Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is, og fjallar um eftirlit hins opinbera með trú- og lífsskoðunarfélögum en í fyrri greinum hefur hann rætt mikilvægi trúfrelsis í fjölhyggjusamfélagi nútímans. Mynd: Kirkjublaðið.is 

Í fyrri pistli hér í Kirkjublaðinu.is hélt undirritaður því fram að stjórnarskrá og lög landsins yrðu að mynda vandaða lagaumgjörð um trúarlíf landsmanna sem einkum hefði það markmið að standa vörð um frelsi fólks til að iðka trú og/eða lífsskoðun sína. Til þess voru ákvæði um almennt skoðana-, tjáningar- og félagafrelsi tæpast talin nægja. Ætti þetta jafnt við hvort sem núverandi tengslum væri haldið milli ríkis og þjóðkirkju eða hafið markvisst aðskilnaðarferli.[1]

Hér skal vikið að annarri hlið þessa máls eða þeirri innsýn í starf kirkna, trú- og lífsskoðunarfélaga sem hið opinbera verður að áskilja sér og því aðhaldi sem ríkið kann að þurfa að geta beitt félög af þessu tagi. — Á það verður seint lögð nægileg áhersla að öllu frelsi fylgir ábyrgð sem fólk verður að axla hvort sem um einstaklinga, hópa eða stofnanir er að ræða. Þetta á einnig við á trúar- og lífsskoðunarsviðinu.

Á sama punkti: Hallgrímskirkja, sýnagóga og moska – mynd: Kirkjublaðið.is

Einmitt núna stendur yfir undirbúningur undir breytingar á lögum um trú- og lífsskoðunarfélög til að tryggja aukna innsýn í rekstur þeirra. Þær koma þó ekki til af trúarréttarlegum ástæðum heldur er í þetta ráðist í framhaldi af almennum aðgerðum til að stemma stigu við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.[2] Ljóst er að félög af fyrrgreindu tagi verða að sæta sambærilegu eftirliti og önnur félög í þessu efni. Nú er bara að vona að umræður um væntanlegt lagafrumvarp beinist ekki að ósekju að einhverjum ákveðnum trú- og lífsskoðunarfélögum og auki á tortryggni og fordóma í þeirra garð.

Útmörk trúfrelsis

Samkvæmt upphaflegri gerð stjórnarskrár Íslands frá 1874 náði trúfrelsið sem þá var innleitt aðeins til þeirra sem aðhylltust eingyðisstrú en þar sagði:

„Landsmenn eiga rjett á að stofna fjelög til að þjóna guði með þeim hætti, sem bezt á við sannfæringu hvers eins, […]“.[3]

Þarna var einkum horft til kristinna kirkjudeilda og hugsanlega gyðinga. Í nútímalegu lýðræðissamfélagi er aftur á móti ekki mögulegt að setja trúfrelsi frekar en almennu skoðanafrelsi nein slík mörk. Í núverandi stjórnarskrárgrein segir enda:

„Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.“[4]

Ýmsum hefur þótt tilvísunin til siðferðis og almannareglu óljós og verið í vafa um við hvað sé átt. Úr því er ómögulegt að skera fyrr en fram hefur komið ákæra um að brotið hafi verið gegn ákvæðinu og kveðinn upp dómur í málinu. Þá þyrfti að vera um opinbert mál að ræða, þ.e. ákæru af hendi saksóknara um athæfi sem að mati embættisins væri líklegt til að vekja uppþot eða óeirðir.

Vel mætti orða þetta ákvæði stjórnarskrárinnar skýrar. Í því efni mætti t.a.m. taka mið af mannréttindasáttmála Evrópu en þar segir:

Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi.[5]

Í ákvæði stjórnarskrárinnar um skoðanafrelsi er einmitt svipuð leið farin en það hljóðar svo:

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.[6]

Ef á reyndi yrði óljóst orðalag stjórnarskrárinnar ugglaust túlkað í ljósi Mannréttindasáttmálans sem hefur lagagildi hér og er yngri en stjórnarskrárákvæðið. Þá yrði að leiða útmörk trúfrelsisins af ýmsum lagabálkum á ólíkum sviðum og koma þá fyrst upp í hugann jafnréttislög (vegna stöðu kvenna í ýmsum trúfélögum), hjúskaparlög (vegna hjónabands barna og fjölkvænis), dýraverndarlög (vegna fórna og aðferða við aflífunar) og eftir atvikum barna- og barnaverndarlög (vegna réttar barna til að láta skoðanir sínar í ljós t.d. við skráningu í trúfélag).

Ef svo sterkur grunur vaknar um að starf trú- eða lífsskoðunarfélags brjóti gegn ákvæðum sem takmarka trúfrelsi eða gegn einhverjum öðrum lögum að saksóknari hefji ákæruferli  þurfa stjórnvöld að geta brugðist við. Eðlilegt væri að hætta tímabundið að greiða félaginu sóknargjöld þar til dæmt hefur verið í málinu. Verði niðurstaðan að um brot hafi verið að ræða ber að ógilda skráningu félagsins og hugsanlega banna starfsemi þess ef brotið hefur verið stórfellt. Í slíku felast ekki takmörkun á trúfrelsi heldur eðlileg viðbrögð við ólöglegri háttsemi í skjóli trúar eða lífsskoðunar.

Eftirlit verður að vera virkt

Hér var vissulega tekið ýkt dæmi um aðhald með trú- og lífsskoðunarfélögum og ekki líklegt að tilvik af því tagi komi upp hér. Þrátt fyrir það er  mikilvægt að ekki ríki óeðlileg leynd um starf slíkra félaga og að hið opinbera hafi jafnan innsýn í starf þeirra.  Skiptir þá litlu hver tengsl ríkis og trúfélaga að öðru leyti eru.

Fíladelfíukirkjan í Reykjavík – mynd: Kirkjublaðið.is

Í núgildandi lögum er vissulega gert ráð fyrir reglubundnu eftirliti á þessu sviði. Þar segir að skráð trú- og lífsskoðunarfélög  skuli árlega skila hinu opinbera skýrslu um starfsemi sína á næstliðnu ári og gera þá grein fyrir breytingum sem kunna að hafa orðið á þeim atriðum sem tekið er tillit til við ákvörðun um skráningu. Sérstaklega er í því sambandi bent á breytingar á félagatali og ráðstöfun fjármuna. Ef útaf er brugðið eru viðurlög nokkuð ströng sem og ef skilyrði fyrir skráningu eru ekki lengur uppfyllt. Skal þá veita félaginu skriflega viðvörun og setja því frest til að bæta úr því sem áfátt er. Ef ekki er brugðist við er heimilt að fella skráningu félagsins úr gildi.[7]

Ástæða virðist til að ætla að misbrestur sé á þessu eftirliti. Helstu formskilyrði sem sett eru fyrir skráningu er að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taka þátt í starfsemi þess.[8] Vissulega er ekki kveðið á um hve margir félagsmenn þurfi að vera í trú- eða lífsskoðunarfélagi til að þessi skilyrði séu uppfyllt. Um árabil hefur þó verið miðað við að fullorðnir félagar séu ekki færri en 25. Nú starfa hér 58 skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Í fjórðungi þeirra eru félagsmenn undir þeim fjölda samkvæmt nýjustu upplýsingum.[9] Kann það að hafa þá eðlilegu skýringu að flest eru þetta félög nýbúa sem dvelja hér á landi um mislangan tíma og getur félagatalan því flökt milli ára og ekki óeðlilegt að þau séu oft fámenn. Þrátt fyrir það geta félögin gegnt mikilvægu hlutverki við að skapa fólki nærumhverfi og félagslegt stuðningsnet í framandi landi. Auk þess auðvelda þau fólki að halda tengslum við eigin menningarlegu rætur. Ströng framkvæmd í þessu efni væri því ekki æskileg.

Búdda – sæll og glaður – mynd: Kirkjublaðið.is

Hitt vekur meiri athygli að í yfir 10 prósent félaganna eru félagsmenn undir 10 og þar á meðal í sumum tilvikum börn undir 18 ára aldri. Þegar svo er komið tekur að orka tvímælis hvort félagið geti talist hafa náð eða haldið fótfestu, hafi tök á að halda upp virkri starfsemi og geti mannað fullgilda stjórn. Athyglisverðast er þó að í fimm af félögunum er enginn félagi og virðist svo hafa verið um árabil í sumum þeirra.[10] Nú skiptir þetta e.t.v. ekki máli. Ríkið verður í öllu falli ekki af sóknargjöldum til „tómra“ trúfélaga. Tæpast getur þetta þó talist vönduð stjórnsýsla. Þá má spyrja hvort hugsanlega sé hægt að taka mannlaust en skráð trúfélag yfir og beita því í öðrum tilgangi en lög gera ráð fyrir, hugsanlega til peningaþvættis. Full ástæða virðist í öllu falli til að farið sé eftir núgildandi lögum, að hið opinbera hafi innsýn í starf trú- og lífsskoðunarfélaga, fylgist með þróun þeirra og felli skráningu niður séu ekki lengur forsendur fyrir henni.

Kröfur til forstöðumanna

Forstöðumenn trú- og lífsskoðunarfélaga gegna að breyttu breytanda hliðstæðu hlutverki og prestar þjóðkirkjunnar. Þær kröfur sem gerðar eru til þeirra lögum samkvæmt eru þó mun minni og næsta formlegar. Þeir skulu ekki vera yngri en 25 ára og fullnægja að öðru leyti almennum skilyrðum til að gegna störfum á vegum hins opinbera. Eðlilega þurfa þeir þó ekki að hafa íslenskt ríkisfang enda er fólkið sem þeir þjóna í mörgum tilvikum af erlendu bergi brotnið. Þá skulu forstöðumennirnir gefa skriflega yfirlýsingu um að þeir muni af samviskusemi og lögum samkvæmt vinna þau störf sem þeim eru falin. Að öðru leyti eru trú- og lífsskoðunarfélög frjáls að því hvaða kröfur þau gera til forstöðumanna sinna hvað varðar menntun og annan undirbúning.

Kristskirkja í Reykjavík – stundum kölluð Landakotskirkja – mynd: Kirkjublaðið.is

Áhorfsmál er hvort ekki verði að gera þá kröfu til forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga að þeir þekki og séu reiðubúnir að virða grunngildi vestrænna samfélaga svo sem hugmyndir um lýðræði, jafnrétti og fjölhyggju. Þetta er t.d. mikilvægt til að þeir vinni ekki gegn aðlögun „safnaða“ sinna að samfélaginu. Þetta er ekki síður mikilvægt vegna þess að mörg sem þjónustu forstöðumannanna þiggja, hlýða á kenningar þeirra og eiga jafnvel að beygja sig undir fyrirmæli þeirra kunna að hafa dvalið hér mun lengur en forstöðumennirnir sjálfir og vera mun mótaðri af vestrænum gildum en þeir. Þessa er áríðandi að gæta þar sem trúfélög velja sér ekki alltaf forstöðumenn sjálf heldur eru þeir oft sendir hingað af fjölþjóðlegum samtökum. Æskilegt er að í slíkum félögum myndist ekki spenna og árekstrar milli safnaða og forstöðumanna sem fylgja strangari línu en félagsfólkinu er eiginleg.

Aðhald með þjóðkirkjunni

Flest af því sem hér hefur verið drepið á tekur mið af öðrum trúfélögum en þjóðkirkjunni. Sökum stærðar sinnar, stöðu í samfélaginu sem og þess sjálfræðis sem hún nýtur virðist hið opinbera ekki síður þurfa að hafa innsýn í starfsemi hennar en smærri félaga og hafa úrræði til að beita hana aðhaldi ef þurfa þykir. Þetta getur jafnvel átt við þótt enn frekari aðgreining  verði milli ríkis og kirkju en þegar er orðin og jafnvel hafið markvisst aðskilnaðarferli.[11]

Hér skal því ekki haldið fram að helstu tekjustofnar þjóðkirkjunnar, sóknargjöld og gagngjald ríkisins fyrir hinar fornu kirkjujarðir séu ríkisframlög í eiginlegum skilningi.[12] Eigi að síður er hér um almannafé að ræða. Eðlilegt virðist því að ársreikningar þjóðkirkjunnar séu opnir og aðgengilegir með formlegum hætti. Ríkisvaldið þarf á hverjum tíma að geta séð að fjármunum sé varið á þann hátt sem lög gera ráð fyrir, sem og að allur rekstur kirkjunnar sé innan fjárheimilda hvort sem um heimildir sem ríkisvaldið setur sjálft eða kirkjuþing sem fer með æðstu stjórn kirkjunnar í fjárhagslegu tilliti.[13]

Eftirlit ríkisvaldsins með þjóðkirkjunni verður þó að taka til fleiri þátta en fjármála og skiptir stjórnsýslan þar miklu máli. Samkvæmt lögum um þjóðkirkjuna ber henni í starfsháttum sínum að hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis. Þá draga þjóðkirkjulögin upp útlínur að stjórnkerfi kirkjunnar. Samkvæmt þeim hefur kirkjuþing æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar. Kirkjuþing fer m.a. með fjárstjórnarvald í kirkjunni. Þá ber því að marka stefnu kirkjunnar í sameiginlegum málum.[14] Málefni sem lúta að kenningu og helgihaldi heyra á hinn bóginn undir biskup. Í lögunum segir að hann gæti einingar kirkjunnar og hafi tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu og fari með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um (skáletrun HH).[15]

Bjalla kirkjuþings og ræðustóll – mynd: Kirkjublaðið.is

Lögin skapa þannig aðeins útlínur að stjórnkerfi sem fylla verður upp í. Það er kirkjuþingi ætlað að gera með því að setja starfsreglur sem falla að fyrirmælum laganna.[16] Þá verður að þróa verkferla sem tryggja að starfsreglum kirkjuþings og þjóðkirkjulögunum sjálfum sé fylgt. Þá verður að tryggja að og hver og einn ákvörðunar-, framkvæmda- og  ábyrgðaraðili innan kirkjunnar geti gegnt hlutverki sínu og axlað ábyrgð sína á fullnægjandi hátt. Ríður hér mest á verkaskiptingu og ekki síður samstarfi milli kirkjuþings og biskups. — Vandamál sem þjóðkirkjan glímir nú við benda ekki til að þetta hafi tekist sem skyldi í kjölfar nýrra þjóðkirkjulaga frá 2021 og að brotalamir hafi myndast í stjórnskipaninni.[17] Skal ekki farið nánar út í þá (passíu-) sálma hér.

Lokaorð

Í þremur pistlum hér í „Gestaglugganum“ hef ég leitast við að sýna fram á að frelsi í trúar- og lífsskoðunarefnum sé mikilvægt í fjölhyggjusamfélagi samtímans. Þetta kemur ekki í veg fyrir að mikilvægt er að ytri aðilar og þá fyrst og fremst ríkisvaldið hafi innsýn í trúarlega starfsemi í samfélaginu í sama mæli og í aðra geira þess. Auk þess verður hið opinbera að hafa a.m.k. einhver lágmarksúrræði til að beita trú- og lífsskoðunarfélög og -stofnanir aðhaldi ef þeim á einhvern hátt hefur láðst eða ekki tekist að fylgja þeim meginreglum sem settar hafa verið í stjórnarskrá og lögum.

Ekki verður séð að hugsanlegur aðskilnaður ríkis og kirkju leysi ríkisvaldið undan þessari aðhaldsskyldu. Að því leyti sem eftirlit er þegar til staðar hefur það verið falið sýslumannsembættinu á Norðurlandi-eystra og er framkvæmt af fulltrúa þess staðsettum á Siglufirði. Hæpið er þar sé til staðar nægileg þekking, reynsla og hreinlega tími til að þróa eftirlitið áfram. Því vaknar sú spurning hvort ekki þurfi að vera til staðar lítill „trúmálakontor“ innan stjórnarráðsins hvort sem til aðskilnaðar ríkis og kirkju og/eða trúar kemur eða ekki. Í öllu falli ber að forðast að trú- og lífsskoðunarfélög landsins geti þróast í lokuðu „skuggaboxi“ á jaðri samfélagsins.

Tilvísanir:

[1] Hjalti Hugason, „Þörf á trúfrelsi?“, kirkjubladid.is, sótt 23. júlí 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/thorf-a-trufrelsi/.

[2] Áform um breytingar á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá (aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka), samradsgatt.island.is, sótt 23. júlí 2023 af https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3510. Sjá og Mbl. 20. júlí 2023, bls. 10; 21. júlí 2023, bls. 11; 25. júlí 2023, bls. 14.

[3] Stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands nr. 1/1874 (46. gr.), stjornarradid.is, sótt 23. júlí 2023 af https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/stjornarskra/1874_stjornarskra.pdf.

[4] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (63. gr.), sótt 23. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html.

[5] Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 (9. gr.), althingi.is, sótt 23. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1994062.html.

[6] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (73. gr.), althingi.is, sótt 23. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html.

[7] Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999 (5. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/153b/1999108.html.

[8] Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999 (3. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/153b/1999108.html.

[9] Byggt á vef Hagstofunnar sjá https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__menning__5_trufelog__trufelog/MAN10001.px

[10] Sama.

[11] Um mun á aðgreiningu og aðskilnaði ríkis og kirkju kirkjubladid. is, sótt 30. júlí 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/hefur-adskilnadur-rikis-og-kirkju-att-ser-stad-hugleidingar-ut-fra-sjá Hjalti Hugason, „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“, hirdisbrefi-biskups/.

[12] Hjalti Hugason, „Félagsgjöld eða ríkisframlag? Eðli og þróun sóknargjalda“, opinvisindi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://opinvisindi.is/bitstream/handle/20.500.11815/630/2627-3621-1-PB.pdf?sequence=1&isAllowed=y.

[13] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (7. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html.

[14] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (7. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html.

[15] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (10. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html.

[16] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (8. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html.

[17] Mbl. 25. júlí 2023, bls. 1, 4.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is, og fjallar um eftirlit hins opinbera með trú- og lífsskoðunarfélögum en í fyrri greinum hefur hann rætt mikilvægi trúfrelsis í fjölhyggjusamfélagi nútímans. Mynd: Kirkjublaðið.is 

Í fyrri pistli hér í Kirkjublaðinu.is hélt undirritaður því fram að stjórnarskrá og lög landsins yrðu að mynda vandaða lagaumgjörð um trúarlíf landsmanna sem einkum hefði það markmið að standa vörð um frelsi fólks til að iðka trú og/eða lífsskoðun sína. Til þess voru ákvæði um almennt skoðana-, tjáningar- og félagafrelsi tæpast talin nægja. Ætti þetta jafnt við hvort sem núverandi tengslum væri haldið milli ríkis og þjóðkirkju eða hafið markvisst aðskilnaðarferli.[1]

Hér skal vikið að annarri hlið þessa máls eða þeirri innsýn í starf kirkna, trú- og lífsskoðunarfélaga sem hið opinbera verður að áskilja sér og því aðhaldi sem ríkið kann að þurfa að geta beitt félög af þessu tagi. — Á það verður seint lögð nægileg áhersla að öllu frelsi fylgir ábyrgð sem fólk verður að axla hvort sem um einstaklinga, hópa eða stofnanir er að ræða. Þetta á einnig við á trúar- og lífsskoðunarsviðinu.

Á sama punkti: Hallgrímskirkja, sýnagóga og moska – mynd: Kirkjublaðið.is

Einmitt núna stendur yfir undirbúningur undir breytingar á lögum um trú- og lífsskoðunarfélög til að tryggja aukna innsýn í rekstur þeirra. Þær koma þó ekki til af trúarréttarlegum ástæðum heldur er í þetta ráðist í framhaldi af almennum aðgerðum til að stemma stigu við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.[2] Ljóst er að félög af fyrrgreindu tagi verða að sæta sambærilegu eftirliti og önnur félög í þessu efni. Nú er bara að vona að umræður um væntanlegt lagafrumvarp beinist ekki að ósekju að einhverjum ákveðnum trú- og lífsskoðunarfélögum og auki á tortryggni og fordóma í þeirra garð.

Útmörk trúfrelsis

Samkvæmt upphaflegri gerð stjórnarskrár Íslands frá 1874 náði trúfrelsið sem þá var innleitt aðeins til þeirra sem aðhylltust eingyðisstrú en þar sagði:

„Landsmenn eiga rjett á að stofna fjelög til að þjóna guði með þeim hætti, sem bezt á við sannfæringu hvers eins, […]“.[3]

Þarna var einkum horft til kristinna kirkjudeilda og hugsanlega gyðinga. Í nútímalegu lýðræðissamfélagi er aftur á móti ekki mögulegt að setja trúfrelsi frekar en almennu skoðanafrelsi nein slík mörk. Í núverandi stjórnarskrárgrein segir enda:

„Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.“[4]

Ýmsum hefur þótt tilvísunin til siðferðis og almannareglu óljós og verið í vafa um við hvað sé átt. Úr því er ómögulegt að skera fyrr en fram hefur komið ákæra um að brotið hafi verið gegn ákvæðinu og kveðinn upp dómur í málinu. Þá þyrfti að vera um opinbert mál að ræða, þ.e. ákæru af hendi saksóknara um athæfi sem að mati embættisins væri líklegt til að vekja uppþot eða óeirðir.

Vel mætti orða þetta ákvæði stjórnarskrárinnar skýrar. Í því efni mætti t.a.m. taka mið af mannréttindasáttmála Evrópu en þar segir:

Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi.[5]

Í ákvæði stjórnarskrárinnar um skoðanafrelsi er einmitt svipuð leið farin en það hljóðar svo:

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.[6]

Ef á reyndi yrði óljóst orðalag stjórnarskrárinnar ugglaust túlkað í ljósi Mannréttindasáttmálans sem hefur lagagildi hér og er yngri en stjórnarskrárákvæðið. Þá yrði að leiða útmörk trúfrelsisins af ýmsum lagabálkum á ólíkum sviðum og koma þá fyrst upp í hugann jafnréttislög (vegna stöðu kvenna í ýmsum trúfélögum), hjúskaparlög (vegna hjónabands barna og fjölkvænis), dýraverndarlög (vegna fórna og aðferða við aflífunar) og eftir atvikum barna- og barnaverndarlög (vegna réttar barna til að láta skoðanir sínar í ljós t.d. við skráningu í trúfélag).

Ef svo sterkur grunur vaknar um að starf trú- eða lífsskoðunarfélags brjóti gegn ákvæðum sem takmarka trúfrelsi eða gegn einhverjum öðrum lögum að saksóknari hefji ákæruferli  þurfa stjórnvöld að geta brugðist við. Eðlilegt væri að hætta tímabundið að greiða félaginu sóknargjöld þar til dæmt hefur verið í málinu. Verði niðurstaðan að um brot hafi verið að ræða ber að ógilda skráningu félagsins og hugsanlega banna starfsemi þess ef brotið hefur verið stórfellt. Í slíku felast ekki takmörkun á trúfrelsi heldur eðlileg viðbrögð við ólöglegri háttsemi í skjóli trúar eða lífsskoðunar.

Eftirlit verður að vera virkt

Hér var vissulega tekið ýkt dæmi um aðhald með trú- og lífsskoðunarfélögum og ekki líklegt að tilvik af því tagi komi upp hér. Þrátt fyrir það er  mikilvægt að ekki ríki óeðlileg leynd um starf slíkra félaga og að hið opinbera hafi jafnan innsýn í starf þeirra.  Skiptir þá litlu hver tengsl ríkis og trúfélaga að öðru leyti eru.

Fíladelfíukirkjan í Reykjavík – mynd: Kirkjublaðið.is

Í núgildandi lögum er vissulega gert ráð fyrir reglubundnu eftirliti á þessu sviði. Þar segir að skráð trú- og lífsskoðunarfélög  skuli árlega skila hinu opinbera skýrslu um starfsemi sína á næstliðnu ári og gera þá grein fyrir breytingum sem kunna að hafa orðið á þeim atriðum sem tekið er tillit til við ákvörðun um skráningu. Sérstaklega er í því sambandi bent á breytingar á félagatali og ráðstöfun fjármuna. Ef útaf er brugðið eru viðurlög nokkuð ströng sem og ef skilyrði fyrir skráningu eru ekki lengur uppfyllt. Skal þá veita félaginu skriflega viðvörun og setja því frest til að bæta úr því sem áfátt er. Ef ekki er brugðist við er heimilt að fella skráningu félagsins úr gildi.[7]

Ástæða virðist til að ætla að misbrestur sé á þessu eftirliti. Helstu formskilyrði sem sett eru fyrir skráningu er að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taka þátt í starfsemi þess.[8] Vissulega er ekki kveðið á um hve margir félagsmenn þurfi að vera í trú- eða lífsskoðunarfélagi til að þessi skilyrði séu uppfyllt. Um árabil hefur þó verið miðað við að fullorðnir félagar séu ekki færri en 25. Nú starfa hér 58 skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Í fjórðungi þeirra eru félagsmenn undir þeim fjölda samkvæmt nýjustu upplýsingum.[9] Kann það að hafa þá eðlilegu skýringu að flest eru þetta félög nýbúa sem dvelja hér á landi um mislangan tíma og getur félagatalan því flökt milli ára og ekki óeðlilegt að þau séu oft fámenn. Þrátt fyrir það geta félögin gegnt mikilvægu hlutverki við að skapa fólki nærumhverfi og félagslegt stuðningsnet í framandi landi. Auk þess auðvelda þau fólki að halda tengslum við eigin menningarlegu rætur. Ströng framkvæmd í þessu efni væri því ekki æskileg.

Búdda – sæll og glaður – mynd: Kirkjublaðið.is

Hitt vekur meiri athygli að í yfir 10 prósent félaganna eru félagsmenn undir 10 og þar á meðal í sumum tilvikum börn undir 18 ára aldri. Þegar svo er komið tekur að orka tvímælis hvort félagið geti talist hafa náð eða haldið fótfestu, hafi tök á að halda upp virkri starfsemi og geti mannað fullgilda stjórn. Athyglisverðast er þó að í fimm af félögunum er enginn félagi og virðist svo hafa verið um árabil í sumum þeirra.[10] Nú skiptir þetta e.t.v. ekki máli. Ríkið verður í öllu falli ekki af sóknargjöldum til „tómra“ trúfélaga. Tæpast getur þetta þó talist vönduð stjórnsýsla. Þá má spyrja hvort hugsanlega sé hægt að taka mannlaust en skráð trúfélag yfir og beita því í öðrum tilgangi en lög gera ráð fyrir, hugsanlega til peningaþvættis. Full ástæða virðist í öllu falli til að farið sé eftir núgildandi lögum, að hið opinbera hafi innsýn í starf trú- og lífsskoðunarfélaga, fylgist með þróun þeirra og felli skráningu niður séu ekki lengur forsendur fyrir henni.

Kröfur til forstöðumanna

Forstöðumenn trú- og lífsskoðunarfélaga gegna að breyttu breytanda hliðstæðu hlutverki og prestar þjóðkirkjunnar. Þær kröfur sem gerðar eru til þeirra lögum samkvæmt eru þó mun minni og næsta formlegar. Þeir skulu ekki vera yngri en 25 ára og fullnægja að öðru leyti almennum skilyrðum til að gegna störfum á vegum hins opinbera. Eðlilega þurfa þeir þó ekki að hafa íslenskt ríkisfang enda er fólkið sem þeir þjóna í mörgum tilvikum af erlendu bergi brotnið. Þá skulu forstöðumennirnir gefa skriflega yfirlýsingu um að þeir muni af samviskusemi og lögum samkvæmt vinna þau störf sem þeim eru falin. Að öðru leyti eru trú- og lífsskoðunarfélög frjáls að því hvaða kröfur þau gera til forstöðumanna sinna hvað varðar menntun og annan undirbúning.

Kristskirkja í Reykjavík – stundum kölluð Landakotskirkja – mynd: Kirkjublaðið.is

Áhorfsmál er hvort ekki verði að gera þá kröfu til forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga að þeir þekki og séu reiðubúnir að virða grunngildi vestrænna samfélaga svo sem hugmyndir um lýðræði, jafnrétti og fjölhyggju. Þetta er t.d. mikilvægt til að þeir vinni ekki gegn aðlögun „safnaða“ sinna að samfélaginu. Þetta er ekki síður mikilvægt vegna þess að mörg sem þjónustu forstöðumannanna þiggja, hlýða á kenningar þeirra og eiga jafnvel að beygja sig undir fyrirmæli þeirra kunna að hafa dvalið hér mun lengur en forstöðumennirnir sjálfir og vera mun mótaðri af vestrænum gildum en þeir. Þessa er áríðandi að gæta þar sem trúfélög velja sér ekki alltaf forstöðumenn sjálf heldur eru þeir oft sendir hingað af fjölþjóðlegum samtökum. Æskilegt er að í slíkum félögum myndist ekki spenna og árekstrar milli safnaða og forstöðumanna sem fylgja strangari línu en félagsfólkinu er eiginleg.

Aðhald með þjóðkirkjunni

Flest af því sem hér hefur verið drepið á tekur mið af öðrum trúfélögum en þjóðkirkjunni. Sökum stærðar sinnar, stöðu í samfélaginu sem og þess sjálfræðis sem hún nýtur virðist hið opinbera ekki síður þurfa að hafa innsýn í starfsemi hennar en smærri félaga og hafa úrræði til að beita hana aðhaldi ef þurfa þykir. Þetta getur jafnvel átt við þótt enn frekari aðgreining  verði milli ríkis og kirkju en þegar er orðin og jafnvel hafið markvisst aðskilnaðarferli.[11]

Hér skal því ekki haldið fram að helstu tekjustofnar þjóðkirkjunnar, sóknargjöld og gagngjald ríkisins fyrir hinar fornu kirkjujarðir séu ríkisframlög í eiginlegum skilningi.[12] Eigi að síður er hér um almannafé að ræða. Eðlilegt virðist því að ársreikningar þjóðkirkjunnar séu opnir og aðgengilegir með formlegum hætti. Ríkisvaldið þarf á hverjum tíma að geta séð að fjármunum sé varið á þann hátt sem lög gera ráð fyrir, sem og að allur rekstur kirkjunnar sé innan fjárheimilda hvort sem um heimildir sem ríkisvaldið setur sjálft eða kirkjuþing sem fer með æðstu stjórn kirkjunnar í fjárhagslegu tilliti.[13]

Eftirlit ríkisvaldsins með þjóðkirkjunni verður þó að taka til fleiri þátta en fjármála og skiptir stjórnsýslan þar miklu máli. Samkvæmt lögum um þjóðkirkjuna ber henni í starfsháttum sínum að hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis. Þá draga þjóðkirkjulögin upp útlínur að stjórnkerfi kirkjunnar. Samkvæmt þeim hefur kirkjuþing æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar. Kirkjuþing fer m.a. með fjárstjórnarvald í kirkjunni. Þá ber því að marka stefnu kirkjunnar í sameiginlegum málum.[14] Málefni sem lúta að kenningu og helgihaldi heyra á hinn bóginn undir biskup. Í lögunum segir að hann gæti einingar kirkjunnar og hafi tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu og fari með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um (skáletrun HH).[15]

Bjalla kirkjuþings og ræðustóll – mynd: Kirkjublaðið.is

Lögin skapa þannig aðeins útlínur að stjórnkerfi sem fylla verður upp í. Það er kirkjuþingi ætlað að gera með því að setja starfsreglur sem falla að fyrirmælum laganna.[16] Þá verður að þróa verkferla sem tryggja að starfsreglum kirkjuþings og þjóðkirkjulögunum sjálfum sé fylgt. Þá verður að tryggja að og hver og einn ákvörðunar-, framkvæmda- og  ábyrgðaraðili innan kirkjunnar geti gegnt hlutverki sínu og axlað ábyrgð sína á fullnægjandi hátt. Ríður hér mest á verkaskiptingu og ekki síður samstarfi milli kirkjuþings og biskups. — Vandamál sem þjóðkirkjan glímir nú við benda ekki til að þetta hafi tekist sem skyldi í kjölfar nýrra þjóðkirkjulaga frá 2021 og að brotalamir hafi myndast í stjórnskipaninni.[17] Skal ekki farið nánar út í þá (passíu-) sálma hér.

Lokaorð

Í þremur pistlum hér í „Gestaglugganum“ hef ég leitast við að sýna fram á að frelsi í trúar- og lífsskoðunarefnum sé mikilvægt í fjölhyggjusamfélagi samtímans. Þetta kemur ekki í veg fyrir að mikilvægt er að ytri aðilar og þá fyrst og fremst ríkisvaldið hafi innsýn í trúarlega starfsemi í samfélaginu í sama mæli og í aðra geira þess. Auk þess verður hið opinbera að hafa a.m.k. einhver lágmarksúrræði til að beita trú- og lífsskoðunarfélög og -stofnanir aðhaldi ef þeim á einhvern hátt hefur láðst eða ekki tekist að fylgja þeim meginreglum sem settar hafa verið í stjórnarskrá og lögum.

Ekki verður séð að hugsanlegur aðskilnaður ríkis og kirkju leysi ríkisvaldið undan þessari aðhaldsskyldu. Að því leyti sem eftirlit er þegar til staðar hefur það verið falið sýslumannsembættinu á Norðurlandi-eystra og er framkvæmt af fulltrúa þess staðsettum á Siglufirði. Hæpið er þar sé til staðar nægileg þekking, reynsla og hreinlega tími til að þróa eftirlitið áfram. Því vaknar sú spurning hvort ekki þurfi að vera til staðar lítill „trúmálakontor“ innan stjórnarráðsins hvort sem til aðskilnaðar ríkis og kirkju og/eða trúar kemur eða ekki. Í öllu falli ber að forðast að trú- og lífsskoðunarfélög landsins geti þróast í lokuðu „skuggaboxi“ á jaðri samfélagsins.

Tilvísanir:

[1] Hjalti Hugason, „Þörf á trúfrelsi?“, kirkjubladid.is, sótt 23. júlí 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/thorf-a-trufrelsi/.

[2] Áform um breytingar á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá (aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka), samradsgatt.island.is, sótt 23. júlí 2023 af https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3510. Sjá og Mbl. 20. júlí 2023, bls. 10; 21. júlí 2023, bls. 11; 25. júlí 2023, bls. 14.

[3] Stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands nr. 1/1874 (46. gr.), stjornarradid.is, sótt 23. júlí 2023 af https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/stjornarskra/1874_stjornarskra.pdf.

[4] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (63. gr.), sótt 23. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html.

[5] Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 (9. gr.), althingi.is, sótt 23. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1994062.html.

[6] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (73. gr.), althingi.is, sótt 23. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html.

[7] Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999 (5. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/153b/1999108.html.

[8] Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999 (3. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/153b/1999108.html.

[9] Byggt á vef Hagstofunnar sjá https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__menning__5_trufelog__trufelog/MAN10001.px

[10] Sama.

[11] Um mun á aðgreiningu og aðskilnaði ríkis og kirkju kirkjubladid. is, sótt 30. júlí 2023 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/hefur-adskilnadur-rikis-og-kirkju-att-ser-stad-hugleidingar-ut-fra-sjá Hjalti Hugason, „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“, hirdisbrefi-biskups/.

[12] Hjalti Hugason, „Félagsgjöld eða ríkisframlag? Eðli og þróun sóknargjalda“, opinvisindi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://opinvisindi.is/bitstream/handle/20.500.11815/630/2627-3621-1-PB.pdf?sequence=1&isAllowed=y.

[13] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (7. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html.

[14] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (7. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html.

[15] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (10. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html.

[16] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (8. gr.), althingi.is, sótt 26. júlí 2023 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021077.html.

[17] Mbl. 25. júlí 2023, bls. 1, 4.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir