Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og veltir fyrir sér með skemmtilegum hætti og alvörufullum hvernig rætt verður um þau sem kunna að gefa kost á sér til biskups Íslands. Dr. Skúli hefur m.a. setið í framkvæmdanefnd kirkjuþings og á kirkjuþingi.

Skvaldur eða framtíðarsýn: Kostir frambjóðenda í biskupskjöri

Kirkjan er ekki frábrugðin öðrum samfélögum að því leyti að þar vegur og metur fólk hvert annað, pælir í kostum þess og göllum og segir sögur.

Skvaldur

Í sinni hefðbundnu mynd er ekki rétt að kalla þetta baktal, hvað þá brot á 8. boðorðinu. Iðjan er saklausari en svo. Enskumælandi tala í þessu sambandi um „social gossip“ og má grípa til orðsins „skvaldur“ þar til betri tillögur koma fram.

Metsöluhöfundurinn Juval Noah Harari heldur því fram í bók sinni Homo Sapiens að þarna sé að finna einn lykilinn að yfirburðum þessarar tegundar okkar. Við myndum hópa á grundvelli þeirrar þekkingar sem við öðlumst úr slíkum samtölum. Skvaldrið gerði forfeðrum okkar ekki aðeins kleift að lifa af, heldur að þenja út yfirráðasvæði sitt og stækka langt út fyrir þau takmörk sem öðrum lífverum voru sett. Afrakstur þessa er meðal annars það stigveldi sem einkennir mannleg samfélög. Einhverjir komast ofar en aðrir og skýringin liggur í því hvernig kunnugir vega þá og meta. Þetta sístæða skvaldur hjálpar okkur að kynnast hæfileikum fólks og ókostum, við fáum tilfinningu fyrir því sem er eftirsóknarvert og hvað ber að varast.

Okkur er það líka ljóst að sjálf erum við ekki undanskilin. Kunningjar og samstarfsfólk tala vitaskuld einnig um okkur. Við þurfum að gæta orða okkar og gjörða og um leið lögum við okkur að siðvenjum og gildum í því samfélagi sem við tilheyrum.

Skvaldrað um frambjóðendur

Og nú þegar við kjósendur í biskupskjöri stöndum frammi fyrir því að velja á milli frambjóðenda í vor, er ekki ósennilegt að skvaldrið færist í aukana:

„Er er hann ekki svolítið passívur?“

„Liggur eitthvað eftir hana?“

„Hann er náttúrulega kfummari“

„Skilur fólk það sem hún segir?“

„Hvað finnst þér um klæðastílinn?“

,,Ég held hún hafi móðgað frænda minn.“

Frambjóðendur mega búa sig undir það að fólk ræði sín á milli á einhvern slíkan hátt um eiginleika þeirra og framlag. En hvort sem við tökum undir kenningar Harari um gagnsemi þessa eða ekki, þá verður því ekki á móti mælt að heimur okkar er flóknari en áður var. Hver sem leggur í baráttu eins og þá sem er fram undan, þarf með öðrum orðum að leggja sig fram um að beina umræðunni inn á fleiri brautir.

Talað um framtíðarsýn

Nú leitum við ekki að stjórnanda sem tekur ákvarðanir um útgjöld og rekstur. Sjónir okkar beinast að þessu sinni að leiðtoga sem byggir þjónustu sína á tiltekinni hugmyndafræði.

Þar er af ýmsu að taka og með því að orða þessar hugmyndir á skýran hátt geta frambjóðendur fært samtalið yfir á annað og gagnlegra plan. Ef við erum sammála um það að næsti biskup eigi að gegna forystu þá er það grunnskylda fólks í slíku hlutverki að miðla framtíðarsýn. Sú manneskja sem hefur ekki hugmynd um það hvernig á að mæta komandi tímum og móta þá, er ekki leiðtogi. Það liggur því fyrir biskupsefnunum að orða skýrt hvert þau vilja sjá kirkjuna stefna.

Þá fá kjósendur líka eitthvað bitastætt til að ræða um.

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og veltir fyrir sér með skemmtilegum hætti og alvörufullum hvernig rætt verður um þau sem kunna að gefa kost á sér til biskups Íslands. Dr. Skúli hefur m.a. setið í framkvæmdanefnd kirkjuþings og á kirkjuþingi.

Skvaldur eða framtíðarsýn: Kostir frambjóðenda í biskupskjöri

Kirkjan er ekki frábrugðin öðrum samfélögum að því leyti að þar vegur og metur fólk hvert annað, pælir í kostum þess og göllum og segir sögur.

Skvaldur

Í sinni hefðbundnu mynd er ekki rétt að kalla þetta baktal, hvað þá brot á 8. boðorðinu. Iðjan er saklausari en svo. Enskumælandi tala í þessu sambandi um „social gossip“ og má grípa til orðsins „skvaldur“ þar til betri tillögur koma fram.

Metsöluhöfundurinn Juval Noah Harari heldur því fram í bók sinni Homo Sapiens að þarna sé að finna einn lykilinn að yfirburðum þessarar tegundar okkar. Við myndum hópa á grundvelli þeirrar þekkingar sem við öðlumst úr slíkum samtölum. Skvaldrið gerði forfeðrum okkar ekki aðeins kleift að lifa af, heldur að þenja út yfirráðasvæði sitt og stækka langt út fyrir þau takmörk sem öðrum lífverum voru sett. Afrakstur þessa er meðal annars það stigveldi sem einkennir mannleg samfélög. Einhverjir komast ofar en aðrir og skýringin liggur í því hvernig kunnugir vega þá og meta. Þetta sístæða skvaldur hjálpar okkur að kynnast hæfileikum fólks og ókostum, við fáum tilfinningu fyrir því sem er eftirsóknarvert og hvað ber að varast.

Okkur er það líka ljóst að sjálf erum við ekki undanskilin. Kunningjar og samstarfsfólk tala vitaskuld einnig um okkur. Við þurfum að gæta orða okkar og gjörða og um leið lögum við okkur að siðvenjum og gildum í því samfélagi sem við tilheyrum.

Skvaldrað um frambjóðendur

Og nú þegar við kjósendur í biskupskjöri stöndum frammi fyrir því að velja á milli frambjóðenda í vor, er ekki ósennilegt að skvaldrið færist í aukana:

„Er er hann ekki svolítið passívur?“

„Liggur eitthvað eftir hana?“

„Hann er náttúrulega kfummari“

„Skilur fólk það sem hún segir?“

„Hvað finnst þér um klæðastílinn?“

,,Ég held hún hafi móðgað frænda minn.“

Frambjóðendur mega búa sig undir það að fólk ræði sín á milli á einhvern slíkan hátt um eiginleika þeirra og framlag. En hvort sem við tökum undir kenningar Harari um gagnsemi þessa eða ekki, þá verður því ekki á móti mælt að heimur okkar er flóknari en áður var. Hver sem leggur í baráttu eins og þá sem er fram undan, þarf með öðrum orðum að leggja sig fram um að beina umræðunni inn á fleiri brautir.

Talað um framtíðarsýn

Nú leitum við ekki að stjórnanda sem tekur ákvarðanir um útgjöld og rekstur. Sjónir okkar beinast að þessu sinni að leiðtoga sem byggir þjónustu sína á tiltekinni hugmyndafræði.

Þar er af ýmsu að taka og með því að orða þessar hugmyndir á skýran hátt geta frambjóðendur fært samtalið yfir á annað og gagnlegra plan. Ef við erum sammála um það að næsti biskup eigi að gegna forystu þá er það grunnskylda fólks í slíku hlutverki að miðla framtíðarsýn. Sú manneskja sem hefur ekki hugmynd um það hvernig á að mæta komandi tímum og móta þá, er ekki leiðtogi. Það liggur því fyrir biskupsefnunum að orða skýrt hvert þau vilja sjá kirkjuna stefna.

Þá fá kjósendur líka eitthvað bitastætt til að ræða um.

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?