Jörð skelfur og á sama tíma eru kirkjuklukkur farnar að hristast og hringja á ný.

Fólk kemur saman til kirkjunnar eins og reglur leyfa. Nú má velja aftur um það hvort klukkurnar skapi einungis pirrandi hávaða eða hvort þær nái inn að innstu kviku þannig að við heyrum í hljómi þeirra þau skilaboð sem hugsanlega geta eflt eða breytt hjartslætti, leyst okkur jafnvel úr margvíslegum fjötrum í nútímanum, fjötrum hugarfars, fjötrum fátæktar, fjötrum velmegunar, fjötrum fordóma, fjötrum ofbeldis o.s.frv.

Ég nefni fjötra velmegunar, einhver gæti reyndar sett stórt spurningarmerki við það. Er velmegun ekki alltaf góð? Hún er það að mörgu leyti, það er gott að hafa meira en nóg í sig og á. En hún getur líka blindað, hún getur dregið úr þeirri þörf að rækta andann, trú, rækta huglæg gildi sem skapa raunverulega andlega velferð, hún getur skapað aðstæður í lífinu er letja hugsun um neyð annarra og máttur sjálfhverfu styrkist. Hún getur gert þjáningarbrautina mjög fjarlæga þannig að þegar við þurfum síðan að feta þá braut, sem er óhjákvæmilegt, stöndum við þar algjörlega berskjölduð og helst hissa.

Rannsóknir á því hvernig velmegun og trú fara saman hafa stundum verið birtar og eru sjaldnast trúnni í hag. Kannski höfum við það of gott þegar við erum að setja fram stórorðar skoðanir eða fullyrðingar okkar um Guð, trú, tilgang, fólk, samfélag, tilfinningaleg málefni. En erum við þá að tala um að þjáningin sé trúnni nauðsyn? Kom sr. Hallgrímur Pétursson auga á það þegar hann setti t.d. saman versið í 11. Passíusálmi?

Krossferli´að fylgja þínum
fýsir mig, Jesús kær,
væg þú veikleika mínum,
þó verði´eg álengdar fjær.
Þá trú og þol vill þrotna,
þrengir að neyðin vönd,
reis þú við reyrinn brotna
og rétt mér þína hönd.

Þetta er hvorki þægileg spurning né umfjöllunarefni og skiptir máli að benda á þá nauðsyn að taka þarf ýmislegt til greina þegar umræðan um þjáningu ber á góma.

Stundum er talað um að þjáningin hafi æðri tilgang, hún sé til þess að leiða okkur til frekari þroska og vafalaust fyrirfinnast þau sem hafa bara þá sýn, en auk þess ber að horfa til svokallaðrar róttækrar þjáningar, sem hefur í sér engan annan tilgang en þjáninguna sjálfa og hreina illsku.

Því næst mætti spyrja sig hvort við höfum eitthvert val um það hvernig við mætum þjáningarfullum aðstæðum og þá er mikilvægt að takast á við slíkar aðstæður, ekki með því að skýra þær í burtu, heldur fremur vingast við þær, og iðka samlíðan. Það felur í sér að við horfumst í augu við eigin þjáningar og annarra, könnumst við þær, grípum til aðgerða til að hjálpa og styðja fólk í neyð.

Með krossdauða sínum sýnir Jesús Kristur samlíðan í aðstæðum óútskýranlegrar illsku og kennir okkur með krossferlinu að samlíðan er fórnfús kærleikur og kraftur gegn yfirráðum illskunnar. Hallgrímur Pétursson virðist í því samhengi finna mikinn samhljóm í þjáningu Krists og vill feta þann veg með honum. Við hristum kannski höfuðið, en þá kemur að því að kannast við manninn, umhverfi hans og tíðaranda, en ekki bara burtskýra þanka hans og dæma þá vitskerta.

Þær eru reyndar stopular heimildirnar um  Hallgrím sjálfan, en ýmislegt er til um þann tíma sem hann lifði og aðstæður fólks þá og þau viðhorf er ríktu. Með það í huga urðu höfundarnir Úlfar Þormóðsson og Steinunn Jóhannesdóttir að ganga að sínum skáldsagnarverkum byggðum á takmörkuðum heimildum um Hallgrím, Steinunn skrifar uppvaxtarsögu hans og nefnir Heimanfylgju og Úlfar skrifar um ævi hans í bókinni Hallgrímur. Um er að ræða mjög móralskan tíma sem Hallgrímur lifir, átakatími, og almenningi haldið niðri með syndakenningum og ríkulegum Guðsótta. Embættismenn voru tilbeðnir og ósnertanlegir og harðar refsingar biðu þeirra er villtust af braut, galdrabrennur, bannfæringar og fleiri valdboð, sem ekki voru umflúin.

Það má lesa í Heimanfylgju Steinunnar að Hallgrímur fór ungur að árum frá Hólum í Hjaltadal yfir í Svarfaðardal með félaga sínum til að verða vitni að því er ungur maður var brenndur á báli fyrir galdra. Þessi ferð, sem hann fór í leyfisleysi, hafði djúp áhrif á hann og hefur síst dregið úr þeirri togstreitu, sem bjó innra með honum. Hann var sendur í vist í Hóla, fór með föður sínum sem tók þar við hringjarastarfi og móðir hans varð eftir heima, þar sem hún ferst síðan af barnsförum. Faðir hans verður ástfanginn á ný á Hólastað og allt mótaði þetta barnssálina og myndaði átök í hjarta Hallgríms. Hann stökk frá námi, sem Guðbrandur Þorláksson biskup og frændi hans hafði opnað honum leið inn í, þar varð til dæmis hann óttasleginn eftir kennslustund hjá sr. Arngrími Jónssyni, en eftirfarandi samtal kennarans og skólasveina í bók Úlfars Þormóðssonar gefur vafalaust ágæta mynd:

„Hvað táknar helvíti?

Þann stað, þær kvalir og píslir sem þeir fordæmdu líða, svaraði bekkurinn margradda.

Aftur, skipaði Arngrímur og bekkurinn endurtók skýringar  sínar með meiri samhljómi en áður.

Hverjir eru hinir fordæmdu?  spurði Arngrímur.

Syndarar, svaraði bekkurinn.  Þeir sem brjóta gegn Guði, kirkjunni, kónginum og öðrum yfirbjóðurum.“

Ekki bætti úr skák að einhverju sinni var Hallgrímur hýddur svo harkalega og niðurlægður af skólapiltum á Hólum. Þá óskaði hann kvölurum sínum vítisvistar í eftirfarandi vísu:

Aumir eru antiquí,
ævinlega myrkvi í
fólskuverkin fremja, því
fagnað verður víti í.

Hallgrímur var ódæll ungur maður og á margan hátt óuppgerður, og ljóst að bæði það og sú syndaguðfræði sem var ríkjandi og ól fremur á sektarkennd almennings heldur en hitt, birtist ljóslifandi í kveðskap hans, en í honum fann hann helst farveg til að tjá tilfinningar sínar og hugsanir, og þar fann hann að lokum þá huggun að hann væri ekki einn í þjáningu sinni, að Jesús bæri syndir hans sem er sömuleiðis djúp lausn í öllu sektartali 17. aldarinnar:

Sektir mínar og syndir barst
sjálfur, þegar þú píndur varst,
upp á það dóstu, drottinn kær,
að kvittuðust þær,
hjartað því nýjan fögnuð fær.

Saga Hallgríms bendir okkur nútímamanneskjum í vestrænu velferðarsamfélagi á það að það fer vissulega eftir því t.d. hvað við erum að upplifa, við hvernig aðstæður við lifum, og hvernig tíðarandi umlykur okkur, þegar við veltum krossferlinu fyrir okkur og hvernig við túlkum það inn í líf okkar. Þú getur spurt þig hvernig þú sérð Krist á krossinum, sérðu hann sem fórnarlamb, píslarvott, sigurvegara eða bara venjulegan karl á plúsnum eins og gall í einum kankvísum? Það mætti segja mér að þegar vel gengur tala upphafslínur Hallgríms í sálminum „Krossferli að fylgja þínum“ ekki á sama hátt til okkar eins og þegar við stöndum vanmáttug og berskjölduð frammi fyrir þrengingum, þá fá sömu orð vængi. Þess vegna er boðskapur föstunnar og páska svo sígildur og mikilvægur að kynna sér í sorg jafnt sem gleði, í helsi jafnt sem frelsi.

Bækur sem höfundur vitnar í grein sinni:
Steinunn Jóhannesdóttir. Heimanfylgja. Skáldsaga um uppvöxt Hallgríms Péturssonar byggð á heimildum um ættfólk hans og samtíð. Reykjavík. Útg. JPV. 2010.
Úlfar Þormóðsson. Hallgrímur. Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar. Reykjavík. Útg. Bjartur. 2008.


Sr. Bolli Pétur Bollason vígðist til prests árið 2002. Hann hefur gegnt prestsþjónustu í borg og sveit, lengst af á æskustöðvum sínum í Laufási. Sr. Bolli Pétur er snjall penni og frá hendi hans hefur komið bókin Kveikjur.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Jörð skelfur og á sama tíma eru kirkjuklukkur farnar að hristast og hringja á ný.

Fólk kemur saman til kirkjunnar eins og reglur leyfa. Nú má velja aftur um það hvort klukkurnar skapi einungis pirrandi hávaða eða hvort þær nái inn að innstu kviku þannig að við heyrum í hljómi þeirra þau skilaboð sem hugsanlega geta eflt eða breytt hjartslætti, leyst okkur jafnvel úr margvíslegum fjötrum í nútímanum, fjötrum hugarfars, fjötrum fátæktar, fjötrum velmegunar, fjötrum fordóma, fjötrum ofbeldis o.s.frv.

Ég nefni fjötra velmegunar, einhver gæti reyndar sett stórt spurningarmerki við það. Er velmegun ekki alltaf góð? Hún er það að mörgu leyti, það er gott að hafa meira en nóg í sig og á. En hún getur líka blindað, hún getur dregið úr þeirri þörf að rækta andann, trú, rækta huglæg gildi sem skapa raunverulega andlega velferð, hún getur skapað aðstæður í lífinu er letja hugsun um neyð annarra og máttur sjálfhverfu styrkist. Hún getur gert þjáningarbrautina mjög fjarlæga þannig að þegar við þurfum síðan að feta þá braut, sem er óhjákvæmilegt, stöndum við þar algjörlega berskjölduð og helst hissa.

Rannsóknir á því hvernig velmegun og trú fara saman hafa stundum verið birtar og eru sjaldnast trúnni í hag. Kannski höfum við það of gott þegar við erum að setja fram stórorðar skoðanir eða fullyrðingar okkar um Guð, trú, tilgang, fólk, samfélag, tilfinningaleg málefni. En erum við þá að tala um að þjáningin sé trúnni nauðsyn? Kom sr. Hallgrímur Pétursson auga á það þegar hann setti t.d. saman versið í 11. Passíusálmi?

Krossferli´að fylgja þínum
fýsir mig, Jesús kær,
væg þú veikleika mínum,
þó verði´eg álengdar fjær.
Þá trú og þol vill þrotna,
þrengir að neyðin vönd,
reis þú við reyrinn brotna
og rétt mér þína hönd.

Þetta er hvorki þægileg spurning né umfjöllunarefni og skiptir máli að benda á þá nauðsyn að taka þarf ýmislegt til greina þegar umræðan um þjáningu ber á góma.

Stundum er talað um að þjáningin hafi æðri tilgang, hún sé til þess að leiða okkur til frekari þroska og vafalaust fyrirfinnast þau sem hafa bara þá sýn, en auk þess ber að horfa til svokallaðrar róttækrar þjáningar, sem hefur í sér engan annan tilgang en þjáninguna sjálfa og hreina illsku.

Því næst mætti spyrja sig hvort við höfum eitthvert val um það hvernig við mætum þjáningarfullum aðstæðum og þá er mikilvægt að takast á við slíkar aðstæður, ekki með því að skýra þær í burtu, heldur fremur vingast við þær, og iðka samlíðan. Það felur í sér að við horfumst í augu við eigin þjáningar og annarra, könnumst við þær, grípum til aðgerða til að hjálpa og styðja fólk í neyð.

Með krossdauða sínum sýnir Jesús Kristur samlíðan í aðstæðum óútskýranlegrar illsku og kennir okkur með krossferlinu að samlíðan er fórnfús kærleikur og kraftur gegn yfirráðum illskunnar. Hallgrímur Pétursson virðist í því samhengi finna mikinn samhljóm í þjáningu Krists og vill feta þann veg með honum. Við hristum kannski höfuðið, en þá kemur að því að kannast við manninn, umhverfi hans og tíðaranda, en ekki bara burtskýra þanka hans og dæma þá vitskerta.

Þær eru reyndar stopular heimildirnar um  Hallgrím sjálfan, en ýmislegt er til um þann tíma sem hann lifði og aðstæður fólks þá og þau viðhorf er ríktu. Með það í huga urðu höfundarnir Úlfar Þormóðsson og Steinunn Jóhannesdóttir að ganga að sínum skáldsagnarverkum byggðum á takmörkuðum heimildum um Hallgrím, Steinunn skrifar uppvaxtarsögu hans og nefnir Heimanfylgju og Úlfar skrifar um ævi hans í bókinni Hallgrímur. Um er að ræða mjög móralskan tíma sem Hallgrímur lifir, átakatími, og almenningi haldið niðri með syndakenningum og ríkulegum Guðsótta. Embættismenn voru tilbeðnir og ósnertanlegir og harðar refsingar biðu þeirra er villtust af braut, galdrabrennur, bannfæringar og fleiri valdboð, sem ekki voru umflúin.

Það má lesa í Heimanfylgju Steinunnar að Hallgrímur fór ungur að árum frá Hólum í Hjaltadal yfir í Svarfaðardal með félaga sínum til að verða vitni að því er ungur maður var brenndur á báli fyrir galdra. Þessi ferð, sem hann fór í leyfisleysi, hafði djúp áhrif á hann og hefur síst dregið úr þeirri togstreitu, sem bjó innra með honum. Hann var sendur í vist í Hóla, fór með föður sínum sem tók þar við hringjarastarfi og móðir hans varð eftir heima, þar sem hún ferst síðan af barnsförum. Faðir hans verður ástfanginn á ný á Hólastað og allt mótaði þetta barnssálina og myndaði átök í hjarta Hallgríms. Hann stökk frá námi, sem Guðbrandur Þorláksson biskup og frændi hans hafði opnað honum leið inn í, þar varð til dæmis hann óttasleginn eftir kennslustund hjá sr. Arngrími Jónssyni, en eftirfarandi samtal kennarans og skólasveina í bók Úlfars Þormóðssonar gefur vafalaust ágæta mynd:

„Hvað táknar helvíti?

Þann stað, þær kvalir og píslir sem þeir fordæmdu líða, svaraði bekkurinn margradda.

Aftur, skipaði Arngrímur og bekkurinn endurtók skýringar  sínar með meiri samhljómi en áður.

Hverjir eru hinir fordæmdu?  spurði Arngrímur.

Syndarar, svaraði bekkurinn.  Þeir sem brjóta gegn Guði, kirkjunni, kónginum og öðrum yfirbjóðurum.“

Ekki bætti úr skák að einhverju sinni var Hallgrímur hýddur svo harkalega og niðurlægður af skólapiltum á Hólum. Þá óskaði hann kvölurum sínum vítisvistar í eftirfarandi vísu:

Aumir eru antiquí,
ævinlega myrkvi í
fólskuverkin fremja, því
fagnað verður víti í.

Hallgrímur var ódæll ungur maður og á margan hátt óuppgerður, og ljóst að bæði það og sú syndaguðfræði sem var ríkjandi og ól fremur á sektarkennd almennings heldur en hitt, birtist ljóslifandi í kveðskap hans, en í honum fann hann helst farveg til að tjá tilfinningar sínar og hugsanir, og þar fann hann að lokum þá huggun að hann væri ekki einn í þjáningu sinni, að Jesús bæri syndir hans sem er sömuleiðis djúp lausn í öllu sektartali 17. aldarinnar:

Sektir mínar og syndir barst
sjálfur, þegar þú píndur varst,
upp á það dóstu, drottinn kær,
að kvittuðust þær,
hjartað því nýjan fögnuð fær.

Saga Hallgríms bendir okkur nútímamanneskjum í vestrænu velferðarsamfélagi á það að það fer vissulega eftir því t.d. hvað við erum að upplifa, við hvernig aðstæður við lifum, og hvernig tíðarandi umlykur okkur, þegar við veltum krossferlinu fyrir okkur og hvernig við túlkum það inn í líf okkar. Þú getur spurt þig hvernig þú sérð Krist á krossinum, sérðu hann sem fórnarlamb, píslarvott, sigurvegara eða bara venjulegan karl á plúsnum eins og gall í einum kankvísum? Það mætti segja mér að þegar vel gengur tala upphafslínur Hallgríms í sálminum „Krossferli að fylgja þínum“ ekki á sama hátt til okkar eins og þegar við stöndum vanmáttug og berskjölduð frammi fyrir þrengingum, þá fá sömu orð vængi. Þess vegna er boðskapur föstunnar og páska svo sígildur og mikilvægur að kynna sér í sorg jafnt sem gleði, í helsi jafnt sem frelsi.

Bækur sem höfundur vitnar í grein sinni:
Steinunn Jóhannesdóttir. Heimanfylgja. Skáldsaga um uppvöxt Hallgríms Péturssonar byggð á heimildum um ættfólk hans og samtíð. Reykjavík. Útg. JPV. 2010.
Úlfar Þormóðsson. Hallgrímur. Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar. Reykjavík. Útg. Bjartur. 2008.


Sr. Bolli Pétur Bollason vígðist til prests árið 2002. Hann hefur gegnt prestsþjónustu í borg og sveit, lengst af á æskustöðvum sínum í Laufási. Sr. Bolli Pétur er snjall penni og frá hendi hans hefur komið bókin Kveikjur.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?