Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir er prestur í Neskirkju. Hún er með doktorspróf í hagnýtri guðfræði frá MF og HÍ og fjallaði doktorsritgerðin um breytingar í kirkjunni og þátt presta. 

Færri Íslendingar trúa á Guð ef marka má niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir Terry Gunnell þjóðfræðing.[1] Könnunin beindist að þjóðtrú Íslendinga og reynslu þeirra af yfirnáttúrulegum fyrirbærum og var samanburðarhæf við samskonar kannanir frá 2006 og 2007.[2] Niðurstöðurnar voru frekar afgerandi:

„Fyrir sautján árum sögðu 45 prósent að til væri kærleiksríkur guð sem hægt væri að biðja til sem er ímynd hins kristna guðs. Í könnuninni í ár var það hlutfall komið niður í 25 prósent. Þeim sem sögðu að ekki væri til annar guð en sá sem manneskjan hefði sjálf búið til fjölgaði úr 20 í 33 prósent og þeim sem sögðust enga fullvissu hafa um guð úr ellefu í 21 prósent.“ [3]

Könnunin hefur ekki verið birt þannig að hægt sé að skoða betur hlutföll milli aldurshópa en í frétt RÚV um málið kom fram að mest fækkar trúuðum í hópi ungs fólks.

Ekkert af þessu kemur á óvart. Kannanir og rannsóknir á sviði félagsvísinda hafa lengi sýnt ákveðna þróun á Vesturlöndum í átt að breyttu trúarmynstri. Stóru kannarnirnar, World Value Survey (WVS) og European Value Survey (EVS), sem framkvæmdar hafa verið reglulega í áratugi sýna meðal annars að á Vesturlöndum fækkar þeim sem tilheyra trúfélögunum og sem segja að trú skipti máli í lífi þeirra.[4] Síðan greinir fræðimenn á um hvað hafi tekið við og hvernig skuli túlka niðurstöður kannana. Er það til dæmis þannig að trúin finni sér annan farveg – að þau sem standa utan trúfélaga „trúi en tilheyri ekki“, svo vitnað sé breska félagsfræðinginn Grace Davie[5]? Eða hverfur trúin í stað þess að finna sér annan farveg nema ef til vill óljósar hugmyndir um eitthvað gott eða góða strauma?[6]

Nones – vaxandi hópur

Í þessari grein ætla ég að skoða breytingar í trúarlegu landslagi og velta upp nokkrum skýringum á ástæðum breytinganna. Ég horfi talsvert til breskra fræðimanna og bandarískra og vil í því sambandi benda á að þróunin á Íslandi varð síðar en á Bretlandi og einnig að Bandaríkin hafa notið sérstöðu hvað mikla trúrækni varðar, þó að það virðist vera að breytast.

Eitt af því sem við sjáum greinilega í félagsfræðikönnunum á Vesturlöndum er að trú skiptir fólk meira máli eftir því sem það er eldra. Það má til dæmis sjá á niðurstöðum fyrir Ísland úr evrópsku gildakönnunninni frá 2017. Þýðir það að við verðum öll trúaðri þegar við eldumst? Slíkt er ekki útilokað í öllum tilvikum en langtímarannsóknir benda samt frekar til þess að um sé að ræða breytingu milli kynslóða og að mikilvægi trúar hafi minnkað hjá öllum aldurshópum á Vesturlöndum og í Eyjaálfu. Þetta kemur meðal annars fram í fjölþjóðlegum rannsóknum eins og WVS og EVS. Meira að segja í Bandaríkjunum, sem lengi virtust afsanna kenningu um vaxandi afhelgun, má sjá afgerandi fækkun í hópi þeirra sem segja að Guð skipti þau miklu máli[7]. Þó sýna kannanir að Bandaríkin skera sig enn úr meðal vestrænna þjóða varðandi trú og bænaiðkun.[8]

Sá hópur sem vex hvað hraðast er hópurinn sem kallast á ensku „nones“. Það er fólk sem skilgreinir sig utan trúfélaga, trúlaust (atheists), efahyggjufólk (agnostic) eða merkir við „óskilgreint“ þegar kemur að trúarspurningum í könnunum. Það þýðir þó ekki alltaf að hópurinn skilgreini sig án trúar.

Í nýlegri breskri rannsókn mátti til dæmis sjá að í hópnum „nones“ sögðust 41.5% vera trúleysingjar (atheists), en meirihlutinn trúði á guð eða æðri mátt. Stærsti hluti „nones“ í Bretlandi lýsir trúarafstöðu sinni með orðum eins og „kannski“, „efast“, „veit ekki.“  Færri en fjórðungur trúði á persónulegan guð, aðrir töluðu um anda, lífskraft, orku eða „eitthvað þarna úti.“ [9] Að velja „engin trú“ er frekar lýsing á höfnun á skipulögðum trúarstofnunum. Um leið og þetta er höfnun á trú er það höfnun á hefð. Í Bandaríkjunum skilgreina mun fleiri „nones“ sig sem trúaða á einhvern hátt og í könnun árið 2014 voru 13%  af þeim sem eru skilgreindir „nones“ guðleysingjar, 16% efahyggjufólk og 61% annað, þar af merktu 30% við að trú væri mikilvæg.[10] Svo að það er augljóst að hópurinn er hvorki einsleitur né eins samansettur eftir löndum.

Þróun sem hófst fyrir áratugum

Núverandi staða er afleiðing þróunar sem hófst fyrir áratugum. Ein leið til að skoða breytingarnar er að horfa á trúarlegar athafnir og breytingar tengdar þeim. Rannsóknir á stöðu skírnar á Norðurlöndum sýna að þeim hefur alls staðar fækkað ef tekið er mið af hlutfalli skírðra í hverjum árgangi nýbura. Danski trúarlífsfélagsfræðingurinn Karen-Marie Sø Leth-Nissen bendir á að þessi þróun hafi líklega hafist með eftirstríðsárakynslóðinni (baby boomers), þ.e. fólki fæddu ca. 1946 – 1964 en birtist skýrt í barnabörnum þeirrar kynslóðar, þ.e. svokallaðiri Kynslóð Y.[11] Hún setur fram breytta afstöðu Dana til skírnar með því að skoða afstöðu kynslóðanna:

  1. Langafi og langamma, fædd um 1925 (hljóða kynslóðin), fylgja hefðinni varðandi kirkjuathafnir

  2. Þau sjá til þess að börn þeirra (Eftirstríðsárakynslóð, afi og amma), fædd um 1950+, séu skírð, fermd og gifti sig í kirkju (1970+) og skíri fyrstu börnin.

  3. Afi og amma (Baby boomers) hafa verið samþykk hefðinni en leyfa börnunum (Foreldrar, Kynslóð X) sjálfum að ákveða hvort þau vilji láta fermast.

  4. Börnin (Kynslóð X) alast þannig upp við aðra afstöðu til hefðar og þegar kemur að skírn þeirra barna (Kynslóð Y) leita þau ekki í hefð heldur í eigin skoðun og trú og vilja að börnin taki sjálf afstöðu.

Snjóboltaáhrif

Breski trúarlífsfélagsfræðingurinn Linda Woodhead hefur fylgt eftir og skoðað sérstaklega ungt fólk og trúarskoðanir þeirra, meðal annars út frá bakgrunni. Hún bendir á að ca 45% barna sem eru alin upp sem kristin í Bretlandi skilgreina sig „nones“ þegar þau eru fullorðin., en 95% barna sem eru alin upp án trúar skilgreina sig „nones.“[12]

Talað er um „snjóboltaáhrif“ sem verða þegar það að fylgja ekki hefðum verður hið viðtekna. Um leið og eitthvað verður „hið viðtekna“ eða það sem flestir gera, þá krefst það afstöðu og sannfæringar að gera eitthvað annað. Þetta hafa breskir fræðimenn meðal annars greint skýrt varðandi kirkjulegar athafnir þar í landi, meðal hópa sem áður voru hluti af ensku biskupakirkjunni. Sem dæmi má nefna að um leið og það hætti að vera hefð að sækja kirkju á sunnudögum þá fækkaði mjög þeim sem fóru, enda þurftu þeir frekar að réttlæta að verja tíma í að fara til kirkju en að fara ekki.

Ef við lítum svo til niðurstaðna Lindu Woodhead varðandi miðlun trúar þá má gefa sér að enn bætist á „snjóboltann“ hjá Z-kynslóðinni því að börn sem ekki eru alin upp við trú munu ekki velja hana. Að einhverju leyti má jafnvel segja að þar hafi foreldrarnir valið fyrir börnin.

Aukin velmegun – minni trú?

En hvers vegna gerist þetta? Kenningar um afhelgun snúa bæði að trú á einstaklingssviði og að áhrifum trúarkenninga og trúarstofnana á hinu opinbera sviði.

Það sem einkennir kynslóðir eftirstríðsáranna á Vesturlöndum er að þær eru aldar upp við meira efnahagsöryggi og almenna velmegun en fyrri kynslóðir. Menntun jókst einnig með hverri kynslóð. Samfara því jókst afhelgun ýmissa sviða og trúarkenningar og trúarstofnanir fá minna vægi í þessum löndum. Sjá má í kenningum um afhelgun (secularization) að sumir fræðimenn telja trúarbrögð endurspegla forneskju sem ekki fari saman með vísindahyggju og hljóti því að hverfa. Um leið og vísindi efldust varð áherslubreyting eða vitundarbreyting þar sem  „gagnleg þekking“ (þekking byggð á athugunum, tilraunum og mælingum) fór að skyggja á hvers kyns annars konar þekkingu. Fyrir vikið leiddi áhersla á að spyrja „gagnlegra spurninga“ til vaxandi tregðu við að spyrja „endanlegra spurninga.“[13] Gagnrýnendur slíkra kenninga hafa á móti bent á að trú hafi reynst furðu lífsseig einmitt vegna þess að hún snúist meira um tilfinningar og tilvistarspurningar frekar en þekkingarfræðilegar spurningar.

Bandarísku félagsfræðingarnir Ronald Inglehart og Pippa Norris tengja hins vegar minni trúarþörf við aukna velmegun. Þau benda á að aukin iðnvæðing, betri afkoma og styrkara öryggisnet af hendi hins opinbera ýti undir afhelgun. Aukið öryggi þýðir einfaldlega að fólk hefur minni þörf fyrir að leita trúar. Þetta snýst um tilfinningalegt öryggi jafnt og fjárhagslegt öryggi.[14]

Breytist trúin eða hverfur hún?

Þó að þeim fækki á Vesturlöndum sem trúa á guð eða guði þá fjölgar þeim á heimsvísu. Því að auknu öryggi og betri afkomu fylgir líka lægri fæðingartíðni. Fæðingartíðni er mun hærri í löndum þar sem fólk segir að trú skipti þau miklu máli og þar sem lítill munur er á svörum yngri og eldri um mikilvægi trúar.[15]

En sé litið til þeirra landa þar sem þeim fækkar sem tilheyra trúfélögum þá greinir fræðimenn á um þátt trúar í lífi þessara einstaklinga. Að hluta má skýra það með því hvernig viðkomandi skilgreina trú. Bresku félagsfræðingarnir Grace Davie og David Voas eru að vissu leyti fulltrúar ólíkrar túlkunar að þessu leyti. Davie hefur talað um að fækkun þeirra sem tilheyra trúarsamfélagi þýði ekki endilega að trúin sé horfin og bendir meðal annars á rannsóknir sem sýni trúarlegar hugmyndir þó að fólk sæki ekki kirkjur og hugmyndirnar séu ekki endilega í samræmi við kenningar trúarstofnana. Kenningar hennar voru á 10. áratugnum kenndar við kjarnasetninguna „Trúa en tilheyra ekki.“[16]  Voas talar um „óskýra“ trú (fuzzy fidelity/relgion) sem birtist í einhverjum óljósum hugmyndum um að ef til vill sé eitthvað eða í því að sækja trúarlegar athafnir vegna hefðar. Hans niðurstaða er „Trúa hvorki né tilheyra.“[17] Mér hefur þótt nálgun þeirra sýna að Voas og félagar vilji skilgreina trúarhugtakið þrengra en Davie (og  t.d. Linda Woodhead og Abby Day). Sem dæmi má nefna bæði ýmis „andlegheit“ (spirituality) og hvernig trúin birtist í óorðuðum viðbrögðum eða virkni sem eiga rætur í sögu, hefðum og/eða tilfinningum.[18] Þau eru hins vegar sammála um að það eru miklar breytingar á trúarsviðinu.

Og þær breytingar sjást líka hér á landi. Ef litið er á ný til „snjóboltaáhrifa“ í hinu trúarlega landslagi þá má búast við að fleiri alist upp án nokkurrar þekkingar á kristinni trú og velji fyrir vikið ekki að leita til kirkju vegna athafna á krossgötum lífsins, erfiðleika eða tilvistarspurninga. Og þau ala börn sín ekki upp í þeirri trú heldur.

Eitt af því sem sjá má glöggt hjá yngri kynslóðum er tilhneigingin til að leita frekar inn á við eftir því sem þau telja rétt og satt (authenticity) en til ytri stofnana eða kenninga. Þetta á líka við um trú. Þjóðkirkjan var lengi eina trúfélagið hérlendis og í rúm hundrað ár eftir það (og reyndar ennþá) langstærsta trúfélagið. Börn lærðu biblíusögur í skóla og höfðu því hugmynd um bakgrunn þeirrar trúar sem mótað hafði samfélagið og þau gátu kynnst í kirkjunni. Þessi fræðsla er mun minni nú og þó að kirkjan leggi sig fram um að ná til ungs fólks er samkeppni um athygli og tíma mikil. Það má því gera ráð fyrir að þekking á boðskap kristninnar verði í minna mæli hluti af því sem býr innra með fólki þegar það leitar svara við tilvistarspurningum lífsins.

Áskorunin

Könnun Terry Gunnells sýndi að hlutfall þeirra sem lýsa guðshugmynd sinni sem „kærleiksríkur Guð sem hægt er að biðja til“ hefur farið úr 45% í 25% á 17 árum. Ef til vill endurspeglar svarið rof sem orðið hefur í kvöldbænum, foreldrar hafa ekki kennt börnum að biðja eða beðið með þeim fyrir svefninn, eins og tíðkaðist mjög víða fram eftir síðustu öld. Það er alveg ljóst að þjóðkirkjunnar og þeirra kristnu trúfélaga sem vilja miðla hinum kristna boðskap býður mikið verkefni. Fyrsta skrefið hlýtur að vera að átta sig á stöðunni og velta fyrir sér þeim kostum sem hún býður upp á. Umhverfið er breytt og það er ekki vegna slakrar fræðslu eða þjónustu heldur vegna þjóðfélagsbreytinga sem eru að ganga yfir öll Vesturlönd. Og næsta skrefið er þá að gera áætlun um boðun og þjónustu í þessum nýja veruleika. Þjónustu sem miðlar kjarna þess boðskapar sem kirkjunni er falinn.

Tilvísanir

[1] https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-11-05-faerri-en-adur-trua-a-personulegan-gud-sem-haegt-er-ad-bidja-til-395596

[2] Terry Gunnell, Ný könnun um þjóðtrú Íslendinga og reynslu þeirra af yfirnáttúrulegum fyrirbærum, Ágrip. Kynningarefni fyrir Þjóðarspegil https://virtual.oxfordabstracts.com/#/event/4616/submission/51

[3] https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-11-05-faerri-en-adur-trua-a-personulegan-gud-sem-haegt-er-ad-bidja-til-395596

[4] Ronald Inglehart. (2021). Religion’s sudden decline: what’s causing it, and what comes next? Oxford University Press.

[5] Grace Davie. (1994). Religion in Britain since 1945. Believing without Belonging. Oxford, Blackwell.

[6] Voas, David & Crocket, Alsdair. (2005). Religion in Britain: Neither Believing Nor Belonging. Sociology of Religion. 39. 11-28. 10.1177/0038038505048998.

[7] Inglehart, R. Religion‘s sudden decline. Sjá líka: https://cps.isr.umich.edu/news/religions-sudden-decline-revisited/

[8] https://www.pewresearch.org/short-reads/2019/05/01/with-high-levels-of-prayer-u-s-is-an-outlier-among-wealthy-nations/

[9] Linda Woodhead, The Rise of “No Religion”: Towards an Explanation, Sociology of Religion, Volume 78, Issue 3, Autumn 2017, Pages 247–262, https://doi.org/10.1093/socrel/srx031

[10] https://www.pewresearch.org/short-reads/2015/05/13/a-closer-look-at-americas-rapidly-growing-religious-nones/

[11] Leth-Nissen, K. M. (2020). Dåb i dag. Traditionen til forhandling. København: Det Teologiske Fakultet.Publikationer fra Det Teologiske Fakultet, Nr. 85

[12] Woodhead, the Rise of No Religion

[13]  Gifford, P. (2019) The Plight of Western Religion: The Eclipse of the Other-Worldly. London: Hurst & Company.

[14] Inglehart, Religion’s sudden decline.

[15] https://www.pewresearch.org/religion/2015/04/02/religious-projections-2010-2050/

[16] Davie, Grace. (2014) Religion in Britain. A persistent paradox. 2nd ed. Wiley.

[17] David Voas. (2009). The Rise and Fall of Fuzzy Fidelity in Europe, European Sociological Review, Volume 25, Issue 2, Bls 155–168 og Voas, D., & Crockett, A. (2005). Religion in Britain: Neither Believing nor Belonging. Sociology, 39(1), 11-28. https://doi.org/10.1177/0038038505048998

[18] Day, A. (2020). Sociology of Religion: Overview and Analysis of Contemporary Religion (1st ed.). Routledge. https://doi.org/10.4324/9780429055591

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir er prestur í Neskirkju. Hún er með doktorspróf í hagnýtri guðfræði frá MF og HÍ og fjallaði doktorsritgerðin um breytingar í kirkjunni og þátt presta. 

Færri Íslendingar trúa á Guð ef marka má niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir Terry Gunnell þjóðfræðing.[1] Könnunin beindist að þjóðtrú Íslendinga og reynslu þeirra af yfirnáttúrulegum fyrirbærum og var samanburðarhæf við samskonar kannanir frá 2006 og 2007.[2] Niðurstöðurnar voru frekar afgerandi:

„Fyrir sautján árum sögðu 45 prósent að til væri kærleiksríkur guð sem hægt væri að biðja til sem er ímynd hins kristna guðs. Í könnuninni í ár var það hlutfall komið niður í 25 prósent. Þeim sem sögðu að ekki væri til annar guð en sá sem manneskjan hefði sjálf búið til fjölgaði úr 20 í 33 prósent og þeim sem sögðust enga fullvissu hafa um guð úr ellefu í 21 prósent.“ [3]

Könnunin hefur ekki verið birt þannig að hægt sé að skoða betur hlutföll milli aldurshópa en í frétt RÚV um málið kom fram að mest fækkar trúuðum í hópi ungs fólks.

Ekkert af þessu kemur á óvart. Kannanir og rannsóknir á sviði félagsvísinda hafa lengi sýnt ákveðna þróun á Vesturlöndum í átt að breyttu trúarmynstri. Stóru kannarnirnar, World Value Survey (WVS) og European Value Survey (EVS), sem framkvæmdar hafa verið reglulega í áratugi sýna meðal annars að á Vesturlöndum fækkar þeim sem tilheyra trúfélögunum og sem segja að trú skipti máli í lífi þeirra.[4] Síðan greinir fræðimenn á um hvað hafi tekið við og hvernig skuli túlka niðurstöður kannana. Er það til dæmis þannig að trúin finni sér annan farveg – að þau sem standa utan trúfélaga „trúi en tilheyri ekki“, svo vitnað sé breska félagsfræðinginn Grace Davie[5]? Eða hverfur trúin í stað þess að finna sér annan farveg nema ef til vill óljósar hugmyndir um eitthvað gott eða góða strauma?[6]

Nones – vaxandi hópur

Í þessari grein ætla ég að skoða breytingar í trúarlegu landslagi og velta upp nokkrum skýringum á ástæðum breytinganna. Ég horfi talsvert til breskra fræðimanna og bandarískra og vil í því sambandi benda á að þróunin á Íslandi varð síðar en á Bretlandi og einnig að Bandaríkin hafa notið sérstöðu hvað mikla trúrækni varðar, þó að það virðist vera að breytast.

Eitt af því sem við sjáum greinilega í félagsfræðikönnunum á Vesturlöndum er að trú skiptir fólk meira máli eftir því sem það er eldra. Það má til dæmis sjá á niðurstöðum fyrir Ísland úr evrópsku gildakönnunninni frá 2017. Þýðir það að við verðum öll trúaðri þegar við eldumst? Slíkt er ekki útilokað í öllum tilvikum en langtímarannsóknir benda samt frekar til þess að um sé að ræða breytingu milli kynslóða og að mikilvægi trúar hafi minnkað hjá öllum aldurshópum á Vesturlöndum og í Eyjaálfu. Þetta kemur meðal annars fram í fjölþjóðlegum rannsóknum eins og WVS og EVS. Meira að segja í Bandaríkjunum, sem lengi virtust afsanna kenningu um vaxandi afhelgun, má sjá afgerandi fækkun í hópi þeirra sem segja að Guð skipti þau miklu máli[7]. Þó sýna kannanir að Bandaríkin skera sig enn úr meðal vestrænna þjóða varðandi trú og bænaiðkun.[8]

Sá hópur sem vex hvað hraðast er hópurinn sem kallast á ensku „nones“. Það er fólk sem skilgreinir sig utan trúfélaga, trúlaust (atheists), efahyggjufólk (agnostic) eða merkir við „óskilgreint“ þegar kemur að trúarspurningum í könnunum. Það þýðir þó ekki alltaf að hópurinn skilgreini sig án trúar.

Í nýlegri breskri rannsókn mátti til dæmis sjá að í hópnum „nones“ sögðust 41.5% vera trúleysingjar (atheists), en meirihlutinn trúði á guð eða æðri mátt. Stærsti hluti „nones“ í Bretlandi lýsir trúarafstöðu sinni með orðum eins og „kannski“, „efast“, „veit ekki.“  Færri en fjórðungur trúði á persónulegan guð, aðrir töluðu um anda, lífskraft, orku eða „eitthvað þarna úti.“ [9] Að velja „engin trú“ er frekar lýsing á höfnun á skipulögðum trúarstofnunum. Um leið og þetta er höfnun á trú er það höfnun á hefð. Í Bandaríkjunum skilgreina mun fleiri „nones“ sig sem trúaða á einhvern hátt og í könnun árið 2014 voru 13%  af þeim sem eru skilgreindir „nones“ guðleysingjar, 16% efahyggjufólk og 61% annað, þar af merktu 30% við að trú væri mikilvæg.[10] Svo að það er augljóst að hópurinn er hvorki einsleitur né eins samansettur eftir löndum.

Þróun sem hófst fyrir áratugum

Núverandi staða er afleiðing þróunar sem hófst fyrir áratugum. Ein leið til að skoða breytingarnar er að horfa á trúarlegar athafnir og breytingar tengdar þeim. Rannsóknir á stöðu skírnar á Norðurlöndum sýna að þeim hefur alls staðar fækkað ef tekið er mið af hlutfalli skírðra í hverjum árgangi nýbura. Danski trúarlífsfélagsfræðingurinn Karen-Marie Sø Leth-Nissen bendir á að þessi þróun hafi líklega hafist með eftirstríðsárakynslóðinni (baby boomers), þ.e. fólki fæddu ca. 1946 – 1964 en birtist skýrt í barnabörnum þeirrar kynslóðar, þ.e. svokallaðiri Kynslóð Y.[11] Hún setur fram breytta afstöðu Dana til skírnar með því að skoða afstöðu kynslóðanna:

  1. Langafi og langamma, fædd um 1925 (hljóða kynslóðin), fylgja hefðinni varðandi kirkjuathafnir

  2. Þau sjá til þess að börn þeirra (Eftirstríðsárakynslóð, afi og amma), fædd um 1950+, séu skírð, fermd og gifti sig í kirkju (1970+) og skíri fyrstu börnin.

  3. Afi og amma (Baby boomers) hafa verið samþykk hefðinni en leyfa börnunum (Foreldrar, Kynslóð X) sjálfum að ákveða hvort þau vilji láta fermast.

  4. Börnin (Kynslóð X) alast þannig upp við aðra afstöðu til hefðar og þegar kemur að skírn þeirra barna (Kynslóð Y) leita þau ekki í hefð heldur í eigin skoðun og trú og vilja að börnin taki sjálf afstöðu.

Snjóboltaáhrif

Breski trúarlífsfélagsfræðingurinn Linda Woodhead hefur fylgt eftir og skoðað sérstaklega ungt fólk og trúarskoðanir þeirra, meðal annars út frá bakgrunni. Hún bendir á að ca 45% barna sem eru alin upp sem kristin í Bretlandi skilgreina sig „nones“ þegar þau eru fullorðin., en 95% barna sem eru alin upp án trúar skilgreina sig „nones.“[12]

Talað er um „snjóboltaáhrif“ sem verða þegar það að fylgja ekki hefðum verður hið viðtekna. Um leið og eitthvað verður „hið viðtekna“ eða það sem flestir gera, þá krefst það afstöðu og sannfæringar að gera eitthvað annað. Þetta hafa breskir fræðimenn meðal annars greint skýrt varðandi kirkjulegar athafnir þar í landi, meðal hópa sem áður voru hluti af ensku biskupakirkjunni. Sem dæmi má nefna að um leið og það hætti að vera hefð að sækja kirkju á sunnudögum þá fækkaði mjög þeim sem fóru, enda þurftu þeir frekar að réttlæta að verja tíma í að fara til kirkju en að fara ekki.

Ef við lítum svo til niðurstaðna Lindu Woodhead varðandi miðlun trúar þá má gefa sér að enn bætist á „snjóboltann“ hjá Z-kynslóðinni því að börn sem ekki eru alin upp við trú munu ekki velja hana. Að einhverju leyti má jafnvel segja að þar hafi foreldrarnir valið fyrir börnin.

Aukin velmegun – minni trú?

En hvers vegna gerist þetta? Kenningar um afhelgun snúa bæði að trú á einstaklingssviði og að áhrifum trúarkenninga og trúarstofnana á hinu opinbera sviði.

Það sem einkennir kynslóðir eftirstríðsáranna á Vesturlöndum er að þær eru aldar upp við meira efnahagsöryggi og almenna velmegun en fyrri kynslóðir. Menntun jókst einnig með hverri kynslóð. Samfara því jókst afhelgun ýmissa sviða og trúarkenningar og trúarstofnanir fá minna vægi í þessum löndum. Sjá má í kenningum um afhelgun (secularization) að sumir fræðimenn telja trúarbrögð endurspegla forneskju sem ekki fari saman með vísindahyggju og hljóti því að hverfa. Um leið og vísindi efldust varð áherslubreyting eða vitundarbreyting þar sem  „gagnleg þekking“ (þekking byggð á athugunum, tilraunum og mælingum) fór að skyggja á hvers kyns annars konar þekkingu. Fyrir vikið leiddi áhersla á að spyrja „gagnlegra spurninga“ til vaxandi tregðu við að spyrja „endanlegra spurninga.“[13] Gagnrýnendur slíkra kenninga hafa á móti bent á að trú hafi reynst furðu lífsseig einmitt vegna þess að hún snúist meira um tilfinningar og tilvistarspurningar frekar en þekkingarfræðilegar spurningar.

Bandarísku félagsfræðingarnir Ronald Inglehart og Pippa Norris tengja hins vegar minni trúarþörf við aukna velmegun. Þau benda á að aukin iðnvæðing, betri afkoma og styrkara öryggisnet af hendi hins opinbera ýti undir afhelgun. Aukið öryggi þýðir einfaldlega að fólk hefur minni þörf fyrir að leita trúar. Þetta snýst um tilfinningalegt öryggi jafnt og fjárhagslegt öryggi.[14]

Breytist trúin eða hverfur hún?

Þó að þeim fækki á Vesturlöndum sem trúa á guð eða guði þá fjölgar þeim á heimsvísu. Því að auknu öryggi og betri afkomu fylgir líka lægri fæðingartíðni. Fæðingartíðni er mun hærri í löndum þar sem fólk segir að trú skipti þau miklu máli og þar sem lítill munur er á svörum yngri og eldri um mikilvægi trúar.[15]

En sé litið til þeirra landa þar sem þeim fækkar sem tilheyra trúfélögum þá greinir fræðimenn á um þátt trúar í lífi þessara einstaklinga. Að hluta má skýra það með því hvernig viðkomandi skilgreina trú. Bresku félagsfræðingarnir Grace Davie og David Voas eru að vissu leyti fulltrúar ólíkrar túlkunar að þessu leyti. Davie hefur talað um að fækkun þeirra sem tilheyra trúarsamfélagi þýði ekki endilega að trúin sé horfin og bendir meðal annars á rannsóknir sem sýni trúarlegar hugmyndir þó að fólk sæki ekki kirkjur og hugmyndirnar séu ekki endilega í samræmi við kenningar trúarstofnana. Kenningar hennar voru á 10. áratugnum kenndar við kjarnasetninguna „Trúa en tilheyra ekki.“[16]  Voas talar um „óskýra“ trú (fuzzy fidelity/relgion) sem birtist í einhverjum óljósum hugmyndum um að ef til vill sé eitthvað eða í því að sækja trúarlegar athafnir vegna hefðar. Hans niðurstaða er „Trúa hvorki né tilheyra.“[17] Mér hefur þótt nálgun þeirra sýna að Voas og félagar vilji skilgreina trúarhugtakið þrengra en Davie (og  t.d. Linda Woodhead og Abby Day). Sem dæmi má nefna bæði ýmis „andlegheit“ (spirituality) og hvernig trúin birtist í óorðuðum viðbrögðum eða virkni sem eiga rætur í sögu, hefðum og/eða tilfinningum.[18] Þau eru hins vegar sammála um að það eru miklar breytingar á trúarsviðinu.

Og þær breytingar sjást líka hér á landi. Ef litið er á ný til „snjóboltaáhrifa“ í hinu trúarlega landslagi þá má búast við að fleiri alist upp án nokkurrar þekkingar á kristinni trú og velji fyrir vikið ekki að leita til kirkju vegna athafna á krossgötum lífsins, erfiðleika eða tilvistarspurninga. Og þau ala börn sín ekki upp í þeirri trú heldur.

Eitt af því sem sjá má glöggt hjá yngri kynslóðum er tilhneigingin til að leita frekar inn á við eftir því sem þau telja rétt og satt (authenticity) en til ytri stofnana eða kenninga. Þetta á líka við um trú. Þjóðkirkjan var lengi eina trúfélagið hérlendis og í rúm hundrað ár eftir það (og reyndar ennþá) langstærsta trúfélagið. Börn lærðu biblíusögur í skóla og höfðu því hugmynd um bakgrunn þeirrar trúar sem mótað hafði samfélagið og þau gátu kynnst í kirkjunni. Þessi fræðsla er mun minni nú og þó að kirkjan leggi sig fram um að ná til ungs fólks er samkeppni um athygli og tíma mikil. Það má því gera ráð fyrir að þekking á boðskap kristninnar verði í minna mæli hluti af því sem býr innra með fólki þegar það leitar svara við tilvistarspurningum lífsins.

Áskorunin

Könnun Terry Gunnells sýndi að hlutfall þeirra sem lýsa guðshugmynd sinni sem „kærleiksríkur Guð sem hægt er að biðja til“ hefur farið úr 45% í 25% á 17 árum. Ef til vill endurspeglar svarið rof sem orðið hefur í kvöldbænum, foreldrar hafa ekki kennt börnum að biðja eða beðið með þeim fyrir svefninn, eins og tíðkaðist mjög víða fram eftir síðustu öld. Það er alveg ljóst að þjóðkirkjunnar og þeirra kristnu trúfélaga sem vilja miðla hinum kristna boðskap býður mikið verkefni. Fyrsta skrefið hlýtur að vera að átta sig á stöðunni og velta fyrir sér þeim kostum sem hún býður upp á. Umhverfið er breytt og það er ekki vegna slakrar fræðslu eða þjónustu heldur vegna þjóðfélagsbreytinga sem eru að ganga yfir öll Vesturlönd. Og næsta skrefið er þá að gera áætlun um boðun og þjónustu í þessum nýja veruleika. Þjónustu sem miðlar kjarna þess boðskapar sem kirkjunni er falinn.

Tilvísanir

[1] https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-11-05-faerri-en-adur-trua-a-personulegan-gud-sem-haegt-er-ad-bidja-til-395596

[2] Terry Gunnell, Ný könnun um þjóðtrú Íslendinga og reynslu þeirra af yfirnáttúrulegum fyrirbærum, Ágrip. Kynningarefni fyrir Þjóðarspegil https://virtual.oxfordabstracts.com/#/event/4616/submission/51

[3] https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-11-05-faerri-en-adur-trua-a-personulegan-gud-sem-haegt-er-ad-bidja-til-395596

[4] Ronald Inglehart. (2021). Religion’s sudden decline: what’s causing it, and what comes next? Oxford University Press.

[5] Grace Davie. (1994). Religion in Britain since 1945. Believing without Belonging. Oxford, Blackwell.

[6] Voas, David & Crocket, Alsdair. (2005). Religion in Britain: Neither Believing Nor Belonging. Sociology of Religion. 39. 11-28. 10.1177/0038038505048998.

[7] Inglehart, R. Religion‘s sudden decline. Sjá líka: https://cps.isr.umich.edu/news/religions-sudden-decline-revisited/

[8] https://www.pewresearch.org/short-reads/2019/05/01/with-high-levels-of-prayer-u-s-is-an-outlier-among-wealthy-nations/

[9] Linda Woodhead, The Rise of “No Religion”: Towards an Explanation, Sociology of Religion, Volume 78, Issue 3, Autumn 2017, Pages 247–262, https://doi.org/10.1093/socrel/srx031

[10] https://www.pewresearch.org/short-reads/2015/05/13/a-closer-look-at-americas-rapidly-growing-religious-nones/

[11] Leth-Nissen, K. M. (2020). Dåb i dag. Traditionen til forhandling. København: Det Teologiske Fakultet.Publikationer fra Det Teologiske Fakultet, Nr. 85

[12] Woodhead, the Rise of No Religion

[13]  Gifford, P. (2019) The Plight of Western Religion: The Eclipse of the Other-Worldly. London: Hurst & Company.

[14] Inglehart, Religion’s sudden decline.

[15] https://www.pewresearch.org/religion/2015/04/02/religious-projections-2010-2050/

[16] Davie, Grace. (2014) Religion in Britain. A persistent paradox. 2nd ed. Wiley.

[17] David Voas. (2009). The Rise and Fall of Fuzzy Fidelity in Europe, European Sociological Review, Volume 25, Issue 2, Bls 155–168 og Voas, D., & Crockett, A. (2005). Religion in Britain: Neither Believing nor Belonging. Sociology, 39(1), 11-28. https://doi.org/10.1177/0038038505048998

[18] Day, A. (2020). Sociology of Religion: Overview and Analysis of Contemporary Religion (1st ed.). Routledge. https://doi.org/10.4324/9780429055591

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir