
Dr. Hjalti Hugason prófessor emeritus

Stefán Magnússon bóndi í Fagraskógi og kirkjuþingsmaður
Hjalti Hugason og Stefán Magnússon setjast við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og bregðast við greinum þeirra dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, dr. Jóns Ásgeirs Sigurvinssonar og sr. Elínborgar Sturludóttur.
Þetta er þriðja grein þeirra.
Upp á síðkastið hefur verið skipst á skoðunum um lýðræði í þjóðkirkjunni hér í Kirkjublaðinu. Tilefnið er skýrsla sem lögð var fyrir kirkjuþing sl. vetur um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt við kirkjuþingskosningar og kjör til biskups.[1] Þess er að vænta að haldið verði áfram með málið á hausti komanda. Þrír prestar í höfuðborginni riðu á vaðið með þremur greinum um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun.[2] Mæla þau gegn fram komnum hugmyndum um almenna kosningu biskups og kirkjuþingsfulltrúa.[3] Við sem þetta ritum höfum þegar brugðist við ýmsum atriðum í skrifum þeirra án þess þó að víkja að því málefni í sjálfu sér.[4] Munum við bæta úr því hér á eftir út frá andstæðu sjónarhorni, þ.e. að æskilegt sé að rýmka kosningarétt í báðum þessum mikilvægu kosningum í kirkjunni.
Einar kosningareglur eða tvennar?
Allt frá því að þetta mál kom fyrst fram á kirkjuþingi 2023–2024 hefur það sjónarmið verið uppi að hliðstæðar reglur ættu að gilda um kosningar til kirkjuþings og kjör biskups eftir því sem við getur átt. Kemur það fram í niðurstöðum fyrrnefndrar skýrslu þar sem lagt er til að allt þjóðkirkjufólk sem greiðir sóknargjöld hafi kosningarétt í báðum tilvikum.[5]
Því skal ekki neitað að ýmis rök mæla með þessu en þau eru flest formlegs, ef ekki hreinlega fagurfræðilegs eðlis! Það er visst samræmi í að svona sé um hnútana búið og ugglaust myndi framkvæmd kosninga ganga smurðar fyrir sig ef alltaf giltu sömu reglur. Sé aftur á móti leitað efnislegra raka verður afraksturinn rýrari. Hér skal bent á veigamikil rök fyrir því að ekki sé stefnt að þessum einfaldleika. – Það skal strax tekið fram að þau eru alls ekki guðfræðilegs eðlis!
Veigamikil uppistaða í kirkjuskipan okkar er að þar gildir það sem kalla má tvískipta ábyrgðarlínu. Byggist hún á 7. og 10. gr. þjóðkirkjulaganna frá 2021. Í fyrri greininni segir að kirkjuþing hafi æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað, þá marki það stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningunni. Í þeirri síðari er kveðið á um að biskup Íslands fari með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um, gæti einingar kirkjunnar og hafi tilsjón með kristnihaldi, kenningu og þjónustu hennar.[6] Ábyrgðarsvið þingsins annars vegar og biskups hins vegar eru svo útfærð í starfsreglum sem kirkjuþing hefur sett.[7] Þar kemur fram að verkefnin eru mjög ólík. Kirkjuþingi er einkum ætlað að sinna stofnunarlegum málefnum: stefnumörkun, setningu starfsreglna og fjárstjórn. Biskupi ber hins vegar að leiða hina vígðu þjónustu í kirkjunni og hafa tilsjón með henni.
Þetta eru augljóslega mjög ólík verksvið. Verkefni kirkjuþings beinast út á við að stofnunarlegum og næsta veraldlegum málefnum meðan biskupi er ætlað að beina athygli sinni inn á við, að andlegum málum. Þetta virðist eitt og sér vera fullgild ástæða fyrir að spurt sé um efnisleg rök fyrir að sömu kosningareglur skuli gilda á báðum sviðum.
Kirkjuþingskosningar
Nefndin sem tók saman skýrsluna og getið var í upphafi komst að þeirri niðurstöðu að núverandi reglur um kirkjuþingskosningar einkenndust af elítu-lýðræði þar sem þau ein hafi kosningarétt sem gegni vígðri þjónustu í kirkjunni eða sitji í sóknarnefnd. Til að ráða bót á þessu taldi hún að nauðsynlegt væri að breyta starfsreglum um kirkjuþingskosningar þannig að allt þjóðkirkjufólk sem náð hefur 16 ára aldri og greiðir sóknargjald njóti kosningaréttar.[8]
Þegar skýrsluhöfundarnir lögðu síðar fram tillögur um breytingar á kosningareglunum lögðu þau til að ekki skyldi stefna að einum kosningareglum heldur tvennum. Er það vel. Varðandi kosningar til kirkjuþings lögðu þau til að kosningarétt hefði allt fólk sem uppfyllir skilyrði til að taka sæti í sóknarnefnd eða hefði tekið vígslu til djákna eða prests.[9] En í þessu felst raunar að allir greiðendur sóknargjalds sem náð hafa 16 ára aldri fengju kosningarétt.
Tekið skal undir með nefndinni um að nauðsynlegt sé að komast út úr hinu þrönga elítu-lýðræði í átt að beinna lýðræði. Það má vissulega gera í einu stóru skrefi eins og nefndin leggur til eða í áföngum. Eitt skrefið gæti þá verið að veita öllu starfs- og trúnaðarfólki sem kemur beint að safnaðarstarfi kosningarétt. Þar með er átt við meðhjálpara, æskulýðsfulltrúa, organista og annað kirkjutónlistarfólk líkt og skýrsluhöfundar leggja til.[10] Það hefur þó þann ókost í för með sér að misvægi myndast milli „ríkra“ safnaða/sókna með margt launað starfsfólk og „fátækra“ með engan starfsmann (a.m.k. ekki í fullu starfi). Þá má benda á að lagt er til að prestum/djáknum á kirkjuþingi fækki (sjá síðar). Það virðist óheppilegt að veita á sama tíma öðru launuðu starfsfólki sérstakan aðgang að kirkjukosningunum umfram annað þjóðkirkjufólk. Heppilegra virðist að auk aðal- og varamanna í sóknarnefndum yrði tiltekinn fjöldi kjörmanna kosinn á aðalsafnaðarfundi eða safnaðarfundi til að taka þátt í kjörinu. Fjöldi þeirra ætti að endurspegla fjölda sóknarbarna á hverjum stað. Eins mætti hugsa sér að allt þjóðkirkjufólk sem greiðir sóknargjöld og skráir sig á kjörskrá öðlist kosningarétt. Hér skulu ekki taldir upp fleiri útvíkkunarkostir en möguleikarnir eru margir.
Aðeins skal á það bent að breytingin frá núverandi skipan yfir í almennar kirkjuþingskosningar er æði mikil. Þegar slíkt skref hefur verið stigið er heldur engin leið til baka! Við framkvæmd kosninganna gætu ófyrirsjáanlegir hnökrar komið í ljós. Því kann að vera farsælla að taka smærri skref þrátt fyrir að beint lýðræði sé skilgreint sem lokamarkmið. Líka má færa rök fyrir því að þjóðkirkjan sé við núverandi aðstæður ekki tilbúin til að opna kosningarnar. Tæpast er t.d. við því að búast að almenningur geri sér grein fyrir hvert hlutverk kirkjuþings er né hvernig það er skipað. Kemur það m.a. fram í því að oft er kirkjuþingi og prestastefnu ruglað saman. Í fjölmiðlum er ekki heldur nein umræða um kirkjuþing, hvorki í aðdraganda þess né meðan á því stendur. Þetta á jafnvel við um vef þjóðkirkjunnar, kirkjan.is. Bæði þjóðkirkjan og kirkjuþing sjálft hafa því algerlega brugðist í að miðla upplýsingum um stöðu og hlutverk þingsins á vettvangi kirkjunnar. Halda má því fram að kirkjuþing hafi meðvitað verið haft í felum og það jaðarsett í umræðu um kirkjuna og skipulag hennar.
Kjördæmaskipan
Í tillögu flutningsmanna í fyrrgreindu máli eru lagðar til veigamiklar breytingar á kjördeilda- og kjördæmaskipan við kirkjuþingskosningar. Lagt er til að aðskildar kjördeildir óvígðra annars vegar en vígðra hins vegar verði aflagðar. Þess í stað yrði prófastsdæmið sameiginlegt kjördæmi vígðra og óvígðra. Kjördæmin yrðu þar með níu eins og prófastsdæmin eru nú og kemur einn vígður þingfulltrúi úr hverju þeirra. Í tillögunni felst því að vígðum fulltrúum fækkar um þrjá. Jafnframt er lagt til að leikmönnum í þremur stærstu prófastsdæmunum fjölgi um einn úr hverju þeirra. Þingfulltrúarnir yrðu þannig áfram 29. Þetta er veigamikil breyting og nauðsynlegt fyrsta skref í átt til lýðræðis og jöfnunar.
Samkvæmt þessari skipan kysu allir kjósendur í hverju kjör-/prófastdæmi alla þingfulltrúa þess. Þetta er mikilvægur áfangi við að draga úr þeirri tvískiptingu sem nú er til staðar á kirkjuþingi. Jafnframt er þetta skref í þá átt að draga úr stéttar- eða hagsmunabaráttu vígðra fulltrúa á þinginu enda á hún þar ekki heima.
Biskupskjör
Með tilliti til hins sérstæða hlutverks biskups á sviði kirkjulegrar tilsjónar sem beinist einkum að kenningu, boðun, helgihaldi og annarri vígðri þjónustu þjóðkirkjunnar má vel halda því fram að ekki liggi sömu lýðræðisrök til að útvíkka mikið kosningarétt við biskupskjör þótt fyrrgreind skýrsla gefi það vissulega til kynna. Í tillögu sinni að breyttum starfsreglum við biskupskjör tóku skýrsluhöfundar enda tillit til þess sjónarmiðs. Leggja þau til að kosningaréttur í þessu tilviki verði skilgreindur þannig að kosningarétt eigi allir aðal- og varmenn í sóknarnefndum sem og öll er gegna launuðu starfi hjá sóknarnefnd auk presta og djákna í föstu launuðu starfi og lúta tilsjónar biskups. Virðist þetta gott skref í þróun aukins kirkjulegs lýðræðis. Allt eins mætti þó hugsa sér að auk sóknarnefndarfólks og vígðra bættist við ákveðinn fjöldi kjörmanna úr hverju prestakalli/sókn sem kosinn yrði á aðalsafnaðarfundi eða safnaðarfundi (sbr. framar).
Í sambandi við biskupskjör er vissulega að ýmsu fleiru að hyggja. Hér skal þó aðeins vikið að einu atriði. Í skýrslu sinni benti nefndin á að huga þyrfti að því hvort nauðsynlegt sé að endurnýja kjör biskups ætíð á sex ára fresti.[11] Bendir hún á að það gæti leitt til þess við núverandi aðstæður að til biskups- og vígslubiskupskjörs kæmi að meðaltali annað hvert ár með tilheyrandi kostnaði og „hugsanlegum óróa.“[12] Það gefur augaleið að þetta kemur ekki til greina! Nefndin bregst enda við þessu með því að leggja til að fái biskup ekki mótframbjóðanda þegar kjör- eða umboðstímabili lýkur sé starfstími hans/hennar framlengdur án atkvæðagreiðslu.[13] Áhorfsmál er hvort hér sé nægilega fast stigið til jarðar. Ákvæði um tímabundið kjör biskups er einkum til komið til að forðast æviráðningu í embættið. Til þess kunna aðrar leiðir að vera heppilegri en tímabundið kjör, t. a.m. mætti skipa sérstaka nefnd sem til bráðabirgða er hér nefnd úrskurðarnefnd um biskupskjör. Hlutverk hennar væri að kalla eftir rökstuddum tilmælum/tillögum starfandi djákna og presta og hugsanlega fleira forystufólks í þjóðkirkjunni um að efnt verði til biskupskjörs og úrskurða um hvort fullgildar ástæður hafi komið fram í þá veru. Ekki er tímabært að ræða þá hugmynd frekar á þessum vettvangi.
Loks skal á það bent að eftir að starfsreglum um vígslubiskupa var breytt á síðasta kirkjuþingi er ástæðulaust að sömu reglur gildi um kjör vígslubiskupa og biskups Íslands. Um þá fyrrnefndu virðist einfaldari umgjörð vel koma til greina.
Skírnin
Höfundar greinanna þriggja um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun mæla eindregið fyrir því að skírnin verði gerð að skilyrði fyrir kosningarétti við kirkjuþingskosningar og kjör biskups auk skráningar í þjóðkirkjuna. [14]
Erfitt er að færa þungvæg rök gegn slíkri breytingu ef rétt er að henni staðið.[15] Allra síst ef þau rök ættu að geta talist guðfræðileg! Aðeins skal bent á eitt atriði í þessu sambandi sem taka þarf afstöðu til. Oft er bent á að sá munur sé á þjóðkirkjum og játningarkirkjum að þær fyrrnefndu krefjist ekki beinnar eða óbeinnar persónulegrar trúarjátningar af félögum sínum. Í játningarkirkjum er slík játning grundvallarskilyrði fyrir aðild. Víst hefur þjóðkirkja okkar hælt sér af því að hún sé öllum opin. – Eða er ekki svo?
Verði kosningarréttur bundinn við skírn og skráningu kann að verða litið svo á að þjóðkirkjan sé að taka skref í átt að játningarkirkju. Vill fólk taka slíkt skref eða ekki? Ef svarið er neikvætt en eigi að síður ríkur vilji á kirkjuþingi fyrir að taka upp kröfu um skírn í þessu sambandi þarf að koma skýrt fram í greinargerðum og öðrum „lögskýringargögnum“ hvernig breytingin sé hugsuð sem og að í henni felist ekki nýr kirkjuskilningur.
Lokaorð
Hér hefur aðeins verið drepið á nokkur atriði sem ræða þarf í sambandi við aukna lýðræðisvæðingu í kirkjunni. Þau eru auðvitað miklu fleiri. Því er þess óskað að umræða um málið mætti vera sem allra mest og best bæði á kirkjuþingi og utan þess – m.a. hér á síðum Kirkjublaðsins.
Tilvísanir:
[1] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups Sótt 3. september 2025.
[2] Sigurjón Á. Eyjólfsson, Jón Ásg. Sigurvinsson og Elínborg Sturludóttir, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I–III, 13., 14., og 16. ágúst 2025.
[3] Sigurjón Á. Eyjólfsson, Jón Ásg. Sigurvinsson og Elínborg Sturludóttir, Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun – Kirkjublaðið.is I. (niðurlag). Sótt 3. september 2025.
[4] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Misskilningur?“ Sótt 23. ágúst 2025. ,Sömu, „Á að krefjast skírnar?“ Sótt 25. ágúst 2025.
[5] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt […], bls. 7, sótt 3. september 2025.
[6] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 2. Sótt 24. ágúst 2025.
[7] Starfsreglur um kirkjuþing […] 2. gr. Sótt 24. ágúst 2025. Starfsreglur um biskup Íslands, 2.–4. gr. Sótt 23. ágúst 2023.
[8] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt […], bls. 7, 10, sótt 3. september 2025.
[9] Lagt var til að kjörgengi óvígðra lyti sömu reglu auk þess sem krafist skyldi óflekkaðs mannorðs. Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um kjör til kirkjuþinga […] 4. og 6.gr. Sótt 31. ágúst 2025. — Sóknarbörn (einstaklingur sem er skráður í þjóðkirkjuna og á lögheimili í sókn) sem náð hafa 16 ára aldri njóta kosningaréttar og kjörgengis á aðalsafnaðarfundum þar sem kjörið er í sóknarnefdir. Starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir […] 1. og 3. gr. Sótt 31. ágúst 2025.
[10] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt […], bls. 10, sótt 3. september 2025.
[11] Sjá: Starfsreglur um kosningu biskups Íslands […] 2. gr. Sótt 31. ágúst 2025 af
[12] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt […], bls. 7. Sótt 3. september 2025.
[13] Starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa […] 2. l. 2. gr. Sótt 3. september 2025.
[14] Sigurjón Á. Eyjólfsson, Jón Ásg. Sigurvinsson og Elínborg Sturludóttir, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ II, 14. ágúst 2025. Sótt 3. september 2025.
[15] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Á að krefjast skírnar?“ Sótt 3. september 2025.

Dr. Hjalti Hugason prófessor emeritus

Stefán Magnússon bóndi í Fagraskógi og kirkjuþingsmaður
Hjalti Hugason og Stefán Magnússon setjast við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og bregðast við greinum þeirra dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, dr. Jóns Ásgeirs Sigurvinssonar og sr. Elínborgar Sturludóttur.
Þetta er þriðja grein þeirra.
Upp á síðkastið hefur verið skipst á skoðunum um lýðræði í þjóðkirkjunni hér í Kirkjublaðinu. Tilefnið er skýrsla sem lögð var fyrir kirkjuþing sl. vetur um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt við kirkjuþingskosningar og kjör til biskups.[1] Þess er að vænta að haldið verði áfram með málið á hausti komanda. Þrír prestar í höfuðborginni riðu á vaðið með þremur greinum um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun.[2] Mæla þau gegn fram komnum hugmyndum um almenna kosningu biskups og kirkjuþingsfulltrúa.[3] Við sem þetta ritum höfum þegar brugðist við ýmsum atriðum í skrifum þeirra án þess þó að víkja að því málefni í sjálfu sér.[4] Munum við bæta úr því hér á eftir út frá andstæðu sjónarhorni, þ.e. að æskilegt sé að rýmka kosningarétt í báðum þessum mikilvægu kosningum í kirkjunni.
Einar kosningareglur eða tvennar?
Allt frá því að þetta mál kom fyrst fram á kirkjuþingi 2023–2024 hefur það sjónarmið verið uppi að hliðstæðar reglur ættu að gilda um kosningar til kirkjuþings og kjör biskups eftir því sem við getur átt. Kemur það fram í niðurstöðum fyrrnefndrar skýrslu þar sem lagt er til að allt þjóðkirkjufólk sem greiðir sóknargjöld hafi kosningarétt í báðum tilvikum.[5]
Því skal ekki neitað að ýmis rök mæla með þessu en þau eru flest formlegs, ef ekki hreinlega fagurfræðilegs eðlis! Það er visst samræmi í að svona sé um hnútana búið og ugglaust myndi framkvæmd kosninga ganga smurðar fyrir sig ef alltaf giltu sömu reglur. Sé aftur á móti leitað efnislegra raka verður afraksturinn rýrari. Hér skal bent á veigamikil rök fyrir því að ekki sé stefnt að þessum einfaldleika. – Það skal strax tekið fram að þau eru alls ekki guðfræðilegs eðlis!
Veigamikil uppistaða í kirkjuskipan okkar er að þar gildir það sem kalla má tvískipta ábyrgðarlínu. Byggist hún á 7. og 10. gr. þjóðkirkjulaganna frá 2021. Í fyrri greininni segir að kirkjuþing hafi æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað, þá marki það stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningunni. Í þeirri síðari er kveðið á um að biskup Íslands fari með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um, gæti einingar kirkjunnar og hafi tilsjón með kristnihaldi, kenningu og þjónustu hennar.[6] Ábyrgðarsvið þingsins annars vegar og biskups hins vegar eru svo útfærð í starfsreglum sem kirkjuþing hefur sett.[7] Þar kemur fram að verkefnin eru mjög ólík. Kirkjuþingi er einkum ætlað að sinna stofnunarlegum málefnum: stefnumörkun, setningu starfsreglna og fjárstjórn. Biskupi ber hins vegar að leiða hina vígðu þjónustu í kirkjunni og hafa tilsjón með henni.
Þetta eru augljóslega mjög ólík verksvið. Verkefni kirkjuþings beinast út á við að stofnunarlegum og næsta veraldlegum málefnum meðan biskupi er ætlað að beina athygli sinni inn á við, að andlegum málum. Þetta virðist eitt og sér vera fullgild ástæða fyrir að spurt sé um efnisleg rök fyrir að sömu kosningareglur skuli gilda á báðum sviðum.
Kirkjuþingskosningar
Nefndin sem tók saman skýrsluna og getið var í upphafi komst að þeirri niðurstöðu að núverandi reglur um kirkjuþingskosningar einkenndust af elítu-lýðræði þar sem þau ein hafi kosningarétt sem gegni vígðri þjónustu í kirkjunni eða sitji í sóknarnefnd. Til að ráða bót á þessu taldi hún að nauðsynlegt væri að breyta starfsreglum um kirkjuþingskosningar þannig að allt þjóðkirkjufólk sem náð hefur 16 ára aldri og greiðir sóknargjald njóti kosningaréttar.[8]
Þegar skýrsluhöfundarnir lögðu síðar fram tillögur um breytingar á kosningareglunum lögðu þau til að ekki skyldi stefna að einum kosningareglum heldur tvennum. Er það vel. Varðandi kosningar til kirkjuþings lögðu þau til að kosningarétt hefði allt fólk sem uppfyllir skilyrði til að taka sæti í sóknarnefnd eða hefði tekið vígslu til djákna eða prests.[9] En í þessu felst raunar að allir greiðendur sóknargjalds sem náð hafa 16 ára aldri fengju kosningarétt.
Tekið skal undir með nefndinni um að nauðsynlegt sé að komast út úr hinu þrönga elítu-lýðræði í átt að beinna lýðræði. Það má vissulega gera í einu stóru skrefi eins og nefndin leggur til eða í áföngum. Eitt skrefið gæti þá verið að veita öllu starfs- og trúnaðarfólki sem kemur beint að safnaðarstarfi kosningarétt. Þar með er átt við meðhjálpara, æskulýðsfulltrúa, organista og annað kirkjutónlistarfólk líkt og skýrsluhöfundar leggja til.[10] Það hefur þó þann ókost í för með sér að misvægi myndast milli „ríkra“ safnaða/sókna með margt launað starfsfólk og „fátækra“ með engan starfsmann (a.m.k. ekki í fullu starfi). Þá má benda á að lagt er til að prestum/djáknum á kirkjuþingi fækki (sjá síðar). Það virðist óheppilegt að veita á sama tíma öðru launuðu starfsfólki sérstakan aðgang að kirkjukosningunum umfram annað þjóðkirkjufólk. Heppilegra virðist að auk aðal- og varamanna í sóknarnefndum yrði tiltekinn fjöldi kjörmanna kosinn á aðalsafnaðarfundi eða safnaðarfundi til að taka þátt í kjörinu. Fjöldi þeirra ætti að endurspegla fjölda sóknarbarna á hverjum stað. Eins mætti hugsa sér að allt þjóðkirkjufólk sem greiðir sóknargjöld og skráir sig á kjörskrá öðlist kosningarétt. Hér skulu ekki taldir upp fleiri útvíkkunarkostir en möguleikarnir eru margir.
Aðeins skal á það bent að breytingin frá núverandi skipan yfir í almennar kirkjuþingskosningar er æði mikil. Þegar slíkt skref hefur verið stigið er heldur engin leið til baka! Við framkvæmd kosninganna gætu ófyrirsjáanlegir hnökrar komið í ljós. Því kann að vera farsælla að taka smærri skref þrátt fyrir að beint lýðræði sé skilgreint sem lokamarkmið. Líka má færa rök fyrir því að þjóðkirkjan sé við núverandi aðstæður ekki tilbúin til að opna kosningarnar. Tæpast er t.d. við því að búast að almenningur geri sér grein fyrir hvert hlutverk kirkjuþings er né hvernig það er skipað. Kemur það m.a. fram í því að oft er kirkjuþingi og prestastefnu ruglað saman. Í fjölmiðlum er ekki heldur nein umræða um kirkjuþing, hvorki í aðdraganda þess né meðan á því stendur. Þetta á jafnvel við um vef þjóðkirkjunnar, kirkjan.is. Bæði þjóðkirkjan og kirkjuþing sjálft hafa því algerlega brugðist í að miðla upplýsingum um stöðu og hlutverk þingsins á vettvangi kirkjunnar. Halda má því fram að kirkjuþing hafi meðvitað verið haft í felum og það jaðarsett í umræðu um kirkjuna og skipulag hennar.
Kjördæmaskipan
Í tillögu flutningsmanna í fyrrgreindu máli eru lagðar til veigamiklar breytingar á kjördeilda- og kjördæmaskipan við kirkjuþingskosningar. Lagt er til að aðskildar kjördeildir óvígðra annars vegar en vígðra hins vegar verði aflagðar. Þess í stað yrði prófastsdæmið sameiginlegt kjördæmi vígðra og óvígðra. Kjördæmin yrðu þar með níu eins og prófastsdæmin eru nú og kemur einn vígður þingfulltrúi úr hverju þeirra. Í tillögunni felst því að vígðum fulltrúum fækkar um þrjá. Jafnframt er lagt til að leikmönnum í þremur stærstu prófastsdæmunum fjölgi um einn úr hverju þeirra. Þingfulltrúarnir yrðu þannig áfram 29. Þetta er veigamikil breyting og nauðsynlegt fyrsta skref í átt til lýðræðis og jöfnunar.
Samkvæmt þessari skipan kysu allir kjósendur í hverju kjör-/prófastdæmi alla þingfulltrúa þess. Þetta er mikilvægur áfangi við að draga úr þeirri tvískiptingu sem nú er til staðar á kirkjuþingi. Jafnframt er þetta skref í þá átt að draga úr stéttar- eða hagsmunabaráttu vígðra fulltrúa á þinginu enda á hún þar ekki heima.
Biskupskjör
Með tilliti til hins sérstæða hlutverks biskups á sviði kirkjulegrar tilsjónar sem beinist einkum að kenningu, boðun, helgihaldi og annarri vígðri þjónustu þjóðkirkjunnar má vel halda því fram að ekki liggi sömu lýðræðisrök til að útvíkka mikið kosningarétt við biskupskjör þótt fyrrgreind skýrsla gefi það vissulega til kynna. Í tillögu sinni að breyttum starfsreglum við biskupskjör tóku skýrsluhöfundar enda tillit til þess sjónarmiðs. Leggja þau til að kosningaréttur í þessu tilviki verði skilgreindur þannig að kosningarétt eigi allir aðal- og varmenn í sóknarnefndum sem og öll er gegna launuðu starfi hjá sóknarnefnd auk presta og djákna í föstu launuðu starfi og lúta tilsjónar biskups. Virðist þetta gott skref í þróun aukins kirkjulegs lýðræðis. Allt eins mætti þó hugsa sér að auk sóknarnefndarfólks og vígðra bættist við ákveðinn fjöldi kjörmanna úr hverju prestakalli/sókn sem kosinn yrði á aðalsafnaðarfundi eða safnaðarfundi (sbr. framar).
Í sambandi við biskupskjör er vissulega að ýmsu fleiru að hyggja. Hér skal þó aðeins vikið að einu atriði. Í skýrslu sinni benti nefndin á að huga þyrfti að því hvort nauðsynlegt sé að endurnýja kjör biskups ætíð á sex ára fresti.[11] Bendir hún á að það gæti leitt til þess við núverandi aðstæður að til biskups- og vígslubiskupskjörs kæmi að meðaltali annað hvert ár með tilheyrandi kostnaði og „hugsanlegum óróa.“[12] Það gefur augaleið að þetta kemur ekki til greina! Nefndin bregst enda við þessu með því að leggja til að fái biskup ekki mótframbjóðanda þegar kjör- eða umboðstímabili lýkur sé starfstími hans/hennar framlengdur án atkvæðagreiðslu.[13] Áhorfsmál er hvort hér sé nægilega fast stigið til jarðar. Ákvæði um tímabundið kjör biskups er einkum til komið til að forðast æviráðningu í embættið. Til þess kunna aðrar leiðir að vera heppilegri en tímabundið kjör, t. a.m. mætti skipa sérstaka nefnd sem til bráðabirgða er hér nefnd úrskurðarnefnd um biskupskjör. Hlutverk hennar væri að kalla eftir rökstuddum tilmælum/tillögum starfandi djákna og presta og hugsanlega fleira forystufólks í þjóðkirkjunni um að efnt verði til biskupskjörs og úrskurða um hvort fullgildar ástæður hafi komið fram í þá veru. Ekki er tímabært að ræða þá hugmynd frekar á þessum vettvangi.
Loks skal á það bent að eftir að starfsreglum um vígslubiskupa var breytt á síðasta kirkjuþingi er ástæðulaust að sömu reglur gildi um kjör vígslubiskupa og biskups Íslands. Um þá fyrrnefndu virðist einfaldari umgjörð vel koma til greina.
Skírnin
Höfundar greinanna þriggja um kirkjuna sem lýðræðislega stofnun mæla eindregið fyrir því að skírnin verði gerð að skilyrði fyrir kosningarétti við kirkjuþingskosningar og kjör biskups auk skráningar í þjóðkirkjuna. [14]
Erfitt er að færa þungvæg rök gegn slíkri breytingu ef rétt er að henni staðið.[15] Allra síst ef þau rök ættu að geta talist guðfræðileg! Aðeins skal bent á eitt atriði í þessu sambandi sem taka þarf afstöðu til. Oft er bent á að sá munur sé á þjóðkirkjum og játningarkirkjum að þær fyrrnefndu krefjist ekki beinnar eða óbeinnar persónulegrar trúarjátningar af félögum sínum. Í játningarkirkjum er slík játning grundvallarskilyrði fyrir aðild. Víst hefur þjóðkirkja okkar hælt sér af því að hún sé öllum opin. – Eða er ekki svo?
Verði kosningarréttur bundinn við skírn og skráningu kann að verða litið svo á að þjóðkirkjan sé að taka skref í átt að játningarkirkju. Vill fólk taka slíkt skref eða ekki? Ef svarið er neikvætt en eigi að síður ríkur vilji á kirkjuþingi fyrir að taka upp kröfu um skírn í þessu sambandi þarf að koma skýrt fram í greinargerðum og öðrum „lögskýringargögnum“ hvernig breytingin sé hugsuð sem og að í henni felist ekki nýr kirkjuskilningur.
Lokaorð
Hér hefur aðeins verið drepið á nokkur atriði sem ræða þarf í sambandi við aukna lýðræðisvæðingu í kirkjunni. Þau eru auðvitað miklu fleiri. Því er þess óskað að umræða um málið mætti vera sem allra mest og best bæði á kirkjuþingi og utan þess – m.a. hér á síðum Kirkjublaðsins.
Tilvísanir:
[1] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt við kjör til kirkjuþings og kosningu biskups Sótt 3. september 2025.
[2] Sigurjón Á. Eyjólfsson, Jón Ásg. Sigurvinsson og Elínborg Sturludóttir, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ I–III, 13., 14., og 16. ágúst 2025.
[3] Sigurjón Á. Eyjólfsson, Jón Ásg. Sigurvinsson og Elínborg Sturludóttir, Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun – Kirkjublaðið.is I. (niðurlag). Sótt 3. september 2025.
[4] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Misskilningur?“ Sótt 23. ágúst 2025. ,Sömu, „Á að krefjast skírnar?“ Sótt 25. ágúst 2025.
[5] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt […], bls. 7, sótt 3. september 2025.
[6] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 2. Sótt 24. ágúst 2025.
[7] Starfsreglur um kirkjuþing […] 2. gr. Sótt 24. ágúst 2025. Starfsreglur um biskup Íslands, 2.–4. gr. Sótt 23. ágúst 2023.
[8] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt […], bls. 7, 10, sótt 3. september 2025.
[9] Lagt var til að kjörgengi óvígðra lyti sömu reglu auk þess sem krafist skyldi óflekkaðs mannorðs. Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um kjör til kirkjuþinga […] 4. og 6.gr. Sótt 31. ágúst 2025. — Sóknarbörn (einstaklingur sem er skráður í þjóðkirkjuna og á lögheimili í sókn) sem náð hafa 16 ára aldri njóta kosningaréttar og kjörgengis á aðalsafnaðarfundum þar sem kjörið er í sóknarnefdir. Starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir […] 1. og 3. gr. Sótt 31. ágúst 2025.
[10] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt […], bls. 10, sótt 3. september 2025.
[11] Sjá: Starfsreglur um kosningu biskups Íslands […] 2. gr. Sótt 31. ágúst 2025 af
[12] Skýrsla um kosti þess og galla að rýmka ákvæði starfsreglna um kosningarétt […], bls. 7. Sótt 3. september 2025.
[13] Starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa […] 2. l. 2. gr. Sótt 3. september 2025.
[14] Sigurjón Á. Eyjólfsson, Jón Ásg. Sigurvinsson og Elínborg Sturludóttir, „Kirkjan sem lýðræðisleg stofnun“ II, 14. ágúst 2025. Sótt 3. september 2025.
[15] Hjalti Hugason og Stefán Magnússon, „Á að krefjast skírnar?“ Sótt 3. september 2025.