Sindri Geir Óskarsson er fæddur 1991 í Noregi en alinn upp á Akureyri. Hann lauk guðfræðinámi frá Háskóla Íslands 2016 með skiptinámsstoppi í MF (Vitenskapelig Høyskole) í Ósló. Sindri Geir hóf prestsskap í Brønnøysund í Noregi 2016 en þjónar nú sem sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri.

Þessi grein er 1292 orð og tekur því um 4 mínútur í lestri, ef þú nennir því ekki er hér stutta útgáfan:

Guðfræði biskups Íslands skiptir máli. Kandídatarnir tveir eru fulltrúar tveggja ólíkra nálgana á guðfræðina, út frá prédikunum þeirra og kynningarefni staðset ég Guðmund Karl á armi íhaldssemi og biblíufestu en Guðrúnu á armi framsækni og skynsemisnálgunar. Hvorugt þeirra er í öfgum, en guðfræði og trúarsýn leiðtoga þjóðkirkjunnar þarf að skipta máli við val okkar. Vonandi er þetta hvatning til þín að lesa bara alla greinina.

Það stendur mikið til, við erum að velja biskup.

Vinir og stuðningsfólk Guðrúnar og Guðmundar keppast um að hringja í kjörmenn, ræða kosti síns biskupsefnis og hvetja fólk til þátttöku í kosningunum. Í brotabroti af þeim samtölum sem nú fara fram er rædd guðfræði. Það er skiljanlegt að rekstrarmál og skipulag hvíli á sóknarnefndarfólki, að tónlistarmál hvíli á kórstjórum og organistum, og við prestarnir og djáknarnir, við veljum út frá vonum og venslum, en fæst hafa tekið djúpa guðfræðilega umræðu við kostina tvo.

Á fundum í öllum landshlutum hafa þau sagt frá sinni trúarsýn, og sinni guðfræði, auk þess sem prédikanir þeirra beggja eru aðgengilegar á heimasíðum biskupsefnanna. Út frá því efni sem aðgengilegt er á netinu leyfði ég mér að íhuga guðfræði beggja kandídata og máta þau við frekar einfalda mynd af fjölbreytileika guðfræðinnar. Þetta langar mig að gera því það er ljóst að sú guðfræði sem litar hugsun, trú og orð biskups Íslands mun óhjákvæmilega hafa áhrif á boðun kirkjunnar og þá ímynd sem þjóðkirkjan hefur í samfélaginu.

Guðfræðilegur breytileiki í einföldu máli.

Íhaldssemi eða frjálslyndi. Afturhald eða framsækni. Þessi hugtök eru ekki nægjanlega góð þegar við ætlum að fjalla um þá breidd sem getur falist í guðfræðilegri sýn fólks. Það er hægt að vera samtímis íhaldssamur á helgihald og framsækinn í nálgun á málefni samfélagsins, eða afturhaldssamur í mannréttindamálum en mjög frjálslyndur þegar kemur að samkomum safnaðarins.

Mögulega getum við samt séð fyrir okkur tvo póla og gefið okkur að meginheimildir guðfræðinnar séu tvær. Sú fyrri er opinberun Guðs, þá fyrst og fremst eins og hún birtist í Heilagri ritningu, hin er mannleg skynsemi, en löngum hefur verið deilt um vægi hvorrar heimildar fyrir sig.

Á þeim póli þar sem við staðsetjum opinberun Guðs má finna klassíska skoðun guðfræðinnar að í orði Guðs hreinu og ómenguðu sé að finna sannleikann sem leiðir til hjálpræðis, óháð stað og stund. Slík guðfræði er biblíuföst, áherslan er „að ofan“, að okkur standi til boða að meðtaka Guðs orð og sjá þar opinberun Guðs sem taka ber alvarlega og hafa að grundvelli lífi okkar.

Á skynsemispólnum getum við sagt að áherslan komi „að neðan,“ úr reynslunni, að sannleikurinn geti verið margræður og atriðum klassískrar guðfræði jafnvel hafnað í nafni skynsemi og víðsýni. Það er guðfræði sem gengur út frá og viðurkennir að reynslan mótar manninn, að við lesum og skiljum ritninguna og trúararfinn út frá okkar reynslu af lífinu. Á þessum armi má finna kvennaguðfræði, frelsunarguðfræði og guðfræði svartra, stefnur sem leyfa sér að lesa ritninguna út frá sjónarhóli þeirra sem staðið hafa halloka í samfélaginu.

Svo hvar staðset ég þau?

Það er kannski fyrirsjáanlegt en ég kem Guðmundi Karli fyrir opinberunarmegin og Guðrúnu skynsemismegin. Hvorugur kandídatinn dansar yst á pólunum, en þau eru sitt hvoru megin við miðju.

Það segir mér að þrátt fyrir að í kjöri séu tveir góðir kandídatar þá séu þau langt því frá að vera eins, eða að það muni ekki skipta máli hvort verði valið. Því það þeirra sem við veljum tekur sína biblíusýn, sína guðfræði og sína nálgun á samfélagið með sér inn í embættið.

Ég hlustaði eftir því hvað kandídatarnir lögðu áherslu á í máli sínu á fundunum og hvernig þau sögðu frá trú sinni. Þar ræddi Guðmundur til dæmis hvernig viðhorf hans til hjónabands samkynhneigðra breyttist, en það var á forsendum opinberunar Guðs en ekki vegna mannréttindasjónarmiða eða samtals við samtímann. Á sömu fundum hefur Guðrún lagt mikið upp úr því hlutverki kirkjunnar að standa vörð um mannréttindi allra, og er þar á skynsemislínu í samtali við samfélagið, en sækir þó grundvöll í hennar túlkun á boðun Krists.

Í prédikunum eru þau bæði mjög grundvölluð í klassískri kristinni guðfræði og bera trú sinni fallegan vitnisburð. Það er upplifunin að þegar kemur að ásnum „að ofan – að neðan“ þá haldi þau sig á sinni hlið, en komu þó bæði á óvart. Guðmundur útleggur á biblíumiðaðri hátt en Guðrún og við hlustun á prédikanirnar hans fann ég að minn hugur vildi skilja eða útleggja söguna á annan hátt, sækja meira í áttina að framsækinni guðfræði. Þó var það svo að ég hvíldi vel í orðum Guðmundar og hann er laginn við að miðla boðskapi um elsku og náð Guðs á hátt sem talar inn í hjartað.

Það kom mér á óvart að Guðrún er biblíumiðaðri en ég hafði búist við og dansaði eiginlega nær miðjunni en ég hafði ákveðið fyrirfram að hún myndi gera. Hennar nálgun sækir meira í að nota dæmi úr daglegu lífi og málefnum samtímans til að opna og upplýsa ritningartexta og rík áhersla á að trúin hafi erindi við líf okkar, að hún eigi að vera hreyfiafl. Það var ekkert sjokkerandi í prédikun þeirra, en þau eru bæði góðir prédikarar og hafa ólíkan stíl. Þau nota ólíkan efnivið til að útleggja ritninguna en hvorugt þeirra skautar út á jaðarinn eða teygir sig lengra en eðlilegt er í lúterskri kirkju.

En af hverju þarf að tala um guðfræði?

Það er einfalt. Guðfræði kristins einstaklings er pínu eins og andrúmsloftið í kringum þig, þú tekur ekkert sérstaklega eftir því þótt það sé þarna, nema skyndilega fylli blómaangan vitin eða ef díseltrukkur spænir fram hjá og skilur þig eftir í reyk og stybbu. Guðfræðin sem litar líf langflests þjóðkirkjufólks er einföld en kjörnuð í orðunum sem við heyrum svo oft; „ég á mína barnatrú.“ Það er guðfræði traustsins, Guð er með okkur og það er nóg. Hjá mörgu 12 spora fólki sjáum við flóknari guðfræði, þar sem upprisan, fyrirgefningin, náðin og frelsið verða lifandi veruleiki, hjá þeim sem sækja á djúp dulúðarinnar má finna áherslu á Guð hið innra og sem fyllir alla sköpunina með nærveru sinni. Guðfræði er ákveðin hugmyndafræði, ákveðinn rammi sem við gefum sýn okkar á heiminn, og það litar þá orð okkar og verk, hugsanir okkar og viðhorf þótt við pælum ekki í henni dagsdaglega. Eins og andrúmsloftið þá er hún þarna, og það skiptir máli hvort við öndum að okkur ilmi eða ólykt. Það sem þú trúir litar það sem þú gerir. Þess vegna fullyrði ég að það þarf að ræða guðfræði kandídatanna beggja og í aðdraganda þessa biskupskjörs hefur verið allt of lítil áhersla á það.

Svo ég spyr:

Hvaða guðfræði vilt þú að liti íslensku þjóðkirkjuna næsta áratuginn eða svo?
Hallast þú að pólnum sem við eyrnamerkjum biblíufestu, opinberun að ofan og íhaldssemi?
Ertu nær pólnum sem við tengjum við reynsluna að neðan, skynsemisnálgun, framsækni og samtali við samtímann?

Hvorugt þeirra er í öfgum, en það er afgerandi að þau tilheyra sitthvoru sviðinu og það mun lita biskupstíð þeirra, nálgun þeirra á samtímann, þátttöku biskups í umræðu um mannréttindamál og samfélagsmál og ekki síst mun það lita ímynd þjóðkirkjunnar.

Við tilheyrum kirkju sem hefur breiðan faðm og hefur rými fyrir fjölbreytta guðfræði, sem betur fer.

Ég hvet þig til að fara inn á heimasíður Guðmundar og Guðrúnar og lesa eða hlusta á prédikanir, velta fyrir þér trúarsýn þeirra, nálgun þeirra á ritninguna og samfélagið og vanda valið vel, því þetta atriði sem ekki hefur fengið nægjanlega athygli skiptir kirkjuna öllu máli.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Sindri Geir Óskarsson er fæddur 1991 í Noregi en alinn upp á Akureyri. Hann lauk guðfræðinámi frá Háskóla Íslands 2016 með skiptinámsstoppi í MF (Vitenskapelig Høyskole) í Ósló. Sindri Geir hóf prestsskap í Brønnøysund í Noregi 2016 en þjónar nú sem sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri.

Þessi grein er 1292 orð og tekur því um 4 mínútur í lestri, ef þú nennir því ekki er hér stutta útgáfan:

Guðfræði biskups Íslands skiptir máli. Kandídatarnir tveir eru fulltrúar tveggja ólíkra nálgana á guðfræðina, út frá prédikunum þeirra og kynningarefni staðset ég Guðmund Karl á armi íhaldssemi og biblíufestu en Guðrúnu á armi framsækni og skynsemisnálgunar. Hvorugt þeirra er í öfgum, en guðfræði og trúarsýn leiðtoga þjóðkirkjunnar þarf að skipta máli við val okkar. Vonandi er þetta hvatning til þín að lesa bara alla greinina.

Það stendur mikið til, við erum að velja biskup.

Vinir og stuðningsfólk Guðrúnar og Guðmundar keppast um að hringja í kjörmenn, ræða kosti síns biskupsefnis og hvetja fólk til þátttöku í kosningunum. Í brotabroti af þeim samtölum sem nú fara fram er rædd guðfræði. Það er skiljanlegt að rekstrarmál og skipulag hvíli á sóknarnefndarfólki, að tónlistarmál hvíli á kórstjórum og organistum, og við prestarnir og djáknarnir, við veljum út frá vonum og venslum, en fæst hafa tekið djúpa guðfræðilega umræðu við kostina tvo.

Á fundum í öllum landshlutum hafa þau sagt frá sinni trúarsýn, og sinni guðfræði, auk þess sem prédikanir þeirra beggja eru aðgengilegar á heimasíðum biskupsefnanna. Út frá því efni sem aðgengilegt er á netinu leyfði ég mér að íhuga guðfræði beggja kandídata og máta þau við frekar einfalda mynd af fjölbreytileika guðfræðinnar. Þetta langar mig að gera því það er ljóst að sú guðfræði sem litar hugsun, trú og orð biskups Íslands mun óhjákvæmilega hafa áhrif á boðun kirkjunnar og þá ímynd sem þjóðkirkjan hefur í samfélaginu.

Guðfræðilegur breytileiki í einföldu máli.

Íhaldssemi eða frjálslyndi. Afturhald eða framsækni. Þessi hugtök eru ekki nægjanlega góð þegar við ætlum að fjalla um þá breidd sem getur falist í guðfræðilegri sýn fólks. Það er hægt að vera samtímis íhaldssamur á helgihald og framsækinn í nálgun á málefni samfélagsins, eða afturhaldssamur í mannréttindamálum en mjög frjálslyndur þegar kemur að samkomum safnaðarins.

Mögulega getum við samt séð fyrir okkur tvo póla og gefið okkur að meginheimildir guðfræðinnar séu tvær. Sú fyrri er opinberun Guðs, þá fyrst og fremst eins og hún birtist í Heilagri ritningu, hin er mannleg skynsemi, en löngum hefur verið deilt um vægi hvorrar heimildar fyrir sig.

Á þeim póli þar sem við staðsetjum opinberun Guðs má finna klassíska skoðun guðfræðinnar að í orði Guðs hreinu og ómenguðu sé að finna sannleikann sem leiðir til hjálpræðis, óháð stað og stund. Slík guðfræði er biblíuföst, áherslan er „að ofan“, að okkur standi til boða að meðtaka Guðs orð og sjá þar opinberun Guðs sem taka ber alvarlega og hafa að grundvelli lífi okkar.

Á skynsemispólnum getum við sagt að áherslan komi „að neðan,“ úr reynslunni, að sannleikurinn geti verið margræður og atriðum klassískrar guðfræði jafnvel hafnað í nafni skynsemi og víðsýni. Það er guðfræði sem gengur út frá og viðurkennir að reynslan mótar manninn, að við lesum og skiljum ritninguna og trúararfinn út frá okkar reynslu af lífinu. Á þessum armi má finna kvennaguðfræði, frelsunarguðfræði og guðfræði svartra, stefnur sem leyfa sér að lesa ritninguna út frá sjónarhóli þeirra sem staðið hafa halloka í samfélaginu.

Svo hvar staðset ég þau?

Það er kannski fyrirsjáanlegt en ég kem Guðmundi Karli fyrir opinberunarmegin og Guðrúnu skynsemismegin. Hvorugur kandídatinn dansar yst á pólunum, en þau eru sitt hvoru megin við miðju.

Það segir mér að þrátt fyrir að í kjöri séu tveir góðir kandídatar þá séu þau langt því frá að vera eins, eða að það muni ekki skipta máli hvort verði valið. Því það þeirra sem við veljum tekur sína biblíusýn, sína guðfræði og sína nálgun á samfélagið með sér inn í embættið.

Ég hlustaði eftir því hvað kandídatarnir lögðu áherslu á í máli sínu á fundunum og hvernig þau sögðu frá trú sinni. Þar ræddi Guðmundur til dæmis hvernig viðhorf hans til hjónabands samkynhneigðra breyttist, en það var á forsendum opinberunar Guðs en ekki vegna mannréttindasjónarmiða eða samtals við samtímann. Á sömu fundum hefur Guðrún lagt mikið upp úr því hlutverki kirkjunnar að standa vörð um mannréttindi allra, og er þar á skynsemislínu í samtali við samfélagið, en sækir þó grundvöll í hennar túlkun á boðun Krists.

Í prédikunum eru þau bæði mjög grundvölluð í klassískri kristinni guðfræði og bera trú sinni fallegan vitnisburð. Það er upplifunin að þegar kemur að ásnum „að ofan – að neðan“ þá haldi þau sig á sinni hlið, en komu þó bæði á óvart. Guðmundur útleggur á biblíumiðaðri hátt en Guðrún og við hlustun á prédikanirnar hans fann ég að minn hugur vildi skilja eða útleggja söguna á annan hátt, sækja meira í áttina að framsækinni guðfræði. Þó var það svo að ég hvíldi vel í orðum Guðmundar og hann er laginn við að miðla boðskapi um elsku og náð Guðs á hátt sem talar inn í hjartað.

Það kom mér á óvart að Guðrún er biblíumiðaðri en ég hafði búist við og dansaði eiginlega nær miðjunni en ég hafði ákveðið fyrirfram að hún myndi gera. Hennar nálgun sækir meira í að nota dæmi úr daglegu lífi og málefnum samtímans til að opna og upplýsa ritningartexta og rík áhersla á að trúin hafi erindi við líf okkar, að hún eigi að vera hreyfiafl. Það var ekkert sjokkerandi í prédikun þeirra, en þau eru bæði góðir prédikarar og hafa ólíkan stíl. Þau nota ólíkan efnivið til að útleggja ritninguna en hvorugt þeirra skautar út á jaðarinn eða teygir sig lengra en eðlilegt er í lúterskri kirkju.

En af hverju þarf að tala um guðfræði?

Það er einfalt. Guðfræði kristins einstaklings er pínu eins og andrúmsloftið í kringum þig, þú tekur ekkert sérstaklega eftir því þótt það sé þarna, nema skyndilega fylli blómaangan vitin eða ef díseltrukkur spænir fram hjá og skilur þig eftir í reyk og stybbu. Guðfræðin sem litar líf langflests þjóðkirkjufólks er einföld en kjörnuð í orðunum sem við heyrum svo oft; „ég á mína barnatrú.“ Það er guðfræði traustsins, Guð er með okkur og það er nóg. Hjá mörgu 12 spora fólki sjáum við flóknari guðfræði, þar sem upprisan, fyrirgefningin, náðin og frelsið verða lifandi veruleiki, hjá þeim sem sækja á djúp dulúðarinnar má finna áherslu á Guð hið innra og sem fyllir alla sköpunina með nærveru sinni. Guðfræði er ákveðin hugmyndafræði, ákveðinn rammi sem við gefum sýn okkar á heiminn, og það litar þá orð okkar og verk, hugsanir okkar og viðhorf þótt við pælum ekki í henni dagsdaglega. Eins og andrúmsloftið þá er hún þarna, og það skiptir máli hvort við öndum að okkur ilmi eða ólykt. Það sem þú trúir litar það sem þú gerir. Þess vegna fullyrði ég að það þarf að ræða guðfræði kandídatanna beggja og í aðdraganda þessa biskupskjörs hefur verið allt of lítil áhersla á það.

Svo ég spyr:

Hvaða guðfræði vilt þú að liti íslensku þjóðkirkjuna næsta áratuginn eða svo?
Hallast þú að pólnum sem við eyrnamerkjum biblíufestu, opinberun að ofan og íhaldssemi?
Ertu nær pólnum sem við tengjum við reynsluna að neðan, skynsemisnálgun, framsækni og samtali við samtímann?

Hvorugt þeirra er í öfgum, en það er afgerandi að þau tilheyra sitthvoru sviðinu og það mun lita biskupstíð þeirra, nálgun þeirra á samtímann, þátttöku biskups í umræðu um mannréttindamál og samfélagsmál og ekki síst mun það lita ímynd þjóðkirkjunnar.

Við tilheyrum kirkju sem hefur breiðan faðm og hefur rými fyrir fjölbreytta guðfræði, sem betur fer.

Ég hvet þig til að fara inn á heimasíður Guðmundar og Guðrúnar og lesa eða hlusta á prédikanir, velta fyrir þér trúarsýn þeirra, nálgun þeirra á ritninguna og samfélagið og vanda valið vel, því þetta atriði sem ekki hefur fengið nægjanlega athygli skiptir kirkjuna öllu máli.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?