Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is setjast þremenninganir dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur, dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson, héraðsprestur og sr. Elínborg Sturludóttir prestur við dómkirkjuna í Reykjavík. Þau hafa skrifað þrjár greinar um kirkjuna og lýðræðið og þessi grein er andsvar þeirra við greinaskrifum dr. Hjalta Hugasonar og Stefáns Magnússonar um sama efni. 

Með þessari grein skal stuttlega brugðist við þremur greinum Hjalta Hugasonar og Stefáns Magnússonar sem þeir rituðu sem andsvar við þremur greinum sem höfundar þessara orða rituðu og voru birtar í Kirkjublaðinu. Greinar Hjalta og Stefáns voru birtar á sama miðli 23. og 25. ágúst og 5. september síðast liðinn. Engin ástæða er til að teygja lopann mikið frekar; öndverð sjónarmið hafa verið sett fram og rök færð fyrir þeim og lesendur Kirkjublaðsins geta lagt sitt eigið mat á þau. Hér viljum við þó tæpa á því sem við teljum vera grundvallaratriði í umræðunni, atriði sem snertir, þegar allt kemur til alls, bæði spurninguna um kosningarétt og kjörgengi á vettvangi Þjóðkirkjunnar en það er skírnin.

Það er þakkarvert að Hjalti og Stefán benda í grein sinni réttilega á misræmi í gildandi starfsreglum þar sem kveðið er á um að skírn sé forsenda fyrir kjörgengi til kirkjuþings en hins vegar séu ekki sett slík skilyrði fyrir setu manna í sóknarnefnd. Þetta er vitanlega stórkostlegur galli á starfsreglum Þjóðkirkjunnar og við hljótum að velta fyrir okkur hverju þetta sæti. Við sem þetta ritum teljum líklegast að misræmið megi rekja til þess að lengstum — og í raun til skamms tíma — var Þjóðkirkjuaðild sjálfgefin hjá flestum landsmönnum; langflestir foreldrar voru skírðir og létu skíra börnin sín og þau voru sjálfkrafa skráð í Þjóðkirkjuna. En þetta hefur breyst og það til mikilla muna á síðastliðnum aldarfjórðungi og nú eru lög og reglur um skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög með þeim hætti að barn skráist þá aðeins sjálfkrafa í Þjóðkirkjuna ef báðir foreldrar þess, sem eru í hjónabandi eða staðfestri sambúð, eru skráðir í Þjóðkirkjuna. Af þessum sökum þurfa prestar oft að minna skírnarforeldra á að skrá barnið í Þjóðkirkjuna en óneitanlega eru uppi vísbendingar um að nokkur misbrestur hafi orðið á því að skírð börn séu skráð í Þjóðkirkjuna. Við sem þetta ritum vitum hins vegar ekki um nokkur gögn þess efnis að börn séu skráð í Þjóðkirkjuna án þess að vera skírð, sbr. graf í grein Steinunnar Arnþrúðar Björnsdóttur sem sýnir að nokkuð jöfn fylgni er á milli skírna í Þjóðkirkjunni og fæddra barna sem tilheyra Þjóðkirkjunni.[1]

Vandi er því að sjá hvernig Hjalti og Stefán komast að þeirri niðurstöðu að óskírðir séu sístækkandi hópur í Þjóðkirkjunni og vægi skírnarinnar fari þess vegna síminnkandi og ekki hefur borið á fjöldaskráningum fullorðinna í Þjóðkirkjuna.

Þær tækninýjungar við skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög sem komið hafa fram af hálfu ríkisvaldsins og gera nú fólki kleift að skrá sig í trúfélag með nokkrum músarsmellum og rafrænni auðkenningu eru hins vegar til þess fallnar að nú er hverjum sem er kleift að skrá sig í Þjóðkirkjuna hvort sem viðkomandi er skírð/ur eða ekki. Þetta er tæknilegt útfærsluatriði við skráningu sem er á ábyrgð ríkisins og varla ætti það að setja Þjóðkirkjunni viðmið varðandi það hvort hún geri kröfu um að þau sem sækjast eftir ábyrgðarstöðum í kirkjunni skuli vera skírð eða ekki. Afleiðing þessa nýja lagaumhverfis og skráningarfyrirkomulags er hins vegar sú að greina má a.m.k. á milli tveggja forsendna fyrir því að tilheyra Þjóðkirkjunni. Annars vegar er það hin eiginlega trúarlega forsenda sem er í samræmi við eiginlegt markmið og tilgang kirkjunnar sem byggist á fagnaðarerindinu um réttlætingu fyrir trú á upprisu Krists og skipun hans til lærisveinanna þess efnis að fara um heimsbyggðina og skíra í nafni föður, sonar og heilags anda. Hins vegar má finna Þjóðkirkjumeðlimi — og höfundar þessarar greinar þekkja slíka — sem hafa skráð sig í Þjóðkirkjuna gagngert í þeim tilgangi að styðja við hana og störf hennar sem viðkomandi álíta að séu mikilvæg fyrir samfélagið, jafnvel þótt þeir sjálfir séu ekki trúaðir og ekki meðlimir á trúarlegum forsendum. Augljóst er í ljósi núverandi aðstæðna að ekki er hægt að meina fólki að styðja tiltekið trúfélag standi vilji þess til þess. Af sjónarhóli Þjóðkirkjunnar hlýtur það sannarlega að vera þakkarvert. En það þýðir ekki að eðlilegt megi teljast að fólk, sem ekki er skírt og hyggst ekki láta skírast — verandi enda trúlaust — hafi óheftan aðgang að ábyrgðar- og trúnaðarstörfum í kirkjunni. Með sömu rökum fellur hugmyndin um að veita öllum meðlimum Þjóðkirkjunnar kosningarétt í kirkjuþings- og biskupskjöri um sjálfa sig. Það er í fullkomnu ósamræmi við tilvistarforsendu og tilgang Þjóðkirkjunnar að óskírt fólk fái að véla um val í ábyrgðar- og trúnaðarstöður í kirkjunni. Vilji fólk hafa áhrif þar hlýtur Þjóðkirkjan að gera þá skýlausu kröfu að það sé skírt eða láti skírast. Enda er það skýrt tekið fram í Samþykktum um innri málefni kirkjunnar að:

„Þjóðkirkjan gengur út frá því að þau sem koma fram fyrir hennar hönd játi kristna trú og leitist við að lifa kristnu trúarlífi … Þjóðkirkjan játar trú á heilaga þrenningu, einn Guð, föður, son og heilagan anda … Þjóðkirkjan játar postullegu trúarjátninguna, Níkeujátninguna og Aþanasíusar-játninguna sem sanna skilgreiningu trúar heilagrar almennrar kirkju … Evangelísk-lútersk kirkja viðurkennir Ágsborgarjátninguna 1530 og Fræði Lúthers minni sem sannan vitnisburð um fagnaðarerindi Jesú Krists“.[2]

Af þessum sökum er fullkomlega óeðlilegt að telja að hægt sé að fella niður kröfuna um skírn fyrir kjörgengi til kirkjuþings og höfundar þessarar greinar geta ekki annað en lýst furðu sinni á þeim orðum Hjalta og Stefáns í grein þeirra frá 5. september að „[v]erði kosningarréttur bundinn við skírn og skráningu kann að verða litið svo á að þjóðkirkjan sé að taka skref í átt að játningarkirkju.“ Í þeim virðist okkur birtast kirkjuskilningur sem er hvorki í samræmi við sögulegan grundvöll Þjóðkirkjunnar né samþykktir hennar. Þjóðkirkjan stendur föstum fótum á játningarlegum grunni og hlýtur því sem slík, líkt og aðrar kirkjur, að vera „játningarkirkja“.

Á grundvelli þess sem hér að framan hefur komið fram teljum við nauðsynlegt að starfsreglum verði breytt á þann veg að sú eðlilega krafa verði gerð, að þau sem sækjast eftir setu í sóknarnefnd séu skírð — og vitanlega jafnframt skráðir meðlimir í Þjóðkirkjunni samkvæmt skráningu Hagstofunnar í trúfélög. Þess vegna hefur einn höfunda þessarar greinar þegar lagt fram tillögu að breytingum á 6. gr. Starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022, sbr. starfsrgl. nr. 16/2022-2023, þar sem lagt er til að fyrstu setningu 6. gr. verði breytt á þann hátt að þar segi:

Sóknarnefnd skal skipuð leikmönnum sem skírðir eru og skráðir eru í Þjóðkirkjuna. Leikmaður telst sá sem ekki hefur tekið vígslu til prests eða djákna.

Tilvísanir: 

[1] Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, „Skírnin á breytingaskeiði: Er vendipunkti náð?“, Ritröð Guðfræðistofnunar 58/2024, bls. 57, graf 3: „Skírnir  sem  hlutfall  fæddra  á  árinu  á  Íslandi  og  sem  hlutfall fæddra sem skráð eru í þjóðkirkjuna“.
[2] Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar: I. Trú, játning og kenning þjóðkirkjunnar: Grundvöllurinn, sótt 11. september 2025.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is setjast þremenninganir dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur, dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson, héraðsprestur og sr. Elínborg Sturludóttir prestur við dómkirkjuna í Reykjavík. Þau hafa skrifað þrjár greinar um kirkjuna og lýðræðið og þessi grein er andsvar þeirra við greinaskrifum dr. Hjalta Hugasonar og Stefáns Magnússonar um sama efni. 

Með þessari grein skal stuttlega brugðist við þremur greinum Hjalta Hugasonar og Stefáns Magnússonar sem þeir rituðu sem andsvar við þremur greinum sem höfundar þessara orða rituðu og voru birtar í Kirkjublaðinu. Greinar Hjalta og Stefáns voru birtar á sama miðli 23. og 25. ágúst og 5. september síðast liðinn. Engin ástæða er til að teygja lopann mikið frekar; öndverð sjónarmið hafa verið sett fram og rök færð fyrir þeim og lesendur Kirkjublaðsins geta lagt sitt eigið mat á þau. Hér viljum við þó tæpa á því sem við teljum vera grundvallaratriði í umræðunni, atriði sem snertir, þegar allt kemur til alls, bæði spurninguna um kosningarétt og kjörgengi á vettvangi Þjóðkirkjunnar en það er skírnin.

Það er þakkarvert að Hjalti og Stefán benda í grein sinni réttilega á misræmi í gildandi starfsreglum þar sem kveðið er á um að skírn sé forsenda fyrir kjörgengi til kirkjuþings en hins vegar séu ekki sett slík skilyrði fyrir setu manna í sóknarnefnd. Þetta er vitanlega stórkostlegur galli á starfsreglum Þjóðkirkjunnar og við hljótum að velta fyrir okkur hverju þetta sæti. Við sem þetta ritum teljum líklegast að misræmið megi rekja til þess að lengstum — og í raun til skamms tíma — var Þjóðkirkjuaðild sjálfgefin hjá flestum landsmönnum; langflestir foreldrar voru skírðir og létu skíra börnin sín og þau voru sjálfkrafa skráð í Þjóðkirkjuna. En þetta hefur breyst og það til mikilla muna á síðastliðnum aldarfjórðungi og nú eru lög og reglur um skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög með þeim hætti að barn skráist þá aðeins sjálfkrafa í Þjóðkirkjuna ef báðir foreldrar þess, sem eru í hjónabandi eða staðfestri sambúð, eru skráðir í Þjóðkirkjuna. Af þessum sökum þurfa prestar oft að minna skírnarforeldra á að skrá barnið í Þjóðkirkjuna en óneitanlega eru uppi vísbendingar um að nokkur misbrestur hafi orðið á því að skírð börn séu skráð í Þjóðkirkjuna. Við sem þetta ritum vitum hins vegar ekki um nokkur gögn þess efnis að börn séu skráð í Þjóðkirkjuna án þess að vera skírð, sbr. graf í grein Steinunnar Arnþrúðar Björnsdóttur sem sýnir að nokkuð jöfn fylgni er á milli skírna í Þjóðkirkjunni og fæddra barna sem tilheyra Þjóðkirkjunni.[1]

Vandi er því að sjá hvernig Hjalti og Stefán komast að þeirri niðurstöðu að óskírðir séu sístækkandi hópur í Þjóðkirkjunni og vægi skírnarinnar fari þess vegna síminnkandi og ekki hefur borið á fjöldaskráningum fullorðinna í Þjóðkirkjuna.

Þær tækninýjungar við skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög sem komið hafa fram af hálfu ríkisvaldsins og gera nú fólki kleift að skrá sig í trúfélag með nokkrum músarsmellum og rafrænni auðkenningu eru hins vegar til þess fallnar að nú er hverjum sem er kleift að skrá sig í Þjóðkirkjuna hvort sem viðkomandi er skírð/ur eða ekki. Þetta er tæknilegt útfærsluatriði við skráningu sem er á ábyrgð ríkisins og varla ætti það að setja Þjóðkirkjunni viðmið varðandi það hvort hún geri kröfu um að þau sem sækjast eftir ábyrgðarstöðum í kirkjunni skuli vera skírð eða ekki. Afleiðing þessa nýja lagaumhverfis og skráningarfyrirkomulags er hins vegar sú að greina má a.m.k. á milli tveggja forsendna fyrir því að tilheyra Þjóðkirkjunni. Annars vegar er það hin eiginlega trúarlega forsenda sem er í samræmi við eiginlegt markmið og tilgang kirkjunnar sem byggist á fagnaðarerindinu um réttlætingu fyrir trú á upprisu Krists og skipun hans til lærisveinanna þess efnis að fara um heimsbyggðina og skíra í nafni föður, sonar og heilags anda. Hins vegar má finna Þjóðkirkjumeðlimi — og höfundar þessarar greinar þekkja slíka — sem hafa skráð sig í Þjóðkirkjuna gagngert í þeim tilgangi að styðja við hana og störf hennar sem viðkomandi álíta að séu mikilvæg fyrir samfélagið, jafnvel þótt þeir sjálfir séu ekki trúaðir og ekki meðlimir á trúarlegum forsendum. Augljóst er í ljósi núverandi aðstæðna að ekki er hægt að meina fólki að styðja tiltekið trúfélag standi vilji þess til þess. Af sjónarhóli Þjóðkirkjunnar hlýtur það sannarlega að vera þakkarvert. En það þýðir ekki að eðlilegt megi teljast að fólk, sem ekki er skírt og hyggst ekki láta skírast — verandi enda trúlaust — hafi óheftan aðgang að ábyrgðar- og trúnaðarstörfum í kirkjunni. Með sömu rökum fellur hugmyndin um að veita öllum meðlimum Þjóðkirkjunnar kosningarétt í kirkjuþings- og biskupskjöri um sjálfa sig. Það er í fullkomnu ósamræmi við tilvistarforsendu og tilgang Þjóðkirkjunnar að óskírt fólk fái að véla um val í ábyrgðar- og trúnaðarstöður í kirkjunni. Vilji fólk hafa áhrif þar hlýtur Þjóðkirkjan að gera þá skýlausu kröfu að það sé skírt eða láti skírast. Enda er það skýrt tekið fram í Samþykktum um innri málefni kirkjunnar að:

„Þjóðkirkjan gengur út frá því að þau sem koma fram fyrir hennar hönd játi kristna trú og leitist við að lifa kristnu trúarlífi … Þjóðkirkjan játar trú á heilaga þrenningu, einn Guð, föður, son og heilagan anda … Þjóðkirkjan játar postullegu trúarjátninguna, Níkeujátninguna og Aþanasíusar-játninguna sem sanna skilgreiningu trúar heilagrar almennrar kirkju … Evangelísk-lútersk kirkja viðurkennir Ágsborgarjátninguna 1530 og Fræði Lúthers minni sem sannan vitnisburð um fagnaðarerindi Jesú Krists“.[2]

Af þessum sökum er fullkomlega óeðlilegt að telja að hægt sé að fella niður kröfuna um skírn fyrir kjörgengi til kirkjuþings og höfundar þessarar greinar geta ekki annað en lýst furðu sinni á þeim orðum Hjalta og Stefáns í grein þeirra frá 5. september að „[v]erði kosningarréttur bundinn við skírn og skráningu kann að verða litið svo á að þjóðkirkjan sé að taka skref í átt að játningarkirkju.“ Í þeim virðist okkur birtast kirkjuskilningur sem er hvorki í samræmi við sögulegan grundvöll Þjóðkirkjunnar né samþykktir hennar. Þjóðkirkjan stendur föstum fótum á játningarlegum grunni og hlýtur því sem slík, líkt og aðrar kirkjur, að vera „játningarkirkja“.

Á grundvelli þess sem hér að framan hefur komið fram teljum við nauðsynlegt að starfsreglum verði breytt á þann veg að sú eðlilega krafa verði gerð, að þau sem sækjast eftir setu í sóknarnefnd séu skírð — og vitanlega jafnframt skráðir meðlimir í Þjóðkirkjunni samkvæmt skráningu Hagstofunnar í trúfélög. Þess vegna hefur einn höfunda þessarar greinar þegar lagt fram tillögu að breytingum á 6. gr. Starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022, sbr. starfsrgl. nr. 16/2022-2023, þar sem lagt er til að fyrstu setningu 6. gr. verði breytt á þann hátt að þar segi:

Sóknarnefnd skal skipuð leikmönnum sem skírðir eru og skráðir eru í Þjóðkirkjuna. Leikmaður telst sá sem ekki hefur tekið vígslu til prests eða djákna.

Tilvísanir: 

[1] Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, „Skírnin á breytingaskeiði: Er vendipunkti náð?“, Ritröð Guðfræðistofnunar 58/2024, bls. 57, graf 3: „Skírnir  sem  hlutfall  fæddra  á  árinu  á  Íslandi  og  sem  hlutfall fæddra sem skráð eru í þjóðkirkjuna“.
[2] Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar: I. Trú, játning og kenning þjóðkirkjunnar: Grundvöllurinn, sótt 11. september 2025.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir