Kirkjublaðið.is átti leið fyrir nokkru að Mosfellskirkju í Mosfellsdal sem er ekki í frásögur færandi. Norðan megin við kirkjuna er brjóstmynd af merkiskonunni Ólafíu Jóhannsdóttur sem fædd var á Mosfelli 1863 og lést í Ósló 21. júní 1924.

Á þessu ári er með öðrum 100 ára ártíð Ólafíu Jóhannsdóttur. Kirkjublaðið.is vill aðeins minna á það en þessara  tímamóta verður minnst í dag með viðeigandi hætti af Bandalagi kvenna í Reykjavík, Djáknafélagi Íslands, Háskóla Íslands, Mosfellsprestakalli, Kvenréttindafélagi Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Handleiðslufélagi Íslands, Hvítabandinu og Kvenfélagasambandi Íslands. Minningarviðburðurinn hefst að Hallveigarstöðum kl. 11.00. Sjá dagskrána hér neðar.

Þess skal getið að í fyrra var haldin guðsþjónusta í Lágafellskirkju í tilefni þess að 160 voru liðin frá fæðingu Ólafíu á Mosfelli. Blómsveigur var lagður við minnisvarða um hana á Mosfelli að frumkvæði Félagsráðgjafafélags Íslands, Hvítabandsins og Kvenréttindafélags Íslands.

Saga þessarar merku konu má ekki gleymast.

Segja má að ævi og störfum Ólafíu hafi verið gerð býsna góð skil. Fyrst ber að nefna vandaða ævisögu hennar sem dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, skrifaði og kom út árið 2006. Þá er að geta merks formála sem dr. Bjarni Benediktsson (1908-1970), forsætisráðherra skrifaði í tilefni af útgáfu  bókarinnar: Ólafía Jóhannsdóttir, Rit I-II, 1957. Endurminningar hennar komu út 1925 og var hún fyrsta íslenska konan til að senda frá sér slíkt verk.

Íslenski söfnuðurinn í Noregi heldur minningu Ólafíu á lofti með ýmsum hætti. Þá er starfandi kór í Ósló sem dregur heiti sitt af nafni Ólafíu og kallast Laffí.

Hvers vegna er skylt að halda nafni hennar á lofti?

Ólafía var hugsjónakona á sinni tíð og er í mörgu góð fyrirmynd fyrir karla og konur sem berjast fyrir ýmsum mannúðar- og réttlætismálum í samfélaginu. Hún var forystukona í baráttu fyrir réttindum kvenna, barðist ótrauð fyrir stofnun Háskóla Íslands, var bindindisfrömuður og einlæg trúkona. Kunnust er hún þó fyrir líknarstörf sín í Ósló í Noregi en þar vann hún með utangarðsfólki, einkum konum sem beittar höfðu verið margs konar ofbeldi og sumar þeirra leiðst sakir þess út í vændi og margs konar óreglu. Hún vann líka meðal fanga og þeir gerðu henni til heiðurs og þakklætis lítin blómareit í fangelsisgarðinum í Ríkisfangelsinu í Ósló þegar hún lést og í þann reit voru blóm sett í á hverju voru þar til fangelsið var rifið.

„Margar kvennanna sem Ólafía tók að sér máttu þola kynferðislegt ofbeldi. Starf hennar var þvi  að mörgu leyti skylt því starfi sem nú fer fram á vegum Kvennaathvars og Stígamóta en íslenskir  félagsráðgjafar áttu snaran þátt í stofnun og uppbyggingu þeirra samtaka.“ (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Ólafía – Ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur, R. 2006, bls.381-382).

Þegar ævi hennar er skoðuð vekur það furðu hve víða hún hefur komið við og hvað eftir hana liggur. Fjöldi rita koma frá hennar hendi og kunnast þeirra var Aumastar allra en það verk vakti mikla athygli í Noregi á sínum tíma. Þá skrifaði hún endurminningar sínar eins og áður er getið en náði ekki að ljúka henni.

Ólafía var stórvel gefin kona þó hún nyti ekki langrar skólagöngu. Hún var mikill ræðuskörungur og náði að heilla fólk og leiða fjölmarga af braut óreglu og eymdarlífs. Frábærlega ritfær svo eftir var tekið. Þá talaði hún nokkur tungumál reiprennandi.

Íslenskir félagsráðgjafar líta til Ólafíu sem frumkvöðuls á mörgum þeirra sviða sem þeir fást við. Þess vegna hafa þeir sýnt henni margvíslegan sóma til að halda minningu þessarar miklu sómakonu. Sömuleiðis hafa djáknar litið til sögu hennar og séð að hún var á vissan hátt forystukona í þeirri kirkjulegu þjónustu enda þótt hún væri ekki vígð. Þannig hefur verið sótt í frumkvöðulskraft Ólafíu bæði af félagsfræðilegum rótum og trúarlegum.

Norðmenn hafa ætíð sýnt minningu Ólafíu mikla ræktarsemi og það eitt segir að störf hennar hafi skilað árangri á sínum tíma og kannski ekki síst varðað brautina fram á við. Ein gata í Ósló ber til dæmis nafn hennar, Olafiagangen.

En Ólafía fór sínar eigin leiðir í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Það sýndi sjálfstæði hennar í hugsun en líka kannski vissa einsýni.

„Trúarkenning hennar gerði hana e.t.v. þröngsýnni, en trúin sjálf hóf hana í æðra veldi.“ ( Bjarni Benediktsson í formála: Ólafía Jóhannsdóttir, Rit I-II, R. 1957, bls. 55)

„Hún gat ekki meðtekið hið viðtekna …  Hún var uppreisnarseggur og byltingarkona eins og hún hafði sjálf á orði.“ (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Ólafía – Ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur, R. 2006, bls. 467).

Annað – sem er athyglisvert og skemmtilegt:

Sennilega er einsdæmi að brjóstmynd af íslenskri konu sé að finna á þremur stöðum í almannarými. Sú er raunin með Ólafíu Jóhannsdóttur. Brjóstmynd af henni er að finna í Ósló, Háskóla Íslands, og við Mosfellskirkju í Mosfellsdal. Brjóstmyndina, eða myndastyttuna, eins og hún er líka kölluð, gerði Kristinn Pétursson (1896-1981). Þá má geta þessa að lítil brjóstmynd úr gifsi er af henni á skrifstofu Kvenréttindafélags Íslands. Ekki er vitað hver gerði þá mynd en á henni stendur nafnið: Anna.

Styttan af Ólafíu handan Akersárinnar í Ósló

Þessi brjóstmynd af Ólafíu er fyrir utan hátíðarsal Háskóla Íslands

Gifsstytta af Ólafíu í eigu Kvenréttindafélags Íslands

Viðburður í dag – allir eru hvattir til þátttöku

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kirkjublaðið.is átti leið fyrir nokkru að Mosfellskirkju í Mosfellsdal sem er ekki í frásögur færandi. Norðan megin við kirkjuna er brjóstmynd af merkiskonunni Ólafíu Jóhannsdóttur sem fædd var á Mosfelli 1863 og lést í Ósló 21. júní 1924.

Á þessu ári er með öðrum 100 ára ártíð Ólafíu Jóhannsdóttur. Kirkjublaðið.is vill aðeins minna á það en þessara  tímamóta verður minnst í dag með viðeigandi hætti af Bandalagi kvenna í Reykjavík, Djáknafélagi Íslands, Háskóla Íslands, Mosfellsprestakalli, Kvenréttindafélagi Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Handleiðslufélagi Íslands, Hvítabandinu og Kvenfélagasambandi Íslands. Minningarviðburðurinn hefst að Hallveigarstöðum kl. 11.00. Sjá dagskrána hér neðar.

Þess skal getið að í fyrra var haldin guðsþjónusta í Lágafellskirkju í tilefni þess að 160 voru liðin frá fæðingu Ólafíu á Mosfelli. Blómsveigur var lagður við minnisvarða um hana á Mosfelli að frumkvæði Félagsráðgjafafélags Íslands, Hvítabandsins og Kvenréttindafélags Íslands.

Saga þessarar merku konu má ekki gleymast.

Segja má að ævi og störfum Ólafíu hafi verið gerð býsna góð skil. Fyrst ber að nefna vandaða ævisögu hennar sem dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, skrifaði og kom út árið 2006. Þá er að geta merks formála sem dr. Bjarni Benediktsson (1908-1970), forsætisráðherra skrifaði í tilefni af útgáfu  bókarinnar: Ólafía Jóhannsdóttir, Rit I-II, 1957. Endurminningar hennar komu út 1925 og var hún fyrsta íslenska konan til að senda frá sér slíkt verk.

Íslenski söfnuðurinn í Noregi heldur minningu Ólafíu á lofti með ýmsum hætti. Þá er starfandi kór í Ósló sem dregur heiti sitt af nafni Ólafíu og kallast Laffí.

Hvers vegna er skylt að halda nafni hennar á lofti?

Ólafía var hugsjónakona á sinni tíð og er í mörgu góð fyrirmynd fyrir karla og konur sem berjast fyrir ýmsum mannúðar- og réttlætismálum í samfélaginu. Hún var forystukona í baráttu fyrir réttindum kvenna, barðist ótrauð fyrir stofnun Háskóla Íslands, var bindindisfrömuður og einlæg trúkona. Kunnust er hún þó fyrir líknarstörf sín í Ósló í Noregi en þar vann hún með utangarðsfólki, einkum konum sem beittar höfðu verið margs konar ofbeldi og sumar þeirra leiðst sakir þess út í vændi og margs konar óreglu. Hún vann líka meðal fanga og þeir gerðu henni til heiðurs og þakklætis lítin blómareit í fangelsisgarðinum í Ríkisfangelsinu í Ósló þegar hún lést og í þann reit voru blóm sett í á hverju voru þar til fangelsið var rifið.

„Margar kvennanna sem Ólafía tók að sér máttu þola kynferðislegt ofbeldi. Starf hennar var þvi  að mörgu leyti skylt því starfi sem nú fer fram á vegum Kvennaathvars og Stígamóta en íslenskir  félagsráðgjafar áttu snaran þátt í stofnun og uppbyggingu þeirra samtaka.“ (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Ólafía – Ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur, R. 2006, bls.381-382).

Þegar ævi hennar er skoðuð vekur það furðu hve víða hún hefur komið við og hvað eftir hana liggur. Fjöldi rita koma frá hennar hendi og kunnast þeirra var Aumastar allra en það verk vakti mikla athygli í Noregi á sínum tíma. Þá skrifaði hún endurminningar sínar eins og áður er getið en náði ekki að ljúka henni.

Ólafía var stórvel gefin kona þó hún nyti ekki langrar skólagöngu. Hún var mikill ræðuskörungur og náði að heilla fólk og leiða fjölmarga af braut óreglu og eymdarlífs. Frábærlega ritfær svo eftir var tekið. Þá talaði hún nokkur tungumál reiprennandi.

Íslenskir félagsráðgjafar líta til Ólafíu sem frumkvöðuls á mörgum þeirra sviða sem þeir fást við. Þess vegna hafa þeir sýnt henni margvíslegan sóma til að halda minningu þessarar miklu sómakonu. Sömuleiðis hafa djáknar litið til sögu hennar og séð að hún var á vissan hátt forystukona í þeirri kirkjulegu þjónustu enda þótt hún væri ekki vígð. Þannig hefur verið sótt í frumkvöðulskraft Ólafíu bæði af félagsfræðilegum rótum og trúarlegum.

Norðmenn hafa ætíð sýnt minningu Ólafíu mikla ræktarsemi og það eitt segir að störf hennar hafi skilað árangri á sínum tíma og kannski ekki síst varðað brautina fram á við. Ein gata í Ósló ber til dæmis nafn hennar, Olafiagangen.

En Ólafía fór sínar eigin leiðir í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Það sýndi sjálfstæði hennar í hugsun en líka kannski vissa einsýni.

„Trúarkenning hennar gerði hana e.t.v. þröngsýnni, en trúin sjálf hóf hana í æðra veldi.“ ( Bjarni Benediktsson í formála: Ólafía Jóhannsdóttir, Rit I-II, R. 1957, bls. 55)

„Hún gat ekki meðtekið hið viðtekna …  Hún var uppreisnarseggur og byltingarkona eins og hún hafði sjálf á orði.“ (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Ólafía – Ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur, R. 2006, bls. 467).

Annað – sem er athyglisvert og skemmtilegt:

Sennilega er einsdæmi að brjóstmynd af íslenskri konu sé að finna á þremur stöðum í almannarými. Sú er raunin með Ólafíu Jóhannsdóttur. Brjóstmynd af henni er að finna í Ósló, Háskóla Íslands, og við Mosfellskirkju í Mosfellsdal. Brjóstmyndina, eða myndastyttuna, eins og hún er líka kölluð, gerði Kristinn Pétursson (1896-1981). Þá má geta þessa að lítil brjóstmynd úr gifsi er af henni á skrifstofu Kvenréttindafélags Íslands. Ekki er vitað hver gerði þá mynd en á henni stendur nafnið: Anna.

Styttan af Ólafíu handan Akersárinnar í Ósló

Þessi brjóstmynd af Ólafíu er fyrir utan hátíðarsal Háskóla Íslands

Gifsstytta af Ólafíu í eigu Kvenréttindafélags Íslands

Viðburður í dag – allir eru hvattir til þátttöku

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir