Góðir hlutir gerast hægt, er stundum sagt. Árið 1520 mótmælti Marteinn Lúther því harðlega þeim sið að fólk væri látið kyssa fætur páfans.
„Það er ókristilegt, já andkristilegt athæfi að vesæll og syndugur maður láti annan mann kyssa fætur sína, sem er kannski hundrað sinnum betri en hann sjálfur.“[1]
Það liðu 440 ár þar til þessi siður að kyssa á fætur páfa var aflagður – á því herrans ári 1960.
Góðir hlutir gerast svo sannarlega hægt.
Nú eru karlarnir búnir að kjósa nýjan páfa og hamingjuóskir berast til rómversk-kaþólsku kirkjunnar ásamt óskum um velgengni.
Páfinn er venjulegur maður eins og við. En hann er kominn í mikilvægt og áhrifamikið starf á heimsmælikvarða.
Þess vegna var gaman að heyra viðbrögð bræðra hins nýkjörna páfa, Robert Francis Prevost (Leó XIV), þegar þeir fréttu af kjöri hans. Þeir hrópuðu upp yfir sig: „Vá, Robbi bróðir, orðinn páfi.“
Robbi – líka kallaður Bobbý, orðinn páfi.
Manneskja.
Ekki var annað að sjá en að Leó páfi væri hinn viðkunnanlegasti maður þegar hann gekk fram á svalirnar frægu. Ferilskrá hans lítur afar vel út, farsæll kirkjunnar þjónn og málssvari þeirra er minna mega sín. Til að sá efasemdum um hinn nýja páfa voru rifjaðar upp ásakanir tveggja systra um kynferðislegt ofbeldi gegn þeim af hálfu tveggja presta í biskupsdæmi hans í Perú. Skoðunum skaut í tvö horn hvort biskupinn Robert Francis Prevost hefði farið réttilega að í málsumfjöllun sinni á sínum tíma. Þessum málum lauk svo að ákæruvaldið lét þau niður falla.
Vatíkanfræðingar lýsa Leó XIV sem miðjumanni í kirkjulegum málum og þá út frá sjónarhóli rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Sem sé blanda af hæfilega íhaldssömum manni og sæmilega frjálslyndum. Hann sé varfærinn og mildur en jafnframt ákveðinn og harðdrægur þegar því skiptir. Hann hafi sem þjónn kirkjunnar og áhrifamaður hennar í Perú gengið einarðlega fram fyrir skjöldu fátækra og talað máli þeirra sem enga rödd hafa í samfélaginu. Vonast sé til þess að hann haldi því áfram og gangi þar með í fótspor forvera síns, Frans páfa. Rómversk-kaþólska kirkjan rekur gríðarlega öflugt hjálparstarf víðs vegar um heim sem páfinn hverju sinnir ber ábyrgð á.
Leó XIV er andvígur prestsvígslu kvenna og á móti fóstureyðingum, líknardrápi og dauðadómum. Hann telur kynin vera tvö, karl og konu – var andsnúinn því þegar kennsla í kynjafræðum var lögfest í Perú. Líkamlegt kynferðissamband samkynhneigðra er siðferðilega rangt að mati hans – það er enda kenning kirkjunnar – en hann gerir ekki athugasemdir við samkynhneigðar tilfinningar því að þær teljast ekki vera synd að mati rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Þá hefur hann verið gagnrýninn á fjölmiðla sem honum finnst hallir undir stuðning við samkynhneigðan lífsstíl. Leó talar fyrir meiri þátttöku kirkjunnar í baráttu gegn loftslagsbreytingum.
Páfi er óumdeildur áhrifavaldur í samtímanum og ekki bara vörumerki rómversk-kaþólsku kirkjunnar í markaðssamfélagi nútímans heldur og kristninnar allrar. Hann er mikilvægur fyrir hinn kristna heim, hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á því hvað sú kirkjudeild kennir sem hann stendur fyrir. Páfinn er tákn sem hægt er að hafa ýmsar skoðanir á – hann er tákn sem hefur áhrif í heiminum. Þegar páfi talar um mál sem snerta allan heiminn eins og til dæmis frið þá vaknar von í hugum flestra að svo geti orðið.
Vatíkanfræðingar segja að miklar pælingar liggi að baki þegar nýr páfi er valinn og margvísleg sjónarhorn ráði þar ferð. Hópurinn sem páfi er valinn úr er miklum hæfileikum búinn, hefur kosti og galla – og kemur víða að. Áður en gengið er til kjörs eru margir kardinálar búnir að ráðfæra sig við ýmsa áhrifamenn um hvaða páfatýpa sé heppilegust miðað við yfirstandandi tíma. Eða með öðrum orðum: makkið er mikið.
Leó XIV er fyrsti páfinn með tvöfaldan ríkisborgararétt, er Perúmaður og Bandaríkjamaður. Hann er fyrsti páfinn sem fæddur er í Bandaríkjunum, eða í Chicago og sá fyrsti sem fæddur er eftir síðari heimsstyrjöldina.
Auðvitað vonast margir til að margt af því sem rómversk-kaþólska kirkjan stendur föst í eins og í hverju öðru feni og gengur gegn almennum mannréttindum verði aflagt á sama hátt og það að kyssa fætur páfans í eina tíð sem engum dytti nú í hug að gera.
Hér er verið að tala um kynfrelsi fólks, mannréttindi, og rétt fólks til að vera það sjálft, án þess að voldugt kirkjuafl sé að skipta sér af einkalífi þess.
Hlutverk kirkjunnar er að boða fagnaðarerindið, Krist krossfestan og upprisinn.
Tilvísun
[1] Marteinn Lúther, Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýð. Vilborg Auður Ísleifsdóttir (Hið íslenzka bókmennafélag: Reykjavík 2012), bls. 110.
Góðir hlutir gerast hægt, er stundum sagt. Árið 1520 mótmælti Marteinn Lúther því harðlega þeim sið að fólk væri látið kyssa fætur páfans.
„Það er ókristilegt, já andkristilegt athæfi að vesæll og syndugur maður láti annan mann kyssa fætur sína, sem er kannski hundrað sinnum betri en hann sjálfur.“[1]
Það liðu 440 ár þar til þessi siður að kyssa á fætur páfa var aflagður – á því herrans ári 1960.
Góðir hlutir gerast svo sannarlega hægt.
Nú eru karlarnir búnir að kjósa nýjan páfa og hamingjuóskir berast til rómversk-kaþólsku kirkjunnar ásamt óskum um velgengni.
Páfinn er venjulegur maður eins og við. En hann er kominn í mikilvægt og áhrifamikið starf á heimsmælikvarða.
Þess vegna var gaman að heyra viðbrögð bræðra hins nýkjörna páfa, Robert Francis Prevost (Leó XIV), þegar þeir fréttu af kjöri hans. Þeir hrópuðu upp yfir sig: „Vá, Robbi bróðir, orðinn páfi.“
Robbi – líka kallaður Bobbý, orðinn páfi.
Manneskja.
Ekki var annað að sjá en að Leó páfi væri hinn viðkunnanlegasti maður þegar hann gekk fram á svalirnar frægu. Ferilskrá hans lítur afar vel út, farsæll kirkjunnar þjónn og málssvari þeirra er minna mega sín. Til að sá efasemdum um hinn nýja páfa voru rifjaðar upp ásakanir tveggja systra um kynferðislegt ofbeldi gegn þeim af hálfu tveggja presta í biskupsdæmi hans í Perú. Skoðunum skaut í tvö horn hvort biskupinn Robert Francis Prevost hefði farið réttilega að í málsumfjöllun sinni á sínum tíma. Þessum málum lauk svo að ákæruvaldið lét þau niður falla.
Vatíkanfræðingar lýsa Leó XIV sem miðjumanni í kirkjulegum málum og þá út frá sjónarhóli rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Sem sé blanda af hæfilega íhaldssömum manni og sæmilega frjálslyndum. Hann sé varfærinn og mildur en jafnframt ákveðinn og harðdrægur þegar því skiptir. Hann hafi sem þjónn kirkjunnar og áhrifamaður hennar í Perú gengið einarðlega fram fyrir skjöldu fátækra og talað máli þeirra sem enga rödd hafa í samfélaginu. Vonast sé til þess að hann haldi því áfram og gangi þar með í fótspor forvera síns, Frans páfa. Rómversk-kaþólska kirkjan rekur gríðarlega öflugt hjálparstarf víðs vegar um heim sem páfinn hverju sinnir ber ábyrgð á.
Leó XIV er andvígur prestsvígslu kvenna og á móti fóstureyðingum, líknardrápi og dauðadómum. Hann telur kynin vera tvö, karl og konu – var andsnúinn því þegar kennsla í kynjafræðum var lögfest í Perú. Líkamlegt kynferðissamband samkynhneigðra er siðferðilega rangt að mati hans – það er enda kenning kirkjunnar – en hann gerir ekki athugasemdir við samkynhneigðar tilfinningar því að þær teljast ekki vera synd að mati rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Þá hefur hann verið gagnrýninn á fjölmiðla sem honum finnst hallir undir stuðning við samkynhneigðan lífsstíl. Leó talar fyrir meiri þátttöku kirkjunnar í baráttu gegn loftslagsbreytingum.
Páfi er óumdeildur áhrifavaldur í samtímanum og ekki bara vörumerki rómversk-kaþólsku kirkjunnar í markaðssamfélagi nútímans heldur og kristninnar allrar. Hann er mikilvægur fyrir hinn kristna heim, hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á því hvað sú kirkjudeild kennir sem hann stendur fyrir. Páfinn er tákn sem hægt er að hafa ýmsar skoðanir á – hann er tákn sem hefur áhrif í heiminum. Þegar páfi talar um mál sem snerta allan heiminn eins og til dæmis frið þá vaknar von í hugum flestra að svo geti orðið.
Vatíkanfræðingar segja að miklar pælingar liggi að baki þegar nýr páfi er valinn og margvísleg sjónarhorn ráði þar ferð. Hópurinn sem páfi er valinn úr er miklum hæfileikum búinn, hefur kosti og galla – og kemur víða að. Áður en gengið er til kjörs eru margir kardinálar búnir að ráðfæra sig við ýmsa áhrifamenn um hvaða páfatýpa sé heppilegust miðað við yfirstandandi tíma. Eða með öðrum orðum: makkið er mikið.
Leó XIV er fyrsti páfinn með tvöfaldan ríkisborgararétt, er Perúmaður og Bandaríkjamaður. Hann er fyrsti páfinn sem fæddur er í Bandaríkjunum, eða í Chicago og sá fyrsti sem fæddur er eftir síðari heimsstyrjöldina.
Auðvitað vonast margir til að margt af því sem rómversk-kaþólska kirkjan stendur föst í eins og í hverju öðru feni og gengur gegn almennum mannréttindum verði aflagt á sama hátt og það að kyssa fætur páfans í eina tíð sem engum dytti nú í hug að gera.
Hér er verið að tala um kynfrelsi fólks, mannréttindi, og rétt fólks til að vera það sjálft, án þess að voldugt kirkjuafl sé að skipta sér af einkalífi þess.
Hlutverk kirkjunnar er að boða fagnaðarerindið, Krist krossfestan og upprisinn.
Tilvísun
[1] Marteinn Lúther, Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýð. Vilborg Auður Ísleifsdóttir (Hið íslenzka bókmennafélag: Reykjavík 2012), bls. 110.