Kirkjuréttur er fyrirbæri sem verið hefur fyrirferðarmikið í sögulegu tilliti þótt gildi hans hafi verið breytilegt eftir kirkjudeildum og tímabilum. Í okkar samhengi, þ.e. í íslensku þjóðkirkjunni, má segja að hann hafi að mestu fjarað út á undangengnum áratugum í takt við aukið sjálfstæði kirkjunnar og vaxandi einangrun hennar í samfélaginu. Löggjöf um kirkjumál er ekki flókin nú til dags og flest sem kirkjuréttur fjallaði um áður fyrr er nú mögulegt að skoða sem hluta af embættisgjörð presta og fást við í tengslum við önnur mál á því sviði.
Atburðir síðustu mánaða hafa aftur á móti leitt til þess að nú er allt í einu komin upp bráðaþörf fyrir lútherskan kirkjurétt í þjóðkirkjunni. Þar sem við erum nú orðin svo aðlöguð litakerfi Almannavarna liggur beinast við að lýsa ástandinu sem appelsínugulu ef ekki rauðu! Hér á ég auðvitað við afleiðingar af gildistöku laga nr. 77/2021 um þjóðkirkjuna en þeim lýkur með bráðabirgðaákvæðinu:
Starfsreglur og samþykktir, sem kirkjuþing hefur sett eða samþykkt í gildistíð laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, halda gildi sínu, eftir því sem við á, þar til kirkjuþing hefur fellt þær niður, breytt þeim eða sett eða samþykkt nýjar, þó eigi síðar en 31. desember 2021.
Þjóðkirkjan stendur því frammi fyrir þeirri einstöku áskorun að geta endurskoðað allt regluverk sitt niður í kjölinn. Hún getur þó líka farið að eins og strúturinn, grafið hausinn í sandinn, og látið hjá líða að breyta neinu Það mun þó reynast henni skammgóður vermir. Vilji hún nýta tækifærið til breytinga þarf hún þó að koma sér upp tækjum og tólum. Það er þar sem kirkjurétturinn kemur til sögunnar.
Hvað er kirkjuréttur?
Auðvitað má skilgreina kirkjurétt með ýmsu móti. Til dæmis má skoða hann sem þá grein lögfræðinnar sem fjallar um kirkjuleg mál: trúfrelsi, kirkjuskipan og öll þau fjölmörgu lagalegu álitamál sem af þeim grundvallar-„prinsípum“ leiða. Svo má líklega einnig segja að kirkjuréttur sé guðfræði sem fjallar um réttarfarsleg mál og þá ekki síst þau sem hér var getið. Ég ætla að gera mér auðvelt fyrir og halda því fram að kirkjuréttur sé punkturinn þar sem lögfræðileg og guðfræðileg umfjöllun um kirkjuna skerast. Kirkjuréttarleg eru þá öll þau málefni sem ekki verða leyst án aðkomu beggja þessara fræðigreina.
Bráðaþörfin sem upp er komin fyrir kirkjurétt í þessari afmörkuðu merkingu felst í að á næstu mánuðum og misserum er mikilvægt að sammælst verði um skilgreiningar á nokkrum lykilhugtökum og stilla upp fáeinum einföldum grundvallarreglum um fyrirbærin sem hugtökin vísa til. Þessar skilgreiningar og reglur ættu svo að þjóna sem forsendur fyrir það endurskoðunarstarf sem bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir.
Hér er ekki verið að kalla eftir umfangsmikilli fræðivinnu heldur aðeins að lýsa eftir örfáum meginreglum sem ganga má út frá.
Hagnýtt dæmi
Á málaskrá kirkjuþings sem saman kemur síðar í þessum mánuði kunna að vera mörg mál sem ekki verða með góðu móti leidd til lykta án kirkjuréttarlegrar undirbúningsvinnu af því tagi sem hér var drepið á. Hér skal aðeins nefnt eitt dæmi til skýringar.
Níunda mál á dagskrá þingsins er tillaga að starfsreglum um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa. Þar er eftirfarandi lagt til um kjörtímabil biskupa:
Kjörtímabil biskups Íslands og vígslubiskupa skal vera fjögur ár í senn.
Nú er aðeins sá í kjöri til embættis biskups Íslands eða vígslubiskups sem fyrir er í embættinu og er hann þá rétt kjörinn til þess án atkvæðagreiðslu, enda fullnægi hann að öðru leyti kjörgengisskilyrðum 1. gr.
Þetta er nýmæli en hingað til hefur ekki verið kveðið á um kjörtímabil biskupa hér á landi. Meðan biskupar voru starfsmenn hins opinbera höfðu þeir vissulega fimm ára skipunartíma eins og aðrir æðstu embættismenn ríkisins. Nú heyra biskupar á hinn bóginn ekki undir lög starfsmenn ríkisins og við því þarf að bregðast með einhverju móti. En er eitthvað við þessa leið að athuga?
Álitamál
Áður en vikið er að spurningunni skal undirstrikað að hér verður þessi tillaga ekki rædd efnislega. Engin afstaða verður því tekin til þess hvort biskupa skuli kjósa til ákveðins tíma eða ekki né heldur hvort þá skuli kjósa til fjögurra ára eins og forseta og alþingismenn eða einhvers annars tíma. Að þessu sögðu hlýtur að mega vekja máls á álitamálum sem upp koma í sambandi við tillöguna án þess að misskilningi valdi.
Án nokkurs vafa höfum við hingað til litið á íslensku kirkjuna sem „epískópal“ kirkju eða „biskupakirkju“. Í því felst að í kirkjunni starfar biskup sem í karfti vígslu sinnar gegnir sérstöku tilsjónarhlutverki en er ekki forseti kirkjufélags eins og víða er raun á. Í flestum kirkjum sem tilheyra „epískópal“ fjölskyldu alheimskristninnar (ef hún er þá til!) er líklega litið svo á að í kjöri og vígslu biskups felist ótímabundin köllun. Fyrr á tíð var hún enda talin ævilöng. Þá dóu biskupar í embætti ef þeir höfðu ekki verið settir af fyrir hryllilega villu í trú eða breytni. Síðar sekúlaríseraðist embættið, biskupar urðu embættismenn og tóku sem slíkir að hlíta tímamörkum af ýmsu tagi t.d. eftirlaunaaldri.
Hvað gerist ef við tökum upp kosningu til ákveðins kjörtímabils? Færist íslenska þjóðkirkjan þá e.t.v. milli fjölskyldna í alheimskristninni án þess að hafa ætlað sér það? Hættir biskup að gegna biskupsembætti í sömu merkingu og nú en verður í staðinn kirkjufélagsforseti? Þetta eru vissulega alvöru spurningar og þeim verður að svara áður en tillagan verður samþykkt. Það verður hins vegar ekki gert án kirkjuréttarlegra viðmiða af því tagi sem lýst var eftir hér framar.
Svo vakna líka fullt af skemmtilegum smáspurningum. Verði nýmælið samþykkt getur alveg farið svo að einhvern tímann verði biskupaskipti segjum eftir eitt kjörtímabil og fráfarandi verði bara á prýðilegum aldri. Hvað gerist með biskupsvígsluna, gildir hún líka til ákveðins tíma? Hvað á að gera við fráfarandi biskup? Borga honum/henni biðlaun eða halda uppi til eftirlaunaaldurs? Hvaða hlutverki á hann/hún að gegna í kirkjunni? Má fyrrum biskup nota titil, skrúða og einkenni biskups, o.s.frv., o. s. frv. — Þarna þyrfti eiginlega líka svolítinn kirkjurétt ef vel á að vera.
Svo árétta ég bara: Ég er hvorki að hártoga tillöguna eða taka afstöðu gegn henni. Hún vekur bara alveg gild og áhugaverð kirkjuréttarleg álitamál.
Hvernig verður kirkjuréttur til?
Lengi varð kirkjuréttur til annað tveggja með embættisvaldi biskups eða páfa. Síðar varð hann til á vegum löggjafans. Nú er ekki lengur grundvöllur fyrir frumkvæði Alþingis í þessu efni sem betur fer! Þess er heldur ekki að vænta að kirkjuréttur verði til í Katrínartúninu. Firmað Þjóðkirkjan-Biskupsstofa býr hvorki yfir faglegu né fjárhagslegu bolmagni til þess.
Hér eins og víða annars staðar verður kirkjurétturinn að mótast í samræðu þeirra sem áhuga hafa á. Þannig öðlast hann auðvitað ekkert formlegt gildi en getur öðlast mikil fagleg áhrif. Með tíð og tíma kann honum svo að skola inn á kirkjuþing með beinum eða óbeinum hætti og móta ákvarðanatöku þar. Þá öðlast hann a.m.k. „praktískt“ gildi. Nú þarf áhugafólk um kirkjurétt að koma sem fyrst saman og hefja samræðuna!
Kirkjuréttur er fyrirbæri sem verið hefur fyrirferðarmikið í sögulegu tilliti þótt gildi hans hafi verið breytilegt eftir kirkjudeildum og tímabilum. Í okkar samhengi, þ.e. í íslensku þjóðkirkjunni, má segja að hann hafi að mestu fjarað út á undangengnum áratugum í takt við aukið sjálfstæði kirkjunnar og vaxandi einangrun hennar í samfélaginu. Löggjöf um kirkjumál er ekki flókin nú til dags og flest sem kirkjuréttur fjallaði um áður fyrr er nú mögulegt að skoða sem hluta af embættisgjörð presta og fást við í tengslum við önnur mál á því sviði.
Atburðir síðustu mánaða hafa aftur á móti leitt til þess að nú er allt í einu komin upp bráðaþörf fyrir lútherskan kirkjurétt í þjóðkirkjunni. Þar sem við erum nú orðin svo aðlöguð litakerfi Almannavarna liggur beinast við að lýsa ástandinu sem appelsínugulu ef ekki rauðu! Hér á ég auðvitað við afleiðingar af gildistöku laga nr. 77/2021 um þjóðkirkjuna en þeim lýkur með bráðabirgðaákvæðinu:
Starfsreglur og samþykktir, sem kirkjuþing hefur sett eða samþykkt í gildistíð laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, halda gildi sínu, eftir því sem við á, þar til kirkjuþing hefur fellt þær niður, breytt þeim eða sett eða samþykkt nýjar, þó eigi síðar en 31. desember 2021.
Þjóðkirkjan stendur því frammi fyrir þeirri einstöku áskorun að geta endurskoðað allt regluverk sitt niður í kjölinn. Hún getur þó líka farið að eins og strúturinn, grafið hausinn í sandinn, og látið hjá líða að breyta neinu Það mun þó reynast henni skammgóður vermir. Vilji hún nýta tækifærið til breytinga þarf hún þó að koma sér upp tækjum og tólum. Það er þar sem kirkjurétturinn kemur til sögunnar.
Hvað er kirkjuréttur?
Auðvitað má skilgreina kirkjurétt með ýmsu móti. Til dæmis má skoða hann sem þá grein lögfræðinnar sem fjallar um kirkjuleg mál: trúfrelsi, kirkjuskipan og öll þau fjölmörgu lagalegu álitamál sem af þeim grundvallar-„prinsípum“ leiða. Svo má líklega einnig segja að kirkjuréttur sé guðfræði sem fjallar um réttarfarsleg mál og þá ekki síst þau sem hér var getið. Ég ætla að gera mér auðvelt fyrir og halda því fram að kirkjuréttur sé punkturinn þar sem lögfræðileg og guðfræðileg umfjöllun um kirkjuna skerast. Kirkjuréttarleg eru þá öll þau málefni sem ekki verða leyst án aðkomu beggja þessara fræðigreina.
Bráðaþörfin sem upp er komin fyrir kirkjurétt í þessari afmörkuðu merkingu felst í að á næstu mánuðum og misserum er mikilvægt að sammælst verði um skilgreiningar á nokkrum lykilhugtökum og stilla upp fáeinum einföldum grundvallarreglum um fyrirbærin sem hugtökin vísa til. Þessar skilgreiningar og reglur ættu svo að þjóna sem forsendur fyrir það endurskoðunarstarf sem bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir.
Hér er ekki verið að kalla eftir umfangsmikilli fræðivinnu heldur aðeins að lýsa eftir örfáum meginreglum sem ganga má út frá.
Hagnýtt dæmi
Á málaskrá kirkjuþings sem saman kemur síðar í þessum mánuði kunna að vera mörg mál sem ekki verða með góðu móti leidd til lykta án kirkjuréttarlegrar undirbúningsvinnu af því tagi sem hér var drepið á. Hér skal aðeins nefnt eitt dæmi til skýringar.
Níunda mál á dagskrá þingsins er tillaga að starfsreglum um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa. Þar er eftirfarandi lagt til um kjörtímabil biskupa:
Kjörtímabil biskups Íslands og vígslubiskupa skal vera fjögur ár í senn.
Nú er aðeins sá í kjöri til embættis biskups Íslands eða vígslubiskups sem fyrir er í embættinu og er hann þá rétt kjörinn til þess án atkvæðagreiðslu, enda fullnægi hann að öðru leyti kjörgengisskilyrðum 1. gr.
Þetta er nýmæli en hingað til hefur ekki verið kveðið á um kjörtímabil biskupa hér á landi. Meðan biskupar voru starfsmenn hins opinbera höfðu þeir vissulega fimm ára skipunartíma eins og aðrir æðstu embættismenn ríkisins. Nú heyra biskupar á hinn bóginn ekki undir lög starfsmenn ríkisins og við því þarf að bregðast með einhverju móti. En er eitthvað við þessa leið að athuga?
Álitamál
Áður en vikið er að spurningunni skal undirstrikað að hér verður þessi tillaga ekki rædd efnislega. Engin afstaða verður því tekin til þess hvort biskupa skuli kjósa til ákveðins tíma eða ekki né heldur hvort þá skuli kjósa til fjögurra ára eins og forseta og alþingismenn eða einhvers annars tíma. Að þessu sögðu hlýtur að mega vekja máls á álitamálum sem upp koma í sambandi við tillöguna án þess að misskilningi valdi.
Án nokkurs vafa höfum við hingað til litið á íslensku kirkjuna sem „epískópal“ kirkju eða „biskupakirkju“. Í því felst að í kirkjunni starfar biskup sem í karfti vígslu sinnar gegnir sérstöku tilsjónarhlutverki en er ekki forseti kirkjufélags eins og víða er raun á. Í flestum kirkjum sem tilheyra „epískópal“ fjölskyldu alheimskristninnar (ef hún er þá til!) er líklega litið svo á að í kjöri og vígslu biskups felist ótímabundin köllun. Fyrr á tíð var hún enda talin ævilöng. Þá dóu biskupar í embætti ef þeir höfðu ekki verið settir af fyrir hryllilega villu í trú eða breytni. Síðar sekúlaríseraðist embættið, biskupar urðu embættismenn og tóku sem slíkir að hlíta tímamörkum af ýmsu tagi t.d. eftirlaunaaldri.
Hvað gerist ef við tökum upp kosningu til ákveðins kjörtímabils? Færist íslenska þjóðkirkjan þá e.t.v. milli fjölskyldna í alheimskristninni án þess að hafa ætlað sér það? Hættir biskup að gegna biskupsembætti í sömu merkingu og nú en verður í staðinn kirkjufélagsforseti? Þetta eru vissulega alvöru spurningar og þeim verður að svara áður en tillagan verður samþykkt. Það verður hins vegar ekki gert án kirkjuréttarlegra viðmiða af því tagi sem lýst var eftir hér framar.
Svo vakna líka fullt af skemmtilegum smáspurningum. Verði nýmælið samþykkt getur alveg farið svo að einhvern tímann verði biskupaskipti segjum eftir eitt kjörtímabil og fráfarandi verði bara á prýðilegum aldri. Hvað gerist með biskupsvígsluna, gildir hún líka til ákveðins tíma? Hvað á að gera við fráfarandi biskup? Borga honum/henni biðlaun eða halda uppi til eftirlaunaaldurs? Hvaða hlutverki á hann/hún að gegna í kirkjunni? Má fyrrum biskup nota titil, skrúða og einkenni biskups, o.s.frv., o. s. frv. — Þarna þyrfti eiginlega líka svolítinn kirkjurétt ef vel á að vera.
Svo árétta ég bara: Ég er hvorki að hártoga tillöguna eða taka afstöðu gegn henni. Hún vekur bara alveg gild og áhugaverð kirkjuréttarleg álitamál.
Hvernig verður kirkjuréttur til?
Lengi varð kirkjuréttur til annað tveggja með embættisvaldi biskups eða páfa. Síðar varð hann til á vegum löggjafans. Nú er ekki lengur grundvöllur fyrir frumkvæði Alþingis í þessu efni sem betur fer! Þess er heldur ekki að vænta að kirkjuréttur verði til í Katrínartúninu. Firmað Þjóðkirkjan-Biskupsstofa býr hvorki yfir faglegu né fjárhagslegu bolmagni til þess.
Hér eins og víða annars staðar verður kirkjurétturinn að mótast í samræðu þeirra sem áhuga hafa á. Þannig öðlast hann auðvitað ekkert formlegt gildi en getur öðlast mikil fagleg áhrif. Með tíð og tíma kann honum svo að skola inn á kirkjuþing með beinum eða óbeinum hætti og móta ákvarðanatöku þar. Þá öðlast hann a.m.k. „praktískt“ gildi. Nú þarf áhugafólk um kirkjurétt að koma sem fyrst saman og hefja samræðuna!