Það er vandasamt verk að skrifa ævisögu skyldmenna sinna því að erfitt getur verið að gæta hlutleysis. Hrannar Bragi Eyjólfsson, barnabarn séra Braga Friðrikssonar, ræðst í ævisöguskrif og skilar frá sér verki sem er hátt í 700 blaðsíður og leynir í engu aðdáun sinni á afa sínum sem er auðvitað skiljanlegt. Bókin er býsna mikið verk svo ekki sé meira sagt. Spyrja má hvort ekki hefði verið heppilegra að verkið væri styttra því að á köflum er það full ítarlegt fyrir hinn almenna lesanda. Þar á móti má svara að fyrst ráðist var í svo mikið verk þá er best að halda öllu til haga og láta fólki eftir að velja kafla til lestrar með mismikilli áherslu. Lestrarvenjur margra eru svo að þeir lesa sumt vel í miklum doðröntum og renna svo yfir annað en allt er engu að síður á sínum stað ef lestrarþrá vaknar aftur. Nú, svo eru aðrir sem lesa allt með sama áhuganum.

Lesendur þeirra samfélaga sem nutu starfskrafta séra Braga geta verið ánægðir með hversu sagan er vel rakin á þeim tíma sem klerkur staldraði við á hverjum stað, bæði í myndum og orðum. Það er að sönnu einnig fengur fyrir fjölskylduna til lengri tíma litið. Bókin Séra Bragi – Ævisaga er verðugur bautasteinn í ritmáli sem barnabarn hans hefur reist afa sínum og er það vel og fyrir það má svo sannarlega óska honum til hamingju.

Lesandinn kemst að því við lesturinn að drjúgur hluti af verkinu er ekki aðeins saga séra Braga heldur og samfélagsins sem hann þjónaði hverju sinni. Það er auðvitað með ráðum gert til að staðsetja hinn unga og atorkusama prest vegna þess að nærsamfélagið sá að þar var heiðarlegur efnismaður á ferð og kallaði fúslega á hann til ýmissa trúnaðar- og forystustarfa sem voru í sjálfu sér sum hver óskyld prestskyldum hans.

Séra Bragi fæddist á Ísafirði (1927-2009), var utanhjónabandsbarn, átti fimm fósturforeldra og bjó þar af leiðandi á barns- og unglingsárum á nokkrum stöðum. Þegar hann bjó á Siglufirði gerðist hann lögreglumaður enda vörpulegur á velli og sterkur. Hann fór í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi. Bragi eignaðist tvíbura við nám í menntaskólanum og urðu hann og barnsmóðir hans fyrir þeirri djúpu sorg að þeir dóu sem ungbörn. Á menntaskólaárunum veiktist hann af mænuveiki sem kölluð var þar nyrðra Akureyrarveikin og hét því ef hann næði sér af henni þá yrði stefnt á guðfræðinám.

Hann hóf prestskap sinn í Kanada og var þar í þrjú ár og lærði margt. Sá tími mótaði hann og gaf honum ýmsar hugmyndir sem hann hratt svo í framkvæmd í kirkju- og æskulýðsamfélagssögu. Húsakynni þeirra séra Braga og Katrínar Eyjólfsdóttur (1928-2021) eiginkonu hans voru ekki alltaf merkileg – það var til dæmis moldargólf í fyrsta prestsbústaðnum! Hann var sem fyrr öflugur í öllu því er hann tók sér fyrir hendur og gaf ekkert eftir. Borgarstjóri Reykjavíkur, Gunnar Thoroddsen, heimsótti Íslendingaslóðir (bls. 174-176) og hitti séra Braga og hreifst mjög af þessum unga manni og starfsgleði hans. Hann sá í honum forystumann æskulýðsmála í Reykjavík en þá var einmitt í bígerð að efla æskulýðsstarfsemi í borginni. Heim kemur klerkurinn ungi frá Kanada og tekur við framkvæmdastjórastöðu Æskulýðsráðs Reykjavíkur 1957-1964. Þar var séra Bragi sannarlega réttur maður á réttum stað. Á sama tíma er hann líka formaður Æskulýðsnefndar þjóðkirkjunnar (bls. 198) og mótaði það starf hennar með áhrifamiklum hætti.

Höfundur segir séra Braga hafa haft forgöngu um íþrótta- og leikjanámskeið fyrir börn og var það nýlunda á Íslandi (bls. 190) og átti sannarlega eftir að skjóta djúpum rótum um allt land. Ekki verður annað sagt en að með því einu hafi klerkur verið mikill frumkvöðull. Öll starfsemi Æskulýðsráðsins var hin öflugasta og má nefna í því sambandi sjóvinnunámskeið fyrir æskulýðinn og Vélhjólaklúbbinn Eldingu (bls. 197). Útgerð skólaskips var verkefni sem krafðist mikils skipulags og var vel að því augljóslega staðið – flest voru skólaskipin þrjú. Veiðiferðin stóð yfir í eina viku og hópur stráka fékk að vera með í hverjum túr og kynnast sjómennskunni. Þessi merkilega skólaútgerð stóð yfir í þrjú ár og var aflögð því borgaryfirvöld töldu sig ekki hafa efni á henni. Presturinn var ekki ánægður með það því að honum fannst upplagt að ungmennin kynntust af eigin raun undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Þegar listinn er lesinn yfir klúbbastarfsemi æskulýðsráðsins frá formennskuárum sr. Braga fyllist lesandi aðdáun á hugmyndaauðgi þeirra er þar stýrðu málum (bls. 190-191).

Víða í textanum rekst maður á kirkjusögubita eða upplýsingar um siði og venjur sem rekja má til séra Braga. Hann á til dæmis heiðurinn af því að kveikja áhuga landsmanna á jólatónleikum með léttum jólalögum og sálmum en því hafði hann kynnst í Kanada. Æskulýðsráðið hélt sex slíka tónleika í Gamla bíói 1956. Jólatónleikahaldið barst líka út í kirkjurnar þar sem séra Bragi var í forystu fyrir æskulýðsmálum kirkjunnar sem áður sagði. Starfsemi æskulýðsráðsins í formennskutíð séra Braga var ótrúlega gróskumikil og rekur höfundur það nokkuð nákvæmlega og kannski full ástæða til því sumt var einstakt eins og sýningin Með eigin höndum sem var í Listamannaskálanum og snerist um það að innanhússarkitektar höfðu leiðbeint unglingum um skipulag á herbergjum – alls átta að tölu og ýmiss konar, t.d. súðarherbergi og kjallaraherbergi. Þessi sýning vakti mikla athygli og dró að sér tíu þúsund manns (194-195).

Sr. Bragi var ráðinn prestur í Keflavíkurflugvallarprestakalli 1964 en þjónusta þess náði til þjóðkirkjufólks sem bjó innan vallarins og þarna þjónaði hann í tvö ár. Þetta prestakall var ekki langlíft prestakall, það var lagt niður 1968.

Það má eiginlega segja að sr. Bragi hafi verið maður framkvæmda og hann kallaður til verka þar sem þurfti að stýra og hafa yfirsýn yfir viðamiklum verkum. Garðakirkja var nánast að falli komin og höfðu konur forystu um endurreisn hennar. Sr. Bragi sat í sóknarnefnd Garðakirkju og var falin öll verkstjórn endurreisnarinnar (bls. 237) sem fórst honum vel úr hendi. Reynsla hans kom að góðum notum t.d. skipulagði hann sumarbúðir erlendra ungmenna sem hingað komu og unnu við uppbyggingu kirkjunnar (bls. 238-239). Garðakirkja var vígð í mars 1966 að miklu fjölmenni viðstöddu. Prestskosningar voru svo í maímánuði sama ár í Garðaprestakalli og vann séra Bragi þær með hátt í 70% atkvæða (bls. 348).

Það var farin athyglisverð leið í uppbyggingu safnaðarstarfs með því að hefja byggingu á safnaðarheimili áður en hafist var handa við kirkjubyggingu.

Það var snjöll áfangaskipting. Starfsemi safnaðarheimila fól í sér nútímahugsun í kirkjustarfi og skaut stoðum undir fjölbreytilegt safnaðarlíf. Safnaðarheimilið sameinaði sóknarbörnin og slíkt er mikilvægt í nýjum sóknum.

Safnaðarheimilið hýsti ekki aðeins kirkjulega starfsemi heldur fengu ýmsir aðrir þar inni eins og Tónlistarskólinn. Höfundur segir að safnaðarheimilið hafi orðið í einu og öllu eins og séra Bragi hafi séð það fyrir sér: lifandi hús. Það var menningarmiðstöð – kirkja og ýmis félög voru þar undir einu þaki í góðu samlyndi (bls. 444). Það var Bræðrafélag kirkjunnar sem hafði veg og vanda af safnaðarheimilinu en félagið hafði presturinn stofnað með nokkrum góðum körlum 1968 (bls. 446).

Uppbyggingu Vídalínskirkju eru að sjálfsögðu gerð góð skil í bókinni.

Kirkjubygging var sett snemma á dagskrá og 1984 var nefnd skipuð til að undirbúa hana. Kirkjan var byggð við safnaðarheimilið Kirkjuhvol og hlaut nafnið Vídalínskirkja og var vígð 1995 (bls. 446).

Samfélagið í Garðahreppi var heppið að fá jafn öflugan mann og áhugasaman um æskulýðinn og velferðarmál sem séra Bragi var, enda var hann þess albúinn að láta fólk njóta krafta sinn í einu og öllu. Hann kemur að stofnun ýmissa félaga eins og Stjörnunnar, á sæti í bygginganefndum og skólanefndum. Sem formaður skólanefndarinnar tengdist hann stofnun skóla í hreppnum: Garðaskóla, Tónlistarskólans, Hofstaðaskóla og Fjölbrautaskóla Garðabæjar (bls. 313).

Saga Braga er samofin sögu Garðabæjar og helstu menningarstofnunum hans. Hann var sómi síns samfélags og naut þar mikillar virðingar. Sjálfur var hann hógvær maður, röskur til verka, kátur og vinsamlegur við háa sem lága. Honum var sýndur margvíslegur virðingarvottur á langri ævi eins og gengur og átti það allt fyllilega skilið. Þegar formlegri starfsævi lauk hóf prófasturinn fyrrverandi meistaranám í kennimannlegri guðfræði við Háskóla Íslands og lauk því námi 78 ára gamall! Ritgerð hans fjallaði um séra Pál Þorláksson, prest íslensku landnemanna í Vesturheimi.

Umfram allt er hægt að segja að lestri loknum að séra Bragi hafi verið réttur maður á réttum tíma í þeim samfélögum sem hann þjónaði. Áhugi hans var víðfeðmur og ekki síst hvað íþróttir snerti en sjálfur var hann kröftugur íþróttamaður og með fremstu kösturum þjóðarinnar og hugði um stund á að verða íþróttakennari (bls. 102) en líf hans tók aðra stefnu svo sem fram hefur komið.

Á blaðsíðum 610–615 er að finna rækilega tímalínu ævi hans og sýnir hún með ljósum hætti hve víða hann hefur komið við og verið í forystu í samfélagi sínu og kirkju sem prestur og prófastur.

Niðurstaða:
Hrannar Bragi Eyjólfsson hefur tekið þá ákvörðun að gera heildarúttekt á lífi afa síns og er bókin Séra Bragi afrakstur þess. Þetta er mikil bók að vöxtum og farið víða um, söguhetjunni er fylgt eftir og rætt um áhrif hennar á þau samfélög sem nutu starfskrafta hennar um lengri eða skemmri tíma. Sagan er rakin nokkurn veginn í tímaröð og er ótrúlegt að sjá hve víða séra Bragi hefur komið við. Persónuleiki séra Braga hefur verið með þeim hætti að fólk hefur fundið í honum kraftmikið ljúfmenni, heiðarlegan og verkfúsan leiðtoga til að veita forystu í kirkjustarfi og ýmsum framfaramálum samfélagsins eins og í skóla- og íþróttamálum. Þá var séra Bragi ekki síðri samverkamaður í mörgum góðum málum sem hann fór fyrir ásamt öðru fólki í uppvaxandi samfélagi Garðahrepps. Bókin er hvort tveggja athyglisverður skerfur til persónusögu, sögu prestsins í samfélaginu og kirkjusögu. Höfundur hefur farið í mikla sagnfræðilega vinnu við skrif þessarar ævisögu sem tók hann átta ár. Öll framsetning er skýr og skipulögð og bókin hin vandaðasta sem prentgripur.

Hrannar Bragi Eyjólfsson, Séra Bragi – Ævisaga, Sögufélag Garðabæjar gefur út 2025, 652 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það er vandasamt verk að skrifa ævisögu skyldmenna sinna því að erfitt getur verið að gæta hlutleysis. Hrannar Bragi Eyjólfsson, barnabarn séra Braga Friðrikssonar, ræðst í ævisöguskrif og skilar frá sér verki sem er hátt í 700 blaðsíður og leynir í engu aðdáun sinni á afa sínum sem er auðvitað skiljanlegt. Bókin er býsna mikið verk svo ekki sé meira sagt. Spyrja má hvort ekki hefði verið heppilegra að verkið væri styttra því að á köflum er það full ítarlegt fyrir hinn almenna lesanda. Þar á móti má svara að fyrst ráðist var í svo mikið verk þá er best að halda öllu til haga og láta fólki eftir að velja kafla til lestrar með mismikilli áherslu. Lestrarvenjur margra eru svo að þeir lesa sumt vel í miklum doðröntum og renna svo yfir annað en allt er engu að síður á sínum stað ef lestrarþrá vaknar aftur. Nú, svo eru aðrir sem lesa allt með sama áhuganum.

Lesendur þeirra samfélaga sem nutu starfskrafta séra Braga geta verið ánægðir með hversu sagan er vel rakin á þeim tíma sem klerkur staldraði við á hverjum stað, bæði í myndum og orðum. Það er að sönnu einnig fengur fyrir fjölskylduna til lengri tíma litið. Bókin Séra Bragi – Ævisaga er verðugur bautasteinn í ritmáli sem barnabarn hans hefur reist afa sínum og er það vel og fyrir það má svo sannarlega óska honum til hamingju.

Lesandinn kemst að því við lesturinn að drjúgur hluti af verkinu er ekki aðeins saga séra Braga heldur og samfélagsins sem hann þjónaði hverju sinni. Það er auðvitað með ráðum gert til að staðsetja hinn unga og atorkusama prest vegna þess að nærsamfélagið sá að þar var heiðarlegur efnismaður á ferð og kallaði fúslega á hann til ýmissa trúnaðar- og forystustarfa sem voru í sjálfu sér sum hver óskyld prestskyldum hans.

Séra Bragi fæddist á Ísafirði (1927-2009), var utanhjónabandsbarn, átti fimm fósturforeldra og bjó þar af leiðandi á barns- og unglingsárum á nokkrum stöðum. Þegar hann bjó á Siglufirði gerðist hann lögreglumaður enda vörpulegur á velli og sterkur. Hann fór í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi. Bragi eignaðist tvíbura við nám í menntaskólanum og urðu hann og barnsmóðir hans fyrir þeirri djúpu sorg að þeir dóu sem ungbörn. Á menntaskólaárunum veiktist hann af mænuveiki sem kölluð var þar nyrðra Akureyrarveikin og hét því ef hann næði sér af henni þá yrði stefnt á guðfræðinám.

Hann hóf prestskap sinn í Kanada og var þar í þrjú ár og lærði margt. Sá tími mótaði hann og gaf honum ýmsar hugmyndir sem hann hratt svo í framkvæmd í kirkju- og æskulýðsamfélagssögu. Húsakynni þeirra séra Braga og Katrínar Eyjólfsdóttur (1928-2021) eiginkonu hans voru ekki alltaf merkileg – það var til dæmis moldargólf í fyrsta prestsbústaðnum! Hann var sem fyrr öflugur í öllu því er hann tók sér fyrir hendur og gaf ekkert eftir. Borgarstjóri Reykjavíkur, Gunnar Thoroddsen, heimsótti Íslendingaslóðir (bls. 174-176) og hitti séra Braga og hreifst mjög af þessum unga manni og starfsgleði hans. Hann sá í honum forystumann æskulýðsmála í Reykjavík en þá var einmitt í bígerð að efla æskulýðsstarfsemi í borginni. Heim kemur klerkurinn ungi frá Kanada og tekur við framkvæmdastjórastöðu Æskulýðsráðs Reykjavíkur 1957-1964. Þar var séra Bragi sannarlega réttur maður á réttum stað. Á sama tíma er hann líka formaður Æskulýðsnefndar þjóðkirkjunnar (bls. 198) og mótaði það starf hennar með áhrifamiklum hætti.

Höfundur segir séra Braga hafa haft forgöngu um íþrótta- og leikjanámskeið fyrir börn og var það nýlunda á Íslandi (bls. 190) og átti sannarlega eftir að skjóta djúpum rótum um allt land. Ekki verður annað sagt en að með því einu hafi klerkur verið mikill frumkvöðull. Öll starfsemi Æskulýðsráðsins var hin öflugasta og má nefna í því sambandi sjóvinnunámskeið fyrir æskulýðinn og Vélhjólaklúbbinn Eldingu (bls. 197). Útgerð skólaskips var verkefni sem krafðist mikils skipulags og var vel að því augljóslega staðið – flest voru skólaskipin þrjú. Veiðiferðin stóð yfir í eina viku og hópur stráka fékk að vera með í hverjum túr og kynnast sjómennskunni. Þessi merkilega skólaútgerð stóð yfir í þrjú ár og var aflögð því borgaryfirvöld töldu sig ekki hafa efni á henni. Presturinn var ekki ánægður með það því að honum fannst upplagt að ungmennin kynntust af eigin raun undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Þegar listinn er lesinn yfir klúbbastarfsemi æskulýðsráðsins frá formennskuárum sr. Braga fyllist lesandi aðdáun á hugmyndaauðgi þeirra er þar stýrðu málum (bls. 190-191).

Víða í textanum rekst maður á kirkjusögubita eða upplýsingar um siði og venjur sem rekja má til séra Braga. Hann á til dæmis heiðurinn af því að kveikja áhuga landsmanna á jólatónleikum með léttum jólalögum og sálmum en því hafði hann kynnst í Kanada. Æskulýðsráðið hélt sex slíka tónleika í Gamla bíói 1956. Jólatónleikahaldið barst líka út í kirkjurnar þar sem séra Bragi var í forystu fyrir æskulýðsmálum kirkjunnar sem áður sagði. Starfsemi æskulýðsráðsins í formennskutíð séra Braga var ótrúlega gróskumikil og rekur höfundur það nokkuð nákvæmlega og kannski full ástæða til því sumt var einstakt eins og sýningin Með eigin höndum sem var í Listamannaskálanum og snerist um það að innanhússarkitektar höfðu leiðbeint unglingum um skipulag á herbergjum – alls átta að tölu og ýmiss konar, t.d. súðarherbergi og kjallaraherbergi. Þessi sýning vakti mikla athygli og dró að sér tíu þúsund manns (194-195).

Sr. Bragi var ráðinn prestur í Keflavíkurflugvallarprestakalli 1964 en þjónusta þess náði til þjóðkirkjufólks sem bjó innan vallarins og þarna þjónaði hann í tvö ár. Þetta prestakall var ekki langlíft prestakall, það var lagt niður 1968.

Það má eiginlega segja að sr. Bragi hafi verið maður framkvæmda og hann kallaður til verka þar sem þurfti að stýra og hafa yfirsýn yfir viðamiklum verkum. Garðakirkja var nánast að falli komin og höfðu konur forystu um endurreisn hennar. Sr. Bragi sat í sóknarnefnd Garðakirkju og var falin öll verkstjórn endurreisnarinnar (bls. 237) sem fórst honum vel úr hendi. Reynsla hans kom að góðum notum t.d. skipulagði hann sumarbúðir erlendra ungmenna sem hingað komu og unnu við uppbyggingu kirkjunnar (bls. 238-239). Garðakirkja var vígð í mars 1966 að miklu fjölmenni viðstöddu. Prestskosningar voru svo í maímánuði sama ár í Garðaprestakalli og vann séra Bragi þær með hátt í 70% atkvæða (bls. 348).

Það var farin athyglisverð leið í uppbyggingu safnaðarstarfs með því að hefja byggingu á safnaðarheimili áður en hafist var handa við kirkjubyggingu.

Það var snjöll áfangaskipting. Starfsemi safnaðarheimila fól í sér nútímahugsun í kirkjustarfi og skaut stoðum undir fjölbreytilegt safnaðarlíf. Safnaðarheimilið sameinaði sóknarbörnin og slíkt er mikilvægt í nýjum sóknum.

Safnaðarheimilið hýsti ekki aðeins kirkjulega starfsemi heldur fengu ýmsir aðrir þar inni eins og Tónlistarskólinn. Höfundur segir að safnaðarheimilið hafi orðið í einu og öllu eins og séra Bragi hafi séð það fyrir sér: lifandi hús. Það var menningarmiðstöð – kirkja og ýmis félög voru þar undir einu þaki í góðu samlyndi (bls. 444). Það var Bræðrafélag kirkjunnar sem hafði veg og vanda af safnaðarheimilinu en félagið hafði presturinn stofnað með nokkrum góðum körlum 1968 (bls. 446).

Uppbyggingu Vídalínskirkju eru að sjálfsögðu gerð góð skil í bókinni.

Kirkjubygging var sett snemma á dagskrá og 1984 var nefnd skipuð til að undirbúa hana. Kirkjan var byggð við safnaðarheimilið Kirkjuhvol og hlaut nafnið Vídalínskirkja og var vígð 1995 (bls. 446).

Samfélagið í Garðahreppi var heppið að fá jafn öflugan mann og áhugasaman um æskulýðinn og velferðarmál sem séra Bragi var, enda var hann þess albúinn að láta fólk njóta krafta sinn í einu og öllu. Hann kemur að stofnun ýmissa félaga eins og Stjörnunnar, á sæti í bygginganefndum og skólanefndum. Sem formaður skólanefndarinnar tengdist hann stofnun skóla í hreppnum: Garðaskóla, Tónlistarskólans, Hofstaðaskóla og Fjölbrautaskóla Garðabæjar (bls. 313).

Saga Braga er samofin sögu Garðabæjar og helstu menningarstofnunum hans. Hann var sómi síns samfélags og naut þar mikillar virðingar. Sjálfur var hann hógvær maður, röskur til verka, kátur og vinsamlegur við háa sem lága. Honum var sýndur margvíslegur virðingarvottur á langri ævi eins og gengur og átti það allt fyllilega skilið. Þegar formlegri starfsævi lauk hóf prófasturinn fyrrverandi meistaranám í kennimannlegri guðfræði við Háskóla Íslands og lauk því námi 78 ára gamall! Ritgerð hans fjallaði um séra Pál Þorláksson, prest íslensku landnemanna í Vesturheimi.

Umfram allt er hægt að segja að lestri loknum að séra Bragi hafi verið réttur maður á réttum tíma í þeim samfélögum sem hann þjónaði. Áhugi hans var víðfeðmur og ekki síst hvað íþróttir snerti en sjálfur var hann kröftugur íþróttamaður og með fremstu kösturum þjóðarinnar og hugði um stund á að verða íþróttakennari (bls. 102) en líf hans tók aðra stefnu svo sem fram hefur komið.

Á blaðsíðum 610–615 er að finna rækilega tímalínu ævi hans og sýnir hún með ljósum hætti hve víða hann hefur komið við og verið í forystu í samfélagi sínu og kirkju sem prestur og prófastur.

Niðurstaða:
Hrannar Bragi Eyjólfsson hefur tekið þá ákvörðun að gera heildarúttekt á lífi afa síns og er bókin Séra Bragi afrakstur þess. Þetta er mikil bók að vöxtum og farið víða um, söguhetjunni er fylgt eftir og rætt um áhrif hennar á þau samfélög sem nutu starfskrafta hennar um lengri eða skemmri tíma. Sagan er rakin nokkurn veginn í tímaröð og er ótrúlegt að sjá hve víða séra Bragi hefur komið við. Persónuleiki séra Braga hefur verið með þeim hætti að fólk hefur fundið í honum kraftmikið ljúfmenni, heiðarlegan og verkfúsan leiðtoga til að veita forystu í kirkjustarfi og ýmsum framfaramálum samfélagsins eins og í skóla- og íþróttamálum. Þá var séra Bragi ekki síðri samverkamaður í mörgum góðum málum sem hann fór fyrir ásamt öðru fólki í uppvaxandi samfélagi Garðahrepps. Bókin er hvort tveggja athyglisverður skerfur til persónusögu, sögu prestsins í samfélaginu og kirkjusögu. Höfundur hefur farið í mikla sagnfræðilega vinnu við skrif þessarar ævisögu sem tók hann átta ár. Öll framsetning er skýr og skipulögð og bókin hin vandaðasta sem prentgripur.

Hrannar Bragi Eyjólfsson, Séra Bragi – Ævisaga, Sögufélag Garðabæjar gefur út 2025, 652 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir