Hrepphólakirkja er í Hrunaprestakalli, Suðurprófastsdæmi.
Í kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 er getið um kirkju í Hólum (Hrepphólum).
Hrepphólakirkja var vígð 9. október 1909. Hún er úr timbri, með áttstrendum turni og spíra hans stendur á breiðum stalli. Hljómop er á turni og liljuútskornar vindskeiðar setja sterkan svip á kirkjuhúsið.
Kirkjan er byggð úr efni þeirrar kirkju er reist var 1903 en fauk í Kirkjuveðrinu svokallaða 1908 í desemberlok en þá kirkju teiknaði Rögnvaldur Ólafsson (1847-1917). Nýja kirkjan frá 1909 er ekki nema að hluta til verk Rögnvalds enda þótt hún teljist með þeim kirkjum er hann teiknaði.
Samúel Jónsson (1864-1937), smiður, var fenginn til að endurbyggja kirkjuna.
Kirkjan er fallega skreytt að innan og ákaflega bjart yfir henni. Athygli vekja súlnahöfuð, korinþísk, og súlnarið á sönglofti.
Kirkjan á einnig marga góða gripi. Altarisstjakar eru til dæmis frá 17. öld og kirkjuklukkurnar með þeim elstu sem til eru á Norðurlöndum.
Altaristafla eftir Ásgrím Jónsson (1876-1958) kom í kirkjuna 1924, Kristur í Emmaus.
Skírnarfontur kirkjunnar er smíðaður af Axel Helgsyni (1909-2001). Sigurður Arnórsson (1927-2010) gerði skálina – stuðlabergið vísar til stuðlabergsins í Hrepphólum.
Guðjón Samúelsson (1887-1950), síðar húsameistari ríkisins, teiknaði og smíðaði nýjan prédikunarstól úr efnivið þess gamla. Hann var um þessar mundir að læra tréútskurð hjá föður sínum og Stefáni Eiríkssyni (1862-1924), útskurðarmeistara. Stefán hafði skorið út í gamla stólinn og bætti Guðjón það sem skemmst hafði af útskurðinum í fokinu. Auk þess hafði Stefán smíðað altarið sem var í gömlu kirkjunni, tvö spjöld á framhlið prédikunarstólsins og öll spjöldin á hurðinni milli forkirkju og kirkjuskips.
Miklar endurbætur voru gerðar á kirkjunni 1992 og þá var meðal annars sett upp skraut á þakbrúnum kirkjunnar en það hafði ekki verið endurgert 1909. Skjöldurinn yfir kirkjudyrum var skorinn út að nýju.
Allar myndir: Kirkjublaðið.is
Heimildir:
Björn G. Björnsson, Fyrsti arkitektinn – Rögnvaldur Ágúst Ólafsson og verk hans. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2016), bls. 27-29.
Björk Ingimarsdóttir, Prestaköll – sóknir og prófastsdæmi á Íslandi, Austfirðinga – og Sunnlendingafjórðungur I. (Reykjavík: Þjóðskjalasafn, 2019), 353.
Kirkjur Íslands 1. (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands o.fl., 2001), 13-56.
Hrepphólakirkja er í Hrunaprestakalli, Suðurprófastsdæmi.
Í kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 er getið um kirkju í Hólum (Hrepphólum).
Hrepphólakirkja var vígð 9. október 1909. Hún er úr timbri, með áttstrendum turni og spíra hans stendur á breiðum stalli. Hljómop er á turni og liljuútskornar vindskeiðar setja sterkan svip á kirkjuhúsið.
Kirkjan er byggð úr efni þeirrar kirkju er reist var 1903 en fauk í Kirkjuveðrinu svokallaða 1908 í desemberlok en þá kirkju teiknaði Rögnvaldur Ólafsson (1847-1917). Nýja kirkjan frá 1909 er ekki nema að hluta til verk Rögnvalds enda þótt hún teljist með þeim kirkjum er hann teiknaði.
Samúel Jónsson (1864-1937), smiður, var fenginn til að endurbyggja kirkjuna.
Kirkjan er fallega skreytt að innan og ákaflega bjart yfir henni. Athygli vekja súlnahöfuð, korinþísk, og súlnarið á sönglofti.
Kirkjan á einnig marga góða gripi. Altarisstjakar eru til dæmis frá 17. öld og kirkjuklukkurnar með þeim elstu sem til eru á Norðurlöndum.
Altaristafla eftir Ásgrím Jónsson (1876-1958) kom í kirkjuna 1924, Kristur í Emmaus.
Skírnarfontur kirkjunnar er smíðaður af Axel Helgsyni (1909-2001). Sigurður Arnórsson (1927-2010) gerði skálina – stuðlabergið vísar til stuðlabergsins í Hrepphólum.
Guðjón Samúelsson (1887-1950), síðar húsameistari ríkisins, teiknaði og smíðaði nýjan prédikunarstól úr efnivið þess gamla. Hann var um þessar mundir að læra tréútskurð hjá föður sínum og Stefáni Eiríkssyni (1862-1924), útskurðarmeistara. Stefán hafði skorið út í gamla stólinn og bætti Guðjón það sem skemmst hafði af útskurðinum í fokinu. Auk þess hafði Stefán smíðað altarið sem var í gömlu kirkjunni, tvö spjöld á framhlið prédikunarstólsins og öll spjöldin á hurðinni milli forkirkju og kirkjuskips.
Miklar endurbætur voru gerðar á kirkjunni 1992 og þá var meðal annars sett upp skraut á þakbrúnum kirkjunnar en það hafði ekki verið endurgert 1909. Skjöldurinn yfir kirkjudyrum var skorinn út að nýju.
Allar myndir: Kirkjublaðið.is
Heimildir:
Björn G. Björnsson, Fyrsti arkitektinn – Rögnvaldur Ágúst Ólafsson og verk hans. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2016), bls. 27-29.
Björk Ingimarsdóttir, Prestaköll – sóknir og prófastsdæmi á Íslandi, Austfirðinga – og Sunnlendingafjórðungur I. (Reykjavík: Þjóðskjalasafn, 2019), 353.
Kirkjur Íslands 1. (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands o.fl., 2001), 13-56.