Ekki getur Kirkjublaðið.is látið siðbótardaginn hjá líða án þess að minnast á Martein Lúther í örfáum orðum – þó ekki nema væri til að rifja það upp fyrir sjálft sig og aðra. Og til að minna sig á hinn lúthersk-evangelíska grunn.

Það var á þessum degi, 31. október árið 1517, sem Marteinn Lúther steig inn í mannkynssöguna. Fyrir 503 árum – skemmtileg tala.

Fyrsti punktur

Kirkjublaðið.is hefur fallega rós við hliðina á nafni sínu. Það er Lúthersrósin. Hún er táknræn með þessum hætti:

Krossinn minnir á trúna á hinn krossfesta sem frelsar mennina. Hann er svartur því hann segir frá þjáningu og sorg. Rautt hjartað stendur fyrir kærleikann og hvít rós táknar að trúin veiti gleði og frið. Hvítt er litur andans og englanna. Og hvít rósin stendur á bláum himni sem segir okkur að gleði andans og trúarinnar sé upphaf himneskrar sælu sem bíður okkar. Gylltur hringur segir að þessi himnasæla sé eilíf og dýrmætari en allt á jörðu.

Annar punktur

Lúther ræðir um bænina í bréfi til vinar, Péturs hárskera, sem orðið hafði manni að bana:

„Þess vegna er gott ef maður lætur það verða sitt fyrsta verk að biðjast fyrir að morgni eða það síðasta að kvöldi dags.  Gættu þín á þessum óheiðarlegu og svikulu hugsunum sem segja í sífellu: „Bíddu smástund, ég biðst fyrir eftir klukkutíma. Ég verð að ljúka þessu eða hinu verkinu fyrst.“  Svona hugsanir draga mann frá bænalífinu í önnum dagsins, þær bregða fæti fyrir okkur og kæfa svo ekkert verður af iðkun bæna þann daginn.

Reyndar geta ýmis verk bankað upp á sem eru jafn góð og bænaiðkunin eða jafnvel betri og sérstaklega ef um er að ræða neyðartilvik. Þannig hljóðar til dæmis spakmæli ættað frá Híerónýmíusi: „Öll verk trúaðs manns eru bæn.“ Og svo segir máltækið: „Öll störf unnin af trúmennsku jafnast á við tvöfalda bæn.“ Þetta verðum við að segja því að trúuð manneskja óttast Guð og heiðrar í starfi sínu. Hún hugsar um boðorðin tíu og þar með um að gera engum órétt, stela ekki frá neinum eða hafa fé út úr einhverjum eða svíkja. Slíkar hugsanir og trú umbreyta vafalaust enn frekar verkinu í bæn eða lofgjörðarfórn.“

(Marteinn Lúther: Eine einfältige Weise zu beten, für einen guten Freund, ísl. þýð. Hreinn S. Hákonarson)

Þriðji punktur

Marteinn Lúther fæddist þann 10. nóvember 1483 í litlum þýskum bæ, Eisleben í Thüringen og þar lést hann líka að morgni dags, hinn 18. febrúar 1546. Foreldrar hans, þau Hans og Margrét Luder,  ákváðu að hann skyldi ganga menntaveginn. Lúther var bráðvelgefinn nemandi og átján ára gamall var hann kominn í háskólann í Erfurt. Faðir hans vildi láta hann læra lögfræði því að hann taldi það tryggja stöðu sonarins í samfélaginu. En það fór á annan veg. Lúther ýtti laganáminu frá sér og gekk í klaustur. Vera hans í klaustrinu leiddi til þess að hann fékk allt aðra hugmynd um guð kristinna manna en hann hafði alist upp við. Það voru mikil tímamót og ekki aðeins fyrir Lúther sjálfan heldur og alla Evrópu allt til þessa dags.

Lúther ætlaði sér ekki að stofna nýja kirkju. Gagnrýni hans átti að umbreyta rómversk-kaþólsku kirkjunni og hreinsa hana af ýmsum ósiðum og spillingu sem hann taldi hana hafa fest sig í.

Greinarnar 95 sem tengjast 31. október 1517 telja upp sitthvað sem hann hafði að athuga við kirkjuna og vildi hefja umræðu um. Hann vildi siðbæta kirkjuna. Kirkjan var á villigötum að hans mati, valdagráðug, gírug í fé og eignir, stjórnsöm úr hófi fram og á kafi í pólitík.

Lúther hafði skoðanir og lét þær óhræddur í ljós.

Biblíuna skyldi þýða á tungumál hverrar þjóðar, guðsþjónustan færi fram á tungumáli fólksins, dýrlingadýrkun skyldi afnumin, einkamessum skyldi úthýst, sakramentin skyldu ekki vera sjö heldur aðeins skírn og kvöldmáltíð (og skriftir en það sakramenti hefur týnst í lútherskri kirkju), sálumessur skyldu aflagðar enda orðnar að fjárplógsstarfssemi.

Ágsborgarjátningin frá 1530 dregur og helstu þætti fram í áherslum Lúthers.

Framganga Lúthers sýnir mátt einstaklings andspænis kirkjulegu valdi sem og veraldlegu. Hann lét hvorugt kúga sig.

Lúther skrifað nokkra hillumetra, eins og sagt er – eða 121 bindi, samtals 80 þúsund blaðsíður samkvæmt Wikipediu. Hann var djarfmæltur og lét menn hiklaust heyra það. Kraftmikill rithöfundur og lagði enda grunn að þýsku ritmáli. Nokkur rita Lúthers hafa komið út á íslensku, meðal annars ritverk sem kom fyrst út árið 1520, Til hins kristna aðals. Þar segir svo á einum stað:

„Ég ræð því til þess að menn láta dýrlingana sjálfa sjá um það að koma sér í dýrlingatölu. Já, það er Guð almáttugur, sem á að gera þá að dýrlingum. Hver og einn maður á að vera í sinni sókn, þar sem hann finnur meira gott en í öllum pílagrímakirkjum til samans. Þar finna menn skírnina, altarissakramentin, predikunina og náunga sinn; þetta allt er miklu merkilegra en allir dýrlingar á himnum, enda hafa þeir hlutir allir orðið heilagir fyrir orð Guðs og sakramentin. Þar sem við forsmáum svo stórkostlega hluti, þá má það teljast réttlátt dómsorð drottins að leyfa myrkrahöfðingjanum að afvegaleiða okkur út um allar þorpagrundir, koma á fót pílagrímsferðum, stofna kapellur og kirkjur, taka fólk í dýrlingatölu og þess háttar fíflaverk.“

(Til hins kristna aðals, ísl. þýðing: Vilborg Auður Ísleifsdóttir, bls. 139-140, Reykjavík 2012)

Ecclesia semper reformanda est, segjum við upp á latínu, kirkjan þarfnast sístæðrar siðbótar!

Vonandi rísum við undir því.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Ekki getur Kirkjublaðið.is látið siðbótardaginn hjá líða án þess að minnast á Martein Lúther í örfáum orðum – þó ekki nema væri til að rifja það upp fyrir sjálft sig og aðra. Og til að minna sig á hinn lúthersk-evangelíska grunn.

Það var á þessum degi, 31. október árið 1517, sem Marteinn Lúther steig inn í mannkynssöguna. Fyrir 503 árum – skemmtileg tala.

Fyrsti punktur

Kirkjublaðið.is hefur fallega rós við hliðina á nafni sínu. Það er Lúthersrósin. Hún er táknræn með þessum hætti:

Krossinn minnir á trúna á hinn krossfesta sem frelsar mennina. Hann er svartur því hann segir frá þjáningu og sorg. Rautt hjartað stendur fyrir kærleikann og hvít rós táknar að trúin veiti gleði og frið. Hvítt er litur andans og englanna. Og hvít rósin stendur á bláum himni sem segir okkur að gleði andans og trúarinnar sé upphaf himneskrar sælu sem bíður okkar. Gylltur hringur segir að þessi himnasæla sé eilíf og dýrmætari en allt á jörðu.

Annar punktur

Lúther ræðir um bænina í bréfi til vinar, Péturs hárskera, sem orðið hafði manni að bana:

„Þess vegna er gott ef maður lætur það verða sitt fyrsta verk að biðjast fyrir að morgni eða það síðasta að kvöldi dags.  Gættu þín á þessum óheiðarlegu og svikulu hugsunum sem segja í sífellu: „Bíddu smástund, ég biðst fyrir eftir klukkutíma. Ég verð að ljúka þessu eða hinu verkinu fyrst.“  Svona hugsanir draga mann frá bænalífinu í önnum dagsins, þær bregða fæti fyrir okkur og kæfa svo ekkert verður af iðkun bæna þann daginn.

Reyndar geta ýmis verk bankað upp á sem eru jafn góð og bænaiðkunin eða jafnvel betri og sérstaklega ef um er að ræða neyðartilvik. Þannig hljóðar til dæmis spakmæli ættað frá Híerónýmíusi: „Öll verk trúaðs manns eru bæn.“ Og svo segir máltækið: „Öll störf unnin af trúmennsku jafnast á við tvöfalda bæn.“ Þetta verðum við að segja því að trúuð manneskja óttast Guð og heiðrar í starfi sínu. Hún hugsar um boðorðin tíu og þar með um að gera engum órétt, stela ekki frá neinum eða hafa fé út úr einhverjum eða svíkja. Slíkar hugsanir og trú umbreyta vafalaust enn frekar verkinu í bæn eða lofgjörðarfórn.“

(Marteinn Lúther: Eine einfältige Weise zu beten, für einen guten Freund, ísl. þýð. Hreinn S. Hákonarson)

Þriðji punktur

Marteinn Lúther fæddist þann 10. nóvember 1483 í litlum þýskum bæ, Eisleben í Thüringen og þar lést hann líka að morgni dags, hinn 18. febrúar 1546. Foreldrar hans, þau Hans og Margrét Luder,  ákváðu að hann skyldi ganga menntaveginn. Lúther var bráðvelgefinn nemandi og átján ára gamall var hann kominn í háskólann í Erfurt. Faðir hans vildi láta hann læra lögfræði því að hann taldi það tryggja stöðu sonarins í samfélaginu. En það fór á annan veg. Lúther ýtti laganáminu frá sér og gekk í klaustur. Vera hans í klaustrinu leiddi til þess að hann fékk allt aðra hugmynd um guð kristinna manna en hann hafði alist upp við. Það voru mikil tímamót og ekki aðeins fyrir Lúther sjálfan heldur og alla Evrópu allt til þessa dags.

Lúther ætlaði sér ekki að stofna nýja kirkju. Gagnrýni hans átti að umbreyta rómversk-kaþólsku kirkjunni og hreinsa hana af ýmsum ósiðum og spillingu sem hann taldi hana hafa fest sig í.

Greinarnar 95 sem tengjast 31. október 1517 telja upp sitthvað sem hann hafði að athuga við kirkjuna og vildi hefja umræðu um. Hann vildi siðbæta kirkjuna. Kirkjan var á villigötum að hans mati, valdagráðug, gírug í fé og eignir, stjórnsöm úr hófi fram og á kafi í pólitík.

Lúther hafði skoðanir og lét þær óhræddur í ljós.

Biblíuna skyldi þýða á tungumál hverrar þjóðar, guðsþjónustan færi fram á tungumáli fólksins, dýrlingadýrkun skyldi afnumin, einkamessum skyldi úthýst, sakramentin skyldu ekki vera sjö heldur aðeins skírn og kvöldmáltíð (og skriftir en það sakramenti hefur týnst í lútherskri kirkju), sálumessur skyldu aflagðar enda orðnar að fjárplógsstarfssemi.

Ágsborgarjátningin frá 1530 dregur og helstu þætti fram í áherslum Lúthers.

Framganga Lúthers sýnir mátt einstaklings andspænis kirkjulegu valdi sem og veraldlegu. Hann lét hvorugt kúga sig.

Lúther skrifað nokkra hillumetra, eins og sagt er – eða 121 bindi, samtals 80 þúsund blaðsíður samkvæmt Wikipediu. Hann var djarfmæltur og lét menn hiklaust heyra það. Kraftmikill rithöfundur og lagði enda grunn að þýsku ritmáli. Nokkur rita Lúthers hafa komið út á íslensku, meðal annars ritverk sem kom fyrst út árið 1520, Til hins kristna aðals. Þar segir svo á einum stað:

„Ég ræð því til þess að menn láta dýrlingana sjálfa sjá um það að koma sér í dýrlingatölu. Já, það er Guð almáttugur, sem á að gera þá að dýrlingum. Hver og einn maður á að vera í sinni sókn, þar sem hann finnur meira gott en í öllum pílagrímakirkjum til samans. Þar finna menn skírnina, altarissakramentin, predikunina og náunga sinn; þetta allt er miklu merkilegra en allir dýrlingar á himnum, enda hafa þeir hlutir allir orðið heilagir fyrir orð Guðs og sakramentin. Þar sem við forsmáum svo stórkostlega hluti, þá má það teljast réttlátt dómsorð drottins að leyfa myrkrahöfðingjanum að afvegaleiða okkur út um allar þorpagrundir, koma á fót pílagrímsferðum, stofna kapellur og kirkjur, taka fólk í dýrlingatölu og þess háttar fíflaverk.“

(Til hins kristna aðals, ísl. þýðing: Vilborg Auður Ísleifsdóttir, bls. 139-140, Reykjavík 2012)

Ecclesia semper reformanda est, segjum við upp á latínu, kirkjan þarfnast sístæðrar siðbótar!

Vonandi rísum við undir því.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir