Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, er kærkominn gestur í Gestaglugga Kirkjublaðsins.is, og hugleiðir nú trúfrelsi og margt sem því tengist Mynd: Kirkjublaðið.is
Í fyrri pistli á þessum vettvangi hélt undirritaður því fram að þjóðkirkjan væri nú þegar vel aðgreind frá ríkisvaldinu stofnunarlega séð en að nútímaleg stefnumarkandi umræða um aðskilnað þessara tveggja stofnana væri á hinn bóginn tæpast hafin.[1] Hér á eftir sem og í pistli sem birtur verður síðar skal bent á nokkur atriði sem hafa þarf í huga þegar aðskilnaðarmálið kann að bera á góma en óhjákvæmilegt er að til þess komi á næstu árum eða áratugum.
Oft er litið svo á að aðskilnaður ríkis og kirkju feli í sér að hið opinbera skuli engin afskipti hafa af trúarlífi landsmanna og það að öllu leyti heyra undir svokallað einkasvið og þar með einkamálarétt í réttarfarslegu tilliti. Hér verður þvert á móti litið svo á að þrátt fyrir að bundinn kunni að verða endi á þjóðkirkjuskipan í landinu og öll lagaumgjörð um trúarlíf landsmanna verði einfölduð en í þessu tvennu felst aðskilnaður ríkis og kirkju — eða ríkis og trúar ef því er að skipta — þurfi hið opinbera eftir sem áður að koma að ýmsum þeim málum sem að trú, trúariðkun og trúarbrögðum lúta. Því er alltaf matsatriði hvort og þá hvenær „fullum aðskilnaði“ sé náð.[2]
Guðlast í tímans rás
Þegar ofangreindri spurningu skal svarað er gagnlegt að horfa til þeirra breytinga sem orðið hafa á ákvæðum laga um guðlast bæði hér á landi og víðar í seinni tíð.
Allt frá hinum eldfornu boðorðum sem finna má í Annarri og raunar einnig Fimmtu Mósebók í Gamla testamentinu hefur verið bannað að smána Guðdóminn eða Hið heilaga á nokkurn hátt.[3] Kemur það skýrast fram í þriðja boðorðinu um að leggja ekki nafn Guðs við hégóma. Þessa bannhelgi má ugglaust rekja mun lengra aftur í tímann. Eftir að kirkja og ríki höfðu tengst hvað sterkustum böndum varð guðlast ekki aðeins ein alvarlegasta synd sem nokkur maður gat ratað í heldur einnig glæpur gegn ríkinu sem hafði pyntingar, dauðadóm og aftöku í för með sér ef langt þótti gengið.
Með tilkomu hins nútímalega ríkisvalds varð aftur á móti torvelt að kveða á um Guðdóminn, helgi hans og framkomu gagnvart honum í lögum sem hvíla þurftu á veraldlegri heimsmynd og grunngildum. Guð gat því vart lengur verið andlag guðlastsins lögum samkvæmt. Áherslan var því færð frá honum og yfir á hugmyndir fólks um hann en í almennum hegningarlögum sagði lengi:
Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.[4]
Vegna þessarar greinar skarst stundum í odda milli þjóðkirkjunnar og þeirra Spaugstofumanna í kringum hátíðar eins og elstu menn muna. Annars reyndi ekki oft á ákvæðið þótt því hafi vissulega verið beitt.[5]
Ýmsum þótti að með ákvæðinu nytu trúarskoðanir og trúfélög ríkari lagaverndar en aðrar skoðanir og félög. Það má til sanns vegar færa. Síðar var guðlastsákvæðinu breytt eða því raunar skipt út fyrir annað sem stemmir stigu við hatursræðu og/eða -glæpum. Var þetta í takt við þróun í trúarrétti í nálægum löndum. Hljóðar hið nýja ákvæði þannig:
Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.[6]
Þetta ákvæði er skýrt og skorinort og veitir trúfélögum alla þá vernd sem þörf er á um leið og það stendur vörð um annars konar hópa sem greina sig frá meginstraumnum. Guðlastsákvæði af gamla skólanum virðast þar með óþörf.
Hitt er svo annað mál að yfirvöld bæði hér á landi og erlendis eiga í miklum vanda við beitingu þessa nýja ákvæðis, einkum þegar meta þarf hvenær fremur skuli horft til tjáningarfrelsis einstaklinga en hins afdráttarlausa banns gegn haturstjáningu. Hefur það upp á síðkastið ekki síst komið fram í stjórnvaldsákvörðunum og dómaframkvæmd í Svíþjóð þegar um fyrirlitlegar brennur Kóransins er að ræða. Í hinu nútímalega samfélagi virðist réttur einstaklinga vera talinn ríkari en réttur hópa, einnig minnihlutahópa, og frelsi einstaklingsins mikilvægara en tillitsemi við náungann. Þess vegna viðgangast Kóranbrennurnar. Ekki virðist vilji til að bregðast við þeim fyrr en þær taka að ógna viðskiptahagsmunum eins og er að raungerast þegar þessi orð eru rituð.
Víkur sögunni þá að ákvæðum stjórnarskrár og laga um trúfrelsi. Mega þau e.t.v. missa sín ekki síður en guðlastsákvæðið?
Trúfrelsisákvæða þörf
Í stjórnarskrá lýðveldisins hefur frá upphafi verið kveðið á um frelsi einstaklinga og mannréttindi í tveimur aðskildum köflum. Í fimmta kafla stjórnarskrárinnar frá 1874 var að finna ákvæði um trúfrelsi en önnur mannréttindi í sjötta kafla. Nú eru þessir kaflar vissulega númer sex og sjö en efnisskipanin er óbreytt. Síðari kaflinn fékk gagngera andlitslyftingu 1995 og getur því ekki talist gamall miðað við flesta aðra hluta stjórnarskrárinnar t.d. trúfrelsisákvæðin. Í mannréttindakaflanum er kveðið á um frelsi til skoðana og tjáningar sem og félagafrelsi. Spyrja má hvort þessi almennu ákvæði tryggi ekki þann rétt sem trúfrelsisákvæðunum var og er ætlað að standa vörð um.
Togstreitan milli tjáningarfrelsis einstaklinga og þeirrar verndar sem ákvæðið um haturstjáningu er ætlað að veita bæði einstaklingum og hópum bendir til að í veraldarvæddu samfélagi sé full ástæða til að kveða sérstaklega á um frelsi, rétt og vernd fólks í trúarefnum. Hér á landi virðist löggjafinn hafa komist að svipaðri niðurstöðu þar sem sérstök lög gilda um starf trúfélaga — einkum lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og lög um þjóðkirkjuna — og skera þau sig um margt frá lögum sem gilda um félög almennt.
Sérstakra trúfrelsisákvæða í stjórnarskrá og sérlaga um trúfélög er ekki þörf vegna þess að kirkjur, trú- og lífsskoðunarfélög séu í þörf fyrir eða eigi heimtingu á ríkari vernd en félög og stofnanir af öðru tagi. Lagaramminn sem um þau gildir þarf aðeins að vera við hæfi og taka mið af sérstöðu þeirra en hún verður raunar stöðugt meira áberandi eftir því sem samfélagið verður veraldlegra. Þá eykur fjölmenningin einnig þörf fyrir vandaða lagaumgjörð á trúmálasviðinu. Það er svo sérstakt umhugsunarefni hvort lengur sé ástæða til að spyrða trúfrelsisákvæðin við þjóðkirkjugrein stjórnarskrárinnar og hvort ekki ætti frekar að færa þau yfir í mannréttindakaflann.
Sérstaða trúfrelsis
Trú og trúarbrögð eru flókin fyrirbæri enda greinir fræðimenn á um hvernig þau skuli skilgreina. Löggjafinn hefur líka kosið að afmarka rúmt þau félög sem falla skuli undir lög sem gilda á trúarsviðinu. Stjórnarskráin heimilar landsmönnum að iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins og stofna um hana félög.[7] Þá kveða lög á um að sækja megi um opinbera skráningu slíkra félaga og öðlast þau þar með hlut í ýmsum þeim gæðum sem þjóðkirkjan nýtur og þá einkum rétt til sóknargjalda.
Helsta skilyrðið fyrir skráningu er að viðkomandi félag leggi stund á átrúnað eða trú. Til að gæta sanngirni og meðalhófs voru lög um skráningu trúfélaga rýmkuð 2013 á þann hátt að þau ná nú einnig til lífsskoðunarfélaga. Að skilningi laganna er hér ekki um að ræða félög um hvaða skoðanir sem er. T.d. dæmis geta félög sem stofnuð eru um pólitískar skoðanir ekki hlotið sóknargjöld. Með lífsskoðunarfélagi er aðeins átt við félög sem byggjast á veraldlegum lífsskoðunum, miða starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt og fjalla um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti. Auk þess er það skilyrði sett að félögin sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir sem séu eðlilegur og hefðbundinn þáttur í starfi þeirra.[8] Eru raunar afar fá félög sem uppfylla þessi skilyrði um athafnir og er þá oftast um félög siðrænna húmanista að ræða.
Margt í þessum lagagreinum kallar á frekari afmarkanir eða skilgreiningar: Hvað er t.d. trú eða átrúnaður? Hvenær og hvernig miða félög starf sitt við ákveðin siðferðisgildi og hversu trúverðug tengsl eru milli þess að „fjalla um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti“ og að annast athafnir á borð við útfarir? Í stað þess að negla niður í lögum hvaða félög uppfylla skilyrðin ætlast löggjafinn til að hver og ein umsókn sé metin efnislega af nefnd sérfræðinga sem í situr fræðifólk á sviði félagsvísinda, heimspeki, trúarbragðafræði og lögfræði.
Það sem augljóslega greinir þau trú- og lífsskoðunarfélög sem undir lögin falla frá öðrum félögum er að athafnir ekki síst á ævihátíðum séu fastur liður í starfi þeirra. Þegar trúfélög eiga í hlut bætast guðsþjónustur og aðrar helgiathafnir svo við. Af þessu má slá föstu að það sem einkennir félögin sem um ræðir er ekki að þau haldi fram ákveðnum kenningum eða skoðunum heldur iðki þær, þ.e. ástundi ákveðna (helgi-)siði eða ritúöl sem í tilfelli lífsskoðunarfélaga eru algerlega veraldleg. Sértækra trúfrelsisákvæða er einkum þörf til að standa vörð um einmitt þessa sérstöðu. Trúfrelsisákvæðin þurfa að tryggja réttinn til að iðka trú sína eða lífsskoðun bæði einslega og í samfélagi við aðra á hvern þann hátt sem samræmist sannfæringu hvers og eins. — Ekki er augljóst að almenn ákvæði um skoðana- og félagafrelsi geri það á fullnægjandi hátt.
Við mótun nútímalegar trúfrelsisákvæða í stjórnarskránni mætti gjarna taka mið af Mannréttindasáttmála Evrópu sem vissulega hefur lagagildi hér en þar segir:
Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. […] svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi (skáletrun HH).[9]
Þó mætti orða upptalninguna í lokin þannig að veraldlegra eða borgaralegra athafna sjái þar betur stað.
Trúfrelsi út á við og inn á við
Nú er það svo að athafnir, siðir og ritúöl verða tæpast ástunduð í einrúmi. Því kallar iðkun trúar og lífsskoðana á myndun hópa, safnaða og/eða félaga. Trúfrelsisákvæði þurfa því bæði að taka til réttar einstaklinga og hópa líkt og fram kemur í núgildandi lögum. Í tímans rás hefur áherslan í trúfrelsisákvæðunum færst með áberandi hætti frá frelsi hópa eða félaga yfir á frelsi einstaklinga. Hér á landi á trúarlegt félagafrelsi sér líka mun lengri sögu en einstaklingsbundið trúfrelsi.
Þá þarf að vera svo um trúfrelsi búið að réttur fólks sé tryggður bæði út á við og inn á við. Er þar átt við að fólk fái iðkað trú sína án óþæginda eða ógnana af hálfu ríkisins og/eða samfélagsins, sem og þeirra trúfélaga sem það kanna að hafa „fæðst inn í“, verið skráð í sem börn eða kosið sjálft að ganga í en síðar snúið við baki. Á þessu er tekið í Mannréttindasáttmálanum en þar segir:
Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu […].[10]
Hér liggur a.m.k. eitt skráð trúfélag undir rökstuddum grun um að torvelda fólki mjög að yfirgefa það. Af þeim sökum væri æskilegt að taka þetta atriði upp í trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar þótt ákvæðið hafi lagagildi hér.
Trúfrelsi, fjölmenning og minnihlutar
Þörf fyrir trúfrelsi og vandaða lagaumgjörð um það eykst í takt við aukna trúarlega fjölmenningu í landinu. Hér hefur lúthersk kristni verið samofin menningu og samfélagi um aldir og verið hluti af þjóðarvitund Íslendinga allt fram á síðari áratugi. Lútherska kirkjan og þau sem henni fylgja eru því ekki í þörf fyrir öllu skýrari trúfrelsislöggjöf en þegar er til staðar. Svipuðu máli gegnir um önnur kristin trúfélög.
Öðru vísi háttar til um þau sem tilheyra trúarlegum minnihlutahópum sem ekki eiga sér langa sögu hér á landi. Þau mega tíðum sæta tortryggni og framandgervingu sem oftar en ekki stafar af fordómum í garð trúariðkunar sem víkur frá kristnum trúarháttum, sem og fáfræði um tengsl trúar og menningar utan hinna veraldarvæddu Vesturlanda — einkum Norðurlanda. Hvaða leið svo sem farin kann að verða við aðskilnað ríkis og kirkju og/eða trúar í framtíðinni veltur því mikið á að trúarlegur réttur allra, einstaklinga og hópa — ekki síst minnihlutahópa — verði tryggður með vönduðum og frjálslyndum trúfrelsisákvæðum í lögum jafnt sem stjórnarskrá.
Farsæl samskipti í fjölmenningarsamfélagi eru ekki hvað síst undir því komin að fólk finni að það geti í senn umborið og virt nýja og jafnvel framandi trúariðkun og haldið tryggð við eigin hefðir í því efni. Aðlögun að nýju samfélagi gengur líka greiðast þar sem þau sem flytja milli menningarheima geta tileinkað sér nýja menningu án þess að rjúfa tengslin við sína eigin hvort sem þau nú felast í tungumáli eða trúarbrögðum. Þörfin fyrir sérstæk trúfrelsisákvæði hefur því e.t.v. aldrei verið ríkari en einmitt nú.
Tilvísanir
[1] Hjalti Hugason, „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“, kirkjubladid.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/hefur-adskilnadur-rikis-og-kirkju-att-ser-stad-hugleidingar-ut-fra-hirdisbrefi-biskups/
[2] Benda má á að árið 2000 voru gerðar miklar breytingar á sambandi ríkis og lúthersku meirihlutakirkjunnar í Svíþjóð. Í aðdraganda breytinganna var þeim jafnan lýst sem aðskilnaður skyldi verða. Þegar frá leið var fremur tekið að ræða um að tengslabreyting hafi átt sér stað. Varpar þetta ljósi á eðli aðskilnaðar sem langtímaferli.
[3] 2Mós 20: 2–17; 5Mós 5: 6–21.
[4] Eyja Margrét Brynjarsdóttir, „Hvað er að guðlasta“, visindavefur.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2199
[5] Síðast 1983. Sjá Kristín Ólafsdóttir, „Dæmdur fyrirguðlast 1983 en hlýtur frelsisverðlaun í dag“, visir.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.visir.is/g/2017170909738.
[6] Almenn hegningarlög nr. 19/1940 (233. gr. a), althingi.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1940019.html
[7] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (63. gr.), althingi.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html
[8] Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999 (3. gr.) , althingi.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/153b/1999108.html
[9] Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 (9. gr.), althingi.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1994062.html.
[10] Sama.
Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, er kærkominn gestur í Gestaglugga Kirkjublaðsins.is, og hugleiðir nú trúfrelsi og margt sem því tengist Mynd: Kirkjublaðið.is
Í fyrri pistli á þessum vettvangi hélt undirritaður því fram að þjóðkirkjan væri nú þegar vel aðgreind frá ríkisvaldinu stofnunarlega séð en að nútímaleg stefnumarkandi umræða um aðskilnað þessara tveggja stofnana væri á hinn bóginn tæpast hafin.[1] Hér á eftir sem og í pistli sem birtur verður síðar skal bent á nokkur atriði sem hafa þarf í huga þegar aðskilnaðarmálið kann að bera á góma en óhjákvæmilegt er að til þess komi á næstu árum eða áratugum.
Oft er litið svo á að aðskilnaður ríkis og kirkju feli í sér að hið opinbera skuli engin afskipti hafa af trúarlífi landsmanna og það að öllu leyti heyra undir svokallað einkasvið og þar með einkamálarétt í réttarfarslegu tilliti. Hér verður þvert á móti litið svo á að þrátt fyrir að bundinn kunni að verða endi á þjóðkirkjuskipan í landinu og öll lagaumgjörð um trúarlíf landsmanna verði einfölduð en í þessu tvennu felst aðskilnaður ríkis og kirkju — eða ríkis og trúar ef því er að skipta — þurfi hið opinbera eftir sem áður að koma að ýmsum þeim málum sem að trú, trúariðkun og trúarbrögðum lúta. Því er alltaf matsatriði hvort og þá hvenær „fullum aðskilnaði“ sé náð.[2]
Guðlast í tímans rás
Þegar ofangreindri spurningu skal svarað er gagnlegt að horfa til þeirra breytinga sem orðið hafa á ákvæðum laga um guðlast bæði hér á landi og víðar í seinni tíð.
Allt frá hinum eldfornu boðorðum sem finna má í Annarri og raunar einnig Fimmtu Mósebók í Gamla testamentinu hefur verið bannað að smána Guðdóminn eða Hið heilaga á nokkurn hátt.[3] Kemur það skýrast fram í þriðja boðorðinu um að leggja ekki nafn Guðs við hégóma. Þessa bannhelgi má ugglaust rekja mun lengra aftur í tímann. Eftir að kirkja og ríki höfðu tengst hvað sterkustum böndum varð guðlast ekki aðeins ein alvarlegasta synd sem nokkur maður gat ratað í heldur einnig glæpur gegn ríkinu sem hafði pyntingar, dauðadóm og aftöku í för með sér ef langt þótti gengið.
Með tilkomu hins nútímalega ríkisvalds varð aftur á móti torvelt að kveða á um Guðdóminn, helgi hans og framkomu gagnvart honum í lögum sem hvíla þurftu á veraldlegri heimsmynd og grunngildum. Guð gat því vart lengur verið andlag guðlastsins lögum samkvæmt. Áherslan var því færð frá honum og yfir á hugmyndir fólks um hann en í almennum hegningarlögum sagði lengi:
Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.[4]
Vegna þessarar greinar skarst stundum í odda milli þjóðkirkjunnar og þeirra Spaugstofumanna í kringum hátíðar eins og elstu menn muna. Annars reyndi ekki oft á ákvæðið þótt því hafi vissulega verið beitt.[5]
Ýmsum þótti að með ákvæðinu nytu trúarskoðanir og trúfélög ríkari lagaverndar en aðrar skoðanir og félög. Það má til sanns vegar færa. Síðar var guðlastsákvæðinu breytt eða því raunar skipt út fyrir annað sem stemmir stigu við hatursræðu og/eða -glæpum. Var þetta í takt við þróun í trúarrétti í nálægum löndum. Hljóðar hið nýja ákvæði þannig:
Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.[6]
Þetta ákvæði er skýrt og skorinort og veitir trúfélögum alla þá vernd sem þörf er á um leið og það stendur vörð um annars konar hópa sem greina sig frá meginstraumnum. Guðlastsákvæði af gamla skólanum virðast þar með óþörf.
Hitt er svo annað mál að yfirvöld bæði hér á landi og erlendis eiga í miklum vanda við beitingu þessa nýja ákvæðis, einkum þegar meta þarf hvenær fremur skuli horft til tjáningarfrelsis einstaklinga en hins afdráttarlausa banns gegn haturstjáningu. Hefur það upp á síðkastið ekki síst komið fram í stjórnvaldsákvörðunum og dómaframkvæmd í Svíþjóð þegar um fyrirlitlegar brennur Kóransins er að ræða. Í hinu nútímalega samfélagi virðist réttur einstaklinga vera talinn ríkari en réttur hópa, einnig minnihlutahópa, og frelsi einstaklingsins mikilvægara en tillitsemi við náungann. Þess vegna viðgangast Kóranbrennurnar. Ekki virðist vilji til að bregðast við þeim fyrr en þær taka að ógna viðskiptahagsmunum eins og er að raungerast þegar þessi orð eru rituð.
Víkur sögunni þá að ákvæðum stjórnarskrár og laga um trúfrelsi. Mega þau e.t.v. missa sín ekki síður en guðlastsákvæðið?
Trúfrelsisákvæða þörf
Í stjórnarskrá lýðveldisins hefur frá upphafi verið kveðið á um frelsi einstaklinga og mannréttindi í tveimur aðskildum köflum. Í fimmta kafla stjórnarskrárinnar frá 1874 var að finna ákvæði um trúfrelsi en önnur mannréttindi í sjötta kafla. Nú eru þessir kaflar vissulega númer sex og sjö en efnisskipanin er óbreytt. Síðari kaflinn fékk gagngera andlitslyftingu 1995 og getur því ekki talist gamall miðað við flesta aðra hluta stjórnarskrárinnar t.d. trúfrelsisákvæðin. Í mannréttindakaflanum er kveðið á um frelsi til skoðana og tjáningar sem og félagafrelsi. Spyrja má hvort þessi almennu ákvæði tryggi ekki þann rétt sem trúfrelsisákvæðunum var og er ætlað að standa vörð um.
Togstreitan milli tjáningarfrelsis einstaklinga og þeirrar verndar sem ákvæðið um haturstjáningu er ætlað að veita bæði einstaklingum og hópum bendir til að í veraldarvæddu samfélagi sé full ástæða til að kveða sérstaklega á um frelsi, rétt og vernd fólks í trúarefnum. Hér á landi virðist löggjafinn hafa komist að svipaðri niðurstöðu þar sem sérstök lög gilda um starf trúfélaga — einkum lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og lög um þjóðkirkjuna — og skera þau sig um margt frá lögum sem gilda um félög almennt.
Sérstakra trúfrelsisákvæða í stjórnarskrá og sérlaga um trúfélög er ekki þörf vegna þess að kirkjur, trú- og lífsskoðunarfélög séu í þörf fyrir eða eigi heimtingu á ríkari vernd en félög og stofnanir af öðru tagi. Lagaramminn sem um þau gildir þarf aðeins að vera við hæfi og taka mið af sérstöðu þeirra en hún verður raunar stöðugt meira áberandi eftir því sem samfélagið verður veraldlegra. Þá eykur fjölmenningin einnig þörf fyrir vandaða lagaumgjörð á trúmálasviðinu. Það er svo sérstakt umhugsunarefni hvort lengur sé ástæða til að spyrða trúfrelsisákvæðin við þjóðkirkjugrein stjórnarskrárinnar og hvort ekki ætti frekar að færa þau yfir í mannréttindakaflann.
Sérstaða trúfrelsis
Trú og trúarbrögð eru flókin fyrirbæri enda greinir fræðimenn á um hvernig þau skuli skilgreina. Löggjafinn hefur líka kosið að afmarka rúmt þau félög sem falla skuli undir lög sem gilda á trúarsviðinu. Stjórnarskráin heimilar landsmönnum að iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins og stofna um hana félög.[7] Þá kveða lög á um að sækja megi um opinbera skráningu slíkra félaga og öðlast þau þar með hlut í ýmsum þeim gæðum sem þjóðkirkjan nýtur og þá einkum rétt til sóknargjalda.
Helsta skilyrðið fyrir skráningu er að viðkomandi félag leggi stund á átrúnað eða trú. Til að gæta sanngirni og meðalhófs voru lög um skráningu trúfélaga rýmkuð 2013 á þann hátt að þau ná nú einnig til lífsskoðunarfélaga. Að skilningi laganna er hér ekki um að ræða félög um hvaða skoðanir sem er. T.d. dæmis geta félög sem stofnuð eru um pólitískar skoðanir ekki hlotið sóknargjöld. Með lífsskoðunarfélagi er aðeins átt við félög sem byggjast á veraldlegum lífsskoðunum, miða starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt og fjalla um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti. Auk þess er það skilyrði sett að félögin sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir sem séu eðlilegur og hefðbundinn þáttur í starfi þeirra.[8] Eru raunar afar fá félög sem uppfylla þessi skilyrði um athafnir og er þá oftast um félög siðrænna húmanista að ræða.
Margt í þessum lagagreinum kallar á frekari afmarkanir eða skilgreiningar: Hvað er t.d. trú eða átrúnaður? Hvenær og hvernig miða félög starf sitt við ákveðin siðferðisgildi og hversu trúverðug tengsl eru milli þess að „fjalla um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti“ og að annast athafnir á borð við útfarir? Í stað þess að negla niður í lögum hvaða félög uppfylla skilyrðin ætlast löggjafinn til að hver og ein umsókn sé metin efnislega af nefnd sérfræðinga sem í situr fræðifólk á sviði félagsvísinda, heimspeki, trúarbragðafræði og lögfræði.
Það sem augljóslega greinir þau trú- og lífsskoðunarfélög sem undir lögin falla frá öðrum félögum er að athafnir ekki síst á ævihátíðum séu fastur liður í starfi þeirra. Þegar trúfélög eiga í hlut bætast guðsþjónustur og aðrar helgiathafnir svo við. Af þessu má slá föstu að það sem einkennir félögin sem um ræðir er ekki að þau haldi fram ákveðnum kenningum eða skoðunum heldur iðki þær, þ.e. ástundi ákveðna (helgi-)siði eða ritúöl sem í tilfelli lífsskoðunarfélaga eru algerlega veraldleg. Sértækra trúfrelsisákvæða er einkum þörf til að standa vörð um einmitt þessa sérstöðu. Trúfrelsisákvæðin þurfa að tryggja réttinn til að iðka trú sína eða lífsskoðun bæði einslega og í samfélagi við aðra á hvern þann hátt sem samræmist sannfæringu hvers og eins. — Ekki er augljóst að almenn ákvæði um skoðana- og félagafrelsi geri það á fullnægjandi hátt.
Við mótun nútímalegar trúfrelsisákvæða í stjórnarskránni mætti gjarna taka mið af Mannréttindasáttmála Evrópu sem vissulega hefur lagagildi hér en þar segir:
Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. […] svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi (skáletrun HH).[9]
Þó mætti orða upptalninguna í lokin þannig að veraldlegra eða borgaralegra athafna sjái þar betur stað.
Trúfrelsi út á við og inn á við
Nú er það svo að athafnir, siðir og ritúöl verða tæpast ástunduð í einrúmi. Því kallar iðkun trúar og lífsskoðana á myndun hópa, safnaða og/eða félaga. Trúfrelsisákvæði þurfa því bæði að taka til réttar einstaklinga og hópa líkt og fram kemur í núgildandi lögum. Í tímans rás hefur áherslan í trúfrelsisákvæðunum færst með áberandi hætti frá frelsi hópa eða félaga yfir á frelsi einstaklinga. Hér á landi á trúarlegt félagafrelsi sér líka mun lengri sögu en einstaklingsbundið trúfrelsi.
Þá þarf að vera svo um trúfrelsi búið að réttur fólks sé tryggður bæði út á við og inn á við. Er þar átt við að fólk fái iðkað trú sína án óþæginda eða ógnana af hálfu ríkisins og/eða samfélagsins, sem og þeirra trúfélaga sem það kanna að hafa „fæðst inn í“, verið skráð í sem börn eða kosið sjálft að ganga í en síðar snúið við baki. Á þessu er tekið í Mannréttindasáttmálanum en þar segir:
Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu […].[10]
Hér liggur a.m.k. eitt skráð trúfélag undir rökstuddum grun um að torvelda fólki mjög að yfirgefa það. Af þeim sökum væri æskilegt að taka þetta atriði upp í trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar þótt ákvæðið hafi lagagildi hér.
Trúfrelsi, fjölmenning og minnihlutar
Þörf fyrir trúfrelsi og vandaða lagaumgjörð um það eykst í takt við aukna trúarlega fjölmenningu í landinu. Hér hefur lúthersk kristni verið samofin menningu og samfélagi um aldir og verið hluti af þjóðarvitund Íslendinga allt fram á síðari áratugi. Lútherska kirkjan og þau sem henni fylgja eru því ekki í þörf fyrir öllu skýrari trúfrelsislöggjöf en þegar er til staðar. Svipuðu máli gegnir um önnur kristin trúfélög.
Öðru vísi háttar til um þau sem tilheyra trúarlegum minnihlutahópum sem ekki eiga sér langa sögu hér á landi. Þau mega tíðum sæta tortryggni og framandgervingu sem oftar en ekki stafar af fordómum í garð trúariðkunar sem víkur frá kristnum trúarháttum, sem og fáfræði um tengsl trúar og menningar utan hinna veraldarvæddu Vesturlanda — einkum Norðurlanda. Hvaða leið svo sem farin kann að verða við aðskilnað ríkis og kirkju og/eða trúar í framtíðinni veltur því mikið á að trúarlegur réttur allra, einstaklinga og hópa — ekki síst minnihlutahópa — verði tryggður með vönduðum og frjálslyndum trúfrelsisákvæðum í lögum jafnt sem stjórnarskrá.
Farsæl samskipti í fjölmenningarsamfélagi eru ekki hvað síst undir því komin að fólk finni að það geti í senn umborið og virt nýja og jafnvel framandi trúariðkun og haldið tryggð við eigin hefðir í því efni. Aðlögun að nýju samfélagi gengur líka greiðast þar sem þau sem flytja milli menningarheima geta tileinkað sér nýja menningu án þess að rjúfa tengslin við sína eigin hvort sem þau nú felast í tungumáli eða trúarbrögðum. Þörfin fyrir sérstæk trúfrelsisákvæði hefur því e.t.v. aldrei verið ríkari en einmitt nú.
Tilvísanir
[1] Hjalti Hugason, „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“, kirkjubladid.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/hefur-adskilnadur-rikis-og-kirkju-att-ser-stad-hugleidingar-ut-fra-hirdisbrefi-biskups/
[2] Benda má á að árið 2000 voru gerðar miklar breytingar á sambandi ríkis og lúthersku meirihlutakirkjunnar í Svíþjóð. Í aðdraganda breytinganna var þeim jafnan lýst sem aðskilnaður skyldi verða. Þegar frá leið var fremur tekið að ræða um að tengslabreyting hafi átt sér stað. Varpar þetta ljósi á eðli aðskilnaðar sem langtímaferli.
[3] 2Mós 20: 2–17; 5Mós 5: 6–21.
[4] Eyja Margrét Brynjarsdóttir, „Hvað er að guðlasta“, visindavefur.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2199
[5] Síðast 1983. Sjá Kristín Ólafsdóttir, „Dæmdur fyrirguðlast 1983 en hlýtur frelsisverðlaun í dag“, visir.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.visir.is/g/2017170909738.
[6] Almenn hegningarlög nr. 19/1940 (233. gr. a), althingi.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1940019.html
[7] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (63. gr.), althingi.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html
[8] Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999 (3. gr.) , althingi.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/153b/1999108.html
[9] Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 (9. gr.), althingi.is, sótt 22. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1994062.html.
[10] Sama.