Af því bara?
Viðbrögð við skrifum um biskupsembættið, ríki og kirkju
Inngangur
Undanfarið hefur Hjalti Hugason, prófessor emeritus, birt átta greinar í Kirkjublaðinu, en helmingur þeirra er ritaður með Stefáni Magnússyni, kirkjuþingsmanni. Ritstjóri Kirkjublaðsins kynnir eina þeirra með eftir farandi orðum: „Þeir Hjalti og Stefán hafa látið kirkjumál til sín taka svo áratugum skiptir. Þekking þeirra á málefnum kirkjunnar er víðtæk og þegar þeir kveða sér hljóðs er hlustað.“[1] Samkvæmt þessu er kennivald þeirra Hjalta og Stefáns augljóst. Að þeir velja Kirkjublaðið sem vettvang til þess að birta greinar sínar í segir margt. Hann gefur þegar til kynna að lesendahópurinn sem þeir vilja ávarpa, er þjóðkirkjufólk, áhrifamenn innan safnaða og stjórnkerfis kirkjunnar. Greinarnar birtast auk þessa nær allar fyrir og í kringum kirkjuþing, sem gefur til kynna að þeir vilja hafa áhrif á umræðu og ákvörðunartöku á þinginu. Þær bera líka merki þess að vera skrifaðar inn í kirkjupólitísk átök og það af aðilum sem hafa tekið og taka fullan þátt í þeim, jafnt innan sem utan kirkjuþings.
Að lesa greinarnar sem heild
Það er því áhugavert að skoða greinarnar sem heild, jafnvel þótt þær fjórar síðustu séu eftir þá Hjalta og Stefán. Þessa nálgun má réttlæta með röklegu samhengi greinanna. Í fyrstu greininni fjallar Hjalti um biskupsembættið í tengslum við hirðisbréf Agnesar[2] og sú síðasta tekur á umræðunni um biskupsembættið á kirkjuþingi.[3] Þ.e.a.s. í þeirri fyrstu sem ber heitið „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“ (12.06), reifar Hjalti samband ríkis og kirkju í tengslum við biskupsembættið. Sú íhugun er síðan nánar útfærð í pistlinum „Þörf á trúfrelsi?“(24.06)[4] og að ríkisvaldið tryggi það með virku aðhaldi er efni greinarinnar „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“ (31.06).[5] Þar á eftir gerir Hjalti grein fyrir kirkjuskilningi sínum og von um hvernig kirkjan eigi að vera, í hugleiðingunni „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“ (25.08).[6] Í framhaldi af þessari greiningu spyrja Hjalti og Stefán „Hvernig biskup viljum við?“ (4.09)[7] og sú spurning er nánar útfærð í pistlinum „Hvernig ætti að kjósa biskup?“ (9.09).[8] Greinin „Tímabundnir biskupar“ (14.09) dregur fram vangaveltur þeirra um þann vanda sem skapast þegar margir hafa sinnt biskupsembættinu um skamman tíma.[9] Hana má vel skilja sem lokagrein greinaflokksins og þá síðustu „Kirkjupólitískt útspil“ (19.10) sem eftirmála.[10] Tekið skal fram að ef fleiri greinar bætast við, sem ekki er ólíklegt, mun það kalla á endurskoðun þessarar flokkunar.
Um nálgunaraðferð
Í greinunum er farið yfir vítt svið og áhugavert að skoða þá aðferð sem beitt er á viðfangsefnið. Þegar skrif evangelísk-lútherskra guðfræðinga um hlutverk kirkjunnar og embætti hennar eru skoðuð má greina að hefð hefur mótast varðandi kirkjuskilning og tengd efni. Þannig er jafnan hafist handa við að rekja guðfræðilegar rætur viðfangsefnisins í ritum Gamla– og Nýja testamentisins. Þá er oft vikið að þróun kirkjuskilningsins í gegnum söguna, í fornkirkjunni, á miðöldum, inn í siðbreytingartímann og fram til dagsins í dag. Þessari nálgun tilheyrir m.a. að greina guðfræði kirkjuskilnings viðkomandi tímabils og þá oft í beinu og óbeinu í samtali við stöðu kirkjunnar í samtímanum. Í samhengi þessa nýta fræðimenn sér aðferðir sem eru notaðar í félagsfræðilegum rannsóknum þegar kirkjan er skoðuð sem ein af meginstofnunum samfélagsins og þá sem þjóðkirkja.[11]
Hjalti beitir ekki þessari nálgun, heldur leitast við að ná yfir allt það efni sem liggur undir með því að einbeita sér að þeim lögum og reglugerðum sem snerta viðfangsefnið. Hann leitast lítt við að ritskýra viðkomandi lög og reglugerðir í þeim skilningi að tengja þau þeim hugmyndasögulegu hefðum og félagsögulega samhengi sem þau eru sprottin úr eða vitna um, eins og þekkt er í ritum um kirkjurétt.[12] Vissulega má benda á að erfitt sé að koma slíku fyrir í stuttum greinum eins og hér eru til umræðu. – En þess ber þó að geta að í lengri skrifum Hjalta er líka að finna svipaða nálgun. Í greinunum sem hér eru til umræða greinir hann – og Stefán þegar það á við – með nærri bókstafslegri nálgun viðkomandi lög og reglugerðir á formalískan og pósítívískan máta og leitast við að sýna þróunina í setningu laga og reglugerða.
Við hlið þessarar nálgunar gengur Hjalti út frá því að kirkjan sem hluti af fjölhyggjusamfélagi samtímans eigi að vera opin og lýðræðisleg stofnum sem stendur vörð um mannréttindi.[13] Í greininni „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“ (31.07) er þetta sett skýrt fram og ítrekar Hjalti að það sé „trúarleg og guðfræðileg skylda“ þjóðkirkjunnar að standa vörð um mannréttindi og mannlega reisn.[14]
Í krafti þessarar aðferðar og grunnforsendu leggur Hjalti áherslu á þá lýðræðisvæðingu sem þjóðkirkjan verði að sinna svo hún geti kallast kirkja allra.
Efni greinanna og innbyrðis tengsl
Í fyrstu greininni „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“ (12.06) hnykkir Hjalti á nauðsyn þess að gera skýran greinarmun á annars vegar aðgreiningu ríkis og kirkju og hins vegar aðskilnaði ríkis og kirkju. Aðgreining er „stofnunar– og stjórnskipulegt fyrirbrigði“ þar sem markmiðið er fyrst og fremst að tryggja sjálfstæði þjóðkirkjunnar og skilvirkni hennar. Aðskilnaður er hins vegar „trúarpólitískt fyrirbæri og lýtur að hve náin tengsl eiga að vera milli“ ríkis og kirkju. Að mati Hjalta er á Íslandi vart hægt að tala um aðskilnað ríkis og kirkju vegna náinna tengsla, aftur á móti er aðgreiningin skýr varðandi stofnanalegt hlutverk kirkjunnar og rekstur hennar. Aðgreiningin er hér orðin það mikil að það er ekki lengur réttlætanlegt að telja biskup til helstu embættismanna þjóðarinnar. Í tveimur næstu greinum „Þörf á trúfrelsi?“ (24.06) og „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“ (31.06) útfærir Hjalti þessa aðgreiningu nánar og setur varnagla við hugmyndum um aðskilnað milli ríkis og kirkju og / eða trúar og lífsskoðunarfélaga. Að hans mati er það skylda ríkisins í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi að tryggja, að mannréttindi, jafnrétti, mannvirðing og grundvallarreglur lýðræðis séu virtar innan stofnana samfélagsins og þar eru trúar– og lífsskoðunarfélög engin undantekning. Það tæki sem ríkisvaldið hefur til að knýja á um að þessi gildi séu virt, eru fjárveitingar ríkisins til viðkomandi félagasamtaka. Mælikvarðinn sem það getur stuðst við er m.a. mannréttindasáttmáli Evrópu um „grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis“.[15] Í greininni „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“ (25.08) reifar Hjalti síðan hvernig þjóðkirkjan sinnir þessu hlutverki í samfélaginu. Samkvæmt Hjalta er hún hluti af „þriðja geira samfélagsins í samstarfi við fjölmörg önnur trúar–, mannúðar–, mannréttinda–, hjálpar– og baráttusamtök“ í baráttunni fyrir betri heimi. Spámannlegt og siðferðilegt hlutverk þjóðkirkjunnar er svo sett í forgrunn, ef gripið er til guðfræðilegs tungutaks. Í samræmi við þessa skilgreiningu hafnar Hjalti þeim röddum sem telja að þjóðkirkjan sé hér komin um of inn á hið pólitíska svið og vísar slíkri gagnrýni á bug sem íhaldssömu tali sem bundið sé af þröngum trúarskilningi. Slík rök eru greinilega mótuð af sjónarmiðum hinnar „gömlu stofnunarlegu kirkju“ og knúin áfram af þrá eftir því sem var og tekur oft á sig „píslarvættismynd“.[16] Slíkur málflutningur er að mati Hjalta á skjön við þá lýðræðisvæðingu sem þjóðkirkjan er að ganga í gegnum og andstæð þeirri mannréttindahugmynd sem hún á að vera fulltrúa fyrir.
Það má vel skoða greinar Hjalta og Stefáns sem röklegt framhald af þessum hugmyndum. Í þeim er vísað til þess að biskupsembættinu hafi snemma í sögu kirkjunnar verið komið fyrir í stjórnarformi einræðisbiskupa „(„mónarkískir“ biskupar)“ sem fóru með „óskorað vald á öllum sviðum kirkjustjórnar“. Þessi biskupsskilningur var tekinn til endurskoðunar af helstu fulltrúum siðbótarinnar, en hún náði ekki í gegn. Á Íslandi telja þeir Hjalti og Stefán að sá embættisskilningur að biskupinn sé „einræðisbiskup“ hafi haldið sér allt til þessa þó með nokkrum tilbrigðum. Þessu þarf að breyta enda þarfnast íslensk þjóðkirkja í stað einræðisbiskups, andlegs leiðtoga eða líkan aðila og Ólafur Ragnar Grímsson var fyrir marga í forsetatíð sinni. Þeir knýja hér á um að gæta beri að því að biskup er andlegur leiðtogi þjóðkirkjunnar en ekki þjóðarinnar.[17] Næsta grein þeirra er „Hvernig ætti að kjósa biskup“ (9.09) þar er hnykkt á vægi lýðræðislegra og almennra biskupskosninga og það þurfi að tryggja að sem flestir komi að forvali biskupskandídata sem og vali biskups.[18] Það gefur að skilja – sem dregið er fram í næstu grein „Tímabundnir biskupar“ (14.09) – að við slíka lýðræðisvæðingu mun eðlilega aukast velta þeirra sem sinna biskupsembættinu í eitt eða fleiri kjörtímabil. Slíkt kallar aftur á móti á regluverk um starfslok og viðurværi fráfarandi biskupa. Greinin endar með spurningu um hvort eitthvað sé „í lútherskri embættisguðfræði sem mælir gegn þessu?“[19] Það er þess virði að huga að spurningunni og útvíkka hana. Þessi grein myndar eðlileg lok þessa pistlaflokks.
En eftir að undirbúningur kirkjuþings í lok október 2023 var hafinn, t.d. með framlagningu þingmála, skrifuðu þeir Hjalti og Stefán greinina „Kirkjupólitískt útspil“ (19.10) sem má vel meta sem eftirmála við þær. Af greininni er ljóst að þeir óttast að á kirkjuþingi séu aðilar sem vilja sneiða hjá lýðræðisþróuninni og verja hinn gamla skilning á biskupsembættinu sem einræðisbiskup. Þeir draga fram hvernig gripið sé þar til eldgamalla hugtaka og hugmynda fyrir tíð lýðræðisþróunar á Íslandi, til að undirbyggja þessa viðleitni. Það eitt birti tímaskekkju þessarar tilburða. Í þessari grein er – eins og reyndar sums staðar annars staðar í greinaflokknum – að finna viðleitni til að setja lagatillögur í sögulegt samhengi til að undirbyggja réttmæta gagnrýni.
Á lúthersk embættisguðfræði í vök að verjast?
Spurning þeirra félaga, um hvort „eitthvað í lútherskri embættisguðfræði“ mæli gegn greiningu þeirra, þarfnast yfirlegu og greiningar.[20] Í því sem á eftir fer verður leitast við að bregðast við þessari spurningu þeirra í samhengi þeirra vandamála sem skrif þeirra taka á.
Hvernig er kirkjan skilgreind?
Ef leitað er að hnitmiðaðri skilgreiningu á kirkju– og embættisskilningi evangelísk–lútherskrar kirkju er hana að finna í 7. gr. Ágsborgarjátningarinnar. Þar segir: „Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentum er veitt rétt þjónusta.“[21] Samkvæmt því er kirkjan sem samfélag trúaratriði og staðurinn þar sem maðurinn fyrir boðun fagnaðarerindisins meðtekur fyrirgefningu og náð Guðs í trú. Kirkjan er samfélag manna um sameiginlega trú, ræktun hennar og miðlun. Trúin er aftur á móti samkvæmt 5. gr. Ágsborgarjátningarinnar ekki á valdi mannsins, heldur eitthvað sem Guð vekur fyrir tilstilli boðunar fagnaðarerindisins. En þar stendur: „Til þess að vér öðlumst þessa trú, er stofnað embætti til að kenna fagnaðarerindið og úthluta sakramentum, því fyrir orð og sakramenti eins og tæki er gefinn heilagur andi, sem kemur til leiðar trúnni, þar sem og þegar Guði þóknast, í þeim sem heyra fagnaðarerindið, sem fjallar um, að Guð, ekki vegna vorra verðleika, heldur vegna Krists, réttlæti þá sem trúa, að þeir séu teknir til náðar vegna Krists.“[22] Af þessu má ljóst vera að það er Guð sem frelsar manninn en boðandans er að flytja fagnaðarerindið. Boðunin þarf að innihalda greiningu á inntaki fagnaðarerindisins og víðtæka fræðslu um það.[23] Áhersla Ágsborgarjátningarinnar er skýr: Maðurinn boðar og fræðir en Guð frelsar manninn. Þetta hlutverk boðunarinnar þarfnast stofnunarlegrar umgjörðar fyrir kirkjuna, sem aftur á móti tilheyrir ekki fagnaðarerindinu sem slíku. Hin stofnanalega umgjörð er veraldlegs eðlis eða fellur undir svið lögmálsins. Stofnanalegri umgjörð kirkjunnar sem safnaðar tilheyrir jafnan kirkjubygging og almennur rekstur starfsins innan hennar. Kirkjan er sem stofnum sýnileg og tilheyrir hinu veraldlega sviði, en innan hinnar sýnilegu kirkju dvelur hin sanna ósýnilega kirkja sem er andlegur veruleiki. Í evangelísk–lútherskri guðfræði er reynt að varpa ljósi á þetta með hjálp aðgreiningarinnar í lögmál og fagnaðarerindi, tveggja ríkja kenningunni og kenningunni um réttlætingu af trú. Það er ekki markmiðið að skilgreina hér frekar þessi greiningartæki guðfræðinnar og notkun þeirra, nema að draga fram að í umræðunni um kirkjuna er ætíð fjallað sérstaklega um birtingarmáta kirkjunnar sem andlegs og veraldlegs fyrirbæris.[24]
Sýnileiki kirkjunnar
Í umfjöllun Hjalta og síðar þeirra Stefáns er sjónum einungis beint að sýnileika kirkjunnar sem stofnunar. Hún er skilgreind sem ein af stofnunum samfélagsins út frá vægi lýðræðis og mannréttinda. Lög og reglugerðir um hana eru skoðuð í pósítívískum og nærri bókstaflegum skilningi þar sem er að mestu sneitt hjá hugmyndafræði– og samfélagslegum þáttum. Afleiðing þess er stjórnsýsluleg lýsing á kirkjunni sem félagasamtökum og embætti biskups sem forstöðumanns hennar. Þegar sjálfskilningi kirkjunnar er á þennan máta vikið til hliðar – sem er settur fram í textaröðum kirkjuársins, kirkjubyggingunni, helgisiðum en um fram allt í játningum kirkjunnar[25] – verður að teljast að slík nálgun sé takmörkunum háð. Hún vekur spurningar þá ekki einungis í ljósi þess að greinar Hjalta og Stefáns eru birtar á kirkjulegum vettvangi, þar sem tekin eru fram tengsl höfunda við kirkjulegt starf og stjórnsýslu. Þar að auki er markmið þeirra að knýja á um vægi vissrar sýnar á biskupsembættið sem var til umfjöllunar á kirkjuþingi. Vissulega er eðlilegt að afmarka efnið við ákveðna lagalega þætti, en setja má spurningarmerki við nálgunina. Það er verið að ræða við þjóðkirkjufólk um innri málefni kirkjunnar sem kallar eftir guðfræðilegri umfjöllum um sjálfskilning hennar sem andlegs og veraldlegs veruleika sem m.a. kemur fram í lögbundnum játningunum hennar. Hvað veldur þessari nálgun?
Guðfræðileg umræða og lagasetning
Kirkjuréttarfræðingar hafa oft bent á að forðast beri þá tilhneigingu, sem því miður er útbreidd meðal guðfræðinga og forystufólks innan kirkjunnar, að vilja leysa átök um guðfræðileg málefni með lagasetningum í stað guðfræðilegrar umræðu og átaka. Það skýrir ef til vill þennan mikla áhuga á lögum og reglugerðum í stétt presta sem hefur leitt til einhliða umræðu um kirkjuleg málefni þar sem guðfræðilegum þáttum er vart sinnt. Það kemur því lítt á óvart að hinn virti þýski kirkjuréttarfræðingur Martin Heckel endar ítarlegan kafla um biskupsembættið á áminningu um, að það sé verkefni guðfræðinga að greina, skilgreina og þróa áfram embættisskilninginn og þar með biskupsembættisins en ekki lögfræðinga. Lög eiga endurspegla þau átök og þá vinnu, sem eru að sjálfsögðu sístæð.[26] Annars færist það í vöxt innan vestrænna samfélaga að færa „eðlilegar“ deilur og átök um ágreiningsefni inn í dómsali. Þar eiga dómarar að skera úr málefnum sem þeir hafa oft ekki forsendur til að gera. Vegna þess að þau eru viðfangsefni almennrar umræðu, þar sem að koma, einstaklingar, fulltrúar félagasamtaka, margskonar sérfræðingar og fulltrúar hinar ýmsu stofnana samfélagsins. Innan dómskerfisins er farið að vara við þessari þróun eins og kemur vel fram í ágætri bók breska hæstaréttardómarans Jonathan Sumption um efnið.[27]
Að standa vörð um lýðræði og mannréttindi
Við lestur greinanna vaknar líka sú spurning hvort réttlætanlegt sé nú á dögum að vísa til vægis lýðræðis og mannréttinda eins og óhagganlegs veruleika og ganga út frá því að það sé gefið að menn virði þau. Það er eins og menn ætli að hér dugi að svara þegar spurt er „Af hverju?“ með orðunum „Af því bara“. Í samtímanum standa vestræn samfélög frammi fyrir því að það þarf að verja lýðræðis– og mannréttindahugsjónina fyrir hatrömum árásum og þá ekki bara af hendi fulltrúa vinstri og hægri popúlista.[28] Það nægir hér bara að huga að klofningi bandarísks samfélags eða þeirrar pólitísku spennu sem ríkir í Evrópu. Hlutverk kirkjunnar er í samhengi þessa orðið krefjandi og þá hlutverk hennar að koma með guðfræðileg rök sem styðja lýðræði og mannréttindi. Einn af þeim lærdómum sem þýska þjóðin og / eða þýska ríkið varð að takast á við eftir seinni heimsstyrjöldina var að ríkisvaldið, þ.e.a.s. frjálst, lýðræðislegt nútíma ríkisvald, setur ekki sjálfu sér grunn sinn eða mótar þau gildi sem það lýtur. Hvað þá að stjórnsýslan, embættismannakerfið eða býrókratían valdi því.[29] Þar að auki er spurning hvort réttlætanlegt sé að ræða um ríki og kirkju eins og staðlaðar stærðir eins og virðist vera gengið út frá í greinunum. Ríkið er ekki stök stærð sem er niður njörvuð í ramma laga, heldur mjög svo magnað og marglaga fyrirbrigði. Innan þess er að finna stofnanir og hagsmunasamtök sem takast á. Nægir aðeins að huga að þeirri hagsmunagæslu og átökum sem eiga sér stað á hverju ári í kringum fjárlögin og svipað mætir í tengslum við setningu laga og reglugerða, að ekki sé minnst á þann vanda að tryggja að þeim sé fylgt.
Kirkjan gæti þannig svarað spurningunni Af hverju? og tryggt vægi mannréttinda og lýðræðis út frá guðfræðilegum forsendum með hliðsjón af kenningunni um frelsi kristins manns. Hún er mótandi þáttur í hinu evangelísk–lútherska frelsishugtaki sem byggir á fjórum meginstoðum trúarinnar. Frelsi kristins manns byggir á náð Guðs. Hún er ekki á valdi mannsins, heldur Guðs sem veitir manninum hana skilyrðislaust eða án allrar verkréttlætingar (l. sola gratia). Í annan stað binst frelsið hinni persónubundnu trú mannsins sem einstaklings (l. sola fide). Frelsi mannsins er ekki reist á manninum sjálfum, heldur á hjálpræðisverk Krists sem leysir hann úr ánauð sektar og verkaréttlætingar (l. solus Christus). Og loks er frelsi hins kristna manns óháð stofnanalegu forræði þar sem vægi ritningarinnar sem inniheldur fagnaðarerindið, er sett yfir stofnunina og kennivald embættismanna hennar (l. sola scriptura). Eins og trúin lifir af náð sem er boðuð og ræktuð í kirkjunni en lýtur henni ekki, þannig má færa guðfræðilega rök fyrir því, segir þýski guðfræðingurinn Arnulf von Scheliha að ríkisvaldinu beri að ganga út frá hinu sama varðandi mannréttindi sem gæðum sem maðurinn þegar á, en öðlast ekki hægt og hægt.[30]
Marglaga hugtak
Af lestrum greinanna vakna óneitanlega spurningar um hugtakið þjóðkirkja. Hjalti túlkar hugtakið út frá orðalagi 62. gr. stjórnarskrárinnar og álítur að það sé samnefnari fyrir meirihlutakirkju. Þetta er nokkuð almenn túlkun í íslenskri orðræðu um samband ríkis og kirkju. Hún er aftur á móti frekar þröng og jafnvel villandi. Þegar hugað er að sögu hugtaksins þá kemur í ljós að hjá hinum áhrifamikla þýska guðfræðingi Friedrich Schleiermacher (1768–1834) kemur það fram sem viðbrögð og andmæli við tilraunum Prússakonungs til að múlbinda kirkjuna sem ríkiskirkju við stjórnskipun prússneska ríkisins. Schleiermacher hafnar þeim tilburðum og teflir fram hugmyndinni um kirkjuna sem þjóðkirkju. Áhersla hans er að innan kirkjunnar og safnaða hennar eigi að boða „þjóðinni“ fagnaðarerindið og rækta trúna í söfnuðunum. Hann knýr á um að í þessu starfi eigi kirkjan samleið með lýðræðisöflum í samfélaginu.[31] Þjóðkirkjuhugtakið er hér sett fram til höfuðs ríkiskirkjuhugtakinu. Það kemur því lítt á óvart að nútíma guðfræðingurinn Kristina Fechter dragi fram fimm þætti sem eru mótandi fyrir þjóðkirkjuhugtakið. Fyrir það fyrsta varpar það ljósi á tengsl kirkjunnar við samfélagið sem vissa þjóð. Áherslan hvílir á því að hún nái til þjóðarinnar sem heildar, en að hún móti hana sem slíka er aftur á móti lítt mögulegt í samfélagsgerð nútímans. Í annan stað er að gæta að því, að þjóðkirkjuhugtakið er guðfræðilegt hugtak, en þá ekki í reglugefandi skilningi, heldur í praktískum. Í þriðja lægi er hugtakið nær eingöngu notað innan kirkjudeildar mótmælenda, sem vísar til tiltekins kirkjuskilnings. Í fjórða lægi tekur það jafnan mið af þeim sem það nota eða þeirra safnaða sem skilgreina sig sem slíka kirkju. Í fimmta lagi er hugtakið þjóðkirkja skylt hugtökunum þjóðtrú, alþýðuhreyfing o.s.frv. Samkvæmt þessu getur verið villandi að leggja það að jöfnu við ríkiskirkju eða meirihlutakirkju. Hugtakið er marglaga og þarfnast guðfræðilegrar útleggingar sem varpar á ljósi á lögfræðilega notkun þess, en ekki öfugt.[32]
Að kjósa biskup
Loks ber að minnast á hugmyndirnar um kosningu biskups. Biskupskosningar snúast vissulega ekki um kosningu á þjóðhöfðingja eða helsta embættismanni ríkisins, heldur um val á „forstöðumanni“ eða „tilsjónarmanni“ fyrir ákveðna stofnun. Það fellur vissulega undir starfsvið biskupa, ef svo á við, að taka virkan þátt í því sem fellur undir veraldlega hlið kirkjulegs starfs. Aftur á móti er það fyrst og fremst hlutverk biskups að tryggja boðun fagnaðarerindisins og veitingu sakramenta sbr. 28. gr. Ágsborgarjátningarinnar. Biskupsembættið er fyrst og fremst kirkjulegt embætti sem er líka veraldleg stofnun því er ofur eðlilegt að fulltrúar kirkjunnar m.a. á kirkjuþingi, nýti sér lýðræðislegar reglur sem mótast hafa í samfélaginu við kosningu yfirmanna innan stofnana eins og t.d. rektors HÍ. Hann er kosinn lýðræðislegri kosningu þótt hún sé ekki almenn o.s.frv.
Í lokin
Í krafti afmarkaðs sjónarhorns og þröngrar lögfræðilegrar túlkunar, er í greinarskrifunum Hjalta og Stefáns dregin fram atriði sem vekja krefjandi spurningar er þarfnast nánari skoðunar. Má þar nefna nauðsyn þess að rekja betur þróun biskupsembættisins og þeirrar guðfræði sem hún endurspeglar. Í annan stað er mikil þörf á ítarlegri ritskýringu á 28. gr. Ágsborgarjátningarinnar um biskupsembættið og óneitanlega þarf að tengja þá umfjöllun við þá stöðu sem kirkjan stendur frammi fyrir m.a. þegar hún fjallar um krefjandi málefni samtíðarinnar svo eitthvað sé nefnt.
Tilvísanir
[1] Hreinn Hákonarson, aðfaraorð við greinina, Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig Biskup viljum við?“, Kirkjublaðið 4. september 2023.
[2] Hjalti Hugason, „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“, Kirkjublaðið 12. júlí 2023.
[3] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon „Kirkjupólitískt útspil“, Kirkjublaðið 19. október 2023.
[4] Hjalti Hugason, „Þörf á trúfrelsi?“, Kirkjublaðið 24. júlí 2023.
[5] Hjalti Hugason, „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“, Kirkjublaðið 31. Júlí 2023.
[6] Hjalti Hugason, „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“, Kirkjublaðið 25. ágúst. 2023.
[7] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“, Kirkjublaðið 4. september. 2023.
[8] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig ætti að kjósa biskup?“, Kirkjublaðið 9. september. 2023.
[9] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Tímabundnir biskupar“, Kirkjublaðið 14. september. 2023.
[10] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Kirkjupólitískt útspil““, Kirkjublaðið 19. október. 2023.
[11] Dæmi um slíka nálgun má finna m.a. í Kirche – Themen der Theologie, Band 1, ritstjóri Christian Albrecht, Mohr Siebeck, Tübingen 2011. Uppsláttarritum eins og TRE, RGG o.s.frv. Sem dæmi um slíka nálgun í íslensku samhengi má nefna Sigurjón Árni Eyjólfsson Ríki og kirkja, HÍB Reykjavík 2006, Trú, von og þjóð, HÍB Reykjavík 2014.
[12] Dæmi um slíka nálgun má greina í doktorsritgerð Bjarna Sigurðssonar og áberandi m.a. í skrifum þýskra kirkjuréttarfræðinga sem Bjarni tengdist eins og Martin Heckel, Alex von Campenhausen o.fl. Bjarni Sigurðsson, Geschichte und Gegenwartgestalt des isländischen Kirchenrechts, Peter Lang, Frankfurt am Main 1986.
[13] „Samkvæmt lögum um þjóðkirkjuna ber henni í starfsháttum sínum að hafa í heiðri grundvallarreglu jafnræðis og lýðræðis“. Hjalti Hugason, „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“.
[14] Hjalti Hugason, „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“.
[15] Hjalti Hugason, „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“.
[16] Hjalti Hugason, „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“
[17] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“
[18] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig ætti að kjósa biskup?“
[19] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Tímabundnir biskupar“.
[20] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Tímabundnir biskupar“.
[21] Í þýska textanum (BSLK, 61) segir að kirkjan „sé söfnuður allra trúaðra, þar sem fagnaðarerindið er boðað hreint og heilögum sakramentum útdeilt samkvæmt fagnaðarerindinu.“ Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar 2. útgáfa, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1991, 188–189.·
[22] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 183.
[23] Sigurjón Árni Eyjólfsson, Tíminn og trúin, HÍB Reykjavík 2022.
[24] Sigurjón Árni Eyjólfsson, Ríki og kirkja, HÍB Reykjavík 2006.
[25] En vægi játninganna fyrir þjóðkirkjuna er bundið í lög.
[26] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, Mohr Siebeck, Tübingen 2016, 336–337.
[27] Jonathan Sumption, Trail of the State – Law and the Decline of Politics, Profile Books, London 2019.
[28] Bend Stegemann, Das Gespenst des Populismus, 3. útgáfa, Theater der Zeit, Berlin 2017. Dirk Jörke og Veith Selk, Theorien des Populismus zur Einführung, Junius, Hamburg 2017. Jan-Werner Müller, Was ist Populismus? 5. útgáfa, Suhrkamp, Berlin 2017.
[29] Arnulf von Scheliha, „Kirche und Stadt“, Handbuch – Praktische Theologie, ritstjórar Wilhelm Gräb og Birgit Weyel, Gütersloher Verlagshaus, Gütersloh 2007, 103–104, [101–112].
[30] Arnulf von Scheliha, „Kirche und Stadt“, 105.
[31] Kurt Nowak, Schleiermacher, Vandenhoeck & Ruprecht, Göttingen 2001, 385–390. Reiner Preul, Kirchentheorie, Walter de Gruyter, Berlín 1997, 192–194.
[32] Kristian Fechter, „Kirche und Gesellschaft“, Handbuch – Praktische Theologie, ritstjórar Wilhelm Gräb og Birgit Weyel, Gütersloher Verlagshaus, Gütersloh 2007, 96–97, [89–100].
Af því bara?
Viðbrögð við skrifum um biskupsembættið, ríki og kirkju
Inngangur
Undanfarið hefur Hjalti Hugason, prófessor emeritus, birt átta greinar í Kirkjublaðinu, en helmingur þeirra er ritaður með Stefáni Magnússyni, kirkjuþingsmanni. Ritstjóri Kirkjublaðsins kynnir eina þeirra með eftir farandi orðum: „Þeir Hjalti og Stefán hafa látið kirkjumál til sín taka svo áratugum skiptir. Þekking þeirra á málefnum kirkjunnar er víðtæk og þegar þeir kveða sér hljóðs er hlustað.“[1] Samkvæmt þessu er kennivald þeirra Hjalta og Stefáns augljóst. Að þeir velja Kirkjublaðið sem vettvang til þess að birta greinar sínar í segir margt. Hann gefur þegar til kynna að lesendahópurinn sem þeir vilja ávarpa, er þjóðkirkjufólk, áhrifamenn innan safnaða og stjórnkerfis kirkjunnar. Greinarnar birtast auk þessa nær allar fyrir og í kringum kirkjuþing, sem gefur til kynna að þeir vilja hafa áhrif á umræðu og ákvörðunartöku á þinginu. Þær bera líka merki þess að vera skrifaðar inn í kirkjupólitísk átök og það af aðilum sem hafa tekið og taka fullan þátt í þeim, jafnt innan sem utan kirkjuþings.
Að lesa greinarnar sem heild
Það er því áhugavert að skoða greinarnar sem heild, jafnvel þótt þær fjórar síðustu séu eftir þá Hjalta og Stefán. Þessa nálgun má réttlæta með röklegu samhengi greinanna. Í fyrstu greininni fjallar Hjalti um biskupsembættið í tengslum við hirðisbréf Agnesar[2] og sú síðasta tekur á umræðunni um biskupsembættið á kirkjuþingi.[3] Þ.e.a.s. í þeirri fyrstu sem ber heitið „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“ (12.06), reifar Hjalti samband ríkis og kirkju í tengslum við biskupsembættið. Sú íhugun er síðan nánar útfærð í pistlinum „Þörf á trúfrelsi?“(24.06)[4] og að ríkisvaldið tryggi það með virku aðhaldi er efni greinarinnar „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“ (31.06).[5] Þar á eftir gerir Hjalti grein fyrir kirkjuskilningi sínum og von um hvernig kirkjan eigi að vera, í hugleiðingunni „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“ (25.08).[6] Í framhaldi af þessari greiningu spyrja Hjalti og Stefán „Hvernig biskup viljum við?“ (4.09)[7] og sú spurning er nánar útfærð í pistlinum „Hvernig ætti að kjósa biskup?“ (9.09).[8] Greinin „Tímabundnir biskupar“ (14.09) dregur fram vangaveltur þeirra um þann vanda sem skapast þegar margir hafa sinnt biskupsembættinu um skamman tíma.[9] Hana má vel skilja sem lokagrein greinaflokksins og þá síðustu „Kirkjupólitískt útspil“ (19.10) sem eftirmála.[10] Tekið skal fram að ef fleiri greinar bætast við, sem ekki er ólíklegt, mun það kalla á endurskoðun þessarar flokkunar.
Um nálgunaraðferð
Í greinunum er farið yfir vítt svið og áhugavert að skoða þá aðferð sem beitt er á viðfangsefnið. Þegar skrif evangelísk-lútherskra guðfræðinga um hlutverk kirkjunnar og embætti hennar eru skoðuð má greina að hefð hefur mótast varðandi kirkjuskilning og tengd efni. Þannig er jafnan hafist handa við að rekja guðfræðilegar rætur viðfangsefnisins í ritum Gamla– og Nýja testamentisins. Þá er oft vikið að þróun kirkjuskilningsins í gegnum söguna, í fornkirkjunni, á miðöldum, inn í siðbreytingartímann og fram til dagsins í dag. Þessari nálgun tilheyrir m.a. að greina guðfræði kirkjuskilnings viðkomandi tímabils og þá oft í beinu og óbeinu í samtali við stöðu kirkjunnar í samtímanum. Í samhengi þessa nýta fræðimenn sér aðferðir sem eru notaðar í félagsfræðilegum rannsóknum þegar kirkjan er skoðuð sem ein af meginstofnunum samfélagsins og þá sem þjóðkirkja.[11]
Hjalti beitir ekki þessari nálgun, heldur leitast við að ná yfir allt það efni sem liggur undir með því að einbeita sér að þeim lögum og reglugerðum sem snerta viðfangsefnið. Hann leitast lítt við að ritskýra viðkomandi lög og reglugerðir í þeim skilningi að tengja þau þeim hugmyndasögulegu hefðum og félagsögulega samhengi sem þau eru sprottin úr eða vitna um, eins og þekkt er í ritum um kirkjurétt.[12] Vissulega má benda á að erfitt sé að koma slíku fyrir í stuttum greinum eins og hér eru til umræðu. – En þess ber þó að geta að í lengri skrifum Hjalta er líka að finna svipaða nálgun. Í greinunum sem hér eru til umræða greinir hann – og Stefán þegar það á við – með nærri bókstafslegri nálgun viðkomandi lög og reglugerðir á formalískan og pósítívískan máta og leitast við að sýna þróunina í setningu laga og reglugerða.
Við hlið þessarar nálgunar gengur Hjalti út frá því að kirkjan sem hluti af fjölhyggjusamfélagi samtímans eigi að vera opin og lýðræðisleg stofnum sem stendur vörð um mannréttindi.[13] Í greininni „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“ (31.07) er þetta sett skýrt fram og ítrekar Hjalti að það sé „trúarleg og guðfræðileg skylda“ þjóðkirkjunnar að standa vörð um mannréttindi og mannlega reisn.[14]
Í krafti þessarar aðferðar og grunnforsendu leggur Hjalti áherslu á þá lýðræðisvæðingu sem þjóðkirkjan verði að sinna svo hún geti kallast kirkja allra.
Efni greinanna og innbyrðis tengsl
Í fyrstu greininni „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“ (12.06) hnykkir Hjalti á nauðsyn þess að gera skýran greinarmun á annars vegar aðgreiningu ríkis og kirkju og hins vegar aðskilnaði ríkis og kirkju. Aðgreining er „stofnunar– og stjórnskipulegt fyrirbrigði“ þar sem markmiðið er fyrst og fremst að tryggja sjálfstæði þjóðkirkjunnar og skilvirkni hennar. Aðskilnaður er hins vegar „trúarpólitískt fyrirbæri og lýtur að hve náin tengsl eiga að vera milli“ ríkis og kirkju. Að mati Hjalta er á Íslandi vart hægt að tala um aðskilnað ríkis og kirkju vegna náinna tengsla, aftur á móti er aðgreiningin skýr varðandi stofnanalegt hlutverk kirkjunnar og rekstur hennar. Aðgreiningin er hér orðin það mikil að það er ekki lengur réttlætanlegt að telja biskup til helstu embættismanna þjóðarinnar. Í tveimur næstu greinum „Þörf á trúfrelsi?“ (24.06) og „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“ (31.06) útfærir Hjalti þessa aðgreiningu nánar og setur varnagla við hugmyndum um aðskilnað milli ríkis og kirkju og / eða trúar og lífsskoðunarfélaga. Að hans mati er það skylda ríkisins í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi að tryggja, að mannréttindi, jafnrétti, mannvirðing og grundvallarreglur lýðræðis séu virtar innan stofnana samfélagsins og þar eru trúar– og lífsskoðunarfélög engin undantekning. Það tæki sem ríkisvaldið hefur til að knýja á um að þessi gildi séu virt, eru fjárveitingar ríkisins til viðkomandi félagasamtaka. Mælikvarðinn sem það getur stuðst við er m.a. mannréttindasáttmáli Evrópu um „grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis“.[15] Í greininni „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“ (25.08) reifar Hjalti síðan hvernig þjóðkirkjan sinnir þessu hlutverki í samfélaginu. Samkvæmt Hjalta er hún hluti af „þriðja geira samfélagsins í samstarfi við fjölmörg önnur trúar–, mannúðar–, mannréttinda–, hjálpar– og baráttusamtök“ í baráttunni fyrir betri heimi. Spámannlegt og siðferðilegt hlutverk þjóðkirkjunnar er svo sett í forgrunn, ef gripið er til guðfræðilegs tungutaks. Í samræmi við þessa skilgreiningu hafnar Hjalti þeim röddum sem telja að þjóðkirkjan sé hér komin um of inn á hið pólitíska svið og vísar slíkri gagnrýni á bug sem íhaldssömu tali sem bundið sé af þröngum trúarskilningi. Slík rök eru greinilega mótuð af sjónarmiðum hinnar „gömlu stofnunarlegu kirkju“ og knúin áfram af þrá eftir því sem var og tekur oft á sig „píslarvættismynd“.[16] Slíkur málflutningur er að mati Hjalta á skjön við þá lýðræðisvæðingu sem þjóðkirkjan er að ganga í gegnum og andstæð þeirri mannréttindahugmynd sem hún á að vera fulltrúa fyrir.
Það má vel skoða greinar Hjalta og Stefáns sem röklegt framhald af þessum hugmyndum. Í þeim er vísað til þess að biskupsembættinu hafi snemma í sögu kirkjunnar verið komið fyrir í stjórnarformi einræðisbiskupa „(„mónarkískir“ biskupar)“ sem fóru með „óskorað vald á öllum sviðum kirkjustjórnar“. Þessi biskupsskilningur var tekinn til endurskoðunar af helstu fulltrúum siðbótarinnar, en hún náði ekki í gegn. Á Íslandi telja þeir Hjalti og Stefán að sá embættisskilningur að biskupinn sé „einræðisbiskup“ hafi haldið sér allt til þessa þó með nokkrum tilbrigðum. Þessu þarf að breyta enda þarfnast íslensk þjóðkirkja í stað einræðisbiskups, andlegs leiðtoga eða líkan aðila og Ólafur Ragnar Grímsson var fyrir marga í forsetatíð sinni. Þeir knýja hér á um að gæta beri að því að biskup er andlegur leiðtogi þjóðkirkjunnar en ekki þjóðarinnar.[17] Næsta grein þeirra er „Hvernig ætti að kjósa biskup“ (9.09) þar er hnykkt á vægi lýðræðislegra og almennra biskupskosninga og það þurfi að tryggja að sem flestir komi að forvali biskupskandídata sem og vali biskups.[18] Það gefur að skilja – sem dregið er fram í næstu grein „Tímabundnir biskupar“ (14.09) – að við slíka lýðræðisvæðingu mun eðlilega aukast velta þeirra sem sinna biskupsembættinu í eitt eða fleiri kjörtímabil. Slíkt kallar aftur á móti á regluverk um starfslok og viðurværi fráfarandi biskupa. Greinin endar með spurningu um hvort eitthvað sé „í lútherskri embættisguðfræði sem mælir gegn þessu?“[19] Það er þess virði að huga að spurningunni og útvíkka hana. Þessi grein myndar eðlileg lok þessa pistlaflokks.
En eftir að undirbúningur kirkjuþings í lok október 2023 var hafinn, t.d. með framlagningu þingmála, skrifuðu þeir Hjalti og Stefán greinina „Kirkjupólitískt útspil“ (19.10) sem má vel meta sem eftirmála við þær. Af greininni er ljóst að þeir óttast að á kirkjuþingi séu aðilar sem vilja sneiða hjá lýðræðisþróuninni og verja hinn gamla skilning á biskupsembættinu sem einræðisbiskup. Þeir draga fram hvernig gripið sé þar til eldgamalla hugtaka og hugmynda fyrir tíð lýðræðisþróunar á Íslandi, til að undirbyggja þessa viðleitni. Það eitt birti tímaskekkju þessarar tilburða. Í þessari grein er – eins og reyndar sums staðar annars staðar í greinaflokknum – að finna viðleitni til að setja lagatillögur í sögulegt samhengi til að undirbyggja réttmæta gagnrýni.
Á lúthersk embættisguðfræði í vök að verjast?
Spurning þeirra félaga, um hvort „eitthvað í lútherskri embættisguðfræði“ mæli gegn greiningu þeirra, þarfnast yfirlegu og greiningar.[20] Í því sem á eftir fer verður leitast við að bregðast við þessari spurningu þeirra í samhengi þeirra vandamála sem skrif þeirra taka á.
Hvernig er kirkjan skilgreind?
Ef leitað er að hnitmiðaðri skilgreiningu á kirkju– og embættisskilningi evangelísk–lútherskrar kirkju er hana að finna í 7. gr. Ágsborgarjátningarinnar. Þar segir: „Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentum er veitt rétt þjónusta.“[21] Samkvæmt því er kirkjan sem samfélag trúaratriði og staðurinn þar sem maðurinn fyrir boðun fagnaðarerindisins meðtekur fyrirgefningu og náð Guðs í trú. Kirkjan er samfélag manna um sameiginlega trú, ræktun hennar og miðlun. Trúin er aftur á móti samkvæmt 5. gr. Ágsborgarjátningarinnar ekki á valdi mannsins, heldur eitthvað sem Guð vekur fyrir tilstilli boðunar fagnaðarerindisins. En þar stendur: „Til þess að vér öðlumst þessa trú, er stofnað embætti til að kenna fagnaðarerindið og úthluta sakramentum, því fyrir orð og sakramenti eins og tæki er gefinn heilagur andi, sem kemur til leiðar trúnni, þar sem og þegar Guði þóknast, í þeim sem heyra fagnaðarerindið, sem fjallar um, að Guð, ekki vegna vorra verðleika, heldur vegna Krists, réttlæti þá sem trúa, að þeir séu teknir til náðar vegna Krists.“[22] Af þessu má ljóst vera að það er Guð sem frelsar manninn en boðandans er að flytja fagnaðarerindið. Boðunin þarf að innihalda greiningu á inntaki fagnaðarerindisins og víðtæka fræðslu um það.[23] Áhersla Ágsborgarjátningarinnar er skýr: Maðurinn boðar og fræðir en Guð frelsar manninn. Þetta hlutverk boðunarinnar þarfnast stofnunarlegrar umgjörðar fyrir kirkjuna, sem aftur á móti tilheyrir ekki fagnaðarerindinu sem slíku. Hin stofnanalega umgjörð er veraldlegs eðlis eða fellur undir svið lögmálsins. Stofnanalegri umgjörð kirkjunnar sem safnaðar tilheyrir jafnan kirkjubygging og almennur rekstur starfsins innan hennar. Kirkjan er sem stofnum sýnileg og tilheyrir hinu veraldlega sviði, en innan hinnar sýnilegu kirkju dvelur hin sanna ósýnilega kirkja sem er andlegur veruleiki. Í evangelísk–lútherskri guðfræði er reynt að varpa ljósi á þetta með hjálp aðgreiningarinnar í lögmál og fagnaðarerindi, tveggja ríkja kenningunni og kenningunni um réttlætingu af trú. Það er ekki markmiðið að skilgreina hér frekar þessi greiningartæki guðfræðinnar og notkun þeirra, nema að draga fram að í umræðunni um kirkjuna er ætíð fjallað sérstaklega um birtingarmáta kirkjunnar sem andlegs og veraldlegs fyrirbæris.[24]
Sýnileiki kirkjunnar
Í umfjöllun Hjalta og síðar þeirra Stefáns er sjónum einungis beint að sýnileika kirkjunnar sem stofnunar. Hún er skilgreind sem ein af stofnunum samfélagsins út frá vægi lýðræðis og mannréttinda. Lög og reglugerðir um hana eru skoðuð í pósítívískum og nærri bókstaflegum skilningi þar sem er að mestu sneitt hjá hugmyndafræði– og samfélagslegum þáttum. Afleiðing þess er stjórnsýsluleg lýsing á kirkjunni sem félagasamtökum og embætti biskups sem forstöðumanns hennar. Þegar sjálfskilningi kirkjunnar er á þennan máta vikið til hliðar – sem er settur fram í textaröðum kirkjuársins, kirkjubyggingunni, helgisiðum en um fram allt í játningum kirkjunnar[25] – verður að teljast að slík nálgun sé takmörkunum háð. Hún vekur spurningar þá ekki einungis í ljósi þess að greinar Hjalta og Stefáns eru birtar á kirkjulegum vettvangi, þar sem tekin eru fram tengsl höfunda við kirkjulegt starf og stjórnsýslu. Þar að auki er markmið þeirra að knýja á um vægi vissrar sýnar á biskupsembættið sem var til umfjöllunar á kirkjuþingi. Vissulega er eðlilegt að afmarka efnið við ákveðna lagalega þætti, en setja má spurningarmerki við nálgunina. Það er verið að ræða við þjóðkirkjufólk um innri málefni kirkjunnar sem kallar eftir guðfræðilegri umfjöllum um sjálfskilning hennar sem andlegs og veraldlegs veruleika sem m.a. kemur fram í lögbundnum játningunum hennar. Hvað veldur þessari nálgun?
Guðfræðileg umræða og lagasetning
Kirkjuréttarfræðingar hafa oft bent á að forðast beri þá tilhneigingu, sem því miður er útbreidd meðal guðfræðinga og forystufólks innan kirkjunnar, að vilja leysa átök um guðfræðileg málefni með lagasetningum í stað guðfræðilegrar umræðu og átaka. Það skýrir ef til vill þennan mikla áhuga á lögum og reglugerðum í stétt presta sem hefur leitt til einhliða umræðu um kirkjuleg málefni þar sem guðfræðilegum þáttum er vart sinnt. Það kemur því lítt á óvart að hinn virti þýski kirkjuréttarfræðingur Martin Heckel endar ítarlegan kafla um biskupsembættið á áminningu um, að það sé verkefni guðfræðinga að greina, skilgreina og þróa áfram embættisskilninginn og þar með biskupsembættisins en ekki lögfræðinga. Lög eiga endurspegla þau átök og þá vinnu, sem eru að sjálfsögðu sístæð.[26] Annars færist það í vöxt innan vestrænna samfélaga að færa „eðlilegar“ deilur og átök um ágreiningsefni inn í dómsali. Þar eiga dómarar að skera úr málefnum sem þeir hafa oft ekki forsendur til að gera. Vegna þess að þau eru viðfangsefni almennrar umræðu, þar sem að koma, einstaklingar, fulltrúar félagasamtaka, margskonar sérfræðingar og fulltrúar hinar ýmsu stofnana samfélagsins. Innan dómskerfisins er farið að vara við þessari þróun eins og kemur vel fram í ágætri bók breska hæstaréttardómarans Jonathan Sumption um efnið.[27]
Að standa vörð um lýðræði og mannréttindi
Við lestur greinanna vaknar líka sú spurning hvort réttlætanlegt sé nú á dögum að vísa til vægis lýðræðis og mannréttinda eins og óhagganlegs veruleika og ganga út frá því að það sé gefið að menn virði þau. Það er eins og menn ætli að hér dugi að svara þegar spurt er „Af hverju?“ með orðunum „Af því bara“. Í samtímanum standa vestræn samfélög frammi fyrir því að það þarf að verja lýðræðis– og mannréttindahugsjónina fyrir hatrömum árásum og þá ekki bara af hendi fulltrúa vinstri og hægri popúlista.[28] Það nægir hér bara að huga að klofningi bandarísks samfélags eða þeirrar pólitísku spennu sem ríkir í Evrópu. Hlutverk kirkjunnar er í samhengi þessa orðið krefjandi og þá hlutverk hennar að koma með guðfræðileg rök sem styðja lýðræði og mannréttindi. Einn af þeim lærdómum sem þýska þjóðin og / eða þýska ríkið varð að takast á við eftir seinni heimsstyrjöldina var að ríkisvaldið, þ.e.a.s. frjálst, lýðræðislegt nútíma ríkisvald, setur ekki sjálfu sér grunn sinn eða mótar þau gildi sem það lýtur. Hvað þá að stjórnsýslan, embættismannakerfið eða býrókratían valdi því.[29] Þar að auki er spurning hvort réttlætanlegt sé að ræða um ríki og kirkju eins og staðlaðar stærðir eins og virðist vera gengið út frá í greinunum. Ríkið er ekki stök stærð sem er niður njörvuð í ramma laga, heldur mjög svo magnað og marglaga fyrirbrigði. Innan þess er að finna stofnanir og hagsmunasamtök sem takast á. Nægir aðeins að huga að þeirri hagsmunagæslu og átökum sem eiga sér stað á hverju ári í kringum fjárlögin og svipað mætir í tengslum við setningu laga og reglugerða, að ekki sé minnst á þann vanda að tryggja að þeim sé fylgt.
Kirkjan gæti þannig svarað spurningunni Af hverju? og tryggt vægi mannréttinda og lýðræðis út frá guðfræðilegum forsendum með hliðsjón af kenningunni um frelsi kristins manns. Hún er mótandi þáttur í hinu evangelísk–lútherska frelsishugtaki sem byggir á fjórum meginstoðum trúarinnar. Frelsi kristins manns byggir á náð Guðs. Hún er ekki á valdi mannsins, heldur Guðs sem veitir manninum hana skilyrðislaust eða án allrar verkréttlætingar (l. sola gratia). Í annan stað binst frelsið hinni persónubundnu trú mannsins sem einstaklings (l. sola fide). Frelsi mannsins er ekki reist á manninum sjálfum, heldur á hjálpræðisverk Krists sem leysir hann úr ánauð sektar og verkaréttlætingar (l. solus Christus). Og loks er frelsi hins kristna manns óháð stofnanalegu forræði þar sem vægi ritningarinnar sem inniheldur fagnaðarerindið, er sett yfir stofnunina og kennivald embættismanna hennar (l. sola scriptura). Eins og trúin lifir af náð sem er boðuð og ræktuð í kirkjunni en lýtur henni ekki, þannig má færa guðfræðilega rök fyrir því, segir þýski guðfræðingurinn Arnulf von Scheliha að ríkisvaldinu beri að ganga út frá hinu sama varðandi mannréttindi sem gæðum sem maðurinn þegar á, en öðlast ekki hægt og hægt.[30]
Marglaga hugtak
Af lestrum greinanna vakna óneitanlega spurningar um hugtakið þjóðkirkja. Hjalti túlkar hugtakið út frá orðalagi 62. gr. stjórnarskrárinnar og álítur að það sé samnefnari fyrir meirihlutakirkju. Þetta er nokkuð almenn túlkun í íslenskri orðræðu um samband ríkis og kirkju. Hún er aftur á móti frekar þröng og jafnvel villandi. Þegar hugað er að sögu hugtaksins þá kemur í ljós að hjá hinum áhrifamikla þýska guðfræðingi Friedrich Schleiermacher (1768–1834) kemur það fram sem viðbrögð og andmæli við tilraunum Prússakonungs til að múlbinda kirkjuna sem ríkiskirkju við stjórnskipun prússneska ríkisins. Schleiermacher hafnar þeim tilburðum og teflir fram hugmyndinni um kirkjuna sem þjóðkirkju. Áhersla hans er að innan kirkjunnar og safnaða hennar eigi að boða „þjóðinni“ fagnaðarerindið og rækta trúna í söfnuðunum. Hann knýr á um að í þessu starfi eigi kirkjan samleið með lýðræðisöflum í samfélaginu.[31] Þjóðkirkjuhugtakið er hér sett fram til höfuðs ríkiskirkjuhugtakinu. Það kemur því lítt á óvart að nútíma guðfræðingurinn Kristina Fechter dragi fram fimm þætti sem eru mótandi fyrir þjóðkirkjuhugtakið. Fyrir það fyrsta varpar það ljósi á tengsl kirkjunnar við samfélagið sem vissa þjóð. Áherslan hvílir á því að hún nái til þjóðarinnar sem heildar, en að hún móti hana sem slíka er aftur á móti lítt mögulegt í samfélagsgerð nútímans. Í annan stað er að gæta að því, að þjóðkirkjuhugtakið er guðfræðilegt hugtak, en þá ekki í reglugefandi skilningi, heldur í praktískum. Í þriðja lægi er hugtakið nær eingöngu notað innan kirkjudeildar mótmælenda, sem vísar til tiltekins kirkjuskilnings. Í fjórða lægi tekur það jafnan mið af þeim sem það nota eða þeirra safnaða sem skilgreina sig sem slíka kirkju. Í fimmta lagi er hugtakið þjóðkirkja skylt hugtökunum þjóðtrú, alþýðuhreyfing o.s.frv. Samkvæmt þessu getur verið villandi að leggja það að jöfnu við ríkiskirkju eða meirihlutakirkju. Hugtakið er marglaga og þarfnast guðfræðilegrar útleggingar sem varpar á ljósi á lögfræðilega notkun þess, en ekki öfugt.[32]
Að kjósa biskup
Loks ber að minnast á hugmyndirnar um kosningu biskups. Biskupskosningar snúast vissulega ekki um kosningu á þjóðhöfðingja eða helsta embættismanni ríkisins, heldur um val á „forstöðumanni“ eða „tilsjónarmanni“ fyrir ákveðna stofnun. Það fellur vissulega undir starfsvið biskupa, ef svo á við, að taka virkan þátt í því sem fellur undir veraldlega hlið kirkjulegs starfs. Aftur á móti er það fyrst og fremst hlutverk biskups að tryggja boðun fagnaðarerindisins og veitingu sakramenta sbr. 28. gr. Ágsborgarjátningarinnar. Biskupsembættið er fyrst og fremst kirkjulegt embætti sem er líka veraldleg stofnun því er ofur eðlilegt að fulltrúar kirkjunnar m.a. á kirkjuþingi, nýti sér lýðræðislegar reglur sem mótast hafa í samfélaginu við kosningu yfirmanna innan stofnana eins og t.d. rektors HÍ. Hann er kosinn lýðræðislegri kosningu þótt hún sé ekki almenn o.s.frv.
Í lokin
Í krafti afmarkaðs sjónarhorns og þröngrar lögfræðilegrar túlkunar, er í greinarskrifunum Hjalta og Stefáns dregin fram atriði sem vekja krefjandi spurningar er þarfnast nánari skoðunar. Má þar nefna nauðsyn þess að rekja betur þróun biskupsembættisins og þeirrar guðfræði sem hún endurspeglar. Í annan stað er mikil þörf á ítarlegri ritskýringu á 28. gr. Ágsborgarjátningarinnar um biskupsembættið og óneitanlega þarf að tengja þá umfjöllun við þá stöðu sem kirkjan stendur frammi fyrir m.a. þegar hún fjallar um krefjandi málefni samtíðarinnar svo eitthvað sé nefnt.
Tilvísanir
[1] Hreinn Hákonarson, aðfaraorð við greinina, Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig Biskup viljum við?“, Kirkjublaðið 4. september 2023.
[2] Hjalti Hugason, „Hefur aðskilnaður ríkis og kirkju átt sér stað? Hugleiðingar út frá hirðisbréfi biskups“, Kirkjublaðið 12. júlí 2023.
[3] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon „Kirkjupólitískt útspil“, Kirkjublaðið 19. október 2023.
[4] Hjalti Hugason, „Þörf á trúfrelsi?“, Kirkjublaðið 24. júlí 2023.
[5] Hjalti Hugason, „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“, Kirkjublaðið 31. Júlí 2023.
[6] Hjalti Hugason, „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“, Kirkjublaðið 25. ágúst. 2023.
[7] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“, Kirkjublaðið 4. september. 2023.
[8] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig ætti að kjósa biskup?“, Kirkjublaðið 9. september. 2023.
[9] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Tímabundnir biskupar“, Kirkjublaðið 14. september. 2023.
[10] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Kirkjupólitískt útspil““, Kirkjublaðið 19. október. 2023.
[11] Dæmi um slíka nálgun má finna m.a. í Kirche – Themen der Theologie, Band 1, ritstjóri Christian Albrecht, Mohr Siebeck, Tübingen 2011. Uppsláttarritum eins og TRE, RGG o.s.frv. Sem dæmi um slíka nálgun í íslensku samhengi má nefna Sigurjón Árni Eyjólfsson Ríki og kirkja, HÍB Reykjavík 2006, Trú, von og þjóð, HÍB Reykjavík 2014.
[12] Dæmi um slíka nálgun má greina í doktorsritgerð Bjarna Sigurðssonar og áberandi m.a. í skrifum þýskra kirkjuréttarfræðinga sem Bjarni tengdist eins og Martin Heckel, Alex von Campenhausen o.fl. Bjarni Sigurðsson, Geschichte und Gegenwartgestalt des isländischen Kirchenrechts, Peter Lang, Frankfurt am Main 1986.
[13] „Samkvæmt lögum um þjóðkirkjuna ber henni í starfsháttum sínum að hafa í heiðri grundvallarreglu jafnræðis og lýðræðis“. Hjalti Hugason, „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“.
[14] Hjalti Hugason, „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“.
[15] Hjalti Hugason, „Trú– og lífsskoðunarfélög – eftirlit og aðhald“.
[16] Hjalti Hugason, „Ólík andlit þjóðkirkjunnar“
[17] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig biskup viljum við?“
[18] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Hvernig ætti að kjósa biskup?“
[19] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Tímabundnir biskupar“.
[20] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Tímabundnir biskupar“.
[21] Í þýska textanum (BSLK, 61) segir að kirkjan „sé söfnuður allra trúaðra, þar sem fagnaðarerindið er boðað hreint og heilögum sakramentum útdeilt samkvæmt fagnaðarerindinu.“ Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar 2. útgáfa, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1991, 188–189.·
[22] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 183.
[23] Sigurjón Árni Eyjólfsson, Tíminn og trúin, HÍB Reykjavík 2022.
[24] Sigurjón Árni Eyjólfsson, Ríki og kirkja, HÍB Reykjavík 2006.
[25] En vægi játninganna fyrir þjóðkirkjuna er bundið í lög.
[26] Martin Heckel, Martin Luthers Reformation und das Recht, Mohr Siebeck, Tübingen 2016, 336–337.
[27] Jonathan Sumption, Trail of the State – Law and the Decline of Politics, Profile Books, London 2019.
[28] Bend Stegemann, Das Gespenst des Populismus, 3. útgáfa, Theater der Zeit, Berlin 2017. Dirk Jörke og Veith Selk, Theorien des Populismus zur Einführung, Junius, Hamburg 2017. Jan-Werner Müller, Was ist Populismus? 5. útgáfa, Suhrkamp, Berlin 2017.
[29] Arnulf von Scheliha, „Kirche und Stadt“, Handbuch – Praktische Theologie, ritstjórar Wilhelm Gräb og Birgit Weyel, Gütersloher Verlagshaus, Gütersloh 2007, 103–104, [101–112].
[30] Arnulf von Scheliha, „Kirche und Stadt“, 105.
[31] Kurt Nowak, Schleiermacher, Vandenhoeck & Ruprecht, Göttingen 2001, 385–390. Reiner Preul, Kirchentheorie, Walter de Gruyter, Berlín 1997, 192–194.
[32] Kristian Fechter, „Kirche und Gesellschaft“, Handbuch – Praktische Theologie, ritstjórar Wilhelm Gräb og Birgit Weyel, Gütersloher Verlagshaus, Gütersloh 2007, 96–97, [89–100].