
Óskar Magnússon á kirkjuþingi
Óskar Magnússon sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins á aðventunni og flytur lesendum bráðsmellna sögu sem blönduð er kímni og alvöru.
Hann er rithöfundur og bóndi á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð, sóknarnefndarformaður í
Breiðabólstaðarsókn og kirkjuþingsmaður.
Óskar lauk lagaprófum frá Háskóla Íslands og George Washington University í Bandaríkjunum. Hann hefur starfað bæði sem lögmaður og forstjóri margra stórra atvinnufyrirtækja.
Óskar hefur sent frá sér fjölda bóka og nýlega kom út smásagnasafn eftir hann sem heitir Vinsamlega réttið úr sætisbökunum og hefur þegar hlotið framúrskarandi góðar viðtökur.
Aðventusaga:
„Þér unga æskufólk!“
„Virðulegi forseti.“ Kirkjuþingsmaðurinn leit ögrandi yfir salinn og sagði loks eftir áhrifamikla þögn: „Unga fólkið.“
Og nú var eins og nýr kraftur leystist úr læðingi á kirkjuþinginu sem fram að þessu hafði verið heldur dauflegt. Þar hafði verið rætt um fjármál kirkjunnar en lítið fútt í þeirri umræðu. Fjármálin voru komin í gott stand en einn lærður kirkjuþingsmaður flutti til öryggis tillögu um að skipuð yrði sérstök rannsóknarnefnd til að kanna hvernig (í ósköpunum) stæði á því. Þetta væri ekki einleikið. Hann vildi fá að sjá öll fylgiskjöl síðustu þrjú árin.
En unga fólkið. Öllum var létt. Um það gátu allir talað og nú í fyrsta skipti í sögunni tóku allir kirkjuþingsmenn til máls til að taka undir orð upphafsmannsins sem þó hafði ekki sagt nema tvö orð: „Unga fólkið.“
„Við verðum að auka veg unga fólksins. Mér skilst að það hafi ekki nema tólf mætt á kirkjuþing unga fólksins. Það gengur ekki.“ Þarna var annar kirkjuþingsmaður, þéttbýlismaður, kominn í ræðustólinn. „Við verðum að hjálpa þeim til að trekkja að ungt fólk. Vera með einhverja atburði, pubquiz eða eitthvað. Ha?“ Þessi þingmaður hafði þá óvenjulegu ræðutækni að skjóta orðinu „ha“ hátt og snjallt, annað slagið inn í ræður sínar. Hrukku menn þá við og sumir héldu jafnvel að hann hefði verið að tala við þá. „Ha?“
Næsti ræðumaður stakk upp á því að unga fólkið fengi sjálfkrafa einn fulltrúa á kirkjuþingi fullorðna fólksins. Sú tillaga þótti ekki ganga nógu langt og nú fóru margar hendur á loft. Forseti kirkjuþings fullorðinna átti fullt í fangi með að ná niður nöfnunum en svo hófst einstakur örlætiskafli kirkjuþings.
„Ég legg til að unga fólkið fái tvo fulltrúa,“ sagði leikmaður austan af landi sem var kunnur af því að hafa alltaf rétt fyrir sér í öllum málum, jafnvel þótt hann þyrfti að skipta um skoðun nokkrum sinnum á leiðinni. Næsti ræðumaður var prófessor í trúarbragðafræðum sem hafði málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Prófessorinn taldi nú rétt að taka undir; unga fólkið væri augljóslega á fræðasviði hans. Hann sagði um leið og hann leit glaðbeittur yfir þingheim: „Ég legg til að unga fólkið fái þrjá fulltrúa.“
„Nú erum við að tala saman,“ hvíslaði sóknarnefndarformaður af Suðurlandi að sessunaut sínum. Sóknarnefndarformaðurinn hafði komist inn á kirkjuþing aldraðra á hlutkesti.
Nú var fjandinn laus á sjálfu kirkjuþinginu. Hávaði fór um salinn og ljóst að þingmenn voru tilbúnir að bjóða mun betur. Forseti sá að ræðuhöld af þessu tagi mundu taka marga daga og greip til þess ráðs að standa upp og klingja bjöllunni. Með fundarhamarinn á lofti sagði forseti skörulega.
„Býður einhver betur?“
Boð bárust úr öllum áttum. Leikmaður af Norðurlandi átti hæsta boð, þegar á leið, fimmtán fulltrúar ungra. Lærður þingmaður sem kunnur var af æskulýðsstarfi lék nú óvæntan leik og bauð líka fimmtán unga þingmenn en yfirbyggðan gervigrasvöll að auki. Næsti þingmaður var lærður maður sem lengi hafði stefnt að því að verða biskup eða að minnsta kosti vígslubiskup. Búið var að samþykkja að leggja niður vígslubiskupana svo sá draumur var úti en nú brá hann hælkróki á kirkjuþingið í staðinn: „Ég legg til að unga fólkið fái vígslubiskupsembættið í Skálholti til frjálsrar ráðstöfunar.“
Forseti, sem var búinn að gera margar árangurslausar tilraunir til að loka mælendaskrá, bankaði í bjölluna; „Nú verður gert kaffihlé.“
-o0o-
Í kaffihléinu var fyrir misskilning boðið upp á erfisdrykkjufæði. Hótelstjórinn hafði talið eðli þingsins þannig að það væri viðeigandi. Þingmenn ráku upp stór augu þegar sú dýrð blasti við þeim en í ljós kom að brauðtertur, heitt aspasbrauð og majónes hafa ótrúlega róandi áhrif. Þingmenn settust niður í litlum hópum og ræddu málið af rökvísi og yfirvegun.
Við hornborðið var lærð kona sem ekki var búin að gera tilboð á uppboðinu. „Við verðum auðvitað að búa til pláss fyrir unga fólkið,“ sagði hún. „Við erum komin upp í fimmtán unga en uppboðið er ekki búið. Segjum sem svo að við náum saman um sautján fulltrúa, gervigrasvöllinn, vígslubiskup og kannski tvo prófasta og eitthvað annað smálegt, er þá ekki einfaldast að fækka leikmönnum um sautján? Þeir eru akkúrat sautján svo það þyrfti ekki að breyta svo miklu?“
Undir þetta tóku aðrir lærðir við borðið en eini leikmaðurinn sem þar sat missti majónesklessu af gafflinum á teinótta jakkafatajakkann og vestið. Eftir viðamikið hreinsunarstarf sem unnið var af kristilegri einingu óx majónesmanninum ásmegin og spurði: „En prestarnir, ætti ekkert að fækka þeim?“ Þessu hefði hann betur sleppt því engu mátti muna að meira majónes færi nú á flug. Svo sló lærða konan alla út af laginu þegar hún sagði:
„Það er ekki hægt út af lýðræðinu.“
-o0o-
Forseti kallaði til þingfundar á ný. Uppboðinu lyktaði eins og spáð hafði verið, sautján ungum skyldi boðið sæti á kirkjuþinginu. Tók nú við langvinn útfærsla á þessari tillögu. Lærðir voru alveg einhuga um að leikmenn skyldu víkja fyrir unga fólkinu. Það væri hægt að gera með einni setningu í kosningareglunum: „Enginn leikmaður getur boðið sig fram til kirkjuþings sem eldri er en 35 ára.“
Ýmis ný tilboð komu fram til viðbótar við fulltrúana sautján. Tekið var sérstaklega fram að fulltrúar unga fólksins skyldu fá fríar ferðir, hótelgistingu á minnst fjögurra stjörnu hóteli, dagpeninga og rafmagnsbíl til afnota á meðan á þingi stæði. Tvær breytingartillögur voru samþykktar í blálokin. Önnur var um að unga fólkinu yrði skaffað aðgangskort að Vinnustofu Kjarvals í Austurstræti og loks að séð yrði til þess að þau fengju öll eitthvað gott í skóinn á aðventunni ef kirkjuþing ársins hefði gengið vel.
-o0o-
Tólf sentimetra jafnfallinn snjór var yfir höfuðborginni þegar þingmenn á kirkjuþingi roskna fólksins höfðu sungið Heims um ból, faðmast og skipst á jólakveðjum. Óvenjumikil samstaða hafði ríkt á þinginu og algjör var einhugur um að verðlauna öflugt gervigrasrótarstarf unga fólksins.
Þjóðkirkjan var í mikilli sókn

Óskar Magnússon á kirkjuþingi
Óskar Magnússon sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins á aðventunni og flytur lesendum bráðsmellna sögu sem blönduð er kímni og alvöru.
Hann er rithöfundur og bóndi á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð, sóknarnefndarformaður í
Breiðabólstaðarsókn og kirkjuþingsmaður.
Óskar lauk lagaprófum frá Háskóla Íslands og George Washington University í Bandaríkjunum. Hann hefur starfað bæði sem lögmaður og forstjóri margra stórra atvinnufyrirtækja.
Óskar hefur sent frá sér fjölda bóka og nýlega kom út smásagnasafn eftir hann sem heitir Vinsamlega réttið úr sætisbökunum og hefur þegar hlotið framúrskarandi góðar viðtökur.
Aðventusaga:
„Þér unga æskufólk!“
„Virðulegi forseti.“ Kirkjuþingsmaðurinn leit ögrandi yfir salinn og sagði loks eftir áhrifamikla þögn: „Unga fólkið.“
Og nú var eins og nýr kraftur leystist úr læðingi á kirkjuþinginu sem fram að þessu hafði verið heldur dauflegt. Þar hafði verið rætt um fjármál kirkjunnar en lítið fútt í þeirri umræðu. Fjármálin voru komin í gott stand en einn lærður kirkjuþingsmaður flutti til öryggis tillögu um að skipuð yrði sérstök rannsóknarnefnd til að kanna hvernig (í ósköpunum) stæði á því. Þetta væri ekki einleikið. Hann vildi fá að sjá öll fylgiskjöl síðustu þrjú árin.
En unga fólkið. Öllum var létt. Um það gátu allir talað og nú í fyrsta skipti í sögunni tóku allir kirkjuþingsmenn til máls til að taka undir orð upphafsmannsins sem þó hafði ekki sagt nema tvö orð: „Unga fólkið.“
„Við verðum að auka veg unga fólksins. Mér skilst að það hafi ekki nema tólf mætt á kirkjuþing unga fólksins. Það gengur ekki.“ Þarna var annar kirkjuþingsmaður, þéttbýlismaður, kominn í ræðustólinn. „Við verðum að hjálpa þeim til að trekkja að ungt fólk. Vera með einhverja atburði, pubquiz eða eitthvað. Ha?“ Þessi þingmaður hafði þá óvenjulegu ræðutækni að skjóta orðinu „ha“ hátt og snjallt, annað slagið inn í ræður sínar. Hrukku menn þá við og sumir héldu jafnvel að hann hefði verið að tala við þá. „Ha?“
Næsti ræðumaður stakk upp á því að unga fólkið fengi sjálfkrafa einn fulltrúa á kirkjuþingi fullorðna fólksins. Sú tillaga þótti ekki ganga nógu langt og nú fóru margar hendur á loft. Forseti kirkjuþings fullorðinna átti fullt í fangi með að ná niður nöfnunum en svo hófst einstakur örlætiskafli kirkjuþings.
„Ég legg til að unga fólkið fái tvo fulltrúa,“ sagði leikmaður austan af landi sem var kunnur af því að hafa alltaf rétt fyrir sér í öllum málum, jafnvel þótt hann þyrfti að skipta um skoðun nokkrum sinnum á leiðinni. Næsti ræðumaður var prófessor í trúarbragðafræðum sem hafði málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Prófessorinn taldi nú rétt að taka undir; unga fólkið væri augljóslega á fræðasviði hans. Hann sagði um leið og hann leit glaðbeittur yfir þingheim: „Ég legg til að unga fólkið fái þrjá fulltrúa.“
„Nú erum við að tala saman,“ hvíslaði sóknarnefndarformaður af Suðurlandi að sessunaut sínum. Sóknarnefndarformaðurinn hafði komist inn á kirkjuþing aldraðra á hlutkesti.
Nú var fjandinn laus á sjálfu kirkjuþinginu. Hávaði fór um salinn og ljóst að þingmenn voru tilbúnir að bjóða mun betur. Forseti sá að ræðuhöld af þessu tagi mundu taka marga daga og greip til þess ráðs að standa upp og klingja bjöllunni. Með fundarhamarinn á lofti sagði forseti skörulega.
„Býður einhver betur?“
Boð bárust úr öllum áttum. Leikmaður af Norðurlandi átti hæsta boð, þegar á leið, fimmtán fulltrúar ungra. Lærður þingmaður sem kunnur var af æskulýðsstarfi lék nú óvæntan leik og bauð líka fimmtán unga þingmenn en yfirbyggðan gervigrasvöll að auki. Næsti þingmaður var lærður maður sem lengi hafði stefnt að því að verða biskup eða að minnsta kosti vígslubiskup. Búið var að samþykkja að leggja niður vígslubiskupana svo sá draumur var úti en nú brá hann hælkróki á kirkjuþingið í staðinn: „Ég legg til að unga fólkið fái vígslubiskupsembættið í Skálholti til frjálsrar ráðstöfunar.“
Forseti, sem var búinn að gera margar árangurslausar tilraunir til að loka mælendaskrá, bankaði í bjölluna; „Nú verður gert kaffihlé.“
-o0o-
Í kaffihléinu var fyrir misskilning boðið upp á erfisdrykkjufæði. Hótelstjórinn hafði talið eðli þingsins þannig að það væri viðeigandi. Þingmenn ráku upp stór augu þegar sú dýrð blasti við þeim en í ljós kom að brauðtertur, heitt aspasbrauð og majónes hafa ótrúlega róandi áhrif. Þingmenn settust niður í litlum hópum og ræddu málið af rökvísi og yfirvegun.
Við hornborðið var lærð kona sem ekki var búin að gera tilboð á uppboðinu. „Við verðum auðvitað að búa til pláss fyrir unga fólkið,“ sagði hún. „Við erum komin upp í fimmtán unga en uppboðið er ekki búið. Segjum sem svo að við náum saman um sautján fulltrúa, gervigrasvöllinn, vígslubiskup og kannski tvo prófasta og eitthvað annað smálegt, er þá ekki einfaldast að fækka leikmönnum um sautján? Þeir eru akkúrat sautján svo það þyrfti ekki að breyta svo miklu?“
Undir þetta tóku aðrir lærðir við borðið en eini leikmaðurinn sem þar sat missti majónesklessu af gafflinum á teinótta jakkafatajakkann og vestið. Eftir viðamikið hreinsunarstarf sem unnið var af kristilegri einingu óx majónesmanninum ásmegin og spurði: „En prestarnir, ætti ekkert að fækka þeim?“ Þessu hefði hann betur sleppt því engu mátti muna að meira majónes færi nú á flug. Svo sló lærða konan alla út af laginu þegar hún sagði:
„Það er ekki hægt út af lýðræðinu.“
-o0o-
Forseti kallaði til þingfundar á ný. Uppboðinu lyktaði eins og spáð hafði verið, sautján ungum skyldi boðið sæti á kirkjuþinginu. Tók nú við langvinn útfærsla á þessari tillögu. Lærðir voru alveg einhuga um að leikmenn skyldu víkja fyrir unga fólkinu. Það væri hægt að gera með einni setningu í kosningareglunum: „Enginn leikmaður getur boðið sig fram til kirkjuþings sem eldri er en 35 ára.“
Ýmis ný tilboð komu fram til viðbótar við fulltrúana sautján. Tekið var sérstaklega fram að fulltrúar unga fólksins skyldu fá fríar ferðir, hótelgistingu á minnst fjögurra stjörnu hóteli, dagpeninga og rafmagnsbíl til afnota á meðan á þingi stæði. Tvær breytingartillögur voru samþykktar í blálokin. Önnur var um að unga fólkinu yrði skaffað aðgangskort að Vinnustofu Kjarvals í Austurstræti og loks að séð yrði til þess að þau fengju öll eitthvað gott í skóinn á aðventunni ef kirkjuþing ársins hefði gengið vel.
-o0o-
Tólf sentimetra jafnfallinn snjór var yfir höfuðborginni þegar þingmenn á kirkjuþingi roskna fólksins höfðu sungið Heims um ból, faðmast og skipst á jólakveðjum. Óvenjumikil samstaða hafði ríkt á þinginu og algjör var einhugur um að verðlauna öflugt gervigrasrótarstarf unga fólksins.
Þjóðkirkjan var í mikilli sókn





