Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson (f. 1957) hefur ritað fjölmargar bækur um guðfræði.
Á síðasta ári kom út bók eftir hann sem ber heitið:
Augljóst en hulið – Að skilja táknheim kirkjubygginga.
Hann hefur skrifað nokkrar greinar í Gestagluggann sem tengjast list og trú.

Minnisvarði Vladimirs Tatlins um þriðju alþjóðahreyfinguna

Hér verður fjallað um tillögu um minnisvarða sem listamaðurinn  Vladimir Tatlin setti fram 1919 í tengslum við þriðju alþjóðahreyfingu kommúnista  en líkanið er reist eins og turn og er í grundvallaratriðum útópískt. Gerð verður grein fyrir tilurð listaverksins, uppbyggingu þess og þeim táknum sem koma fram í því en þar verður leitað til nokkurra listfræðinga sem helst hafa fjallað um það. Sérstaklega verður sjónum beint að því hvernig listaverkið birtir þá útópíu sem lögð er því til grundvallar[1] og það borið saman við annað útópískt listaverk sem sömuleiðis var runnið frá því sama landi, Höll Sovétríkjanna eftir Boris Jofan.

Turn Tatlins sem táknmynd framtíðar

Í Rússlandi reyndu listamenn, rétt eins og kollegar þeirra sem síðar tengdust Bauhaus í Þýskalandi og De Stijl í Hollandi, að flétta listina saman við daglegt líf almennings.[2] Sjónarmið þeirra var skýrt, listina á ekki að rækta listarinnar vegna, heldur ber henni að þjóna fólki í amstri hversdagsins og verða þannig hluti af lífi þess.[3] Mikilvægt dæmi um þessa viðleitni er líkan Vladimirs Tatlins (1885–1953) frá 1919 af minnisvarða fyrir þriðju alþjóðahreyfingu kommúnista en það var mörgum áratugum síðar endurgert og sýnt í París 1979.[4] Byggingin átti í senn að vera táknmynd októberbyltingarinnar og hýsa meginstofnanir Sovétríkjanna, stjórnkerfis þriðju alþjóðahreyfingarinnar. Hugmynd Tatlins hefur verið túlkuð á þann máta að í henni birtist útópískur listskilningur hins rússneska avant-garde sem varð andstæða hins alls ráðandi sósíalíska raunsæis í valdatíð Stalíns.[5]

Árið 1919 fór listadeild menntaráðs byltingarstjórnarinnar þess á leit við Vladimir Tatlin að hann myndi hanna líkan af minnisvarða fyrir þriðju alþjóðahreyfinguna. Listamaðurinn hóf þegar þá vinnu og sýndi í mars 1920 yfir þriggja metra hátt líkan af turninum. Það var haft til sýnis í listaakademíunni í Pétursborg en í desember var farið með það til Moskvu og var það haft þar til sýnis. Turninn vakti mikla athygli jafnt innan Sovétríkjanna sem utan. Árið 1925 útbjó Tatlin annað líkan af turninum sem var stillt upp á lista– og handverkssýningu í París og hlaut það þar verðlaun.[6]

Minnisvarðinn um þriðju alþjóðahreyfinguna frá 1920.

Turninn og merking hans

Turn Tatlins hefur verið skilgreindur og flokkaður á margvíslegan máta. Hann er ýmist sagður höggmynd, arkitektúr, minnisvarði, bygging (400 metra hár skýjakljúfur sem samanstendur af fjórum sjálfstæðum einingum) o.s.frv. Almennt er talið að Tatlin hafi að einhverju leyti tekið mið af Eiffelturninum og stálgrind hans þegar hann hannaði minnismerkið. Þegar Eiffelturninn og minnismerki Tatlins eru borin saman sést að innra og ytra rými þeirra renna saman eða með öðrum orðum þá eru mörkin á milli þess sem er fyrir innan og þess fyrir utan í báðum tilfellum ógreinanleg.[7] Fyrir vikið virka þessi listaverk í senn léttari og nútímalegri en þær stórbyggingar sem mynda eina samfellda efnisheild.

Tatlin vildi að minnismerkið yrði að mestu úr stáli og gleri en ólíkt Eiffelturninum er meginstoð þess hallandi stálgrind. Hún lítur út eins og hryggsúla og þjónar byggingunni sem slík en um hana og þríhyrnt form minnismerkisins vefjast tveir spíralar. Turninn vísar skáhallt upp á við sem virkar eins og hann tengi saman himinn og jörð. Innan stálgrindarinnar eru fjórir meginhlutar byggingarinnar sem sækja útlit sitt til meginforma rúmfræðinnar og eru samtengdir öxli sem þeir snúast um. Neðst er stærsta rýmið. Það er sívalningur sem snýst um 360 gráður á ári eða einn hring. Í þessari byggingu áttu að vera þær stofnanir sem tilheyra löggjafarvaldinu. Pýramídi er staðsettur fyrir ofan sívalninginn og tekur snúningur hans um öxul sinn mánuð. Í honum áttu að vera stofnanir framkvæmdarvaldsins. Fyrir ofan pýramídann er minni sívalningur og snýst hann um öxul sinn á sólarhring. Í honum áttu að vera stofnanir áróðursmálaráðuneytisins. Þar fyrir ofan er svo hálfkúla sem varpar myndum á skýin sem þjóna sem kvikmyndatjald. Þar áttu að vera ritsíminn, útvarpið og endurvarpsstöð.[8] Turn Tatlins tengir þannig saman listir og nútímatækni svo úr verður hreyfilist.

Tatlin nýtti sér hér þá rússnesku hefð að byggingar gætu verið um leið minnismerki. Hlutverk þeirra væri að minna á merkisatburði í sögu landsmanna eins og t.d. Kirkja endurlausnarinnar í Moskvu sem var reist í tilefni sigurs Rússa á herjum Napóleons.[9] Turninn hefur þannig skírskotun í hlutverk dómkirkna og þjónar sem slíkur nýrri hugmyndafræði og samfélagsgerð kommúnista.[10] Meginefniviður turnsins er stál og gler sem fyrir Tatlin eru táknmyndir nútímans. Hugmynd Tatlins var að stálið merkti vilja verkalýðsins og glerið hreina samvisku hans. Halli turnsins samsvarar halla jarðar og stendur fyrir þá útópísku sýn októberbyltingarinnar að kommúnisminn birti lögmál þeirrar söguþróunar sem liggi heiminum til grundvallar. Framþróun sögunnar holdgerðist svo að segja í byltingunni og væri turninn tákn þess.[11]

Turninn og lögmál veruleikans

Járngrind turnsins minnir ekki bara á Eiffelturninn heldur líka á möstur á stríðsskipum úr samtíð Tatlins, turna fyrir olíubora, krana og námuinnganga svo eitthvað sé nefnt.[12] Þannig birtir turninn ekki bara kenningu konstrúktívismans um samhljóm vélamenningar og listar heldur sameinar hann vélvæðingu nútímans og útópíska framtíðarsýn byltingarinnar. Vélin er táknmynd fyrir þann kraft sem býr í framþróun sögunnar og byltingin stendur fyrir.[13] Fulltrúar konstrúktívismans álitu að listin væri dauð ef hið vélræna væri ekki virt og þau rökrænu lögmál og skipulag sem vélin liti. Þannig vitni taktföst hreyfing vélar, sjálf byggingin og efni hennar um þá frumspeki sem veruleikinn lúti.[14] Óneitanlega endurómar þessi sýn konstrúktívismans, sem Tatlin fylgir, af „mikilli vélarómatík og vélavinglstrú.“[15] „Vélarómantíkin‟ birtist ekki síst í því að meginþættir byggingarinnar skuli snúast um öxul sinn. Minnismerkið má túlka sem nútíma Prómeþef sem vísar veginn inn í framtíðina og vitnisburð um það fullkomna samfélag sem Sovétríkin eiga að vera.[16] Járnturninn er vitnisburður um nýja tíma og framtíð sem holdgerist í rússnesku byltingunni. Turninn hallar eins og hann vísi inn í þessa framtíð á sama tíma og hann tengir himin vona mannsins við þá jörð sem þær eru að raungerast á. Meira en það, halli turnsins samsvarar halla jarðar og þannig vísar minnismerkið út í alheiminn.

Turninn vísar að mati listfræðingsins Steffens Krämers í fornar hefðir þar sem leitast er við draga upp mynd af alheiminum. Í þeim er jafnan gripið til þeirra rúmfræðilegu tákna sem Tatlin notar, þ.e.a.s. sívalnings, píramída, fernings og kúlu, sem komið er fyrir á öxli og hægt er að snúa. Innan þeirra fór einn hlutur í hring yfir árið, annar á mánuði og sá þriðji á sólarhring. Frægt líkan af þessu tagi er eftir Jóhannes Kepler (1571–1630) en það nefnist Machina mundi artificialis og frá 1596.

Óvíst er þó hvort Tatlin hafi haft þetta verk í huga þegar hann hannaði líkanið af turninum en líklegt er þó að hann hafi þekkt til þessarar hefðar.[17] Alheimslegt vægi þess sem turninn stendur fyrir getur því vart verið skýrara. Þess vegna er eðlilegt að ýmsum finnist sem turninn svífi og að hann sé hafinn yfir þyngdarlögmálið.[18]

Útópískur draumur

Tatlin vildi reisa minnismerki sem ætti að virka sem hvati til að móta nýjan og réttlátari heim. Verkið vísar ekki einungis til framsækni kommúnismans heldur einnig og jafnvel mun fremur til djúprar þrár mannsins um betri heim. Líkanið sýnir hvernig þessi heimur getur verið. Spíralarnir eru táknmyndir frelsis og jarðtengingu þess og sýna lausn mannsins undan oki hins dýrslega og jarðneska og þrældómi hagsmunabaráttu ólíkra stétta. Það er þess vegna sem spíralarnir eru látnir vefjast um hryggsúlu byggingarinnar og vísa upp í himininn.[19] Að sama skapi hefur turninum verið líkt við lífsins tré.[20]

Þetta líkan konstrúktívismans og sá táknheimur sem það vísar til vakti ekki bara hrifningu heldur snerust ýmsir umsvifalaust gegn því. Jafnt í Pétursborg þar sem líkanið var fyrst sýnt og síðar í Moskvu komu strax fram gagnrýnisraddir á hversu nýstárlegt og óraunhæft verkið var. Gagnrýnendur gátu þó ekki litið fram hjá stórfengleika verksins og hvernig turn Tatlins bræddi saman hið listræna, tæknilega og félagslega og viðurkenndu þeir að minnismerkið sameinaði nútímavæðingu samtímans og byltinguna með glæsilegum hætti. Turn Tatlins varð þannig að tákni fyrir hið útópíska samfélag sem sagan var sögð stefna að. Listaverkið vísar inn í útópótískan draum þeirrar framtíðar sem lá m.a. kommúnismanum til grundvallar og var sögð renna upp innan tíðar.[21]

Það verður að teljast vafasamt hvort það hefði reynst tæknilega mögulegt að reisa turninn í því bændasamfélagi sem Sovétríkin enn voru. Tatlin viðist hafa álitið að það myndi ganga en Lenín (1870–1924) sá ekki gildi þess. Vegna þessa var aldrei rætt um það innan stjórnkerfisins hvernig ætti að reisa minnismerkið eða hvar það ætti að standa. Þegar upp var staðið varð turn Tatlins fyrst og fremst að hugmynd um útópíska von og er það helsti styrkleiki listaverksins. Upprunalega líkanið er glatað en sú táknfræði sem það birtir hafði engu að síður margvísleg áhrif innan arkitektúrs í Rússlandi og víðar um Evrópu.[22]

Tveggja turna tal

Listfræðingurinn Steffen Krämer telur að líkan Tatlins sé birtingarmynd hugmyndafræði októberbyltingarinnar en framsetning þess hafi strax mætt andstöðu þeirra sem fylgdu sósíalískri raunhyggju að málum.[23] Rúmum tíu árum eftir að Tatlin hafði gert líkan sitt var haldin samkeppni um bygginguna Höll Sovétríkjanna. Þátttakan í henni var mikil og voru tillögur m.a. sendar inn af frægum innlendum og erlendum arkitektum en ákveðið var 1934 að samþykkja tillögu Boris Jofans (1891–1971). Um var að ræða turn sem minnir á stóran stöpul sem styttu af Lenín er komið fyrir á. Andstætt turni Tatlins var talið mögulegt að byggja þennan stöpul. Eftir langar umræður var ákveðið að turninn skildi vera í Moskvu og hófust byggingarframkvæmdirnar 1937 en stöðvuðust í desember 1941 þegar herir nasista voru komnir að mörkum borgarinnar.

Þegar myndir af turnunum eru bornar saman kemur munur þeirra vel í ljós. Annar er fulltrúi fyrir nútímann en hinn er minnisvarði í gotneskum stalínstíl.

 

                                                                                                                                                                                Boris Jofan, Palast der Sowjets, Ausführungsentwurf 1934.

Minnisvarði Boris Jofans er í raun stytta á stalli þar sem allt er í yfirstærð. Stalín samþykkti hana enda áleit hann sig vera hinn eina rétta arftaka Leníns.[24] Í raun er minnismerkið frá upphafi táknmynd fyrir afturhaldssaman dogmatisma Stalíns og vísar til ímyndaðrar fortíðar. Í turni Jofans er þeirri útópísku sýn sem Tatlin sótti til októberbyltingarinnar vikið til hliðar fyrir alræðislegri foringjadýrkun stalínismans. Athygli vekur að í skrifum ráðamanna á þessum árum er gjarnan vísað til þess að turninn, Höll Sovétríkjanna, sé andstæða Babelsturnsins. Í kringum turn Jofans sé lýðurinn ekki sundraður eins í lok frásögunnar um Babelsturninum í Gamla testamentinu (1Mós 11.19) heldur sameinaður á forsendum kommúnismans. Sagan hefur nú dregið rækilega fram hversu kaldhæðin þessi líking í raun var.[25]

Samkvæmt Krämer er hugmyndin í turni Jofans um hina réttu og björtu „framtíð bundin við gamlan og að því virðist sístæðan draum mannkyns um gullöld sem átti að raungerast í Rússalandi Stalíns.“[26] Þess vegna er Höll Sovétríkjanna minnisvarði um alræðishugmyndir Stalíns um það skipulag og þau lögmál sem veruleikinn átti að lúta. Turn Tatlins vísar aftur á móti til vonar nútímans um útópíska möguleika framtíðarinnar. Fyrri turninn er óhreyfanlegt bákn en turn Talins er magnaður, opinn, kraftmikill og grundvallaður á síbreytilegum vélrænum veruleika.[27]

Lokaorð

Turn Tatlins hefur staðist tímans tönn frekar sem táknmynd en bygging. Líkan hans einkennist af útópískri hugmynd um veruleikann og framtíðarvon. Þar er um að ræða von sem vísar til framtíðarinnar án þess þó að verða hluti af veruleika okkar. Þessi spenna verksins vekur spurningar sem áhorfandinn verður að glíma við. [28]

Höll Sovétríkjanna vekur hins vegar frekar vonleysi og hryggð yfir þeirri ógæfu sem alræði og alræðiskenningar kalla alla jafnan yfir samfélög og sundrunginni sem fylgir slíku. Það er því ekki út í hött að bera saman Babelsturn Gamla testamentisins og Höll Sovétríkjanna.

Heimildir

Dempsey, Amy

Styles, Schools and Movements — The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art,, Thames & Hudson, London 2017.

Bloch, Ernst

Das Prinzip Hoffnung, Zweiter Band, 6. útgáfa, Suhrkamp Verlag, Frankfurt am Main 1979.

Krämer, Steffen

„Das Denkmal der III. Internationale und der Palast der Sowjets. Architektonischen Utopie in der Sowejetunion von der Revolution bis zum frühen Stalinismus“, Schriftenreihe der Winckelmann Akademie für Kunschgeschichte München. Texbeitrag Nr. 9, München 2013, 2–32.

Partsch, Susanna

Kunst–Epochen Band 11. 20. Jahrhunder I, Reclam Universal–Bibliothek, Ditzingen 2018.

Rowell, Margit

„Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, Oktober 102, vol. 7, Winter, The MIT Press, Cambridge USA, 1978, 83–108.

Sigurjóna Árni Eyjólfsson,

Trú, von og þjóð – Sjálfsmyndir og staðleysur, HÍB, Reykjavík 2014.

Neðanmálsgreinar

[1] Sigurjóna Árni Eyjólfsson, Trú, von og þjóð – Sjálfsmyndir og staðleysur, HÍB, Reykjavík 2014.

[2] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, Oktober 102, vol. 7, Winter, The MIT Press, Cambridge USA, 1978, 102 [83–108].

[3] Amy Dempsey, Styles, Schools and Movements — The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art, Thames & Hudson, London 2017, 109.

[4] Susanna Partsch, Kunst–Epochen Band 11. 20. Jahrhunder I, Reclam Universal–Bibliothek, Ditzingen 2018, 100.

[5] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale und der Palast der Sowjets. Architektonischen Utopie in der Sowejetunion von der Revolution bis zum frühen Stalinismus“, Schriftenreihe der Winckelmann Akademie für Kunschgeschichte München. Texbeitrag Nr. 9, München 2013, 2 [2–32]. Amy Dempsey, Styles, Schools and Movements, 168.

[6] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 3.

[7] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 5.

[8] Susanna Partsch, 20. Jahrhunder I, 100.

[9] Susanna Partsch, 20. Jahrhunder I, 101.

[10] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, 102–104.

[11] Amy Dempsey, Styles, Scholls and Movements, 106, 108.

[12] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, 104.

[13] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“,105.

[14] Susanna Partsch, 20. Jahrhunder I, 52–54.

[15] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 10.

[16] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 10.

[17] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 12.

[18] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 11.

[19] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, 106. Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 13.

[20] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, 103.

[21] Ernst Bloch, Das Prinzip Hoffnung, Zweiter Band, 6. útgáfa, Suhrkamp Verlag, Frankfurt am Main 1979, 676. Sigurjóna Árni Eyjólfsson, Trú, von og þjóð, 241–251.

[22] Susanna Partsch, Kunst–Epochen Band 11 20. Jahrhunder I, 101.

[23] Amy Dempsey, Styles, Schools and Movements, 168.

[24] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 15–22.

[25] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 24–26.

[26] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 27. – Hér mætti allt eins tala um mýtu eins og draum.

[27] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 30–31.

[28] Sigurjóna Árni Eyjólfsson, Trú, von og þjóð – Sjálfsmyndir og staðleysur, 251.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson (f. 1957) hefur ritað fjölmargar bækur um guðfræði.
Á síðasta ári kom út bók eftir hann sem ber heitið:
Augljóst en hulið – Að skilja táknheim kirkjubygginga.
Hann hefur skrifað nokkrar greinar í Gestagluggann sem tengjast list og trú.

Minnisvarði Vladimirs Tatlins um þriðju alþjóðahreyfinguna

Hér verður fjallað um tillögu um minnisvarða sem listamaðurinn  Vladimir Tatlin setti fram 1919 í tengslum við þriðju alþjóðahreyfingu kommúnista  en líkanið er reist eins og turn og er í grundvallaratriðum útópískt. Gerð verður grein fyrir tilurð listaverksins, uppbyggingu þess og þeim táknum sem koma fram í því en þar verður leitað til nokkurra listfræðinga sem helst hafa fjallað um það. Sérstaklega verður sjónum beint að því hvernig listaverkið birtir þá útópíu sem lögð er því til grundvallar[1] og það borið saman við annað útópískt listaverk sem sömuleiðis var runnið frá því sama landi, Höll Sovétríkjanna eftir Boris Jofan.

Turn Tatlins sem táknmynd framtíðar

Í Rússlandi reyndu listamenn, rétt eins og kollegar þeirra sem síðar tengdust Bauhaus í Þýskalandi og De Stijl í Hollandi, að flétta listina saman við daglegt líf almennings.[2] Sjónarmið þeirra var skýrt, listina á ekki að rækta listarinnar vegna, heldur ber henni að þjóna fólki í amstri hversdagsins og verða þannig hluti af lífi þess.[3] Mikilvægt dæmi um þessa viðleitni er líkan Vladimirs Tatlins (1885–1953) frá 1919 af minnisvarða fyrir þriðju alþjóðahreyfingu kommúnista en það var mörgum áratugum síðar endurgert og sýnt í París 1979.[4] Byggingin átti í senn að vera táknmynd októberbyltingarinnar og hýsa meginstofnanir Sovétríkjanna, stjórnkerfis þriðju alþjóðahreyfingarinnar. Hugmynd Tatlins hefur verið túlkuð á þann máta að í henni birtist útópískur listskilningur hins rússneska avant-garde sem varð andstæða hins alls ráðandi sósíalíska raunsæis í valdatíð Stalíns.[5]

Árið 1919 fór listadeild menntaráðs byltingarstjórnarinnar þess á leit við Vladimir Tatlin að hann myndi hanna líkan af minnisvarða fyrir þriðju alþjóðahreyfinguna. Listamaðurinn hóf þegar þá vinnu og sýndi í mars 1920 yfir þriggja metra hátt líkan af turninum. Það var haft til sýnis í listaakademíunni í Pétursborg en í desember var farið með það til Moskvu og var það haft þar til sýnis. Turninn vakti mikla athygli jafnt innan Sovétríkjanna sem utan. Árið 1925 útbjó Tatlin annað líkan af turninum sem var stillt upp á lista– og handverkssýningu í París og hlaut það þar verðlaun.[6]

Minnisvarðinn um þriðju alþjóðahreyfinguna frá 1920.

Turninn og merking hans

Turn Tatlins hefur verið skilgreindur og flokkaður á margvíslegan máta. Hann er ýmist sagður höggmynd, arkitektúr, minnisvarði, bygging (400 metra hár skýjakljúfur sem samanstendur af fjórum sjálfstæðum einingum) o.s.frv. Almennt er talið að Tatlin hafi að einhverju leyti tekið mið af Eiffelturninum og stálgrind hans þegar hann hannaði minnismerkið. Þegar Eiffelturninn og minnismerki Tatlins eru borin saman sést að innra og ytra rými þeirra renna saman eða með öðrum orðum þá eru mörkin á milli þess sem er fyrir innan og þess fyrir utan í báðum tilfellum ógreinanleg.[7] Fyrir vikið virka þessi listaverk í senn léttari og nútímalegri en þær stórbyggingar sem mynda eina samfellda efnisheild.

Tatlin vildi að minnismerkið yrði að mestu úr stáli og gleri en ólíkt Eiffelturninum er meginstoð þess hallandi stálgrind. Hún lítur út eins og hryggsúla og þjónar byggingunni sem slík en um hana og þríhyrnt form minnismerkisins vefjast tveir spíralar. Turninn vísar skáhallt upp á við sem virkar eins og hann tengi saman himinn og jörð. Innan stálgrindarinnar eru fjórir meginhlutar byggingarinnar sem sækja útlit sitt til meginforma rúmfræðinnar og eru samtengdir öxli sem þeir snúast um. Neðst er stærsta rýmið. Það er sívalningur sem snýst um 360 gráður á ári eða einn hring. Í þessari byggingu áttu að vera þær stofnanir sem tilheyra löggjafarvaldinu. Pýramídi er staðsettur fyrir ofan sívalninginn og tekur snúningur hans um öxul sinn mánuð. Í honum áttu að vera stofnanir framkvæmdarvaldsins. Fyrir ofan pýramídann er minni sívalningur og snýst hann um öxul sinn á sólarhring. Í honum áttu að vera stofnanir áróðursmálaráðuneytisins. Þar fyrir ofan er svo hálfkúla sem varpar myndum á skýin sem þjóna sem kvikmyndatjald. Þar áttu að vera ritsíminn, útvarpið og endurvarpsstöð.[8] Turn Tatlins tengir þannig saman listir og nútímatækni svo úr verður hreyfilist.

Tatlin nýtti sér hér þá rússnesku hefð að byggingar gætu verið um leið minnismerki. Hlutverk þeirra væri að minna á merkisatburði í sögu landsmanna eins og t.d. Kirkja endurlausnarinnar í Moskvu sem var reist í tilefni sigurs Rússa á herjum Napóleons.[9] Turninn hefur þannig skírskotun í hlutverk dómkirkna og þjónar sem slíkur nýrri hugmyndafræði og samfélagsgerð kommúnista.[10] Meginefniviður turnsins er stál og gler sem fyrir Tatlin eru táknmyndir nútímans. Hugmynd Tatlins var að stálið merkti vilja verkalýðsins og glerið hreina samvisku hans. Halli turnsins samsvarar halla jarðar og stendur fyrir þá útópísku sýn októberbyltingarinnar að kommúnisminn birti lögmál þeirrar söguþróunar sem liggi heiminum til grundvallar. Framþróun sögunnar holdgerðist svo að segja í byltingunni og væri turninn tákn þess.[11]

Turninn og lögmál veruleikans

Járngrind turnsins minnir ekki bara á Eiffelturninn heldur líka á möstur á stríðsskipum úr samtíð Tatlins, turna fyrir olíubora, krana og námuinnganga svo eitthvað sé nefnt.[12] Þannig birtir turninn ekki bara kenningu konstrúktívismans um samhljóm vélamenningar og listar heldur sameinar hann vélvæðingu nútímans og útópíska framtíðarsýn byltingarinnar. Vélin er táknmynd fyrir þann kraft sem býr í framþróun sögunnar og byltingin stendur fyrir.[13] Fulltrúar konstrúktívismans álitu að listin væri dauð ef hið vélræna væri ekki virt og þau rökrænu lögmál og skipulag sem vélin liti. Þannig vitni taktföst hreyfing vélar, sjálf byggingin og efni hennar um þá frumspeki sem veruleikinn lúti.[14] Óneitanlega endurómar þessi sýn konstrúktívismans, sem Tatlin fylgir, af „mikilli vélarómatík og vélavinglstrú.“[15] „Vélarómantíkin‟ birtist ekki síst í því að meginþættir byggingarinnar skuli snúast um öxul sinn. Minnismerkið má túlka sem nútíma Prómeþef sem vísar veginn inn í framtíðina og vitnisburð um það fullkomna samfélag sem Sovétríkin eiga að vera.[16] Járnturninn er vitnisburður um nýja tíma og framtíð sem holdgerist í rússnesku byltingunni. Turninn hallar eins og hann vísi inn í þessa framtíð á sama tíma og hann tengir himin vona mannsins við þá jörð sem þær eru að raungerast á. Meira en það, halli turnsins samsvarar halla jarðar og þannig vísar minnismerkið út í alheiminn.

Turninn vísar að mati listfræðingsins Steffens Krämers í fornar hefðir þar sem leitast er við draga upp mynd af alheiminum. Í þeim er jafnan gripið til þeirra rúmfræðilegu tákna sem Tatlin notar, þ.e.a.s. sívalnings, píramída, fernings og kúlu, sem komið er fyrir á öxli og hægt er að snúa. Innan þeirra fór einn hlutur í hring yfir árið, annar á mánuði og sá þriðji á sólarhring. Frægt líkan af þessu tagi er eftir Jóhannes Kepler (1571–1630) en það nefnist Machina mundi artificialis og frá 1596.

Óvíst er þó hvort Tatlin hafi haft þetta verk í huga þegar hann hannaði líkanið af turninum en líklegt er þó að hann hafi þekkt til þessarar hefðar.[17] Alheimslegt vægi þess sem turninn stendur fyrir getur því vart verið skýrara. Þess vegna er eðlilegt að ýmsum finnist sem turninn svífi og að hann sé hafinn yfir þyngdarlögmálið.[18]

Útópískur draumur

Tatlin vildi reisa minnismerki sem ætti að virka sem hvati til að móta nýjan og réttlátari heim. Verkið vísar ekki einungis til framsækni kommúnismans heldur einnig og jafnvel mun fremur til djúprar þrár mannsins um betri heim. Líkanið sýnir hvernig þessi heimur getur verið. Spíralarnir eru táknmyndir frelsis og jarðtengingu þess og sýna lausn mannsins undan oki hins dýrslega og jarðneska og þrældómi hagsmunabaráttu ólíkra stétta. Það er þess vegna sem spíralarnir eru látnir vefjast um hryggsúlu byggingarinnar og vísa upp í himininn.[19] Að sama skapi hefur turninum verið líkt við lífsins tré.[20]

Þetta líkan konstrúktívismans og sá táknheimur sem það vísar til vakti ekki bara hrifningu heldur snerust ýmsir umsvifalaust gegn því. Jafnt í Pétursborg þar sem líkanið var fyrst sýnt og síðar í Moskvu komu strax fram gagnrýnisraddir á hversu nýstárlegt og óraunhæft verkið var. Gagnrýnendur gátu þó ekki litið fram hjá stórfengleika verksins og hvernig turn Tatlins bræddi saman hið listræna, tæknilega og félagslega og viðurkenndu þeir að minnismerkið sameinaði nútímavæðingu samtímans og byltinguna með glæsilegum hætti. Turn Tatlins varð þannig að tákni fyrir hið útópíska samfélag sem sagan var sögð stefna að. Listaverkið vísar inn í útópótískan draum þeirrar framtíðar sem lá m.a. kommúnismanum til grundvallar og var sögð renna upp innan tíðar.[21]

Það verður að teljast vafasamt hvort það hefði reynst tæknilega mögulegt að reisa turninn í því bændasamfélagi sem Sovétríkin enn voru. Tatlin viðist hafa álitið að það myndi ganga en Lenín (1870–1924) sá ekki gildi þess. Vegna þessa var aldrei rætt um það innan stjórnkerfisins hvernig ætti að reisa minnismerkið eða hvar það ætti að standa. Þegar upp var staðið varð turn Tatlins fyrst og fremst að hugmynd um útópíska von og er það helsti styrkleiki listaverksins. Upprunalega líkanið er glatað en sú táknfræði sem það birtir hafði engu að síður margvísleg áhrif innan arkitektúrs í Rússlandi og víðar um Evrópu.[22]

Tveggja turna tal

Listfræðingurinn Steffen Krämer telur að líkan Tatlins sé birtingarmynd hugmyndafræði októberbyltingarinnar en framsetning þess hafi strax mætt andstöðu þeirra sem fylgdu sósíalískri raunhyggju að málum.[23] Rúmum tíu árum eftir að Tatlin hafði gert líkan sitt var haldin samkeppni um bygginguna Höll Sovétríkjanna. Þátttakan í henni var mikil og voru tillögur m.a. sendar inn af frægum innlendum og erlendum arkitektum en ákveðið var 1934 að samþykkja tillögu Boris Jofans (1891–1971). Um var að ræða turn sem minnir á stóran stöpul sem styttu af Lenín er komið fyrir á. Andstætt turni Tatlins var talið mögulegt að byggja þennan stöpul. Eftir langar umræður var ákveðið að turninn skildi vera í Moskvu og hófust byggingarframkvæmdirnar 1937 en stöðvuðust í desember 1941 þegar herir nasista voru komnir að mörkum borgarinnar.

Þegar myndir af turnunum eru bornar saman kemur munur þeirra vel í ljós. Annar er fulltrúi fyrir nútímann en hinn er minnisvarði í gotneskum stalínstíl.

 

                                                                                                                                                                                Boris Jofan, Palast der Sowjets, Ausführungsentwurf 1934.

Minnisvarði Boris Jofans er í raun stytta á stalli þar sem allt er í yfirstærð. Stalín samþykkti hana enda áleit hann sig vera hinn eina rétta arftaka Leníns.[24] Í raun er minnismerkið frá upphafi táknmynd fyrir afturhaldssaman dogmatisma Stalíns og vísar til ímyndaðrar fortíðar. Í turni Jofans er þeirri útópísku sýn sem Tatlin sótti til októberbyltingarinnar vikið til hliðar fyrir alræðislegri foringjadýrkun stalínismans. Athygli vekur að í skrifum ráðamanna á þessum árum er gjarnan vísað til þess að turninn, Höll Sovétríkjanna, sé andstæða Babelsturnsins. Í kringum turn Jofans sé lýðurinn ekki sundraður eins í lok frásögunnar um Babelsturninum í Gamla testamentinu (1Mós 11.19) heldur sameinaður á forsendum kommúnismans. Sagan hefur nú dregið rækilega fram hversu kaldhæðin þessi líking í raun var.[25]

Samkvæmt Krämer er hugmyndin í turni Jofans um hina réttu og björtu „framtíð bundin við gamlan og að því virðist sístæðan draum mannkyns um gullöld sem átti að raungerast í Rússalandi Stalíns.“[26] Þess vegna er Höll Sovétríkjanna minnisvarði um alræðishugmyndir Stalíns um það skipulag og þau lögmál sem veruleikinn átti að lúta. Turn Tatlins vísar aftur á móti til vonar nútímans um útópíska möguleika framtíðarinnar. Fyrri turninn er óhreyfanlegt bákn en turn Talins er magnaður, opinn, kraftmikill og grundvallaður á síbreytilegum vélrænum veruleika.[27]

Lokaorð

Turn Tatlins hefur staðist tímans tönn frekar sem táknmynd en bygging. Líkan hans einkennist af útópískri hugmynd um veruleikann og framtíðarvon. Þar er um að ræða von sem vísar til framtíðarinnar án þess þó að verða hluti af veruleika okkar. Þessi spenna verksins vekur spurningar sem áhorfandinn verður að glíma við. [28]

Höll Sovétríkjanna vekur hins vegar frekar vonleysi og hryggð yfir þeirri ógæfu sem alræði og alræðiskenningar kalla alla jafnan yfir samfélög og sundrunginni sem fylgir slíku. Það er því ekki út í hött að bera saman Babelsturn Gamla testamentisins og Höll Sovétríkjanna.

Heimildir

Dempsey, Amy

Styles, Schools and Movements — The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art,, Thames & Hudson, London 2017.

Bloch, Ernst

Das Prinzip Hoffnung, Zweiter Band, 6. útgáfa, Suhrkamp Verlag, Frankfurt am Main 1979.

Krämer, Steffen

„Das Denkmal der III. Internationale und der Palast der Sowjets. Architektonischen Utopie in der Sowejetunion von der Revolution bis zum frühen Stalinismus“, Schriftenreihe der Winckelmann Akademie für Kunschgeschichte München. Texbeitrag Nr. 9, München 2013, 2–32.

Partsch, Susanna

Kunst–Epochen Band 11. 20. Jahrhunder I, Reclam Universal–Bibliothek, Ditzingen 2018.

Rowell, Margit

„Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, Oktober 102, vol. 7, Winter, The MIT Press, Cambridge USA, 1978, 83–108.

Sigurjóna Árni Eyjólfsson,

Trú, von og þjóð – Sjálfsmyndir og staðleysur, HÍB, Reykjavík 2014.

Neðanmálsgreinar

[1] Sigurjóna Árni Eyjólfsson, Trú, von og þjóð – Sjálfsmyndir og staðleysur, HÍB, Reykjavík 2014.

[2] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, Oktober 102, vol. 7, Winter, The MIT Press, Cambridge USA, 1978, 102 [83–108].

[3] Amy Dempsey, Styles, Schools and Movements — The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art, Thames & Hudson, London 2017, 109.

[4] Susanna Partsch, Kunst–Epochen Band 11. 20. Jahrhunder I, Reclam Universal–Bibliothek, Ditzingen 2018, 100.

[5] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale und der Palast der Sowjets. Architektonischen Utopie in der Sowejetunion von der Revolution bis zum frühen Stalinismus“, Schriftenreihe der Winckelmann Akademie für Kunschgeschichte München. Texbeitrag Nr. 9, München 2013, 2 [2–32]. Amy Dempsey, Styles, Schools and Movements, 168.

[6] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 3.

[7] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 5.

[8] Susanna Partsch, 20. Jahrhunder I, 100.

[9] Susanna Partsch, 20. Jahrhunder I, 101.

[10] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, 102–104.

[11] Amy Dempsey, Styles, Scholls and Movements, 106, 108.

[12] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, 104.

[13] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“,105.

[14] Susanna Partsch, 20. Jahrhunder I, 52–54.

[15] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 10.

[16] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 10.

[17] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 12.

[18] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 11.

[19] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, 106. Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 13.

[20] Margit Rowell, „Vladimir Tatlin: Form/Faktura“, 103.

[21] Ernst Bloch, Das Prinzip Hoffnung, Zweiter Band, 6. útgáfa, Suhrkamp Verlag, Frankfurt am Main 1979, 676. Sigurjóna Árni Eyjólfsson, Trú, von og þjóð, 241–251.

[22] Susanna Partsch, Kunst–Epochen Band 11 20. Jahrhunder I, 101.

[23] Amy Dempsey, Styles, Schools and Movements, 168.

[24] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 15–22.

[25] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 24–26.

[26] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 27. – Hér mætti allt eins tala um mýtu eins og draum.

[27] Steffen Krämer, „Das Denkmal der III. Internationale“, 30–31.

[28] Sigurjóna Árni Eyjólfsson, Trú, von og þjóð – Sjálfsmyndir og staðleysur, 251.

Viltu deila þessari grein með fleirum?