Í desember á nýliðnu ári var 30 ára vígsluafmæli Glerárkirkju fyrir norðan fagnað með málþingi undir ofangreindri fyrirsögn. Eitthvað var um að kirkjufólk reisti burstir og segði: Kirkjan er alltaf á krossgötum! Það má til sanns vegar færa. Gatnamót eru þó af ýmsu tagi. Sum eru mislæg, umferð á öðrum er stýrt með ljósum, svo eru til krossgötur þar sem hvert og eitt okkar verður að bjarga sér. Segja má að íslenska þjóðkirkjan sé stödd á einum slíkum um þessi áramót.

Breyttur veruleiki

Á skömmum tíma hefur félagslegt umhverfi þjóðkirkjunnar breyst í grundvallaratriðum. Vissulega tók að bera á því þegar fyrir aldamótin 1900 að þjóðkirkjan væri að verða „úti á þekju þjóðlífsins“ eins og það var orðað þá. Fram eftir tuttugustu öldinni má þó segja að mjög hafi eimt eftir af trúarmenningu fyrri alda hér á landi en með því hugtaki er átt við samfélagshætti sem mótast augljóslega af trúarlegri hugsun. Merki þess sáust hvarvetna í þjóðlífinu. Þjóðkirkjan var einnig miðlæg stofnun í samfélaginu og gat látið til sín taka á fjölmörgum sviðum, m.a. teygt anga sína langt inn í skólakerfið. Nú er öldin önnur.

Á 21. öld starfar kirkjan í veraldlegu lýðræðissamfélagi sem einkennist af fjölhyggju. Hún hefur því annan hljómgrunn og er þrengri stakkur sniðinn en áður. Fyrir heilli öld, nánar til tekið á árunum 1907–1926, var t.d. skýrri verkaskiptingu kirkju og skóla komið á hér á landi með nútímalegum fræðslulögum. Skólanum var m.a. ekki lengur ætlað að koma að trúfræðslu barna.

Það er skiljanlegt að mörg sem unna kirkjunni sakni liðinnar tíðar og álíti að þá hafi hún haft meiri hljómgrunn og  sterkari áhrif landi og lýð til heilla. Það er þó alls ekki víst. Trúarmenningin var alls ekki til vitnis um að trúarþelið hafi endilega verið sterkara eða útbreiddara þá en nú. Birtingarmynd þess var einfaldlega önnur. Það er líka skiljanlegt að fólki sem skortir sögulegan skilning finnist sem sótt sé að kirkjunni, hún og guð hennar séu þögguð og ásaki jafnvel einhverja ótilgreinda fulltrúa hennar um undanhald og uppgjöf. „Panikkviðbrögð“ af þessu tagi hafa verið áberandi síðustu vikurnar og mörg orðið til að leggja orð í þann belg.

Það mundi líklega leiða til uppbyggilegri umræðu ef horfst væri í augu við að kirkjan býr hvorki við þöggun né ofsóknir og það er heldur engin/-n sem hefur brugðist. Tímarnir eru einfaldlega breyttir: Kirkjan, þar á meðal íslenska þjóðkirkjan, er á krossgötum. — Nú er lag að reyna að ná áttum í stað þessa að bíta í skjaldarrendur.

Hvert ætti kirkjan að stefna?

Það kom í minn hlut á málþinginu í Glerárkirkju að velta upp þeim möguleikum sem kirkjan hefur að velja um þá stuttu stund sem hún bíður eftir grænu ljósi. Til einföldunar má segja að hún geti valið um að beygja til áttarinnar X eða áttarinnar Y.

Velji kirkjan að beygja til X leggur hún allt kapp á að varðveita stöðu sína, stjórnkerfi og starfshætti í sem stofnunarlegustu horfi. Þá leitast hún við að taka sem minnstum breytingum og freistar þess að halda sínum rétti í umferðinni uns ástandið á krossgötunum róast hvenær sem það svo kann að gerast.

Beygi hún til Y leggur hún rækt við annan þátt í fari sínu. Hún skilgreinir sig þá ekki sem stofnun heldur sem grasrótarsamtök og þátttakanda í þriðja geira samfélagsins innan um fjölmörg önnur félög og samtök sem vinna á óhagnaðardrifinn hátt að heill og velferð. Í stað þess að leitast við að halda hefðbundinni stöðu sinni og rétti keppir hún eftir að vera trúverðugur þátttakandi í samfélagsuppbyggingu þar sem margir og ólíkir aðilar leggja sitt af mörkum út frá eigin forsendum í stað þess að spyrja um eigin hag.

Hefur kirkjan val?

Sú spurning kann að vakna hvort kirkjan geti valið frjálst í þessu efni; hvort henni sé ekki í blóð borið að vera stofnun í líkri mynd og hún hefur lengstum borið. Það skal viðurkennt að lengst af í sögu sinni hefur kirkjan komið fram sem valdastofnun í samfélaginu. Á hinn bóginn má spyrja hvort Kristi hafi verið efst í huga að koma slíkri stofnun á laggirnar eða hvort Lúther hafi endilega verið efst í huga að berja í stofnunarlega bresti Rómakirkjunnar. Var báðum ekki ofar í huga að efla kristnina sem söfnuð eða grasrótarhreyfingu? — Hér skal undirstrikað að þar með er ekki sagt að kirkjan þurfi ekki að búa að traustum stofnunarlegum innviðum þótt hún velji að koma fram sem grasrótarhreyfing.

Vissulega má halda því fram að gildandi þjóðkirkjulög mótist af því að kirkjan hafi lengst af verið opinber stofnun. Þau skapa henni þó svigrúm til að þróast og taka breytingum í hvora áttina sem er: verða jafnvel enn hreinræktaðri stofnun en lögin endilega krefjast eða beygja í gagnstæða átt og leggja rækt við eðli sitt sem grasrótarhreyfingar.

Þriðja atriðið sem getur bundið kirkjuna í vali hennar — auk guðfræðinnar og lögfræðinnar — er svo kirkjujarðasamkomulagið sem er grundvöllur undir fjármögnun hennar.  Samkomulagið frá 1997 njörvaði kirkjuna niður í það stofnunarlega horf sem hún hafði þegar það var gert. Með því var slegið föstu að ríkið greiddi fyrir jarðirnar með launum eins biskups, tveggja vígslubiskupa, 138 presta og prófasta auk 18  starfsmanna biskupsembættisins. Þarna var um rauntölur að ræða. Hvorki var krafist hagræðingar né spurt hvort auka þyrfti í. Auk þess vann samkomulagið gegn því að slíkrar spurningar væri spurt. Það gat kostað peninga! — Þannig vann samkomulagið gegn þróun og breytingum.

Nú háttar allt öðru vísi til. Nýja samkomulagið frá 2019 opnar algerlega nýjar gáttir í starfsháttum. Gagngreiðsla ríkisins til þjóðkirkjunnar er nú óháð fjölda biskupa, prófasta, presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar og er eign hennar. Hún hefur því sjálfstæðan fjárhag og ákveður sjálf fjölda starfsmanna sinna sem og hvort hún ræður presta eða t.d. djákna til starfa. Kirkjuþingi er svo ætlað að setja starfsreglur um nýtingu greiðslunnar innan kirkjunnar.

Samningur þessi gerir það að verkum að þjóðkirkjunni er algerlega frjálst að kosta öllu til að varðveita stofnunarlega innviði sína óbreytta og þróa þá jafnvel á enn hátimbraðri hátt en nú er. Hún hefur líka fullt frelsi til að beygja til áttarinnar Y: Þróast í átt að grasrótarhreyfingu, öflugum þátttakanda í þriðja geira samfélagsins, trúverðugum geranda í íslensku þjóðlífi. Hafi hún djörfung, sköpunarmátt, ímyndunarafl og hugsjónir mun ekkert stöðva hana.

Hvað vill þjóðkirkjan?

Á þeim krossgötum sem kirkjan stendur nú á ríður á öllu að hún geri upp við sig hvert hún vill fara. Vill hún vera stofnun eða trúfélag? Þau eru einmitt grasrótarhreyfingar í þriðja geiranum. Í þessu sambandi rifjast upp ræða sem einn af æðstuprestunum hélt á kirkjuþingi 2021–22. Hann ræddi kirkjujarðasamkomulagið 2019 og lagði áherslu á að þrátt fyrir orðalag þess yrði að skilja það í ljósi eldri samningsins og standa vörð um þann starfsmanna-„strúktúr“ sem þar var kveðið á um. Virtist hann líta svo á að þar væri að finna rök fyrir fjárhæð gagngreiðslunnar þótt svo væri auðvitað alls ekki. Það sem lá undir steini var einfaldlega varðstaða um óbreytt ástand undir kjörorðinu „Aftur til fortíðar“! — Er þetta vilji kirkjuforystunnar? Já, vissulega sumra en hvað segir nýkjörið kirkjuþing? Hvert vill það að þjóðkirkjan stefni? — Þess er völin og kvölin!

Gleðilegt ár!

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Í desember á nýliðnu ári var 30 ára vígsluafmæli Glerárkirkju fyrir norðan fagnað með málþingi undir ofangreindri fyrirsögn. Eitthvað var um að kirkjufólk reisti burstir og segði: Kirkjan er alltaf á krossgötum! Það má til sanns vegar færa. Gatnamót eru þó af ýmsu tagi. Sum eru mislæg, umferð á öðrum er stýrt með ljósum, svo eru til krossgötur þar sem hvert og eitt okkar verður að bjarga sér. Segja má að íslenska þjóðkirkjan sé stödd á einum slíkum um þessi áramót.

Breyttur veruleiki

Á skömmum tíma hefur félagslegt umhverfi þjóðkirkjunnar breyst í grundvallaratriðum. Vissulega tók að bera á því þegar fyrir aldamótin 1900 að þjóðkirkjan væri að verða „úti á þekju þjóðlífsins“ eins og það var orðað þá. Fram eftir tuttugustu öldinni má þó segja að mjög hafi eimt eftir af trúarmenningu fyrri alda hér á landi en með því hugtaki er átt við samfélagshætti sem mótast augljóslega af trúarlegri hugsun. Merki þess sáust hvarvetna í þjóðlífinu. Þjóðkirkjan var einnig miðlæg stofnun í samfélaginu og gat látið til sín taka á fjölmörgum sviðum, m.a. teygt anga sína langt inn í skólakerfið. Nú er öldin önnur.

Á 21. öld starfar kirkjan í veraldlegu lýðræðissamfélagi sem einkennist af fjölhyggju. Hún hefur því annan hljómgrunn og er þrengri stakkur sniðinn en áður. Fyrir heilli öld, nánar til tekið á árunum 1907–1926, var t.d. skýrri verkaskiptingu kirkju og skóla komið á hér á landi með nútímalegum fræðslulögum. Skólanum var m.a. ekki lengur ætlað að koma að trúfræðslu barna.

Það er skiljanlegt að mörg sem unna kirkjunni sakni liðinnar tíðar og álíti að þá hafi hún haft meiri hljómgrunn og  sterkari áhrif landi og lýð til heilla. Það er þó alls ekki víst. Trúarmenningin var alls ekki til vitnis um að trúarþelið hafi endilega verið sterkara eða útbreiddara þá en nú. Birtingarmynd þess var einfaldlega önnur. Það er líka skiljanlegt að fólki sem skortir sögulegan skilning finnist sem sótt sé að kirkjunni, hún og guð hennar séu þögguð og ásaki jafnvel einhverja ótilgreinda fulltrúa hennar um undanhald og uppgjöf. „Panikkviðbrögð“ af þessu tagi hafa verið áberandi síðustu vikurnar og mörg orðið til að leggja orð í þann belg.

Það mundi líklega leiða til uppbyggilegri umræðu ef horfst væri í augu við að kirkjan býr hvorki við þöggun né ofsóknir og það er heldur engin/-n sem hefur brugðist. Tímarnir eru einfaldlega breyttir: Kirkjan, þar á meðal íslenska þjóðkirkjan, er á krossgötum. — Nú er lag að reyna að ná áttum í stað þessa að bíta í skjaldarrendur.

Hvert ætti kirkjan að stefna?

Það kom í minn hlut á málþinginu í Glerárkirkju að velta upp þeim möguleikum sem kirkjan hefur að velja um þá stuttu stund sem hún bíður eftir grænu ljósi. Til einföldunar má segja að hún geti valið um að beygja til áttarinnar X eða áttarinnar Y.

Velji kirkjan að beygja til X leggur hún allt kapp á að varðveita stöðu sína, stjórnkerfi og starfshætti í sem stofnunarlegustu horfi. Þá leitast hún við að taka sem minnstum breytingum og freistar þess að halda sínum rétti í umferðinni uns ástandið á krossgötunum róast hvenær sem það svo kann að gerast.

Beygi hún til Y leggur hún rækt við annan þátt í fari sínu. Hún skilgreinir sig þá ekki sem stofnun heldur sem grasrótarsamtök og þátttakanda í þriðja geira samfélagsins innan um fjölmörg önnur félög og samtök sem vinna á óhagnaðardrifinn hátt að heill og velferð. Í stað þess að leitast við að halda hefðbundinni stöðu sinni og rétti keppir hún eftir að vera trúverðugur þátttakandi í samfélagsuppbyggingu þar sem margir og ólíkir aðilar leggja sitt af mörkum út frá eigin forsendum í stað þess að spyrja um eigin hag.

Hefur kirkjan val?

Sú spurning kann að vakna hvort kirkjan geti valið frjálst í þessu efni; hvort henni sé ekki í blóð borið að vera stofnun í líkri mynd og hún hefur lengstum borið. Það skal viðurkennt að lengst af í sögu sinni hefur kirkjan komið fram sem valdastofnun í samfélaginu. Á hinn bóginn má spyrja hvort Kristi hafi verið efst í huga að koma slíkri stofnun á laggirnar eða hvort Lúther hafi endilega verið efst í huga að berja í stofnunarlega bresti Rómakirkjunnar. Var báðum ekki ofar í huga að efla kristnina sem söfnuð eða grasrótarhreyfingu? — Hér skal undirstrikað að þar með er ekki sagt að kirkjan þurfi ekki að búa að traustum stofnunarlegum innviðum þótt hún velji að koma fram sem grasrótarhreyfing.

Vissulega má halda því fram að gildandi þjóðkirkjulög mótist af því að kirkjan hafi lengst af verið opinber stofnun. Þau skapa henni þó svigrúm til að þróast og taka breytingum í hvora áttina sem er: verða jafnvel enn hreinræktaðri stofnun en lögin endilega krefjast eða beygja í gagnstæða átt og leggja rækt við eðli sitt sem grasrótarhreyfingar.

Þriðja atriðið sem getur bundið kirkjuna í vali hennar — auk guðfræðinnar og lögfræðinnar — er svo kirkjujarðasamkomulagið sem er grundvöllur undir fjármögnun hennar.  Samkomulagið frá 1997 njörvaði kirkjuna niður í það stofnunarlega horf sem hún hafði þegar það var gert. Með því var slegið föstu að ríkið greiddi fyrir jarðirnar með launum eins biskups, tveggja vígslubiskupa, 138 presta og prófasta auk 18  starfsmanna biskupsembættisins. Þarna var um rauntölur að ræða. Hvorki var krafist hagræðingar né spurt hvort auka þyrfti í. Auk þess vann samkomulagið gegn því að slíkrar spurningar væri spurt. Það gat kostað peninga! — Þannig vann samkomulagið gegn þróun og breytingum.

Nú háttar allt öðru vísi til. Nýja samkomulagið frá 2019 opnar algerlega nýjar gáttir í starfsháttum. Gagngreiðsla ríkisins til þjóðkirkjunnar er nú óháð fjölda biskupa, prófasta, presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar og er eign hennar. Hún hefur því sjálfstæðan fjárhag og ákveður sjálf fjölda starfsmanna sinna sem og hvort hún ræður presta eða t.d. djákna til starfa. Kirkjuþingi er svo ætlað að setja starfsreglur um nýtingu greiðslunnar innan kirkjunnar.

Samningur þessi gerir það að verkum að þjóðkirkjunni er algerlega frjálst að kosta öllu til að varðveita stofnunarlega innviði sína óbreytta og þróa þá jafnvel á enn hátimbraðri hátt en nú er. Hún hefur líka fullt frelsi til að beygja til áttarinnar Y: Þróast í átt að grasrótarhreyfingu, öflugum þátttakanda í þriðja geira samfélagsins, trúverðugum geranda í íslensku þjóðlífi. Hafi hún djörfung, sköpunarmátt, ímyndunarafl og hugsjónir mun ekkert stöðva hana.

Hvað vill þjóðkirkjan?

Á þeim krossgötum sem kirkjan stendur nú á ríður á öllu að hún geri upp við sig hvert hún vill fara. Vill hún vera stofnun eða trúfélag? Þau eru einmitt grasrótarhreyfingar í þriðja geiranum. Í þessu sambandi rifjast upp ræða sem einn af æðstuprestunum hélt á kirkjuþingi 2021–22. Hann ræddi kirkjujarðasamkomulagið 2019 og lagði áherslu á að þrátt fyrir orðalag þess yrði að skilja það í ljósi eldri samningsins og standa vörð um þann starfsmanna-„strúktúr“ sem þar var kveðið á um. Virtist hann líta svo á að þar væri að finna rök fyrir fjárhæð gagngreiðslunnar þótt svo væri auðvitað alls ekki. Það sem lá undir steini var einfaldlega varðstaða um óbreytt ástand undir kjörorðinu „Aftur til fortíðar“! — Er þetta vilji kirkjuforystunnar? Já, vissulega sumra en hvað segir nýkjörið kirkjuþing? Hvert vill það að þjóðkirkjan stefni? — Þess er völin og kvölin!

Gleðilegt ár!

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?