfræði okkar og vilja til að lifa lífinu eftir eigin höfði.
Ein góð leið til að hugsa um þessa spurningu er einfaldlega hin skynsamlega og lógíska nálgun: Ef til er Guð, sem ábyrgur er fyrir tilkomu tilverunnar, þ.e. tilvist þessa efnislega og náttúrulega veruleika, þá er afar sennilegt að hann sé persónulegur í þeim skilningi sem rætt var um hér að ofan.
Hvað á ég við með því? Jú, ef Guð skapaði, eða leiddi fram, eða orsakaði (hvernig sem það er orðað) tilvist tíma, rúms, efnis og orku, þ.e. tilkomu alheimsins, sem þar á undan var alls ekki til, þá er hreint ekki óskynsamlegt að ætla að vilji og vit, ásetningur og fyrirætlun, spili þar hlutverk. Og það eru eiginleikar sem ópersónulegur guð býr alls ekki yfir. Einungis persónulegur Guð, þ.e. Guð sem er persóna, býr yfir slíkum eiginleikum.
Nú standa margir í þeirri trú að það sé einfaldlega ekkert sem bendi til tilvistar Guðs yfir höfuð (ópersónulegs eða ekki) og að engin haldbær rök séu til sem leiði líkum að því að til sé Guð eða einhver yfirnáttúrulegur veruleiki. Það er hins vegar rangt. Til eru margskonar áleitnar röksemdarfærslur sem eindregið benda í þá átt að tilvist Guðs sé sennilegri en ekki og sýna um leið að það eru alls engin svik við skynsamlega hugsun og vísindalega þekkingu að ganga út frá tilvist hans. Hvað guðleysingjanum finnst um þau rök og hvernig hann vegur þau og metur og mælir gegn þeim, forsendum þeirra og niðurstöðu, er annað og áhugavert mál.
Nú er ekki ætlunin að ræða hér sérstaklega rök fyrir tilvist Guðs, en í samhengi við spurninguna um persónulegan eða ópersónulegan Guð þá er hjálplegt að leiða hugann að einni tiltekinni röksemdarfærslu – heimsfræðirökunum.
Heimsfræðirökin eru ein umtalaðasta röksemdarfærslan fyrir tilvist Guðs í dag og benda eindregið í áttina til persónulegs Guðs (eins og raunar ýmsar aðrar röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs, m.a. siðferðisrökin og hönnunarrökin).
Heimsfræðirökin eru einföld að forminu til og byggja á tveimur forsendum:
(1) Allt sem verður til á sér orsök! (þ.e. ekkert verður til af engu.)
(2) Alheimurinn varð til! (þ.e. alheimurinn hefur ekki alltaf verið til, hann er ekki eilífur, heldur á sér upphaf.)
Af þessum forsendum leiðir nauðsynlega og óhjákvæmilega niðurstöðuna
(3) Alheimurinn á sér orsök! (M.ö.o. er til eitthvað allt annað handan alheimsins, eða utan og ofan náttúrunnar, eitthvað sem alltaf hefur verið til og er ástæða þess að allt annað er orðið til.)
Hvað forsendurnar varðar getum við látið duga að segja hér að þær eru í öllu falli mun sennilegri en andstæður þeirra. Fyrri forsendan virðist raunar auðsjáanlega og nauðsynlega sönn og felur líka í sér grundvöll eða meginreglu allrar skynsamlegrar og vísindalegrar hugsunar. Aðra forsenduna má styðja í senn heimspekilega, með rökum gegn tilvist óendanlegrar fortíðar (eða óendanlegrar raðar augnablika eða atburða), sem og vísindalega á grundvelli upphafs alheimsins í Miklahvelli.
Um þetta mætti fjalla í mun lengra og ítarlegra máli. En í ljósi þess að við höfum afar góðar ástæður til að ætla að forsendur heimsfræðirakanna séu sannar blasir niðurstaðan óhjákvæmilega við: Alheimurinn – þ.e. allur hinn náttúrulegi veruleiki tíma og rúms, efnis, orku og náttúrulögmála – á sér orsök. Hann hefur ekki alltaf verið til. Eitthvað allt annað er til, utan og ofan við alheiminn eða hinn efnislega og náttúrulega veruleika, og er það jafnframt orsökin eða ástæðan fyrir tilvist hans. Það er ekki veigalítil niðurstaða.
Með því að greina hugtakið orsök í þessu samhengi má leiða í ljós afar áleitna og íhugunarverða eiginleika sem þessi vera hlýtur að búa yfir. Sem orsök tíma og rúms hlýtur hún að vera til utan og ofan við tíma og rúm og tilvist hennar þar með ekki bundin af tíma og rúmi (að minnsta kosti ekki fyrir tilkomu alheimsins). Þessi yfirnáttúrulega vera hlýtur því að vera óbreytanleg og óefnisleg (þar sem tímaleysi felur í sér óbreytanlega og óbreytanleiki felur í sér óefnisleika). Vera af þessu tagi hlýtur jafnframt sjálf að vera til eða eiga sér tilvist án upphafs og orsakar – og vera þar með eilíf. Enn fremur má ætla að um eina veru sé að ræða því ekki þarf að gera ráð fyrir fleiri orsökum en þörf er á til að útskýra afleiðinguna. Þá er óhætt að segja að þessi vera, sem skapaði alheiminn úr engu (að minnsta kosti án fyrirliggjandi efniviðs), sé máttugri en við getum ímyndað okkur, ef ekki almáttug.
En hvað hefur þetta með persónulegan Guð að gera? Jú, í þessu ljósi getum við líka sagt að þessi óviðjafnanlega vera er að líkindum persónuleg vera (þ.e.a.s. vera sem býr yfir vitund, vilja, hugsun, ásetningi o.s.frv.). Í ljósi þess að alheimurinn á sér upphaf má nefnilega slá því föstu að tilvist hans er ekki nauðsynleg. Hann hefði ekki þurft að verða til (hann hefur jú ekki alltaf verið til). Og því er ekki fráleitt að ætla að á bak við tilkomu hans liggi ásetningur og vilji þess sem orsakaði hann eða skapaði.
Það má hugsa þetta út frá ólíkum tegundum orsakasamhengis. Þegar um er að ræða atburður/atburður orsakasamhengi þá orsakar einn atburður annan atburð. Tökum sem dæmi stein sem kastað er í rúðu og veldur því að rúðan brotnar. Slíkt orsakasamhengi felur augljóslega í sér upphaf orsakarinnar í tíma þar sem um er að ræða orsakasamhengi á milli atburða sem eiga sér stað á tilgreindum tíma. Í ástand/ástand orsakasamhengi orsaka hins vegar tilteknar aðstæður eða tiltekið ástand tilvist annars ástands. Til dæmis orsakar þéttleiki vatns að timbrið flýtur á vatninu. Einnig getum við séð fyrir okkur þunga kúlu sem hvílir á mjúkum púða og orsakar dæld í púðanum. Í þesskonar orsakasamhengi þarf afleiðingin ekki endilega að eiga sér upphaf. Fræðilega séð gæti timbrið hafa flotið á vatninu, eða kúlan legið á koddanum, um alla eilífð.
Vandinn í sambandi við orsökina á bak við upphaf eða tilkomu alheimsins er hins vegar fólginn í því að þar virðist orsakasamhengið vera ástand/atburður, eins sérkennilegt og það er. Það er að segja, orsökin felur í sér, eða einfaldlega er, eilíft ástand en afleiðingin er atburður sem á sér stað á tilteknu augnabliki í fortíðinni. Slíkt orsakasamhengi virðist ekki ganga upp. Það er illskiljanlegt í ljósi þess að fyrir hendi er ástand sem nægir að öllu leyti til að leiða fram afleiðingu sína og ætti því að leiða til afleiðingar sem jafnframt er ástand.
Við getum orðað þetta með öðrum hætti: Ef það orsakaskilyrði sem verður að vera fyrir hendi svo alheimurinn geti orðið til hefur alltaf verið til, þ.e. um alla eilífð, eða með öðrum orðum, ef þær aðstæður eða ástand sem felur í sér skilyrði þess að alheiminn geti raungerst hafi alltaf verið fyrir hendi, þá ætti alheimurinn einnig að hafa verið til um alla eilífð. Orsökin ætti þá ekki að geta verið til án afleiðingar sinnar. Með öðrum orðum ætti afleiðingin að vera „jafn eilíf“, ef svo má segja, og orsökin. En sú er augljóslega ekki raunin.
Eina leiðin út úr þeirri klemmu er að segja eða líta svo á að orsökin á bak við upphaf alheimsins sé persónulegur orsakavaldur (ekki ástand eða atburður) sem ákvað í krafti síns frjálsa vilja að skapa alheim í tíma. Hér er um að ræða tegund af orsök sem er persónuleg. Og þar sem orsakavaldurinn er frjáls getur hann orsakað nýjar afleiðingar með því að sjá fyrir aðstæðum sem ekki voru fyrir hendi áður.
Þetta blasir líka við þegar horft er til þess að til eru tvær tegundir útskýringa, annars vegar vísindaleg (sem byggir á forsendum náttúrulögmála og fyrirliggjandi efnislegra aðstæðna sem leiða af sér aðrar efnislegar aðstæður) og hins vegar persónuleg (sem grundvallast vilja persónulegs orsakavalds og vilja og ásetnings hans).
Við grípum til persónulegra útskýringa á hverjum degi. Ef spurt er „hvers vegna er vatnið að sjóða?“ þá er það fullkomlega gild vísindaleg útskýring að segja eitthvað á þá leið að þegar vatn sýður þá flyst varmaorkan frá hitagjafanum (hellunni) yfir í pottinn og þaðan til vatnssameindanna. Við það byrja vatnssameindirnar að hreyfa sig hraðar og þeim mun hraðar eftir sem orkan vex. Að lokum er orka vatnssameindanna orðin meiri en svo að þær geta haldist tengdar í vökvaformi. Þegar það gerist breytir vatnið um ham, vatnssameindirnar myndar gufu sem flýtur upp á yfirborðið í formi loftbóla og losnar út í andrúmsloftið. Þess vegna sýður vatnið. En til er önnur útskýring, af persónulegum toga: Hvers vegna sýður vatnið? Jú, vegna þess að ég ætla að fá mér te! Þessi tvö svör eru fyllilega gild, hvort á sinn hátt og taka ekkert hvort frá öðru. Í raun gefa þær í sameiningu heildarskýringu á því að vatnið sýður.
Það blasir við að upphafsástand alheimsins getur ekki, eðli málsins samkvæmt, átt sér vísindalega útskýringu. Ástæðan er sú að á undan tilkomu alheimsins voru einfaldlega engin náttúrulögmál og engar fyrirliggjandi efnislegar aðstæður (hvort tveggja kom til sögunnar með alheiminum) sem bjóða upp á vísindalega skýringu. Eina útskýringin á tilkomu alheimsins sem er í boði er því hin persónulega.
Í þessu samhengi eru ummæli Charles Townes nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði athyglisverð. Hann sagði að spurningunni um uppruna yrði ekki svarað út frá vísindalegu sjónarhorni heldur væri þörf á frumspekilegri útskýringu á borð við Guð. Á bak við slík ummæli liggur það viðhorf að vísindi eru takmörkuð af viðfangsefni sínu. Vísindi geta ekki útskýrt neitt nema tími, rúm og efni séu þegar til staðar, þ.e. fyrirbæri sem unnt er útskýra í vísindalegum skilningi. Náttúrulögmálin stýra hegðun hluta og fyrirbæra í tíma og rúmi. Af þeirri ástæðu geta vísindi ekki útskýrt tilvist þess sem verður að vera til áður en vísindi geta útskýrt nokkuð yfirleitt. Með öðrum orðum er ekki unnt að útskýra tilvist orsakakeðjunnar sem slíkrar (alheimsins) á sömu forsendum og við útskýrum einstaka hluti í eða innan orsakakeðjunnar sjálfrar. Það verður að leita út fyrir hana.
Og þá er skynsamlegt að grípa til persónulegrar útskýringar þar sem vísað er til persónulegs orsakavalds sem í krafti vilja síns og ásetnings kemur einhverju nýju til leiðar án þess að þurfa að reiða sig á önnur og undanfarandi skilyrði eða orsakir – rétt eins og maður sem ákveður að lyfta upp höndinni í krafti síns frjálsa vilja án þess að vera knúinn eða skilyrtur fyrir fram af einhverju öðru.
Með þetta í huga er það síður en svo óskynsamleg útskýring á tilkomu alheimsins að hann sé afleiðing óefnislegs og vitræns orsakavalds utan tíma og rúms. Það þýðir að sá skapari sem er á bak við tilkomu alheimsins er persónulegur Guð en ekki einhvers konar ópersónulegt frumafl eða æðri máttur sem hvorki hugsar né veit af sjálfum sér.
Aðrar spurningar könnunarinnar
Áður en kemur að lokapunktinum er áhugavert að leiða hugann aðeins að öðrum spurningum könnunarinnar. Næsta spurning (eða staðhæfing) könnunarinnar á eftir þeirri um „persónulegan Guð“ var þessi: „Það er ekki til neinn annar guð en sá sem manneskjan sjálf hefur búið til.“ 33% svara þeirri spurningu játandi.
Sá sem svarar þessu játandi staðhæfir um leið að guðleysi sé sönn lýsing á eðli veruleikans eða svari til þess hvernig veruleikanum er háttað í raun og veru. Með öðrum orðum á Guð (eða hið yfirnáttúrulega) sér ekki hlutlæga tilvist (nema í huga mannsins). Um leið er því slegið föstu að náttúruhyggja sé sönn, þ.e. að hinn efnislegi og náttúrulegi veruleiki (alheimurinn) sé tæmandi lýsing á því sem til er – sem röklega jafngildir því að staðhæfa að Guð sé ekki til (eða nokkuð yfirnáttúrulegt). Hér er um frumspekilega staðhæfingu að ræða sem fólk velur að gangast við og trúa. En hún er ekki og verður ekki sjálfkrafa sönn við það eitt að á hana sé fallist. Slík afstaða kallar á rök og réttlætingu rétt eins og sérhvað sem við gerum tilkall til þess að vita. Þar fyrir utan standa eftir óhreyfðar hinar margvíslegu röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs á borð við heimsfræðirökin, siðferðisrökin og hönnunarrökin.
Margir útskýra meinta sköpun mannsins á Guði í ljósi ótta hans við dauðann eða sem leið mannsins til að takast á við eigin hverfulleika og þá erfiðleika og þær ógnir sem fylgja því að vera til, eða eitthvað í þá veruna. Tilvist Guðs er samkvæmt þessu einungis hækja eða óskhyggja af einhverjum freudískum toga.
En hvað ef svo er? Hvaða ályktanir getum við dregið af því? Að Guð sé ekki til? Að það sé óhugsandi að Guð sé til? Ef það er niðurstaðan þá er einfaldlega ekkert röklegt samhengi á milli hennar og forsendanna sem gengið er út frá. Og jafnvel þótt óskhyggja hefði eitthvað með það að gera hvers vegna fólk trúir á Guð (og ég neita því alls ekki að óskhyggja hafi eitthvað að segja þegar kemur að trú og vantrú) þá segir það alls ekkert um eiginlega tilvist Guðs á hvorn veginn sem er. Það segir í besta falli eitthvað um það hvernig fólk er sálfræðilega innréttað.
Fólk finnur guðstrú og guðleysi eftir margbreytilegum leiðum og þar spilar margt inn í og hefur áhrif. En ef einhver telur sig geta ógilt guðstrú á þeirri forsendu að um óskhyggju sé að ræða eða einhverskonar sálfræðilegan tilbúning og blekkingu verður hinn sami uppvís að heldur bagalegri en algengri rökleysu. Nefnilega þeirri að reyna að hrekja eða ógilda viðhorf eða trú á grundvelli þess hvernig hún er tilkomin eða hvernig maður hefur tileinkað sér hana. Vandinn er að annað hefur einfaldlega ekkert með hitt að gera í neinum röklegum skilningi. Það getur vel verið að ég hafi lesið aftan á Cheerios-pakka að x sé satt. En það að ég las það aftan á Cheerios-pakka hefur ekkert að gera með það hvort x sé í reynd satt eða ósatt. Ef x snýr að spurningunni um tilvist Guðs þá verður að glíma við sannleiksgildi hennar með öðrum hætti en þeim að reyna að útskýra tildrög þess að fólk trúir eða trúir ekki á Guð.
Næsta staðhæfing könnunarinnar var þessi: „Við höfum enga vissu fyrir því að guð sé til!“ Margir byggja guðleysi sitt á þessari staðhæfingu eða einhverju í líkingu við hana. Þá er staðhæft að við getum ekki vitað með vissu hvort Guð sé til og/eða að enga sönnun sé að fá fyrir tilvist hans og því sé einfaldast og skynsamlegast að afskrifa hann.
Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að við höfum enga skothelda, hundrað prósent óskeikula stærðfræðilega vissu eða sönnun fyrir því hvort Guð sé til eða ekki. Fullvissa er einfaldlega ekki í boði þegar spurningin um tilvist Guðs er annars vegar – hvorki fyrir mig né guðleysingjann. Við getum rætt um rök með og á móti og spurt okkur hvort falli betur að upplifun okkar og reynslu af lífinu og þekkingu okkar almennt, tilvist Guðs eða tilvistarleysi. Í þeim efnum tel ég öll rök hníga að tilvist Guðs. En ég mundi aldrei tefla guðstrú fram sem skotheldri staðreynd. Ég verð að láta mér lynda að svo er ekki, rétt eins og að guðleysinginn verður að láta sér lynda að guðlaust viðhorf hans er ekki fullvíst og verður ekki sannað – enda er guðleysi frumspekileg staðhæfing rétt eins og guðstrú og enginn munur þar á milli út frá þeim sjónarhól. Hvorug þeirra verður sönnuð með hundrað prósent vissu. En þau geta að sjálfsögðu ekki bæði verið sönn (enda eru þau mótsagnakennd). Annað hvort er Guð til eða ekki. Sjálfur tel ég tilvist Guðs mun skynsamlegri niðurstöðu og tilvistarlega innihaldsríkari.
Óháð þessu felur viðhorf af því tagi sem hér um ræðir í sér ónýta þekkingarfræði eða ótækan mælikvarða á þekkingu og er því í sjálfu sér ekki áhyggjuefni. Við vitum fæst upp að því marki að við getum sagt að við vitum það fyrir víst. En það þýðir alls ekki að við séum ekki í skynsamlegum rétt, ef svo má segja, til að trúa því sem við trúum. Það er mjög margt sem ég get ekki sannað með óyggjandi hætti sem engu að síður er fyllilega eðlilegt og skynsamlegt að fallast á. Ef við tryðum engu öðru en því sem við höfum eða getum haft fullvissu fyrir eða sannað með óyggjandi hætti þá verðum við að afskrifa langflest af því sem við teljum okkur vita. Að halda annað væri þar að auki mótsagnakennt viðhorf. Hugsaðu um staðhæfinguna „Við eigum aðeins að trúa því sem við getum verið algjörlega viss um og sannað“! Er sú staðhæfing þess eðlis að þú getur verið algjörlega viss um sannleiksgildi hennar? Geturðu sannað þá staðhæfingu? Nei, svo er ekki. Hún fellur því í raun um sig sjálfa. Engu að síður setur margur guðleysinginn annað eins þekkingarfræðilegt skilyrði fyrir guðstrú (með öðrum orðum krefst hann þess að tilvist Guðs sé sönnuð með óyggjandi hætti, fyrr trúi hann ekki) – en undanskilur gjarnan um leið eigið guðleysi. Og það má spyrja sig, ef guðleysinginn legði nú guðleysi sitt undir sama mæliker og hann ætlast til að trúað fólk geri, skyldi hann upplifa sig á jafn traustum grunni?
En ef enga fullvissu er að fá er ég þá ekki viss um trú mína eða um tilvist Guðs? Hvernig mundi kristinn maður eins og ég svara þeirri spurningu? Jú, ég er viss. Þar er margt sem spilar inn í, reynsla, tilfinningar, rök, vilji og trúariðkun. En í grunninn er það Guð sjálfur sem gefur mér fullvissuna. Ég fæ hana frá honum sjálfum. Það er Guð sjálfur sem veitir vöxtinn, svo gripið sé til orðalags Páls postula. Og það er hið kristna svar þegar allt kemur til alls hversu skrýtið sem einhverjum kann að finnast það. Rök fyrir tilvist Guðs eru mikilvæg og hafa þýðingu. En lifandi trú á Guð fæst ekki fyrir niðurstöðu einhverrar röksemdarfærslu. Það er ekki heldur ástæðan fyrir trú minni eða það sem heldur henni lifandi. Það er Guð sjálfur sem gerir það! (Ekki halda samt að ég eða annað trúað fólk sé ónæmt fyrir efa. Enginn er það.)
Trú mín á Guð er ekki andsvar við einhverjum rökum til eða frá heldur andsvar við persónu sem hreyfir við mér og dregur mig til sín. Eins og einhver sagði þá sanna ekki einu sinni sterkustu rökin sem í boði eru nokkurn skapaðan hlut ef reynsla okkar og upplifun staðfestir ekki niðurstöðu þeirra. Enginn lætur sannfærast um nokkuð þvert á upplifun sína og reynslu eða vilja. Eins áhugaverðar og gagnlegar sem röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs eru, sem og heimspekileg viðleitni okkar til að ná skynsamlega og röklega utan um tilvist Guðs, þá getur það aldrei orðið aðalatriðið. Kristin trú minnir okkur nefnilega á að það er miklu frekar Guð sem leitar okkar en við Guðs. Og í því er kjarni kristinnar trúar fólginn: Guð gerðist maður. Hann sýndi sig, í persónu, í Jesú Kristi. Það er Jesús Kristur sem opinberar Guð og beinlínis sýnir okkur hver Guð er.
Segjum að ég vilji kynnast þér og komast að því hver þú ert, hvernig þú ert og hvort ég geti lagt traust mitt á þig af einhverju öryggi eða vissu. Ég gæti auðvitað gert tilraunir á þér, tengt þig við allskonar rafskaut o.s.frv. til að komast að því hvað býr innra með þér, raðgreint jafnvel erfðaefnið þitt til að fá allar mögulegar upplýsingar um það hvernig þú er innstilltur. En ég mundi aldrei kynnast þér með þeim hætti. Eina leiðin til að kynnast þér af einhverri vissu er sú að þú opinberir sjálfan þig – þ.e. sýnir mér sjálfan þig, talir við mig, gefir af sjálfum þér o.s.frv. Og þannig vex almennt gagnkvæmt samband sem nærir þá tilfinningu sem veitir manni fullvissu um mannkosti og gildi og vináttu vinar síns. Það hvílir m.ö.o. ekki á mér að byggja upp eða búa mér til svo og svo mikla fullvissu. Ég þigg hana frá vini mínum í gegnum það sem hann opinberar mér, sýnir mér, segir og gerir o.s.frv.
Þessu er ekki öðruvísi farið með trú mína á Guð. Það sem gefur mér fullvissu trúarinnar er Guð sjálfur í Jesú Kristi. Því meir og betur sem ég kynnist Jesú Kristi því meiri fullvissu gefur Guð mér. Ég er viss um að mörgum guðleysingjanum finnist fullvissa mín gagnvart tilvist Guðs og kristinni trú almennt jaðra við hroka. Og það er skiljanlegt út frá hans sjónarhorni, ég neita því ekki. En fullvissa mín er alls ekki frá mér komin. Hún byggir ekki á einhverju sem ég get týnt til sjálfur eða tileinkað mér í krafti eigin verðleika. Hún kemur frá honum! Ef fullvissa mín væri eingöngu frá mér komin þá gæti ég að sjálfsögðu aldrei verið viss. Enda er ég ekkert frábrugðin öðrum og hef enga sérstaka innsýn inn í veruleikann sem öðrum er ekki gefinn eða boðið upp á. En kristin trú (ólíkt flestöllum öðrum trúarbrögðum) er ekki þannig trú að þú þurfir að hafa einhverja sérstakar gáfur eða hæfni eða fylgja einhverri sérstakri leið eða forskriftum til að vera viss um trú þína eða viðhorf Guðs til þín.
Þriðja staðhæfing könnunarinnar sem taka mátti afstöðu til var þessi: „Guð hlýtur að vera til annars hefði lífið engan tilgang.“ Öll veltum við fyrir okkur tilgangi lífsins. Er raunverulega tilgangur á bak við lífið? Á bak við líf mitt? Óháð því hvað ég er að gera í lífinu? Það er ein af þessum stóru tilvistarspurningum sem lætur okkur aldrei alveg í friði. Og öll höfum við mikla og mannlega þörf fyrir að upplifa tilgang í lífinu. En það væri samt undarleg röksemdarfærsla fyrir tilvist Guðs að segja að hann hljóti að vera til því án hans hefði lífið engan tilgang. Hinu er ég sammála að ef Guð er ekki til þá er engan hlutlægan tilgang eða merkingu eða gildi að finna á bak við lífið og tilveruna. Það er hin tilvistarlega brotalöm náttúruhyggjunnar og meðfylgjandi guðleysis. Hún er ekki lítil og ætti að fá alla til að setja stóra fyrirvara við guðleysi sem lífsskoðun og áttavita í lífinu.
Áhugaverðari og þýðingarmeiri spurning er því þessi: Ef Guð er ekki til, ef ekkert er til utan efnisins, utan náttúrunnar – ef alheimurinn er tæmandi lýsing á veruleikanum – er þá að finna eiginlegan tilgang eða merkingu á bak við lífið og tilveruna? Út frá guðlausu sjónarhorni er svarið augljóslega „nei“. Það er hin röklega niðurstaða að gefnum þeim forsendum sem náttúruhyggja/guðleysi bjóða upp á.
Þróunarlíffræðingurinn Richard Dawkins kemst vel að orði þegar hann lýsir þeirri mynd sem guðleysi dregur upp af veruleikanum: „Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér, og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“
Að mínu viti er ekki hjá þessari niðurstöðu komist ef guðleysi er grunnforsendan, þ.e. ef Guð er ekki til og alheimurinn er tæmandi lýsing á veruleikanum. Þá er lífið í heild sinni (og þar með við sjálf) í grunninn ekkert annað en tilviljunarkennt og tilgangslaust efni sem er skilyrt af blindum lögmálum náttúrunnar. Alheimurinn er þá ekkert annað en tóm tilviljun á eiginlegs tilgangs sem stefnir að engu og verður á endanum að engu. Samkvæmt náttúruhyggju samanstendur veruleikinn ekki af neinu öðru en efni og orku og maðurinn sjálfur er ekki undanskilin því enda lítið annað en tiltölulega þróuð dýrategund í alheimi án merkingar og tilgangs, tilviljunarkennd aukaafurð tíma og efnis og að öllu leyti skilyrt af taugaboðunum í heilanum í okkur.
Með öðrum orðum:
Ef náttúruhyggja/guðleysi er raunsönn lýsing á veruleikanum þá er enginn hlutlægur tilgangur með lífi þínu.
… þá skipta gjörðir þínar engu máli þegar allt kemur til alls og breyta nákvæmlega engu. Allt stefnir í átt að engu og ekkert fær því breytt.
… þá eru engin hlutlæg siðferðisgildi til og heldur engar siðferðilegar skyldur sem okkur ber að fylgja. Það er ekkert rétt og rangt, gott og illt, til í algildum skilningi.
… þá er engin merking á bak við líf þitt.
… þá eru allar orsakir fyrir öllu sem gerist í grunninn efnislegar, þ.á.m. fyrir hugsunum þínum og gjörðum.
… þá er frjáls vilji mannsins blekking. Maðurinn er einfaldlega líffræðilega skilyrtur og í grunninn efni sem lýtur blindum lögmálum náttúrunnar.
… þá er engin von um lausn frá takmörkunum þessa lífs, svo sem ranglæti, þjáningu og dauða.
Hér er um býsna ömurlega sýn á lífið og tilveruna að ræða. Enginn ætti, að mínu mati, að gera hana að sinni nema afar góð rök liggi henni til grundvallar. Og þau rök eru ekki fyrir hendi.
Næsta staðhæfing könnunarinnar var þessi: „Guð hefur skapað heiminn og stýrir honum.“ Já, það er hin kristna staðhæfing. Á bak við lífið og tilveruna er að finna persónulegan Guð, algóðan og almáttugan skapara sem er uppspretta og höfundur lífsins. Hann hefur allt í hendi sér, veruleikann í heild sinni, og stýrir á endanum öllu að því marki sem hann hefur sett því.
Ef kristin trú er raunsönn lýsing á veruleikanum þá breytist allt:
Þá er hlutlægur tilgangur með lífi þínu!
Gjörðir þínar skipta máli!
Til eru til hlutlæg siðferðisgildi og siðferðilegar skyldur í lífinu!
Það er merking á bak við líf þitt!
Það er von um lausn frá takmörkunum þessa lífs!
Og að auki:
Það er í boði lausn og fyrirgefning fyrir öllu því sem miður hefur farið hjá okkur!
Þér býðst að tengjast og eiga samfélag og samband við Guð og njóta ómældrar gleði og hamingju með honum.