Ragnheiður Sverrisdóttir var vígð til djákna 1981 og starfaði bæði í sænsku og íslensku kirkjunni. Hún sinnir núna sjálfboðastarfi og stundar nám í ritlist.

Á myndlistarsýningu í Kling og Bang síðastliðið haust rakst ég á mynd af krossi. Slík mynd fær mig alltaf til að stoppa og virða hana fyrir mér meira en aðrar myndir. Kannski er ég atvinnusköðuð eftir áratuga streð í þjóðkirkjunni?  … Og þó!

Krossinn er sterkt tákn sem birtist nánast hvar sem maður kemur í kirkju eða kristilegt samhengi og reyndar víðar þar sem list er í hávegum höfð. Auður kross er sagður tákn þess að Kristur sé upprisinn en hvað merkir það þá þegar róða er á krossum, þ. e. líkami Krists? Róðan, myndin af Jesú, er ólík frá einum krossi til annars. Hann er stundum sýndur þjáður og kvalinn, með blæðandi sár og þyrnikórónu sem blóðtaumar renna undan. Þá birtist hann einnig sem dáinn. En svo er hann stundum eins og lifandi maður sem ekkert amar að, kyrr og algjörlega hafinn yfir þjáningar. Naglarnir sem hann var festur með eru ýmist þrír eða fjórir. Ýmist er fótstallur á krossinum eða ekki. Hvaða boðskap flytja svona ólíkar krossfestingarmyndir og hvaða áhrif framkalla þær hjá áhorfendum?

Á ráðstefnu í Skálholti voru eitt sinn hengd upp veggspjöld með mismunandi myndum af Kristi. Margar þeirra voru óhefðbundnar. Þátttakendur áttu að velja þá mynd sem talaði mest til þeirra. Ég valdi mynd af mjög þjáðum Kristi og fannst hann sýna mér samhygð í veikindum sem hrjáðu mig þá. Hann stóð með mér og hafði upplifað þjáningu þó að mín væri ekkert í samanburði við hans. Maður frá Afríku sýndi myndina sem hann valdi. Hún var af sterkum Kristi, sigrandi Kristi. En af hverju? Jú, í Afríku þýddi ekkert annað en að sýna að Jesús væri máttugur. Hann yrði að vera sigrandi Kristur — sá sem hafði vald.

Kristur, eða myndin af honum, er alls konar og talar inn í aðstæður okkar hvernig sem þær eru.

Myndin í Kling og Bang var eftir Evu Ísleifs. Ég keypti hana vegna þess að hún var öðruvísi en aðrar myndir af krossum. Þar var engin róða en á henni voru punktar sem mér fundust einkennilegir. Sjálfar útlínur krossins og hlutföll voru hefðbundin. Við frekara áhorf sá ég að punktarnir voru mismargir á hverjum fleti og miðjunni voru þeir þrír. Hvað var ég eiginlega að horfa á? Mér datt í hug að hér væri komin djúp guðfræði sem ég þekkti ekki. Ég horfði á myndina en fór svo að líta á aðrar myndir á sýningunni. Þar voru ekki fleiri krossmyndir en margt annað athyglisvert.

Þegar ég fór að ræða þessa mynd við aðra var sagt við mig: „Nú, sérðu ekki að þetta er teningur?“ Það var og! Ég skammaðist mín fyrir að hafa ekki séð þetta strax. Auðvitað átti að brjóta krossinn saman svo úr yrði teningur. Ágætis föndur það!

Til að sættast við skilningsleysið hugsaði ég: Ef list vekur spurningar þá er hún góð.

En fyrir mér er kross samt alltaf kross sem ég tengi við kross Krists á Golgata. Var ekki einmitt teningnum kastað þar?

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Ragnheiður Sverrisdóttir var vígð til djákna 1981 og starfaði bæði í sænsku og íslensku kirkjunni. Hún sinnir núna sjálfboðastarfi og stundar nám í ritlist.

Á myndlistarsýningu í Kling og Bang síðastliðið haust rakst ég á mynd af krossi. Slík mynd fær mig alltaf til að stoppa og virða hana fyrir mér meira en aðrar myndir. Kannski er ég atvinnusköðuð eftir áratuga streð í þjóðkirkjunni?  … Og þó!

Krossinn er sterkt tákn sem birtist nánast hvar sem maður kemur í kirkju eða kristilegt samhengi og reyndar víðar þar sem list er í hávegum höfð. Auður kross er sagður tákn þess að Kristur sé upprisinn en hvað merkir það þá þegar róða er á krossum, þ. e. líkami Krists? Róðan, myndin af Jesú, er ólík frá einum krossi til annars. Hann er stundum sýndur þjáður og kvalinn, með blæðandi sár og þyrnikórónu sem blóðtaumar renna undan. Þá birtist hann einnig sem dáinn. En svo er hann stundum eins og lifandi maður sem ekkert amar að, kyrr og algjörlega hafinn yfir þjáningar. Naglarnir sem hann var festur með eru ýmist þrír eða fjórir. Ýmist er fótstallur á krossinum eða ekki. Hvaða boðskap flytja svona ólíkar krossfestingarmyndir og hvaða áhrif framkalla þær hjá áhorfendum?

Á ráðstefnu í Skálholti voru eitt sinn hengd upp veggspjöld með mismunandi myndum af Kristi. Margar þeirra voru óhefðbundnar. Þátttakendur áttu að velja þá mynd sem talaði mest til þeirra. Ég valdi mynd af mjög þjáðum Kristi og fannst hann sýna mér samhygð í veikindum sem hrjáðu mig þá. Hann stóð með mér og hafði upplifað þjáningu þó að mín væri ekkert í samanburði við hans. Maður frá Afríku sýndi myndina sem hann valdi. Hún var af sterkum Kristi, sigrandi Kristi. En af hverju? Jú, í Afríku þýddi ekkert annað en að sýna að Jesús væri máttugur. Hann yrði að vera sigrandi Kristur — sá sem hafði vald.

Kristur, eða myndin af honum, er alls konar og talar inn í aðstæður okkar hvernig sem þær eru.

Myndin í Kling og Bang var eftir Evu Ísleifs. Ég keypti hana vegna þess að hún var öðruvísi en aðrar myndir af krossum. Þar var engin róða en á henni voru punktar sem mér fundust einkennilegir. Sjálfar útlínur krossins og hlutföll voru hefðbundin. Við frekara áhorf sá ég að punktarnir voru mismargir á hverjum fleti og miðjunni voru þeir þrír. Hvað var ég eiginlega að horfa á? Mér datt í hug að hér væri komin djúp guðfræði sem ég þekkti ekki. Ég horfði á myndina en fór svo að líta á aðrar myndir á sýningunni. Þar voru ekki fleiri krossmyndir en margt annað athyglisvert.

Þegar ég fór að ræða þessa mynd við aðra var sagt við mig: „Nú, sérðu ekki að þetta er teningur?“ Það var og! Ég skammaðist mín fyrir að hafa ekki séð þetta strax. Auðvitað átti að brjóta krossinn saman svo úr yrði teningur. Ágætis föndur það!

Til að sættast við skilningsleysið hugsaði ég: Ef list vekur spurningar þá er hún góð.

En fyrir mér er kross samt alltaf kross sem ég tengi við kross Krists á Golgata. Var ekki einmitt teningnum kastað þar?

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir